51. fundur sveitarstjórnar
Fundur í sveitarstjórn
51. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar, haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, fimmtudaginn 13. nóvember 2025. Fundur settur kl. 14:00.
Mætt voru: Halldóra J. Friðbergsdóttir varaoddviti, Gunnlaugur Steinarsson, Júlíus Sigurbjartsson, Þórarinn J. Þórisson, Hulda Kristín Baldursdóttir, Mirjam Blekkenhorst, Hjörtur Harðarson, Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Varaoddviti bauð fundamenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboð – svo var ekki og því gengið til dagskrár.
Vegna tæknilegra örðuleika var ekki hægt að taka upp fundinn og sýna í beinni útsendingu.
D a g s k r á
1. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 986 frá 10.10.2025
2. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 987 frá 21.10.2025
3. Fundargerð 44. fundar byggðaráðs 30.10.2025
Liður 3: Tillaga um hækkun gjaldskrár og um útsvarsprósentu.
4. Fundargerð 31. fundar velferðar og fræðslunefndar frá 03.11.2025
Liður 1: Styrkbeiðni Fjölskylduþjónustu Norðurlands eystra
Liður 7: Barnaverndarsamningu, breyting.
Liður 9: Skipan félagslegrar heimaþjónustu og stöðugildi vegna félagsstarfs á Nausti.
5. Fundargerð 46. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 04.11.2025
6. Fundargerð 23. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 04.11.2025
06.1 Bókanir nefndarinnar
06.2 Nýr þjónustusamningur við Norðurhjara.
7. Bréf frá velferðarsviði Akureyrar vegna breytinga á barnaverndarsamningi, fyrri umræða.
07.1 Barnaverndarsamningur með breytingum, lokaeintak.
8. Samningur um styrk til orkuskipta. Styrkur að upphæð 30 milljónir króna.
9. Valkosta- og kostnaðargreining fyrir uppbyggingu raforkukerfis á NA landi.
10. Fyrstu drög fjárhagsáætlunar 2026 og útgönguspá fyrir árið 2025 (8+4).
10.1 Drög Útgönguspá 8+4 samantekt 2024 -2029 A og B hluti.
10.2 Drög að fjárhagsáætlun 2026 ásamt rauntölum 2024, útkomuspá 2025, áætlun 2026 þriggja ára áætlun A hluti.
10.3 Ársreikningur 2024 samantekt.
10.4 Útkomuspá 2025 samantekt.
10.5 Drög að rekstraráætlun 2026
10.6 til 10.8 þriggja ára áætlun 2027-2029
10.9 Fjárhagsáætlun – vinnuskjal deildir.
10.10 Lykiltölur rekstrar 2018-2025 og áætlun 2026
11. Skýrsla sveitarstjóra
Fundargerð
1. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 986 frá 10.10.2025
Fundargerðin lögð fram.
2. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 987 frá 21.10.2025
Fundargerðin lögð fram.
3. Fundargerð 44. fundar byggðaráðs 30.10.2025
Liður 3: Tillaga um hækkun gjaldskrár og um útsvarsprósentu.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn leggur fram tillögu um almenna hækkun gjaldskráa sveitarfélagsins um 5,5% og að útsvarsprósenta verði 14,97%.
Samþykkt samhljóða.
4. Fundargerð 31. fundar velferðar og fræðslunefndar frá 03.11.2025
Liður 1: Styrkbeiðni Fjölskylduþjónustu Norðurlands eystra.
Stofnuð hefur verið Fjölskylduþjónusta NE. Sótt var um styrk til verkefnisins til mennta- og banamálaráðuneytis að upphæð 90 milljónir króna en 70 milljónir fengust. Í meðfylgjandi erindi er farið fram á styrk til rekstrar eftir íbúafjölda sveitarfélaga og er hlutur Langanesbyggðar kr. 293.000.- miðað við 560 manns. Styrkurinn er áætlaður til tveggja ára.
Til máls tóku: Mirjam, varaoddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að taka þátt í verkefninu og leggja fram kr. 293.000.- árin 2026 og 2027.
Samþykkt samhljóða.
Liður 7: Barnaverndarsamningur við Akureyrarbæ, breyting. (Sjá lið 7 í fundargerðinni þar sem breyting á samningnum er tekin sérstaklega fyrir þar sem tvær umræður þarf um breytinguna).
Liður 9: Skipan félagslegrar heimaþjónustu og stöðugildi vegna félagsstarfs á Nausti.
Til máls tók: Mirjam, varaoddviti, sveitarstjóri, varaoddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir tillöguna og felur sveitarstjóra, formanni velferðar- og fræðslunefndar að útfæra tillöguna undir forystu forstjóra Nausts.
Samþykkt samhljóða.
5. Fundargerð 46. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 04.11.2025
Fundargerðin lögð fram.
