Fara í efni

Sagan

Landnám á Langanesströnd

Frá landnámi á Langanesströnd segir í 75. kafla Landnámu (Sturlubók). Fyrst segir frá landnámi Gunnólfs Kroppu, syni Þóris Haukanefs, sem var hersir í Noregi, þ.e.a.s. smákonungur. Í Landnámu segir að hann hafi numið Gunnólfsvík og Gunnólfsfell og Langanes allt fyrir utan Helkunduheiði og hafi búið í Fagravík. Samkvæmt þessu hefur hann líklega sett niður bú sitt í Eiðisvík, sem áður hét Fagranesvík og er nefnd Fagravík í Landnámu. Landnám hans hefur náð yfir mest allt Langanes, en landnámsmaðurinn Ketill Þistill, sem nam Þistilfjörð, nam hluta Langanessins. Ekki er alveg ljóst hvar skildi með landnámum þeirra, en margt bendir til að hin fornu hreppa- og fjórðungamörk byggi á hinum fornu skilum landnáma þessara manna, en eins og síðar greinir voru þau mörk færð til á 19. öld og hluti Skeggjastaðahrepps færður undir annað sveitarfélag. Gunnólfur Kroppa var fæddur um 870. Hann eignaðist einn son, Skúla „herkja“ Gunnólfsson.

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar segir svo frá, að Gunnólfur Kroppa hafi mælt svo fyrir að hann skyldi heygður niður við sjó þar sem hann gæti séð sjóinn og heyrt bárunið. Skipum sem þar kæmu að landi myndi ekki hlekkjast á. Þegar landnámsmaðurinn var andaður var brugðið út af þessum fyrirmælum og hann heygður uppi á brekku í vík sinni þar sem sást vel til hafs. Brá þá svo við að skip sem komu að landi löskuðust eða fórust. Fór þá ýmsa að gruna að orð gamla mannsins myndu hrína á. Var Gunnólfur loks grafinn upp og heygður á ný á lendingarbakkanum frammi við sjó. Eftir það farnaðist bátum þar ætíð vel og má enn sjá haug Gunnólfs Kroppu á ströndinni við ysta haf.

Landnáma segir næst frá því að landnámsmaðurinn Finni hafi numið Finnafjörð og Miðfjörð. Í sumum útgáfum landnámu er Miðfjörður nefndur „Viðfjörður“. Finni var fæddur um 860. Hann eignaðist a.m.k. einn afkomanda, Þórarin Finnason. Sá eignaðist son, Glíru-Halla. Báðir synir Glíru-Halla, Brandur og Bergur Hallasynir, féllu í bardaga í Böðvarsdal, að því er segir í Landnámu, líklega um 990.

Loks segir Landnáma að Hróðgeir hinn hvíti Hrappsson hafi numið Sandvík fyrir norðan Digranes allt til Miðfjarðar og hafi búið á Skeggjastöðum. Sandvík heitir nú Bakkafjörður, en Sandvíkurheiði milli Bakkafjarðar og Vopnafjarðar ber enn hið forna nafn staðarins. Hróðgeir fæddist um 850 og kom frá Noregi með bróður sínum, Alreki Hrappssyni, föður Ljótólfs goða Alrekssonar, en um hann fjallar Svarfdæla saga að stórum hluta. Hróðgeir hvíti eignaðist dóttur, Ingibjörgu Hróðgeirsdóttur, sem fæddist um 885. Maður hennar var Þorsteinn hvíti Ölvisson landnámsmaður, er bjó að Hofi í Vopnafirði. Frá þeim eru Hofsverjar komnir. Saga Þorsteins er sögð í Þorsteins sögu hvíta, fremur stuttu handriti sem er hluti Íslendingasagnanna. Þorsteinn og Ingibjörg Hróðgeirsdóttir eignuðust fimm börn.

Þjóðsögur herma síðan, að Viðvík hafi numið maður, sem Auðunn hét. Við hann eru kenndir Auðunarstaðir, afbýli frá Viðvík.

Söguöld og síðmiðaldir til 1800

Stórhöfðingjar á söguöld sem höfðu búsetu á svæðinu sem Langanesströnd tilheyrir eru fáir. Þorsteins saga hvíta geymir sögur af svæðinu, sem og Vopnfirðingasaga. Þorsteinn var hinn mesti höfðingi, goðorðsmaður og sem fyrr segir tengdasonur Hróðgeirs hvíta. Svæðið á Langanesströnd var annars á mörkum áhrifasvæða tveggja stórvelda eða héraðsríkja, Sturlunga og Svínfellinga, og var stjórnað langt frá höfuðbólum þeirra sem fóru með stjórnina. Svæðið var einnig á ystu mörkum beggja biskupsdæmanna í landinu. Í upphafi þeirra átaka sem urðu á Sturlungaöld (13. öld) voru Langnesingar á áhrifasvæði Svínfellinga. Höfuðból þeirra var að Svínafelli í Öræfum. Handan Hafralónsár í Þistilfirði var hins vegar ríki Sturlunga, sem náði um Norðurland og vestur í Skagafjörð að ríki Ásbirninga. Smám saman tókst Sturlungum á Norðurlandi eystra, Sighvati Sturlusyni á Grund í Eyjafirði og sonum hans að færa veldi sitt í austurátt og um 1230 innlimuðu þeir Langanes í Sturlungaveldið. Á þessu svæði skipti um fleira, eins og síðar greinir, því Hólabiskup og Skálholtsbiskup tókust á um það hvort svæðið ætti að tileyra þeim. Gekk svæðið milli biskupa í nokkur skipti. Langanesströnd hefur því jafnan verið á ystu mörkum þess áhrifasvæðis sem það hefur tilheyrt, útvörðurinn í norðri í átökum um völd og áhrif.

