Fara í efni

Sveitin

Heimildir eru víða að. Mjög er stuðst við ritið Sveitir og jarðir í Múlaþingi (Búkollu), en auk þess kirkjubækur, jarðabækur, manntöl, vesturfaraskrár o.fl.

Í fornri heimild segir svo: "Langanes er norðast í Austfirðingafjórðungi og horfir í landnorður, þar gengur Helkunduheiði eftir nesinu fram, hún skilur fjórðunga Austfirðinga og Norðlendinga og var þar settur upp hamar Þórs í heiðinni, sem fjórðunga skilur". Það sem áður hét Helkunduheiði er nú hluti Hallgilsstaðaheiði og Brekknaheiði og hefur í raun skipst í fjórar heiðar. Heitið Helkunduheiði hefur orðið tilefni vangaveltna um uppruna þess. Menn hafa talið það geta þýtt "heiðin sem komist verður um til Heljar." Líklegra er þó að það þýddi tröllkona, sú sem er kynjuð frá Hel. Enn aðrir hafa leitt líkum að því að nafnið sé runnið af orðmyndinni Hölkn (grjót eða grýtt land) og heiðin kallist Holknaheiði eða Helknaheiði. Það kemur heim og saman við landslagið og nóg er af Hölknám á svæðinu.

Sveitin á Langanesströnd er löng. Hún nær frá Fossdal á Gunnólfsvíkurfjalli norður undir Langanesi og að Stapaá milli Viðvíkur og Strandhafnar í Vopnafirði. Svæðið í Finnafirði og Miðfirði hefur verið nefnt Bót eða Strandaflói. Norðanvert við Finnafjörð er grunn vík milli Gunnólfsvíkurfjalls og Smyrlafells, sjálf Gunnólfsvíkin. Þar stóð nyrsti bær Norður-Múlasýslu eftir að mörk Skeggjastaðahrepps og Norður-Múlasýslu voru færð formlega árið 1841 og sá helmingur Langaness, sem áður tilheyrði hreppnum, var færður undir Sauðaneshrepp og Norður-Þingeyjarsýslu, svo sem segir frá annars staðar á síðunni. Svæðið nyrst í Bakkaflóa hefur verið nefnt Norðurströnd, en svæðið að botni Bakkafjarðar Miðströnd og hlutinn þaðan og að hreppamörkum við Vopnafjörð Austurströnd. Þó segja sumar heimildir að Langanesströnd heiti raunar öll með réttu Norðurströnd eða bara Strönd.

Einn helsti vísindamaður Íslands á sínum tíma, jarð- og landfræðingurinn Þorvaldur Thoroddsen (1855-1921), ferðaðist um landið á 19. öld og ritaði Íslandslýsingar. Hann ritaði lýsingu á Langanesströnd sumarið 1895. Segir þar að sveitin sé harðbýl, enda mál manna að harðindi byrjuðu oftast í sveitunum kringum Langanes. Í heiðardrögunum upp af byggðinni séu góðir sauðafjárhagar. Engin eiginleg fjöll séu upp af byggðinni, heldur aðeins bunguvaxnir hálsar. Mikið lausagrjót sé í hálsunum, gróður kyrkingslegur í úthögum og megi heita að háfjallagróður sé sums staðar alveg niður að sjó. Ströndin hafi löngum verið talin til harðindasveita, enda kuldanæðingar þar tíðir, sjóasamt og þokusuddar af sjó. Sveitin blasi við norðri og norðaustri og við ströndina gnauði úthafið, enda mjög brimasamt kringum alla ströndina og lendingar víðast hvar slæmar, malarfjörur neðan við háa kamba og afdrep lítið, nema þá helst í Bakkafirði.

Á Langanesströnd eru þrátt fyrir allt landkostajarðir og hlunnindi nokkur. Nútíma landbúnaðarhættir auðvelda mjög búskap þar sem stundum hefur þótt harðbýlt, þótt nútíminn, þar með talið samgöngubætur, hafi ef til vill haldið innreið sína helst til seint í sveitinni. Hér verður gerð gein fyrir jörðum í sveitinni og ýmsum fróðleik um þær. Hér verður einnig gerð tilraun til að sýna landamerki milli jarðanna, en ekki er vitað til þess að þau hafi verið teiknuð áður upp í heild sinni, svo sem hér er gert.

Hér að ofan hefur verið gerð tilraun til að draga landamerki jarða í Skeggjastaðahreppi á Langanesströnd. Landamerkin eru ekki endilega mjög nákvæm og þau skal ekki skoða sem áreiðanlega heimild um landamerki, en líklegt er að merkin séu nálægt því sem myndin sýnir. Merkin eru dregin eftir lýsingum í landamerkjabókum. Sum örnefni sem þar koma fyrir eru jafnvel ekki þekkt lengur og því stundum erfitt að draga merkin. Ekki er sýnt hvernig einstaka hjáleigur og smærri jarðir skiptast upp, t.d. merkin milli Hafnar og Steintúns eða hvernig Gunnarsstaðajörðinni hefur verið skipt í fernt.

Verður nú lýst einstökum jörðum á Langanesströnd, ásamt því að rekja ábúendasögu þeirra að hluta.

Viðvík

Viðvík var fyrrum eign Hofskirkju í Vopnafirði, en með ráðgjafabréfi 3. júní 1887 var jörðin lögð til Skeggjastaðakirkju og hélst svo til 1916, er hún varð bændaeign. Viðvíkurbær er úti undir sjó í Viðvík eða Viðvíkurdal, sem liggur sv. með Viðvíkurá austanvert á Digranesi, þar sem bil nokkurt 500-800 m. breitt verður milli sjávarhamra þeirra, sem liggja annars óslitið 16-18 km. vegalengd frá Steintúni um utanvert Digranes og Vopnafjarðarströnd. Landamerki Viðvíkur eru milli tveggja Stapaáa. Merkin við Höfn/Steintún eru við Stapaá á miðju digranesi. Síðan gilda sveitarfélagsmörk við Vopnafjarðarhrepp og markar þar önnur Stapaá. Viðvíkurbjörg eru 150-200 m. há og hrikaleg. Inn af þeim ganga auk Viðvíkurdals grasdalir tveir og liggja nokkuð hátt.

Viðvík er landmikil jörð og þótti góð bújörð, en jafnframt ein sú erfiðasta með tilliti til samgangna. Leiðir lágu bæði til Bakkafjarðar og Vopnafjarðar. Auðunarstaðir voru afbýli frá Viðvík og bærinn sá mun hafa verið um 1 km. ssv. frá Viðvíkurbæ handan ár. Eingöngu munnælasögur fara af býlinu, sem herma að það sé fornbýli og væri sérstök jörð fyrr á öldum. Þannig hafa menn talið að landnámsmaður að nafni Auðunn hafi numið Viðvík, en hans þó er ekki getið í landnámu.

Margir hafa búið í Viðvík gegnum aldirnar. Í manntölum 1860 og 1880 eru 20 manns skráðir í Viðvík. Árið 1880 búa þar Baldvin Guðmundsson og Elín K. Gísladóttir frá Hróarstungu, ásamt börnum, en sex þeirra komust upp. Sjá nánar umfjöllun um þau við Gunnólfsvík.

Heldur færra er í Viðvík árið 1890. Þá bjuggu þar Stefán Sigurðsson (f. 1854), ættaður frá Miðfjarðarnesi og kona hans, Salína Sigríður Metúsalemsdóttir. Móðir Stefáns var Þórdís Pétursdóttir, dóttir Péturs Stefánssonar bónda á Miðfjarðarnesi. Faðir Salínu var Metúsalem Pétursdóttir, sonur Péturs á Miðfjarðarnesi. Ekki er ljóst hvað varð um Stefán og Salínu eða hvenær þau féllu frá, en dóttir þeirra, Steinunn Guðbjörg, giftist Þorsteini Valdimarssyni frá Bakka, syni Valdimars Magnússonar á Bakka og eignuðust þau tvo syni. Hún dó rúmlega þrítug að aldri í Reykjavík.

Annar bóndi í Viðvík var Kristján S. Sigurbjörnsson, ásamt konu sinni, Salvör Níelsdóttur. Hann fór til Vesturheims 1893, sjá mynd af fjölskyldunni þangað kominni í vesturfaraskrá Skeggjastaðahrepps hér neðar.

Í Viðvík er draugurinn Viðvíkur-lalli, sem talinn er elsti draugur landsins. Segir nánar frá honum hér annars staðar á síðunni undir Þjóðsögum. Hann fylgdi fólki í Viðvík og gerði vart við á öðrum bæjum ef von var á fólki þangað úr Viðvík.

Um eða upp úr aldamótum settust að í Viðvík hjónin Einar Friðsteinn Jóhannesson (1868-1947), frá Sveinungavík á Melrakkasléttu og kona hans, Margrét Albertsdóttir (1878-1955). Þau voru bændur í Nýjabæ og síðar Viðvík. Árið 1918 fluttist fjölskyldan til Vestmannaeyja.

Skömmu eftir að Einar Friðsteinn flutti burt, fardagaárið 1919-1920, gerðust vofveiflegir atburðir í Viðvík. Þrenn ung hjón fluttust þangað vorið 1919 frá Vopnafirði, þar af tvenn systkini og hugðu á búskap á landmikilli jörðinni með grösugum engjum og grónum túnum. Um haustið lést ein kvennanna, Jóhanna Þorsteinsdóttir, af barnsförum, eftir að hafa alið tvíbura, dreng og stúlku, sem lifðu. Um vorið, 6. apríl 1920, hreif snjóflóð tvo bændanna, þá Ólaf Grímsson og Sigurð Þorsteinsson, er þeir voru við fjárgæslu í Viðvíkurbjörgum. Ólafur fórst en Sigurður bjargaðist af eigin rammleik hart leikinn. Hjónin ungu undu ekki lengur í Viðvík og fluttu þaðan öll burt. Af tvíburunum sem fæddust í Viðvík segir það að drengurinn, Sæmundur, lést um tvítugt. Stúlkubarnið, Jóhanna Oddný Margrét, fluttist til Vestfjarða og er sonur hennar Sighvatur Björgvinsson, lengi alþingismaður og ráðherra.

Árið 1923 fluttust Einar Friðsteinn og fjölskylda aftur frá Vestmannaeyjum til Viðvíkur og bjuggu þar, uns þau brugðu búi þar endanlega árið 1935/1936, er þau fluttu til Reykjavíkur. Skömmu síðar keypti bóndinn í Strandhöfn í Vopnafirði jörðina, en jarðirnar liggja saman á sveitarfélagsmörkum. Jörðin hefur síðan þá haldist í eign bænda í Strandhöfn og eingöngu verið nýtt til beitar.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Viðvík, sem lesa má hér.

