Fara í efni

Þjóðsögur

Nokkuð hefur varðveist af þjóðsögum og ævintýrum sem gerast á Langanesströnd. Því er fyrst og fremst að þakka þjóðsagnasafnarnum og Austfirðingnum Sigfúsi Sigfússyni. Einnig er að finna sögur af Langanesströnd í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Sögurnar eru um drauga, álfa, huldufólk og hvers kyns hefðbundið þjóðsagnaefni. Hér verða raktar nokkrar þær helstu.

Viðvíkurlalli - elsti draugur landsins.

Viðvíkurlalli er talinn elsti draugur landsins. Hann var talinn ættarfylgja og af sumum talinn taka á sig mynd þeirra sem hann fylgdi. Hann mun hafa verið smaladrengur sem var sveltur og dó. Einkenni hans var að þegar von var á fólki frá Viðvík gerðust ýmsir hlutir sem fyrirboðar daginn áður. Saga er til af því að Þórarinn Hálfdánarson á Bakka, er hafði sauðfé í Steintúni, hafi alltaf viljað hafa með sér öxi er hann átti leið út í Steintún, til að verjast Viðvíkur-lalla. Sonarsonur hans, Þórarinn frá Steintúni, hefur sagt frá því að hann hafi heyrt og séð ýmislegt undarlegt gerast, þegar von var á fólki frá Viðvík. Sigurbjörg Sigurðardóttir, kona Þórarins, hefur sagt þá sögu að einhvern tíma áður en þau fluttu frá Höfn í Steintún hafi maðurinn hennar verið í Höfn og var þar að lesa frameftir. Hann heyrði í hesti koma inn á hlaðið, rennt hafi verið yfir húsið og svo fjarlægðist hljóðið aftur. Svo lagðist hann og sofnaði. Morguninn eftir kom fólk frá Viðvík í heimsókn. Sagt er að hávaði hafi fylgt þessum draug, eins og hann vildi láta til sín heyra. Endalok Viðvíkur-lalla urðu þau að hann var kveðinn niður í hesthústóft í Viðvík og sér merki hennar enn.

Tungubrestur

Tungubrestur er, að öllum öðrum ólöstuðum, þekktasti draugur sveitarinnar og hefur sennilega lifað hvað lengst allra í sveitinni. Fjöldi sveitunga hans kannast vel við kauða, sem kvað sér fyrst hljóðs um miðja 19. öldina. Uppruni stráksins er reyndar eitthvað á reiki en munnmælasögur í sveitinni segja m.a. að Tungubrestur hafi verið vinnumaður eða niðursetningur hjá Páli Pálssyni bókbindara og bónda í Kverkártungu, þeim sem hann hefur jafnan verið fyrst kenndur við, og hafi hann hlotið það illa meðferð hjá honum að hún hafi dregið hann til dauða á einhvern hátt. Hann hafi eftir það ofsótt Pál og fylgt honum í Kverkártungu. Páll Pálsson (1818-1873) var léttadrengur í Geitagerði, Valþjófstaðarsókn, N-Múl. 1835. Vinnumaður á Ketilsstöðum, Vallanessókn, S-Múl. 1840 og 1842, var þar hjá foreldrum fyrri hluta árs 1843. Þegar hann synjaði fyrir barn sem honum var kennt í árslok 1845, Helga Pálsson var hann talinn vera staddur í Papey. Flutti 1848 úr Vallanessókn að Áslaugarstöðum í Vopnafirði. Bókbindari á Þorvaldsstöðum, Hofssókn í Vopnafirði, N-Múl. 1850. Húsmaður og bókbindari á Breiðumýri í Vopnafirði 1855. Bóndi í Kverkártungu á Langanesströnd, N-Múl. um 1859-63, annars í vistum og húsmennsku í Vopnafirði og á Langanesströnd lengst af á árunum um 1850-73.