Eftir Örlygsstaðabardaga 1238 lagði Kolbeinn ungi undir sig ríki Sturlunga á Norðurlandi, þ.m.t. Langanes. Það breyttist hins vegar eftir stórorrustuna Hauganesbardaga, er Þórður kakali eignaðist ríki um allt Norðurland og endurreisti veldi Sturlunga. Eftir Þverárbardaga (Þverárfund) árið 1255 gekk svæðið undir Þorvarð Þórarinsson sem bjó á Hofi í Vopnafirði. Það ríki gaf Þorvarður Hákoni gamla Noregskonungi 1264, en þjóðveldisöld á Íslandi lauk á sama tíma. Við tóku erlend yfirráð. Frá þessum tíma þjóðveldisaldar fer hins vegar engum sögum af íbúum eða búskaparháttum á svæðinu. Í kirknatali Páls Jónssonar biskups frá því um 1200 er Skeggjastaðakirkju þó getið og var þá vitaskuld siður kaþólskur í landinu. Þá liggur fyrir að nokkurra jarða er getið í rekaskrá Skálholtsstóls frá 1270, s.s. Bakka, Skeggjastaða og Þorvaldsstaða.

Árið 1367 var ritaður máldagi fyrir Skeggjastaðakirkju. Má af honum ráða að Skeggjastaðir hafi verið bændakirkja og kirkjan því í bændaeign, eins og algengt var. Jafnframt er þar lýst mörkum sóknarinnar. Eins og áður segir er líklegast að mörk landnáms Gunnólfs Kroppu og Ketils Þistils hafi miðað við hin fornu hreppa- og fjórðungsmörk, sem og sýslumörk. Í máldaga Skeggjastaðakirkju frá 1367 segir að sóknarmörkin liggi að Biskupssteini í Skoruvík á Langanesi. Var samkvæmt því skipt um mitt Langanes í línu sem endaði í Skoruvík og lágu þar hreppamörk, sýslumörk og sóknarmörk. Öll suðurströnd Langaness tilheyrði því Skeggjastaðasókn og hreppnum til forna. Árið 1105 var landinu skipt í tvö biskupsdæmi, Skálholt og Hóla. Skiptingin var gerð um mitt Langanes eftir áðurnefndum mörkum. Er því ekki að undra að svæðið hafi verið nefnt Langanesströnd.

Árið 1496 kemur til skjalanna forrík kona, Kristín Jörundardóttir. Hún mun hafa verið systir Björns nokkurs Jörundarsonar, sem sagður er hafa átt jörðina að 7/8 hlutum og búið þar. Því er ekki ósennilegt að hann hafi verið prestur í Skeggjastaðakirkju, þótt ekki sé hægt að slá því föstu. Að 1/8 hluta var jörðin sennilegast eign kirkjunnar sjáfrar. Kristín erfði hlut bróður síns í jörðinni eftir lát hans. Af einhverjum ástæðum sem ekki eru kunnar gaf Kristín Jóni nokkrum djákna Jónssyni jörðina. Jón fór illa með staðinn og á örfáum árum höfðu allar eignir kirkjunnar og jarðarinnar eyðst. Auk þess hafði ekki verið gjaldað til kirkjunnar því sem jörðinni bar að greiða, en hverjum bónda bar að lúka eyri til prestakallsins. Var jörðin komin í mikla skuld við kirkjuna.

Jón djákni er sagður hafa handsalað Hólabiskupnum Gottskálki Nikulássyni "hinum grimma" Skeggjastöðum upp í skuldina. Hólakirkja átti hins vegar ekki með réttu tilkall til staðarins eða þá skuld sem verið var að greiða með jörðinni. Jón djákni gekk síðar á fund Stefáns Jónssonar Skálholtsbiskups og ráðstafaði Skeggjastöðum til Skálholts upp í skuldina og var þá lagður dómur á málið. Hinn 28. júní 1504 var útnefndur dómur til að skoða afl tilkalls og ákæru Stefáns biskups til Skeggjastaða á Ströndum. Fyrst kom fyrir dómsmenn vitnisburður tveggja presta um að þeir hafi verið viðstaddir fund Jóns djákna Jónssonar príorsbróður og Stefáns biskups. Þar tilkynnti Jón biskupi að hann hafði heitið og lofað guði að Skeggjastaðir skyldu vera ævinlegt beneficium og undirgefið Skálholtskirkju og heilögum Þorláki nú og að aldaöðli en hann mætti sitja staðinn og þjóna kirkjunni til dauðadags. Þetta var samþykkt af Stefáni biskupi. Næst kom fyrir dómsmenn vitnisburður skjallegra dándimanna um að Runólfur Jónsson hafi gefið Stefáni biskupi Skeggjastaði til ævinlegrar eignar og frjáls forræðis með samþykki konu sinnar Kristínar Jörundsdóttur sem hafði erft jörðina eftir skilgetinn bróður sinn. Að lokum var lagður fyrir dóminn vitnisburður skilvísra dándimanna um að Skeggjastaðir væru í eyði og að þar væri enginn ábúnaður á. Að þessu yfirveguðu voru Skeggjastaðir dæmdir í vernd og forsjá Stefáns biskups í Skálholti.

Eftir þetta voru Skeggjastaðir að 7/8 hlutum í eigu Skálholtskirkju og 1/8 hluta í eigu Skeggjastaðakirkju. Tókst Stefáni biskup þannig að afstýra því að Skeggjastaðir lentu undir Hólum, gegn vilja Gottskálks grimma, en hann mun hafa verið mjög harðdrægur eins og viðurnefni hans gefur til kynna og sennilega ekki líkað málalyktir þessar.

