Fara í efni

99. fundur sveitarstjórnar

02.05.2019 17:00

 

 

Fundur í sveitarstjórn



99. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn í Þórsveri á Þórshöfn, fimmtudaginn 2. maí 2019. Fundur var settur kl. 17:00.

 

Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Oddný S. Kristjánsdóttir, Halldór Rúnar Stefánsson, Árni Bragi Njálsson, Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Elías Pétursson sveitarstjóri og Jónas Egilsson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fundinn og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð.

Siggeir Stefánsson lagði fram svohljóðandi bókun: U-listinn gerir hér með athugasemdir við að því hafi verið hafnað að setja inn á dagskrá liði frá U-listanum. Óskað var eftir þessum liðum inná dagskrá á hefðbundinn hátt og samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins. U-listinn vill einnig taka það fram að fundargögn eiga að berast 2 sólarhringum fyrir fund, en gögn, meðal annars vegna 12 og 13, bárust of seint, samkvæmt samþykktum og ætti í raun að fella þá dagskrárliði út af dagskrá.

Til máls tóku: Elías Pétursson, Siggeir Stefánsson, Elías Pétursson, Siggeir Stefánsson.

Oddviti lagði til að svofelldar breytingar yrðu gerðar á útsendri dagskrá:

Að ósk sveitarstjóra verði eftirfarandi lið bætt á dagskrá:

  1. Nýr liður 6. Útboð á snjómokstri.

Að ósk U-lista verði eftirfarandi liðum bætt á dagskrá:

  1. Nýr liður 14: Íþróttahúsið Ver.

  2. Nýr liður 15: Bréf dags. 17. apríl 2019 frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

  3. Nýr liður 16: Finnafjarðarverkefnið.

  4. Nýr liður 17: Lögbýlið Hóll í landi Hellulands.

  5. Nýr liður 18: Skógrækt í Langanesbyggð.

  6. Nýr liður 19: Beitningarhöll.

Númeraröð annarra liða breytist í samræmi við þessar breytingar.

Samþykkt samhljóða.

Að því loknu var gengið til dagskrár.



Dagskrá

  1. Fundargerð 870. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 11. apríl 2019.

  2. Fundargerð 411. fundar Hafnarsambands Íslands, dags. 22. mars 2019.

  3. Fundargerð 412. fundar Hafnarsambands Íslands, dags. 10. apríl 2019.

  4. Fundargerð 4. fundar byggðaráðs Langanesbyggðar, 24. apríl 2019.

  5. Bifreið fyrir Þjónustumiðstöð.

  6. Útboð á snjómokstri.

  7. Starfsemi Flugklasans Air 66N 8. okt. 2018-31. mars 2019.

  8. Samgöngu og sveitarstjórnaráðuneytið dags. 16. apríl 2019, úrskurður vegna fjallskilamála.

  9. Lánasjóður sveitarfélaga, dags. 17. apríl 2019, tilkynning um arðgreiðslu 2019.

  10. Stapi Lífeyrissjóður, aðalfundarboð 8. maí 2019.

  11. Umsögn um rekstrarleyfi Skólabakka á Bakkafirði.

  12. Aðalskipulagsbreyting, efnistökusvæði vegna vegagerðar.

  13. Finnafjarðarverkefnið, fjárhagsuppgjör út 2018.

  14. Íþróttahúsið Ver.

  15. Bréf dags. 17. apríl 2019 frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

  16. Finnafjarðarverkefnið.

  17. Lögbýlið Hóll í landi Hellulands.

  18. Skógrækt í Langanesbyggð.

  19. Beitningarhöll.

  20. Ársreikningar Langanesbyggðar 2018 – fyrri umræða.



Fundargerð

1.Fundargerð 870. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 11. apríl 2019

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: Siggeir Stefánsson, Elías Pétursson, Siggeir Stefánsson.

Samþykkt um afgreiðslu: Sveitarstjóra er falið að rita umsögn um þær fyrirætlanir ríkisins um að lækka framlög til Jöfnunarsjóðs og einnig að ítreka álit sveitarfélagsins um að skerða önnur framlög sveitarfélaga með það að markmiði að þvinga þau til sameiningar.
Samþykk samhljóða.

2.Fundargerð 411. fundar Hafnarsambands Íslands, dags. 22. mars 2019

Fundargerðin lögð fram.

3.Fundargerð 412. fundar Hafnarsambands Íslands, dags. 10. apríl 2019

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tók Siggeir Stefánsson.

4.Fundargerð 4. fundar byggðaráðs Langanesbyggðar, 24. apríl 2019

Fundargerð lögð fram.

5.Bifreið fyrir Þjónustumiðstöð

Vísað til sveitarstjórnar á 4. fundi byggðaráðs, liður 21.

