Fara í efni

29. fundur velferðar- og fræðslunefndar

08.09.2025 15:00

Fundur velferðar- og fræðslunefndar

29. fundur velferðar- og fræðslunefndar Langanesbyggðar, haldinn á skrifstofu Langanesbyggðar að Langanesvegi 2, mánudaginn 8. september 2025 kl. 15:00.

Mætt voru: Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Þórarinn Þórisson, Margrét Guðmundsdóttir, Árni Bragi Njálsson og Bjarnheiður Jónsdóttir ritaði fundagerð.

Áheyrnarfulltrúar: Hilma Steinarsdóttir skólastjóri Grunnskólans á Þórshöfn, Halldóra J. Friðbergsdóttir leikskólastjóri Barnabóls, Hjördís Matthildur Henriksen fyrir kennara leikskólans, Magdalena Zawodna fyrir kennara grunnskólans, Almar Marinósson fyrir foreldrafélag grunnskólans.

Fræðslumál:

1. Aðalskoðun leiksvæða - Grunnskólinn Þórshöfn
Skýrsla lög fram.

Bókun um afgreiðslu: Skrifstofustjóra falið að skoða samning BSI um aðalskoðun leiksvæða. Nefndin óskar eftir því að þjónustumiðstöðin og skólastjóri fari yfir skýrsluna saman.

Samþykkt samhljóða.

2. Aðalskoðun leiðsvæða – Leikskólinn Barnaból
Skýrslan lögð fram.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin leggur áherslu á að leitað verði allra leiða til þess að framkvæmdir við leikskólalóð geti hafist sem fyrst.

Samþykkt samhljóða.

3. Samstarfssamningur um svæðisbundið farsældarráð á Norðurandi eystra
     03.1 Skipurit færsældarráð Norðurlands eystra.
     03.2 Starfsreglur færsældarráð Norðurlands eystra.
Sveitarfélögin, á vettvangi farsældarráðs, vinna sameiginlega áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða um farsæld barna til fjögurra ára sem tekur mið af þingsályktun um stefnu og farsæld barna, framkvæmdaáætlun ríkisins og niðurstöðum farsældarþings. Sveitarfélögin vinna sameiginlega skýrslu um framvindu áætlana um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða á tveggja ára fresti.

Lagt fram til kynningar.

4. Kynningarbréf – Byggðafesta ungs fólks á landsbyggðinni.
Kynningarbréfið lagt fram.

5. Upplýsingar frá Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu.
Upplýsingar um breytingar á lögum um grunnskóla sem fela í sér að nýtt námsmatskerfi, Matsferil verður innleitt í alla skóla grunnskóla landsins skólaárið 2025-2026.

Lagt fram til kynningar.

6. Skýrsla skólastjóra grunnskólans.

Heildarfjöldi nemenda í haust er 54 og skiptast þeir á þrjú aldursstig, sem nú hafa aðsetur í þremur aðskildum byggingum.
· Yngsta stigið, sem telur 20 nemendur í 1.–4. bekk, er staðsett í Þórsveri, nánar tiltekið í því rými sem áður hýsti tónlistarskólann.
· Miðstigið, með 12 nemendur í 5.–7. bekk, er til húsa í nýrri byggingu við Langanesveg 25. Húsnæðið köllum við Brimholt því það stendur uppi á holti með útsýni yfir hafið.
· Elsta stigið, sem samanstendur af 22 nemendum í 8.–10. bekk, hefur aðsetur á efri hæð við Fjarðarveg 5, í húsnæði sem kallast Kistufell.
Skólinn opnar kl. 7:50.

Sérgreinastofur og kennsla:
· Heimilisfræðikennsla fyrir 7.-10.bekk verður áfram í kennslueldhúsi íþróttahússins.
· Heimilisfræðikennsla fyrir miðstig fer bæði fram í Veri og Brimholti, fer eftir verkefnum.
· Smíðakennsla verður í smíðastofu í gömlu skólabyggingunni. Gengið er inn frá Langanesvegi, gegnt Brimholti.
· Íþróttir, þrek og sund verður áfram í Veri. Nú er sund kennt vikulega hjá öllum nemendum, sem er breyting frá sundlotum undanfarinna ára.

