52. fundur sveitarstjórnar
Fundur í sveitarstjórn
52. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar, haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, fimmtudaginn 27. nóvember 2025. Fundur settur kl. 16:00.
Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Júlíus Sigurbjartsson, Margrét Guðmundsóttir, Mirjam Blekkenhorst, Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Oddviti bauð fundamenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboð – svo var ekki og því gengið til dagskrár.
Oddviti leitar afbrigða frá dagskrá og óskar eftir að 12. lið verði bætt við dagskrá er varðar nýjan fyrsta varamann í velferðar- og fræðslunefnd.
Samþykkt samhljóða.
D a g s k r á
1. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 988 frá 30.10.2025
2. Fundargerð 77. fundar stjórnar SSNE frá 06.11.2025
3. Þinggerð haustþings SSNE frá 29.10.2025
4. Fundargerð 45. Fundar byggðaráðs frá 20.11.2025
5. Fundargerð 25. fundar hverfisráðs Bakkafjarðar frá 27.10.2025
05.1 Drög að samkomulagi um rekstur á Bakkafirði.
6. Fundargerð 26. fundar hverfisráðs Bakkafjarðar frá 10.11.2025
7. Breyting á barnaverndarsamningi við Akureyrarbæ – önnur umræða.
07.1 Bréf frá velferðarsviði Akureyrarbæjar vegna breytinga á samningi.
8. Atvinnustefna Langanesbyggðar 2025-2030
08.1 Atvinnustefna Langanesbyggðar, drög að kostnaði.
08.2 Bókanir nefnda vegna atvinnustefnu.
9. Vaxtaplan fyrir NA hornið. Innviðir og aukin verðmæti.
10. Skýrsla um þjónustu sveitarfélaga um húsnæði og innviði.
11. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 – fyrri umræða.
11.1 Samantekið yfirlit A og B hluti.
11.2 Samantekið yfirlit A hluti.
11.3 – 11.8 Samantekt fyrir árin 2024-2029.
11.9 Lykiltölur rekstrar 2018-2025 og áætlun 2026.
12. Skýrsla sveitarstjóra
Fundargerð
1. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 988 frá 30.10.2025
Fundargerðin lögð fram.
2. Fundargerð 77. fundar stjórnar SSNE frá 06.11.2025
Fundargerðin lögð fram.
3. Þinggerð haustþings SSNE frá 29.10.2025
Þinggerðin lögð fram.
4. Fundargerð 45. Fundar byggðaráðs frá 20.11.2025
Fundargerðin lögð fram.
5. Fundargerð 25. fundar hverfisráðs Bakkafjarðar frá 27.10.2025
05.1 Drög að samkomulagi um rekstur á Bakkafirði.
Fyrir liggja drög að samningi við Marko Umicevic um rekstur á Bakkafirði.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti, Halldóra, Mirjam, sveitarstjóri, Mirjam, Júlíus, Sveitarstjóri, Gunnlaugur, oddviti, Gunnlaugur, Halldóra, Mirjam, sveitarstjóri, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins.
Samþykkt samhljóða.
6. Fundargerð 26. fundar hverfisráðs Bakkafjarðar frá 10.11.2025
Fundargerðin lögð fram.
7. Breyting á barnaverndarsamningi við Akureyrarbæ – önnur umræða.
07.1 Bréf frá velferðarsviði Akureyrarbæjar vegna breytinga á samningi.
Breyting hefur verið gerð á barnaverndarsamningi við velferðarsvið Akureyrarbæjar. Breytingin felst í því að Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð gerast aðilar að samningnum. Engar aðrar breytingar eru gerðar á samningnum. Önnur umræða.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn með þeim breytingum sem gerðar eru á honum.
Samþykkt samhljóða.
8. Atvinnustefna Langanesbyggðar 2025-2030
08.1 Atvinnustefna Langanesbyggðar, drög að kostnaði.
08.2 Bókanir nefnda vegna atvinnustefnu.
Lögð fram drög að atvinnustefna Langanesbyggðar 2025 – 2030. Einnig lögð fram drög að kostnaði og bókanir frá nefndum en áætlunin var lögð fyrir nefndir sveitarfélagsins.
