Fara í efni

Útgerð á Langanesströnd

"Höfnin" fyrri hluta 20. aldar.

Útgerð hefur lengi verið stunduð í einni eða annarri mynd á Langanesströnd. Útræði var stundað frá jörðum sem lágu að sjó. Fyrir aldamótin 1900 var byrjuð einhver útgerð umfram heimilisnot frá nokkrum bæjum. Sjómenn af Suðurnesjum voru ráðnir til róðra á sumrum og svo voru Færeyingar sem komu með báta sína og höfðu bækistöðvar sínar í Höfn, Bakka og Gunnólfsvík. Mátti svo heita að þorpsmyndun byrjaði í Gunnólfsvík og var þar verslun um nokkurt skeið. Er Höfn við Bakkafjörð varð löggildur verslunarstaður komu Örum og Wulff þar upp lítilsháttar vöruafgreiðslu og fiskmóttöku nokkrum árum síðar.

Árið 1900 hóf Halldór Runólfsson að versla í Höfn, fyrst í smáum stíl, en brátt vaxandi og rak hann einnig útgerð og fiskverkun ásamt versluninni. Hann reisti myndarleg timburhús fyrir starfsemi sína og standa bæði verslunar- og íbúðarhús hans enn. Halldór hafði margt fólk í vinnu á sumrum við fiskverkun og útgerð. Hann var stórhuga framkvæmdamaður og merkur brautryðjandi. Árið 1907 virðist hann hafa talið þörf á að tryggja réttindi undir þau hús sem hann hafði þá þegar reist, en húsin stóðu öll í landi jarðarinnar Hafnar, sem var þá eign Þórarins Hálfdánarsonar á Bakka, afa rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar. Gerðu þeir með sér lóðarleigusamning undir húsin og má ráða af samningnum að Halldór hafi þá þegar verið orðinn nokkuð umsvifamikill og með mörg hús á sínum snærum (sjá hér).

Þó að verulegur fiskafli kæmi á land á Bakkafirði og ykist frá aldamótunum 1900, leið nærri hálf öldin áður en gerðar voru lendingarbætur, nema steypt var á klöpp þar sem svo var aðdjúpt að leggja mátti að hlöðnum uppskipunarbátum. Brattur, mjór stígur var uppganga af “bryggjunni”. Hinir háu bakkar sem eru allt í kringum þorpið gerðu löndun á fiski mjög erfiða. Aflinn var allur borinn upp í hús til verkunar, bæði þarna og frá öðrum klöppum eða úr lendingunni í Bæjarvíkinni. Bær varningur, 100 kg stykki eða léttari, var borinn á baki uppí pakkhúsin. Þá voru bátarnir dregnir upp á land og lengi síðan. Stærð þeirra miðaðist við að setja mætti þá ofan með handafli. Uppi á háum bakkanum fyrir ofan „bryggjuna” kom síðar togvinda (fyrst handsnúin, síðar vélknúin) og með öflugri bómu svo að lyfta mátti þungum stykkjum upp úr bátum, jafnvel upp á bakkann. Með lélega hafnaraðstöðu var útgerð á Bakkafirði mjög erfið, þótt miðin hafi verið gjöful. Ís var safnað á vetrum í snjógeymsluhús og síld geymd í ísnum til beitu. Allur fiskúrgangur fór í sjóinn þar sem ekki var aðstaða til að gera úr honum verðmæti. Járnbrautarteinar lágu meðfram bakkanum, milli hafnarinnar og saltfiskskúra. Eftir þessum teinum gengu vagnar með saltfisk inneftir og þurran fisk til baka. Inn við höfnina var fiskinum raðað á grindur og hann sólþurrkaður þar. Þrátt fyrir hina erfiðu aðstæður þóttu mönnum, einkum Færeyingum, til þess vinnandi að gera þar út, enda lá staðurinn þrátt fyrir allt mjög nærri fengsælum fiskimiðum. Þótti sæta furðu hversu erfiðlega gekk að fá fé og fyrirgreiðslu fyrir hafnarbótum við jafn góða verstöð.

