49. fundur sveitarstjórnar
Fundur í sveitarstjórn
49. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar, haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, fimmtudaginn 18. september 2025. Fundur settur kl. 16:00.
Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Halldóra J. Friðbergsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Júlíus Sigurbjartsson, Hjörtur Hjartarson, Mirjam Blekkenhorst, Þórarinn J. Þórisson, Björn S. Lárusson, sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.
Oddviti bauð fundamenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboð – svo var ekki og því gengið til dagskrár.
D a g s k r á
1. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 983 frá 29.08.2025
2. Fundargerð stjórnar SSNE nr. 75 frá 04.09.2025
3. Fundargerð 44. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 09.09.2025
03.1 Heildarendurskoðun skipulags svæðis við skóla og Íþróttamiðstöð
03.2 Bókun skipulagsnefndar vegna skipulags.
4. Fundargerð 29. fundar velferðar- og fræðslunefndar frá 08.09.2025
04.1 Erindi til sveitarstjórnar Langanesbyggðar um Farsældarráð á NE frá 10.09.2025
04.2 – 04.4 Samstarfssamningur, skipurit og starfsreglur Færsældarráðs á NE
5. Fundargerð 23. fundar hverfisráðs Bakkafjarðar frá 20.08.2025
6. Fundargerð 22. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 09.09.2025
7. Fundargerð 83. fundar samt. sveitarf. á köldum svæðum frá 20.06.2025
8. Niðurstöður þarfagreiningahóps vegna hugsanlegrar byggingar nýs Grunnskóla.
9. Ársreikningur og skattframtal Fjarskiptafélags Svalbarðshrepps 2024
10. Ársreikningur Fræ ehf. ásamt staðfestingarbréfi stjórnenda.
11. Innviðauppbygging í Langanesbyggð – stöðuskýrsla
11.1 Innviðauppbygging í Langanesbyggð – kynning.
12. Áskorun sveitarstjórnar Langanesbyggðar.
13. Bréf frá Nátturhamfaratryggingu Íslands til sveitarfélaga.
14. Skýrsla sveitarstjóra
Fundargerð
1. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 983 frá 29.08.2025
Fundargerðin lögð fram.
2. Fundargerð stjórnar SSNE nr. 75 frá 04.09.2025
Fundargerðin lögð fram.
3. Fundargerð 44. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 09.09.2025
03.1 Heildarendurskoðun skipulags svæðis við skóla og Íþróttamiðstöð
03.2 Bókun skipulagsnefndar vegna skipulags.
Gerð hefur verið tillaga að heildarendurskoðun skipulags á svæði við skóla og Íþróttamiðstöð. Breyting á skipulaginu felur í sér litla tilfærslu á mörkum skipulags að norðan og sunnan. Skipulagsnefnd hefur samþykkt breytinguna og vísað henni til sveitarstjórnar.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að skipulagslýsingin verði kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Samþykkt samhljóða.
4. Fundargerð 29. fundar velferðar- og fræðslunefndar frá 08.09.2025
04.1 Erindi til sveitarstjórnar Langanesbyggðar um Farsældarráð á NE frá 10.09.2025.
04.2 – 04.4 Samstarfssamningur, skipurit og starfsreglur Færsældarráðs á NE.
SSNE hefur sent sveitarfélaginu drög að samstarfssamningi, skipuriti og starfsreglum Færsældarráðs Norðurlands eystra. Jafnframt beiðni um tilnefningu aðal- og varamanns í ráðið.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir drög að samstarfssamningi um Farsældarráð Norðurlands eystra ásamt skipuriti og starfsreglum.
Sveitarstjórn tilnefnir sem fulltrúa sinn í Farsældarráð, Hilmu Steinardóttur skólastjóra Grunnskóla Þórshafnar sem aðalfulltrúa og til vara Halldóru Jóhönnu Friðbergsdóttur skólastjóra Leikskólans Barnabóls. Sveitarstjóra falið að undirrita samninginn.
Samþykkt samhljóða.
5. Fundargerð 23. fundar hverfisráðs Bakkafjarðar frá 20.08.2025
Fundargerðin lögð fram.
Til mál tóku: Oddviti, sveitarstjóri, Þórarinn, sveitarstjóri, Gunnlaugur, Mirjam, sveitarstjóri, Mirjam, oddviti.
6. Fundargerð 22. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 09.09.2025
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: Mirjam, oddviti.
7. Fundargerð 83. fundar samt. sveitarf. á köldum svæðum frá 20.06.2025
Fundargerðin lögð fram.
8. Niðurstöður þarfagreiningahóps vegna hugsanlegrar byggingar nýs Grunnskóla.
Hópur sem sveitarstjóri tilnefndi til að skoða rýmisþörf og þarfir hugsanlegrar nýbyggingar Grunnskólans hefur skilað áliti. Niðurstöður hópsins eru í meðfylgjandi skýrslu.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, Þórarinn, sveitarstjóri, oddviti, Þórarinn, Mirjam, oddviti, sveitarstjóri, oddviti, Mirjam, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur hópi sem vann þarfagreininguna og hönnunarhópi að skoða alla möguleika sem koma til greina við lausn þess vanda sem upp er kominn vegna myglu í Grunnskólanum. Tekið verði tillit til allra þeirra tillagna sem komu fram í minnisblaði sveitarstjóra um mögulegar lausnir. Hópurinn skili af sér tillögum sem hægt verði að leggja fyrir íbúafund sem ráðgerður er í október.
Samþykkt samhljóða.
