Fara í efni

6. fundur, aukafundur í sveitarstjórn Langanesbyggðar

19.10.2022 17:00

Fundur í sveitarstjórn

6. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar, aukafundur haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, miðvikudaginn 19. október 2022. Fundur settur kl. 17:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Margrét Guðmundsdóttir, Þorsteinn Ægir Egilsson, Júlíus Þ. Sigurbjartsson, Mirjam Blekkenhorst, Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð. Hjörtur Harðarson kom inn fyrir Sigurð Þór Sigurðson undir lið 12.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

D a g s k r á

1. Fundargerð 1. fundar byggðaráðs 30.06.2022
2. Fundargerð 1. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar 25.07.2022
3. Fundargerð 1. fundar jarðasjóðs 18.07.2022
4. Erindi til sveitarstjórnar frá Markaðsstofu Norðurlands varðandi flugklasann
5. Minnisblað um flugverkefni frá flugþróunarsjóði
6. Skipun starfshóps um samgöngu og innviðastefnu frá SSNE
7. Beiðni um styrk frá Kvennaathvarfinu
8. Míla – ósk um framkvæmdaleyfi vegna ljósleiðara
9. Tillaga að ályktun um strandveiðar
10. Tillaga að ályktun um sýslumenn
11. Tillaga að breytingu á stjórn í Fjarðarvegar 5
12. Samningur við oddvita Svalbarðshrepps um vinnuframlag
13. Viðaukar við fjárhagsáætlun
       13.1 Viðauki við vegna íþróttamiðstöðvar á árinu 2022
       13.2 Viðauki vegna viðhalds að Lækjarvegi 3
       13.3 Viðauki vegna greiðslna til oddvita Svalbarðshrepps vegna vinnuframlags
       13.4 Viðauki vegna viðhalds við útihurð við Grunnskólann
        13.5 Viðauki vegna viðhalds við vatnsból
        13.6 Viðauki vegna fjárfestingar í hafnarskúr á Bakkafirði
        13.7 Viðauki vegna uppgjörs við BJ vegna Miðholts
       13.8 Viðauki vegna framlags Langanesbyggðar í fuglaskýli
14. Tillögur um viðhald og fjárfestingar frá Þjónustumiðstöð 2022 - 2023
15. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

 

1. Fundargerð 1. fundar byggðaráðs 30.06.2021

Fundargerðin lögð fram

Bókun L-lista: Fulltrúar L-lista gera athugasemdir við það að fundargerð byggðaráðs hafi verið birt opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins áður en hún var lögð fyrir sveitarstjórn.

2. Fundargerð 1. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar 25.07.2022

Fundargerðin lögð fram

Bókun L-lista: Fulltrúar L-lista gera athugasemdir við það að fundargerð Umhverfis og skipulagsnefndar hafi verið birt opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins áður en hún var lögð fyrir byggðaráð eða sveitarstjórn.

3. Fundargerð 1. fundar jarðasjóðs 18.07.2022

Fundargerðin lögð fram

Bókun L-lista: Fulltrúar L-lista gera athugasemdir við það að fundargerð Jarðarsjóðs hafi verið birt opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins áður en hún var lögð fyrir byggðaráð eða sveitarstjórn.

4. Greinargerð til sveitarstjórnar frá Markaðsstofu Norðurlands varðandi flugklasann

Greinargerð lögð fram. Lögð fram ósk frá Markaðsstofunni um framlag frá sveitarfélögum sem nemur kr. 300 á íbúa.

Bókun um afgreiðslu: Vísað til fjárhagsáætlunar næsta árs.

Samþykkt samhljóða.

5. Minnisblað um flugverkefni frá flugþróunarsjóði

Minnisblað um eflingu millilandaflugs til Akureyrar og Egilsstaða

6. Skipun starfshóps um samgöngu og innviðastefnu frá SSNE

Tillaga um að Sigurður Þór Guðmundsson verði fylltrúi Langanesbyggðar í samráðshóp.

Samþykkt samhljóða.

7. Beiðni um styrk frá Kvennaathvarfinu

Óskað er eftir styrk að upphæð kr. 200.000.- til Kvennaathvarfsins.