Dularfullur atburður

Hinn 14. ágúst 1908 hrundu þrír menn á Bakkafirði báti sínum á flot og reru til miða. Voru það feðgarnir Jón Hallgeirsson og sonur hans, Hallgeir, ásamt Guðjóni Teiti Árnasyni. Jón var húsmaður á Rauðubjörgum (nú Bjarg). Veður var gott þennan dag. Um hádegi kom annar bátur að þeim, þar sem þeir félagar voru að draga lóðir sínar og áttu tal við þá. Nokkrum klukkustundum síðar var strandferðaskipið Hólar á siglingu um Bakkafjörð og sáu skipverjar þá hvar bátur maraði í hálfu kafi, þó á réttum kili. Þegar að var hugað fundust feðgarnir Jón og Hallgeir örendir um borð og hékk höfuð annars út yfir borðstokkinn. Hinn var skorðaður undir þóftum. Lík beggja voru volg. Guðjón Teitur var ekki um borð og fannst hann aldrei. Engar skýringar höfðu menn á þessu dularfulla sjóslysi. Helst var þó talið að holskefla hafi grandað mönnunum meðan þeir voru undir færum.

Fram undir 1920 var mikill smábátaútvegur á Bakkafirði, þrátt fyrir erfiða aðstöðu. Gerðu þá út frá Bakkafirði um 60-70 bátar. Voru Færeyingar þar áberandi og áttu þeir um 2/3 bátanna. Færeyingjar byrjuðu að gera út frá Bakkafirði fyrir aldamótin 1900. Höfðu þeir mikla úgerð um aldamótin og fram til 1915-1916. Í gömlu blaði árið 1915 lýsir Halldór Runólfsson kaupmaður því að verulega hafi þá dregið úr komum Færeyinga til að stunda útgerð og rakti hann það til styrjaldarinnar sem hófst árið fyrr. Eins hafði verið algengt að Sunnlendingar ferðuðust til Austfjarða til fiskveiða, en verulega dró einnig úr þeim ferðum á styrjaldarárunum. Sjósókn Færeyinga hófst aftur eftir stríð og stóð fram á miðja 20. öld er Íslendingar hófu að færa út landhelgi sína.

Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði sínu 1944 og tóku forræði á landhelgismálum. Eftir það komu nær engir færeyskir sjómenn til fiskveiða á Íslandi. Á ýmsu gekk í samskiptum við Færeyinga og aðra erlenda aðila. Halldór Runólfsson var umboðsmaður sýslumanns á staðnum og árið 1909 skrifaði hann sýslumanni bréf og kvartaði undan því að fjögur erlend skip neituðu að greiða lögboðin gjöld í Höfn, þar af tvö færeysk skip. Síðar á árinu kærði hann svo einn færeyskan skipstjóra til viðbótar, sem ekki vildi greiða lögboðin gjöld. Má skoða þessi samskipti hér. Ekki er alveg ljóst hvernig þessum málum lyktaði.

Líf sjómanna úr Færeyjum, sem lögðu á sig ferðalag til Íslands til að gera út árabáta og opna vélbáta, var mjög erfitt. Engu að síður komu margir Færeyingar ár eftir ár. Einn þeirra, Hans Jakku á Brúnni, réri ekki færri en 50 ár frá Bakkafirði. Annar Færeyingur sem reri lengi þaðan var Elías Hansen í Syðrigötu. Hann gekk jafnan undir nafninu Liggjas á Flötti eða bara "Flöttur". Hann reri í 34 ár frá Bakkafirði, frá 1907-1949, með örfáum hléum. Árið 1980 kom út bókin "Til lands, útróður á Íslandi" eftir Færeyinginn Sámal Johansen. Í bókinni birtist frásögn Liggjasar á Flöttinum, sem veitir innsýn inn í líf færeysku sjómannanna á Bakkafirði á fyrri hluta síðustu aldar. Færeyingarnir komu í byrjun sumars með áætlunarskipunum. Er til Bakkafjarðar var komið fengu sjómennirnir timburhús til íbúðar, sem voru í eigu fiskkaupmanna. Sumum þeirra fannst húsin helst til léleg, svo lök að margir tóku gömlu torfkofana fram yfir timburhúsin.

