Fara í efni

16. fundur sveitarstjórnar

11.05.2023 17:00

Fundur í sveitarstjórn

16. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 11. maí 2023. Fundur settur kl. 17:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Karítas Ósk Agnarsdóttir, Þórarinn J. Þórisson, Gunnlaugur Steinarsson, Mirjam Blekkenhorst, Margrét Guðmundsdóttir. Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Dagskrá

1. Ársreikningur Langanesbyggðar fyrir árið 2022. Síðari umræða
2. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. Sveitarfélaga nr. 922 frá 30.03.2023
3. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. Sveitarfélaga nr. 923 frá 05.04.2023
4. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. Sveitarfélaga nr. 924 frá 17.04.2023
5. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 925 frá 28.04.2023
6. Fundargerð 11. fundar byggðaráðs frá 04.05.2023
7. Fundargerð 14. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 2.05.2023
8. Tillaga að stofnun húsnæðisfélags. Frá sveitarstjóra.
9. Girðing yfir Brekknaheiði, erindi til Vegagerðarinnar 03.05.2023
10. Gjaldskrá og reglur f. geymslusvæði á gámavöllum, endurskoðun
11. Gjaldskrá og reglur vegna geymslu utan skilgreindra geymslusvæða
12. Tillaga að ráðgjafasamningi um skipulagsmál 2023
13. Erindi frá Fjárfestingafélagi Þingeyinga 28.04.2023
14. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Ársreikningur Langanesbyggðar fyrir árið 2022, síðari umræða
Ársreikningur Langanesbyggðar fyrir árið 2022 lagður fram til síðari umræðu.

Til máls tóku: Karítas, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagðan ársreikning fyrir árið 2022 og þeir lagðir fram til undirritunar á fundinum. Rekstrarafgangur A hluta eru rúmar 24 milljónir. Rekstarafgangur A og B hluta eru rúmlega 62 milljónir.

Samþykkt samhljóða.

Bókun L-lista: Fulltrúar L-lista lýsa yfir mikilli ánægju sinni með útkomu ársreiknings fyrir árið 2022. L-listinn sat í meirihluta á síðasta kjörtímabili og bar því ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 og ber því að fagna að sú fjárhagsáætlun skilar góðum ársreikningum hér. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins A og B hluta er jákvæð um 62,3 milljónir, skuldahlutfallið í A og B hluta í lok ársins er 80% og skuldaviðmiðið í A og B hluta í lok ársins er 66%. Þessar tölur tala sínu máli þrátt fyrir stóryrtar yfirlýsingar oddvita og núverandi fulltrúa meirihlutans um slæma fjárhagsstöðu Langanesbyggðar í aðdraganda kosninga í maí á síðasta ári. Langtímaskuldir sameiginlegs sveitarfélags eru um 700 milljónir og ber þar hæst skuldir við lánastofnanir og þá einna helst Lánasjóð sveitarfélaga. Á síðustu tveimur kjörtímabilum voru lán tekin hjá Lánasjóðnum vegna þess að það voru lang hagstæðustu lánin á þeim tíma og framkvæmdir óhjákvæmilegar í sveitarfélaginu. Gleymum því ekki hvers vegna þessi lán voru tekin því það skiptir máli að halda því til haga í hvað þessir fjármunir fóru. Í dag höfum við nýjan leikskóla og ný uppgerðan grunnskóla á Þórshöfn, nýtt skrifstofuhúsnæði var tekið í notkun á Þórshöfn, neðri hæðin á eldri hluta Nausts endurnýjuð, fjárfest í húsnæði Landsbankans á Þórshöfn undir atvinnu- mennta og nýsköpunarsetur, endurnýjað frárennsli í Langanesvegi og tengingar við hliðargötur, hafnarskúrar og hafnarkranar endurnýjaðir á báðum höfnum, Þórshafnarhöfn dýpkuð, búið til nýtt starf íþrótta- og tómstundarfulltrúa í tengslum við verkefnið Heilsueflandi samfélag, frístundarstyrkur búin til, menningarsjóður búin til, fjárfest í nýrri flotbryggju á Bakkafirði, endurnýjun á húsnæði sveitarfélagsins á Bakkafirði, búið til nýtt starf í þjónustumiðstöð á Bakkafirði og margt fleira. Þrátt fyrir afar góða stöðu sveitarsjóðs nú í lok árs hefur núverandi meirihluti sveitarstjórnar tekið grátlegar og svekkjandi ákvarðanir er varðar framkvæmdir í sveitarfélaginu s.s. viðhald á íþróttahúsinu, í algeru ósamræmi við stefnu síðustu sveitarstjórna. Einnig hafa oddviti og meirihluti tekið óþarfar ákvarðanir sem kostað hafa sveitarsjóð fjármuni t.d. að borga oddvita starfslok í upphafi kjörtímabils, framlengja samning við fráfarandi verkefnastjóra þrátt fyrir ákvæði um annað í samningi og kaup á ónýtu flugvélaflaki.