Þrátt fyrir þetta benda heimildir til þess að hluti íbúa í Skeggjastaðahreppi hafi fljótlega eftir þetta, er komið var fram á 16. öld, farið að sækja kirkju og kennimannlega þjónustu til Sauðanesskirkju, nánar tiltekið þeir sex bæir sem voru á suður- og austurhluta Langaness, þ.e.a.s. Fagranes, Eiði, Hrolllaugsstaðir, Kumblavík, Skálar og Skoruvík. Þetta var í andstöðu við vilja Skeggjastaðapresta, enda m.a. tekjumissir fyrir kirkjuna. Málið var tekið upp af prófastinum í Norður-Múlasýslu í umboði biskups. Árið 1587 er prófastur staddur í Vopnafirði og dæmir þar "sérhvern bónda af öllum bæjum milli Stapár og Skoruvíkurbjargs skyldugan til að gjalda eyristoll, en fjórðungstoll hvern vervistarmann í sama takmarki er ei færi heim að kveldi, presti á Skeggjastöðum til fæðis eftir fornum máldögum": Voru bæirnir þannig dæmdir undir Skeggjastaði.

Um miðja 17. öld kvartaði sr. Marteinn Jónsson, prestur á Skeggjastöðum, yfir því til Hólabiskups að jarðirnar sex skuli sækja Sauðaneskirkju. Þorlákur Hólabiskup Skúlason svaraði Marteini árið 1642. Segir hann að hjá sér liggi undirskrifuð bréf búenda þessara sex jarða, þar sem þeir biðji um að hafa Sauðanesprest sem sinn sálusorgara og víkja þangað. Segir Hólabiskup þetta nauðsynlegt fyrir þessa ábúendur, en ljóst er að verulegir hagsmunir voru í húfi fyrir Skeggjastaðaprest, enda þriðjungur jarða í sveitinni og þar með þriðjungur tekna kirkjunnar. Sr. Marteinn hafði kært þetta áður til Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti á prestastefnu í Vallanesi 10. ágúst 1641. Um málið gekk dómur þar sem bæirnir sex voru aftur dæmdir undir Skeggjastaði og undir umsjón Skálholtsbiskups. Höfðu bændur á Langanesinu því í raun þrívegis verið dæmdir undir Skálholtsstól og þeim fyrirskipað að sækja Skeggjastaðakrirkju.

Ekki virðist þetta hafa haft árhif, því í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar kemur fram, að bæirnir 6 á Langanesi séu að vísu í Skeggjastaðahreppi, en í Sauðanesprestakalli. Þessi hluti Skeggjastaðahrepps hafði þá fengið nafnið Austurhreppur og varð því nokkurs konar sjálfstæð eining. Svæðið hélst lengi við eftir þetta sem svonefndur Austurhreppur og með tímanum orðið nokkurs konar sjálfsstjórnarsvæði. Hreppsreikningar sýna að Austurhreppur hafi kosið sér hreppstjóra, haft sérstakt reikningshald og bændur þar annast framfærslumál í hreppnum sjálfir. Staða "hreppsins" hefur þó verið losaraleg og ekki almennt viðurkennd.

19. og 20. öldin

Árið 1841 var ákveðið að skipta Þingeyjarsýslu í tvær sýslur, norður og suður. Fyrir því var sú meginástæða að sýslan þótti víðlend og erfið yfirferðar fyrir einn sýslumann. Þótti mönnum þá sem Þingeyjarsýsla norður yrði heldur smá og hlunnindalítil í samanburði við suðurhlutann. Þá var ákveðið, að Austurhreppurinn svonefndi á Langanesi, sem samastóð af uppreisnarjörðunum sex, skyldi lagður norður og verða hluti Norður-Þingeyjarsýslu. Færð voru fyrir því þau rök helst, að þeir sex bæir sem þá voru í Austurhreppi sæktu hvort sem er alla þjónustu, andlega sem aðra, til norðurs, auk þess sem nauðsynlegt þótti að rýmka nýju sýsluna. Varð þetta að ráði. Við skiptinguna hvarf allt landnám Gunnólfs Kroppu formlega úr Skeggjastaðahreppi, utan Gunnólfsvíkurjarðarinnar sjálfrar.

Alþingi var endurreist árið 1845 og kom saman annað hvert ár, svo sem menn þekkja. Þegar árið 1849 var lögð fram tillaga á Alþingi um að Þingeyjarsýslur skyldu sameinaðar í eina sýslu að nýju. Þá kom upp það vandamál, hvort leggja skyldi svæðið sem áður hét Austurhreppur, aftur til Skeggjastaðahrepps. Um það voru Alþingismenn ekki á einu máli. Jón Sigurðsson forseti óskaði eftir umræðum m.a. um þetta mál í tengslum við tillöguna. Hannes Stephensen varaforseti Alþingis taldi sanngjarnast að Austurhreppur, sem "tekinn var frá Norðurmúlasýslu til að rífka Norðurþingeyjarsýslu með, falli nú aptur til Norðurmúlasýslunnar, svo hún haldi nú sínum gömlu takmörkunum.". Páll Melsteð amtmaður, sem var fulltrúi konungs á Alþingi 1849, taldi hins vegar að Austurhreppur ætti að haldast innan Þingeyjarsýslu, enda ættu þeir bæir sem þar væru, miklu skemmra norður. Guttormur Vigfússon, þingmaður Norður-Múlasýslu og bóndi á Arnheiðarstöðum í Valþjófsstaðarsókn, var á því að hreppurinn skyldi hverfa til baka, en best væri sennilega að íbúarnir á svæðinu fengju að kjósa um þetta mál. Eins og kunnugt er varð ekkert úr því að Þingeyjarsýslur yrðu sameinaðar og þurfti því ekki að ákveða hvort Austurhreppur skyldi falla aftur til Skeggjastaðahrepps.

