Fara í efni

104. fundur sveitarstjórnar

26.09.2019 17:00

 Fundur í sveitarstjórn

 104. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn í félagsheimilinu Skólagötu 5 Bakkafirði, fimmtudaginn 26. september 2019. Fundur var settur kl. 17:00.

 Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst varaoddviti, Árni Bragi Njálsson, Halldór R. Stefánsson, Siggeir Stefánsson, Almar Marinósson, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Elías Pétursson sveitarstjóri og Jónas Egilsson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fundinn og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Hann spurði hvort athugasemdir væru við að tvær tillögur sem vísað var til sveitarstjórnar af byggðaráði væru teknar til umræðu og afgreiðslu vegna liðar 7 og 8, þ.e. tillaga til breytinga á verðskrá í sundlaug og íþróttahúsi Langanesbyggðar og tillaga um breytingu á gjaldskrá grunn- og leikskóla Langanesbyggðar. Svo var ekki.

Því næst var gengið til dagskrár.

 Dagskrá

 1) Fundargerð 414. fundar stjórnar Hafnarsambands sveitarfélaga, dags. 28. ágúst 2019

2) Fundagerðir 320., 321., 322., 323. og 324. funda stjórnar Eyþings, 20. maí, 12. júní, 25. júní, 13. og 27. ágúst 2019

3) Fundagerðir 14., 15. og 16. funda Siglingaráðs, 7. mars, 10. apríl og 23. maí 2019

4) Fundargerð 53. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 21. ágúst 2019

5) Fundargerð 11. fundar byggðaráðs, dags. 29. ágúst 2019

a) Liður 5, vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar: Skólamál – minnisblað skólaráðgjafa

6) Fundagerð skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 17. sept. sl.

a) Liður 1: Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 – Efnistökusvæði

b) Liður 3: Umsókn um framkvæmdaleyfi í landi Hóls, dags. 19. ágúst sl.

c) Liður 4.1: Deiliskipulag fyrir kirkjugarð Þórshafnarkirkju – lokaafgreiðsla.

d) Liður 4.2: Deiliskipulag fyrir athafnasvæði – tillaga að svari til umsagnaraðila

7) Fundargerð atvinnu- og nýsköpunarnefndar, dags. 17. sept. sl.

a) Liður 2: Umsókn um styrk vegna fuglaskoðunarhúsa

8) Styrkvegafé - afgreiðsla nefnda

9) Áskorun til ríkisstjórnar og sveitarfélaga frá Samtökum grænkera

10) Ónýtar girðingar á eyðijörðum – yfirlit um stöðu

11) Sex mánaða uppgjör

12) Frá U-lista: Bréf frá ráðuneyti vegna kvörtunar um skort á upplýsingum og gögnum, til kynningar.

13) Frá U-lista: FFPP, upplýsingar um stöðu verkefnisins,

14) Frá U-lista: Framtíðarsýn Langaneshafna, staða og framtíð

15) Frá U-lista: Kennsluaðstaða fyrir heimilisfræði í Veri

16) Skýrsla sveitarstjóra

 Fundargerð

 1. Fundargerð 414. fundar stjórnar Hafnarsambands sveitarfélaga, dags. 28. ágúst 2019

Fundargerðin lögð fram.

2. Fundagerðir 320., 321., 322., 323. og 324. funda stjórnar Eyþings, 20. maí, 12. júní, 25. júní, 13. og 27. ágúst 2019

Fundargerðirnar lagðar fram.

3. Fundagerðir 14., 15. og 16. funda Siglingaráðs, 7. mars, 10. apríl og 23. maí 2019

Fundargerðirnar lagðar fram.

4. Fundargerð 53. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 21. ágúst 2019

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku Siggeir Stefánsson og Elías Pétursson.

5. Fundargerð 11. fundar byggðaráðs, dags. 29. ágúst 2019

a) Liður 5, vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar: Skólamál – minnisblað skólaráðgjafa

Minnisblað frá Gunnari Gíslasyni ráðgjafa dags. 27. ágúst 2019, lagt fram.

Til máls tóku Elías Pétursson, Almar Marinósson, Þorsteinn Ægir Egilsson, Mirjam Blekkenhorst, Almar Marinósson. Elías Pétursson, Þorsteinn Ægir Egilsson veittu andsvar. Siggeir Stefánsson.

