Fara í efni

Skáldin

Frá Langanesströnd hafa komið þekkt og merkileg skáld. Athyglisvert þótti á sínum tíma hversu mörg þekkt og góð skáld komu frá jafn lítilli og lítt þekktri sveit á jafn stuttum tíma. Hér er hlaupið á ævi þessara skálda og reynt að draga fram hvaða umhverfi þau komu úr, mótandi uppvaxtarár og umhverfi. Þá er farið yfir skáldskap þeirra og önnur störf. Í lokin verður minnst á nokkra hagmælta einstaklinga úr sveitinni, sem einnig voru frambærileg skáld, þótt ekki hafi skáldskapur þeirra verið jafn þekktur.

Kristján (Einarsson) frá Djúpalæk

Kristján frá Djúpalæk er án vafa þekktasta skáld sem Langanesströnd hefur alið. Kristján fæddist á Djúpalæk í Skeggjastaðahreppi 16. júlí 1916. Sem barn sinnti hann hefðbundnum sveitastörfum. Tvítugur stundaði Kristján nám við Eiðaskóla. Um vorið 1937 lést faðir hans og hélt Kristján þá heim að loknum prófum og vann hjá bróður sínum Sigurði við gerð íbúðarhúss sem hann var að byggja á nýbýlinu Bjarmalandi, sem er aðeins steinsnar frá Djúpalæk, eins og nánar segir frá hér annars staðar á síðunni. Haustið 1938 fór hann í Menntaskólann á Akureyri og var þar fram til vors að hann hætti skólagöngu. Á Eiðum hafði Kristján kynnst Unni Friðbjarnardóttur, sem hann kvæntist og bjó með til dauðadags. Unnur og Kristján hófu búskap í Staðartungu árið 1938. Kristján þótti ekki sérstaklega hneigður til búskapar enda brugðu þau hjónin búi árið 1943 og fluttu til Akureyrar þar sem þau bjuggu næstu sex árin. Á þeim tíma vann Kristján aðallega verksmiðjuvinnu sem honum leiddist og hann þoldi illa. Hann fékk útrás við ljóðagerð og varð kunnur af henni og gerðist virkur verkalýðssinni.

Í lok árs 1949 fluttu Kristján og Unnur til Hveragerðis, sem þá var nokkurs konar listamannamiðstöð Íslands. Um þetta leyti var hann orðinn þekktur sem ljóðskáld og dægurlagahöfundur og varð eftir því sem árin liðu æ þekktari. En frægðin dugði ekki til, það vantaði salt í grautinn eins og hjá fleiri listamönnum. Hann þurfti fyrir fjölskyldu að sjá og því tók hann að sér ýmsa vinnu. Hann var barnakennari í Hveragerði og Þorlákshöfn og vann einnig við garðyrkjustörf, húsamálun og ýmislegt fleira.

Á Hveragerðisárunum kynntust hjónin meðal annarra Jóhannesi úr Kötlum, Kristmanni Guðmundssyni og fleiri mætum mönnum. Einn þeirra sem bjó í Hveragerði á sama tíma var Kristján Bender, sem sagt er nánar frá hér neðar. Í Hveragerði bjuggu Kristján og Unnur til ársins 1961 og þar fæddist þeim einkasonurinn Kristján Krisjánsson heimspekingur sem nú er háskólakennari á Akureyri. Árið 1961 fluttu hjónin aftur til Akureyrar og í nokkur ár þar eftir tók Kristján að sér ritstjórn dagblaðsins Verkamannsins ásamt því að kenna í Grunnskóla Akureyrar. Brátt leyfði hrakandi heilsufar honum engin föst störf. Hann sinnti eftirliti með veiðiám í Eyjafirði allnokkur sumur og íhlaupastörf við ritsmíðar hlaut hann nokkur svo sem þýðingar. Kristján lést á Akureyri 15. júlí 1994.