Höfn

Höfn er jörð í Bakkafirði og innan hennar stendur þorpið sem nefnt hefur verið bæði Höfn og Sandvík, en heitir nú Bakkafjörður. Jörðin Höfn var bændaeign og í einkaeign lengi vel, en er nú í eigu sveitarfélagsins. Jörðin dregur nafn sitt af lendingu, sem þar var best á ströndinni, en þó óörugg áður en hafnarbætur voru gerðar. Steintún var hjáleiga frá Höfn. Innan Hafnar má finna rústir af seli og nokkur afbýli. Helstu afbýli í Höfn voru Kötlunes, rétt utan við Hafnarvíkina, Rauðubjörg sem nú nefnist Bjarg, Mókollsstaðir sem nú heitir Lindarbrekka og Skálafjara, sem fór í eyði 1707. Heimildir eru um að Sr. Jón Marteinsson, prestur á Skeggjastöðum 1660-1694 hafi fengið byggingabréf fyrir Höfn árið 1654 og verið leiguliði á helmingi jarðarinnar, sem þá var eign Brynjólfs Skálholtsbiskups Sveinssonar, uns Jón tók við prestþjónustu á Skeggjastöðum af föður sínum, Sr. Marteini Jónssyni, árið 1660. Jörðin var síðan ein margra í eigu Þorsteins "ríka" Bjarnasonar (f. 1795) og síðar eign stjúpsonar hans, Þórarins Hálfdánarsonar á Bakka. Árin 1879-1913 bjuggu í Höfn Jón Sigurðsson frá Höfn og kona hans, Guðrún Sigvaldadóttir. Sonur þeirra, Gunnlaugur A. Jónsson bjó þar 1913-16 og aftur eftir að hann flutti frá Dalhúsum. Þórarinn Valdimarsson frá Bakka, sonur Valdimars Magnússonar á Bakka, bjó í Höfn 1920-1935. Á sama tíma bjuggu m.a. í Höfn Þórarinn V. Magnússon frá Steintúni, Lúðvík Sigurjónsson kaupfélagsstjóri og kona hans, Sigrið Sigurjónsson, sem og Halldór Runólfsson, alnafni kaupmannsins þekkta, en Halldór var giftur systur Þórarins Valdimarssonar, Katrínu Valdimarsdóttur. Þá bjuggu í Höfn frá 1942-1957, Eiríkur Jakobsson frá Gunnarsstöðum, uns hann lést og kona hans Judit Friðfinnsdóttir frá Borgum í Vopnafirði. Synir þeirra, Kristján og Ólafur, voru með búskap í Höfn bjuggu á Sólvöllum og bróðir þeirra Jón Eiríksson bjó sem síðar segir í Steintúni um skeið og síðar í þorpinu, en alls komust átta börn Eiríks og Judit upp.

Hafnarbærinn sjálfur stóð á sjávarbakkanum við svonefnda Bæjarvík, nyrst í þorpinu. Mynd af honum er hér ofar. Þorpið Bakkafjörður myndaðist í landi Hafnar, aðallega eftir að verslun komst á fót um 1900 og smábátaútgerð óx fiskur um hrygg. Voru það einkum Færeyingar sem stunduðu útgerð og versluðu heimamenn við Fransmenn og fleiri útlendinga. Fáein grasbýli risu í landi Hafnar samhliða þessu, helst þessi:

  • Rauðabjörg. Forn hjáleiga eða afbýli frá Höfn. Ekki hefur verið hefðbundinn búskapur þar frá 1784, en árið 1908 kom Guðjón Sæmundsson þar á fót grasbýli og nefndi Bjarg. Guðjón var bóndi í Nýjabæ. Fram til 1932 voru á Bjargi 1-2 kýr og 25-30 rollur. Síðar voru þar búsett Hjálmar Friðriksson og Sigríður Sigurðardóttir og síðan börn þeirra, lengst af sonur þeirra, Hjálmar Hjálmarsson eða Lalli á Bjargi, uns hann lést árið 2008. Þar býr nú enginn.
  • Lindarbrekka. Í Hafnarlandi var afbýlið Mókollsstaðir, sem fór í eyði 1707. Réttum 200 árum síðar byggði Jóhannes Bjarnason frá Gunnarsstöðum upp á svipuðum slóðum grasbýli og kallaði Lindarbrekku, en hann hafði búið í Dalhúsum frá 1881. Síðar bjuggu á Lindarbrekku Guðmundur Ólafsson og synir hans, Hilmar og Ólafur (Hilli og Óli). Þeir feðgar stunduðu sjómennsku og höfðu nokkurt bú. Í steinhúsinu í Lindarbrekku hefur síðar m.a. verið rekið gistiheimili.
  • Bergholt. Árni Friðriksson byggði í Bergholti árið 1926, ræktaði tún og hafði á fóðrum eina kú og um 40 kindur. Öllu fé var fargað um 1970. Synir Árna, Friðmar (Himmi) og Eyþór, bjuggu í Bergholti og stunduðu útgerð. Enn stendur Bergholtshúsið, en fjárhúsin eru farin ekki alls fyrir löngu.
  • Steinholt. Þar byggði Guðni Gíslason, fyrrv. bóndi á Auðunarstöðum, hafði nokkrar kindur og stundaði sjómennsku. Síðast bjuggu í Steinholti Jónas póstur Gunnlaugsson og kona hans, Ólöf K. Jónsdóttir, frá Dalhúsum, með eina kú og nokkrar kindur.

Um þróun og uppbyggingu þorpsins Bakkafjarðar í landi Hafnar má lesa annars staðar á síðunni.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Höfn skráð eftir Þórarni Magnússyni í Steintúni, sem lesa má hér.

Steintún

Steintún var hjáleiga frá Höfn. Ábúenda er fyrst getið í manntalinu 1845. Þá búa í Steintúni Benedikt Sigurðsson og kona hans, Hallný Gísladóttir, ásamt tveimur dætrum og vinnumanni. Benedikt var vinnumaður á Skeggjastöðum en ættaður úr Eyjafirði. Forfeður Hallnýjar voru bændur í Höfn. Í manntalinu 1850 búa þar hins vegar Guðmundur Jónsson, Jóhanna Jónsdóttir og fjögur börn þeirra. Þau höfðu áður verið bændur á Ásbrandsstöðum í Vopnafirði. Öll börn þeirra fjögur dóu barnlaus.

Á árunum 1903-05 og 1919-1943 bjuggu í Steintúni Lárus B. Arngrímsson frá Djúpalæk og Steinvör Ingibjörg Árnadóttir frá Þorvaldsstöðum. Steinvör var systir Þórarins Árnasonar á Þorvaldsstöðum, afa systkinanna fjórtán frá Þorvaldsstöðum. Börn Lárusar og Steinvarar, Arnfríður og Árni, bjuggu í Steintúni 1943-1967 og voru þau síðustu ábúendurnir þar. Frá 1960-1965 bjuggu einnig í Steintúni Jón G. Eiríksson og Soffía Gunnarsdóttir, uns þau fluttu þaðan að Bakka og síðan í Höfn.

Steintún var um skeið eign Þórarins Hálfdánarsonar á Bakka, en hann átti jörðina Höfn. Sem fyrr segir er Steintún hjáleiga frá Höfn. Eftir hans dag átti jörðina Þórarinn Magnússon (Þórarinn frá Steintúni), barnabarn Þórarins Hálfdánarsonar. Nú er jörðin í eigu barnabarns Þórarins Magnússonar, en það er enn einn Þórarinn, nánar til tekið Þórarinn Ingólfsson læknir. Jörðin var jafnan í einkaeign og er svo enn. Steintún er á miðju Digranesi og nær út á nyrstu og ystu tanga þess, Svartnes (yst) og Byrþjóf. Mörk við Viðvík liggja við Stapaá inn undir Viðvíkurheiði og við Höfn frá Tóarnefi. Hábunga Digraness, um 200 m.y.s. liggur suður með Stapaá að vestan innan af Viðvíkurheiði og út á Viðvíkurbjörg, og er nyrsti kafli bjarganna í Steintúnslandi; þau enda á Ufs, austur upp af bæ.

Í Steintúni var löngum tvíbýlt og standa bæjarhúsin sitt hvorum megin árinnar. Bæirnir í Steintúni, sem nú eru hrörlegir mjög, standa í láglendishvilft frammi við sjó, klettabelti að baki, klettastapar stakir niður í tún, áin fossar fram af hárri bjargbrún upp af túni og heimreiðin bugðast niður bratt klif. Ekki er að ástæðulausu að mörgum þyki bæjarstæðið með þeim fegurri. Útsýni er vítt og fagurt frá Steintúni, ekki síst af klettunum ofan við bæinn. Vestan á bæjarnesinu er Skálafjara. Þar var afbýli samnefnt, sem fór í eyði árið 1707, og fornar verbúðartættur á bakkanum ofan við vitna um útróðra. Í túninu eru hólar tveir eða haugar, Bóndahóll og Húsfreyjuhóll, taldir álagahólar.

Árið 1943 hófst bygging vitahúss á Svartnesi í landi Steintúns, sem nefnist Digranesviti. Vegna stríðsátakanna var ekki unnt að afla nauðsynlegra tækja í vitann fyrr en árið 1947, en þá var hann útbúinn m.a. með gasljósatækjum. Vitinn var rafvæddur með straumi frá rafveitu árið 1988.

Jörðin féll úr ábúð 1967.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Steintún, sem lesa má hér.

Bakki

Jörðin Bakki er og hefur verið bændaeign frá fornu fari. Bakki á Langanesströnd er nefndur í rekaskrá Skálholtsstóls árið 1270. Fyrir og fram um miðja 19. öld bjó þar Þorsteinn ríki Bjarnason, eyfirskur að ætt. Þorsteinn hófst úr mestu fátækt og varð stórauðugur maður. Um ævi hans má lesa nánar hér. Þorsteinn kvæntist Gunnhildi Sigurðardóttur frá Álandi í Þistilfirði. Eftir lát hennar gekk hann að eiga Hólmfríði Sigurðardóttur frá Hólum í Laxárdal. Sonur hennar af fyrra sambandi og stjúpsonur Þorsteins ríka var Þórarinn Hálfdánarson, sem var afi Gunnars Gunnarssonar skálds og er fyrirmynd "Ketilbjarnar afa á Knerri" í bók Gunnars, Fjallkirkjunni. Þorsteinn keypti Bakka og fluttist búferlum þangað frá Álandi, en ætlað er að hann hafi heyrt af ábatasömum viðskiptum íbúa á Langanesströnd við útlendinga. Vitað er að Þorsteinn verslaði mikið við útlendinga eftir að hann fluttist á Bakka. Hann bjó þar til dauðadags. Hann átti margar jarðir og fjölmarga afkomendur á Strönd og víðar.