Flöttur lýsir aðstöðunni svo, að í eldhúsi hafi verið eldavélakríli eða kabyssa. Hún var eina upphitunin. Lítið höfðu menn þó af kolum og öðru eldsneyti til að brenna. Reynt var að notast við spýtnarusl, lifur og jafnvel þurrkaða dálka. Lyktin af því var hins vegar ferleg. Matur var oft fiskur, en í nesti frá Færeyjum höfðu menn skerpukjöt og rúllupylsu, sem reynt var að treina allt sumarið. Þegar ber komu í berjamó var mikið tínt og þau höfð með heim til Færeyja. Húsaleiga var 1/10 af brúttótekjum sjómannanna. Fiskurinn var seldur bæði óverkaður og saltaður, fyrst aðallega óverkaður en svo fóru Færeyingarnir að fletja og salta sjálfir. Þegar verð var gott fluttu þeir jafnvel saltfiskinn með sér til Færeyja. Sjómennirnir voru á skaki fyrri part sumars, en þegar kom fram í júlí hófust línuveiðar. Oft var sólfarsvindur á daginn og lægði ekki fyrr en um kvöldið, eins og Bakkfirðingar þekkja. Því reru Færeyingarnir oft á nóttunni, enda albjart. Flöttur lýsir miklu línufiskiríi í Bakkafirðinum, línan hafi oft hreinlega flotið upp þegar stjórinn var kominn um borð. Í landlegum var gert við veiðarfæri, línur yfirfarnar og saltfiskur umsaltaður. Sunnudagar voru heilagir. Þá áttu allir frí og menn lásu húslestur. Áður en haldið að hausti var heim fékk hver áhöfn kind að gjöf frá húsráðendum sínum, sem þótti hátíð eftir fábreytt fæðið yfir sumarið. Hinn 10. september þurftu allir að vera farnir til Færeyja. Flöttur kvaðst ekki taka undir að heimamenn hafi átt það til að vera ógreiðasamir við Færeyingjana; þeir hafi verið "ágætismenn og áreiðanlegir í hvívetna".

Grein um Bakkafjörð í færeysku blaði

Hinn 22. ágúst 2003 birtist skemmtileg grein um Bakkafjörð í færeyska FF blaðinu, blaði verka og veiðimanna. Blaðamaður fékk Elias Hansen, barnabarn Liggjasar á Flöttinum, til að fara með sér í heimsókn til Bakkafjarðar. Þar tóku þeir fyrst hús á Hjálmari Hjálmarssyni, Lalla á Bjargi. Það var ekki tilviljun, því systir Hjálmars, Ester Hjálmarsdóttir, giftist einum þeirra Færeyinga sem til Bakkafjarðar komu, Jógvan Edvard. Segir blaðið að Hjálmar hafi lært færeysku af Færeyingum sem bjuggu í sama húsi og hann á sumrin. Hjálmar minntist færeyskra sjómanna vel og þekkti marga þeirra. Að sögn Hjálmars voru stundum fleiri Færeyingar en heimamenn í þorpinu. í greininni segir að tveir færeyskir sjómenn hafi haldið áfram fiskveiðum á Bakkafirði eftir að þær lögðust almennt af árið 1944. Það voru Flöttur og Zakarías Karl (sem er m.a. á myndinni hér að ofan með Flötti). Þeir félagar hafi átt orðið sögulegan rétt til fiskveiða eftir áratuga fiskveiðar á Íslandi. Næst var tekið hús á Njáli Halldórssyni og konu hans, Guðrúnu Árnadóttur. Í greininni kemur fram að Njáll hafi keypt bát árið 1933 af Kollfirðingnum Sámal við Höglinum í upphaf útgerðarferils síns.

Litlar framfarir urðu í útgerðarmálum á Bakkafirði fram undir miðja 20. öldina. Einkum var það hafnleysið sem olli því, enda ekki hægt að stækka bátaflotann án úrbóta í hafnarmálum. Ýmislegt var skoðað í þeim efnum. Árið 1929 gerði verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen teikningar að höfn fyrir Bakkafjörð, svipaðri þeirri sem síðar var byggð. Á teikningunni er gert ráð fyrir steypti bryggju út á klöppina fyrir neðan tangann. Þessar teikningar voru lagðar fram hjá yfirvöldum, en ekki fékkst samþykki til að ráðast í framkvæmdina fyrr en löngu síðar. Verkfræðistofan gerði jafnframt teikningar að hafnarbótum í Gunnólfsvík. Af þeim hugmyndum varð aldrei, enda var útgerð að leggjast af í Gunnólfsvík um þetta leyti.

Eftir stríð árið 1946 var loks hafist handa við gerð nýrrar hafnar á Bakkafirði. Byggð var steypt bryggja, en fram að því hafði fisknum verið landað á klöppunum neðan við húsin á tanganum og víðar. Höfnin var hins vegar lítil og erfitt fyrir stærri skip að leggja þar að. Með höfninni fylgdu hins vegar draumar um síldarverksmiðju á Bakkafirði. Þeir draumar urðu þó ekki að alvöru fyrr en eftir hallærisár í kringum 1960, fiskleysi og fólksflótta. Auk þess hafði orðið vart við vaxandi síldveiði á miðunum kringum landið og því full ástæða fyrir Bakkfirðinga að hefja fyrir alvöru að kanna möguleika á síldarverksmiðju.