Rétt fyrir miðja 19. öld óskaði Hið íslenska bókmenntafélag í Kaupmannahöfn eftir því við sóknarpresta landsins að þeir rituðu sóknarlýsingar og sendu bókmenntafélaginu. Séra Hóseas Árnason, prestur á Skeggjastöðum (frá 1839-1859) svaraði kallinu árið 1841 og ritaði lýsingu á Skeggjastaðasókn. Má þar m.a. finna lýsingar á mannlífinu og fólkinu í sókninni. Segir sr. Hóseas um sóknarbörn sín, að menn séu lítið upplagðir til skemmtunar í sveitinni. Menn þumbist hver helst við sitt verk, en sé nokkuð brúkað til skemmtunar, séu það helst fornaldarsögur og rímur. Allur þorri fólks sé óskrifandi, aðeins ellefu manns í sókninni kunni að skrifa. Siðferði fólks í sveitinni megi yfirhöfuð heita ólastandi, því andleg deyfð og framtaksleysi sé drottnandi í hugskotunum, sem orsakist sennilega ekki síst af þeim niðurþrykkjandi útvortis aðstæðum, sem fólk oftast lifi í á svæðinu. Þá beri venjulega hvorki mikið á stórum löstum né mannkostum. Þar sem andleg deyfð sé ríkjandi í hugskotunum, sé fólk yfirleitt ekki mikið gefið fyrir upplýsingu. Fólk haldi sig við sína gömlu trú og gömlu bækur og sé mjög fastheldið við ýmsa hleypidóma og hjátrú, sem það hafi inndrukkið með móðurmjólkinni.

Fimm árum síðar birtist í tímariti Hins íslenska bókmenntafélags viðbót við sóknarlýsinguna frá sr. Hóseasi og kveður þar við nokkuð annan tón. Má velta því fyrir sér hvernig sóknarbörn hans hafi brugðist við er þau lásu sóknarlýsingu hans er hún var birt, en vitað er að á Langanesströnd voru áskrifendur tímarits Hins íslenska bókmenntafélags og þar voru einna dyggustu fjárstuðningsmenn Jóns SIgurðssonar, forseta bókmenntafélagsins, eins og fram kemur í ævisögu hans eftir Guðjón Friðriksson. Í viðbót sinni við sóknarlýsinguna, dags. 30. desember 1846, segist sr. Hóseas vilja leyfa sér að geta þess, svo sem til framhalds sóknarlýsingu sinni frá 1841, að síðan hann hafi ritað sóknarlýsinguna hafi sóknin tekið töluverðum framförum, bæði í andlegum og líkamlegum skilningi. Í sveitinni hafi bæði upplýsing yfir höfuð aukist og líka hjátrú og hleypidómar horfið. Eins hafi efnahagur manna stórum batnað og íþróttum manna farið fram. Fleiri séu orðnir skrifandi og ungir menn farnir að temja sér skíðaferðir, handiðnum hafi farið fram og jarðir byggst upp. Heldur hafi því batnað ástandið, sem Hóseas segir hafa verið í aumasta lagi er hann kom á Langanesströnd og virðist það hafa gerst á tiltölulega skömmum tíma.

Síðla á 19. öld hófust tilburðir við að fá þorpið við Bakkafjörð löggilt sem verslunarstað. Lögð var fram tillaga á Alþingi þegar árið 1873. Alþingi felldi tillöguna hins vegar og fékk hún lítið fylgi. Fór sömu leið árið 1877. Staðurinn varð hins vegar löggiltur verslunarstaður 1. apríl 1884 með lögum frá Alþingi.

Þorpið Bakkafjörður, eða Höfn eins og það þá nefndist, myndaðist í landi jarðarinnar Hafnar við Bakkafjörðinn, aðallega eftir að verslun og útgerð hófst þar um aldamótin 1900. Á fyrri hluta 20. aldarinnar var útgerð bæði frá Höfn og Gunnólfsvík, en á báðum þessum stöðum höfðu aðkomumenn úr öðrum landshlutum, sem og Norðmenn og ekki síst Færeyingar sem voru fjölmargir, uppsátur á sumarvertíð, auk heimamanna. Í Gunnólfsvík var sem fyrr segir útgerð og dálítil þéttbýlismyndun í byrjun 20. aldar, enda bjó þar margt fólk og þangað komu Færeyingar, Norðmenn og fleiri. Gunnólfsvík fékk verslunarréttindi árið 1930, sbr. samþykki konungs hér, en útræði lagðist af þar um 1940. (Á myndinni má sjá Hafnartanga á fyrri hluta 20. aldar).

Skip og strand í Gunnólfsvík

Hafnaraðstaða í Gunnólfsvík var einnig erfið. Hinn 5. júlí 1905 skreið franska skipið Pervenche frá Paimpol, inn Gunnólfsvíkina, fór of grunnt og rann upp í fjöru, þar sem það settist fast. Björguðust bæði menn og farmur (salt og salftiskur) og var haldið uppboð á öllu saman, sjá nánar uppboðsreikning vegna skipstrandsins hér. Skipskrokkurinn bjargaðist einnig og var dreginn burt, nokkuð heill, eftir að hann seldist á uppboðinu. Heimildir herma að skipið hafi verið síðan verið selt til Noregs og fengið nafnið SV Gudrun. Hinn 18. febrúar 1908 var SV Gudrun á leið frá Setubal í Portúgal til Stavanger í Noregi með saltfarm, líklega eftir að hafa flutt saltfisk til Portúgal. Undan ströndum Bretlands hvarf skipið með sex manna áhöfn og spurðist ekkert til skips eða áhafnar eftir það.

Frá öndverðu til loka 19. aldar var verslun í Skeggjastaðahreppi sótt til Vopnafjarðar. Selstöðuverslun (en svo voru verslanir danskra kaupmanna nefndar) Örum og Wulff þar bauð víst oftar en hitt órífleg kjör. Svo kvað Langanesstrandarskáldið Örn Arnarson:

Þá brauðið er þrotið og bjarglaust kotið,
en borgun ei til út í hönd
og samfrosta sær og lönd
á Kolbeinstanga
er kvíðvænleg ganga
körlunum norðan af Strönd.