Strákurinn Tungubrestur virðist hafa kunnað vel við sig í Kverkártungu, því eftir að Páll flúði þaðan fylgdi Tungubrestur öðrum ábúendum Kverkártungu og er síðan kenndur við hana. Tungubrestur hefur verið mesta meinleysisgrey því engar sagnir eru til um það að hann hafi gert þeim mein sem hann fylgdi eða þeim sem hans hafa orðið varir, þ.e.a.s. eftir að hann hætti að angra Pál sjálfan. Þess má geta að enginn hefur séð Tungubrest því hann gerir einungis vart við sig með hljóðum, einhvers konar smellum, höggum eða brestum og þaðan er nafnið komið. Sumir hafa lýst hljóðinu þannig að það sé eins og þegar dropar falla í stálvask. Hér á eftir fer kunnasta sagan um Tungubrest, færð í letur af Jóni Illugasyni (1797-1881), bónda á Djúpalæk og hreppstjóra í Skeggjastaðahreppi.

Tungubrestur:

Í hittiðfyrra (sagan er rituð 1862) var þannig varið að á Kverkártungu var tvíbýli; hét annar bóndinn Stefán Hansson, kominn úr Skagafirði, en hinn Páll Pálsson bókbindari. Á þorra flosnaði Stefán upp og var tekinn þaðan með öllu, en nokkru fyrr hafði Páll bágra kringumstæða vegna látið konu sína á annan bæ og börnin og var því orðinn einn eftir á bænum.

Á þorraþrælinn vildi svo til að Páll var að taka hey í kumli. Heyrði hann þá högg úti sem hann ætlaði í fyrstu að væri misheyrn, en þegar hann heyrði að það var ekki, ímyndaði hann sér að hestar væru að berjast í hesthúsi sem þar var. Þegar hann kom út heyrði hann ekkert. Sama kvöldið eða litlu síðar heyrði hann barið ofan í baðstofuna og upp frá því það sem eftir var vetrarins heyrðist þetta öðru hvoru nótt og dag. Annað veifið heyrðust inni um leið og höggin úti brestir líkt og þegar votar spýtur brenna; þetta var allt í kringum hann. Einu sinni sat hann t. d. á stól; heyrðist honum það vera undir stólnum. Af þessu fór svo að hann varð svo hræddur að hann þorði varla eða ekki að sofna. Bráðum fékk hann sér mann af öðrum bæjum til þess að hann gæti sofnað og eins til að komast eftir hvað þetta væri, en það tókst ekki. Maðurinn var þar tvær eða þrjár nætur í senn, nokkuð hugarhress þó eitthvað ábjátaði.

Einu sinni var hann inni hjá Páli um dag og var heldur kalt. Sagði þá Páll við hann: "Máske þú viljir fara fram í dyr og mala ögn þér til hita?" Þetta gjörði hann, en þegar hann var farinn að mala kom högg í þil sem var innan við kvörnina. Þá sagði maðurinn : "Berðu, bölvaður." En hvort sem það hefir verið af hlýðni eða þykkju lét draugsi ekki segja sér þetta tvisvar; hann fór að berja, og það svo óþyrmilega að manninum þókti nóg um og hætti malverkinu. Í öðru sinni var sami maður inni hjá Páli um eða eftir dagsetur. Heyrðu þeir þá að barið var ofan í baðstofuna. Þá sagði aðkomumaðurinn: "Berðu nú." Draugsi gerði þegar í stað eins og honum var sagt og danglaði til miðnættis hér um bil. Svo var hann þá þunghöggur að allt skalf undir og rúmið sem á var setið þókti hristast. Þó fór hann næst um það að brjóta ekki og ekki láta bresta í viðum hússins.

Aldrei held ég hann hafi tekið sig til fulls eftir þessa barsmíð, en bæði þar og annarstaðar sem Páll kom heyrðust högg, en ekki eins afskapleg. Þessi sami maður (Gestur) gekk eitt sinn út; varð honum þá snögglega óglatt og fékk uppkast um það leyti sem hann komst út á hlaðið. Sama vildi öðrum manni til sem var þar nætursakir og lagðist í rúm Páls, en óglatt sagði hann sér hefði verið áður hann lagðist út af. Í báðum sinnum þóktist hann verða þess áskynja að vofan sveimaði nálægt þeim.

