Fara í efni

96. fundur sveitarstjórnar

07.03.2019 17:00

Fundur í sveitarstjórn

96. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn í félagsheimilinu Þórsveri á Þórshöfn fimmtudaginn 7. mars 2019. Fundur var settur kl. 17:00.

Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst, Halldór Rúnar Stefánsson, Þórarinn J. Þórisson, Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Björn Guðmundur Björnsson, Elías Pétursson sveitarstjóri og Jónas Egilsson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Almar Marinósson tók sæti Sigríðar Friðnýjar kl. 17:35.

Oddviti setti fundinn og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Hann lagði til að nýju erindi yrði bætt við dagskrána Listamannadvöl á Þórshöfn í sumar, sem yrði nýr liður númer 15 og númer annarra liða breyttust skv. því.

Samþykkt samhljóða.

Að því loknu var gengið til dagskrár.

Dagskrá

  1. Fundargerð 867. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 25. janúar 2019

  2. Fundargerð 868. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 22. febrúar 2019

  3. Fundargerð 409. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 18. janúar 2019

  4. Fundargerð 410. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 15. febrúar 2019

  5. Fundargerð fulltrúaráðsfundar Eyþings, dags. 15. febrúar 2019

  6. Fundargerð 317. fundar stjórnar Eyþings, dags. 15. febrúar 2019

  7. Fundargerð 2. fundar byggðaráðs, dags. 28. febrúar 2019

  8. Stofnun lögbýlis að Hólum

  9. Samningur við Þorkel Gíslason

  10. Viðauki við fjárhagsáætlun

  11. Ljósleiðaravæðing Langanesbyggðar

  12. Skipan í hverfisráð

  13. Útboð á snjómokstri

  14. Tekjutap vegna loðnubrests

  15. Listamannadvöl á Þórshöfn í sumar

  16. Frá U-lista: Íþróttahúsið Ver, ástand og framtíð

  17. Frá U-lista: Milliuppgjör um rekstur Langanesbyggðar

  18. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1.Fundargerð 867. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 25. janúar 2019

Fundargerðin lögð fram.

2.Fundargerð 868. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 22. febrúar 2019

Fundargerðin lögð fram.

3.Fundargerð 409. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 18. janúar 2019

Fundargerðin lögð fram.

4.Fundargerð 410. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 15. febrúar 2019

Fundargerðin lögð fram.

5.Fundargerð fulltrúaráðsfundar Eyþings, dags. 15. febrúar 2019

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tók: Elías Pétursson.

6.Fundargerð 317. fundar stjórnar Eyþings, dags. 15. febrúar 2019

Fundargerðin lögð fram.

7.Fundargerð 2. fundar byggðaráðs, dags. 28. febrúar 2019

Fundargerðin lögð fram.

8.Stofnun lögbýlis að Hólum

Erindi vísað til sveitarstjórnar af byggðaráði á fundi ráðsins 28. febrúar sl., framlagt erindi snýr að beiðni Stefáns Rúnars Stefánssonar um umsögn vegna stofnunar lögbýlis að Hólum við Bakkaflóa, landnúmer 220289, erindinu fylgir uppdráttur. Einnig er lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar og minnisblað Teiknistofu Norðurlands, dags. 11. des. 2018 og önnur gögn.

Til máls tók: Elías Pétursson.

Bókun um afgreiðslu: Umræddur jarðarpartur, sem af hluti af jörðinni Helluland, er innan svæðis sem í samþykktu aðalskipulagi Langanesbyggðar er ætlað til uppbyggingar og þróunar hafnarmannvirkja í Finnafirði. Stofnun lögbýlis á svæðinu er því ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Samþykkt samhljóða.

9.Samningur við Þorkel Gíslason

Samstarfssamningur við Þorkel Gíslason vegna uppbyggingar og starfrækslu þjónustu-miðstöðvar á Bakkafirði lagður fram.

Til máls tóku: Elías Pétursson og Sigríður Friðný Halldórsdóttir sem lagði fram svohljóðandi bókun fyrir hönd U-listans: U-listinn ítrekar þá afstöðu sína að auglýst verði eftir áhugasömum aðilum í verkefnið. Við erum mjög hlynnt verkefninu og markmiðum þess sem stuðlar að uppbyggingu á Bakkafirði. Fyrir fundinum liggur samningur um að gera 2 ára samning um rekstur á uppgerðu verslunarhúsnæði sem og skólahúsnæði, auk þess sem viðkomandi fær 400 þúsund króna verktakalaun á mánuði. Við teljum að auglýsa eigi eftir rekstraraðilum þar sem forsendur eru nú breyttar frá því að síðast var auglýst eftir aðilum.

Elías Pétursson veitti andsvar.