Ljóðabækur Kristjáns urðu 12 að tölu auk safnútgáfu og sambókar hans með Ágústi Jónssyni, steinlistamanni, Óði steinsins. Um eitt hundrað lög hafa verið samin við ljóð Kristjáns. Kristján lagði stund á þýðingar og eru þar kunnastar snilldarlegar þýðingar hans á leikritunum um Kardemommubærinn og Dýrin í Hálsaskógi eftir Torbjörn Egner. Árið 1984 kom út bókin Á varinhellunni: Bernskumyndir af Langanesströndum, þar sem Kristján lýsir lífskjörum sínum í bernsku á eftirminnilegan hátt og lýsir mannlífinu af miklu innsæi.

Um ljóðagerð Kristjáns og sérstöðu þeirra hefur verið mikið ritað. Ljóð Kristjáns snerust fremur um inntak en form. Náttúran og lífsreynslan eru ávallt nálæg minni í kveðskap Kristjáns. Hann var alþýðuskáld í þeim skilningi að hann orti fyrir fólkið í landinu á tungumáli sem það skildi og undir bragarháttum sem það þekkti. Í ljóðum hans birtist mannvit og mannúð, hlýja og kímni en einnig andstæðurnar ljós og myrkur. Kristjáni varð ósjaldan þrenndin að umfjöllun í tali og ljóði. Eina ljóðabók sína nefndi hann Þrílæki og eitt kvæði hennar svo, um læki þrjá, sem hver á sín upptök en allir sama ós. Honum var heilög þrenning hugfólgin, einlægur trúmaður, sem efaðist ekki um guðlega forsjá og handleiðslu. Þá varð honum ósjaldan rætt um, að hamingjudísir sínar væru þrjár: móðir sín, ljóðadísin og æviförunauturinn eiginkonan.

Kristján fékk margs konar viðurkenningar fyrir ljóðlist sína, svo sem verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, verðlaun úr Rithöfundarsjóði Ríkisútvarpsins og úr Listasjóði Akureyrarbæjar og naut Listamannalauna allt frá 1948.

Hér má sjá sjónvarpsviðtal Helga Péturssonar við Kristján, tekið 1992.

Dans gleðinnar

Það er svo margt að una við,
að elska, þrá og gleðjast við,
jafnt orð, sem þögn og lit sem lag,
jafnt langa nótt, sem bjartan dag.
Mér fátt er kærra öðru eitt
ég elska lífið djúpt og heitt,
því allt, sem maður óskar, næst
og allir draumar geta ræzt.

Ég byggi hlátraheima
í húmi langrar nætur.
Af svefni upp í söngvahug
með sól ég rís á fætur.
Og augun geisla af gleði
sem grær í mínu hjarta.
En syrti að ég syng mig inn
í sólskinsveröld bjarta.

Kristján frá Djúpalæk

Skógarmaður

Allt það sem ég unni fyrr,
er mér horfið sýnum.
Ég er einn og enginn spyr
eftir leiðum mínum.
Örlög köld mér auðnan gaf,
og í veröldinni
fleygir steini enginn af
ólánsgötu minni.
Ég hef glímt við knappan kost,
kynnst við beyg af tröllum.
Það hafa ógnað funi og frost
ferðum mínum öllum.
Einn í hugans óbyggðum,
auðnir lífs ég kanna.
Það er jafnan þögult um
þrautir skógarmanna.

Kristján frá Djúpalæk

Örn Arnarson (Magnús Stefánsson)

Magnús Stefánsson, sem síðar tók sér skáldanafnið Örn Arnarson, fæddist í Kverkártungu á Langanesströnd, hinn 12. desember 1884. Foreldrar hans voru Stefán Árnason, bóndi í Kverkártungu, f. 1832 og kona hans, Ingveldur Sigurðardóttir húsmóðir, f. 22. jan. 1850. Hjónin bjuggu í Kverkártungu við kröpp kjör með fimm dætur og Magnús, sem var yngstur systkinanna. Heimilið hélst þó saman þar til Magnús var tæplega fjögurra ára gamall. Stefán bóndi drukknaði þá í Kverká í maí 1887, en tildrög þess eru ekki kunn. Lík hans fannst ekki fyrr en nokkru síðar. Slysið var reiðarslag fyrir ekkjuna, sem stóð eftir með sex ung börn. Ljóst hefur henni verið strax að heimilið myndi brotna upp og börnin tvístrast. Var mál manna að sveitarstjórn hefði mátt vera nærgætnari við fjölskylduna, þar sem eignir þeirra voru seldar áður en Stefán hafði verið jarðsunginn. Systrum Magnúsar var komið fyrir víðsvegar um sveitina, sumum á kostnað hreppsins. Magnús litli fór hins vegar með móður sinni í vinnumennsku að Þorvaldsstöðum í sveitinni.