Þegar fram á leið fór kona Páls smásaman að vera hjá honum og voru þá brestirnir oftast nálægt henni og var Páll smeykur um að hún mundi verða of hrædd og þorði aldrei að láta hana vera eina. Það vildi til þegar fram á sumarið kom að þau hjón voru þar bæði og Gestur sá sem malaði fyrr. Þurfti þá Páll að svipa sér til kinda, en þau voru á meðan í baðstofu og draugsi með. Fór hann þá að bresta eins og hann væri óður og ær, en Gestur vildi vera trúr og passa konuna fyrir honum, ætlaði sér að reka vogestinn burt, en hann fór sér ekki harðara en það að hann skaust sem andi úr einum stað í annan, sýndi það með brestunum að hann var nálægur þangað til Páll kom. -

Það var segin saga að aldrei var draugurinn lengi nálægt Páli, en hafði sig burt þegar Páll hreyfði sig og fór þangað sem honum virtist vofan vera. Páll hafði veður af eða þóktist hafa hvar vofan væri í hvert sinn sem hún gerði vart við sig. Ætíð þegar hætti brestunum inni heyrðust höggin úti, oft eða oftar tvö og tvö, líkt og annað bareflið færi á loft er annað gekk niður. Eitt sinn var það um veturinn að áliðnu að Páll var einsamall. Ætlaði hann, eins og varð, að hafast þar við um nóttina. Frost var mikið svo glugginn var margfaldur af hélu og gluggatrogið eins. Kveikti hann nú ljós og lét lifa hjá sér, lagði sig því næst niður og breiddi yfir sig, en ekki þorði hann að sofna. Heyrðist honum þá vera farið að leka og var sem dropinn dytti í vatn. Hugsaði hann þá með sér hvort það gæti verið að hélan hefði bráðnað svo af ljósylnum að lekið gæti, og fór að gá að því, en sá þess engin vegsummerki. - Þetta er hið helsta af heimilisstörfum draugsins, en eftir er að minnast smávika hans þegar hann skreppur á bæina í kring. Þegar Gestur fór frá Tungu út að Miðfjarðarnesseli heyrði annar bóndinn þar sem var staddur í kumli að barin voru nokkur högg ofan í það, en skömmu á eftir kom Gestur. Öðru sinni vildi það til að Páll og kona hans voru þar næturgestir. Svaf Páll hjá öðrum bóndanum, en kona hans hjá vinnukonu og hjónin önnur í húsi í baðstofunni. Allt fólkið lá vakandi nema Páll; hann var farinn að dotta. Heyrðust þá brestirnir ótt og títt og virtust þeir vera í húsinu undir eða nálægt borðinu. Þetta heyrðu þeir allir glöggt sem vöktu og höfginn rann af Páli. Fór hann þá litlu síðar á fætur og lét greipur kringum borðið og bar þá ei á þessu framar.

Sá var og munurinn þar og í Tungu að ekki heyrðust höggin úti sem komu á svipstundu þegar brestunum linnti inni. Í þriðja sinn var það að vinnukona sú sem fyrr var getið lá vakandi í rúmi sínu um nótt og heyrði einhverstaðar frammi eða úti barin fjögur högg mikil, enda kom Páll morguninn eftir. Oft um veturinn eftir að þetta kom upp var Páll yfir á Fossi sem er skammt þaðan hinumegin árinnar til þess að geta sofnað því það þorði hann aldrei einn í Tungu. Heyrðust þar þá högg úti og brestir inni, en nokkuð minna, ætla ég. Konan fór frá Páli um haustið algjörlega og að Gunnarsstöðum til foreldra sinna, en Páll hefst við í Tungu, og þykir sem vofan framar eða oftar muni vera hjá henni því í kringum hana heyrast oft brestir, högg sjaldnar, en nokkrum sinnum hefir heyrst eins og ákafleg stórrigning stangaði í gluggana, en þegar út hefir verið komið hefir verið þurviðri.Á mörgum bæjum þar sem Páll hefir komið þykjast menn lítils eða einskis verða varir; helst hefir það viljað til í Miðfirði.