6. Fundargerð 23. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 04.11.2025
06.1 Bókun atvinnu og nýsköpunarnefndar. – máli Norðurhjara og atvinnustefnu var vísað til nefndarinnar.
06.2 Nýr þjónustusamningur við Norðurhjara.
Bókun um afgreiðslu vegna samnings við Norðurhjara: Sveitarstjórn samþykkir endurnýjun á samning til þriggja ára við Norðurhjara. Í samninginn hafa verið settar áherslur sem eru í samræmi við þá atvinnustefnu sem nú er til umfjöllunar í öllum nefndum sveitarfélagsins. Sveitarstjóra falið að undirrita hann.
Samþykkt samhljóða.
Bókun sveitarstjórnar um atvinnustefnu: Sveitarstjórn tekur undir með nefndinni að efri hæð Kistunnar henti ekki fyrir bókasafn og skoðar aðrar lausnir í því efni. Þá tekur sveitarstjórn einnig undir með nefndinni að koma verði því á framfæri að lögð verði áhersla á fjölbreytta atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu almennt, sérstaklega í dreifbýli.
Samþykkt samhljóða.
7. Bréf frá velferðarsviði Akureyrar vegna breytinga á barnaverndarsamningi, fyrri umræða.
04.1 Barnaverndarsamningur með breytingum, lokaeintak.
Eftir að Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð gerðust aðilar að samningnum þarf að samþykkja þá breytingu í öllum sveitarfélögum sem eiga aðild að honum. Breytingin þarfnast tveggja umræðna í sveitarstjórn þar sem um er að ræða valdaafsal.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir breytinguna á Barnaverndarsamningi við Akureyrarbæ. Málinu vísað til annarrar umræðu.
Samþykkt samhljóða.
8. Samningur um styrk til orkuskipta. Styrkur að upphæð 30 milljónir króna.
Fyrir liggur samningur um styrk til orkuskipta við umhverfis- og orkuráðuneytið. Styrkurinn er að upphæð kr. 30 milljónir króna. Í 3. grein samningsins er hámark styrksins 50% af útlögðum kostnaði en í umsóknarferlinu var rætt um 60 milljón króna heildarkostnað, styrkur yrði 40 milljónir en mótframlag 20 milljónir.
Til máls tóku: Mirjam, varaoddviti, Júlíus, varaoddviti, Mirjam, varaoddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að undirrita samninginn en felur verkefnastjóra að ræða frekar við Orkusjóð um breyttar forsendur sem koma fram í samningnum um 50% hámark framlags sjóðsins.
Samþykkt samhljóða.
9. Skýrsla frá Verkís um valkosta- og kostnaðargreining fyrir uppbyggingu raforkukerfis á NA landi.
Lögð fram til kynningar.
10. Fyrstu drög fjárhagsáætlunar 2026 og útgönguspá fyrir árið 2025 (8+4). Samstæða.
10.1 Drög Útgönguspá 8+4 samantekt 2024 -2029 A og B hluti.
10.2 Drög að fjárhagsáætlun 2026 ásamt rauntölum 2024, útkomuspá 2025, áætlun 2026 og þriggja ára áætlun A hluti.
10.3 Ársreikningur 2024 samantekt.
10.4 Útkomuspá 2025 samantekt.
10.5 Drög að rekstraráætlun 2026
10.6 til 10.8 þriggja ára áætlun 2027-2029
10.9 Fjárhagsáætlun – vinnuskjal deildir.
10.10 Lykiltölur rekstrar 2018-2025 og áætlun 2026
Lögð fram fyrstu drög að rekstraráætlun fyrir árið 2026 fyrir A sjóð og A+B sjóð ásamt þriggja ára átætlun 2027- 2029. Einnig lykiltölur rekstrar 2018-2025 og áætlun 2026.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, varaoddviti,
Bókun um afgreiðslu: Fjárhagsáætlun vísað til fyrstu umræðu sveitarstjórnar 27. nóvember n.k.
Samþykkt samhljóða.
11. Skýrsla sveitarstjóra
Varaoddviti, sveitarstjórnarfulltrúar.