Fram er lagt minnisblað sveitarstjóra um fjárheimild til handa þjónustumiðstöð til bílakaupa, óskað er heimildar fyrir allt að 2 milljónum. Samkvæmt viðauka við fjárhagsáætlun munu kaupin verða fjármögnuð með lausu fé sem mun lækka sem því nemur og eign sveitarfélagsins hækka til jafns.

Til máls tók Elías Pétursson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir fjárheimild að hámarki 2 m.kr. til kaupa á bifreið fyrir þjónustumiðstöð. Jafnframt er felld úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar frá 88. fundi dags. 13. september 2018 um 4 m.kr. fjárveitingu til kaupa á bíl fyrir slökkvilið Langanesbyggðar.

Til máls tók Sigríður Friðný Halldórsdóttir. Elías Pétursson veitti andsvar.

Samþykkt samhljóða.

6.Útboð á snjómokstri

Vísað til sveitarstjórnar á 4. fundi byggðaráðs, liður 16.

Fram er lagt minnisblað sveitarstjóra dags. 23. apríl er varðar niðurstöðu útboðs á snjómokstri í Langanesbyggð. Lagt er til að tilboði BJ Vinnuvéla verði tekið í snjómokstur á Þórshafnarsvæðinu og tilboði Unnsteins Árnasonar á Bakkafjarðarsvæðinu. Einnig er lagt til að vélar frá Ævari Marinóssyni og Gunnari Kristjánssyni verði á útkallslista, í þeirri röð sem verð gefa tilefni til, komi til þess að vöntun verði á traktorsgröfum til snjómoksturs.

Til máls tók: Elías Pétursson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða tillögu og felur sveitarstjóra að ganga frá verksamningum.

Siggeir Stefánsson óskaði eftir fundarhlé kl. 17:35. Samþykkt

Oddviti setti fund að nýju kl. 17:43.

Til máls tók Sigríður Friðný Halldórsdóttir og lagði fram svohljóðandi bókun U-listans: Vegna óánægju með opnun tilboða í snjómokstur óskum við eftir því að sveitastjóra sé falið að skoða hvort rétt hafi verið staðið að opnun útboðsgagna út frá stjórnsýslulögum 37/1993 og upplýsingalögum 140/2012.

Elías Pétursson veitti andsvar.

Samþykkt með atkvæðum: Þorsteins Ægis Egilssonar, Árna Braga Njálssonar, Halldórs Rúnars Stefánssonar og Oddnýjar S. Kristjánsdóttur.

Hjáseta: Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Sólveig Sveinbjörnsdóttir.

Til máls tók Sigríður Friðný Halldórsdóttir og gerði grein fyrir afstöðu U-listans: U-listinn situr hjá í þessu máli þar sem við vildum að verkinu hefði verið skipt hlutfallslega jafnt milli verktaka á svæðinu.

7.Starfsemi Flugklasans Air 66N 8. okt. 2018-31. mars 2019

Erindið lagt fram.

Til máls tók Siggeir Stefánsson og lagði fram svohljóðandi tillögu að bókun afgreiðslu: Sveitarstjórn þakkar fyrir góða samantekt á starfinu og ánægjulegt að sjá vaxandi beint flug til Akureyrar. Þetta sýnir þá miklu möguleika sem gætu skapast með öflugu beinu flugi til Akureyrar fyrir allt Norður- og Austurland. Það er mjög áríðandi að þetta góða starf haldi áfram og verði stutt dyggilega af ríkinu.

Til máls tóku: Elías Pétursson, Siggeir Stefánsson.

Samþykkt samhljóða.

8.Samgöngu og sveitarstjórnaráðuneytið dags. 16. apríl 2019, úrskurður vegna fjallskilamála

Erindið lagt fram.

Til máls tók: Elías Pétursson.

9.Lánasjóður sveitarfélaga, dags. 17. apríl 2019, tilkynning um arðgreiðslu 2019

Erindið lagt fram.

10.Stapi Lífeyrissjóður, aðalfundarboð 8. maí 2019

Erindið lagt fram.

11.Umsögn um rekstrarleyfi Skólabakka á Bakkafirði

Lögð er fram umsókn um rekstrarleyfi til sölu gistingar frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra vegna beiðni Þorkels Gíslasonar fyrir gististaðnum Skólabakka að Skólavegi 5 á Bakkafirði.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

Samþykkt samhljóða.

12.Aðalskipulagsbreyting, efnistökusvæði vegna vegagerðar

Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á aðalskipulagi vegna efnistökusvæða að beiðni Vegagerðarinnar.