Seinast var það nú fyrir skemmstu að tvö högg afar mikil heyrðust um nótt svo allt fólk fullorðið hrökk upp af svefni. Heyrði það þá litlu síðar tvö mikið minni. Um morguninn kom tengdafaðir Páls frá Gunnarsstöðum. Þetta er víst stórkostlegasta athöfn draugsa síðan fyrsta veturinn þegar hann tók til spánnýr og ólúinn nema ef vera skyldi af ferðaslarki um hávetur. Jón Illugason hefir þannig sagt frá tildrögunum til þessarar sögu: "Það er að sönnu ekki þörf að greina frá tilgátum þeim sem um þetta eru. Sumir hafa sagt það væri ekkert annað en einhver maður, aðrir að það mundi vera sending og Páll hafi sagt sér mundi helst hafa verið ætlað þetta. Mér sagði hann frá að tvisvar hefði þetta komist nærri sér í svefni. Í öðru sinni svaf hann fyrir framan mann og sagðist hann hafa sofnað athugalaust. Hefði hann þá heyrt brestina gegnum svefninn, en þegar hann hefði getað vaknað hefði það verið fast við rúmbríkina hjá andlitinu á sér. Öðru sinni hefði hann sofnað með sama hætti fyrir ofan mann og þá hefði sér fundist líkt og tekið væri utan að barkanum báðumegin og hann ei ætlað að ná andanum. Seinast ætla ég að minnast á eina getu: Hann fékk sama daginn og hann varð þessa fyrst var bréf austan úr sveitum er sagði lát föður hans. Nóttina rétt áður dreymdi pilt, meina ég í Seli, að til sín kæmi strákur sem sagðist ætla að finna Pál. Ég man ekki meira af draumnum, en víst er að hann er sannur; pilturinn er greindur og að öllu leyti vandaður. -

Páll faðir Páls bjó fyrir eina tíð í Eyjafirði; hann átti auk Páls annan son til. Þeir voru báðir á mis Sigurði nokkrum til fjárgeymslu um sumartíma, sína vikuna hver. Einn sunnudag sat bróðir Páls yfir og átti von á lausn um kvöldið, en Páll kom ekki svo drengurinn mátti aftur fara angraður með ánum til að sitja yfir þeim um nóttina. Hleypti hann þeim þá í nes eitt sem átti að verja fyrir skepnum sem engi. Kom þá Sigurður frá kirkju og var honum sagt þetta, en hann fór á stað í bræði. Stefán nokkur sem þar var fór litlu síðar að vitja um. Þeir komu báðir aftur Sigurður og Stefán, en pilturinn hefir ei sést síðan og var hans þó leitað rækilega.

Hafnardraugur

19. aldar draugur í Höfn við Bakkafjörð.

Gunnólfsvíkur-skotta

Gunnólfsvíkurskotta er afturganga Guðrúnar nokkurrar, sem Gunnólfsvíkurbóndi myrti og skildi eftir í dýi. Hún fylgdi kvalara sínum og drap loks. Gunnólfsvíkur-skotta var sögð herfileg afturganga er hafi gengið á skóm úr hákarlaskráp.

Beinakastið í Höfn

Beinakastið í Höfn er þekkt saga á svæðinu, til í lengri og skemmri útgáfum og er hér birt lengri útgáfa.

Það bar til í Höfn við Bakkafjörð, kvöld eitt í fyrstu viku jólaföstu, veturinn 1868-69, er fólk hafði lagt sig út af til rökkursvefns eins og víða tíðkaðist á bæjum á þeim árum að hundar ruku upp með gelti miklu og hlupu suður tún; bjuggust menn því við gestkomu og fóru að líta út í stafnglugga baðstofunnar, þann er vissi í suður. Tungl var að mestu fullt þetta kvöld, en skýjafar mikið í lofti; sást því mjög glöggt til hundanna annað kastið, en svo skyggði að á milli. Sást til hundanna alla leið suður fyrir túngarð og fram á veg, og fóru þeir geyst með látlausu gelti og urri, en smáþokuðust svo heim aftur, með sömu ólátunum. Voru aðfarir þeirra líkastar því, er þeir standa framan í stórgripum, hlaupa þetta sitt á hvað, en verða þó að hörfa undan. Færðist svo leikur þessi smám saman heim túnið aftur, alla leið heim á hlað, og hættu þeir þá gelti öllu og ólátum, en enginn sást gesturinn koma, og þótti fólki þetta hálfkynlegt. Var þá liðinn rökkursetutíminn, og var farið að kveikja ljós og hefja tóvinnu, eins og þá var títt.