Þórarinn Hálfdánarson, stjúpsonur Þorsteins ríka, var ekki mjög síðri stórbokki en fósturfaðir sinn. Hann bjó stórbúi á Bakka og verslaði mikið við Fransmenn. Hann þótti "svarri í skapi og stórlátur." Segja sumar heimildir að hann hafi átt í sífelldum málaferlum, en ekki eru heimildir um slíkt. Árið 1896 gekk hins vegar í Landsyfirrétti dómur í máli Þórarins gegn systrum hans tveimur, Sigríði og Margréti, eftir áralangar þrætur fyrir dómstólum. Málavextir voru þeir að árið 1863 gerði Hólmfríður móðir systkinanna tvö ráðstöfunar- eða gjafabréf til handa Þórarni. Með öðru ráðstafaði hún Þórarni til fullkominnar eignar 3/4 pörtum í jörðinni Oddsstöðum með hjáleigunni Núpskötlu og 2/3 hlutum jarðarinnar Hafnar með hjáleigunni Steintúni. Með hinu bréfinu ráðstafaði hún til Þórarins helmingi jarðarinnar Bakka. Hólmfríður lést 1882 og var eignunum þá ráðstafað samkvæmt bréfunum. Með skiptaréttarúrskurði 1883 voru skiptin eftir bréfunum hins vegar ógilt að kröfu systranna. Þórarinn skaut málinu til Landsyfirréttar, sem ógilti úrskurð skiptaréttar og mælti fyrir um að skiptum skyldi lokið samkvæmt gjafabréfunum, þannig að Þórarinn væri réttur eigandi jarðanna, þó þannig að eigi færi fram úr 1/4 hluta eigna dánarbúsins, en samkvæmt þágildandi lögum mátti ráðstafa frjálsri ráðstöfun svo miklum hluta eigna án tillits til skiptareglna.

Ágætlega mun þó hafa farið á með þeim systkinum þrátt fyrir þetta. Í bók Gunnars Gunnarssonar, Fjallkirkjunni, fara þessi mál hins vegar á annan veg, svo sem kunnugt er. Þar sigrar "Magga systir" Ketilbjörn afa á Knerri fyrir Hæstarétti í erfðadeilumáli þeirra um Grímsstaðajörðina og er Ketilbjörn afi allt annað en ánægður með það óréttlæti heimsins. Á þessum hluta Bakka (austurbærinn) bjó síðan lengi Valdimar Magnússon, stjúpsonur Þórarins (sonur Hólmfríðar af fyrra hjónabandi) og síðar synir Valdimars, Magnús og Þorsteinn Valdimarssynir. Hluturinn nú í eigu afkomenda Magnúsar og Þorsteins.

Hinn helming Bakka keypti Lars Höjgaard, er fluttist þangað frá Strandhöfn í Vopnafirði árið 1878. Hann var sonur Nicolai Nicolaissonar Höjgaard, er bjó að Vindfelli í Vopnafirði. Nicolai sá var „hraustmenni, áhugamaður og mesti dugnaðarmaður og starfssamur" og mun mun hafa komið því fyrstur á að notuð var lína til fiskveiða á Vopnafirði. Faðir Nicolai Nicolaissonar var Nicolai Höjgaard, danskur að ætt. Segja heimildir að hann hafi verið danskur dýralæknir og komið hingað til lands til að reyna að ráða bót á fjárkláðanum, sem var um langt skeið landlægur á Íslandi. Sonur Lars, Jón Nicolai Höjgaard, bjó síðar á þessum hluta Bakka (norðurbænum) og síðar dóttir Jóns, Lára Höjgaard ásamt manni sínum, Jóni Sigurðssyni. Allir fjórir bræður Jóns Nicolaissonar Höjgaard (föður Láru) fóru til Vesturheims. Það voru Þorsteinn (fór 1882) sem fór frá Helgafelli í Vopnafirði, Kristján Þórður (fór 1892), Stefán (fór 1886) og Nicolai Gunnlaugur (fór 1887), en þeir þrír fóru úr Skeggjastaðahreppi. Bræðurnir eiga marga afkomendur vestanhafs, einkum í N-Dakóta. Mun barnabarn Kristjáns Þórðar m.a. eitt sinn hafa boðið sig fram sem ríkisstjóra N-Dakóta, en þó ekki hlotið kosningu. Stafsetningar ættarnafnsins þar vestra eru mismunandi, en algengastar eru Heigaard og Hygaard.

Samkvæmt jarðamati frá 1849 fylgja jörðinni Bakka afbýlin Nýibær og Sigurðarstaðir. Frá Nýjabæ segir hér að neðan, en Sigurðarstaðir stóðu utantil við Hafnará og voru í ábúð 1860-1887. Afbýli frá Bakka voru einnig Grísarholt, sem fór í eyði 1856 og Kot. Sel voru þar tvö, Ytra- og Innrasel, bæði við Hafnarána.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Bakka, sem lesa má hér.

Nýibær

Landið sem tilheyrir Nýjabæ virðist áður hafa tilheyrt jörðinni Bakka eða Skeggjastöðum, en um það voru áhöld og þræta milli Bakka og Skeggjastaða. Hafi landið af þeim sökum m.a. verið nefnt "Þrætutungur". Býli á Nýjabæ byggðist fyrst 1840 sem hjáleiga frá Bakka fyrir tilstuðlan Þorsteins "ríka" Bjarnasonar sem vildi með því treysta eignarhald sitt á landinu. Í sóknarlýsingu séra Hóseasar Árnasonar, prests á Skeggjastöðum, frá árinu 1841 er farið um jörðina Nýjabæ svofelldum orðum: „Nýibær stendur í svonefndum Þrætutungum, ... Svo virðist sem landið gangi til Bakka vegna hefðar," en fyrir liggur að prestar á Skeggjastöðum höfðu ekki amast við því að bændur á Bakka nýttu landið til beitar.

Býlið var kallað Jónsstaðir eftir fyrsta ábúandanum þar, Jóni Guðmundssyni sem bjó þar 1840. Um eða eftir 1920 var bærinn fluttur nokkru neðar, á bakka Gæsagilsár, og nefndur Nýibær síðan, en gamla bæjarstæðið kallað Jónsstaðir. Að vestan takmarkast landið við Gæsagilsá, en að austan (Bakkamörk) liggur markalínan frá hreppamörkum norður með Bakkanúp að vestan, með læk úr Bakkavatni í Hölkná og fylgir síðan Hölkná út á móts við Miðmundafell í Skeggjastaðalandi. Landið er að mestum hluta heiðarland allvel gróið og engjar taldar þar sæmilegar forðum. Samkvæmt heimildum var samfelld búseta í Nýjabæ frá því að jarðarinnar er fyrst getið og til vors 1945. Síðustu ábúendur í Nýjabæ voru Sæbjörn Þórarinsson frá Þistilfirði, bóndi og söðlasmiður og Ásta Laufey Guðmundsdóttir, fædd í Reykjavík en alin upp í Nýjabæ. Jörðin er nú í helmingseigu Langanesbyggðar og helmings eigu eigenda Dalhúsa.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Nýjabæ, sem lesa má hér.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir eru landnámsjörð Hróðgeirs hvíta Hrappssonar. Þeir eru taldir meðal kirkjustaða í kirknatali Páls Jónssonar biskups um 1200. Þá eru þeir nefndir í rekaskrá Skálholtsstóls frá um 1270. Skeggjastaðir voru dæmdir í vernd og eign Stefáns Jónssonar Skálholtsbiskups árið 1504. Upp úr því verða Skeggjastaðir staður (beneficium). Kirkjan á Skeggjastöðum átti áttung í heimalandi samkvæmt máldaga sem Oddeir biskup Þorsteinsson setti og er rakinn til ársins 1367. Til eru tveir óársettir máldagar Skeggjastaðakirkju sem taldir eru frá árunum 1491-1518 þar sem landamerkjum er lýst. Í máldagasafni Gísla Jónssonar biskups frá um 1570 (1570 - 1576) kemur fram að kirkjan á Skeggjastöðum eigi áttung í heimalandi.

Skeggjastaðir hafa nokkrum sinnum verið vísiteraðir, m.a. árið 1641, í tíð Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti. Var landamerkjum og löndum þá lýst, ásamt helstu hlunnindum jarðarinnar. Skeggjastaðaprestur samdi skýrslu um eignir kirkjunnar sem er dagsett 11. janúar 1844. Þar kemur fram að þrjú kot séu byggð úr heimalandi Skeggjastaða. Í fyrsta lagi Barð sem sé fast við heimagarðinn og að það skilgreinist fremur sem húsmennska en afbýli. Í öðru lagi Dalhús sem er sögð gömul hjáleiga en finnist hvergi metin því land hennar sé óákveðið og óúrskipt. Loks Gæsagil sem byggt hafi verið fyrir 14-15 árum en hvorki metið til hundraðatals né landi þess úrskipt.

Landamerkjamál á milli jarðanna Skeggjastaða og Bakka var tekið til umfjöllunar í aukarétti að Skeggjastöðum 16. júní 1886. Fyrir réttinn mættu Þórarinn Hálfdánarson, fyrir eigin hönd og meðeiganda síns að Bakka, Nikulásar Höjgaard, og séra Jón Halldórsson á Skeggjastöðum. Að lokinni áreið skýrðu málsaðilar dómsmönnum frá hugmyndum sínum um landamerkin eftir máldaga Vilchins biskups og sjálfu landslaginu. Að því yfirveguðu var komist að niðurstöðu um landamerki milli Skeggjastaða og Bakka.

Hinn 20. september 1915 sendi umsjónarmaður hjáleiganna Dalhúsa og Gæsagils, Ingvar Nikulásson Skeggjastaðaprestur, yfirvöldum beiðni Gunnlaugs A. Jónssonar, um að fá að kaupa hjáleigurnar. Ingvar setti sig ekki uppá móti þessari sölu en í bréfinu sem hann sendi yfirvöldum minnist hann á nokkur atriði henni viðvíkjandi. Hann minnist t.d. á að byggð í Dalhúsum hafi verið stopul undanfarin ár og að Gæsagil hafi alls ekki verið byggt í mannsaldur. Gunnlaugur A. Jónsson, bóndi í Dalhúsum og hreppstjóri, keypti jarðirnar af ríkinu og þar með undan Skeggjastöðum, hinn 13. október 1922. Í kaupsamningnum kemur fram að undanskilin sölunni séu námar sem hafi fundist eða kunna að finnast á jörðinni, fossar og nýtingarstaða þeirra auk reka.

Í Gæsagili var fyrr sel. Afbýli, Barð, stóð við Barðslæk skammt sa. af bæ, byggt 1834-48. Auk Gæsagilssels er vitneskja um Miðmundasel undir Miðmundafelli (eyktamerk) um 3 km ssv. af bæ. Bærinn er vestanvert við botn Bakkafjarðar austan undir Skeggjastaðahálsum. Jörðin liggur norðan frá sjó vestan Skarfatanga við fjarðarmynni og ssv.á hreppamörk við Hámundarstaði í Vopnafirði innst í Gæsagilsárdrögum. Staðarheiði er víðáttumikil. Þar eru nokkrir lágir fjallakollar, Þríhöfðahæð og Rauðinúpur (368 m), Tafla inni undir Urðarhlíð og Staðarnúpur sv. af Staðarvatni. Bungur Urðarhlíðar eru 420-430 m.

Heimildir benda ekki til annars en að samfelld búseta hafi verið að Skeggjastöðum frá því að jarðarinnar er fyrst getið. Í afsals- og veðmálabókum kemur fram að eftir gerð landamerkjabréfsins hefur jörðinni verið ráðstafað með hefðbundnum hætti. Nánar er fjallað um Skeggjastaðakirkju annars staðar á síðunni.

