Fara í efni

6. fundur um heilsueflandi samfélag

18.11.2021 13:00

Stýrihópur um heilsueflandi samfélag í Langanesbyggð

Fundargerð 6. fundar um heilsueflandi sveitarfélag í Langanesbyggð (HSAM-Lnb), haldinn 18. nóvember 2021, í nýjum fundasal sveitafélagsins að Langanesvegi 3. Fundurinn hófst kl. 13:00.
Mættir voru: Sigríður Friðný, Þorsteinn Ægir, Anna Lilja, Sigurbjörn V. og Jónas Egilsson


Dagskrá

1. Aðgangur að Heilsueflandi.is
Stýrihópur um heilsueflandi samfélag í Langanesbyggð er kominn með aðgang að heilsueflandi.is sem er vefsvæði á vegum Embættis landlæknis. Vefsvæðið er verkfæri sem má nýta til að kortleggja grunnlínu og stöðu ýmissa þátta verkefnisins í sveitarfélaginu. Að sama skapi heldur vefsvæðið utan um lýðheilsustefnu og markmiðasetningu verkefnisins hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig.
Allir fulltrúar sammæltust um að nýta vefsvæðið við utanumhald og stefnumótun verkefnisins og að á næstu fundum stýrihópsins yrði tekinn frá tími til að fylla út gátlistana sem finnast þar til að sjá hvar við stöndum. Matsþættir gátlistanna gefa góða sýn á hvar sóknarfæri í starfi stýrihópsins kunni að leynast og því ætti vinnan við þá að koma stefnumótun verkefnisins til góða. Notkun vefsvæðisins felur einnig í sér aukna möguleika á mælingum og mati á verkefninu.
2. Stefnumótun og staða v. fundar Byggðaráðs
Eitt helsta tilefni fundarins var að stilla saman strengi stýrihópsins og marka stefnu til að vinna eftir á nýju ári. Þá sérstaklega til að geta komið fram með samhljóma stefnu um næstu skref gagnvart Byggðaráði og minna á verkefnið við gerð fjárhagsáætlunar sveitafélagsins fyrir árið 2022.
Tillaga kom fram um að helstu verkefni stýrihópsins næstu mánuði yrði eftirfarandi:
- Mótun og vinna við gerð lýðheilsustefnu fyrir sveitafélagið og verkefnið Heilsueflandi samfélag í Langanesbyggð.
- Útfylling gátlista og mat á grunnlínu í gegnum heildueflandi.is
- Markmiðasetning sem snýr að einstaka þáttum tengdum gátlistum með það að leiðarljósi að hækka grunnlínu í hverjum flokki fyrir sig.
- Vinna að því að bæta samskipti og samtal við fyrirtæki og stofnanir í sveitafélaginu í þeim tilgangi að styðja við heilsueflandi þætti í starfi þeirra.
- Tala fyrir og tryggja verkefninu fjármagn til vaxtar og framdráttar á næsta ári og vinna að því að það verði nýtt á uppbyggilegan og hvetjandi hátt í samræmi við markmið verkefnisins.
Stýrihópurinn hvetur byggðaráð og sveitarstjórn að halda áfram uppbyggingu innviða í sveitarfélaginu er snúa að lýðheilsu og hreyfingu fyrir alla aldurshópa. Dæmi um slíka uppbyggingu eru göngustígar, leiksvæði/leiktæki, frisbígolfvellir, samstarf um uppbyggingu á íþróttasvæði á Þórshöfn og fleira.

3. Önnur mál

Fleira var ekki rætt og fundi slitið 13:50

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?