Bókun meirihluta sveitarstjórnar: Við yfirferð ársreiknings 2022 sést glögglega að sú afstaða, að gæta aðhalds í rekstri, takmarka nýjar lántökur um leið og keppst er við að greiða niður skuldir, skilar sér í bættum hag sveitafélagsins og möguleikar okkar til framtíðar verða betri. Mikilvægt er að nýta auknar tekjur sem fengust með sameiningu sveitafélagana á síðasta ári til þess að styrkja stöðu sveitasjóðs. Þannig að takist að lækka fjármagnskostnað. Fátt bendir til annars í efnahagsumhverfi okkar annað en vaxtakostnaður verður áfram hár og verðbólga er há. Það á að segja okkur að mikilvægt sé styrkja tekjugrundvöll okkar, og það gerum við fyrst og fremst með því að gæta að atvinnuvegum okkar og gera fólki kleift og eftirsóknarvert að setjast að í sveitafélaginu.

2. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. Sveitarfélaga nr. 922 frá 30.03.2023
Fundargerðin lögð fram.

3. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. Sveitarfélaga nr. 923 frá 05.04.2023
Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. Sveitarfélaga nr. 924 frá 17.04.2023
Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 925 frá 28.04.2023
Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerð 11. fundar byggðaráðs frá 04.05.2023
Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku: Mirjam, Sigurður.

Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista sem sitja fundinn hér í dag vilja koma á framfæri
eftirfarandi bókun undir liðum 4 og 5 í fundargerð byggðaráðs frá 4 maí sl. Umræddir liðir fjalla um auglýst störf á vegum sveitarfélagsins og niðurstöðu byggðaráðs í málunum. Fulltrúar L-lista lýsa yfir óánægju sinni með óvandaða stjórnsýslu og ófagleg vinnubrögð byggðaráðs í þessum tveimur málum. Þar sem fulltrúar byggðaráðs eru bundnir trúnaði um það sem fram fer á fundum þess er óheimilt að vitna í umræðu fundarins. Fulltrúar L-lista áskilja sér rétt til að skoða málin betur og koma með þau til umfjöllunar síðar í sveitarstjórn.

7. Fundargerð 14. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 02.05.2023
Fundargerðin lögð fram.

8. Tillaga að stofnun húsnæðisfélags frá sveitarstjóra
Sveitarstjóri leggur til að stofnað verði húsnæðisfélag samkvæmt reglugerð 805/2020 sem ennfremur heldur utan um leiguhúsnæði í eigu sveitarfélagsins.

Til máls tóku;  Sveitarstjóri, Þórarinn, sveitarstjóri, oddviti, Mirjam, sveitarstjóri, Mirjam.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir tillöguna og felur sveitarstjóra að gera samþykktir fyrir slíkt félag í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Samþykkt samhljóða.

9. Girðing yfir Brekknaheiði, erindi til Vegagerðarinnar 03.05.2023
Vegagerðin hefur farið fram á formlegt erindi frá sveitarstjórn varðandi lagningu girðingar yfir Brekknaheiði jafnframt lagningu á nýjum vegi á hluta heiðarinnar. Skilyrði fyrir þátttöku í greiðslu Vegagerðarinnar er að sveitarstjórn banni lausagöngu búfjár á friðuðu svæði við veginn yfir Brekknaheiði.