Bókun um afgreiðslu: Vísað til fjárhagsáætlunar næsta árs

Samþykkt samhljóða.

8. Míla – ósk um framkvæmdaleyfi vegna ljósleiðara

Míla óskar eftir framkvæmdaleyfi til að leggja ljósleiðara í hús sem tiltekin eru í umsókninni. Míla hefur upplýst að ekki verði hægt að hefja framkvæmdir fyrr en vorið 2023 vegna skorts á verktaka til að vinna verkið,

Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn heimilar að gefið verði út framkvæmdaleyfi með eftirfarandi skilyrðum:

     a) Frágangur á yfirborði verði sambærilegur og áður
      b) Upplýsingar fáist um fráang skurðskára
      c) Ef þvera þarf götur verði leitast við að bora undir þær.
      d) Verkið verði unnið í samráði við Þjónustumiðstöð

Samþykkt samhljóða.

9. Tillaga að ályktun um strandveiðar

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

„Sveitarstjórn Langanesbyggðar telur jákvætt að stjórnvöld hafi nú til afgreiðslu á Alþingi breytingar á fyrirkomulagi strandveiða og svæðaskiptingu með það að markmiði að sanngirni aukist. Strandveiðar voru settar á laggirnar á sínum tíma að auðvelda áhugasömum smábátasjómönnum að róa á færabátum á grunnslóð. Þetta var gott framtak og með strandveiðum hefur færst aukið líf í hafnir landsins – ekki síst á minnstu stöðunum. Kerfið þarf að vera eins sanngjarnt og hægt er gagnvart öllum veiðisvæðunum fjórum hringinn í kringum um landið. Vonandi tekst að gera breytingar til að aflinn dreifist jafnar út um allt land“.

Samþykkt samhljóða.

10. Tillaga að ályktun um sýslumenn

Eftirfarandi tillaga lögð fram um að Langanesbyggð álykti á eftirfarandi hátt um frumvarp um sameiningu níu sýslumannsembætta í eitt:

„Sveitarfélagið Langanesbyggð fagnar langþráðri viðurkenningu dómsmálaráðherra á því að tilefni sé til að staðsetja skrifstofu sýslumanns á norðausturhorni landsins á Langanesi og nærsveitum. Ljóst er að þjónustusvæði starfseminnar nær ekki aðeins til sveitarfélagsins heldur einnig aðliggjandi héraða þar sem um langan veg er að fara til að sækja grundvallarþjónustu hins opinbera. Gildir það jafnt um íbúa, sveitarfélög og fyrirtæki á svæðinu sem sum hver teljast til stærstu fyrirtækja landsins. Með þessu skrefi staðfestir dómsmálaráðuneytið árangur af tilraunaverkefni Langanesbyggðar og Sýslumannsins á Norðurlandi eystra sem staðið hefur í á þriðja ár og komið var á fót með stuðningi Byggðastofnunar.

Hins vegar virðist sérstök ástæða til að mótmæla þeirri meginhugsun sem býr að baki frumvarpinu um sameiningu níu sýslumannsembætta í eitt. Hægt er að færa gild rök fyrir því að án náins samstarfs sveitafélagsins og sýslumannsembættisins á Norðurlandi eystra hefði aldrei orðið af þeirri þjónustubót sýslumannsembættisins sem átt hefur sér stað í sveitarfélaginu, enda hefur dómsmálaráðuneytið ekki séð ástæðu til að gera ráð fyrir þeirri starfsemi í sveitarfélaginu í reglugerð um þjónustu sýslumanna hingað til. Sýnir þessi reynsla sveitarfélagsins glögglega mikilvægi sjálfsforræðis sýslumannsembætta í héruðum landsins.

