Fara í efni

Fundargerð 9. fundar sveitarstjórnar Langanesbyggðar

15.12.2022 17:00

Fundur í sveitarstjórn

9. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 15. desember 2022. Fundur settur kl. 17:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Júlíus Þ. Sigurbjartsson, Þorsteinn Ægir Egilsson, Mirjam Blekkenhorst, Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Fundargerð

1. Fundargerð hafnarsambandsins nr. 447 frá 18.11.2022
Fundargerðin lögð fram

2. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 915 frá 25.11.2022
Fundargerðin lögð fram

3. Fundargerð 6. Fundar byggðaráðs 08.12.2022  
      03.01. Erindi frá UMFL varðandi starfshlutfall íþrótta- og tómstundafulltrúa.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að breyta starfshlutfalli íþrótta- og tómstundafulltrúa úr 50% í 70% stöðu hjá sveitarfélaginu.

Samþykkt samhljóða.

4. Erindisbréf landbúnaðar og dreifbýlisnefndar – tillaga um skipan stjórnar.
Lagt fram erindisbréf landbúnaðar- og dreifbýlisnefndar sem vinnuhópur um landbúnaðarmál hefur samþykkt sem og sveitastjórn á síðasta fundir sínum og ítrekar þá breytingu sem gerð var á þeim fundi.

Tilnefning aðal- og varamanna í nýja landbúnaðar- og dreifbýlisnefnd:

Lagt er til að eftirfarandi skipi nefndina.

Aðalmenn.
1. Eggert Stefánsson formaður
2. Jóhannes Ingi Árnason varaformaður
3. Soffía Björgvinsdóttir
4. Ágúst Marinó Ágústsson
5. Hafliði Jónsson

Varamenn

1. Árni Gunnarsson
2. Krzysztof Krawczyk
3. Marinó Níels Ævarsson
4. Úlfhildur Ída Helgadóttir
5. Gunnar Þóroddsson

Til máls tók: Þorsteinn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir tilnefninguna í nefndina.

Samþykkt samhljóða.

5. Bréf frá landeiganda á Langanesi og íbúum vegna vegamála 24.11.2022
Bréf frá landeiganda á Langanesi þar sem hann setur fram hugleiðingar um endurbætur á veginum út á Langanes. Íbúar á Langanesi taka undir hugleiðingar bréfritara.

Til máls tóku: Þorsteinn, Mirjam, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn þakkar fyrir bréfið og tekur heilshugar undir þær hugleiðingar sem koma fram hjá bréfritara og hafa íbúar lýst sig sammála. Sveitarstjóra er falið að fá fund með innviðaráðherra og gera grein fyrir þeirri stöðu sem er í vegamálum út á Langanesi, í þeim tilgangi að hraða afgreiðslu málsins. Einnig ítreka við Vegagerðina að fundin verði lausn á málinu í samræmi við þær tillögur sem bréfritari lýsir og vekja athygli umhverfisstofnunar á þeirri hættu sem steðjar að Sauðaneslónum og Ytri lónum.

Samþykkt samhljóða.

6. Bréf frá Jöfnunarsjóði um skiptingu framlags vegna sameiningar sveitarfélaganna
Jöfnunarsjóður hefur ritað bréf til sveitarfélagsins þar sem gerð er grein fyrir greiðslum úr sjóðnum vegna sameiningar næstu 7 árin.

Bréfið lagt fram til kynningar

7. Samningur um umdæmisráð Landsbyggða og verklagsreglur. Leið 1 og leið 2   
     07.01 Lokadrög að verklagsreglum um framkvæmd umdæmisráðs.
     07.02 Erindisbréf valnefndar
     07.03 Athugasemdir sem gerðar hafa verið við samninginn miðað við fyrstu drög hans sem kynnt voru í haust.
     07.04 Fundargerð sameiginlegur fundur sveitarfélaga um umdæmisráð frá 9.12.2022

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að undirrita samningin með fyrirvara um hugsanlegar breytingar sem gerðar verða vegna athugasemda. Valin er samningur samkvæmt leið 1 þar sem hann gerir ráð fyrir að samningurinn verði endurskoðaður fyrir 31. des 2023.

Samþykkt samhljóða.

8. Breytingar á gjaldskrám og samþykktum frá 7. fundi sveitarstjórnar.

Til máls tók sveitarstjóri.

08.01. Samþykkt um gatnagerðarg. fráveitu, byggingaleyfisgj. skipulagsvinnu, afgreiðslu, þjónustugjöld og vatnsveitu fyrir 2023.
Samþykkt samhljóða.

08.02. Álagningarákvæði fasteignagjalda 2023
Samþykkt samhljóða.