Dalhús

Dalhús eru gömul hjáleiga frá Skeggjastöðum og kölluð Dalshús stundum í seinni tíð og raunar fyrr, t.d í fasteignamati 1961. Jörðin var í eyði 1776-1822. Jörðin er talin hjáleiga í jarðamatsbókum. Skeggjastaðakirkjueign árið 1918 en var um það leyti sameinuð eyðihjáleigunni Gæsagili og seld undan staðnum og hefur verið í bændaeign síðan.

Jóhannes Bjarnason frá Gunnarsstöðum og Friðjóna Friðbjörnsdóttir frá Melrakkasléttu bjuggu í Dalhúsum 1881-1907. Jóhannes var dóttursonur Péturs Stefánssonar á Miðfjarðarnesi og sonur Guðrúnar Pétursdóttur, sem var húsfreyja á Gunnarsstöðum og síðar á Sævarlandi í Þistilfirði. Þau fluttu síðan inn á Bakkafjörð, nánar tiltekið í Lindarbrekku. Jóhannes var móðurbróðir Eiríks Jakobssonar, bónda í Höfn, Gunnlaugs Jakobssonar, föður Jónasar Gunnlaugssonar pósts, einnig ábúanda í Dalhúsum, sbr. hér að neðan og Jónasar Jakobssonar bróður þeirra, föður Þóhalls Jónassonar kennara og Jakobs Jónassonar rithöfundar.

Eins og rakið er hér að framan seldi ríkissjóður Dalhús og Gæsagil Gunnlaugi (A)ndreas Jónssyni árið 1922, en áður hafði sr. Ingvar Nikulásson sóknarprestur á Skeggjastöðum lagt blessun sína yfir þá ráðstöfun. Gunnlaugur var bóndi í Dalhúsum frá 1916 og hreppstjóri. Í manntali 1910 er hann sagður leigjandi í kaupmannshúsinu í Höfn, Bakkafirði. Vorið 1924 fluttist Gunnlaugur með fjölskyldu sína aftur inn til Hafnar í Bakkafirði þar sem hann var ráðinn til að veita forstöðu verslun Jakobs Gunnlaugssonar og co., sem tekið hafði við verslun af Halldóri Runólfssyni. Gunnlaugur varð bóndi í Höfn og hafði sem verslunarstjóri mikið umleikis. Vorið 1932 fluttist fjölskyldan til Akureyrar. Gunnlaugur var þá orðinn veikur og andaðist vorið eftir, 56 ára gamall. Gunnlaugur var kvæntur Oktavíu Stefaníu Jóhannesdóttur og áttu þau fimm börn. Árið 1924 settust að í Dalhúsum Jónas "póstur" Gunnlaugsson og Ólöf Kristín Jónsdóttir. Jónas var sonur Gunnlaugs Jakobssonar, sem áður var nefndur. Gunnlaugur, faðir Jónasar "pósts" var sonur Jakobs Jónassonar frá Þistilfirði og Þórdísar Jósefsdóttur, barnabarns Péturs Stefánssonar á Miðfjarðarnesi, er bjuggu á Gunnarsstöðum. Ólöf Kristín var frá Akureyri. Jónas og Ólöf bjuggu í Dalhúsum til ársins 1943, er þau fluttu inn á Bakkafjörð og bjuggu þá í Steinholti. Jörðin Dalhús komst svo í eigu Einars Höjgaard, sem var barnabarn Nicolai Höjgaard og bróðir Láru Höjgaard á Bakka. Jörðin er nú eign afkomenda Einars.

Dalhúsabærinn stendur í daldragi eða hvammi skammt ofan við ármót Dalhúsa- og Gæsagilsár, um 3,5 km suðaustur frá Skeggjastöðum og stutt vestan vegar af Sandvíkurheiði. Að vestan liggur landið að mörkum Skeggjastaða, en að austan deila Gæsagilsá og Bakkaá mörkum við Nýjabæ og Bakka um 1 km út fyrir bæ. Landið nær rétt suður fyrir Staðarvatn og gengur þar í odd við Gæsagilsá. Hér er meðtalið land Gæsagils. Mestur hluti lands er undir 200 m hæð og bærinn í 20-30 m hæð.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Dalhús, sem lesa má hér.

Gæsagil

Gæsagil var fyrrum sel frá Skeggjastöðum, en mannbyggðist 1830 eða 1831, er Guðmundur Jakobsson settist þar að. Guðmundur var fæddur 1795 í Svalbarðssókn. Í manntali 1840 er hann sagður búa að Gæsagili ásamt konu sinni, Ingibjörgu Þorsteinsdóttur, sem einnig var úr Svalbarðssókn, en varð síðar vinnukona í Steintúni. Í manntali 1845 hafa bæst við á Gæsagili Jón Matthíasson og Rósa Jónsdóttir, ásamt þremur börnum sínum. Jón var vinnumaður í Garðssókn, síðar bóndi á Gæsagili og síðan á Skálum í Vopnafirði. Gæsagilsbýlið hélst í ábúð til 1903, en ekki samfellt, var t.d. í eyði á árunum 1881-1901. Gæsagilsbærinn var færður um set í landinu 1857 og var þá nefndur Melar, en fluttur aftur á fyrri stað 7 árum síðar og þá upp tekið fyrra nafn. Bærinn var rétt vestan við Gæsagilsá um 4 km inn til heiðar suður af Dalhúsum, stóð niðri í gili á litlum valllendishól. Gæsagil var sameinað Dalhúsum árið 1918 og er ekki lengur til sem sérstök fasteign.

Þorvaldsstaðir

Þorvaldsstaðir eru sem næst miðri sveit, og landareignin nær norðan frá Bakkaflóa og suður í Hágangaurð norður af Ytri-Hágangi. Austurlandamörk við Skeggjastaði eru við Merkilæk vestan Skeggjastaðahálsa og fylgja innar áfram til suðurs Staðará inn á Urðarhlíð. Að vestan eru mörk við Djúpalæk með Djúpalæknum frá sjó og inn í Bláfellsdalsbotn. Þangað eru um 11 km utan frá túntanganum við sjó.

Jörðin var um miðja 19. öld í eigu Árna Þorkelssonar frá Ytra-Álandi, síðar bónda í Miðfjarðarnesseli og á Þorvaldsstöðum, og konu hans, Guðríðar Árnadóttur úr Skútustaðasókn, ljósmóður og húsfreyju. Árni lést árið 1887 og við búskapnum tók sonur þeirra hjóna, Þórarinn Árnason, er fæddur var árið 1868 og bjó stórbúi á Þorvaldsstöðum. Sama ár og Árni lést kom í Þorvaldsstaði til vinnumennsku Ingveldur Sigurðardóttir, móðir skáldsins Arnar Arnarsonar, en maður hennar drukknaði í Kverká í maí 1887 og hafði heimilið í Kverkártungu verið leyst upp í kjölfar þess. Ingveldur bjó með Þórarni alla ævi eftir að hún kom í Þorvaldsstaði. Hún átti nokkur börn fyrir, sem dreifst höfðu um sveitina eftir lát manns hennar, en eitt barnanna, Örn Arnarson (Magnús Stefánsson), síðar skáld, kom með henni í Þorvaldsstaði. Hann var yngstur systkinanna, aðeins þriggja ára gamall. Þórarinn og Ingveldur eignuðust saman eina dóttur, Þórunni Björgu Þórarinsdóttur og varð hún einkadóttir Þórarins. Þórunn var merkileg kona. Hún varð ljósmóðir, eins og amma sín, og tók á móti flestum börnum í sveitinni meðan hún lifði. Sjálf eignaðist hún fjórtán börn með Haraldi Guðmundssyni úr Skagafirði og komust þrettán þeirra upp. Afkomendur hennar eiga Þorvaldsstaði í dag og hafa systkinin tvö sem bjuggu þar lengst einungis nýlega brugðið búi á Þorvaldsstöðum.

Fleiri bjuggu á Þorvaldsstöðum um skeið. Hóseas Árnason, bróðir Þórarins, bjó þar 1904-1924. Steinþór bróðir þeirra bjó á Þorvaldsstöðum í nokkur ár þar til hann flutti til Vesturheims. Hann er kominn aftur 1907 og býr eftir það í Miðfjarðarnesseli. Þá bjó Lárus Arngrímsson á Þorvaldsstöðum 1905-1919, uns hann fluttist í Steintún.

Þorvaldsstaða er getið í rekaskrá Skálholtsstóls frá um 1270. Hinn 22. ágúst 1669 seldi Brynjólfur biskup Sveinsson í Skálholti Sölva Gunnlaugssyni Hjarðarhaga og fimm hundruð úr Skjöldólfsstöðum, samtals 15 hundruð, en fékk í staðinn Þorvaldsstaði á Ströndum.

Heimildir benda ekki til annars en að samfelld búseta hafi verið að Þorvaldsstöðum frá því að jarðarinnar er fyrst getið.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Þorvaldsstaði, sem lesa má hér.

Djúpilækur

Jörðin er bændaeign frá fornu fari og eru Gunnarsstaðir hjáleiga þaðan, samkvæmt jarðamati frá 1947 og fasteignamati 1961. Djúpilækur er fyrir miðjum Bakkaflóa og nær utan frá sjó og inn í Bláfellsbotn, og eru þangað 7-8 km, en strandlengjan um 2,5 km. Einnig á jörðin hálfa Hölkná (veiði) frá sjó og inn þangað sem Sellækur fellur í hana, og á það rót sína að rekja til þess, að fyrr meir átti Djúpilækur land það austan við Hölkná sem nú fylgir Gunnarsstöðum. - Selrústir eru á Selhól við Sellæk.

Á Djúpalæk bjuggu Eiríkur Þorsteinsson (áður bóndi í Gunnólfsvík og á Gunnarsstöðum) og Ljótunn Einarsdóttir. Eiríkur var bróðir Matthildar Þorsteinsdóttur, sem var gift Þorsteini Þorsteinssyni, syni Þorsteins ríka, en Matthildur og Þorsteinn bjuggu í Miðfirði. Frá 1901-1937 bjó sonur Eiríks og Ljótunnar, Einar V. Eiríksson, á Djúpalæk.