Á Þorvaldsstöðum bjó stórbúi Þórarinn Árnason bóndi við góð efni. Móðir Magnúsar bjó þar með Þórarni æ síðan á öruggu heimili. Saman eignuðust þau eina dóttur, Þórunni B. Þórarinsdóttur, sem er móðir hinna svonefndu Þorvaldsstaðasystkina þrettán. Magnús bjó á Þorvaldsstöðum til tvítugs. Hann lét sér mjög annt um búskapinn og ætlaði sér alltaf að verða bóndi. Magnús þótti hins vegar lítið bóndaefni. Hann þótti bókhneigður mjög og Þorvaldsstaðir voru góður staður fyrir slíkan mann. Hann var farinn að fást við kveðskap á þessum tíma, en eins og um alla ævi sína fór hann mjög dult með skáldskapinn. Fram að tvítugu gekk hann í ýmsa vinnu á Langanesströnd, m.a. sjómennsku. Upp úr tvítugu yfirgaf hann æskustöðvarnar. Fór hann þá til Akureyrar, þar sem honum hafði verið lofað skólavist í Möðruvallaskóla, en var svikinn um hana. Hann var þó einn vetur í skóla á Grund í Eyjafirði. Hann fluttist svo suður yfir heiðar og settist í Flensborgarskóla í Hafnarfirði 1907-08, síðan var hann einn vetur í Kennaraskólanum, einn af fyrstu nemendum þess skóla, og lauk prófi þaðan um vorið 1909. Veturinn 1909-1910 gerðist Magnús kennari í heimasveit sinni. Eftir það fluttist hann aftur til Reykjavíkur og kom eftir það ekki aftur austur á Langanesströnd til langdvala. Hann flutti svo til Eyja 1911 og dvaldi þar til ársins 1918, stundaði skrifstofu- og verslunarstörf, m.a. hjá Kaupfélaginu Herjólfi, en lengst var hann skrifari hjá Karli J. Einarssyni sýslumanni. Hann ferðaðist nokkuð um landið á þessum árum, var m.a. á Siglufirði.

Glímu og knattspyrnu stundaði hann af kappi, bæði í Eyjum og Hafnarfirði. Auk þess var hann mikill göngugarpur. Hann hafði mikinn áhuga á náttúruskoðun og jarðfræði. Átti hann gott steinasafn og safnaði jurtum seinni árin. Orðasöfnun stundaði hann af krafti og lét eftir sig mikinn fjölda orðaseðla með sjaldgæfum orðum og orðatiltækjum. Frá Eyjum fluttist hann til Hafnarfjarðar og bjó þar síðan til æviloka. Þar fékkst hann við verslunarstörf, en stundaði einnig síldarvinnu á Norðurlandi, vegavinnu víða um sveitir og á Þingvöllum kringum Alþingishátíðina 1930. Hann fór víða um land og alltaf fótgangandi.

Magnús var mjög dulur framan af ævi um birtingu ljóða sinna og jafnvel, að hann stundaði ljóðagerð. Eitthvað mun hann hafa ort í skólablöð á fyrri árum, en fyrstu kvæði birti hann í Eimreiðinni 1920 undir dulnefninu Örn Arnarson. Loks 1924 kom út ljóðabókin Illgresi og var það aðallega fyrir atbeina Kristins Ólafssonar þá verðandi bæjarstjóra í Eyjum. Auk þess birti hann kvæði í tímaritum og blöðum. Frá 1935 átti Magnús við veikindi að stríða, fékk hjartabilun og varð þaðan af lítt vinnufær. Árið 1936 fékk hann 1000 króna skáldastyrk og kom það sér vel í veikindum hans. Var styrkurinn veittur án umsóknar. Er talið, að þingmenn hafi fengið í hendur kvæðið um Stjána bláa og það ráðið úrslitum. Styrknum hélt hann síðan og var hann hækkaður í 1800 krónur 1940.