Bakkfirðingar gæta fiskimiða sinna

Bakkfirðingar stóðu saman að varðveislu fiskimiða sinna, eins og marka má af málavöxtum sem raktir eru í dómi Hæstaréttar Íslands, frá 15. apríl 1950. Dag einn í nóvember 1949 urðu Bakkfirðingar varir við að skipið Ásþór NS 9 frá Seyðisfirði virtist vera að togveiðum í Bakkafirði innan leyfilegra marka. Um kl. 14 þá um daginn fóru 5 heiðursmenn frá Bakkafirði á trillubát út á fjörðinn til þess að athuga nánar um athafnir togbátsins. Þetta voru Hjálmar Hjálmarsson, Njáll Halldórsson, Ólafur Guðmundsson, Arnmundur Jónasson og Jakob Eiríksson. Bar þeim öllum saman um að báturinn hafi verið að togveiðum innan línu, sem hugsast dregin milli Svartness og Skarfatanga, en þar fyrir innan var hin löggilta höfn fyrir Höfn við Bakkafjörð. Bar þeim og saman um að báturinn hefði greinilega verið að togveiðum. Bakkfirsku sjómennirnir komu allir fyrir lögregluréttinn á Seyðisfirði og báru vitni. Lýstu þeir því að Ásþór NS hefði greinilega verið með botnvörpuna úti þegar þá bar að. Er þeirra varð vart hafi báturinn híft veiðarfærin og haldið út fjörðinn og norður á fullri ferð. Þrátt fyrir neitun skipstjórans á Ásþóri NS var hann sakfelldur og þurfti að sæta varðhaldi í mánuði og afli og veiðarfæri bátsins voru gerð upptæk.

Rétt fyrir 1960 hófu Bakkfirðingar fyrir alvöru að meta kosti þess að reisa síldarverksmiðju á Bakkafirði og skjóta þar með styrkari stoðum undir atvinnulíf og byggð á staðnum. Um svipað leyti var hið svokallaða síldarævintýri Íslendinga að hefjast. Sumarið 1961 aflaðist mikið af Norðurlandssíld (norsk-íslensku síldinni) á miðunum við Ísland. Mikið af aflanum var landað á Austfjörðum, þótt hvergi væri ævintýrið meira en á Siglufirði. Hvert metárið rak annað hvað síldveiðar varðaði næstu árin. Í kringum 1960 hafði ríkt fiskileysi í Bakkaflóa. Til landauðnar horfði með byggð í þorpi og sveit. Eftir að hugmyndin um síldarverksmiðju tók á flug hófst söfnun meðal íbúanna, en ekki var hlaupið að því að fjármagna slíkt verkefni með öðrum hætti. Engu að síður réðust heimamenn til atlögu við verkefnið.

Hinn 15. janúar 1960 hófust íbúar handa við söfnun. Fór svo að nær hver einasti íbúi í hreppnum lét fé af hendi rakna til byggingar síldarverksmiðju. Í Þjóðviljanum árið 1964 greinir frá því að elsti íbúinn á Bakkafirði, Sólveig Björnsdóttir, á áttugasta og öðru aldursári, hafi lagt fram 5.000 krónur í síldarverksmiðjuna. Sólveig var eftirlifandi eiginkona Halldórs Runólfssonar kaupmanns. Í sama blaði segir einnig frá því að Salína Ágústsdóttir frá Miðfirði hafi lagt fram 1.000 krónur af ellistyrk sínum. Er blaðamaður spurði hana hví hún hafi gert það stóð ekki á svari: "Gunnólfsvíkurfjallið er svo blátt". Fjölmargir utanaðkomandi aðilar lögðu sömuleiðis fram fé. Vélsmiðjan Bjarg í Reykjavík reisti verksmiðjuhúsin og lagði fram 200.000 krónur í hlutafé og eigandi vélsmiðjunnar, Einar Guðjónsson, lagði fram 100.000 krónur persónulega. Kaupfélag Langnesinga lagði svo fram 125.000 krónur. Hlutafélagið Sandvík hf. var stofnað um félagið og voru allir framangreindir hluthafar. Fyrsti stjórnarformaður Sandvíkur hf. var Þórhallur Jónasson.

Framkvæmdir við verksmiðjuna hófust vorið 1962. Dagana 28. og 29. júlí 1962 var lokið við byggingu bræðslunnar. Bræðsla hófst í ágúst sama ár. Um var að ræða 500 fermetra stálgrindarhús, verksmiðja og mjölgeymsla ásamt kæligeymslu. Samhliða bræðslunni hófst síldarsöltun í tunnur á Bakkafirði, en fram að því hafði síldarsöltun verið nánast engin. Hélst þetta í hendur þar sem fram til þessa þurfti að fleygja öllum úrgangi sem féll til, þar sem ekki var hægt að bræða hann. Árið 1962 voru saltaðar um 1.900 tunnur og tvöfalt það magn árið eftir. Mikil bjartsýni ríkti um framtíð staðarins við þessi tímamót. Lán fengust einnig frá opinberum aðilum, einkum Stofnlánadeild sjávarútvegsins. Skuldabréfið hér til hliðar er eitt af mörgum sem félagið gaf út til að fjármagna reksturinn.