Samþykkt um afgreiðslu: Sveitarstjórn lýsir yfir ánægju sinni með þá vinnu sem í gangi hefur verið og snýr að aukinni samþættingu skólastiga í Langanesbyggð. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra, skólaráðgjafa og velferðarnefnd að vinna tillögu að faglegri sameiningu grunnskóla og leikskóla og leggja fyrir næsta fund sveitarstjórnar. Sveitarstjórn leggur á það áherslu að samráð verði haft við skólastjóra og starfsfólk.

Samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur. Með tillögunni greiddu atkvæði: Þorsteinn Ægir Egilsson, Mirjam Blekkenhorst, Árni Bragi Njálsson, Halldór R. Stefánsson. Á móti: Siggeir Stefánsson, Almar Marinósson, Sólveig Sveinbjörnsdóttir.

Almar Marinósson tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun U-listans: Eftir umræður og samtöl við fagaðila í fræðslumálum er það mat okkar að hvorki faglegur né rekstrarlegur ávinningur sé af því að sameina grunn- og leikskólann. Því teljum við að farsælasta lausnin á auknu samstarfi stofnananna sé meðal annars að samræma námskrár og endurnýja starfs- og verklýsingar stjórnenda í samvinnu við fagaðila, velferðarnefnd og starfsmenn og höfnum því alfarið sameiningu grunn- og leikskóla.

b) Liður 7, Breyting á á gjaldskrá íþróttamiðstöðvar

Lagt fram minnisblað fyrir sveitarstjórn með greinargerð með ástæðum breytinganna. Samþykkt um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir svohljóðandi breytingar á verðskrá fyrir sundlaug og íþróttahús Langanesbyggðar:

1. Niður falli sérstakir báðir verðliðir fyrir „spinning“ í 1. tl. II. kafla verðskrá í sali.

2. Skáletraður skýringartexti með ofangreindum lið hljóðist svo: „Með aðgangi í þreksal (spinning, jóga, hópleikfimi o.fl. þ.h.) er innifalinn aðgangur að búningsklefum og sturtum.

Þessar breytingar taki gildi frá og með 1. október nk.

Til máls tók: Almar Marinósson. Elías Pétursson veitti andsvar.

Samþykkt samhljóða.

c) Liður 8, Gjaldskrá grunnskóla – lengd viðvera

Lagt fram minnisblað, dags. 26. september 2019 um tildrög málsins.

Samþykkt um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir svohljóðandi viðbætur við samþykkt um gjaldskrá grunn- og leikskóla Langanesbyggðarlögð fram: Nýr liður: Lengd viðvera/frístund hljóðist svo:

1. Mánaðargjald fyrir lengda viðverðu verði kr. 8.000 á mánuði.

2. Frístund/lengd viðvera er alla skóladaga til kl.16.00.

3. Núverandi liður 3. verði liður 4.

Þessi breyting taki gildi frá og með 1. október 2019.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin staðfest.

6. Fundagerð skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 17. sept. sl.

d) Liður 1: Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 – Efnistökusvæði.

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007 – 2027, efnistökusvæði. Tillagan var auglýst lögum samkvæmt þann 20. mars sl., með fresti til aths. til 29. apríl 2019. Engar athugasemdir hafa borist.

Samþykkt um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða tillögu að aðalskipulagsbreytingu og felur sveitarstjóra að senda hana til Skipulagsstofnunar í samræmi við 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða.

e) Liður 3: Umsókn um framkvæmdaleyfi í landi Hóls, dags. 19. ágúst sl.

Lögð fram beiðni um framkvæmdaleyfi til skógræktar á lögbýlinu Hóli, dags. 19. ágúst 2019. Svæðið sem sótt er um, er innan svæðis aðalskipulags Langanesbyggðar 2007-2027 sem skilgreint er sem skógræktarverkefni.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn fellst á framlagða beiðni um framkvæmdaleyfi á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Samþykkt samhljóða.

f) Liður 4.1: Deiliskipulag fyrir kirkjugarð Þórshafnarkirkju – lokaafgreiðsla.