Eldhússtúlkan, Ingveldur að nafni, hafði verið að störfum frammi í eldhúsi; kemur þá inn með fasi miklu og biður karlmenn koma fram, því að einhverjir muni vera komnir, er vilji hræða sig, því að nú sé í óða önn verið að kasta hvalbeinum inn um eldhússtrompinn. Um þessar mundir var von á tveimur bændum, heyásetningarmönnum; voru það gamansamir náungar, sérstaklega annar þeirra, Jón Bergvinsson að nafni. Taldi fólkið nú sjálfsagt, að þeir hefði komið, þegar hundarnir þutu upp, og myndi þeir hafa skotizt heim að bænum, þó að fólk sæi þá ekki, einhverju sinni, er ský dró fyrir tunglið og skugga bar á túnið, og var þeim vel trúðað til að hefja þessar glettingar, og var talið líklegt, að þeir héldi til uppi í sundum milli bæjarhúsanna.

Þeir fóru svo fram, Gunnar bóndi og einhverjir fleiri, til að heilsa upp á glettingamenn þessa. Er þeir komu í eldhúsið, sáu þeir, að saga eldabusku var sönn, því að enn var verið að kasta beinum niður um strompinn. Fóru þeir þá út og upp á bæinn og hugðust að finna bændur þessa, enda þótt nú væri algjörlega dregið fyrir tungl, því að mjög hafði þoku borið í loft á síðustu stundu. En engan mann gátu þeir fundið á bænum, og taldi Gunnar bóndi þá líklegt, að þeir myndi hafa orðið þeirra varir og hafa skotizt inn í Austurbæ, sem kallaður var og þá var í eyði, og myndi þeir svo ætla að hefja þaðan atlögu aftur. Hyggst því Gunnar að launa þeim lambið gráa og sækir nú vatn í fötu, fer upp á Austurbæjar-dyramæninn og sezt þar og ætlar að demba yfir þá vatninu, er þeir komi út. En ekki hefur hann setið þar nema litla stund, þá er honum sagt heiman úr bænum, að nú sé aftur farið að kasta inn um strompinn, og hljóti sökudólgarnir því að vera uppi á bænum. Fer hann því enn og tveir aðrir að leita betur á bænum, því að enn þá héldu menn fastlega, að þetta væri af manna völdum, en fundu ekkert sem fyrr. En með því nú var orðið mjög dimmt úti, var ekki talið óhugsandi, að þeir leyndist einhvers staðar, þó að þeir fyndist ekki. Hleður því Gunnar byssu sína með púðurskoti, fer inn í eldhús og kallar út, að nú skuli þeir vara sig, því að nú skjóti hann út um strompinn. En í sama bili og skotið reið af, var kastað inn beini, og virtist þá beinahríðin magnast um tíma á eftir. Fóru þá tveir menn enn upp á bæinn og stóðu sinn hvorum megin við strompinn, en þegar beinakastið viðhélzt enn, þó að mennirnir stæði þar, sáu menn, að hér var eitthvað það á ferðinni, sem ekki varð útskýrt eða skilið á eðlilegan hátt, og gáfust menn því upp við frekari rannsóknir.

Beinakast þetta varaði svo allt fram á einmánuð, en þá tók fyrir það eins skyndilega og þess varð fyrst vart. Allan þennan tíma bar meira og minna á þessu á hverjum sólarhring, þó mjög misjafnlega mikið. Langmest brögð voru að þessu þrjú kvöld um veturinn. Kvöldið, sem það byrjaði, svo í annað skipti rétt fyrir jólin; þá mun Ingveldur ekki hafa haldist við frammi, fyrir hræðslu sakir. Það kvöld var krapahríðarveður, en flest beinin, sem inn var kastað, voru þurr, og þótti það mjög kynlegt, því að líklegt var talið, að beinin væri tekin í svo kölluðum Öskubakka utan við bæinn þangað var þeim alltaf hent út úr eldhúshlóðunum en þar hlutu þau auðvitað að vera blaut í slíku veðri. Þriðja skiptið, seint á góunni, voru álíka mikil brögð að beinakastinu eins og í hin tvö skiptin, og flúði Ingveldur þá einnig eldhúsið. Mest virtist mönnum bera á þessu, þegar þessi stúlka var í eldhúsinu, og einu sinni að kvöldlagi í myrkri, er hún var að bera matarílát frá búri til baðstofu, var kastað þéttfast í bakið á henni frosnum moldarhnaus framan úr bæjardyrunum, er hún var á leið til baðstofu. Var álitið, að það hefði staðið í sambandi við beinakastið, því að þar gat engum manni verið um að kenna. Talaði þá húsmóðirin, Katrín þungum ávítunarorðum til þess eða þeirra, er þessa væri valdandi, og fyrirbauð, að slíkt kæmi fyrir aftur, enda varð þess ekki vart nema í þetta eina sinn. Öldruð húsmennskukona, Guðbjörg að nafni, átti heima í Höfn, er þetta gerðist, mjög einbeitt og skapmikil kona, og var það eitt af því undarlega við þetta allt, að aldrei var kastað beinum, ef hún var stödd í eldhúsi; annars horfðu allir heimamenn á beinakastið, og það oft og mörgum sinnum, og fjölda margir aðkomumenn, því að í Höfn hefur alla jafna verið gestkvæmt, og ekki varð þetta til þess að draga úr aðstreyminu, því að marga fýsti að kynnast þessu af eigin sjón. En allir fóru jafnófróðir um það, hvað þetta væri. En helzt mun þetta hafa verið eignað huldufólki, af öllum þeim, sem annars trúðu því, að það væri til.