08.03. Gjaldskrá slökkviliðs Langanesbyggðar 2023
Samþykkt samhljóða.

08.04. Gjaldskrá Grunn og leikskóla 2023
Samþykkt samhljóða.

08.05. Gjaldskrá fyrir geymslusvæði 2023
Samþykkt samhljóða.

08.06. Gjaldskrá fyrir sorphirðu og meðhöndlun úrgangs í Langanesbyggð 2023
Samþykkt samhljóða.

08.07. Gjaldskrá fyrir hunda og kattahald í Langanesbyggð 2023
Samþykkt samhljóða.

08.08. Gjaldskrá fyrir útleigu á Þórsveri 2023
Samþykkt samhljóða.

08.09. Gjaldskrá fyrir tjaldsvæði á Þórshöfn
Samþykkt samhljóða.

08.10. Gjaldskrá fyrir Langaneshafnir textaskrá 2023
Samþykkt samhljóða.

08.11. Gjaldskrá fyrir Langaneshafnir tafla 2023
Samþykkt samhljóða.

08.12 Gjaldskrá fyrir umsýslugjald utan geymslusvæða 2023
Samþykkt samhljóða.

1. Drög að samningi um framlengingu á rétti FFPD til að markaðssetja verkefnið erlendis í samræmi við gildandi stjórnunarsamning  
     9. 09.01 Breytingar á samningi

Lagður er fram til afgreiðslu í sveitarstjórn viðauki við samning aðila um framlengingu á rétti FFPD (samstarfsfélag allra aðila að Finnafjarðarverkefninu, þ.m.t. sveitarfélaganna beggja) til að markaðssetja Finnafjarðarverkefnið erlendis í samræmi við ákvæði gildandi stjórnunarsamnings (Management Agreement). Í því felst að í stað þess að núverandi réttur félagsins til markaðssetningar á verkefninu renni út árið 2040, þá verði réttur félagsins til markaðssetningar á verkefninu framlengdur til 2060. Eftir sem áður er það alltaf FFPA (félag sem er alfarið í eigu sveitarfélaganna Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps) sem þarf að samþykkja þau verkefni sem mögulega koma til framkvæmda á svæðinu.

Til máls tóku: Sveitarstjóri og Þorsteinn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi samning með þeim breytingum sem lagðar eru til og felur sveitarstjóra að undirrita hann.

Samþykkt samhljóða.

2. Fyrirspurn frá L lista og svör fv. verkefnastjóra
L -listi hefur lagt fram fyrirspurn um störf fv. verkefnastjóra frá 1. september til dagsins í dag. Fyrirspurnin var send áfram á verkefnastjóra sem hefur svarað henni.

Til máls tóku: Þorsteinn, sveitarstjóri, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Mirjam, Gunnlaugur, Þorsteinn.

Bókun L-lista: Fulltrúar L-lista gera miklar athugasemdir við svör fv. verkefnastjóra sveitarfélagsins og að hann hafi ekki haldið vinnuskýrslur og eða tímaskýrslur um sína vinnu fyrir sveitarfélagið á tímabilinu 1. september 2022 til ársloka 2022 eins og eðlilegt er að gera. Svör fv. verkefnastjóra segja ekki frá niðurstöðu mála eða funda sem fv. verkefnastjóri segist hafa sinnt eða sótt enda höfum við kjörnir fulltrúar ekkert annað í höndunum nema hans svör (ekki vinnuskýrslur) sem eru hér í fundargögnum. Einnig virðast svör fv. verkefnastjóra ekki vera í samræmi við upplýsingar frá sveitarstjóra hér á fundinum og teljum við það alvarlegan hlut að upplýsa ekki kjörna fulltrúa og sveitarstjórn með sönnum og réttum hætti.

Tillaga að bókun um afgreiðslu frá L-lista: Sveitarstjóra verði falið að skoða þá vinnu sem fv. verkefnastjóra var falið að sinna skv. viðauka sem samþykktur var á 4 fundi sveitarstjórnar af meirihluta og bera það saman við vinnuframlag fv. verkefnastjóra skv. svörum hans sem liggja hér fyrir fundinum. Niðurstaða skoðunar sveitarstjóra á málinu verði lagt fyrir næsta reglulega fund sveitarstjórnar.

Atkvæðagreiðsla: Með: Þorsteinn, Mirjam, Júlíus. Á móti: Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét.

3. Nýtt heiti sveitarfélagsins staðfest af Innviðaráðuneyti 4. nóvember 2022

Bréf Innviðaráðuneytis um staðfestingu á nýju nafni sveitarfélagsins.

Bréfið lagt fram.

4. Fundaplan fyrir árið 2023

Lögð fram áætlun um fundi sveitarstjórnar, byggðaráðs og nefnda fyrir árið 2023

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framkomna áætlun.

Samþykkt samhljóða.

5. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. Oddviti og fulltrúar í sveitarstjórn

Mér finnst ótrúlega stutt síðan ég kom hingað fyrir tæpum tveimur árum og tók við sem skrifstofustjóri sveitarfélagsins og svo nú í haust sem sveitarstjóri. Móttökurnar þegar ég kom hingað voru þannig, að það var eins og ég hefði alltaf búið hér, ætti ættir mínar að rekja hingað og hefi alltaf verið einn af íbúunum. Þó á ég engin tengsl hér, enga ættingja, svo ég viti eða þekkti til að nokkru leiti. En – mér fannst ég strax vera mjög vel tekið enda dreifbýlismaður í eðli mínu.