Til máls tóku: Oddviti, Halldóra, sveitarstjóri, oddviti, Mirjam, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur höfundum að ljúka við gerð áætlunarinnar og forgangsraða þannig að hægt verði að setja inn í fjárhagsáætlun fyrir næstu ár þau verkefni sem talin eru upp í drögum að kostnaði við framkvæmd áætlunarinnar.
Samþykkt samhljóða.
9. Vaxtaplan fyrir NA hornið. Innviðir og aukin verðmæti.
Samtök sveitarfélaga á NE áætlar í samvinnu við Austurbrú og sveitarfélögin Norðurþing, Langanesbyggð og Vopnafjarðarhrepp að senda inn umsókn um framlag til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða. Umsóknin verður send Innviðaráðuneyti, atvinnumálaráðuneyti og forsætisráðuneyti. Um er að ræða stækkun á því svæði og meira samstarf sveitarfélaga í ljósi þess árangurs sem náðst hefur í starfi SSNE fyrir Langanesbyggð á undanförnum tveimur árum.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leiti að umsóknin verði send viðkomandi ráðuneytum.
Samþykkt samhljóða.
10. Skýrsla um þjónustu sveitarfélaga um húsnæði og innviði.
Skýrsla sem unnin hefur verið af Vífli Karlssyni hjá Háskólanum á Bifröst um þjónustu sveitarfélaga, húsnæði þess og innviði.
Lögð fram til kynningar.
11. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 – fyrri umræða.
11.1 Samantekið yfirlit A og B hluti
11.2 Samantekið yfirlit A hluti
11.3 – 11.8 Samantekt fyrir árin 2024-2029
11.9 Lykiltölur rekstrar 2018-2025 og áætlun 2026
Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 ásamt þriggja ára áætlun 2027-2029. Fyrri umræða.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti, Halldóra, Mirjam, Halldóra, oddviti, sveitarstjóri, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Fjárhagsáætlun ásamt þriggja ára áætlun vísað til annarrar umræðu 11. desember.
Samþykkt samhljóða.
12. Nýr fulltrúi í velferðar- og fræðslunefnd.
Silvia Jónsdóttir hefur gefið kost á sér í velferðar- og fræðslunefnd, sem fyrsti varamaður, í stað Sólrúnar Arney Siggeirsdóttur sem er brott flutt.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn fagnar nýjum og áhugasömum nefndarmönnum og býður Silvíu velkomna í nefndarstörf.
Samþykkt samhljóða.
14. Skýrsla sveitarstjóra.
Hr. Oddviti og sveitarstjórnarfulltrúar
Nú höfum við farið í gegn um fyrstu umræðu um fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029. Þetta er sannarlega ekki sú staða sem við stóðum frammi fyrir við gerð síðustu áætlunar um þetta leiti á síðasta ári. Ástand skólans er mikið högg fyrir okkur, ekki bara fjárhagslegt heldur einnig sú röskun sem verður á aðstöðu nemenda, kennara og starfsliðs skólans.
Það er hópur fólks sem unnið hefur að því að kanna þær leiðir sem til greina koma. Ég ítreka ekki nógu oft að það hefur engin ákvörðun verið tekin um hvaða leið verður farin. Það er einungis verið að skoða færar leiðir til að leysa verkefnið á sómasamlegan hátt. Hópurinn hefur nú tekið þá ákveðið að skoða þá leið að halda í nyrstu byggingu skólans, rannsaka hana betur og fá fleiri sérfræðinga til. Við lesum það út úr íbúafundinum sem haldin var fyrir skömmu að það er vilji á meðal íbúa að fara í frekari rannsóknir sem við ætlum að gera. Sú viðgerð sem fór fram árið 2016 var vel heppnuð sá hluti sem þá þurfti mestrar lagfæringar við var þessi elsti hluti skólans og anddyri. Það sem þarf að skoða sérstaklega er raki í gólfi sem veldur áhyggjum því hann gæti verið undir gólfdúk og þá er verkið auðveldara og vona að myglan nái ekki niður í steypu sem sérfræðingar sem við höfum talað við telja fremur ólíklegt. Þessi hluti er einnig ofar í landslagi og jarðvegur nær ekki upp fyrr plötu eins og í miðhlutanum. Með þessu væri hægt að fara í viðgerðir, ef útkoma rannsókna er jákvæð fyrir okkur og taka þann hluta í notkun næsta haust ef vel er á spilum haldið. Þar með gætum við losað Þórsver strax næsta haust og við fengjum þar til notkunar um 450 fermetra.
