Fara í efni

5. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar

06.10.2022 17:00

Fundur í sveitarstjórn

5. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 6. október 2022. Fundur settur kl. 17:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Þorsteinn Ægir Egilsson, Júlíus Þ. Sigurbjartsson, Mirjam Blekkenhorst, Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.
Oddviti óskaði eftir afbrigðum frá fundarboði þar sem óskað er eftir að liður 23 bætist inn í dagskrá. Liðurinn fjallar um samræmingu reglna og gjaldskrár vegna refa og minkaveiða.

Samþykkt samhljóða.

Einnig að taka sérstaklega út lið 1 í fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 1.09.2022 varðandi Brekknaheiði og sá liður verði tekin fyrir undir dagskrárlið nr. 10.

Samþykkt samhljóða.

Einnig að taka út lið 3 í 10. dagskrárlið fundarins.

Samþykkt samhljóða.

D a g s k r á

1. Fundargerð 40. fundar SSNE
2. Fundargerð 445. fundar hafnarsambandsins
3. Ályktun frá Skógræktarfélagi Íslands
4. Áskorun til sveitarfélaga frá FA, Húseigendafélaginu og LEB
5. Kvörtun til innviðaráðuneytis vegna boðunar 3. fundar sveitarstjórnar 11.08.2022
      5.1 Svar oddvita vegna kvörtunar 01.09.2022
      5.2 Úrskurður og álit innviðaráðuneytis vegna kvörtunar
6. Ráðningasamningur við Björn S. Lárusson sem sveitarstjóra
7. Samþykkt um stjórn og fundarsköp Langanesbyggðar.
8. Heiti og merki Langanesbyggðar
9. Fundargerð 1. fundar velferðar og fræðslunefndar 15.09.2022.
     Liður 9: Samningur um rekstur umdæmisráðs barnaverndar ásamt fylgiskjölum.
10. Fundargerð 2. fundar skipulags- og umhverfisnefndar 01.09.2022
       Liður 1: Brekknaheiði. Nýr vegur. Umsagnir og staða mál.
11. Fundargerð 3. fundar byggðaráðs 22.09.2022
      Liður 6: Tillaga að reglum um úthlutun lóða í Langanesbyggð
12. Lánamöguleikar Langanesbyggðar, frá byggðaráði.
13. Fundargerð Rekstrarfélagsins Fjarðarvegur 5.
14. Fundargerð 1. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar 22.09.2022
15. Greinargerð skólastjóra grunnskólans v/styttingu vinnuvikunnar hjá FG
16. Fundargerð haustfundar almannav. nefndar í umdæmi Lögreglustjórans á NE 21.09.2022
       Liður 2: Nýr samstarfssamningur um almannavarnir og rekstraráætlun
17. Skyrora, endurnýjun á samningi ásamt fylgiskjali
18. Bréf fv. sveitarstjóra vegna umræðu um stafslok
19. Greinargerð um skemmdir vegna óveðurs og tillaga að viðgerðum ásamt kostnaði
20. Umboð til sveitarstjóra vegna bankaviðskipta, frá byggðaráði
21. Minnisblað vegna fundar um björgunarmiðstöð frá 20.09.2022
22. Minnisblað um viðræður við leigjendur Hallgilsstaða
23. Samræming reglna vegna refa og minkaveiða
24. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

 

1. Fundargerð 40. fundar SSNE
Fundargerðin lögð fram

2. Fundargerð 445. fundar hafnarsambandsins
Fundargerðin lögð fram

3. Ályktun frá Skógræktarfélagi Íslands
Ályktun Skógræktarfélagins þar sem skorað er á sveitarstjórnir að vinna að skipulagsáætlunum í takt við stefnu stjórnvalda um skógrækt á landsvísu.

Ályktunin lög fram.

Til máls tók: Þorsteinn, Mirjam, Sigríður, Þorsteinn, sveitarstjóri.