Þremur árum eftir að Höfn fékk verslunarréttindi opnaði Örum og Wulff þar fiskmóttöku og vöruafgreiðslu. EIns og ráða má af vísu Arnar Arnarsonar hefur ekki þótt eftirsóknarvert að eiga við félagið viðskipti. Þurftu Ströndunar hins vegar enn að bíða í nokkur ár eftir samkeppni í verslun. Um aldamótin 1900 stofnaði Halldór Runólfsson frá Böðvarsdal í Vopnafirði verslun og útgerð í Höfn. Halldór fæddist árið 1870, sonur hjónanna Runólfs Magnússonar bónda í Böðvarsdal og konu hans, Stefaníu Þorsteinsdóttur. Árið 1886 féll Runólfur faðir Halldórs frá fyrir aldur fram, er Halldór var þá 16 ára. Upp úr því flutti fjölskyldan frá Böðvarsdal. Halldór er kominn til Hafnar fyrir aldamótin 1900, en í febrúar 1900 gengst hann fyrir stofnun bindindisfélags í Skeggjastaðahreppi ásamt prestinum á Skeggjastöðum, sr. Jóni G. Halldórssyni.

Bindindisfélag í Skeggjastaðahreppi

Í tímaritinu Good Templar árið 1900, birtist eftirfarandi frásögn úr Skeggjastaðahreppi: Bindindisfélag var stofnað á Skeggjastöðum á Langanesströnd 11. febr. 1900, og gengust fyrir því séra Jón Halldórsson og Halldór Runólfsson borgari; urðu meðlimir félagsins um 30 að tölu. En því miður hefir félagið eigi haldið fundi eða starfað síðan það var stofnað; er þó mikil þörf á bindindisfélagi og væri ástæða til, að stúkan "Hekla" nr. 18 á Vopnafirði sæi um að félagið starfaði og hvetti fólk hér á Strönd til að ganga í bindindi og forstöðumenn félagsins til að halda reglulega fundi, því að fólk hér á strönd er magnað með hinni römmustu brennivínstrú og er sífelt drukkið mikið af áfengum drykkjum, bæði alls konar víni af Vopnafirði og líka mikið af koníaki úr frönskum fiskiskipum. Ekki hafa lögin um verzlun og veitingar áfengra drykkja frá síðasta alþingi gert mikið gagn hér í Norður-Múlasýslu og mun víðast haldið áfram að selja áfengi þar sem það var gjört áður. Og hér á Langanesströnd hafa bændur lagt saman og pantað tunnu af brennivíni og eru það mikil vínkaup fyrir utan alla smásopa, þar sem hér á Strönd eru aðeins 18 bæir og mjög fátt fólk á sumrum, enda ekki allir með í kaupunum.

Halldór varð fljólega aðal útgerðarmaðurinn á Bakkafirði og býsna umsvifamikill kaupmaður. Hann verslaði mikið við O. Johnson og Kaaber í Reykjavík, seldi fisk, ull og fleira og flutti austur ýmsar vörur. Hér má skoða samskipti milli viðskiptafélaganna, þar sem verið er að reyna að koma á samkomulagi um viðskipti. Verslun sína á Bakkafirði rak Halldór til dauðadags árið 1920 og stendur verslunarhús hans enn. Í því hefur verið rekin verslun á Bakkafirði fram á þennan dag. Einnig stendur húsið hans enn á tanganum, oft nefnt kaupmannshúsið eða Halldórshús.

Í Höfn var hafnaraðstaða bág, þrátt fyrir nafnið, en bátar lágu við klappir á Hafnartanga og aflinn var dreginn (eða borinn) upp á land, beint í hús. Upp úr aldamótunum 1900, í kringum þá verslun og fiskmóttökum sem þá var hafin, hófu að myndast svonefnd grasbýli á stangli í landi Hafnar með smáan bústofn, örfáar kýr og kindur, en flestir þeirra sem á þeim bjuggu stunduðu einnig að einhverju marki útgerð. Af helstu grasbýlunum má nefna Steinholt, Lindarbrekku, Bjarg og Bergholt. Eru sum þessara býla enn uppistandandi í einhverri mynd og jafnvel búið í sumum húsum, þó ekki með skepnur.

Eftir andlát Halldórs Runólfssonar stofnaði Verslun Jakobs Gunnlaugssonar í Kaupmannahöfn útibú á Bakkafirði, enda hafði Halldór haft aðalviðskipti við það fyrirtæki. Verslun Gunnlaugssons í Kaupmannahöfn, svo sem hún var nefnd daglegu tali, tók við fasteignum Halldórs Runólfssonar á Bakkafirði. Í janúar 1936 varð Hannes Magnússon, verslunarstjóri Gunnlaugssons verslunar fyrir byssuskoti í versluninni. Vissu menn ekki orsakirnar, þótt sitthvað væri skrafað, en Hannes lést síðar af sárum þessum. Eftir þetta var Gunnlaugssons verslun lokað.

Um svipað leyti og Halldór Runólfsson andaðist hafði Kaupfélag Langnesinga á Þórshöfn sett upp útibú á Bakkafirði. Kaupfélagið var stofnað árið 1911 á Þórshöfn. Fyrst í stað verslaði Kaupfélagið lítið, en þegar verslun Gunnlaugssons hætti á Bakkafirði tók kaupfélagið aðstöðuna yfir og var einrátt um verslun á staðnum. Kaupfélag Langnesinga rak verslun til ársins 1996, en henni var þá lokað á 85 ára afmæli kaupfélagsins. Síðan þá hefur verslun á Bakkafirði gengið upp og ofan. Lónið ehf., sem reist var úr rústum Kaupfélags Langnesinga, tók við verslunarrekstri á Þórshöfn og Bakkafirði eftir gjaldþrot kaupfélagsins, en frá árinu 2001 hefur verslun verið í höndum heimamanna sjálfra.

Fólksfjöldi í Skeggjastaðahreppi náði hámarki árið 1929 en þá voru 309 manns búsettir í hreppnum.