Lögð var fram tillaga að deiliskipulagi kirkjugarðs Þórshafnarkirkju. Skipulagsgögn eru skipulagsuppdráttur og greinargerð dags. 17. september 2019. Tilgangur skipulagsins er að skapa umgjörð fyrir trúariðkun og setja skilmála um framtíðar uppbyggingar kirkjugarðs við Þórshafnarkirkju. Viðfangsefni er m.a. skilgreining grafreita, gönguleiða, aðkomu og bílastæða. Drög að deiliskipulagi fyrir kirkjugarð Þórshafnarkirkju lágu frammi til kynningar á skrifstofu sveitarfélagsins 26.-31. ágúst 2019. Þá var gefinn kostur á að koma athugasemdum um drögin á framfæri í viku frá opnu húsi. Engar athugasemdir bárust.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa tillögu að deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá er sveitarstjóra falið að koma tillögunni til umsagnar hjá umsagnaraðilum.

Samþykkt samhljóða.

g) Liður 4.2: Deiliskipulag fyrir athafnasvæði – tillaga að svari til umsagnaraðila

Tillaga að deiliskipulagi athafnasvæðis á Þórshöfn var auglýst 24. júlí 2019 með athugasemdafresti til 4. september í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsagnir bárust frá þremur umsagnaraðilum. Gerð hefur verið lítilsháttar lagfæring á skipulagsuppdrætti í samræmi við umsögn Vegagerðarinnar. Deiliskipulagið er sett fram á skipulagsuppdrætti með greinargerð dags. 6. maí 2019 (með breytingum 23. september).

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir bókun skipulags- og umhverfisnefndar og samþykkir deiliskipulag athafnasvæðis á Þórshöfn og felur sveitarstjóra að annast gildistöku í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin staðfest.

7. Fundargerð atvinnu- og nýsköpunarnefndar, dags. 17. sept. sl.

a) Liður 2: Umsókn um styrk vegna fuglaskoðunarhúsa

Til máls tóku Mirjam Blekkenhorst og Almar Marinósson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að taka þátt í styrkumsókn á þeim forsendum sem fram hafa verið lagðar. Verði svar við umsókn jákvætt skal finna fjárþörf verkefnisins stað í fjárhagsáætlun vegna 2020.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin staðfest.

8. Styrkvegafé - afgreiðsla nefnda

Fyrir liggja tillögur atvinnu- og nýsköpunarnefndar og skipulags- og umhverfisnefndar. Dreifbýlisráð hefur ekki getað komið saman vegna annríkis nefndarmanna.

Til máls tóku: Elías Pétursson, Þorsteinn Ægir Egilsson, Mirjam Blekkenhorst.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir tillögur nefndanna og felur sveitarstjóra að koma verkunum í framkvæmd og semja við verktaka. Leggja skal áherslu á áframhald framkvæmda við Kverkártunguveg og veg inn að Gunnlaugsá. Ef fjármunir verða eftir að afloknum framangreindum verkefnum eða ef veður hamlar framkvæmdum þá skal laga veg upp á Heiðarfjall.

Samþykkt samhljóða.

9. Áskorun til ríkisstjórnar og sveitarfélaga frá Samtökum grænkera

Áskorun til ríkisstjórnar og sveitarfélaga frá Samtökum grænkera á Íslandi dags. 20. ágúst 2019, lögð fram til kynningar.

10. Ónýtar girðingar á eyðijörðum – yfirlit um stöðu

Fram er lagt til kynningar minnisblað dags. 16. sept. sl þar sem farið er yfir stöðu verkefnisins Í kjölfar ákvörðunar sveitarstjórnar um að láta hreinsa ónýtar girðingar á eyðijörðum var bréf sent í ábyrgð á fulltrúa eigenda allra eyðijarða í Langanesbyggð.

Til máls tók Elías Pétursson, Almar Marinósson. Elías Pétursson veitti andsvar.

11. Sex mánaða uppgjör

Rekstraruppgjör fyrir fyrstu sex mánuði ársins lagt fram fyrir rekstur málaflokka, rekstur deilda, rekstur með samanburði miðað við síðustu ár m.v. áætlaða 12 mánaða niðurstöður og yfirlit launa.