Næsta verkefni væri svo að skoða vandlega þann möguleika að byggja nýtt þar sem miðbyggingin er og rífa hana. Mestu skemmdirnar eru þar og nær útséð að hægt verði að bjarga þeirri byggingu. Þar gæti verið bygging á tveimur hæðum og þar næðust þeir fermetrar sem eftir væru til að uppfylla þarfagreiningu um það pláss sem þarf. Allavega, er næsta skref að fara í frekari rannsóknir á nyrsta hlutanum og reyna að komast að því hvort mögulegt sé að nýta hann. Lofi þær niðurstöður góðu opnast nýir möguleikar. En – enn og aftur, það hefur ekkert verið ákveðið en okkur liggur á að komast að niðurstöðu og gera áætlanir í samræmi við það.
Nú hafa verið auglýstar til leigu 4 íbúðir á vegum leigufélagsins Brák við Miðholt. Íbúðirnar eru tilbúnar og verða leigðar frá 10. desember. Við höfum sótt um stofnframlag frá HMS til byggingar fleiri leiguíbúða og fengið umsóknina samþykkta. Þá væri um að ræða 4 íbúða raðhús með tveimur tveggja herbergja íbúðum og tveimur þriggja herbergja. Það fer svo eftir eftirspurn hvort og hver þörfin er, hvenær væri hægt að byrja á því. Ennfremur þarf skipulags- og umhverfisnefnd að fjalla um málið og sveitarstjórn að samþykkja mótframlag sem gæti numið um 10 milljónum króna en byggingakostnaður er áætlaður rúmlega 200 milljónir króna. Þó kveðið sé á um það að íbúðirnar skuli leigðar til þeirra sem hafa lágar tekjur þá hindrar það ekki þá sem fara yfir mörk tekna að sækja um því heimild er fyrir því í samþykktum Brákar að leigja fólki sem fer yfir tekjumörk ef enginn annar sækir um sem er undir þeim. Það var eitt af meginmarkmiðum sveitarstjórnar í upphafi að fara strax í lausn á húsnæðisvanda og að hafa 9 íbúðir á öllum byggingastigum eftir 15 ára hlé held ég að sé bara góður árangur og nú þarf bara að halda ótrauð áfram.
Við vorum að fá þær fréttir í gær frá Sambandi sveitarfélaga að ríkið mun yfirtaka 55% eignarhlut sveitarfélagsins í hjúkrunarheimilinu Nausti um áramót og sveitarfélagið fær greiðslu fyrir þó tekið sé fram að sú greiðsla verði ekki endilega há. Þar með fellur það í hlut ríkisins að taka við viðhaldi, endurbótum og stækkun á þeim hluta sem fyrirhugaður er samkvæmt áætlun sem gerð var í ár og á síðasta ári. Afsal fyrir þessari eign verður gefið út um áramót og heimildar aflað til að selja þennan hlut til ríkisins á fyrsta fundi sveitarstjórnar eftir áramót eða þegar kaupverð liggur fyrir. Allar áætlanir, hönnun og teikningar fyrir endurbótum og viðbyggingu eru tilbúnar en lagt var í þann kostnað fyrir styrk sem fékkst frá framkvæmdasjóði aldraðra. Það skal tekið fram að reksturinn verður áfram í höndum sveitarfélagsins svo lengi sem það kýs að halda honum. Sveitarfélagið hefur greitt viðvarandi tap af rekstrinum undanfarin ár sem hefur verið frá 20-40 milljónir króna. Eftir því sem ég best veit hefur það verið vilji íbúa og sveitarstjórna undanfarinna ára að halda áfram rekstrinum í höndum sveitarfélagsins. Svo þarf að fara í mikla vinnu til að fá ríkið til að taka við boltanum hvað varðar endurbætur, viðbyggingu og viðhald. Það er alltaf sama vinnan sem fer í gang þegar sækja á til ríkisins um það sem ríkið á í raun að standa að.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:25.