Hann var svo skipaður bókavörður við hið endubætta bókasafn í Hafnarfirði 1938, en sá sér ekki fært að sinna því sökum veikinda. Fyrir tilstuðlan Sigurðar Nordals voru Oddsrímur sterka gefnar út 1938, en þær hafði Magnús ort 1932 og taldi þær lélegar. Magnús hélt andlegum þrótti fram í andlátið og vann til síðustu stundar af kostgæfni og nákvæmni að nýrri og aukinni útgáfu Illgresis. Handritið kláraði hann, en lést áður en það var gefið út árið 1942. Þótt hann hafi í vitund þjóðar þá verið orðinn allmikið skáld, var hann jafn yfirlætislaus og áður, Austfirðingur sem leitaðist við að láta eins lítið á sér bera og kostur var, maður á flótta undan skáldinu.

Magnús var orðinn þroskað skáld er hann birti kvæði sín. Kveðskapur hans var jafnan laus við tilgerð. Sérkenni skáldskapar hans var að ljúka erindi boðskapar og listar í stuttu máli. Kvæðin eru undantekningarlítið hnitmiðuð og yfirbragð ljóðanna glettin beiskja og skaprík ádeila, en bak við kvikar næmur tregi og sár harmur. Meðal þekktra kvæða er Hafið bláa hafið, rímur af Oddi sterka, Stjáni blái og Íslands Hrafnistumenn, en úr hinu síðastnefnda er nafn dvalarheimilisins Hrafnistu fengið. Magnús fékk fyrstu verðlaun fyrir kvæðið í samkeppni um ljóð og lag fyrir sjómannadaginn 1938. Magnús arfleiddi síðar Sjómannadagsráð að útgáfurétti bókar sinnar, Illgresi.

Hafið bláa hafið / Sigling

Hafið bláa, hafið hugann dregur,
hvað er bak við ystu sjónarrönd?
Þangað liggur beinn og breiður vegur,
bíða mín þar æskudraumalönd.

Beggja skauta byr
bauðst mér aldrei fyrr.
Bruna þú nú bátur minn.
Svífðu seglum þöndum,
svífðu burt frá ströndum.
Fyrir stafni haf og himinninn.

Örn Arnarson

Lítill fugl

Lítill fugl á laufgum teigi
losar blund á mosasæng,
heilsar glaður heiðum degi,
hristir silfurdögg af væng.

Flýgur upp í himin heiðið,
hefir geislastraum í fang,
siglir morgun svala leiðið,
sest á háan klettadrang.

Þykist öðrum þröstum meiri,
þenur brjóst og sperrir stél,
vill að allur heimur heyri,
hvað hann syngur listavel.

Skín úr augum skáldsins gleði,
skelfur rödd við ljóðin ný,
þó að allir þrestir kveði
þetta sama dirrinddí.

Litli fuglinn ljóða vildi
listabrag um vor og ást.
Undarlegt að enginn skyldi
að því snilldarverki dást.
Undarlegt að enginn skyldi
að því snilldarverki dást.

Örn Arnarson

Þórarinn (Magnússon) frá Steintúni

Þórarinn fæddist í Stykkishólmi 17. desember 1902. Foreldrar hans voru Magnús Þórarinsson (Hálfdánarsonar bónda á Bakka í Bakkafirði) og Jórunn Sigríður Thorlacius. Þórarinn og Gunnar Gunnarsson rithöfundur voru því systkinasynir Þórarinn fluttist kornungur með foreldrum sínum til Reykjavíkur þar sem faðir hans stundaði um tíma rakaraiðn. Hann fluttist svo heim í fæðingarsveit föður síns að Steintúni í Bakkafirði, þar sem faðir hans gerðist bóndi. Magnús faðir hans lést er Þórarinn var aðeins 7 ára gamall. Móðir hans bjó áfram með börnin sín, fyrst í Steintúni en síðan í Höfn, Bakkafirði.