Sigríður Friðný Halldórsdóttir lagði fram svohljóðandi tillögu f.h. U-listans: Auglýst verður eftir fleiri áhugasömum rekstraraðilum á verslunarhúsnæði og skólahúsnæði til þess að gæta alls jafnræðis varðandi þessa stöðu sem sveitarfélagið ætlar að standa að á Bakkafirði.

Til máls tóku: Mirjam Blekkenhorst, Björn Guðmundur Björnsson og Elías Pétursson.

Tillaga U-listans felld með atkvæðum: Þorsteins Ægis Egilssonar, Mirjam Blekkenhorst, Halldórs Rúnars Stefánssonar og Þórarins J. Þórissonar gegn atkvæðum: Siggeirs Stefánssonar, Sigríðar Friðnýjar Halldórsdóttur og Björns Guðmundar Björnssonar.

Samþykkt um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagðan samning og felur sveitarstjóra að undirrita hann.

Samþykkt með atkvæðum: Þorsteins Ægis Egilssonar, Mirjam Blekkenhorst, Halldórs Rúnars Stefánssonar og Þórarins J. Þórissonar. Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Björn Guðmundur Björnsson og Siggeir Stefánsson sátu hjá.

10.Viðauki við fjárhagsáætlun

Svohljóðandi viðauki nr. 1 vegna fjárhagsáætlunar 2019 lagður fram:

Breytingar á framlagi til velferðarmála: Fjárveiting til húsnæðismála fatlaðra (0250), samtals kr. 5.540.300.

Fjármagnað með handbæru fé. Handbært fé í árslok mun lækka um 5,5 m.kr. og verður 24,5 m.kr.

Breytingar á tekjuliðum: Engar.

Breytingar á gjöldum: Hækkun gjalda um kr. 5.540.300.

Rekstrarniðurstaða: Mun miðað við áætlun lækka um kr. 5.540.300.

Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagðan viðauka.

Samþykkt samhljóða.

11.Ljósleiðaravæðing Langanesbyggðar

Sveitarstóri fór yfir framlagt minnisblað EFLU verkfræðistofu dags. 1. mars, í minnisblaðinu kemur fram að Fjarskiptasjóður hafi nú birt tilboð vegna ljósleiðaravæðingar í dreifbýli á árunum 2019 til 2021. Tilboðið er sett fram í kjölfar viðræðna sem sveitarstjórar Langanesbyggðar og Norðurþings áttu við sjóðinn. Kostnaðaráætlun vegna ljósleiðarvæðingar Langanesstrandar hljóðar upp á 26,7 m.kr. og áætlaður kostnaður sveitarfélagsins er 7,6 m.kr. að frádregnum styrkjum og heimtaugargjöldum.

Oddviti gerði hlé á fundi kl. 17:25.

Sigríður Friðný vék af fundi.

Almar Marinósson tók sæti kl. 17:35.

Oddviti setti fund að nýju kl. 17:35.

Til máls tók: Elías Pétursson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að vinna áfram að verkefninu með það að markmiði að framkvæmdir hefjist á árinu.

Samþykkt samhljóða.

12.Skipan í hverfisráð

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að vísa málinu til næsta fundar byggðaráðs til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða.

13.Útboð á snjómokstri

Útboðs- og verklýsing fyrir snjómokstur í þéttbýli á Bakkafirði og Þórshöfn, dags. nóvember 2018, lögð fram.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að auglýsa útboðið.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tók: Björn Guðmundur Björnsson og lagði fram svohljóðandi bókun U-listans: Að mati U-listans er núverandi fyrirkomulag á snjómokstri viðunandi og með því er vinnan við snjómokstur að dreifast á milli verktaka á svæðinu. Það er jafn áríðandi í núverandi fyrirkomulagi og ef þetta verður boðið út að eftirlit og skipulag verður að vera gott. U-listinn samþykkir fyrirliggjandi útboð með fyrirvara um að verkinu verði skipt hlutfallslega jafnt milli verktaka á svæðinu.

14.Tekjutap vegna loðnubrests

Sveitarstjóri fór yfir þá stöðu sem uppi er vegna algjörs loðnubrests. Á síðasta ári var á Þórshöfn landað tæpum 30 þúsund tonnum af loðnu en nú lítur allt út fyrir að engin loðna berist á land í vetur. Afleiðingar þessa eru mjög alvarlegar fyrir sveitarfélag eins og Langanesbyggð sem byggir sína tilveru að miklu leita á vinnslu uppsjávarafla. Ljóst er að bæði er um að ræða tekjutap fyrir sveitarfélagið, höfnina og samfélagið allt. Fram hefur komið hjá forsvarsmönnum Ísfélagsins að áætlað tekjutap starfsfólks félagsins nemi 45 til 50 milljónum, ofan á það má bæta afleiddu tapi í samfélaginu vegna minni umsvifa. Áætla má tap sveitarfélags og hafnar nálægt 25 milljónum sem er 83% áætlaðs handbærs fjár í árslok 2019.

