Fara í efni

5. fundur um heilsueflandi samfélag

04.11.2021 17:00

Stýrihópur um heilsueflandi samfélag í Langanesbyggð

Fundargerð 5. fundar um heilsueflandi sveitarfélag í Langanesbyggð (HSAM-Lnb), haldinn 4. nóvember 2021, í nýjum fundasal sveitafélagsins að Langanesvegi 3. Fundurinn hófst kl. 17:00.
Mættir voru: Þorsteinn Ægir, Anna Lilja og Sigurbjörn Veigar.

Fundargerð

1. Fundaplan fram á vor
Umræður fóru fram um ákjósanlega fundartíma og tíðni funda fram á vor. Tillaga kom fram um að funda mánaðarlega á fimmtudögum kl. 17:00 og reyna að stilla fundum upp á þann veg að þeir væru viku fyrir fundi Byggðaráðs. Tillagan var samþykkt en fundadagskrá sveitastjórnar fyrir árið 2022 er enn í vinnslu og því verður málið tekið aftur upp á nýju ári þegar þau gögn liggja fyrir. Sammælst var um að næsti fundur HSAM-Lnb á árinu yrði 9. desember en þó yrðu fundað eftir þörfum kæmi til sérstakra verkefna sem þarfnist úrlausna utan þess tímaramma.

2. Almenn staða verkefnisins Heilsueflandi samfélag í Langanesbyggð
Almenn staða verkefnisins var rædd á breiðum grunni. Verkefnið hefur verið í ákveðnum hægagangi undanfarna mánuð en horfir til betri vegar þar sem stýrihópurinn er orðinn fullmannaður á ný.
Sigurbjörn V. tók nýverið til starfa hjá Langanesbyggð og mun sinna málefnum Heilsueflandi samfélags í Langanesbyggð á sínum vinnutíma og starfa með stýrihópnum að framgangi verkefnisins auk þess að vera tengiliður Langanesbyggðar við Landlæknisembættið og aðra samstarfsaðila.
Fulltrúar stýrihópsins voru sammála um að verkefnið væri á ákveðnum upphafspunkti á ný en þó er hægt að byggja á góðum grunni fyrri starfsemi og reynsla stýrihópsins ætti að nýtast vel við að koma verkefninu farsællega í farveg á ný.

3. Stefnumótun næsta misserið
Hópurinn metur stöðu verkefnisins svo að vinna þurfi að stefnumótun fyrir næstu mánuði. Ætlunin er að vinna frekari útfærslur á því fyrir fundinn 9. desember og skerpa á stefnu verkefnisins. Hugsanlega verður boðaður aukafundur í þessum mánuði.

4. Önnur mál
a) Íþróttavika Evrópu.
Sigurbjörn fór stuttlega yfir þátttöku Langanesbyggðar í lýðheilsuverkefninu Íþróttaviku Evrópu sem stóð yfir dagana 23.-30. september. Átakið bauð upp á ýmis tækifæri til að styðja við Heilsueflandi samfélag í Langanesbyggð og ætlunin er að taka aftur þátt á næsta ári og byggja á reynslu fyrra árs í von um að vegur Íþróttavikunnar verði meiri.
Eitt sem gæti hjálpað okkur skipuleggjendum væri að halda okkar Íþróttaviku fyrr í september og hefja undirbúning fyrr. Slíkt kemur ekki í veg fyrir fullt styrkhæfi frá ÍSÍ og gæti leitt til hagstæðara veðurfars og þess að mögulegt væri að fá fyrirlesara á svæðið
Facebook tilkynningasíðan Heilsueflandi samfélag í Langanesbyggð fór í loftið fyrir tilstilli Íþróttavikunnar og var það til mikilla hagsbóta fyrir framgang verkefnisins. Síðan er rödd okkar og samskiptalína við samfélagið til viðbótar við hefðbundna auglýsingamiðla og gerir okkur kleift að halda málefnum verkefnisins á lofti jafnt og þétt yfir árið auk þess sem hún nýtist við upplýsingamiðlun í tengslum við viðburði sem við kunnum að standa fyrir.
b) Syndum – Landsátak í sundi
Sigurbjörn fór yfir landsátakið í sundi sem stendur yfir frá 1.-23. Nóvember. Ræddir voru möguleikar til að styðja betur við átakið en ekkert afgerandi kom til umræðu enda stendur verkefnið fyllilega eitt og sér. Sigurbjörn mun vinna að því að halda verkefninu á lofti og auglýsa á meðan það er í gangi.

Fleira var ekki rætt að sinni og fundi slitið kl. 18:00

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?