Jörðinni var eftir fráfall Einars V. Eiríkssonar skipt í þrennt milli sona hans, Sigurðar, Steinþórs og Þórarins, en þeir voru hálfbræður Kristjáns skálds frá Djúpalæk Einarssonar. Sigurður stofnaði nýbýli á sínum þriðjungi og nefndi Bjarmaland. Hlutur Steinþórs var auðkenndur sem Djúpilækur I og hlutur Þórarins Djúpilækur II. Nýtt íbúðarhús var reist á jörðinni árið 1928 og voru í því tvær íbúðir. Átti Steinþór austurenda hússins en Þórarinn vesturenda. Allir áttu bræðurnir sín tún en utan girðinga var land óskipt í jafnri eigu býlanna þriggja. Hlunnindi voru einnig í jafnri eigu, svo sem reki, dúntekja og veiði. Bræðurna Sigurð, Steinþór og Þórarin átti Einar með fyrri konu sinni, Sigurlaugu Alexandersdóttur frá Felli, en hún lést 1913. Faðir hennar, Alexander og bróðir, Benjamín Alexandersson, fluttu báðir til vesturheims. Seinni eiginkona Einars var Gunnþórunn Jónasdóttir og eignuðust hún og Einar saman fimm uppkomin börn, þeirra á meðal skáldið Kristján og Hilmar Einarsson, fiskverkanda á Bakkafirði. Gunnþórunn var dóttir Jónasar Jakobssonar frá Gunnarsstöðum og síðar bónda í Nýjabæ, bróður Eiríks og Gunnlaugs Jakobssona, sem áður er getið og því systir Þórhalls og Jakobs Jónassona.

Samkvæmt jarðamati frá 1849 tilheyrir afbýlið Gunnarsstaðir jörðinni Djúpalæk. Merki voru sett milli jarðanna Djúpalækjar og Gunnarsstaða um 1920. í jarðamatinu kemur einnig fram að jörðin eigi „afrétt“ fyrir sig. Djúpilækur fór í eyði árið 1966, sama ár og eftirlifandi eiginkona Þórarins Einarssonar lést.

Djúpilækur er nefndur í rekaskrá Skálholtsstóls árið 1270.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Djúpalæk, sem lesa má hér.

Bjarmaland

Eins og áður segir er Bjarmaland nýbýli í landi Djúpalækjar, stofnað af Sigurði Andrési Einarssyni frá Djúpalæk, eftir andlát föður hans árið 1937. Sigurður bjó þar alla tíð eftir það með systur sinni, Laufeyju Einarsdóttur. Sigurður lést árið 1987 og bjó Laufey ein eftir það að Bjarmalandi. Hún lést árið 2006.

Gunnarsstaðir, Veðramót og Hölkná

Gunnarsstaðir eru upphaflega hjáleiga frá Djúpalæk og bændaeign. Gunnarsstaðir voru uppbyggðir árið 1829. Áður var þar Gerði, afbýli frá Djúpalæk; það fór í eyði 1777. Landamörk eru að nv. við Hölkná frá sjó og til upptaka í Hölknárdrögum og áfram þaðan suður á Ytri-Hágang. Austurmörk liggja sunnan til að Skeggjastöðum og Þorvaldsstöðum. Síðan með Sellæk innan frá Sellækjardragi og út á móts við bæ, en eftir það á jörðin 500-700 m ræmu austan við Sellæk og Hölkná til sjávar (Árvík). Landið er breitt innan til, um 5,5 km við Sauðhöfða. Frá Hölknárósi suður á Hágang eru 18 km. Mýrlendið fylgir Hölkná allt upp í Hölknárdrög skammt nv. af Hágangi. Í Hágangaurð (300-600 m) eru grjóthæðir ríkjandi, en gróðurgeirar þó víða, vaxnir grasvíði, smjörlaufi og öðrum fjallagróðri. Hágangaurð er annars geysistór auðn vestur og norður af Ytri-Hágangi, grýtt, víðast flöt og ísaldarleg. Austurjaðar hennar er Urðarhlíð upp af Staðarheiði, en norðvesturjaðarinn heitir Urðarbrún og veit að dölum Djúpalækjar og milli Sellækjar og Hölknárdraga. Þar rísa Bláfjöllin tvö.

Gunnarsstaðir heita eftir stofnanda jaðarinnar, Gunnari Stefánssyni frá Miðfirði, bróður Péturs Stefánssonar á Miðfjarðarnesi, sem stundum hefur verið minnst á hér að framan. Þeir voru synir Stefáns Jónssonar bónda í Miðfirði. Árið 1828 skrifaði Gunnar amtmanni í Norður- og Austuramtinu og sagðist hafa byggt bæ á Djúpalækjarseli árið áður með samþykki jarðeiganda og allra sveitarmanna. Sótti hann um sem nýbýlingur að verða eigandi að jörðinni, sem hann nefndi Gunnarsstaði, og þurfa engu að svara til sýslumanns, prests eða kirkju í 20 ár. Í bréfi, 19. febrúar 1829, til sýslumanns Norður-Múlasýslu tilkynnti amtmaður, að Gunnar og kona hans yrðu undanþegin skatti og tíund samkvæmt 10. gr. nýbýlatilskipunarinnar, en samkvæmt 3. gr. hennar gæti hann ekki öðlast eignarrétt á býlinu. Og samkvæmt því, sem gefið hefði verið upp, gæfi amtið honum ekki nýbýlingsbréf, heldur yrði hann að semja við jarðeigandann um landskuld og gjöld af býlinu.

Í jarðamati 1849 eru Gunnarsstaðir sagðir afbýli frá Djúpalæk, taldir 3 hundruð að dýrleika. Heimajörðin á „afrétt“ fyrir sig.

Jakob Jónasson úr Þistilfirði og Þórdís Jósefsdóttir frá Miðfjarðarnesi bjuggu á Gunnarsstöðum 1864-1907. Sonur þeirra, Eiríkur Jakobsson (síðar bóndi í Höfn) bjó á Gunnarsstöðum 1907-1934. Frá 1933-1960 bjuggu á Gunnarsstöðum Ásgeir Torfason frá Fagranesi á Langanesi og Svanhvít Halldórsdóttir frá Syðri-Brekkum á Langanesi.

Síðar voru stofnuð tvö nýbýli á hálfu landi Gunnarsstaða árið 1950, Veðramót I og II, hvort um sig á ¼ hluta jarðarinnar. Ásgeir og Svanhvít afsöluðu ¼ jarðarinnar til dóttur sinnar, Dýrleifar Ásgeirsdóttur, hinn 5. ágúst 1955 og fékk sá partur nafnið Veðramót I. Dýrleif bjó þar með manni sínum, Þórhalli Árnasyni frá Miðfjarðarnesseli (þekktur sem Halli á Veðramóti), næstu áratugi. Á Veðramóti II bjuggu bróðir Þórhalls, Árni E. Árnason og kona hans, Guðrún Ágeirsdóttir, systir Dýrleifar, frá 1949. Nýnefnið Hölkná var kunngert 5. september 1956. Þar bjuggu Kristján Gunnarsson frá Kúðá Þistilfirði og kona hans, Halldóra Margrét Ásgeirsdóttir, systir Dýrleifar og Guðrúnar. Eru Gunnarsstaðir í dag því aðeins fjórðungur hins upphaflega lands Gunnarsstaða, sem stofnaðir voru 1829 af Gunnari Stefánssyni.

Til er örnefnaskrá fyrir Gunnarsstaði, sjá nánar hér. Einnig nokkur svör Dýrleifar Ásgeirsdóttur og Árna E. Árnasonar, síðustu ábúenda Gunnarsstaðajarðarinnar, við fyrirspurn Örnefnastofnunar, sjá hér.

Melavellir

Melavellir eru nýbýli, stofnað í landi Miðfjarðar upp úr 1950 á ¼ hluta lands Miðfjarðar af Gunnlaugi Antonssyni, frá Grímsstöðum á Fjöllum og Sigríði Sigurðardóttur, fósturdóttur Jónasar Pálssonar, bónda í Kverkártungu og síðar Miðfirði. Jónas afsalaði jarðarpartinum til þeirra með afsali árið 1951, en það var ekki fyrr en tveimur árum síðan sem gerð var landskiptagjörð. Þar kemur fram að m.a. sé um að ræða 15 ha. ræktarland úr jörðinni Miðfjörður I, er takmarkist af melbrúnunum ofan við tún í Miðfirði að norðan, en að suðvestan úr fremri vörðu undir hálsi í vörðu á melbrún og að norðaustan úr ytri vörðu á hálsi í túngirðingu í Miðfirði. Sjá nánar hér um stofnun nýbýlisins. Gunnlaugur bóndi féll frá 1976. Á Melavöllum var búskapur fram yfir 1980.

Miðfjörður

Miðfjörður er inn af botni Miðfjarðar og á allt land milli Miðfjarðarár og Hölknár suður á hreppamörk vestur af Ytri-Hágangi. Jörðin er víðáttumikil. Mikill hluti hennar er Miðfjarðarheiði, hæst 466 m sunnan til í landi Miðfjarðar, en lítð eitt hærri sunnan hreppamarka Vopnafjarðar.

Miðfjarðará rennur á merkjum Miðfjarðar við Kverkártungu. Áin er yfir 40 km löng utan frá sjó og inn í Miðfjarðarárdrög í Mælifellsheiði vestur af Þverfelli. Lax er í ánni. Þrír fossar hafa verið gerðir laxgengir og kemst lax nú um 9 km. upp ána. Fálkafoss er neðstur í ánni. Annar foss, Sniðfoss, er skammt fyrir innan. Stutt austur af honum er eyðibýlið Foss (Fosshjáleiga, Sniðfoss), sem var í ábúð frá 1849 og fram undir aldamót. Miðfjarðarheiði þykir gott afréttarland. Leitarmannakofi er við Miðfjarðará inn undir Þverfellslæk. Í heiðinni miðri innan við Lambafjöll er Djúpavatn og í því er silungur. Utan til er heiðin votlend á stórum svæðum meðfram Hölkná og Stóralæk, en þar á milli þurrlendara (Sandhæð 148 m). Frá Borgartanga við Hölknárós eru samkvæmt korti 21-22 km inn og suður á hreppamörk á Miðfjarðarheiði.

Miðfjarðará rennur á landamerkjum Miðfjarðar. Áin er mesta og lengsta vatnsfall í Skeggjastaðahreppi. Vitað er að hún hefur banað um þremur tugum manna. Á ánni var lögferja til 1917. Þrisvar hefur áin verið brúuð. Í fyrsta sinn árið 1915. Vegna þeirrar framkvæmdar kom austur landsverkfræðingurinn Jón Þorláksson (síðar fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra), nánar tiltekið árið 1911. Jón hafði verkfræðipróf frá Kaupmannahafnaháskóla og var mikill áhugamaður um verklegar framfarir, einkum brúarsmíði. Hann hafði m.a. komið að byggingu Fnjóskárbrúar árið 1908, sem þá var stærsta steinbogabrú á Norðurlöndum. Tillögu Jóns að brúargerð yfir Miðfjarðará frá 1913 má finna í þessu skjali. Er Jón kom austur lét hann reisa steinbogabrú yfir ána, en heimamenn bentu honum hins vegar á að áin væri á steinum og ætti það til að vaxa mikið í vorleysingunum. Of stutt væri milli stöpla hennar. Bóndi í sveitinni mun hafa sagt við verkfræðinginn: "Ég er hræddur um að Miðfjarðará þyki þröngt um mittið á sér þegar hún hleypur í galsa ef þú ætlar ekki að hafa lengra bil á milli". Á þessu var ekki tekið mark og brúin reis. Fór svo svo að brúin hrundi vorið 1915. Hún var endurbyggð og stendur enn, þó er hún ekki í notkun. Hefur því augljóslega töluvert verið meira vandað til hinnar nýju brúar. Skýrslu Jóns Þorlákssonar um atvikið og skýringar til Stjórnarráðsins má finna hér, ásamt teikningu hans að nýrri bogabrú. Núverandi brú yfir Miðfjarðará stendur neðar á ánni, nær ósnum.