Til máls tók: Sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn fer hér með formlega fram á að Vegagerðin girði meðfram veginum yfir Brekknaheiði jafnframt lagningu á nýjum vegi yfir hluta heiðarinnar. Sveitarstjórn mun í framhaldinu banna lausagöngu búfjár og friða svæði meðfram veginum frá gatnamótum að Þórshöfn að bænum Felli í Finnafirði.

Samþykkt samhljóða.

10. Gjaldskrá og reglur f. geymslusvæði á gámavöllum, endurskoðun.
Lögð fram endurskoðun á gjaldskrá fyrir geymslu á gámavöllum í Langanesbyggð. Gjald fyrir geymslu er hækkað úr kr. 166.- í kr. 179.- pr. m2 auk þess sem hert er á reglum í 10. grein varðandi umgengni. Við 10. gr. bætist aukasetning „…..við hlið þeirra, milli gáma eða utan gáms. Slíkir hlutir verða fjarlægðir af starfsmönnum sveitarfélagsins án fyrirvara.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrá og breytingu á reglum fyrir geymslusvæði á gámavöllum.

Samþykkt samhljóða.

11. Gjaldskrá og reglur vegna geymslu utan skilgreindra geymslusvæða
Endurskoðun á umsýslugjaldi vegna hluta sem standa utan sérstakra geymslusvæða í Langanesbyggð. Umsýslugjaldið er hækkað í kr. 36.000.- á ári en var kr. 33.000.-

Til máls tók: Sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir breytingu á gjaldinu. Sveitarstjórn tekur undir með skipulags- og umhverfisnefnd frá fundi nefndarinnar 2. maí s.l. þar sem bókað er: Sveitarstjóra, skrifstofustjóra og forstöðumanni Þjónustumiðstöðvar er falið að koma upp skrá yfir þá sem áður höfðu stöðuleyfi en þarfnast nú sérstaks leyfis þar sem greitt er afgreiðslugjald af slíkri geymslu utandyra. Innheimt verði afgreiðslugjald samkvæmt nýjum lista. Nefndin leggur einnig til að gjaldskrá og reglur fyrir geymslusvæði í Langanesbyggð verði endurskoðuð með tillit til ofangreinds.

Samþykkt samhljóða.

12. Tillaga að ráðgjafasamningi um skipulagsmál 2023
Skipulagsstofnun hefur farið fram á það við sveitarstjórn Langanesbyggðar að endurnýjað verði umboð skipulagsfulltrúa til að gegna starfi sem skipulagsráðgjafi fyrir sveitarfélagið og geri við hann þjónustusamning um skipulagsmál.

Til máls tók: Sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir þjónustusamninginn og felur sveitarstjóra að undirrita hann.

Samþykkt samhljóða.

13. Erindi frá Fjárfestingafélagi Þingeyinga 28.04.2023
Fjárfestingafélag Þingeyinga vísar til eldri samskipta um stofnun eignarhaldsfélags um hlutafélög í eigu sveitarfélaganna án þess að afgerandi niðurstaða yrði úr þeim samskiptum. Með erindinu er verið að kanna áhuga sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum að koma nefndu félagi á fót með því að leggja félög óviðkomandi kjarnastarfsemi sveitarfélaganna inn í Fjárfestingafélagið gegn greiðslu í hlutafé.

Til máls tóku: Oddviti, Mirjam, oddviti,

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar tekur jákvætt í erindið og lýsir yfir samstarfsvilja og áhuga á að nokkuð af félaga eign Langanesbyggðar gangi til Fjárfestinga félagsins Þingeyinga. Sveitastjóra og/eða skrifstofustjóra falið að taka þátt í vinnu mögulegs starfshóps.

Samþykkt samhljóða.

14. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. oddviti og sveitarstjórn

Það er alltaf ákveðinn áfangi þegar ársreikningar sveitarfélaga eru afgreiddir. Þá kemur í ljós hvernig okkur hefur vegnað á síðasta ári og á hvaða leið við erum. Við getum með sanni sagt að við erum á réttri leið, sama hvaða kennitölur rekstrarins eru skoðaðar. Í því efnahagsumhverfi sem við búum við í dag er mikilvægt að gæta aðhalds í rekstri þó þannig að þjónusta við íbúa skerðist ekki. Þetta þýðir einfaldlega að við höfum þurft að draga úr fjárfestingum og einblína frekar á þjónustu við íbúa og viðhald þeirra eigna sem sveitarfélagið á og nota til þess sem mest eigið fé.