Tillaga L-Lista: Sveitarstjóra verður falið að kanna aðstæður á markaði með plöntur og leggja inn pöntun sem fyrst á plöntum fyrir áætlaða skórækt (yndisskóg og útivistarsvæði) í Langanesbyggð samkvæmt samþykktri tillögu sveitarstjórnar á 129. Fundi hennar dagssett 19. ágúst 2021.

Oddviti lagði fram svohljóðandi tillögu: að málinu yrði vísað til byggðaráðs til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða.

4. Áskorun til sveitarfélaga frá FA, Húseigendafélaginu og LEB
Áskorun Félags atvinnurekenda Húseigendafélaginu og LEB vegna fasteignagjalda.

Bókun um afgreiðslu: Fasteignamat ársins 2023 hækkar um annarsvegar um 12% í fyrrum Svalbarðshrepp og 17% í fyrrum Langanesbyggð frá fasteignarmati 2022. Mun sveitastjórn taka áskorunina til athugunar við ákvörðun fasteignagjalda 2023.

Samþykkt samhljóða.

5. Kvörtun til innviðaráðuneytis vegna boðunar 3. fundar sveitarstjórnar 11.08.2022
Kvörtun var lögð fram við innviðaráðuneytið vegna boðunar á 3. fund sveitarstjórnar frá Þorsteini Ægi Egilssyni f.h. minnihluta sveitarstjórnar.

     5.1 Svar oddvita vegna kvörtunar 01.09.2022
Svar oddvita til ráðuneytisins vegna kvörtunar þar sem rakin er aðdragandi að boðuninni.
     5.2 Úrskurður og álit innviðaráðuneytis vegna kvörtunar
Ráðuneytið hefur svarað kvörtuninni með tölvupósti 3.10.2022

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að boða til aukafundar í sveitarstjórn þriðjudaginn 18. október. Leitað verði álits lögfræðings Sambands Ísl. sveitarfélaga á málinu fyrir fundinn varðandi hvaða mál þarf að taka fyrir að nýju í samræmi tilmæli ráðuneytisins og það lagt fyrir í byrjun fundar. Að fengnu mati verði þau mál sem þarf að fjalla um aftur tekin fyrir og hafa ekki verið afgreidd á þessum fundi.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tók: Þorsteinn

Bókun L-lista: Fulltrúar L-lista hafa gert og gera enn alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð og stjórnsýslu oddvita og meirihluta í þessu máli og staðfestast þessar athugasemdir fulltrúa L-lista í áliti Innviðaráðuneytisins. Ráðuneytið kemst að þeirri niðurstöðu að málsatvik séu með þeim hætti að tilefni sé til að taka stjórnsýslu sveitarfélagsins til formlegrar umfjöllunar og gefa út álit á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlega. Fundarboð reglubundna fundarins 11. ágúst sl. var ekki í samræmi við 15. gr. sveitarstjórnarlaga. Boðun aukafundar í stað reglubundins fundar stangast á við 14. og 15. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem ekki er heimild fyrir því að boða aukafund í stað reglubundins fundar sveitarstjórnar. Út frá þessari niðurstöðu telur ráðuneytið að taka þurfi til skoðunar hvort ákvarðanir fundarins séu lögmætar. Mat ráðuneytisins á þeim ákvörðunum sem teknar voru á umræddum sveitarstjórnarfundi er að á þeim hafi verið verulegur annmarki. Telur ráðuneytið þó ljóst að þær ákvarðanir sem teknar voru á hinum umrædda fundi hafi verið ógildar nema veigamikil sjónarmið mæli því mót.

Til máls tók: oddviti, Þorsteinn

6. Ráðningasamningur við Björn S. Lárusson sem sveitarstjóra
Lagður fram ráðningasamningur við Björn S. Lárusson sveitarstjóra.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir ráðningasamninginn.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tók: Þorsteinn, sveitarstjóri, Sigríður.