Jörðin er enn í ábúð að hluta, en mest er ræktað af æðarfugli og tekjur eru af laxveiðihlunnindum. Gamla íbúðarhúsið var reist árið 1930 og stóð í tæp 80 ár. Nýtt hús reist í byrjun 21. aldar og það var eldra þá rifið.

Miðfjarðar er getið í umfjöllun um stríðshjálparskattinn svonefnda árið 1681, þegar íslenskir jarðeigendur voru krafðir um skatt til að standa straum af Skánarstríðinu svonefnda, milli Danmerkur og Svíþjóðar. Heimildir benda ekki til annars en að samfelld búseta hafi verið í Miðfirði frá því að jarðarinnar er fyrst getið, sem er í Landnámu. Í gegnum tíðina hafa margir búið í Miðfirði, oft tví- og þríbýlt. Lengi bjuggu þar Þorsteinn Þorsteinsson, sonur Þorsteins ríka Bjarnasonar og Matthildur Þorsteinsdóttir. Dóttir þeirra, Gunnhildur bjó þar 1895-1904 ásamt manni sínum, Jóni Jónssyni. Eiríkur Sigurðsson frá Steintúni var bóndi í Miðfirði 1897-1935 ásamt konu sinni, Jónínu Halldóru Jónsdóttur frá Skútustaðahreppi. Sonur þeirra, Jón M. Eiríksson var bóndi í MIðfirði frá 1935 til dauðadags. Dóttir Eiríks og Halldóru, Sólveig Klara bjó í Miðfirði í tæpa hálfa öld með Oddi Vilhelm Bjarnasyni frá Felli, frá 1939. Á árunum 1924-1954 bjuggu í Miðfirði Eiríkur Tómasson og Stefanía Jónsdóttir, en Eiríkur Tómasson og Eiríkur Sigurðsson voru systrasynir. Sonur Eiríks Tómassonar og Stefaníu, Kristján Tómasson (Stjáni Tomm), bjó Miðfirði uns hann fluttist til Bakkafjarðar. Þá bjuggu í ríflega 30 ár í Miðfirði Jónas Pálsson og Hólmfríður Sigvaldadóttir, er áður bjuggu m.a. í Kverkártungu.

Jarðfræðin í Miðfirði hefur verið rannsökuð en árið 2012 skrifaði Bakkfirðingurinn Halldór Njálsson Bsc ritgerðina Setlög og sjávarstaða í lok ísaldar í Miðfirði við Bakkaflóa, sjá nánar hér. Í ritgerðinni er atburðarásinni lýst þegar jöklar tóku að hopa eftir ísöld og hvernig framvindan á jarðfræðinni í Miðfirði hefur orðið eftir það.

Gamla Miðfjarðarjörðin skiptist nú í raun í þrjár jarðir, Miðfjörð I og II og Melavelli, sem áður segir frá. Er Miðfjörður II hálf jörðin, en Miðfjörður I og Melavellir er 1/4 hluti hvor um sig.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Miðfjörð, sem lesa má hér.

Kverkártunga

Jörðin Kverkártunga er á breiðri bungu milli Litlu-Kverkár og Miðfjarðarár, nær utan frá ármótunum og inn og suður á hreppamörk við Vopnafjörð suður á Háurðum (404 m). Sýslumörk við Norður-Þingeyjarsýslu eru við Litlu-Kverká á löngum kafla, annars afmarka áðurnefndar ár landið, og bærinn dregur nafn af tungunni milli ánna, sem er mjög víðáttumikið flæmi, um 20 km frá na. til sv. og um 4 km, þar sem breiðast er, um Álftavatn (269 m). Sjálf tungan liggur íbjúg frá suðri til na., fer hægt lækkandi norður á við og út til hiðanna að áðurnefndum ám sem streyma fram eftir breiðum og víða votlendum lægðum, Miðfjarðará komin sunnan úr Mælifellsheiði og frá Kistufelli og Hágöngum, í klettagili á löngum kafla leiðar, og Kverká um heiðarflóa nær alla leið. Álftavatnslækur fellur um um mýrardrög norður frá Álftavatni í Kverká.

Hinn 17. júní 1850 kom Björn Skúlason umboðsmaður, í forföllum J.P. Havsteins sýslumanns, ásamt fjórum áreiðarmönnum til nýbýlisins Kverkártungu í svokölluðum almenningi á Langanesströnd. Erindið var að framkvæma, eftir skipun amtmanns frá 16. febrúar 1850, löglega skoðunar-, útvísunar- og matsgerð á því landi Miðfjarðarnessels sem nauðsynlegt virtist fyrir mátulegt og í meðallagi gott nýbýli í fyrrnefndum almenningi. Eigendur aðliggjandi jarða við almenninginn voru boðaðir á staðinn og þangað mættu Þorsteinn Þorsteinsson á Bakka eigandi Miðfjarðarnessels (er síðan settist sjálfur að í Kverkártungu um skeið), Pétur Stefánsson á Miðfjarðarnesi og Eggert Einarsson í Saurbæ. Þess er jafnframt getið að Guðmundur Þorsteinsson á Hallgilsstöðum, sem átti frumkvæðið að útvísunargerðinni, hafi selt Sigfúsi Sigurðssyni þau hús sem byggð voru á nýbýlinu og um leið afsalað honum allan rétt sinn til þess. Sigfús gat hins vegar ekki mætt. Næst var riðið á landið, því lýst og nýbýlinu úthlutað landi samkvæmt því sem þar greinir.

Á manntalsþingi að Skeggjastöðum 11. júní 1851 var auglýst framangreind skoðunar- og útmælingargerð á nýbýlinu Kverkártungu sem fram fór 17. júní 1850. Landamerkjabréf fyrir Kverkártungu var útbúið 8. maí 1884 og þinglesið 16. júlí 1885. Í fasteignamati N-Múlasýslu 1916-1918 kemur fram að Kverkártunga hafi nægilegt upprekstrarland en hafi engar tekjur af því. Engjar séu á víð og dreif innan um bithaga. Sumarhagar séu góðir. Í afsals- og veðmálabókum kemur fram að eftir gerð útmælingarinnar hefur Kverkártungu verið ráðstafað með hefðbundnum hætti.

Búskapur hófst í Kverkártungu fyrir 1850, en heimildir eru um að þar hafi verið bóndi um 1840 Magnús Magnússon, ættaður úr S-Þingeyjarsýslu. Þar fæddist árið 1841 sonur hans, Sigurður Magnússon, síðar bóndi í Steintúni og á Miðfjarðarnesi. Sigurður var faðir Eiríks Sigurðssonar, bónda í Miðfirði, Jóns Sigurðssonar bónda í Saurbæ og Sigríðar Sigurðardóttur, sem einnig bjó í Saurbæ og á Sóleyjarvöllum.

Fyrsta manntal eftir framangreinda útmælingargerð er hins vegar frá 1855. Þá er tvíbýlt í Kverkártungu. Á öðrum helmingi Kverkártungu bjó Stefán Hannesson, ættaður úr Skagafirði en síðar vinnumaður á Hróaldsstöðum í Vopnafirði, ásamt konu sinni, tveimur börnum þeirra, foreldrum hennar og vinnufólki. Stefán fluttist til Vesturheims árið 1887, þá fluttur úr Kverkártungu. Á hinum helmingi Kverkártungu bjó 1855 Þorsteinn Þorsteinsson, sonur Þorsteins ríka Bjarnasonar, ásamt konu, börnum og vinnufólki. Fimm árum síðar er Þorsteinn fluttur með alla fjölskylduna í Miðfjörð og býr þar stórbúi.

Páll Pálsson bókbindari var bóndi í Kverkártungu um 1859-60 og 1862-63, annars í vistum og húsmennsku í Vopnafirði og á Langanesströnd. Hann er sá sem draugurinn Tungubrestur var helst talinn fylgja, en Páll er sagður hafa orsakað uppvakningu draugsins og hann fylgt Páli, og síðan öðrum ábúendum í Kverkártungu eftir að Páll var þaðan sagður flúinn. Eftir það bjuggu í Kverkártungu m.a. foreldrar skáldsins Arnar Arnasonar (Magnúsar Stefánssonar), Stefán Árnason og Ingveldur Sigurðardóttir, en búskapur þeirra í Kverkártungu hófst fyrir 1880. Eftir að Stefán drukknaði í Kverká 1887 leystist heimilið upp og Ingveldur flutti í Þorvaldsstaði. Síðustu ábúendur í Kverkártungu voru hjónin Jónas Pálsson og Hólmfríður Sigvaldadóttir. Jónas var fæddur að Krákárbakka í Mývatnssveit en ólst upp að Ljótsstöðum í Laxárdal. Hann var sagður mikið hreystimenni. Hólmfríður kona hans var dóttir Sigvalda Þorsteinssonar, bónda í Miðfjarðarnesi og víðar, m.a. á Grund á Langanesi þegar Hólmfríður fæðist. Sigvaldi var bróðir Matthildar Þorsteinsdóttur, konu Þorsteins Þorsteinssonar (hins ríka Bjarnasonar). Jónas Pálsson og Hólmfríður voru fósturforeldrar Sigríðar Sigurðadóttur, sem stofnaði nýbýlið Melavelli með manni sínum, Gunnlaugi Antonssyni. Jónas og Hólmfríður bjuggu í Kverkártungu, fyrst 1902-1908 og síðan 1911-1937, er fjölskyldan fluttist í Miðfjörð. Eftir það fór Kverkártunga í eyði.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Kverkártungu, sem lesa má hér.

Miðfjarðarnessel

Jörðin er bændaeign og upphaflega hjáleiga frá Miðfjarðarnesi. Byggðist fyrst upp 1818. Komst í eigu Árna Þorkelssonar og síðar sonar hans, Þórarins Árnasonar stórbónda á Þorvaldsstöðum. Sagan segir að Þórarinn hafi gefið einkadóttur sinni, Þórunni, Miðfjarðarnesselsjörðina í fermingargjöf. Jörðin er nú í eigu afkomenda Þórunnar. Jörðin er lítil. Meirihluti hennar er svonefndur Selsháls, brattur að ofan að Miðfjarðará. Bærinn, sem nú er óíbúðarhæfur orðinn, stendur uppi undir hálsinum utan til og mestallt túnið milli ár og bæjar. Í landi Miðfjaðarnesssels var eitt mesta æðarvarp landsins, sem gaf um 50 kg. af dúni árlega. Það er nú því sem næst horfið. Þrátt fyrir smæð er jörðin vel í sveit sett m.t.t. tekna af lax- og silungsveiði, enda á hún land að bæði Miðfjarðará og Litlu-Kverká.

