Fara í efni

143. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar

19.05.2022 17:00

Fundur í sveitarstjórn

143. fundur í sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, fimmtudaginn 19. maí 2022 settur kl. 17:00.

Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Þórarinn J. Þórisson, Mirjam Blekkenhorst, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Jónas Egilsson sveitarstjóri og Björn S. Lárusson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

D a g s k r á

1. Formleg afhending Þórsstofu
2. Fundargerð 909. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 27. apríl 2022
3. Fundargerð 443. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 1. apríl 2022
4. Fundargerð 37. fundar SSNE
5. Fundargerð fulltrúaráðs Héraðsnefndar Þingeyinga
6. Fundargerðir Þróunarfélags Finnafjarðar (FFPD), dags. 20. sept. 2021 og 21. mars 2022
7. Fundargerð Veiðifélags Hafralónsár, dags. 3. maí 2022
8. Fundargerð skipulagsnefndar
      1. Liður 2: Tillaga að breytingu á aðalskipulagi vegna nýrrar veglínu yfir Brekknaheiði, breyting á aðalskipulagi 2007-2027
9. Fundargerð atvinnu- og nýsköpunarnefndar
10. Fundargerð 55. fundar byggðaráðs
11. Viljayfirlýsing vegna Finnafjarðar – frá byggðaráði
12. Sveitarfélagaskólinn – kynning
13. Flugklasinn
14. Samstarf um eldvarnir
15. Breyting á innkaupareglum Langanesbyggðar
16. Umsókn vegna hafnargerðar og sjóvarna á samgönguáætlun 2023-2027
17. Svar við fyrirspurn til ráðherra – húsnæði fyrir lögreglumenn í dreifðum byggðum
18. Leyfi sveitarstjóra
19. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Formleg afhending Þórsstofu
Lögð er fram staðfesting afhendingar Oddafélagsins, dag. 14. mars 2022, á veggspjöldum og myndum um fróðleik um norðurslóðir. Þór Jakobsson ávarpaði fundinn og formlega afhenti myndir og veggspjöld til Langanesbyggðar. Oddviti þakkaði höfðinglega gjöf fyrir hönd sveitarfélagsins.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn þakkar Þór Jakobssyni og Jóhönnu Jóhannesdóttur konu hans fyrir höfðinglega gjöf og þakkar þeim enn fremur fyrir komu þeirra til Þórshafnar af tilefninu.

Samþykkt samhljóða.

2. Fundargerð 909. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 27. apríl 2022
Fundargerðin lögð fram.

3. Fundargerð 443. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 1. apríl 2022
Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð 37. fundar SSNE
Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð fulltrúaráðs Héraðsnefndar Þingeyinga
Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerðir Þróunarfélags Finnafjarðar (FFPD), dags. 20. sept. 2021 og 21. mars 2022
Fundargerðirnar lagðar fram.

7. Fundargerð Veiðifélags Hafralónsár, dags. 3. maí 2022
Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerð skipulagsnefndar
      Liður 2: Tillaga að breytingu á aðalskipulagi vegna nýrrar veglínu yfir Brekknaheiði, breyting á aðalskipulagi 2007-2027

 
Lögð var fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027. Viðfangsefni er breytt veglína Norðausturvegar um Brekknaheiði. Breytingin er sett fram á skipulagsuppdrætti með greinargerð dags. 10/05/22. Skipulagið felur í sér breytingu á stofnvegi á þéttbýlisuppdrætti Þórshafnar og sveitarfélagsuppdrætti Langanesbyggðar. Með breytingunni eru þrjú ný efnistökusvæði (N17, N18, N19) skilgreind og settir fram skilmálar um heimild til efnistöku. Jafnframt er gerð breyting á skilmálum um efnistöku í námum N1 og N5.

Fyrirhuguð framkvæmd fellur í B flokk samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Breytt veglína Norðausturvegar um Brekknaheiði fellur undir tölulið 10.08. Jafnframt er fyrirhugað að nýta fleiri en einn efnistökustað og efnismagn fer yfir viðmið samkvæmt lið 2.02. Framkvæmdir sem falla undir flokk B kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar sem mun meta hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Vegagerðin er framkvæmdaraðili og tilkynnir framkvæmdina.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að kynna tillöguna á heimasíðu Langanesbyggðar og sveitarstjórn aðliggjandi sveitarfélaga sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða.

9. Fundargerð atvinnu- og nýsköpunarnefndar
Fundargerðin lögð fram.

10. Fundargerð 55. fundar byggðaráðs
Fundargerðin lögð fram.

11. Viljayfirlýsing vegna Finnafjarðar – frá byggðaráði
Til máls tóku: sveitarstjóri, Siggeir, sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða viljayfirlýsingu (Memorandum of understanding) fyrir sitt leyti og vísar málinu til nýrrar sveitarstjórnar til áframhaldandi skoðunar og úrvinnslu.

Samþykkt samhljóða.

12. Sveitarfélagaskólinn – kynning
Samband ísl. sveitarfélaga kynnir sveitarfélagaskólann.

Bókun um afgreiðslu: Þátttöku frá sameinuðu sveitarfélagi Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps vísað til næstu sveitarstjórnar.

Samþykkt samhljóða.

13. Flugklasinn Air 66N
Samantekt um stöðu flugklasans dags. 8. apríl 2022.
Lagt fram.

14. Samstarf um eldvarnir
Lögð fram drög að samkomulagi um aukningu eldvarna og innleiðingu eigin eldvarnareftirlits.

Til máls tók: Sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagt samkomulag og felur slökkviliðsstjóra að undirrita samkomulagið fyrir hönd sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

15. Breyting á innkaupareglum Langanesbyggðar
Lögð fram tillaga að breytingu á innkaupareglum Langanesbyggðar þar sem viðmið eru hækkuð.