Þórarinn tók mikilli tryggð við Steintún og kenndi sig við staðinn. Skólagangan varð ekki löng, því þá var í sveitinni aðeins um að ræða stopula farkennslu. Hann mun hafa verið einn vetur í unglingaskóla á Vopnafirði og einn vetur í gagnfræðaskólanum á Akureyri. Þórarinn var sagður hafa verið mjög vel greindur, námsfús og bókelskur og sjálfsmenntun hans hafi gefið honum drjúgan hlut. Hann las mikið alla sína ævi.

Þórarinn kvæntist árið 1926 Sigurbjörgu Sigurðardóttur og eignuðust þau 9 börn. Þrjú dóu í æsku og tvö dóu uppkomin. Auk þess ólst upp hjá þeim hjónum dóttursonur þeirra, Þórarinn Sveinn Thorlacius. Sigurbjörg og Þórarinn bjuggu fyrstu árin í Höfn, Bakkafirði en lengst af í Steintúni eða allt til ársins 1956. Þá brugðu þau búi vegna heilsubrests Þórarins og fluttust til Reykjavíkur.

Þórarinn gaf út þrjár kvæðabækur, Útfall árið 1964, Litir í laufi árið 1966 og Undir felhellum árið 1970, auk þess Sýnishorn af úrvals ljóðum 48 Norðurlandahöfunda, sem hann kallaði "tilraun til þýðingar". Meginstef í ljóðum hans er náttúrlýsing og ást á landi og tungu. Útgáfu sína kostaði hann sjálfur. Þórarinn vann einnig að skrásetningu örnefna á Langanesströnd, sem og nafna áá og fiskimiða á Bakkafirði. Þórarinn lést 6. ágúst 1978.

Á Jónsmessunótt

Sé auðna og lífgrös orpin fönn,
úrræðin þrotin i dagsins önn.
Rætur slitnar og ræktarbandið
raknað, sem tengir við Guð og landið.
Óskasteina og æskunnar þrótt
á i sjóði hin bjarta nótt.

Þú felur vonirnar frjórri jörð
og flytur lífinu þakkargjörð.
Teygar ilminn úr mó og mýri.
Meitlar i hugann þau ævintýri,
sem aldrei nein hugsun né orð fá tjáð.
Aðeins skynjun og kenndum háð.

Dagslóðin sveipar i draumahjúp
dali og fjöll. Hvílíkt þagnardjúp.
Döggin vefur sitt kristalsklœði
um kvika jörð. Hér er þreyttum næði.
Nú heyrist i fjarska heiðlóu kvak.
Hreyfing í urðinni, vœngjablak.

Þú finnur þyt af fiðrildisvæng
og falið líf undir mosavæng.
Urriðar vaka í ám og tjörnum.
Öndin sig hjúfrar að litlum börnum,
er skríða úr eggi með skjall á dún.
Skarta vorblómum engi og tún.

Hugurinn dvelur í helgum dóm,
hér er allt fagurt og laust við gróm.
Þú eygir roða á efstu tindum.
Upprisu lifsins i nýjum myndum.
Hver órunninn dagur er ófætt Ijóð.
Óttan perla i timans sjóð.

Þórarinn frá Steintúni

Jakob Jónasson

Jakob fæddist á Gunnarsstöðum á Langanesströnd, hinn 26. desember 1897. Hann var sonur hjónanna Jónasar Jakobssonar bónda á Gunnarsstöðum og Kristínar Jóhannesdóttur. Jakob stundaði nám við Bændaskólann á Hólum, Samvinnuskólann og Kennaraskólann. Lengst af var hann farkennari með námi. Síðan vann hann við verslunarstörf til ársins 1948 að hann gerðist bókari hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þar var hann til ársins 1966. Þá vann hann í tvö ár sem handrita- og prófarkalesari hjá Morgunblaðinu. Árið 1929 kvæntist Jakob Maríu Jónsdóttur og eignuðust þau fimm börn. Jakob lést 27. mars 1981. Hann var kunnur rithöfundur á sínum tíma og sendi frá sér allmargar skáldsögur, s.s. Milli stríða, Börn framtíðarinnar og Ógróin spor.