Sérstaklega er tekið undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögnum stjórnar Byggðastofnunar og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpsdrögin. Augljóst virðist að nauðsynlegt er að undirbúa svo mikilvægar skipulagsbreytingar betur. Gildir þá einu hvort litið er til lágmarksskilyrða í starfsemi og rekstri, svæðistengdrar kjarnaþjónustu lykilverkefna (svo sem fjölskyldumála), fyrirkomulags sérverkefna, umdæmabundins forræðis og svigrúms sjálfstæðra stofnana á landsbyggðinni. Þá blasir við að lágmarksskilyrði byggðaáætlunar ber að virða í orði og á borði. Í öllum framangreindum atriðum virðist frumvarpsdrögin ófullnægjandi, svo sem aðrar umsagnir bera einnig með sér.

Fari svo að frumvarpsdrög þessi fái ekki framgang hvetur sveitarfélagið til þess að dómsmálaráðherra nýti heimildir sínar til að breyta núgildandi reglugerð um umdæmi sýslumanna og staðsetji útibú í Langanesbyggð, enda er sú aðgerð afar einföld og margsinnis áréttuð“.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tók: Þorsteinn.

11. Tillaga að breytingu á stjórn í Fjarðarvegar 5 ehf.

Tillaga um að fulltrúar í byggðaráði Langanesbyggðar myndi stjórn Fjarðarvegar 5 ehf.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tók: Mirjam.

12. Samningur við oddvita Svalbarðshrepps um vinnuframlag –

Sigurður Þór vakti athygli á eigin vanhæfni og bar það undir atkvæði og var það samþykkt samhljóða. Vék hann af fundi við afgreiðslu þessa máls og Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir tók við fundarstjórn og Hjörtur Harðarson tók sæti á fundinum undir þessum lið.

Lögð fram tillaga um að sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykki samning við fyrrverandi oddvita Svalbarðshrepps um vinnuframlag hans við frágang á gögnum hreppsins í tengslum við sameiningu sveitarfélaganna tveggja.

Til máls tók: Þorsteinn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn leggur til að samningurinn verði staðfestur.

Atkvæðagreiðsla : Með; Halldóra, Margrét, Gunnlaugur, Hjörtur. Á móti; Þorsteinn, Mirjam, Júlíus.

Bókun L-lista: Á öðrum fundi sveitarstjórnar 16. júní sl. hafnaði sveitarstjórn tillögu sitjandi fundarstjóra og meirihluta því að fyrrum oddviti Svalbarðshrepps fengi greiddar launagreiðslur í þrjá mánuði alls 750.000 kr. enda ekki ráðningarsamningur milli fyrrum oddvita og sveitarfélagsins og því ekki forsendur fyrir starfslokagreiðslum. Á byggðaráðs fundi 30. júní sl. kemur þetta sama mál á dagskrá en þá sem tillaga frá verkefnastjóra um að greiða fyrrum oddvita Svalbarðshrepps einskiptisgreiðslu upp á 750.000 kr. Á þeim fundi var verkefnastjóra falið að gera drög að verksamningi við fyrrum oddvita og hann síðan lagður fyrir sveitarstjórn. Fulltrúar-L lista geta ekki samþykkt þennan samning og þá upphæð sem um ræðir enda engin gögn eða rök á bak við upphæðina sem á að greiða fyrrum oddvita. Einnig var verkefnastjóri ráðin í byrjun júní til að sinna þeim verkefnum sem eftir standa í sameiningar vinnunni.

Sigurður Þór Guðmundsson tók aftur við stjórn fundarins og Hjörtur vék af fundi.

13. Viðauki 2 við fjárhagsáætlun  
       a. Viðauki við vegna íþróttamiðstöðvar á árinu 2022

Tillaga að afgreiðslu: Lagt til að fjárfesting til VER falli niður á árinu 2022 samtals 180 milljónir

Atkvæðagreiðsla: Með; Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét. Á móti; Þorsteinn, Mirjam, Júlíus.

Til máls tók: Þorsteinn og oddviti.