Haustið 1868 dreymdi Ingveldi að henni þykir koma til sín kona og biðja hana að sjá til, að drengur, sem Ingveldur átti, þá 8 ára gamall, hætti að kasta steinum í klett, sem er fyrir sunnan túnið í Höfn. Konan sagði Ingveldi, að það væri bærinn sinn, og sonur hennar bryti glugga og gerði sér ýmsan skaða og ónæði með grjótkasti þessu. Dreymdi Ingveldi þennan sama draum nokkurum sinnum, an aðvaraði drenginn ekki neitt, og hélt hann áfram leik þessum. En litlu síðar hófst beinakastið, og varð Ingveldur mest fyrir því. Var álitið, að það væri hefnd frá draumkonunni.

Huldufólk

Nokkrar sagnir eru til af huldufólki og huldufólksstöðum á Langanesströnd

Nálægt Saurbæ er svonefndur Álfhóll, kennileiti á Saurbæjartanga, á merkjum við Miðfjarðarnes. Hann er merktur á korti Herforingjaráðsins, sérkennilegur og upptypptur hóll, ólíkur öðrum hæðum eystra, þar sem ávali er einkenni. Hóllinn hefur verið talinn álagahólll, sem ekki mátti raska. Annar melhóll innan og ofan við Saurbæ er nefndur Helguhóll. Sama trú var bundin þeim hóli. Þess varð að gæta vandlega að brjóta ekki álög á hólnum. Við hólinn hefur sést bláklædd kona og oft var þar hægt að finna kaffilykt.

Í Grímu hinni nýju, 5. bindi, er sagan "Grímur Grímsson og huldufólkið", rituð af Jakobi Hálfdánarsyni, eftir sögn Önnu Sveinsdóttur á Húsavík. Grímur var bóndi í Miðfirði á Langanesströnd snemma á 19. öld og sagði sjálfur Björgu, móður Önnu Sveindóttur, sögu af huldufólki. Sagan var á þá leið, að þegar Grímur var um 10 ára aldur, var hann með foreldrum sínum á bæ nokkrum. Þar var götubaðstofa, þ.e. upphækkaðir pallar voru með hliðveggjum og rúmin á þeim, en "gata" eftir miðju. Út frá miðri hlið baðstofunnar var afþiljað stofuhús, er notað var handa gestum og oftast lokað. Gangur var frá götunni gegnum "hápallinn" inn í stofu þessa. Grímur hafði ból sitt til fóta gamalli konu, næst ganginum, og þegar fólkið svaf rökkursvefni vakti hann oftast. Það var einhverju sinni á öndverðum vetri, þegar allt hitt fólkið í baðstofunni var sofnað, að Grímur heyrði umgang og sá ljós inni í stofunni. Var þar fólk á ferli en stúlka nokkur kom að framan með ýmsar vistir og gekk um beina í stofunni. Um leið og stúlka þessi gekk inn hjá Grími stakk hún upp í hann mola af einhverju, sem honum fannst sætt og bragðgott. Þá sofnaði hann rétt á eftir. Fór þessu fram fleiri kvöld. Grími fór nú að verða vel til stúlkunnar og eitt sinn sætti hann lagi að komas með henni inn í stofuna, en þá vaknaði kerlingin og kippti í hann og hvarf þá veislufólkið og sá Grímur það aldrei aftur.