Afkastageta bræðslunnar sjálfrar í upphafi var um 4-500 mál á dag. Fyrsta starfsárið 1962 voru brædd um 10.000 mál af síld. Hins vegar var verulegur rekstarhalli þetta ár á verksmiðjunni, m.a. vegna mistaka er lýsi úr geymum verksmiðjunnar misstist í sjóinn. Tjónið nam mörg hundruð þúsund krónum, sem var tilfinnanlegt þar sem hráefniskaup verksmiðjunnar fyrsta árið námu tæpri 1,6 milljón króna. Strax árið eftir voru gerðar endurbætur á verksmiðjunni. Var m.a. keypt pressa og skilvinda, báðar notaðar, auk hristisíu. Þá var mjölgeymsla stækkuð og keypt vörubifreið. Afköst verksmiðjunnar urðu nú 600 mál. Þetta ár voru brædd 16 þúsund mál í verksmiðjunni. Nýting á mjöli var hins vegar léleg og verkmiðjan skilaði tapi þetta ár.

Árið 1964 voru hráefnisgeymslur verksmiðjunnar auknar. Byggð var ný steinsteypt síldarþró, ásamt grunni undir aðra. Hvor þró um sig rúmaði 2.000 mál. Þetta ár voru brædd 26 þúsund mál. Nýting á mjöli var enn léleg og efnahagsstaða fyrirtækisins hafði versnað allnokkuð frá upphafi. Hlutafé verksmiðjunnar var aukið í tæpa milljón. Árið 1965 voru keyptar vélar úr fiskimjölsverksmiðju Einars Guðfinnssonar á Bolungavík, aðallega gömul og mikið notuð tæki.

Ýmsar breytingar voru nú gerðar gerðar á verksmiðjunni, einkum til að auka nýtingu hráefnisins. Síldarþrærnar voru kláraðar og byggð viðbygging. Keyptur var nýr gufuketill, ofn v. þurrkara og komið var upp bílavog til að vigta afla. Árið 1965 voru afköst verkmiðjunnar orðin 800 mál. Alls voru brædd 17.400 mál. Hlutafé var aukið um rúmar 100.000 krónur. Rekstarhalli á árinu var hins vegar rúmar 2,3 milljónir. Þróarrými var orðið um 7.000 mál. Þrátt fyrir að síldarplan og aðstaða væri fyrir hendi var engin söltunarsíld lögð upp árið 1965. Raunar voru sífelldir erfiðleikar við hráefnisöflun í verksmiðjuna, en höfnin við Bakkafjörð var ekki sú eftirsóknarverðasta að leggjast upp að með fullfermi af síld. Með endurbótum og lagfæringum var talið að afköst verksmiðjunnar fyrir vertíðina 1966 væru orðin um 1.000 mál. Heildarskuldir voru hins vegar orðnar verulegar. Að mati verksmiðjustjórans þyrfti verksmiðjan að afkasta 1.500-2.000 málum. Kostnaður við það yrði hins vegar afar mikill. Í apríl 1966 var staðan orðin slík að félagið, Sandvík hf., var ekki rekstrarhæft. Þrátt fyrir tilraunir til að bjarga rekstrinum tókst það ekki. Félagið tók ekki til starfa síldarárið mikla 1966, heldur urðu örlög þess gjaldþrot og nauðungaruppboð, sem fór fram árið eftir. Eignir Sandvíkur hf. enduðu í fangi Stofnlánadeildar sjávarútvegsins, eftir mesta síldarár íslenska síldarævintýrisins 1966.