Sími komst á milli Vopnafjarðar og Bakkafjarðar 1916. Sveitarsími kom 1954 og rafmagn frá samveitu árið 1972. Árið 1933 var hafist handa við svokallaðan Bakkafjarðarveg, akveg um sveitina. Árið 1949 komst loks á vegasamband milli Bakkafjarðar og Þórshafnar yfir Brekknaheiði, eftir margra ára vinnu. Fyrst var veitt fé til vegarins árið 1936, en framkvæmdir hófust ekki að fullu fyrr en árið 1943. Með veginum komust Langanesströnd og Bakkafjörður í fyrsta sinn í vegasamband við akvegakerfi landsins. Vegur yfir Sandvíkurheiði milli Bakkafjarðar og Vopnafjarðar var gerður 1955-1960. Um 1945 var hafist handa við hafnargerð á Bakkafirði, í fyrsta sinn. Steypt var ofan á svonefnda klöpp, sem var sker rétt undan Hafnartanganum og þar búin til bryggja með dálitlum varnargarði. Bryggjan var síðar lengd. Um 1970 var gerður lítill flugvöllur skammt innan við þorpið. Honum fylgdi hins vegar ekki flugskýli og fjárveitingu fyrir því af hálfu hins opinbera var frestað ítrekað. Einu sinni sem oftar tóku heimamenn þá málin í sínar hendur. Árið 1979 keypti sveitarfélagið eitt af viðlagasjóðshúsunum svonefndu; það var flutt austur og notað sem flugskýli. Mun þetta hafa verið einsdæmi, að flugskýli hafi verið reist án aðkomu flugmálastjórnar. Flugskýli þetta var í notkun allan líftíma flugvallarins. (Á mynd er Bakkafjörður 1964).

Um 1960 höfðu menn verulegar áhyggjur af því að horfði til landauðnar í Skeggjastaðahreppi. Atvinnuleysi var mikið, aflabrestur og framfarir í landbúnaði ekki verulegar. Í þorpinu bjuggu þá um 70 manns og um 100 manns í hreppnum öllum. Útgerð var enn stunduð á opnum litlum smábátum og lá af þeim sökum niðri mestan part ársins. Í viðtali við Þjóðviljann árið 1960 sagði Magnús Jóhannesson oddviti hreppsins, að nauðsynlegt væri að ráðast í hafnarbætur, umbætur í rafmagnsmálum og uppbyggingu í landi. Hafnarbætur væru fyrirsjáanlegar, loforð yfirvalda um framkvæmdir í rafmagnsmálum lægi á borðinu og í bígerð væri bygging síldarmjölsverksmiðju í þorpinu. Í sömu byggingu væri ætlunin að kæmi frystihús. Að mati Magnúsar var þetta hagsmunamál hreppsins alls, því án þorpsins myndi sveitinni verða hætt.

Ins og nánar er rakið annars staðar á síðunni reis síldarverksmiðjan árið 1962 og stofnuðu heimamenn, í félagi við aðra, um það hlutafélagið Sandvík hf. Þrátt fyrir hvert metárið á fætur öðru í síldveiðum á árunum milli 1960 og 1967 reyndist bygging lítillar síldarverksmiðju með gömlum tækjum, fjarri mörkuðum og á stað þar sem hafnaraðstaða var léleg, vera misráðin. Hlutafélagið um verksmiðjuna varð gjaldþrota fjórum árum síðar. Þrátt fyrir tilraun þekktra íslenskra aflaskipstjóra til að endurreisa hana lauk síldarævintýri Bakkfirðinga í raun með gjaldþroti Sandvíkur hf.

Eftir stutt síldarævintýri Bakkfirðinga hóf Hilmar Einarsson að verka saltfisk í húsnæði verksmiðjunar. Hann tók verksmiðjuhús Sandvíkur hf. á leigu, en þau voru þá komin í eigu Stofnlánadeildar sjávarútvegsins. Fljótlega keypti félag Hilmars, Fiskiðjan Bjarg hf., síðan húsin. Vegna lítillar endurnýjunar fiskiskiptaflota Bakkfirðinga gekk hráefnisöflun upp og ofan. Fyrri hluti 8. áratugarins reyndist Bakkfirðingum erfiður. Áhyggjur af landauðn í sveitinni gengu í endurnýjun lífdaga og á tímabili voru allir félagsmenn verkalýðsfélagsins, 36 að tölu, á atvinnuleysisskrá. Um miðjan áratuginn stofnuðu heimamenn nýtt fyrirtæki, Útver hf., sem tók við saltfiskverkun Hilmars, en hann hafði þá ákveðið að hætta rekstri sökum heilsubrests. Að Útveri hf. stóðu útgerð sjómenn plássinu og lögðu fram hlutafé. Reksturinn gekk ágætlega til fyrst í stað og skilaði hagnaði. Hins vegar varð reksturinn fyrir ýmsum skakkaföllum. Árið 1977 barst koparmengað salt til Bakkafjarðar og varð saltfiskurinn gulblettóttur vegna notkunar þess. Um tíma leit út fyrir stórtjón, en með dugnaði og útsjónarsemi tókst að koma í veg fyrir það. Fiskurinn var hreinsaður og fyrir hann fékkst að lokum viðunandi verð. Fyrirtækið varð hins vegar fyrir fleiri áföllum og varð að lokum gjaldþrota 1993. Þá tók við fiskverkunin Gunnólfur ehf. Það félag var í rekstri til ársins 2007, er það var úrskurðað gjaldþrota. Nokkrir aðilar hafa rekið fiskvinnslu á staðnum eftir það.