Til máls tók Elías Pétursson sveitarstjóri og fór yfir rekstur sveitarfélagsins, skatttekjur eru 4,7 m.kr. lægri en áætlun gerði ráð fyrir og tekjur frá jöfnunarsjóði 13,8 m.kr. lægri. Þrátt fyrir lægri tekjur þá er rekstrarniðurstaða A-sjóðs jákvæð um 7,8 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðu er aftur neikvæð um 20,1 m.kr. þar ræður neikvæð rekstraniðurstaða hafnar og hjúkrunarheimilis. Launakostnaður innan A-sjóðs er 4,6% hærri en áætlun gerir ráð fyrir en reiknað er með að heldur gangi saman með rauntölum og áætlun þegar líða tekur á árið. Launakostnaður samstæðu er 8,3% yfir áætlun, þar ræður miklu kostnaður vegna endurskipulagningar þjónustu og óvæntur kostnaður sem fallið hefur á hjúkrunarheimili.

Til máls tóku Siggeir Stefánsson. Elías Pétursson veitti andsvar. Siggeir Stefánsson, Elías Péturson.

12. Frá U-lista: Bréf frá ráðuneyti vegna kvörtunar um skort á upplýsingum og gögnum, til kynningar.

Lagt fram bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til Langanesbyggðar, dags. 16. maí 2019.

Til máls tók Siggeir Stefánsson.

13. Frá U-lista: Finnafjarðarverkefnisins, upplýsingar um stöðu

Lagt fram af U-lista: Minnisblað sveitarstjóra, dags. 30. apríl 2019, um áfallinn kostnað og fylgiskjöl 1 og 2 um samantekt á kostnaði sem hefur fallið á Langanesbyggð og Vopnafjarðarhrepp.

Til máls tóku: Siggeir Stefánsson, Elías Pétursson fór yfir helstu atriði málsins. Þau eru:

Almenn staða verkefnisins er sú að lokið er við stofnun þeirra fyrirtækja sem aðilar urðu sammála um að stofna, þ.e. FFPA (rekstraraðili hafnar) og FFPD (þróunarfélag).

Sveitarstjóri hefur átt samtal við Minjastofnun vegna kortlagningar fornminja og er nú unnið að gerð verkefnisáætlunar.

Búið er að ákveða fund samráðshóps sveitarfélaga, stjórnvalda og annarra aðila verkefnisins, hann verður haldinn í október í samhengi við Arctic Circle ráðstefnuna. Á fundinum verður að líkindum lögð fram skýrsla sem kveðið er á um í gildandi viljayfirlýsingu aðila.

Fyrir á að giska þremur vikum var fundað með öllum landeigendum. Til funda boðaði sveitarfélagið en fékk á fundina fulltrúa FFPD til að útskýra sjónarmið félagsins og komandi skref. Ekki er á þessum vettvangi hægt að fara út í einstök atriði er fram komu á fundunum en þeir voru upplýsandi og góður. Um er að ræða fyrstu fundi með landeigendum eftir að félög um verkefnið voru stofnuð. Vert er að taka fram að sveitarfélagið og eða FFPA hafa, á þróunartíma, einungis forgöngu um að upplýsa landeigendur eftir því sem verkefnum miðar og að taka þátt í og aðstoða við samskipti landeigenda við FFPD.

Ekkert liggur fyrir um aðkomu fjárfesta að verkefninu en vitað er að FFPD er að vinna að málinu.

Stjórn FFPA hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort og þá hvenær ráða skuli starfsmann að verkefninu en líklegt er að það verði rætt á komandi fundi stjórnar. Vert er að taka fram að samkvæmt stjórnunarsamningi þá þurfa sveitarfélögin að bera kostnað vegna hugsanlegrar ráðningar nema ef FFPD hefur óskað eftir því að FFPA vinni skilgreind og kostnaðarmetin verkefni.

Unnið er að undirbúningi upplýsingarfundar með báðum sveitarstjórnum þar sem farið verður ítarlega yfir einstaka efnisþætti verkefnisins með það að markmiði að upplýsa sveitarstjórnir rækilega um öll þau „verkfæri“ sem í samningum eru og geta haft mikil áhrif á niðurstöðu einstakra þátta verkefnisins.

Til máls tóku: Siggeir Stefánsson, Elías Pétursson, Siggeir Stefánsson, sem lagði fram svohljóðandi bókun U-listans: U-listinn þakkar fyrir þessi svör.

Við ítrekum okkar afstöðu að það sé áríðandi að ráða verkefnisstjóra í Finnafjarðarverkefnið. Það er nauðsynlegt að vandað sé til verka í samskiptum við landeigendur og aðra samstarfsaðila verksins.