Bókun L-lista: Á öðrum fundi sveitarstjórnar 16. júní sl. var kynnt endurskoðuð verkáætlun við endurbætur á íþróttamiðstöðinni. Málinu var síðan vísað til byggðarráðs til eftirfylgni en þangað hefur málið aldrei komist. Þess í stað kemur hér tillaga frá verkefnastjóra um að hætta öllum framkvæmdum við íþróttamiðstöðina árið 2022. Hér er um að ræða stóra breytingu á ákvörðun fyrri sveitarstjórnar um endurnýjun og lagfæringu á íþróttamiðstöðina og ekki síður algera stefnubreyting núverandi meirihluta frá síðasta sveitarstjórnarfundi og þeirri verkáætlun sem kynnt var þar. Fulltrúar L-lista furða sig á þessum vinnubrögðum og um leið harma þessa ákvörðun meirihluta.

     b. Viðauki vegna viðhalds að Lækjarvegi 3

Tillaga að afgreiðslu: Gera þarf við gólfefni, mála og skipta um hurðir auk þess sem gera þarf upp baðherbergi fyrir allt að 6. millj.

Samþykkt samhljóða.

      c. Viðauki vegna greiðslna til oddvita Svalbarðshrepps vegna vinnuframlags

Tillaga að afgreiðslu: Greiðslur til fv. oddvita vegna vinnuframlags að fjárhæð 750 þúsund.

Atkvæðagreiðsla: Með; Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét. Á móti; Þorsteinn, Mirjam, Júlíus.

      d. Viðauki vegna viðhalds við útihurð við Grunnskólann

Tillaga að afgreiðslu: Skipta þarf um útihurð í Grunnskólanum allt að 1.000.000 kr.

Samþykkt samhljóða.

     e. Viðauki vegna viðhalds við vatnsból

Tillaga að afgreiðslu: Vegna bilunar í vatnsæð þurfti að fara í viðgerðir á æðinni fyrir allt að 2.000.000 kr.

Samþykkt samhljóða.

     f. Viðauki vegna fjárfestingar í hafnarskúr á Bakkafirði

Tillaga að afgreiðslu: Fjárfesta þarf í nýjum hafnarskúr á Bakkafirði fyrir allt að 5.000.000 kr.

Samþykkt samhljóða.

      g. Viðauki vegna uppgjörs við BJ 1998 vegna Miðholts

Tillaga að afgreiðslu: Gerður hefur verið samningur við B.J. 1998 ehf vegna skila á leiguíbúðum við Miðholt fyrir 4.000.000 kr.

Samþykkt samhljóða.

     h. Viðauki vegna framlags Langanesbyggðar í fuglaskýli

Tillaga að afgreiðslu: Hlutur Langanesbyggðar af 5 milljóna króna fjárfestingu við fuglaskýli er 1 milljón eða 20% á móti framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Samþykkt samhljóða.

14. Viðhaldsfjárfestingar 2022 og tillögur 2023
Lagt fram til kynningar. Af þeim liðum sem kynntir eru hér, eru 3 í viðaukum sem lagðir voru fram hér á undan í dagskránni.

Til máls tók sveitarstjóri.

15. Skýrsla sveitarstjóra

Til máls tók sveitarstjóri.

Formlegur undirbúningur fjárhagsáætlunar er nú hafinn. Það er dálítið flóknara en undanfarin ár eins og ég hef haft orð á áður þar sem erfiðara er að horfa í baksýnisspegil til líðandi árs varðandi áætlun næsta árs vegna sameiningar sveitarfélaganna. Þá koma einnig inn einskiptis greiðslur á þessu og næsta ári en ekki hafa enn fengist upplýsingar um hverjar þær verða á næsta ári en það mun liggja fyrir innan skamms. Ekki er með ábyrgum hætti hægt að segja fyrir um afkomu sameinaðs sveitarfélags hjá okkur á þessari stundu fyrir þetta ár en hann verður, með öllum fyrirvörum jákvæður.

 

Oddvitar lista sem sæti eiga í sveitarstjórn ásamt sveitarstjóra og skrifstofustjóra sóttu fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem haldin var í Reykjavík um síðustu helgi. Ljóst er að staða margra sveitarfélaga er mjög slæm, sérstaklega margra stærri sveitarfélaga og um ástæður ber helst að nefna yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga en ríkið hefur ákveðið að hlutur sveitarfélaga í útsvari hækki um 0,26% á næsta ári til að mæta þeim útgjöldum sem ekki var gert ráð fyrir við yfirfærsluna. Það mun þó ekki hafa áhrif á heildargreiðslur skatta þar sem hlutur ríkisins lækkar á móti. Þá hefur Covid faraldurinn reynst mörgum sveitarfélögum erfiður. Það virðist vera lenska, að við yfirfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga færast ekki nægar tekjur til að standa undir þeim liðum sem færast yfir og semja þarf í mörgum tilfellum upp á nýtt um fjármögnun þeirra verkefna. Hef reynsluna frá yfirfærslu grunnskólanna á sínum tíma.