Bókun um afgreiðslu: Málinu frestað fram á næsta fund sveitarstjórnar þar sem enn er mögulegt að athugasemdir eigi eftir að berast í bréfpósti.

Samþykkt samhljóða.

13.Finnafjarðarverkefnið, fjárhagsuppgjör út 2018

Til máls tók sveitarstjóri og lagði fram og fór yfir minnisblað um kostnað sveitarfélagsins undanfarin ár vegna verkefnisins. Minnisblaðið er unnið í kjölfar ákvörðunar samstarfsnefndar sveitarfélaganna um Finnafjarðarverkefnið og mun verða nýtt við fjárhagslegt uppgjör verkefnisins þegar lokið hefur verið við stofnun fyrirtækja í eigu sveitarfélaganna síðar í mánuðinum.

Til máls tók Siggeir Stefánsson og lagði fram svohljóðandi bókun: Fengum gögn vegna þessa liðar send til okkar á þriðjudagskvöld. Því munum við gefa okkur tíma til að skoða gögnin og koma með fyrirspurnir vegna þessa seinna meir.

Elías Pétursson veitti andsvar.

14.Frá U-lista, Íþróttahúsið Ver

Til máls tók Sigríður Friðný Halldórsdóttir. Elías Pétursson veitti andsvar.

Sigríður Friðný Halldórsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun: Áður hefur verið rætt um mikla og brýna þörf á lagfæringum á íþróttamiðstöð sveitafélagsins, þá sérstaklega sundlaug og sundlaugarrými. Sveitarstjórn samþykkti á fundi 4. apríl sl. að sveitastjóra yrði falið að taka saman gögn og kynna fyrir sveitarstjórn. U-listinn spyr nú um stöðu mála og kallar eftir umræddum göngum á næsta reglulega fundi sveitarstjórnar. Þetta er mikilvæg stofnun innan samfélagsins og nauðsynlegt að hefja vinnu við áætlanagerð til bóta á ástandi hússins sem fyrst.

Elías Pétursson óskaði eftir fundarhléi kl. 18:06.

Oddviti setti fund að nýju kl. 18:18.

Til máls tók Elías Pétursson og lagði fram svohljóðandi bókun: Frá þeim tíma sem umrædd tillaga kom fram hefur staðið vinna við að safna gögnum, Verkfræðistofan EFLA var fengin til að greina skýrslur, draga saman í grunn að heildstæðri mynd eins og ákveðið var á fyrrnefndum fundi sveitarstjórnar og vinnufundi þar á undan. Umrædd vinna hefur tekið heldur lengri tíma en væntingar stóðu til, aðallega vegna margra frídaga í nýliðnum mánuði, sakir þess náðist ekki að ljúka gagnavinnu fyrir þennan fund. Samkvæmt upplýsingum frá EFLU þá mun umrædd skýrsla verða lög fyrir næsta reglulega fund sveitarstjórnar þann 30. maí næstkomandi.

Til máls tók Sigríður Friðný Halldórsdóttir.

15.Frá U-lista, bréf dags. 17. apríl 2019 frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

Til máls tók Sigríður Friðný Halldórsdóttir og lagði fram svohljóðandi bókun: U-listinn óskaði skriflega eftir að fá gögn um kostnað við Finnafjarðarverkefnið þann 8. janúar. Skv. samþykktum sveitafélagsins og úrskurði frá Samgöngu- og sveitamálaráðuneyti, dags. 5.mars 2019 og 17.apríl 2019, kemur skýrt fram að framangreind beiðni ,,fellur undir 28.gr. sveitarstjórnarlaga og 20. gr. samþykktar um stjórn Langanesbyggðar. Ber sveitarfélaginu því að veita ... upplýsingar með þeim hætti sem kveðið er á um í ákvæðunum.” U-listinn biður vinsamlegast um að þessum ákvæðum verði framfylgt hér eftir þegar óskað er eftir gögnum.

Til máls tóku: Elías Pétursson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir.

Elías Pétursson veitti andsvar og lagði fram svohljóðandi bókun: Sveitarstjóri mun svara bókun U-lista á næsta fundi sveitarstjórnar ásamt og að leggja fram svar við bréfi ráðuneytisins.

Til máls tóku: Siggeir Stefánsson. Elías Pétursson veitti andsvar. Siggeir Stefánsson.

16.Frá U-lista, Finnafjarðarverkefnið

Til máls tók Siggeir Stefánsson, Elías Pétursson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir. Elías Pétursson veitti andsvar.

Siggeir Stefánsson lagði fram svohljóðandi tillögu: Sveitarstjórn samþykkir að skoðað verði hvort ráðinn verði verkefnastjóri til að sinna Finnafjarðarverkefninu í samráði við Vopnfirðinga.