U-listinn óskaði síðastliðinn vetur eftir upplýsingum um útlagaðan kostnað við Finnafjarðarverkefnið og einnig aftur í sumar. Það tók mjög langan tíma að fá þessar upplýsingar afhentar í fyrra skiptið og þurfti að leita liðsinnis ráðuneytis sveitarstjórnamála

Að mati U-listans þá er lögfræðikostnaður við Finnafjarðarverkefnið orðinn mjög hár. Kostnaður við lögfræðiaðstoð Langanesbyggðar við verkefnið er kominn yfir 27 milljónir króna frá ársbyrjun 2017.

Eins og við höfum áður bent á þá eru þau tengsl sem sveitarstjóri Langanesbyggðar hefur við lögfræðistofuna Bonafide mjög mikil. Bonafide sinnir lögfræðilegum verkefnum fyrir Langanesbyggð. Eigandi stofunnar Lúðvík Bergvinsson og Elías Pétursson sveitarstjóri eru systrasynir.

Oddviti gerði hlé á fundi kl. 18:16.

Oddviti setti fund að nýju kl. 18:31.

Oddviti las svohljóðandi bókun meirihlutans og sveitarstjóra: Fyrst er þess að geta að tengsl sveitarstjóra og nefnds lögfræðingsins, hafa allt frá þeim tíma þegar umrædd lögfræðistofa var ráðin, verið öllum ljós. Ráðningarferlið var opið og kjörnum fulltrúum rækilega gerð grein fyrir því að báðir þessir menn eiga ættir sínar að rekja til Skála á Langanesi. Þess vegna vekur þessi bókun nú ákveðna undrun enda ekki um neina opinberun að ræða. Hvað varðar lögfræðikostnað sveitarfélagsins, þá erum við sammála því að hann sé hár, enda er um að ræða eitt stærsta verkefni Íslandssögunnar ef af verður og gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir sveitarfélögin bæði og landið allt. Þess vegna hefur íslenska ríkið styrkt sérfræðivinnuna sem hefur greitt stærstan hluta þess kostnaðar sem fallið hefur til. Umræddur fjárhagslegur stuðningur ríkisins sýnir það traust sem borið er til þeirra sem að samningsgerð hafa komið.

Siggeir Stefánsson óskaði eftir fundarhlé kl. 18:33. Samþykkt.

Oddviti setti fund að nýju kl. 18:46.

Til máls tók Siggeir Stefánsson og lagði fram svohljóðandi bókun U-listans: Ekki var að okkar mati um opið ráðningarferli að ræða því einungis var lagt fram tilboð frá Bonafide.

Til máls tóku: Halldór R. Stefánsson, Almar Marinósson. Elías Pétursson veitti andsvar. Almar Marinósson, Árni Bragi Njálsson, Siggeir Stefánsson, Þorsteinn Ægir Egilsson, Halldór R. Stefánsson, Mirjam Blekkenhorst, Elías Pétursson, Siggeir Stefánsson.

Siggeir Stefánsson óskaði eftir fundarhlé kl. 19:16. Samþykkt.

Oddviti setti fund að nýju kl. 19:21.

Til máls tók Siggeir Stefánsson.

14. Frá U-lista: Framtíðarsýn Langaneshafna, staða og framtíð

Lögð fram af U-lista fundargerð 3. fundar hafnarnefndar Langanesbyggðar dags. 10. maí 2019.

Til máls tók Siggeir Stefánsson og lagði fram svohljóðandi bókun og tillögu fyrir hönd U-listans: Á fundi Hafnarnefndar frá 10. maí síðastliðinn lagði Jónas Jóhannsson nefndarmaður fram bókun þar sem gerð var athugasemd við stefnuleysi í hafnarmálum Langanesbyggðar. Leggjum til að hafist verði strax handa við vinnu að framtíðarsýn hafnanna og önnur þau atriði sem fram komu hjá Jónasi.

Tillaga: U-listinn leggur til að haldinn verði fundur hafnarnefndar og hagsmunaaðila til stefnumótunar í hafnarmálum í Langanesbyggðar eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi.

Til máls tók: Elías Pétursson.

Halldór R. Stefánsson óskaði eftir fundarhlé kl. 19:38. Samþykkt.

Oddviti setti fund að nýju kl. 19:40.