Sveitarstjóri átti fund með framkvæmdastjóra Biskupsstofu í síðustu viku til að forvitnast um áform kirkjunar varðandi Skeggjastaði en kirkjan hefur aflað sér heimildar til að selja staðinn. Auðvitað eru hagsmunir í húfi fyrir okkur hvað verður um Skeggjastaði, hvort þar verður búskapur með einhverjum hætti eða jörðin sjálf nýtt á annan hátt. Lýst var hugmyndum sem hafa komið fram á Bakkafirði um að setja á laggirnar einhvers konar rannsóknarsetur í náttúrufræðum á staðnum. Þeirri hugmynd var lýst fyrir framkvæmdastjóranum en í þessari viku er fundur í framkvæmdastjórn kirkjunnar og þar munu væntanlega verða teknar einhverjar ákvarðanir varðandi kirkjustaðinn. Fenginn hefur verið fasteignasali til að meta jörðina sem mun vera alls um 7000 hektarar að sögn framkvæmdastjórans.

Starf nefnda er að komast í það horf að reglulegir fundir eru haldnir samkvæmt dagskrá í nefndavikum. Aukafundur var haldinn í gær í umhverfis- og skipulagsnefnd þar sem nefndarmenn fengu aðeins yfirsýn yfir Svæðisáætlun Norðurlands í sorpmálum en það er ljóst að þar bíða mörg stór og flókinn verkefni úrlaunsnar ekki síst hjá okkur þar sem við erum á jaðarsvæði og flutningar dýrir. Á fundinum kom fram að Langanesbyggð er að niðurgreiða sorphirðu um rúmlega 50% sem er í andstöðu við lög þar sem ekki má nota fé úr sveitarsjóði til niðurgreiðslu á þeirri þjónustu. Þetta er staðan þrátt fyrir verulega hækkun sorpgjalda umfram almennar gjaldskrárhækkanir á síðasta ári. En það eru ráð til að draga úr kostnaði t.d. með því að fá íbúa til að flokka meira og koma til móts við óskir um aðstöðu til þess og bæta aðstöðu á móttökustöðvum. Á næsta næsta ári er ljóst að þessi gjöld þurfa samt sem áður að hækka umfram almennar gjaldskrárhækkanir en þess ber að geta í þessu sambandi að samningur við íslenska gámafélagið rennur út um áramótin 2023/2024. Þau sveitarfélög sem sveitarstjóri hefur hlerað varðandi gjaldskrár er, að þau eru almennt að hækka um 7,8-8,5% en ríkið hækkaði sín krónugjöld og % gjöld um 7,7% að meðaltali. Það ber þó að taka það fram að ekkert hefur verið ákveðið í Langanesbyggð um gjaldskrár. Á vinnufundum verða lagðar fram tillögur um hækkun á gjaldskrám sem síðar verða afgreiddar sérstaklega i sveitarstjórn hver fyrir sig.

Vinnuhópur um landbúnað verður væntanlega innan skamms að landbúnaðar- og dreifbýlisnefnd samkvæmt tillögum í sameiningarviðræðum. Fyrirhugaður er fundur sem EFLA hefur boðað til með stjórnar- og varamönnum í stjórn Jarðarsjóðs þar sem kynna á þau verkefni sem EFLA hefur unnið að í Langanesbyggð, meðal annars orkumál og fleira. Þessi fundur er hér á Langanesvegi 2. Öðrum áhugasömum en stjórnarmönnum í Jarðasjóði stendur til boða að sækja fundinn sem verður kl. 3 á föstudag.

Til máls Þorsteinn.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 18:00

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?