Árið 1972 réðst ríkisstjórn Íslands í það verkefni að gera atvinnu- og framkvæmdaáætlun fyrir allt Austurlandskjördæmi. Var Framkvæmdastofnun ríkisins falið verkefnið. Fljótlega kom í ljós, að greina mátti hættu á eyðingu byggðar í einum hreppi fremur en öðrum. Það var Skeggjastaðahreppur. Af þeim sökum var ákveðið að fela byggðadeild Framkvæmdastofnunar að taka þennan hrepp sérstaklega út og gera sérstaka byggðaþróunaráætlun fyrir hann. Árið 1976 var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga um uppbyggingaráætlun fyrir Skeggjastaðahrepp, þar sem skorað var á Alþingi að hefjast handa um alhliða uppbyggingu í hreppnum. Áætlunin miðaði við að landbúnaður yrði efldur með sérstöku átaki með það markmið í huga að koma upp fullnægjandi aðstöðu til búskapar á minnst 16 lögbýlum. Þá skyldi sérstök áætlun gerð um útgerð og fiskvinnslu með tilliti til eflingar þorpsins í Höfn. Fram kom í tillögunni að ekki færi milli mála að hraðfara stefndi í að byggðin í Bakkafirði legðist alveg af, ef ekkert sérstakt yrði gert til að koma í veg fyrir það. Sömu örlög myndu bíða þéttbýlisins í Höfn ef sveitin legðist í eyði. Hafði fólki í hreppnum á þessum tíma fækkað um 70% frá 1930. Á sama tíma fækkaði lögbýlum um 62%. Aldursdreifing íbúa var einnig orðin þannig að ástæða var til að hafa áhyggjur af viðhaldi byggðarinnar; mjög hátt hlutfall íbúanna var orðið roskið fólk.

Verkefninu um sérstaka byggðaþróunaráætlun fyrir Skeggjastaðahrepp lauk í september 1978. Meðal höfunda hennar voru Ingimundur Sigurpálsson, síðar forstjóri Eimskipafélags Íslands hf. Í skýrslunni kom fram að hreppurinn væri með þeim köldustu á landinu, ræktunarskilyrði væru nokkuð erfið, fólki hefði fækkað umtalsvert áratugina á undan, aldurssamsetning væri óheppileg, mörg býli væru farin í eyði, atvinnulíf væri einhæft, meðaltekjur væru 14% undir landsmeðaltali, hafnarmannvirki væru ófullnægjandi, ástand vega væri bágborið og skortur á íbúðarhúsnæði hamlaði flutningi fólks til staðarins. Í niðurstöðum skýrslunnar var bent á að heimamenn hefðu sjálfir tekið skref til að bæta búsetuskilyrði, en lána þyrfti fé til hafnarbóta, jarðarbóta og til byggingar húsnæðis. Í kjölfar þessa kom nokkur kippur í húsbyggingar á staðnum.

Árið 1983 hófst loks vinna við gerð nýrrar hafnar, sem valinn var staður rétt utan við þorpið. Í fyrstu reis einn brimvarnargarður, en fljótlega kom í ljós að reisa þyrfti annan, enda urðu nokkrir bátsskaðar á örfáum árum er bátar slitnuðu upp og fórust eða skemmdust. Árið 1989 var ráðist í annan garð eftir að stærsti báturinn í plássinu slitnaði upp og sökk. Árið 1992 kom svo flotbryggja inni í nýju höfninni og síðar var viðlegubryggjan innan hennar lengd.

Árið 1984 bárust fregnir af því að áhugi væri fyrir því að reisa ratsjárstöð á Norðausturlandi. Viðræður fóru fljótlega í gang af hálfu Varnamáladeildar utanríkisráðuneytisins við hreppsnefndir Þórshafnar- Svalbarðs- Sauðaness og Skeggjastaðahreppa. Undirskriftarsöfnun var hrundið af stað til að hvetja stjórnvöld til að koma verkefninu í gegn. Harðar deilur urðu hins vegar um málið og því fór fjarri að einhugur væri um ágæti slíkrar framkvæmdar á svæðinu. Var m.a. farið í sérstaka friðargöngu á Langanesi til að mótmæla áformunum. Ekki kom það þó í veg fyrir áformin. Í ágúst 1985 tókust samningar um uppsetningu ratstjárstöðvarinnar á Gunnólfsvíkurfjalli. Réð þar miklu um staðsetninguna, að toppurinn á fjallinu er flatur og fjallið auk þess mun hærra en aðrir staðir sem komu til greina á svæðinu, þannig að mögulegt yrði að fylgjast með umtalsvert stærra svæði en ella. Fyrirtækið Gunnólfur hf. var stofnaði í kringum framkvæmdina og var það í eigu heimamanna. Ratsjárstöðin reis og í kjölfarið voru byggð átta einbýlishús á Bakkafirði fyrir starfsfólk stöðvarinnar og fjölskyldur þeirra. Allur gangur var þó á því hvort starfsmenn stöðvarinnar bjuggu á Bakkafirði, en það gerðu margir. Stöðin er hins vegar að mestu sjálfvirk í dag og húsin á Bakkafirði, hin svonefndu "ratsjárhús" hafa verið seld.

Félagsmálum hefur verið sinnt á Langanesströnd. Árið 1922 var Ungmennafélagið Víðir stofnað. Síðar lagðist það niður en var endurreist 1935 og nefndist þá Reynir. Ungmennafélagið átti samkomuhús í sveitinni, nánar tiltekið að Bakka. Húsið hafði félagið keypt nokkru áður og breytt í samkomuhús. Í september 1953 var þar haldin skemmtun á laugardagskvöldi. Eftir að skemmtun lauk og gestir voru farnir heim kom upp eldur í húsinu og brann það til ösku. Félagið stóð þá að byggingu samkomuhúss inni í þorpinu, en húsið var allt byggt í sjálfboðavinnu og fjármagnað með ýmiss konar söfnunarstarfi. Það var fullklárað árið 1975 og gegndi hlutverki félagsheimilis íbúanna þar til skólahúsnæðið að Skólagötu 5 var formlega tekið í notkun árið 1987. Um sama leyti og það var gert hætti Reynir starfsemi sinni og gaf gamla félagsheimilið til Björgunarsveitarinnar Arnar, sem stofnuð var um þær mundir. Árið 1994 var þráðurinn tekinn upp að nýju og Ungmenna- og íþróttafélag Bakkafjarðar (UÍB) stofnað. Það félag starfar hins vegar ekki lengur.