Frá 1882-1922 bjuggu í Miðfjarðarnesseli Jóhann K. J. Árnason og kona hans, Halldóra Kristín Árnadóttir. Jóhann er árið 1880 sagður vinnumaður í Miðfjarðarnesseli, en frá 1882 orðinn bóndi þar. Halldóra Kristín var úr S-Þingeyjarsýslu. Hún var fædd 1842 og náði 100 ára aldri. Einn son áttu þau, Benedikt og einnig fósturdóttur, Margréti Unni, en Benedikt og Margrét voru foreldrar Lilju Benediksdóttur, síðasta ábúanda Miðfjarðarnessels. Benedikt og Margrét bjuggu í Miðfjarðarnesseli 1922-1954. Þá hófu búskap þar dóttir þeirra, Lilja Benediktsdóttir og Árni Kr. Þorsteinsson frá Djúpalæk. Faðir Árna, Þorsteinn Eiríksson, var bóndi á Djúpalæk, svo sem áður er getið. Þeir voru bræður, Þorsteinn Eiríksson faðir Árna og Einar Eiríksson, faðir Kristjáns, Hilmars o.fl. Einarsbarna frá Djúpalæk.

Er Steinþór Árnason frá Þorvaldsstöðum, bróðir Þórarins Árnasonar stórbónda á Þorvaldsstöðum, kom aftur frá Ameríku eftir að hafa farið vestur árið 1904 settist hann að á Miðfjarðarnesseli árið 1907 ásamt konu sinni, Guðnýju Stefaníu Stefánsdóttur frá Kverkártungu. Guðný Stefanía var systir Magnúsar Stefánssonar (Arnar Arnarsonar) skálds. Árið 1915 lést Steinþór en Stefanía fluttist um það leyti til Siglufjarðar með fjögur börn, en þrjú fóru í fóstur. Einn sonur þeirra, Ingvar Steinþórsson (f. 1907), þekktur hagyrðingur á Ströndinni, hafði farið í fóstur í Miðfirði 3 ára og bjó þar til ársins 1957, en fluttist þá inn á Bakkafjörð. Móðir Guðnýjar Stefaníu (konu Steinþórs), Ingveldur Sigurðardóttir, tók eins og áður er rakið saman við bróður Steinþórs, Þórarin Árnason á Þorvaldsstöðum, og eignaðist með honum eitt barn, Þórunni B. Þórarinsdóttur, svo sem rakið er við Þorvaldsstaði.

Miðfjarðarnessel féll úr ábúð í kringum 1990, er síðstu ábúendurnir, Árni og Lilja, fluttu til Bakkafjarðar með hluta bústofnsins með sér. Fé var ekið á vorin í Miðfjaðarnessel og því sleppt á fjall þar uns Árni féll frá. Íbúðarhúsið er ekki lengur íbúðarhæft, en í landi Sels, svo sem jörðin er jafnan nefnd, hefur verið reist veiðihús á vegum Veiðifélags Miðfjarðarár og Litlu-Kverkár.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Miðfjarðarnessel, sem lesa má hér.

Miðfjarðarnes

Jörðin Miðfjarðarnes er bændaeign og landmikil. Land hennar nær frá Saurbæjartanga og sv. fyrir Reiðaxlarvatn á sýslumörkum lengst inni og suður í heiðum. Er þetta um 19 km. leið. Afbýli, nefnt Kot, var við Ótræðislæk, en engar heimildir nema munnmæli, nafn og rústir eru um byggð þar. Tvíbýli hefur löngum verið á Miðfjarðarnesi og standa bæirnir á sjávarbakka sinn hvoru megin lækjar og skipti hann túni milli bæjanna, en engjum skipt eftir samkomulagi.

Árið 1840 bjó á Miðfjarðarnesi Pétur Stefánsson ásamt konu sinni Þórdísi Sveinsdóttur og 12 börnum þeirra. Pétur fæddist árið 1792 í Miðfirði, sonur Stefáns Jónssonar bónda þar. Börn Péturs og Þórdísar settust víða að í sveitinni og mætti Pétur kallast ættfaðir sveitarinnar. Hann og Þórdís eignuðust 17 börn, en ekki komust öll upp. Eftir Pétur og Þórdísi tók við búskap á Miðfjarðarnesi sonur þeirra, Metúsalem Pétursson og bjó hann árið 1880 í Miðfjarðarnesi ásamt Steinunni G. Eiríksdóttur og sjö börnum þeirra. Steinunn var systir Sigríðar Eiríksdóttir, móður Eiríks Sigurðssonar bónda í Miðfirði. Frá 1897-1947 bjuggu í Miðfjarðarnesi Gunnar Metúsalemsson, sonur Metúsalems og Steinunnar, og kona hans Margrét Sigurðardóttir frá Saurbæ. Tímabilið 1886-1924 bjuggu í Miðfjarðarnesi Ágúst Stefánsson, barnabarn Péturs Stefánssonar og kona hans, Regína Metúsalemsdóttir. Á partinum Miðfjarðarnes II bjó frá 1955-1972 Þorsteinn Árnason, sonur Árna Eiríkssonar bónda á Djúpalæk og síðar Miðfjarðarnesseli. Þorsteinn Árnason á MIðfjarðarnesi og Árni Kr. Þorsteinsson á Miðfjarðarnesseli voru því bræðrasynir. Þá bjuggu lengi á Miðfjarðarnesi börn Gunnars og Margrétar, Pétur, Friðrik og Jóhanna Gunnarsbörn. Rétt fyrir 1980 hóf búskap á Miðfjarðarnesi I Indriði Þóroddsson úr Þistilfirði og Unnur Gunnlaugsdóttir frá Melavöllum. Dóttir þeirra býr nú á þeim parti jarðarinnar með sauðfé. Miðfjarðarnes II féll úr ábúð 1972, en parturinn er í eigu dætra Þorsteins Árnasonar, síðasta bónda þar.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Miðfjarðarnes, sem lesa má hér

Saurbær / Helluland

Saurbær var Refsstaðarkirkjueign samkvæmt Jarðabók 1762 og síðan Hofskirkjueign til 1917. Jörðin er stór en á aðallega land í Saurbæjarheiði. Jörðin deilir Saurbæjartanga með Miðfjarðarnesi. Þar er venjulega snjólétt og var þrautabeit allrar sveitarinnar þegar illa voraði, t.d. á 9. áratug 19. aldar. Þá ráku flestir bændur á Strönd fé sitt þangað, þegar öll önnur úrræði þraut og reiddi af vonum framar. Annar slíkur staður er Svínabæli austan við Finnafjarðará.

Jörðin var stórbýli á fyrra tíma mælikvarða, enda oft tví- eða þríbýlt og mikið gagn af útræði og hlunnindum. Jörðin þykir einnig vel fallin til nútímabúskapar. Árið 1880 bjó þar Stefán Pétursson hreppstjóri, sonur Péturs Stefánssonar á Miðfjarðarnesi, ásamt konu sinni Ingibjörgu Guðmundsdóttur, börnum og vinnufólki. Einnig bjó þar a.m.k. frá 1860-1880 Jósep Gunnarsson (Péturssonar) ásamt konu sinni, en hann og Stefán voru bræðrasynir. Árið 1890 er annar bróðir Stefáns, Metúsalem Pétursson, kominn í Saurbæ, ásamt börnum sínum. Frá 1902-1930 bjó í Saurbæ Jón Sigurðsson, sonur Sigurðar Magnússonar, fyrr. bónda í Kverkártungu og á Miðfjarðarnesi. Jón var bróðir Eiríks Sigurðssonar, bónda í Miðfirði. Árið 1906 koma í Saurbæ Árni Árnason, sonur Árna Þorkelssonar bónda á Þorvaldsstöðum (og bróðir Steinþórs og Þórarins Árnasona), og kona hans, Sigríður Sigurðardóttir, systir Jóns Sigurðssonar. Þau koma frá Sóleyjarvöllum. Þau bjuggu í Saurbæ til 1934. Sonur Árna og Sigríðar, Sigurður Árnason, býr í Saurbæ 1918-1944, ásamt konu sinni, Guðbjörgu Stefaníu Þorgrímsdóttur frá Hróaldsstöðum.

Á árunum 1930-1963 bjuggu í Saurbæ Einar Ó. Hjartarson frá Álandi í Þistilfirði og Stefanía Jónsdóttir, frá Þistilfirði. Árin 1942-47 bjó þar einnig dóttir þeirra, Járnbrá Einarsdóttir með manni sínum, Magnúsi J. Jóhannessyni frá Barðaströnd, en þau fluttu svo inn á Bakkafjörð. Járnbrá var ráðin síma- og póstafgreiðslumaður á Bakkafirði frá 1. september 1953. Önnur dóttir Einars og Stefaníu, Arndís Einarsdóttir, bjó á Hellulandi og síðar í Saurbæ með manni sínum, Sigurbirni Þorsteinssyni, frá Víðidal. Búskap hófu þau árið 1948. Helluland er nýbýli stofnað á 1/9 hluta lands úr landi Saurbæjar árið 1954. Árið 1960 keyptu Arndís og Sigurbjörn Saurbæ I er jörðin féll úr ábúð og bjuggu svo á öllum jörðunum. Í Saurbæjarlandinu er nú stunduð umfangsmikil skógrækt.

Jörðin Saurbær skiptist til helminga fram til um 1930, en eftir það skiptist hún í Saurbæ I og II. Saurbær I fékk í sinn hlut þriðjung allrar torfunnar, en Saurbær II 2/3 hluta. Árið eftir var byggt upp á svonefndum Stekk frá Saurbæ II og búið þar til 1924. Annað býli var Hafnir, nýbýli frá Saurbæ úti á strönd Saurbæjartanga, stofnað 1924. Aðalllega var stundaður sjór þaðan, en einnig landbúnaður, haldnar kindur og kýr. Hafnir reistu Pétur Metúsalemsson, sonur Metúsalems Péturssonar og kona hans, Sigríður Friðriksdóttir frá Vestmannaeyjum. Til Hafna flutti fjölskyldan eftir að hafa búið á Hallgilsstöðum og síðan í Vestmannaeyjum. Fjölskyldan bjó í Höfnum til 1939. Frá Höfnum koma tveir þekktir menn í sveitinni, synir Péturs og Sigríðar, bræðurnir Ágúst og Marinó Péturssynir. Í Höfnum bjuggu frá 1928-1945 Regína Metúsalemsdóttir og dóttir hennar, Salína Ágústsdóttir.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Saurbæ, sem lesa má hér.

Fell (Smyrlafell)

Jörðin Fell var einnig stundum áður nefnd Smyrlafell, eftir fellinu ofan við bæinn. Jörðin er og hefur verið í bændaeign frá 19. öld. Jörðin er í landnámi Finna, er nam Finnafjörð og MIðfjörð. Fornar rústir eru við botn Finnafjarðar og hefur verið getið til að þar séu rústir landnámsbæjar. Sóleyjarvellir voru hjáleiga frá Felli. Tvö afbýli voru frá Felli í núverandi landi, Pétursstaðir og Hávarðsstaðir, bæði við Finnafjarðará sitt hvorum megin Tjaldhæðarlækjar. Jörðin er talin góð til búskapar og ræktunarskilyrði góð.