Mér finnst margt hafa gerst og mörgu hafa verið áorkað á þessum stutta tíma og þar hafa margir lagt hönd á plóg. Vinnuaðstaða okkar sem vinnum á skrifstofu sveitarfélagsins hefur gjörbreyst til batnaðar, við erum að koma á laggirnar atvinnu- og nýsköpunarsetri að Fjarðarvegi 5 sem mun styrkja verulega samfélagið og við höfum treyst ýmsa innviði í sessi. Hér eru góðir skólar, heilsugæsla, bankaútibú, dvalar- og hjúkrunarheimili, verslun og pósthús, sem mörg sveitarfélög eru að missa og við höfum traust fyrirtæki sem er kjölfestan í atvinnulífinu. En – við stefnum hærra. Í fyrsta skipti í 12 ár erum við að fá inn umsóknir um lóðir undir íbúðarhús en það er forsendan fyrir því að fólk setjist hér að, að framboð húsnæðis sé í takt við eftirspurn. Hér er næg atvinna, innviðir góðir eins sagt var hér á undan og við eigum tilbúnar lóðir og jafnvel heil hverfi innan skamms. Kollegi minn úti á landi sagðist ekki hafa flóafrið fyrir verktökum sem vilja koma og byggja en hann sagði sem var, að þjónusta við íbúa yrði að fylgjast að við fjölgun íbúa. Við þurfum einnig, rétt eins og í vinsælda keppni að heilla þá sem vilja flytja búferlum hingað og gera umhverfi aðlaðandi ekki síður en bjóða upp á þjónustu sem tilvonandi og núverandi íbúar geta sætt sig við.

Það er einmitt stefna okkar á næsta ári. Að taka þátt í þessari vinsælda keppni þeirra sem vilja byggja hús og flytja út á land og fá fleiri til að setjast hér að. Eitt af því mikilvægasta sem við gerum er að halda okkur inni á landakortinu, vera óhrædd við sviðsljósið og nota óspart mottóið úr markaðsfræðinni „gerðu góðverk og láttu aðra vita af því“ sem við getum umbreytt í „búðu til gott umhverfi og láttu vita af því“. Látum aðra vita af því hvað við höfum það gott hér.

Verkefnið „atvinnu- og nýsköpunarsetur“ að Fjarðarvegi 5 er komið vel af stað og fyrir liggja teikningar af húsnæðinu eins og það kemur til með að líta út að innan og viðræður standa yfir við fyrirtæki sem vilja nýta sér aðstöðuna. Um síðustu helgi var formlega tekin í notkun svipuð aðstaða og við munum bjóða uppá, Stéttin á Húsavík og þar er þegar komin biðröð eftir aðstöðu þó í upphafi þótt stórhugur að hafa húsið svona stórt.

Nú standa yfir samningar við nýjan forstjóra fyrir hjúkrunar og dvalarheimilið Naust og verður hann lagður fyrir næsta byggðaráðsfund. Ennfremur standa yfir viðræður við HSN um þjónustu hjúkrunarfræðinga og bakvaktir. Við búum svo vel að vera með nokkra hjúkrunarfræðinga búsetta hér á Þórshöfn og það auðveldar okkur að mæta þörfinni fyrir heilsugæslu.

Í byrjun næsta árs verður fundur með forráðamönnum Rarik en þann fund má rekja til bilunar sem varð, þegar ekki tókst að ræsa allar díselvélar þegar rafmagn fór af í nóvember sem hafði þær afleiðingar að ekki tókst að koma á rafmagni nema á Þórshöfn en dreifbýlið og Bakkafjörður voru án rafmagns í fleiri klukkustundir. Þetta atvik var enn ein áminningin um það öryggisleysi sem við búum við í orkumálum. Við viljum líka fá Landsvirkjun að borðinu því við þurfum bæði að vera í sambandi við framleiðanda og dreifingarfyrirtæki.

Einnig er fyrirhugaður fundur seinni partinn í janúar með iðnaðarráðherra til að fá ríkið til að koma með einhverjum hætti að verkefninu í Finnafirði hvernig sem það kemur til með að þróast í framtíðinni. Tvö lítil sveitarfélög eru ekki þess megnug að takast á við það í samvinnu við stórt erlent fyrirtæki og gæta sinna hagsmuna í þeirri samvinnu. Við sjáum þess dæmi um allt land að farið hefur verið í undirbúning og jafnvel framkvæmdir sem svo ekkert verður af og sveitarfélögin standa uppi með kostnað sem hefði átt að fara í þjónustu við íbúa.

Að lokum óska ég ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og megi nýja árið færa okkur gleði og ánægju í leik og starfi.

Kveðja frá sveitarstjórn:

Nú á síðasta fundi sveitastjórnar þessa nýja sveitafélags á þessu ári 2022. Viljum við koma á framfæri þökkum til allra íbúa sveitafélagsins fyrir þátttöku þeirra í samfélagi okkar í líðandi ári. Þá óskum við þess að við öll njótum þessara dimmu daga í aðdraganda sólstaðna og jólahátíðar. Munum eftir að líta til himins og látum okkur dreyma um hækkandi sól. Öllum óskum við gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári.

 

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:24.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?