Tillagan borin upp og samþykkt með þremur atkvæðum Siggeirs Stefánssonar, Sólveigar Sveinbjörnsdóttur og Almar Marinóssonar. Hjáseta: Þorsteinn Ægir Egilsson, Mirjam Blekkenhorst, Árni Bragi Njálsson, Halldór R. Stefánsson.

Halldór R. Stefánsson gerði grein fyrir afstöðu meirihlutans lagði fram svohljóðandi bókun fyrir hönd meirihlutans: Á síðasta fundi Hafnarnefndar var ákveðið að boða Ísfélagið og aðra hagsmunaaðila til fundar við nefndina. Sú ákvörðun nefndarinnar var staðfest í sveitarstjórn í sumar og er unnið í samræmi við hana.

15. Frá U-lista: Kennsluaðstaða fyrir heimilisfræði í Veri

Til máls tók Sólveig Sveinbjörnsdóttir. Elías Pétursson veitti andsvar. Sólveig Sveinbjörnsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun U-listans: U-listinn lýsir yfir vonbrigðum sínum með forgangsröðun verkefna í sveitarfélaginu og telur að kennsluaðstaða í heimilisfræði hefði átt að vera eitt af forgangsverkefnum sveitarfélagsins.

Til máls tók Þorsteinn Ægir Egilsson, Almar Marinósson, Elías Pétursson veitti andsvar.

16. Skýrsla sveitarstjóra

Sveitarstjóri tók til máls og fór yfir það helsta sem í gangi hefur verið undanfarið og ekki hefur verið getið á fundinum.

Ísfélagið – sveitarstjóri ásamt oddvita funduðu með framkvæmdastjóra Ísfélagsins í lok síðasta mánaðar. Á fundinum var farið yfir ýmis mál sem á fyrirtækinu og sveitarfélaginu brenna. Viðlíka fundir hafa verið með nokkuð reglubundnum hætti undanfarin ár og eru mjög gagnlegir.

Aukalandsþing Sambands Íslenskra sveitarfélaga – Þann 6 september sl. sótti sveitarstjóri aukalandsþing þar sem fyrirhuguð lögþvinguð sameining sveitarfélaga var til umræðu. Óhætt er að segja að þingið hafi verið áhugavert og umræður líflegar.

Langanesvegur 2 – Lokið er við klæðningu hússins og unnið að frágangi lóðar, klæðing tókst mjög vel og óhætt að segja húsið mikla bæjarprýði.

Varmadæluvæðing – Unnið er að frágangi lagna í jörð og lokahönnum vegna varmadæluvæðingar á skólatorfu. Varmadæluvæðingu leikskóla er lokið utan smávægilegs frágangs yfirborðs á plægingarsvæði.

Sorphirðing – Haldinn var verkfundur vegna hirðingar, í framhaldi fundar var sent bréf á alla lögaðila í sveitarfélaginu og íbúa þar sem hvatt var til bættrar flokkunar. Meirihluti aðila stendur sig ákaflega vel en ljóst að þörf er reglubundinnar hvatningar.

Ljóseiðaravæðing Langanesströnd – Langt er komið að plægja ljósleiðara bæði á ströndinni og í þéttbýlinu. Beðið er svars vegna styrkumsóknar vegna ljósleiðaratengingar í tengistöð á Þórshöfn.

Betri Bakkafjörður – Verkefninu hefur miðað áfram og eru ýmis verkefni komin á veg, samfélagsmiðstöð að verða tilbúin, gistiheimili komið í rekstur, samstarfsaðilar fundnir vegna bragga og svo mætti telja. Verkefnisstjórn mun funda þann 8. október, meginefni fundar er að ljúka gerð verkefnisáætlunar.

Bakkafjörður – Á höfninni hafa tveir starfmenn þjónustumiðstöðvar verið að mála bryggju og vinna að tiltekt.

Þjónustumiðstöð – hefur annars verið að vinna fjölmörg verkefni, þar má telja upp að málað hefur verið á Nausti, ný uppþvottavél keypt fyrir mötuneyti, standsett íbúð fyrir tónlistarkennara, lagfærð aðstaða í þjónustumiðstöð, villikettir handsamaðir og komið í fóstur svo fátt eitt sé nefnt.

Að síðustu má geta þess að sveitarstjóri mun í komandi viku halda sameiginlegt námskeið í Office 365 fyrir kennara grunnskóla og leikskóla, hlakkar hann mjög til þess.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20:07.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?