Bókun L-lista: Vegna álits og niðurstöðu Innviðaráðuneytisins á lögmæti 3. fundar sveitarstjórnar dags. 11. ágúst sl. þarf að taka til afgreiðslu að nýju ráðningu sveitarstjóra. Eftir samtal fulltrúa L-lista við lögfræðing Sambands Íslenskra sveitarfélaga og þeirrar stjórnarkrísu sem uppi er komin í sveitarfélaginu þá er það forgangsmál að tryggja það að Björn S. Lárusson nýráðin sveitarstjóri fái löglegt umboð til að starfa sem slíkur og um leið binda enda á það krísuástand sem uppi hefur verið í sveitarfélaginu síðan 1. september sl. Fulltrúar L-lista bjóða Björn S. Lárusson formlega velkomin til starfa.

7. Samþykkt um stjórn og fundarsköp Langanesbyggðar, síðari umræða
Lögð fram drög að samþykktum Langanesbyggðar óbreyttum frá umræðu á 4. fundi 8. September 2022

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagðar samþykktir og leggur til að þær verði sendar innviðaráðuneyti til staðfestingar.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tók: Mirjam, oddviti, Þorsteinn.

Bókun L-lista: Á 4. fundi sveitarstjórnar þann 9. september sl. undir lið 16 í fundargerð var seinni umræða um samþykktir fyrir nýtt sameinað sveitarfélag. Undir þeim lið bentu fulltrúar L-lista oddvita og meirihluta á að ekki væri eðlilegt að taka seinni umræðu um nýjar samþykktir á þeim fundi þar sem ekki lægi ljóst fyrir lögmæti 3. fundar sveitarstjórnar. Oddviti ítrekaði í þrígang að engin vafi væri á lögmæti 3. fundar sveitarstjórnar og vænti þess að ráðuneytið staðfesti það. Nú hefur sá fundur verið dæmdur ólögmætur og allar hans ákvarðanir. Því erum við hér að taka fyrir fyrri umræðu um nýjar samþykktir að nýju. Vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er komin í sveitarfélaginu er það forgangsmál að klára fyrri umræðu um nýjar samþykktir á þessum fundi líkt og gert var með umboð nýs sveitarstjóra hér fyrr á fundinum.

8. Heiti og merki Langanesbyggðar
Lögð fram tillaga að nýju heiti og merki sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að heiti nýs sveitarfélags skuli vera Langanesbyggð eftir könnun á afstöðu íbúa til nafna. Enn fremur samþykkir sveitarstjórn nýtt merki sameinaðs sveitarfélags.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tók: Þorsteinn

Bókun L-lista: Hér erum við að taka fyrir að nýju grundvallarákvörðun þ.e. nafn og merki á nýju sameinuðu sveitarfélagi frá 3. fundi sveitarstjórnar sem dæmdur var ólögmætur. Þetta mál, líkt og umboð sveitarstjóra og fyrri umræðu um nýjar samþykktir sveitarfélagsins, er mikilvægt að klára á þessum fundi enda hefur sveitarfélagið útá við og í fjölmiðlaumfjöllun beðið mikla hnekki vegna þessa máls.

9. Fundargerð 1. fundar velferðar og fræðslunefndar 15.09.2022.
      Liður 8: Samningur um rekstur umdæmisráðs barnaverndar ásamt fylgiskjölum.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að standa að umdæmisráði barnaverndar á landsbyggðinni og veitir sveitarstjóra umboð til að vinna að framgangi málsins og í framhaldinu undirrita samninginn.

Til máls tók: Sveitarstjóri.

Samþykkt samhljóða.

10. Fundargerð 2. fundar skipulags- og umhverfisnefndar 01.09.2022   
       Liður 1: Brekknaheiði. Nýr vegur. Umsagnir og staða mál.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn tekur undir bókun nefndarinnar og ítrekar að fylgt verði eftir þeim kröfum sem koma fram í bókuninni að girt verði meðfram nýju vegstæði og komið fyrir undirgöngum á í það minnsta 2 stöðum. Sveitarstjóra falið að fylgja málinu eftir við Vegagerðina.

Til máls tók: Sveitarstjóri, Þorsteinn, oddviti.

Samþykkt samhljóða.