 

Þú ert vel af Guði gerður,
gullbryddur, blár og kyrr.
Þannig brosir Bakkafjörður
við börnum sínum eins og fyrr.

Jakob Jónasson

Ágúst Pétursson

Ágúst Metúsalem Pétursson fæddist 29. júní 1921 á Hallgilsstöðum í Norður-Þingeyjarsýslu en ólst upp á bænum Höfnum við Finnafjörð á Langanesströnd, en bærinn var byggður í landi Saurbæjar. Þegar Ágúst var 19 ára (1940) fór hann til Vestmannaeyja og tók sveinspróf í húsgagnasmíði, þeirri iðn sem hann vann við upp frá því, lengst af hjá Gamla Kompaníinu í Reykjavík. Ágúst lék á ýmis hljóðfæri. Hann lærði á orgel hjá föður sínum, Pétri A. Metúsalemssyni, sem var organisti í sóknarkirkjunni á Skeggjastöðum og lærðu öll systkinin undirstöðuatriði í tónlist hjá honum. Eftir að hann kom til Vestmannaeyja spilaði hann á saxófón með lúðrasveitinni undir stjórn Oddgeirs Kristjánssonar. Ásamt því raddæfði hann og söng fyrsta bassa í oktett sem kallaði sig Smárakvartettinn og var starfræktur á árunum 1944-45 í Vestmannaeyjum. Hann spilaði á dansleikjum í Alþýðuhúsinu og í Samkomuhúsinu í Vestmannaeyjum, lungann af þeim tíma sem hann bjó þar á árabilinu 1940-45. Lagið Æskuminning samdi hann árið 1944, en hann kom því lagi ekki á framfæri fyrr en í danslagakeppni S.K.T árið 1952, að hann sendi lagið í keppnina fyrir áeggjan konu sinnar. Kristján frá Djúpalæk var sveitungi og æskuvinur Ágústar og gerði hann texta við flest lög Ágústar. Árið 1945 fluttist Ágúst til Reykjavíkur með unnustu sinni sem hann hafði kynnst í Vestmannaeyjum, Guðrúnu Dagnýju Kristjánsdóttur. Hann var Kópavogsbúi frá 1951 og átti þar sitt heimili alla tíð ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum. Ágúst var einn af stofnendum Félags harmonikuunnenda í Reykjavík. Hann lést 28. júlí 1986.

Æskuminning

Ó, manstu gamlar æskuástarstundir
svo yndislegt var þá að vera til.
Litla kofann blómabrekku undir
bunulækinn upp við hamragil.

Um sumarkvöldið við sátum þar og undum.
Um sólarlag í blíðum sunnanþey.
Og litla blómið fagra er við fundum
í fjóluhvammi, það var gleym-mér-ey.

Manstu litlu lömbin út við stekkinn
litla rjóðrið fagra upp við hól.
Fuglinn litla er sætast söng á kvöldin
silungshylinn fram við kvíaból.

Ánni í dalnum ei við munum gleyma
oft við hlýddum blítt á hennar nið.
Allt var best og okkur kærast heima
unaðslegt í dalsins kyrrð og frið.

Ágúst Pétursson

Gunnar Gunnarsson

Stórskáldið Gunnar Gunnarsson var ekki frá Langanesströnd í þeim skilningi að hafa þar fæðst eða búið. Hins vegar var móðir hans, Katrín Þórarinsdóttir frá Bakka í Bakkafirði og afi hans var Þórarinn Hálfdánarson bóndi á Bakka. Segir nánar frá Þórarni hér annars staðar á síðunni, en hann er sá sem birtist sem "Ketilbjörn afi á Knerri" í bók Gunnars, Fjallkirkjan. Gunnar þekkti afa sinn vel, en hann dó 1916. Gunnar fæddist á Fljótsdal 18. maí 1889, næsta bæ við Skriðuklaustur sem hann eignaðist síðar. Fjölskyldan fluttust síðar að Ljótsstöðum í Vopnafirði vorið 1896. Ári síðar andaðist Katrín móðir hans. Móðurmissirinn var Gunnari þungbær. Ekki er ástæða til að rekja nánar skáldaferil Gunnars, enda verk hans þekkt um alla veröld og hafa komið út á mörgum tungumálum. Rétt er að nefna hann hér í sambandi vil Langanesskáldin og halda til haga tengingu hans við Ströndina.