Nú hafa sveitarstjórnarfulltrúar rýnt í allra fyrstu tölur fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og þriggja ára áætlun bæði hjá A sjóði og A+B sjóði. Þessar áætlanir bera þess mjög merki hve mörg og stór verkefni eru framundan í fjárfestingum. Það veltur mikið á því hvernig tekst að raða þeim verkefnum eftir efnahag hverju sinni, greiðsluþoli sveitarsjóðs og auðvitað lánshæfi. Við erum háð því efnahagsumhverfi sem við erum í og það er okkur ekki hagstætt einmitt um þessar mundir með háum vöxtum og erfiðleikum við fjármögnun sem kostar sveitarfélög almenning og fyrirtæki fúlgur fjár. Næsta ár verður nokkurn veginn í jafnvægi hvað það varðar nema að við drögum verulega úr öðrum fjárfestingum á næsta ári vegna skólans en jafnframt þarf að huga að því strax hvernig við fjármögnum árin þar á eftir. Það er alveg ljóst að það verður að hugsa lengra fram í tímann en bara næstu þrjú ár. Vonandi takast samningar við heilbrigðisráðuneytið um að taka alfarið við húseign Nausts þar sem ríkið hefur viðurkennt 45% eignarhlut á móti 55% sveitarfélagsins. Þá ætti viðhald eignarinnar að fara yfir á ríkið. En þó verkefnin séu óþrjótandi framundan þá komumst við í gegn um þennan skafl – ef við höfum trú á okkur sjálfum og erum sammála og samtaka um lausnir sem ég efast ekki um.
Heimsókn umhverfis- orku- og loftslagsráðherra í síðustu viku var kærkomin fyrir okkur hér í Langanesbyggð þar sem við sjáum nú fram á, jafnvel í nánustu framtíð, að fá aukna orku. Fyrst í gegn um jarðstreng frá Vopnafirði þar sem Landsnet mun leggja 33Kv jarðstreng og hefjast handa strax á næsta ári. Inni í kerfisáætlun er svo lagning 133kv loftlínu frá Kópaskeri að Þórshöfn. Þar með verðum við hringtengd við raforkukerfið. Það eru margir sem hafa lagst á eitt að koma orkumálunum hér í lag og þeim ber öllum að þakka. Ekki er hægt að taka neinn einn út enda var orkuráðherra hógvær í sinni ræðu við þetta tilefni. En ég vil nota tækifærið og þakka öllum sem komu að þessu máli síðustu ár og jafnvel áratugi. Það má segja að við séum komin á kortið í orkumálum.
Eftir fund með ráðherra var íbúafundur um það ástand sem komið er upp í grunnskólanum. Á fundinum kom fram vilji hjá mörgum íbúum að láta gera við skólann. Það er að vísu mikil óvissa í kostnaði, hvaða leið sem verður fyrir valinu hvort sem það verður að byggja nýjan skóla eða gera við. Svo mikil óvissa er ennþá að það verður afar erfitt fyrir sveitarstjórn að taka upplýsta ákvörðun. Hægt er að draga úr óvissunni með því, annars vegar að láta fara fram enn ítarlegri rannsókn og skoðun á skólanum eins og hann er í dag en við vitum að það er raki um nær allan skólann – þar sem er raki er mikil hætta á myglu. Verði þessi leið farin verður væntanlega byggt við núverandi skóla til að koma fyrir þeim rýmum sem í mörg ár hefur verið talið vanta í skólann. Þar má nefna sérfræðirými fyrir stoðþjónustu og viðtöl, bókasafn, félagsrými fyrir nemendur, aðstöðu fyrir húsumsjón og ræstingu og fleira. Auk þess þyrfti nauðsynlega að uppfæra þau rými sem fyrir eru. Það hefur verið hugmynd í mörg ár að byggja við núverandi skóla og öðru hvoru má sjá það í eldri fundargerðum sveitarstjórnar. Vönduð rýmisþörf var gerð nú í haust til að sveitarstjórn gæti betur áttað sig á þörfum nútíma byggingar og þá endanlegrar stærðar skólans – hver svo sem ákvörðunin verður um aðgerðir.
Eins og áður sagði þá skilst mér, og er reyndar á þriggja ára áætlun núna, að til hefur staðið til í mörg ár að fara í viðbyggingu við skólann til að fá þau rými sem skólinn þarfnast í viðbót. Það má vel vera að ódýrasti kosturinn sé að gera við skólann og halda áfram með þau áform að byggja við hann. Eitt er víst, að hvaða leið sem farin verður þá verður það þungur róður fyrir sveitarsjóð. Sveitarsjóður er lítill miðað við stærð þessa verkefnis.
Í síðustu viku var sótt um stofnframlag frá HMS um byggingu 4 íbúða raðhúss, tvær tveggja herbergja og tvær þriggja herbergja íbúðir sem hugsanlega munu standa við Miðholt gegnt því raðhúsi sem nú er verið að byggja. Skipulagsnefnd á eftir að fjalla um málið og vel má vera að annar staður verði fyrir valinu en umsóknarfrestur um stofnframlag rann út í síðustu viku og því varð skilað inn umsókn því enn skortir leiguhúsnæði. Skipulagsnefnd mun á fyrsta fundi sínum eftir áramót fá gögn um hvar hugsanlega er hægt að byggja ef ekki í Miðholti. Verði umsóknin samþykkt þarf að gera ráð fyrir framlagi frá sveitarfélaginu en líklega minna en við núverandi byggingu þar sem hún verður minni.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:45.