Þrátt fyrir gjaldþrot síldarbræðslu Sandvíkur hf. á Bakkafirði gætti gríðarlegrar bjartsýni í samfélaginu almennt árið 1966, hvað varðaði veiðar og vinnslu á síld, enda mikil veiði og gott verð. Einn farsælasti skipstjóri flotans, Sæmundur Þórðarson frá Vatnsleysuströnd, hafði um þetta leyti nálgast Stofnlánadeild sjávarútvegsins í því augnamiði að reisa síldarbræðslu í Mjóafirði. Sæmundi var þá bent á að Stofnlánadeildin hefði nýverið eignast bræðslu á Bakkafirði og að Sæmundur gæti fengið hana keypta, fengi hann með sér fleiri skipstjóra. Sæmundur fékk í lið með sér verksmiðjustjórann sem stóð síðustu vaktina í bræðslunni, Árna Gíslason, auk nokkurra kunnra aflaskipstjóra. Þeir voru m.a. Guðbjörn Þorsteinsson og bræðurnir Þórður og Gísli Hermannssynir á bátunum Ögra og Vigra, auk bróður þeirra Gunnars. Einn bróðirinn enn, Sverrir Hermannsson viðskiptafræðingur (síðar ráðherra og bankastjóri) var einnig til aðstoðar. Hinn 31. ágúst keypti nýstofnað hlutafélag þeirra, Oddafell hf., verksmiðjuna, sbr. kaupsamning hér. Að sögn Sæmundar var það skilyrði kaupanna að hið opinbera veitti fé til hafnarbóta, enda væri hafnaraðstaðan ófullnægjandi.

Engar hafnarbætur urðu hins vegar á Bakkafirði í tengslum við endurreisn síldarbræðslu þar. Mun þar tvennt hafa ráðið. Annars vegar eru heimildir um að svonefnd efnahagsstofnun ríkisins hafi metið stöðuna svo að Bakkafjörður ætti enga framtíð fyrir sér sem þéttbýli. Hins vegar reyndust síldveiðar afar tregar árið 1967. Oddafell hf. stóð hins vegar fyrir einhverjum framkvæmdum og byggði m.a. vog og vigtarskúr til að vigta landaðan afla. Fljótlega hófu fyrirsvarsmenn Oddafells hf. þó að gera kröfu um að skila verksmiðjunni til ríkisins, m.a. vegna þess að ekki hafi verið staðið við hafnarbætur á Bakkafirði. Aðrir skipstjórar en Sæmundur, sem hlut áttu að stofnun Oddafells hf., stóðu heldur ekki við loforð um hráefnisöflun og lönduðu sáralitlu hráefni í verksmiðjuna. Mun þeim hafa þótt heldur glannalegt að leggja upp að bryggjunni á staðnum með fullfermi, ef eitthvað var að veðri. Lítil vinnsla var á vegum Oddafells hf. í verksmiðjunni þann tíma sem félagið rak hana, en að sögn Sæmundar var hún þó rekin með hagnaði, a.m.k. fyrst um sinn. Oddafell hf. hélt hins vegar til streitu kröfu sinni um að losna út úr rekstrinum. Málinu lauk árið 1971 með því að Ríkisábyrgðarsjóður, sem ábyrgst hafði lán til verksmiðjunnar, leysti eignirnar til sín á uppboði (sjá nánar hér) og Oddafell hf. hvarf úr sögunni.

Fljótlega eftir þetta kom heimamaðurinn Hilmar Einarsson auga á tækifæri til að verka saltfisk í húsunum, sem reist höfðu fyrir síldarbræðsluna. All nokkur vinnsla var í verkun Hilmars, enda voru hús síldarbræðslunnar sálugu mjög vel til fiskverkunar fallin, en engin önnur sambærileg aðstaða var til staðar til þess á staðnum. Menn höfðu vitaskuld haldið áfram að gera út á aðrar tegundir þrátt fyrir síldarævintýrið. Árið 1969 var t.d. landað á Bakkafirði um 340 tonnum af fiski og útfluttur saltfiskur var um 140 tonn. Vel fiskaðist á þessum árum og voru margir aðkomubátar að veiðum á sumrin á staðnum. Fengu færri en vildu aðstöðu í verkun Hilmars eftir að hann hóf verkun. Um 10-12 manns unnu að staðaldri í verkuninni. Fyrst um sinn hafði Hilmar húsin á leigu, en árið 1972 stofnaði hann Fiskiðjuna Bjarg hf. og keypti húsin. Hilmar verkaði m.a. harðfisk í verkuninni, sem þótti sérlega bragðgóður.

Sem fyrr stóð betri hafnaraðstaða meiri útgerðarumsvifum fyrir dyrum. Bryggjan átti þó ekki eftir að stækka frá þessu. Árið 1973 var settur upp krani sem gat lyft 3-4 tonna bátum upp á bryggju. Sérstakir vagnar voru hafðir undir hvern bát svo að auðvelt er að færa þá til og upp á land en stærri bátum varð ekki bjargað á land. Lítil sem engin hafnaraðstaða var fyrir stærri báta í vondum veðrum. Hér að neðan er myndband sem sýnir svipmyndir frá gömlu bryggjunni og veitir vísbendingar um við hvaða aðstæður útgerðarmenn bjuggu á Bakkafirði með gömlu bryggjuna.