Því er einfaldlega þannig varið í sinni einföldustu mynd, að einn stærsti munurinn á tekjum og gjöldum ríkis og sveitarfélaga er sá, að ríkið ákveður útgjöldin fyrst og ákvarðar tekjur eftir því með sköttum og gjöldum. Hallinn er svo jafnaður út með fjáraukalögum í lok árs. Hjá sveitarfélögunum er þetta ekki þannig. Tekjustofnar eru lang flestir fastir og þeim settur ákveðinn rammi í tekjum. Útgjöldin verða svo að miða við það. Ef hnikað er frá áætlunum er gerður viðauki, hvort sem dregið er úr útgjöldum eða þau aukin.

Okkur er gert að vera með hallalausan rekstur í ákveðinn tíma því að öðrum kosti fáum við viðvörun frá ríkinu um að við séum ekki að standast viðmið. Ríkið fær að vísu nokkuð aðhald frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum en sú ráðgjöf hefur oftar en ekki verið umdeild þar sem oft er lagt til niðurskurður þjónustu eða hækkun stýrivaxta sem er umdeilt í svo agnarsmáu efnahagskerfi sem við höfum.

Eins og ég hef áður komið inná stendur húsnæðisskortur okkur verulega fyrir þrifum í þróun sveitarfélagsins. Því fór ég fram á það við sveitarstjórn að við stofnuðum húsnæðisfélag sem gæti keypt og leigt út húsnæði og sett jafnvel undir eitt þak allt íbúðarhúsnæði sem sveitarfélagið á nú þegar ef okkur sýnist svo. Það hefur að öllum líkindum þó nokkra hagræðingu í för með sér að hafa þetta allt undir einnig stjórn þó úthlutunarreglur geti verið mismunandi eftir því um hvaða hópa leigjenda er að ræða. Starfsfólk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er boðið og búið til að aðstoða okkur við að koma slíku félagi á laggirnar auk þess sem við gætum fengið framlög frá ríkinu og hagstæðustu lán sem bjóðast ef okkur sýnist svo og þurfum á því að halda. Ennfremur hef ég verið að skoða eignasjóð sérstaklega þar sem við eigum fyrirtæki og eignir sem má sameina eða leggja niður eftir aðstæðum. Að mínu mati felast mörg tækifæri í því að skoða vandlega efnahagsreikninginn og meta hann út frá hagræðingarsjónarmiðum. Nú er ég ef til vill farinn að tala stofnanamál hagfræðingsins en á mæltu máli þýðir þetta að draga úr kostnaði án þess að það bitni að nokkru leiti á þeirri starfsemi eða þjónustu sem við eigum að vera í stakk búinn til að veita og breytir í raun litlu fyrir íbúa.

Annað mikilvægt mál snýr að umhverfismálum. Við þurfum að fara að taka ákvörðun um hvaða leið verður fyrir valinu í sorpmálum en þar höfum við notið aðstoðar SSNE við að greina þær leiðir sem til greina koma en sérstaða okkar með tvö byggðarlög og dreifbýli að ekki sé talað um fjarlægð þrengir kosti okkar að sumu leiti. Ég vonast til að geta lagt fram tillögur fyrir skipulags- og umhverfisnefnd á næsta fundi nefndarinnar. Annað sem snýr að umhverfismálum og tekið var hér fyrir á fundinum er að við þurfum að koma á mun betra skipulagi á geymslusvæði, bæði þau skipulögðu á gámavöllum og það sem geymt er annars staðar, svo sem gámar, bátar og annað sem sérstaka heimild þarf fyrir til að geyma. Þetta er verk sem krefst mikillar vinnu og ekki síst samvinnu við íbúa og fyrirtæki.

Fundargerðin lesin upp, samþykkt samhljóða og ársreikningur undirritaður.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:40.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?