11. Fundargerð 3. fundar byggðaráðs 22.09.2022   
       Liður 6: Tillaga að reglum um úthlutun lóða í Langanesbyggð

Lögð fram tillaga að reglum um lóðaúthlutun í Langanesbyggð. Þar sem verktakar hafa sóst eftir ákveðnum lóðum þurfa að vera til reglur um úthlutun.

Bókun um afgreiðslu: Málinu vísað til skipulags- og umhverfisnefndar til meðferðar.

Til máls tók: Sveitarstjóri, oddviti, Þorsteinn, Mirjam, Þorsteinn, oddviti.

Samþykkt samhljóða.

12. Lánamöguleikar Langanesbyggðar
Valdimar Halldórsson fv. verkefnastjóri gerði grein fyrir lánasafni og tillögum um nýtt lán fyrir Langanesbyggð ásamt lánamöguleikum.

Til máls tóku: Mirjam, Valdimar, Þorsteinn, Halldóra, Þorsteinn, Halldóra, Mirjam, oddviti, sveitarstjóri, Sigríður.

13. Fundargerð Rekstrarfélagsins Fjarðarvegur 5.
Fundargerðin lögð fram.

14. Fundargerð 1. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar 22.09.2022
Fundargerðin lögð fram

Til máls tók: Mirjam, sveitarstjóri, oddviti, Mirjam.

15. Greinargerð skólastjóra grunnskólans v/styttingu vinnuvikunnar hjá FG
Greinargerð skólastjóra v/ styttingu vinnuvikunnar ásamt kjarasamningi skólastjóra.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða tillögu um styttingu vinnuvikunnar hjá félagsmönnum í Félagi grunnskólakennara þannig að kennarar hætta 65 mín fyrr á föstudögum.

Samþykkt samhljóða.

16. Fundargerð haustfundar almannav. nefndar í umdæmi Lögreglustjórans á NE 21.09.2022   
       Liður 2: Nýr samstarfssamningur um almannavarnir og rekstraráætlun.

Lögð fram fundargerð haustfundar almannavarnarnefndar í umdæmi Lögreglustjórans í NE. Einnig nýr samstarfssamningur um almannavarnir ásamt rekstraráætlun fyrir nefndina vegna ársins 2023.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn fyrir sitt leyti og felur sveitarstjóra að undirrita hann fyrir hönd sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

17. Skyrora, endurnýjun á samningi ásamt fylgiskjali
Nýr samningur hefur verið gerður við Skyrora vegna hugsanlegs geimskots frá Brimnesi. Samningnum fylgir viðauki þar sem félagið fer fram á að forsvarsmenn sveitarfélagsins tjái sig ekki um tæknileg atriði eða neitt það sem viðkemur skotinu sjálfu en sjálfsagt að tjá sig um áhrif á samfélagið í Langanesbyggð og hagsmuni þess vegna skotsins. Samningurinn hefur þegar verið undirritaður með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.

Til máls tók: Sveitarstjóri, Mirjam.

Samþykkt samhljóða.

18. Bréf fv. sveitarstjóra vegna umræðna um stafslok hans
Lagt fram bréf fv. sveitarstjóra vegna umræðna um starfslok hans á 3. fundi sveitarstjórnar.

Til máls tók: Þorsteinn.

19. Greinargerð um skemmdir vegna óveðurs og tillaga að viðgerðum ásamt kostnaði
Lagt fram yfirlit yfir skemmdir sem urðu í óveðri (ásamt myndum) sunnudaginn 25. sept. Áætlaður kostnaður við viðgerðir er 1,5 – 2 mill króna. Óskað er eftir heimild til viðgerða og hreinsunar.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framkomna beiðni um fjárveitingu vegna skemmda og hreinsunar. Liðurinn færist á viðhaldskostnað.

Til máls tóku: Sigríður, sveitarstjóri, Mirjam, Þorsteinn, sveitarstjóri, Þorsteinn, sveitarstjóri.

Samþykkt samhljóða.