Til máls tóku: Elías Pétursson, Siggeir Stefánsson, Elías Pétursson, Siggeir Stefánsson.

Oddviti gerði fundarhlé kl. 18:51. Fundur settur að nýju kl. 18:53

Siggeir Stefánsson óskaði eftir fundarhléi kl. 18:54. Samþykkt.

Oddviti setti fund kl. 18:59.

Samþykkt samhljóða.

17.Frá U-lista, Lögbýlið Hóll í landi Hellulands

Til máls tóku: Siggeir Stefánsson. Elías Pétursson veitti andsvar. Siggeir Stefánsson. Elías Pétursson veitti andsvar. Siggeir Stefánsson. Elías Pétursson veitti andsvar. Siggeir Stefánsson.

18.Frá U-lista, Skógrækt í Langanesbyggð

Til máls tóku: Sigríður Friðný Halldórsdóttir. Elías Pétursson veitti andsvar.

Sigríður Friðný Halldórsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun U-listans: U-listinn leggur áherslu á að farið verði í stóreflda skógrækt í Langanesbyggð. Við leggjum til að umhverfis- og skipulagsnefnd taki málið til umræðu.

19.Frá U-lista, Beitningarhöll

Til máls tók Siggeir Stefánsson lagði fram svohljóðandi tillögu U-listans: Sveitastjórn samþykkir að skoðaður verði kostnaður við málun Beitningahallar í sumar. Sveitarstjóra falið að kanna áhuga annarra eigenda hússins á málun og tiltekt í nærumhverfi þess.

Til máls tóku: Elías Pétursson, Siggeir Stefánsson, Elías Pétursson.

Samþykkt samhljóða.

20.Ársreikningar Langanesbyggðar 2018 – fyrri umræða

Ársreikningur 2018 tekinn til fyrri umræðu. Farið yfir endurskoðunarskýrslu niðurstöður ársreiknings 2018 og lykiltölur.

Til máls tók Magnús Jónsson endurskoðandi KPMG og fór yfir ársreikning og endurskoðunarskýrslu fyrir árið 2018.

Til máls tóku: Siggeir Stefánsson, Magnús Jónsson, Elías Pétursson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir.

Til máls tók Elías Pétursson sveitarstjóri og fór yfir helstu niðurstöður ársreiknings. Samkvæmt rekstrarreikningi ársins 2018 námu rekstrartekjur A og B hluta 923,3 m.kr. samanborið við 863,0 m.kr. á árinu 2017. Hækkun milli ára nemur 7,0%. Rekstrargjöld A og B hluta, þ.e. laun og launatengd gjöld og annar rekstrarkostnaður námu 755,5 m.kr. á árinu 2018 en voru 687,0 m.kr. á árinu 2017. Hækkun frá fyrra ári nemur 10,0%. Laun og launatengd gjöld voru 457,2 m.kr. árið 2018 samanborið við 437,8 m.kr. árið 2017. Hækkunin frá fyrra ári nam 4,4%. Annar rekstrarkostnaður nam 291,4 m.kr. árið 2018 samanborið við 249,7 m.kr. 2017. Hækkun frá fyrra ári nam 16,7%. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) vegna ársins 2018 nam 167,9 m.kr. eða 18,2% af tekjum, en fyrir árið 2017 var hún 176,1 m.kr. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld lækka á milli ára. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur A og B hluta árið 2018 voru 27,6 m. kr. en voru árið 2017 alls 32,4 m.kr. Rekstrarniðurstaða ársins 2018 er jákvæð um 86,3 m.kr. fyrir A og B hluta, en var jákvæð 90,6 m.kr. árið 2017, rekstrarniðurstaða er því 4,4 m.kr. lægri en á fyrra ári. Samkvæmt sjóðstreymisyfirliti ársins 2018 nam veltufé frá rekstri 158,6 m.kr. samanborið við 149,4 m.kr. á árinu 2017. Skuldahlutfall A og B hluta Langanesbyggðar var í árslok 2018, 71% en var 75% í árslok 2017. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 má skuldahlutfall ekki vera hærra en 150%. Engin ný langtímalán voru tekin á árinu og lækkuðu langtímaskuldir við lánastofnanir um 23,8 m.kr. Eiginfjárhlutfall í árslok 2018 var 53,5% en var 50,1% í árslok 2017.

Að lokum fagnaði sveitarstjóri góðum árangri sem náðst hefði í að viðhalda góðri fjárhagsstöðu Langanesbyggðar undanfarin ár og þakkaði starfsfólki sveitarfélagsins gott samstarf og ómetanlegt framlag þess.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn vísar ársreikningi 2018 til seinni umræðu.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20:35.

 

Hægt er að horfa á fundinn hér

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?