Skólamötuneytið er á sínum stað eða á Holtinu í Þórsveri og er hádegishlé frá kl. 11.30 - 12.00.
Frístund hefur komið sér vel fyrir á efstu hæð íþróttahússins og eru 17 nemendur skráðir í frístund. Tónlistarskóli Langanesbyggðar nýtir sama rými.
Stöðugildi í grunnskólanum og frístund eru 15 og eitt stöðugildi er í Tónlistarskóla Langanesbyggðar.
Skólabílar eru fjórir og er 21 nemandi sem nýtir skólabíl.
Til stóð að taka skólalóðina í gegn í sumar en eðlilega varð ekkert úr því vegna stöðunnar sem kom upp í vor. Búið var að hanna lóðina og nýju leiktækin eru komin á staðinn en bíða betri tíma, vonandi ekki of lengi.
Starfsdagar að hausti voru nýttir í að koma sér fyrir á hverjum stað og skipuleggja starfið í vetur. Ekki var pláss fyrir námskeið, ráðstefnur eða fyrirlestra í þetta skiptið á þessum starfsdögum.
Starfsfólk Þjónustumiðstöðvar Langanesbyggðar var ómissandi á þessum dögum og er enn því við erum ennþá að flytja dót á milli staða t.d. í dag þegar skólastjóri og deildarstjóri stoðþjónustu fengu eigin skrifstofu í Kistunni. Við þurfum að fjárfesta í nokkrum hlutum sem við gátum samnýtt í gamla húsnæðinu okkar, s.s. prentara, plöstunarvél, nemendatölvur og ipada.

Nemendur í 7.bekk hófu skólaárið á ferð í skólabúðir á Reykjum í Hrútafirði, þar áttu þau góða fimm daga með Líneyju umsjónarkennara og nemendum og starfsfólki frá öðrum skólum.
Í þessari viku eigum við von á góðum gestum en Þorgrímur Þráinsson kemur á föstudagsmorgun og hittir unglingastigið og á fimmtudag eigum við von á breska sendiherranum í Reykjavík, Dr. Bryony Mathew ásamt nokkrum öðrum úr sendiráðinu og munu þau hitta nemendur á yngsta og miðstigi.
Dagur læsis er í dag og er þessi vika merkt sem bókavika á skóladagatali.
Það er alltaf ánægjulegt að hefja nýtt skólaár og þetta ár er engin undantekning. Breyttar aðstæður geta falið í sér dýrmæt tækifæri til að læra, vaxa og þróast. Starfsfólk skólans er fagfólk sem vinnur af einlægni og metnaði að því að skapa jákvætt, öruggt og fjölbreytt námsumhverfi fyrir alla nemendur.

7. Skýrsla leikskólastjóra
Skólaárið fer mjög vel af stað hjá okkur, allir mættu endurnærðir eftir sumarfrí.
Ágúst mánuður fór í að aðlaga ný börn og gekk það mjög vel og allir eru orðnir öryggir og tilbúnir í þetta.
Við breyttum til og ákváðum að hafa flæði í morgunmatnum og gengur það mjög vel, ég á alveg von á að við gerum einnig breytingar á hádegismatnum þegar komin er góð reynsla á morgunmatinn. Þrír starfsmenn eru búnir eða að fara í þessari viku á réttindanámskeið í Jákvæðum aga og þá eru allir starfsmenn sem vinna með börnunum komnir með þau réttindi hjá okkur.

Heildar starfsmannafjöldi er 9 og 8,75 stöðugildi.
Sérkennslustjóri í 10% hlutfalli í leikskólanum.
21 barn er á leikskólanum og mögulega fjölgar um áramót.
Ekkert hefur gerst í þeim lóðaframkvæmdum sem til stóð að fara í í sumar, sem er mjög miður þar sem ástand lóðarinnar er mjög dapurt.

8. Grunnskólinn á Þórshöfn – staða mála
     08.1 Samantekt sýna.
     08.2 Minnisblað sveitarstjóra til sveitarstjórnar.
     08.3 Bókun sveitarstjórnar um málið.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin hvetur íbúa Langanesbyggðar að kynna sér málið vel og koma skoðunum og hugmyndum sínum á framfæri á íbúafundi sem til stendur að halda n.k. október.

Samþykkt samhljóða.

Velferðarmál:

9. Skipurit velferðarmála í Langanesbyggð
Silvia Jónsdóttir forstjóri Nausts kom og ræddi mál félagsþjónustu og kynnti starfsemina á Nausti.

Bókun um afgreiðslu: Silvíu og formanni nefndarinnar er falið að útfæra upplýsingabækling velferðarþjónustu Langanesbyggðar.

Samþykkt samhljóða.

10. Önnur mál
     10.1 Úthlutun félagslegrar íbúðar að Bakkavegi 23.

Bókun um afgreiðslu: Umsóknarfrestur vegna íbúðarinnar að Bakkavegi er liðinn og felur nefndin sveitarstjóra að fá úthlutunarnefnd til að fara yfir og meta umsóknir.

Samþykkt samhljóða

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið kl. 16:55.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?