20. Umboð til sveitarstjóra vegna bankaviðskipta
Langt fram til undirritunar umboð vegna bankaviðskipta fyrir sveitarstjóra þar sem veitt er fullt og ótakmarkað umboð til að koma fram fyrir hönd sveitarfélagsins í viðskiptum við Landsbankann hf. Kt. 471008-0280, í netbanka, í snjalltækjaforriti í útibúum bankans eða með öðrum hætti sem bankinn ákveður.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir umboðið og að undirrita umbeðið umboð frá Landsbanka Íslands.

Samþykkt samhljóða.

21. Minnisblað vegna fundar um björgunarmiðstöð frá 20.09.2022
Langt fram minnisblað vinnuhóps um björgunarmiðstöð frá fundi sem haldinn var að beiðni byggðaráðs frá 25.08.2022.

Vinnuhópurinn er sammála að þróa verkið áfram, gera nákvæmari þarfagreiningu og teikningar ásamt áætluðum kostnaði. Hópurinn tekur fram að ekki sé samfara mikill kostnaður við að uppfæra upplýsingar sem liggja fyrir.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur hópnum að þróa verkefnið áfram en leggja fram kostnaðaráætlun svo fljótt sem verða má.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, Halldóra, Þorsteinn.

Bókun L-lista: Fulltrúar L-lista fagna þeirri vinnu sem á sér stað í þessu verkefni. Allir aðilar að viljayfirlýsingunni eru áhugasamir um að halda verkefninu áfram og kanna til hlítar stærð miðstöðvarinnar, grófteikna hugmyndina og kostnaðargreina verkið. Nýlega úttekt HMS á aðbúnaði slökkviliða í landinu kemur ekki vel út og þar er aðstaða slökkviliðs Langanesbyggðar engin undantekning, húsnæðið of lítið, það uppfyllir ekki þá staðla eða skilyrði fyrir slíka starfsemi og starfsmannaaðstaða óviðunandi. Með nýrri miðstöð getum við bætt alla þessa hluti og meira til.

22. Minnisblað um viðræður við leigjendur Hallgilsstaða
Lagt fram minnisblað um viðræður við ábúendur að Hallgilsstöðum 1 þar sem þau hafa sagt upp samningi. Samkvæmt samningnum er jörðin laus 1. júní 2023

Til máls tók: Sveitarstjóri, oddviti, Mirjam.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra er falið að hefja vinnu við ábúendaskipti í samráði við Ráðgjafamiðstöð Landbúnaðarins.

Samþykkt samhljóða.

23. Samræming reglna og gjaldskrár vegna refa og minkaveiða.
Oddviti leggur til að Landbúnaðarnefnd verði falið að semja reglur og gjaldskár sem nái yfir sameinað sveitarfélag og skili tillögum þar að lútandi fyrir áramót. Þó verði gjaldskrá vegna vetrarveiðar samræmdar frá og með 1. október verða greiddar kr. 12.000 fyrir unnin ref.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framkomna tillögu og vísar henni til landbúnaðarnefndar.

Til máls tók: Þorsteinn, sveitarstjóri, Mirjam, Júlíus, oddviti.

Samþykkt samhljóða.

24. Skýrsla sveitarstjóra

Oddviti og ágætu sveitarstjórnarmenn

Óveðrið sem gekk yfir í síðustu viku lék okkur ekki eins grátt og nágranna okkar á Austfjörðum en þó urðu nokkrar skemmdir á íþróttamiðstöðinni og eins og undanfarin ár þurfti að hreinsa Bakkaveginn sem varð eins og malarvegur eftir veðrið. Alvarlegast er þó að mér telst til að í fjórða skiptið á 3 árum lokist vegurinn út á Langanes fyrir utan Sauðanes og er ekki að sjá að Vegagerðin hafi neinar afgerandi lausnir á því, nema færa veginn innar í landið sem hefur í för með sér marga ókosti. Umtalsverðar skemmdir urðu á hafnargarðinum á Þórshöfn og þar hefur Vegagerðin brugðist hraðar við og við eigum von á því að það takist að laga þær skemmdir áður en alvöru vetur gengur í garð ef allar áætlanir ganga eftir.