Í manntali 1835 er bóndi á Felli Benedikt Ásbjörnsson, áður bóndi á Flautafelli í Svalbarðssókn. Benedikt lést 1836 og sonur hans, Ásbjörn Benediktsson, tók við búinu. Hann bjó á Felli næstu áratugi og síðan sonur hans, Benedikt Ásbjarnarson. Afi hans, Helgi Helgason og Pétur Stefánsson á Miðfjarðarnesi, voru systkinasynir.

Hjónin Oddur Gunnarsson og Gunnhildur Bjarnadóttir hófu búskap á Felli árið 1889 og bjuggu þar uns Oddur, sem var barnabarn áðurnefnd Péturs Stefánssonar á Miðfjarðarnesi, lést árið 1935. Faðir Odds var Gunnar Pétursson, sonur Péturs og Þórdísar á Miðfjarðarnesi. Gunnhildur var dóttir Bjarna Þorsteinssonar, hreppstjóra og kaupmanns á Raufarhöfn, en faðir hans var Þorsteinn ríki Bjarnason á Bakka. Fjórir af sonum Odds og Gunnhildar náðu fullorðinsaldri, svonefndir Fellsbræður. Bjarni var þeirra elstur, fæddur 1889. Hann fór til vesturheims árið 1913, en kom aftur er fyrri heimsstyrjöldin braust út. Hann kvæntist Guðrúnu Valdimarsdóttur frá Bakka og gerðist bóndi í Miðfirði. Næstur Fellsbræðra var Gunnar, er kvæntist og flutti til Reykjavíkur. Friðrik var sá þriðji. Hann hóf búskap á Felli 1924 ásamt Helgu Sigurðardóttur frá Akranesi og bjuggu þau til 1967. Þau eignuðust 10 börn, átta komust upp. Annar sona Friðriks og Helgu, Sigurjón Jósep, hóf búskap á Felli 1960 með konu sinni, Vilborgu Reimarsdóttur frá Kelduskógum. Á Felli býr nú Reimar sonur þeirra með stærsta fjárbú á Langanesströnd. Yngstur Fellsbræðra var Andrés. Hann bjó á Þórshöfn og síðar í Hafnarfirði og átti eina fósturdóttur.

Beitarhús voru áður fyrir fjarðarbotni á Felli og fyrr fjárborg. Þar var að sögn reimt, en Fransmenn eru grafnir nokkuð skammt frá. Húsin voru notuð til 1951.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Fell, sem lesa má hér.

Sóleyjarvellir

Í sóknarlýsingu sr. Hóseasar Árnasonar, prests á Skeggjastöðum, sem rituð var 1841, segir að Sóleyjarvellir séu hjáleiga frá Felli og það sé vesældarkot. Svo virðist sem jörðin hafi verið nefnd Urðarsel um tíma. Bæjarstæðið stendur um 76 m frá Norðuraustvegi. Bærinn stendur nálægt ánni Geysirófu og nálægt Gunnólfsvíkinni. Bærinn stóð í hvilft gegnt Gunnólfsvík og þó heldur sunnar. Tún var allgott, en ræktunarskilyrði takmörkuð. Engi voru votlend og heybandsvegur slæmur. Útbeit víðlend og kjarngóð en landið gat verið snjóþungt. Sóleyarvellir féllu úr ábúð 1959 og jörðin var nytjuð af Felli. Húsið var baðstofa, raftur á parti, þiljuð niðri.

Frá 1896-1906 bjuggu á Sóleyjarvöllum Árni Árnason og Sigríður Sigurðardóttur, ásamt þremur börnum. Þau fluttust að Saurbæ árið 1906, eins og þar er getið. Árið 1910 hófu búskap á Sóleyjarvöllum Halldór Kristjánsson og Sigríður Guðmundsdóttir. Þau komu frá Hallgilsstöðum á Langanesi, höfðu búið þar frá 1890-93, svo í Viðvík frá 1893-1903, þá í Miðfirði uns þau fluttu til Sóleyjavalla árið 1910. Steinhúsið sem nú standa rústir af á Sóleyjarvöllum byggði Halldór árið 1928, en hann lést sama ár. Sonur Halldórs og Sigríðar, Björn Halldórsson og kona hans, Þorbjörg Árnadóttir frá Raufarhöfn, voru síðustu ábúendur á Sóleyjarvöllum, en jörðin fór í eyði 1959.

Til Sóleyjarvalla fluttist Finnbogi nokkur Finnsson sem barn með móður sinni úr Skoruvík. Finnbogi fæddist 11. september 1860. Hann fluttist síðar til Seyðisfjarðar, komst þar um borð í kolaskip, faldi sig um borð og komst til Kaupmannahafnar. Er þangað var komið var hann fluttur beint til yfirvalda. Þar kvaðst hann heita Napoleon Bonaparte prins og förinni væri heitið til Frakklands að taka við ríkiserfðum. Hann var í haldi yfirvalda um veturinn og fluttur aftur til Íslands með vorskipunum. Upp frá því var hann nefndur Bóni eða Bóni Prins. Hann var lengi á Þórshöfn, en í desember 1932 hvarf hann. Lík hans fannst síðar í Selvatni á Brekknaheiði, milli Þórshafnar og Sóleyjarvalla. Saga Finnboga er talin vera fyrirmynd frábærrar smásögu Halldórs Laxness, Napóleon Bónaparti.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Sóleyjarvelli, sem lesa má hér

Gunnólfsvík

Jörðin er í landnámi Gunnólfs Kroppu og ber nafn hans. Landamörk Gunnólfsvíkur fylgja sýslumörkum milli Norður-Múlasýslu og Norður-Þingeyjarsýslu, en annars skiptir áin Geysirófa milli Gunnólfsvíkur og Sóleyjarvalla. Útvörður Austurlands í norðri, Gunnólfsvíkurfjall (719 m. hátt), rís austan við Gunnólfsvíkina upp frá Finnafirði og Bakkaflóa. Gunnólfsvíkin er suðvestan við fjallið og gott lægi í norðanátt. Upp frá sjónum er allvíður skeifulaga dalur með grashjöllum í hringleikahússstíl. Þar standa bæirnir um 1 km. upp frá sjó með brekkuhöll að baki, en framundan er mýrlendi og móar ofan undir lága sjávarbakka. Þar voru fyrr verskálar og útgerð, m.a. Færeyinga og löggilt verslunarhöfn 1930, kaupstaðabyggð engin, en smáverslun um skeið. Upp frá bænum liggur Bjarnadalur í sveig út og norður fyrir Gunnólfsvíkurfjall og fellur Bjarnalækur niður dalinn.

Búseta hefur verið í Gunnólfsvík um aldir, en á ýmsu gengið. Í manntalinu 1703 eru fimm þar til heimilis, Bjarni Sigurðsson húsbóndi, Margrét Sölvadóttir húsfreyja, tvö börn þeirra og vinnukona. Afi Bjarna var Jón Bessason, prestur á Sauðanesi, vígður þangað 1624 af Guðbrandi Þorlákssyni Hólabiskup. Faðir Bjarna var Sigurður Bjarnason, bóndi á Bakka í Skeggjastaðahreppi, fæddur um 1625.

Ábúendur árið 1888-1903 voru Baldvin Guðmundsson og Elín K. Gísladóttir frá Hróaldstungu, en þau höfðu áður verið í Viðvík. Þau fluttu til Ameríku árið 1903, ásamt tveimur börnum sínum en sjö börn þeirra komust upp. Baldvin var orðinn 67 ára þegar hann fór vestur um haf og lést hann þar rétt tæplega 93 ára gamall. Alls fjögur börn Baldvins og Elínar fluttu til Ameríku. Ólöf dóttir þeirra lést 1898 í Gunnólfsvík og bjó eftirlifandi eiginmaður hennar, Haraldur Magnússon frá Læknisstöðum, í Gunnólfsvík með börnum þeirra og seinni eiginkonu sinni, Þuríði Hannesdóttur frá Vestmannaeyjum, til ársins 1917.

Lengi bjuggu í Gunnólfsvík Frímann Jónsson frá Axarfirði og Kristbjörg Magnúsdóttir frá Læknisstöðum, eða frá 1911-1956. Kristbjörg var systir Haraldar, eiginmanns Ólafar Baldvinsdóttur. Sonur Frímanns og Kristbjargar, Jóhann Frímannsson, bjó í Gunnólfsvík ásamt fyrri og seinni eiginkonu, Matthildi Jónsdóttur (dó 1942) og Sigríði Jónsdóttur, frá 1943-1961 og voru þau síðustu ábúendurnir í Gunnólfsvík. Oft var margt í Gunnólfsvík. Árið 1952 voru þar 16 manns. Það ár kom upp eldur í íbúðarhúsinu og brann það til kaldra kola. Íbúar björguðust með naumindum. Frá 1933-1952 bjuggu í Gunnólfsvík Jón Friðfinnsson frá Borgum og Kristbjörg Guðmunda Guðmundsdóttir.

Jörðin féll úr ábúð 1961. Á 9. áratug síðustu aldar hófust framkvæmdir við nýja ratsjárstöð á vegum NATO á Langanesi, en Bandaríkjaher rak ratsjárstöð á Heiðarfjalli á Langanesi frá 1954-1968. Varð fyrir valinu að reisa stöðina á toppi Gunnólfsvíkurfjalls. Árið 1988 samþykkti Alþingi fjárveitingarheimild til að kaupa Gunnólfsvík I og II og eru þær í eigu ríkissjóðs í dag. Ratsjárstöðin er enn í notkun, þótt ekki sé mönnuð. Nú eru hugmyndir um að reisa stórskipahöfn eða þjónustuhöfn við olíuleitariðnað í Gunnólfsvík. Skipaumferð um svæðið ætti að ganga stórslysalaust fyrir sig gæti menn þess að landnámsmaðurinn Gunnólfur Kroppa fái að hvíla áfram við sjávarbakkann, svo sem rakið er hér annars staðar á síðunni.

Til er örnefnaskrá fyrir jörðina Gunnólfsvík, sem lesa má hér.

Vesturfarar

Skeggjastaðahreppur fór ekki varhluta af fólksflutningum úr sveitum Íslands til Vesturheims. Ekki þarf að undra að nokkuð hafi flust af fólki úr einni harðbýlustu sveit landsins. Aðallega fór vinnufólk, væntanlega í leit að betra lífi, en einnig bændur. Samkvæmt skrám yfir vesturfara fóru á tímabilinu 1870-1920 alls 98 manns úr Skeggjastaðahreppi til Vesturheims. Þar sem ekki voru allir skráðir sem fóru vestur er líklegt að þeir hafi verið yfir 100. Langflestir fóru úr Gunnólfsvík og síðan frá Bakka. Hér að neðan er hægt að skoða skrá yfir vesturfara úr Skeggjastaðahreppi (pdf) ásamt upplýsingum eftir því sem þær eru til og hafa fundist.

Vesturfararskrá um Skeggjastaðahrepp

Uppfært 3. maí 2024
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?