Sveitarstjóri bar fram tillögu þess efnis að honum yrði falið að meta hvort ekki þyrfti að taka upp fjárhagsáætlun sveitarfélagsins vegna þessa og kynna niðurstöðu og eftir atvikum áætlun um viðbrögð fyrir sveitarstjórn og byggðaráði.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að greina nánar áhrif loðnubrests á gildandi fjárhagsáætlun og leggja niðurstöður og tillögu að viðbrögðum fyrir næsta fund byggðaráðs.

Samþykkt samhljóða.

15.Listamannadvöl á Þórshöfn í sumar

Lagt fram erindi frá Hildi Henrýsdóttur o.fl. dags. 5. mars sl., vegna mögulegrar dvalar listamanna á Þórshöfn í sumar.

Til máls tóku: Mirjam Blekkenhorst, Siggeir Stefánsson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn er jákvæð fyrir erindinu og felur sveitarstjóra að ræða við bréfritara um nánari útfærslu.

Samþykkt samhljóða.

16.Frá U-lista: Íþróttahúsið Ver, ástand og framtíð

Lögð fram ástandsskýrsla frá Faglausnum dags. í apríl-maí 2014.

Til máls tók: Almar Marinósson og lagði fram svohljóðandi bókun fyrir hönd U-listans:

Lagt er til að haldinn verði svo fljótt sem verða má vinnufundur sveitarstjórnar með það að markmiði að marka stefnu um þarfa endurnýjun og viðahald íþróttamiðstöðvarinnar Vers, einnig verði hafist handa á fundinum við stefnumótun um framtíðar fyrirkomulag starfsemi hússins. Það er skoðun U-listans að íþróttahúsið gegni lykilhlutverki í samfélaginu í Langanesbyggð og Svalbarðshreppi, því sé mjög mikilvægt að staðinn sé vörður um húsið og starfsemi þess.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að taka saman öll gögn sem til eru um ástand hússins og boða til vinnufundar í sveitarstjórn í næstu viku.

Samþykkt samhljóða.

17.Frá U-lista: Milliuppgjör um rekstur Langanesbyggðar

Til máls tók Björn Guðmundur Björnsson og lagði fram svohljóðandi tillögu um afgreiðslu: U-listinn leggur til að milliuppgjör verði lagt fram með reglulegum hætti, helst mánaðarlega um rekstur sveitarfélagsins.

Sveitarstjóri tók til máls og fór yfir ástæður þess að ekki hefur tekist að koma milliuppgjörum út eins og hann vildi, og verið hefur. Það er ætlan skrifstofu að koma þessu í betra horf þannig að uppgjör verði kynnt byggðaráði með reglubundnum hætti.

Til máls tóku: Elías Pétursson, Almar Marinósson.

Samþykkt samhljóða.

18.Skýrsla sveitarstjóra

Sveitarstjóri fór yfir þau helstu mál sem í gangi hafa verið og ekki er getið hér að ofan.

Hafnartangi 4: Frágangur klæðningar hússins er á lokametrunum, eftir er á að giska tveggja daga vinna.

Nýbygging leikskóla: Framkvæmdir ganga vel og er reiknað með verklokum byggingar í byrjun maí. Verið er að leggja lokahönd á verðkönnunargögn vegna lóðarfrágangs, reiknað er með því að framkvæmdir hefjist um leið og veður leyfir. Sama á við um framkvæmdir vegna varmadæluvæðingar.

Atvinnumál í sveitarfélaginu: Í vikunni voru haldnir tveir fundir um atvinnumál, annarsvegar um sjávarútveg og hinsvegar um landbúnað. Fundirnir tókust mjög vel og voru þeir gagnlegir. Í komandi viku verða svo tveir fundir um þjónustu og skapandi greinar, þeir fundir verða 13. mars.

Bakkafjörður, Brothættar byggðir: Verkefnisstjórn hefur verið skipuð og boðuð til fundar föstudaginn 15. mars nk.

Deili- og aðalskipulagstillögur: Fyrirliggjandi tillögur vegna Þórshafnar eru komnar í auglýsingu og er nú tekið við umsögnum og unnið úr þeim.

Ráðning forstöðumanns þjónustumiðstöðvar: Úrvinnslu umsókna er að ljúka og mun niðurstaða verða kynnt kjörnum fulltrúum á næstu dögum til umsagnar. Fljótlega verður auglýst eftir starfsfólki í önnur störf.

Viðvera sveitarstjóra á Bakkafirði: Á komandi miðvikudag mun sveitarstjóri vera með viðveru á skrifstofu sveitarfélagsins á Bakkafirði, frá þeim degi verður sveitarstjóri með viðveru annan hvern miðvikudag á milli kl. 11 og 15. Er það von sveitarstjóra að Bakkfirðingar nýti sér þessa þjónustu til að reka sín erindi og eða spjalla um hvað það sem á þeim hvílir.

Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:08.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?