Verktakar hafa verið í sambandi við okkur og hafa sýnt mikinn áhuga á að byggja hér húsnæði en okkur skortir reglur um úthlutun lóða sem líta má á sem lúxusvanda þar sem ekki hefur verið eftirsókn eftir lóðum en vonandi gengur það hratt fyrir sig að ljúka við reglurnar, setja kort af lausum lóðum á netið ásamt þessum reglum. Mest ásókn er í raðhúsalóð við Miðholt en þar vilja verktaka byggja fleiri íbúðir en þær þrjár sem byggingareiturinn er skilgreindur fyrir í dag. Því má þó breyta ef vilji er fyrir hendi í 4 íbúðir og stækka lóð og byggingareiti. Nokkuð ber í milli hjá leigufélaginu Bríet og verktökum um stærð íbúða þar sem verktakar segja að hagkvæmara sé að byggja 90 – 120m2 íbúðir en Bríet er helst á því að byggðar verði 80 – 90 m2 íbúðir og þá 3 herbergja. Á hinn bóginn er tilfinnanlegur skortur á leiguhúsnæði sem stendur og það háir okkur mikið, bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Verð á húsnæði hefur hækkað miðað við síðustu þinglýsta samninga og sala gengur hraðar fyrir sig á þeim fáu íbúðum sem eru falar. Húsnæðismál hafa verið forgangsmál hjá okkur allt frá því að við skiluðum inn rafrænni húsnæðisáætlun í lok síðasta árs og útlit fyrir að við þurfum að uppfæra hana fyrir árslok og jafnvel fjölga íbúðum.

Fundur með þingmönnum kjördæmisins var haldinn á Vopnafirði s.l. þriðjudag. Það var áhugaverður fundur þar við lögðum fram áherslumál okkar. Þó undirtektir hafi verið góðar við þeim öllum, virðist svo sem Alþingi eigi mikið undir því að framkvæmdavaldið og ráðuneytin taki endanlegar ákvarðanir um mál sem ef til vill skipta litlu í hinu stóra samhengi en okkur miklu. Þannig stendur til að taka af okkur eina starfið sem ríkið hefur lagt fé í á Þórshöfn og leggja það niður með niðurskurði til sýslumanns á Húsavík. Við vonumst þó til að þeirri ákvörðun verði snúið við.

Nú fer í hönd annasamur tími á skrifstofu okkar þar sem gerð fjárhagsáætlunar er framundan og það er nokkuð flóknara en áður vegna sameiningarinnar og margir einskiptisliðir sem bæði munu koma fram í uppgjöri þessa árs og tekjum næsta árs. Samræming bókhalds hefur gengið vel og við höfum verið í góðu sambandi við endurskoðendur beggja sveitarfélaga. Reynt verður eins fljótt og hægt er að halda fund með deildarstjórum vegna fjárhagsáætlunar. En – allt þetta leggur á okkur meiri vinnu sem við erum þó ekki að kvarta yfir en það gerir það þó að verkum að önnur verk geta tafist eitthvað. Við höfum auglýst eftir starfsmanni sem gjaldkera og launafulltrúa og fengum 6 umsóknir um það starf og bindum vonir við að geta ráðið í starfið innan skamms.

Ég má til með að nefna hér í lokin niðurstöðu ráðuneytisins í kvörtun vegna 3. fundar sveitarstjórnar án þess að taka nokkra afstöðu til hennar, niðurstöðu ráðuneytisins eða umræðna og bókana tengda henni enda er ég ekki í aðstöðu til þess og var ekki kominn til starfa þá. Það er alltaf vont fyrir sveitarfélag að lenda inni í umræðunni á þessum nótum og ég þekki það allt of vel eftir margra ára vinnu í almannatengslum og markaðsmálum að það er erfiðara að vinna álit til baka en að afla þess í upphafi. Ég veit að það er mikill vilji til þess á meðal sveitarstjórnarmanna, embættismanna og allra starfsmanna að vanda til allra verka, gera hlutina rétt og fara eftir lögum, reglum og þeim samþykktum sem okkur er gert að fara eftir.

Til máls tók: Þorsteinn.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 19:24.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?