 

Kristján Bender

Kristján Bender var vissulega ekki frá Langanesströnd, en hann er nefndur hér í lokin í fróðleiksskyni, vegna tengsla sinna við sveitina. Kristján fæddist á Borgarfirði eystra, hinn 26. mars 1915 og sleit barnsskónum á Austurlandi. Um tvítugt fluttist hann suður yfir heiðar og rithöfundarferill hans hófst fljótlega eftir það. Hann var um skeið formaður Rithöfundafélags Íslands. Kristján var mikill áhugamaður um laxveiði og mun það hafa ráðið miklu að hann keypti jörðina Miðfjörð I á Langanesströnd, sem á land að tveimur ágætum laxveiðiám, Miðfjarðará og Hölkná. Eins og sagt er frá hér að ofan bjuggu Kristján Bender og Kristján frá Djúpalæk í listamannaparadísinni Hveragerði á sama tíma um miðja síðustu öld. Líklega er óhætt að ganga út frá því að þeir hafi oft tekið tal saman og skáldið frá Langanesströnd frætt nafna sinn um ágæti sveitar sinnar og kosti Miðfjarðarjarðarinnar til að stunda laxveiði m.a í Hölkná, en Djúpilækur á land að ánni á hinum bakkanum. Á Miðfjarðarjörðinni hugðist Kristján dvelja við skriftir og veiðar í þeirri fegurð og friðsemd sem einkennir Langanesströnd. Kristján dvaldist þó ekki mikið fyrir austan, en hann lést ekki löngu eftir að hann keypti jörðina, nánar tiltekið árið 1975. Eftir hann liggja einkum smásögur og skáldsagan Hinn fordæmdi, sem kom út árið 1955.

 

Hagyrðingar og kvæðafólk

Meira hefur orðið til af kveðskap á Langanesströnd en þeim sem gefnn hefur verið út á prenti. Alþýðukveðskapur var vinsæll þar sem annars staðar og margt góðra skálda. Því miður hefur hins vegar varðveist mjög takmarkað af honum. Kveðskapur eftir ljóðelska og hagmælta menn eins og Ingvar Steinþórsson, Jónas Gunnlaugsson og Jónas Jóhannesson í Dalhúsum, sem bjuggu til mikið af góðum vísum og ljóðum, er að mestu glataður. Hér skal getið nokkurra einstaklinga sem þóttu hagmæltir.

Guðrún Vigfúsdóttir frá Bakka

Guðrún fæddist 17. september 1888 í Laxárdal í Þistilfirði. Hún var húsfreyja á Grímsstöðum og Bakka. Maður hennar var Friðrik Einarsson, bóndi á Grímsstöðum, Þistilfirði og síðar á Bakka. Hann lést 1930. Síðustu árin bjó Guðrún að Hrafnistu í Reykjavík, en hún andaðist 1974. Guðrúnu var margt til lista lagt og eftir hana hefur varðveist kveðskapur. Árið 1970 birtust eftirfarandi vísur eftir hana í Goðasteini, tímariti um menningarmál.

 

Trúin gefur fagran frið,
þó förlist þrótti mínum,
og víst mun drottinn leggja lið
lítilmagna sínum.

Þó að ellin þyngi spor
og þrautir myndi tárin,
skal þó einatt von um vor
verma hjartasárin.

Þú skalt ekki kulda kvíða,
kuldinn er af sjálfri þér.
Reyndu að trúa, biðja og bíða
og brosa gegnum tárin hér.

Leitaðu að því bjarta og blíða;
ég býst við, að þú finnir ljós,
sem léttir þér í lífi að stríða
og lætur á þyrnum spretta rós.

Þó að heimur ljóst og leynt
löngum særi hjarta,
yfir sortann get ég greint
geislann sólar bjarta.