Árið 1975 ákvað Hilmar Einarsson að hætta saltfiskverkun af heilsufarsástæðum. Vilji var engu að síður til og samstaða um að halda áfram fiskverkun á staðnum. Menn í þorpinu komu saman og niðurstaðan varð sú að 10 sjómenn í plássinu stofnuðu nýtt félag, Útver hf., sem tók við allri fiskverkun á staðnum. Fyrst um sinn leigði félagið fiskverkunarhúsin af Hilmari, en skömmu síðar seldi Hilmar félaginu aðstöðuna. Reksturinn gekk bærilega fyrstu árin, en árið 1977 syrti í álinn. Hinn 18. júní 1977 lagði að bryggju á Bakkafirði skipið Lady Vibeke með 200 tonna saltfarm frá Frakklandi. Er söltuð höfðu verið 85 tonn af fiski í Útveri hf. um miðjan júlímánuð fóru að koma í ljós gulir blettir á fiskinum. Rannsókn leiddi í ljós að saltið var koparmengað og því gallað. Horfði því til umtalsverðs tjóns í rekstrinum. Þrátt fyrir að illa hafi horft um nokkurn tíma tókst að bjarga verðmætum, með dugnaði og útsjónarsemi. Heimamenn brugðu á það ráð að vaska fiskinn beinlínis upp og tókst eftir það að selja hann á viðunandi verði. Auk þess fengust skaðabætur úr hendi innflytjanda saltfarmsins. Reksturinn gekk vel eftir þetta, mikið var fjárfest í tækjum og stefndi í átt til framfara. Hafnaraðstaðan var hins vegar fjötur um fót sem fyrr.

Sumarið 1983 voru loks boðnar út framkvæmdir við nýja höfn á Bakkafirði. Hafði nýrri höfn verið valinn staður rétt utan við þorpið. Verktakafyrirtækið Ellert Skúlason hf. bauð lægst í verkið, um 70% af kostnaðaráætlun og hófust framkvæmdir fljótlega eftir það. Verkið var hálfnað um mitt ár 1984, en þá kom upp ágreiningur milli verktaka og Vita- og hafnamálastofnunar um viðbótarverk og reikninga. Breyta þurfti bæði hönnun hafnargarðsins og sækja grjót á aðra staði en fyrirhugað var. Lokið var við byggingu 100 metra brimvarnargarðs árið 1984 og gátu þá stærri skip legið þar við ból. Hins vegar þurfti að nota gömlu bryggjuna áfram fyrir löndun og sem legupláss fyrir smærri báta. Áfram var unnið að því að betrumbæta nýju höfnina.

Mönnum varð fljótlega ljóst að einn brimvarnargarður myndi ekki duga til að tryggja viðunandi öryggi og hafnaraðstöðu. Í vestan- og suðvestanátt gat orðið mjög hættulegt við nýju höfnina. Næstu fimm ár slitnuðu þrír bátar upp frá legubólum. Tveimur þeirra tókst að bjarga en einn rak upp í garðinn og eyðilagðist. Í febrúar 1989 slitnaði svo Seifur NS, stærsti báturinn á staðnum, upp frá legufæri sínu og sökk við bryggjuna. Báturinn hafði um vertíðina landað um fjórðungi alls afla á Bakkafirði. Lýstu Bakkfirðingar mikilli óánægju með ástandið, en tjón vegna þessara bátaskaða nam hærri fjárhæð en kostnaðaráætlun við nýjan garð. Brá þá svo við, að þegar um sumarið var hafist handa við að reisa nýjan brimvarnargarð á móti hinum eldri og skapa þannig viðunandi bátalægi. Verkið hófst í júlí 1989 og lauk í nóvember sama ár.

Garðurinn var um 120 metra langur og þeir 20 þúsund rúmmetrar af grjóti sem notaðir voru fengust úr hafnarsvæðinu sjálfu. Um 20 metra viðlegubryggja var byggð við garðinn. Árið 1992 bættist svo við steypt flotbryggja fyrir smærri báta, um 30 metra löng. Hafði þá horft til vandræða vegna þrengsla í höfninni. Flotbryggjan slitnaði upp í óveðri árið 1995 með 17 bátum við, en björgun tókst og ekki hlaust tjón af. Sjóvarnargarðurinn laskaðist einnig nokkuð. Árið 1997 var viðlegubryggja í nýju höfninni lengd um 20 metra. Þar sem bátum hefur fækkað á Bakkafirði hefur hafnaraðstaðan þótt viðunandi hin síðari ár og ekki staðið útgerð fyrir dyrum, a.m.k. ekki á minni bátum.