Til máls tók: Sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagðar breytingar á 12. gr. á viinnkaupareglum sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

16. Umsókn vegna hafnargerðar og sjóvarna á samgönguáætlun 2023-2027
Bréf Vegagerðarinnar um umsóknir vegna hafnargerðar og sjóvarna á samgönguáætlun 2023-2027.

Til máls tók: Sveitarstjóri

Bókun um afgreiðslu: Málinu vísað til næsta fundar sveitarstjórnar.
Samþykkt samhljóða.

17. Svar við fyrirspurn til ráðherra – húsnæði fyrir lögreglumenn í dreifðum byggðum
Lagt fram svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ingibjörgu Ísaksen á Alþingi um húsnæði fyrir lögreglumenn í dreifðum byggðum.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn bendir á að löggæslu umdæmið hér er mjög víðfeðmt og því mikilvægt að viðvera löggæslu manna sé sem best. Forsenda þess að lögregluþjónar fáist til búsetu hér og víða á landsbyggðinni að húsnæði sé til staðar, ólíkt því sem t.d. gerist víða í þéttbýli, þar sem húsnæðismarkaður sé mjög lítill víða á landsbyggðinni. Nær undantekningarlaust þarf aðkomu fólk til starfa í lögreglunni hér. Það skýrist m.a. vegna fámennis og hve vinnumarkaður hér er einsleitur. Þá er ólíklegt að fólk sem starfar hér við löggæslustörf hverfi til annarra starfa hér á svæðinu, ólíkt því sem gerist á þéttbýlli svæðum. Því er það rökrétt að ráðuneytið tryggi öruggt húsnæði fyrir sína starfsmenn á svæðinu.

Samþykkt Samhljóða.

18. Leyfi sveitarstjóra
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóri verður í leyfi út starftímabil sitt. Skrifstofustjóra verður veitt stöðuumboð sveitarstjóra þar til að hann lætur af störfum, en ný sveitarstjórn tekur 30. maí nk.

Samþykkt samhljóða.

19. Skýrsla sveitarstjóra
Undirbúningur framkvæmda við Ver er að komast á lokastig. Fyrir liggja samningar við verktaka hérna í byggðarlaginu vegna viðgerða og lagfæringa á þaki. Eins hafa verið undirritaðir samningar við tvo jarðvegsverktaka, einnig heimamenn, um jarðsvegsvinnu. Hún felur í sér aðstöðu sköpun og vinnu vegna steypuvinnu og frágangs. Byggingarstjóri verður Almar Eggertsson hjá Faglausn í samvinnu við forstöðumann Þjónustumiðstöðarvarinnar, sem hefur daglegt eftirlit með framkvæmdum. Verkfundir verða a.m.k. vikulega og verða fundargerðir lagðar fyrir byggðaráð. Einnig er gert ráð fyrir að byggðaráðsmenn geti fylgst með verkfundum. Með þessu fyrirkomulagi er tryggð stutt leið og örugg til sveitarstjórnarmanna og hægt að bregðast við ef frávik við verkið koma upp.

Fannar Gíslason, forstöðumaður hafnardeildar Vegagerðarinnar kom í vettvangsheimsókn sl. föstudag. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér hugmyndir sveitarfélagsins um stækkun Þórshafnarhafnar og landrof við Sauðanes og þar út frá í kjölfar óveðra frá því í desember 2019 og janúar 2022. Ljóst er að taka þarf fljótlega afstöðu til þess hvort gerð verði tilraun til að verja veginn út Langanes og gömlu flugbrautina við Sauðnes, eða hvort sjórinn fái að hafa sinn gang. Ef ekki verður gripið til varna er hætt við að lón og vötn hverfi eða eyðist, en sum þeirra eru á náttúruminjaskrá. Enn fremur að núverandi vegur meðfram sjónum hverfi og þá þarf að leggja nýjan veg innan við lónin með tilheyrandi kostnaði. Þetta verkefni kemur á borð nýrrar sveitarstjórnar að fjalla nánar um, en von er á álitsgerð frá Fannari um þessi mál síðar í sumar eða haust.

Keyptur hefur verið nýr hafnar- og viktarskúr við höfnina á Bakkafirði. Skv. hugmyndum sem ræddar hafa verið í hafnarnefnd er gert ráð fyrir að hann verði þar sem núverandi olíutankur er og olíutankurinn færist ofar á hafnarsvæðinu, en nýrri flotbryggju verði komið fyrir neðan við hafnarskúrinn til olíudælingar.

Verkefnisstjórn Betri Bakkafjarðar hefur samþykkt að taka saman upplýsingar um störf og árangur verkefnisins í sumar. Markmiðið er að hefja undirbúning að framlengingu verkefnisins um 1-2 ár, en fordæmi eru fyrir slíku. Að óbreyttu á verkefninu að ljúka í árslok 2023. Að mat verkefnisstjórnar er nauðsynlegt að framhald verði á þessari vinnu, hún hafi skilað árangri og öllum þeim kostnaði sem þegar hefur verið lagður til þess fari ekki forgörðum sem að öðrum kosti er hætt við að verði.

Að lokum þakka ég sveitarstjórnarmönnum og samstarfsmönnum í Langanesbyggð fyrir samstarfið á undangengnum árum og óska Langnesingum öllum í hinu nýja sameinaða sveitarfélagi alls hins besta í framtíðinni.

Til máls tóku: Oddviti, Siggeir, Mirjam, Sólveig, Þórarinn

Oddviti og lagði fram eftirfarandi bókun:

Bókun oddvita: Oddviti þakkar kjörnum fulltrúum og starfsmönnum Langanesbyggðar fyrir samstarfið s.l. 4 ár og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:45.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?