Ingvar Steinþórsson

Einn sá maður á Langanesströnd sem talinn var með snjallari hagyrðingum var Ingvar Steinþórsson frá Miðfirði, sem síðar bjó í Mávabergi á Bakkafirði. Ingvar fæddist í Miðfjarðarnesseli árið 1907, sonur Stefaníu Stefánsdóttur frá Kverkártungu og Steinþórs Árnasonar frá Þorvaldsstöðum. Hann var því systursonur skáldsins Arnar Arnarsonar. Er Ingvar var þriggja ára var honum komið í fóstur í Miðfirði. Þar bjó hann til ársins 1957, þar af sem bóndi í 20 ár. Flutti inn á Bakkafjörð 1957 og vann m.a. við sjómennsku. Hann lést þremur árum síðar. Eitthvað hefur varðveist af kveðskap Ingvars og má það öðrum fremur þakka sr. Sigmari Torfasyni, sem af natni og eljusemi safnaði kveðskap í sveitinni, þar á meðal eftir Ingvar. Þar er um að ræða hreppsnefndarvísur og fleira sem hann skrifaði upp eftir Ingvari eða varðveitti. Þær vísur sem hér birtast höfðu börn Sigmars varðveitt eftir föður sinn og eru þeim færðar þakkir fyrir.

Bragurinn sem birtur er hér til hliðar nefnist Litli strokumaðurinn og var ortur eftir að drengur í sveitinni, sem var í heimavist á Skeggjastöðum, strauk þaðan einn daginn um vetur. Mikil leit fór í gang í sveitinni, en stráksi faldi sig lengi vel fyrir leitarmönnum. Hann kom þó í leitirnar um síðir og varð málið Ingvari að yrkisefni. Þetta er birt hér m.a. eð góðfúslegu leyfi systkina þess sem um er ort.

Í búðinni

(gjört í kaupstaðarferð á Bakkafirði 20.12.1956)

Ég gekk inn í búðina og bónar þar bað
þá bragna sem sátu þar inni,
en hjálpsemin átti ekki heima á þeim stað
þeir höfnuðu bóninni minni.

Einn sagði ég væri með þráa og það
sem hann þrálega er haldinn af sjálfur
uns boginn hann reikar í Bakkusar hlað
og blaðrar þar rúmlega hálfur.

Þetta var kaupfélags búðin björt
þar sem bændanna verkin tala
og aldrei á hluta annarra gjört
á öllu hin frjálsa sala.

Það hefir líka þróast ört
og þrifið fólkið úr dvala
þar sem áður sveitin var svört
sér nú í iðgræna bala.

Ingvar Steinþórsson

Litli strokumaðurinn

Burt úr skóla strákur strauk
stinn var gjóla mjöllin rauk
bak við hóla í fannir fauk
för í skjólið þannig lauk.

Síst vill doka sveinnin smár
sýndust loka vegi ár
hríðar stroka hrein við brár
hans í þokast auga tár.

Mela og grundir móður rann
manna fundum síst nú ann
föður undir fjósi hann
fár í lundu stansa vann.

Fyrst við dokar fjósvegginn
frost og rokið næddi kinn
dró frá loku og læddist inn
litli strokumaðurinn.

Hringir síminn hátt og snjallt
höldar stíma og leita om allt
þá um tíma flest var falt
færðist gríma um landið kalt.

Höfðu lýðir ljós í mund
lýstist víða upp freðin grund
báru kvíða, beysk var lund
byltist hríð um hæð og sund.

Lengi og víða leitað var
leitin, hlíðar, fjörurnar
þó um síðir fannst eitt far
farið lýði að drengnum bar.

Burtu kvíði úr brjóstum fló
biksvört hríðin úti hló.
Sveittur lýður sig burt dró
hjá svönnum blíðum veittist ró.

Ljóðaþáttinn læri drótt
linast máttur, allt er hljótt.
Bragar sláttinn felli eg fljótt
fer að hátta. Góða nótt.

Fleiri voru hagmæltir í sveitinni, s.s. Jónas "póstur" Gunnlaugsson, sem m.a. bjó í Steinholti og frændi hans, Þórhallur Jóhansson. Einnig verður að nefna Jónas Jóhannsson, kenndum við Dalhús. Vonandi verður hægt að birta kveðskap eftir þá hér síðar.

Uppfært 3. maí 2024
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?