Árið 1987 var stofnuð björgunarsveit á Bakkafirði, er fékk nafnið Örn. Ungmennafélagið Reynir gaf sem fyrr segir sveitinni samkomuhús sitt undir starfsemina. Húsið var tekið í notkun tveimur árum síðar. Sveitin fékk miklar og höfðinglegar gjafir, þ. á m. fullkominn björgunarbát með mótor, flotbúninga o.fl. Sveitin var virk fyrstu árin, keypti m.a. snjósleða og stóð í umfangsmiklum bifreiðaviðskiptum. Haustið 2001 var hins vegar tekin ákvörðun um að sameina björgunarsveitirnar á Bakkafirði og Vopnafirði. Björgunarsveitin Vopni sinnir nú Bakkafjarðarsvæðinu.

Menntunarmál hafa verið upp og ofan gegnum aldirnar. Eins og fram kemur fram í sóknarlýsingu sr. Hóseasar Árnasonar frá 1841, var á þeim tíma allur þorri fólks í sveitinni óskrifandi. Aðeins ellefu manns manns í sókninni hafi kunnað að skrifa. Fræðslumál þá hafa væntanlega verið eins og víðast annars staðar á þeim tíma, með þeim hætti að menn fengu lágmarks undirbúningskennslu í kringum fermingarfræðslu. Þar sem um 200 manns bjuggu í Skeggjastaðahreppi (skv. manntali 1840) á þessum tíma og aðeins 11 eru taldir skrifandi, virðist pottur hafa verið brotinn í uppfræðslumálum. Skipulögð barnakennsla í sveitinni mun hafa hafist nokkru fyrir aldamótin 1900. Farkennsla var til 1950 en þá var komið upp heimavistarskóla á Skeggjastöðum, í húsnæði sóknarprestsins Sigmars Inga Torfasonar. Eiginkona Sigmars, Guðríður Guðmundsdóttir, annaðist kennsluna að mestu. Heimavistin var lögð niður 1968, en hjónin ráku grunnskóla á Skeggjastöðum allt þar til byrjað var að kenna í nýju skólahúsnæði í þorpinu á Bakkafirði árið 1985. Það húsnæði var þó ekki fullklárað fyrr en 1987 og var sannkallað fjölnota hús. Það hýsti, auk grunnskólans, leikskóla, hreppskrifstofu, heilsugæslu og íþróttasal auk þess að vera félagsheimili íbúanna. Grunnskólakennsla er hins vegar aflögð á Bakkafirði og börnum ekið til næstu þéttbýlisstaða. Þá hefur sveitarstjón sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar aðsetur á Þórshöfn.

21. öldin og framtíðin

Frá aldamótum 2000 hefur íbúum jafnt og þétt farið fækkandi í byggðarlaginu. Hinn 8. apríl 2006 kusu íbúar Þórshafnarhrepps og Skeggjastaðahrepps um sameiningu sveitarfélaganna og samþykkti meirihluti íbúa beggja sveitarfélaga sameininguna. Í kjölfarið fékk hið sameinaða sveitarfélag nafnið Langanesbyggð. Íbúar í sameinuðu sveitarfélagi 1. janúar 2021 voru 502. Íbúar á Bakkafirði og sveitinni í kring sækja nú ýmsa þjónustu yfir á Þórshöfn. Grunnskólakennsla er aflögð og er börnum ekið ýmist á Vopnafjörð eða Þórshöfn til kennslu.

Árið 2017 hafði íbúum fækkað umtalsvert og þjónusta við íbúa orðin mjög takmörkuð. Umtalsverðum byggðakvóta hefur verið úthlutað til byggðalagsins á umliðnum áratug til að sporna við fólksfækkun. Árið 2017 komst skriður á að þorpið yrði hluti af verkefninu "Brothættar byggðir". Haldinn var íbúafundur þar sem farið var rækilega yfir vandann sem steðjaði að byggðalaginu. Árið 2018 samþykkti ríkisstjórnin að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp um málefni byggðarinnar við Bakkaflóa og gera tillögur um viðbrögð við aðsteðjandi vanda. Enginn heimamaður var þó skipaður í hópinn. Í skýrslu starfshópsins, sem kom út árið 2018, kom fram að stæði vilji til þess að bregðast við neikvæðri byggðaþróun með afgerandi hætti þyrfti það að gerast fljótt svo að viðleitni í þágu byggðar við Bakkaflóa yrði þegar vart heima í héraði. Tillögurnar fólu einkum í sér að veita auknum aflaheimildum til staðarins, bæta vegasamgöngur og að taka byggðalagið inn í verkefnið "Brothættar byggðir". Í kjölfarið var stórauknum byggðakvóta veitt til staðarins og átak í vegasamgöngum hefur staðið yfir. Þá hefur verkefnisstjórn Brothættra byggða veitt styrki til ýmissa verkefna í byggðalaginu. Hvort þetta dugi til að bjarga byggðinni við Bakkaflóa á enn eftir að koma í ljós.

Hin síðari ár hefur farið nokkuð fyrir umræðu um bæði stórskipahöfn og þjónustuhöfn fyrir olíuleitarfyritæki, sem hugsanlega yrði staðsett á svæðinu. Hafa menn einkum horft til Finnafjarðar og Gunnólfsvíkur í því sambandi. Hvort af slíkum áformum verður mun tíminn leiða í ljós, en ljóst er að ef slíkum framkvæmdum yrði myndi það hafa umtalsverðar breytingar í för með sér fyrir Langanesströnd til allrar framtíðar.

Uppfært 3. maí 2024
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?