Bætt hafnaraðstaða breytti því ekki að rekstur Útvers hf. gekk illa er hér var komið við sögu. Kom þar margt til. Tilkoma fiskmarkaða, deilur um fiskverð, erfiðleikar á erlendum mörkuðum o.fl. gerði fyrirtækinu erfitt fyrir. Árið 1983 var gengi íslensku krónunnar fellt og þeim sem áttu þá óseldar birgðir af fiski, eins og Útver hf., var gert að skila 10% af andvirði seldra vara til ríkisins. Útver hf. höfðaði mál til endurgreiðslu þessara fjármuna, þar sem félagið taldi þetta ólögmæta skattheimtu. Þeirri kröfu var hafnað með dómi Hæstaréttar Íslands árið 1987. Áður hafði héraðsdómur hins vegar fallist á kröfuna. Mikið fjárhagslegt áfall vegna skreiðaviðskipta olli félaginu þó einna mestum erfiðleikum. Félagið náði sér ekki á strik í byrjun 10. áratugarins, enda efnahagsástand almennt erfitt. Fór svo að félagið var úrskurðað gjaldþrota í desember 1993.

Eftir gjaldþrot Útvers hf. tók verktakafyrirtækið Gunnólfur hf., sem byggt hafði ratsjárstöðina á Gunnólfsvíkurfjalli, eignir þrotabúsins á leigu. Félagið keypti síðar fasteignir og tæki búsins. Rekstur Gunnólfs hf. gekk lengi vel. Félagið einbeitti sér að svonefndum hágæðasaltfiski fyrir Spán, Ítalíu og Grikkland. Um skeið var fyrirtækið með um 60 báta í viðskiptum, auk þess að kaupa fisk á mörkuðum. Til að mynda seldu 3/4 allra báta á Þórshöfn afla sinn á tímabili yfir á Bakkafjörð, þar sem besta verðið fékkst. Eftir aldamótin 2000 fór hins vegar að halla undan fæti í rekstrinum. Í október 2007 fóru eignir Gunnólfs hf. á uppboð og fékk Byggðastofnun eignirnar sér útlagðar sem ófullnægður veðhafi. Gunnólfur hf. var úrskurðað gjaldþrota mánuði síðar. Í janúar 2008 keypti fyrirtækið Toppfiskur í Reykjavík eignirnar af Byggðastofnun. Fyrirtækið rak fiskverkun í húsnæðinu í rúm tíu ár. Á ýmsu gekk í rekstrinum og lauk honum árið 2019 þegar félagið var úrskurðað gjaldþrota.

Fjölskylduyrirtækið Halldór fiskvinnsla ehf. hefur sömuleiðis rekið útgerð og fiskvinnslu á Bakkafirði en félagið var lengst af í eigu Áka Hermanns Guðmundssonar og Hilmu Hrannar Njálsdóttur, barnabarns Halldórs Runólfssonar. Eftir gjaldþrot Toppfisks ehf. úthlutaði Byggðastofnun auknum byggðakvóta til byggðalagsins og gerði samning árið 2019 við Halldór fiskvinnslu ehf. um veiðar og vinnslu og varð félagið þá stærsta fiskvinnslan á Bakkafirði. Halldór fiskvinnsla skipti hins vegar um eigendur sama ár er sjávarútvegsfyrirtækið GPG ehf. á Húsavík keypti reksturinn. Sama ár var stofnað nýtt félag um fiskvinnslu á Bakkafirði, Bjargið ehf., sem keypti húseignir þrotabús Toppfisks ehf. á staðnum af kröfuhöfum. Eigendur Bjargsins ehf. eru frændurnir Birgir Ingvarsson útgerðarmaður og Hilmar Þór Hilmarsson, sonur Hilmars Einarssonar. Hefur fyrirtækið m.a. stundað umfangsmikla verkun á grásleppuhrognum.

Síðustu ár hefur Bakkafjörður verið ein aflahæsta verstöð landaðrar grásleppu og grásleppuhrogna, en Bakkaflóinn er með eindæmum gjöfull á hrognkelsi, eins og margt annað. Þar er einnig að finna afar góð kúffiskmið og var kúffiskveiðiskip Þórshöfninga mikið á veiðum í flóanum. Flóinn er eftir sem áður sama matarkistan og fyrr, en útgerð þar í dag er lítil orðin miðað við það sem áður var.

Uppfært 3. maí 2024
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?