Í landi Þorvaldsstaða er örnefnið Svörður og er hann upp af Fúluvík. Á árum fyrir heimsstyrjaldarinnar fannst þar mjög góðru svörður og var þá mikið grafið upp inn með keldu nokkurri, sem síðan heitir Svarðarkelda. Þarna var allmikið svæði uppmokstur, sem greri upp í smáhólum og hraukum. Á þeim var svörður þurrkaður. Djúpilækur og Þorvaldsstaðir tóku svörð þarna í áraraðir. Sagt var að mannamál heyrðist þar og var það eignað álfum.

Í "Grímu hinni nýju", V. bindi, bls. 141-143, er saga sem gerist á Bakka, þó þekkt sé í öðrum heimildum. Segir þar frá Sigríði, mikilhæfri konu er bjó á Bakka við Bakkafjörð. Svo vildi til að vinnukonur hennar hurfu ár eftir ár, alls elelfu. Tólfta vinnukonan, sem einnig hét Sigríður, leysti þær úr Álfheimum. Hafði tröllkona lagt það á bræður Sigríðar húsfreyju, 12 að tölu, "að þeir skyldu hverfa til Álfheima og búa þar og illt eiga, þangaði til þeir hefðu alilr fengið mennskar konur. Þarf nú eigi að orðlengja það, að bræðurnir gifust sinni stúlkunni hver. Sagan er tengd beitarhúsunum á Bakka, en þanga sendi Sigríður vinnukonur sínar á jólanótt að sækja hnífapör sín og lentu þær þá í Álfheima gegnum klett sem þar var.

Í "Grímu hinni nýju" segir einnig frá sögu um huldufólksstúlku í Gæsargilsárgili. Þannig var að seint í október 1902 var Jónas Jakobsson, bóndi í Nýjabæ, að leita að kindum upp með Gæsagilsánni að vestan og er kominn þangað inn eftir sem áin fellur í gljúfrum. Gengur hann þá fram á klettasnös eina og skyggnist niður í fljúfrið. Sér hann þá allt í einu stúlku standa í brekkunni niður við áan. Hún var bogin og sneri sér upp í brekkuna, og leit út fyrir að vera að tína eitthvað. Jónasi varð hálf bilt við þessa sýn og hörfaði á bak aftur, því það höfðu áður gengið miklar sögur um það að huldufólk ætti heima í þessu gili. Hann fer nú samt að hugsa um að sér kynni að hafa missýnst og gengur hann þá aftur fram á hamarinn. Sér hann þá stúlkuna aftur. Stóð hún þá upprétt og horfði á hann. Stóðu þau svona nokkrar mínútur og horfðu hvert á annað, þangað til Jónasi fór ekki að verða um sel og hvarf hann þá frá. Jónas segist hafa séð andlitsfall stúlkunnar og klæðna hennar og gat lýst því fyrir mönnum.

Nálægt þessum stöðum er Hundsvatn. Í vatninu er veitt í dag, en áður mátti það ekki. Silungur í því átti að vera eitraður og voru net þar alltaf dregin upp. Töldu menn á Nýjabæ að álfar drægju netin upp. Sumir sögðu að það væri skrímsli sem byggi í vatninu

Sigurbjörg Sigurðardóttir (1901-1985), sem bjó í Steintúni, hefur sagt frá því að hún og maður hennar, Þórarinn Magnússon, byggðu sér steinhús við hólinn sem er kallaður Bóndahóll. Það var álitið að þar væri huldufólk. Þar skammt frá er annar hóll sem heitir Húsfreyjuhóll. Gamlar sagnir sögðu að ekki mætti skerða þessa hóla. Þórarinn var ekki hjátrúarfullur, að sögn Sigríðar, og byggði því þarna við hólinn. Eftir að þau byggðu þarna varð þeim allt til meins. Þau misstu tvo hesta sem hröpuðu, misstu kú sem var komin fast að burði og margt fleira sem gerðist. Það var ekki allt með felldu. Hún bað börnin ekki að leika sér á hólnum en þau gerðu það samt oft. Þá hefur Sigríður sagt frá svonefndri Grímsgjá í nágrenninu, að þar hafi verið eitthvað dularfullt og a.m.k. þrír menn hrapað þar til bana, þar á meðal Grímur sá sem gjáin er nefnd eftir.

Uppfært 3. maí 2024
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?