9. Ársreikningur og skattframtal Fjarskiptafélags Svalbarðshrepps 2024
Síðasti ársreikningur Fjarskiptafélags Svalbarðshrepps og skattframtal lagt fram. Félagið hefur verið selt til Tengis ehf.
Bókun um afgreiðslu: Aðalfundur hefur samþykkt ársreikninginn og sveitarstjórn gerir það fyrir sitt leiti sem eigandi fyrirtækisins.
Samþykkt samhljóða.
10. Ársreikningur Fræ ehf ásamt staðfestingarbréfi stjórnenda.
Reikningurinn lagður fram.
11. Innviðauppbygging í Langanesbyggð – stöðuskýrsla
11.1 Innviðauppbygging í Langanesbyggð – kynning.
Lögð fram stöðuskýrsla um innviðauppbyggingu í Langanesbyggð ásamt kynningu sem lögð var fyrir ráðherra innviða.
Til máls tóku: Oddviti, sveitarstjóri, oddviti, Mirjam, oddviti, sveitarstjóri, oddviti. Mirjam, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Lagt er til að unnið verði að þeim tillögum sem koma fram í lok skýrslunnar um framhald verkefnisins.
Samþykkt samhljóða.
12. Áskorun sveitarstjórnar Langanesbyggðar.
Verkefnastjóri innviða og sveitarstjóri hafa lagt fram drög að bréfi til stjórnvalda vegna friðlýsingarmála á Langanesi til að ýta málinu áfram í ljósi þess að nýr umhverfisráðherra er kominn í ráðuneytið auk þess sem breytingar hafa orðið á skipulagi umhverfismála.
Til máls tóku: Oddviti, Mirjam, oddviti, Halldóra, Mirjam, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Lagt er til að bréfið verði sent og innihald þess kynnt þingmönnum kjördæmisins.
Samþykkt samhljóða.
13. Bréf frá Nátturhamfaratryggingu Íslands til sveitarfélaga.
Náttúruhamfaratrygging Íslands hefur sent sveitarstjórnum bréf þar sem sjónum er beint að vaxandi tjónum á nýlegum mannvirkjum á þekktum flóðasvæðum og talsverðri umræðu um enn frekari framkvæmdir á slíkum svæðum. Í bréfinu er áréttuð lagaleg staða og ábyrgð í skipulagsmálum.
Bréf langt fram.
14. Skýrsla sveitarstjóra
Hr. Oddviti og sveitarstjórnarfulltrúar
Nú liggur fyrir skýrsla frá hópi sem komið var á laggirnar til að finna út rýmisþörf EF farið verður í byggingu nýs skóla. Ég ætla að ítreka hér enn og aftur, að engin ákvörðun hefur verið tekin um hvaða leið verður farin. Á að gera við skólann, á rífa hann og byggja nýjan á grunni hans eða alveg nýjan skóla á nýjum stað? Það er ekki að ástæðulausu að þetta er ítrekað hér því það virðist af orðum sumra að ákvörðun hafi verið tekin, nýr skóli byggður á nýjum stað og ekki skortir hugmyndaauðgina í því. Þess vegna segi ég enn og aftur, sú þarfagreining sem liggur fyrir er aðeins nauðsynlegt skref í þá átt að taka ákvörðun um hvað verður gert. Hér er einfaldlega verið að vanda til verka og taka hlutina í réttri röð. Þó íbúar hafi sterkar skoðanir á málinu liggur engin ákvörðun fyrir.
Þegar við stöndum frammi fyrir því að taka ákvörðun um einn eða tvo kosti verður boðað til íbúafundar og niðurstöður kynntar, þær ræddar og vel ígrundaðar með tilliti til þarfa skólans, nemenda og kennara, skoðana sem íbúar hafa og ekki síst getu okkar til að sú lausn sem valin verður gangi fjárhagslega upp. Þegar komist er að niðurstöðu verður tillaga kynnt og þá gefst íbúum aftur tækifæri til að koma með athugasemdir. Þannig er hinn lögformlegi ferill. Við megum ekki falla í þá gryfju að ræða hlutina eins og um sé að ræða orðin hlut og ákvörðun tekin sem ekki verður haggað hvað sem á dynur. Þannig vinnum við ekki.
Þó ég hafi minnst á það áður þá ætla ég að gera það enn og aftur. Fjölmargir gestir sem hafa sótt mig heim í sumar, bæði sem sveitarstjóra og vinafólk sem hefur allt haft orð á því hve mikil umsvif, framkvæmdir, drift og kraftur er í samfélagi okkar. Alls eru 9 íbúðir í byggingu á öllum byggingastigum eða hafa verið teknar í notkun. Ég kann vel að meta heimsóknir arkitekta, eigendur byggingafélaga og fasteignasala sem ég þekki og þeir sjá tækifæri í hverju horni enda hef ég verið óspar á hrósyrði um sveitarfélag okkar við viðkomandi. Það má líka bæta því við að ég hef fengið heimsóknir og fyrirspurnir um iðnaðarhúsnæði og húsnæði undir hvers kyns starfsemi sem gott væri að hafa hér og styrkja þar með innviði samfélagsins. Þá vekur sérstaka ánægju að fá fyrirspurnir frá ungi fólki sem er í leit að kyrrð og ró til að ala upp börn, búin að fá vinnu eða í leit að vinnu og það eina sem vantar er húsnæði.
Það var sett sem eitt aðalmarkmið í upphafi kjörtímabilsins að leysa þann mikla vanda sem var og er á húsnæðismarkaði, sérstaklega á leigumarkaði. En betur má ef duga skal, því það líður vart sú vika að ekki komi fyrirspurn um leiguhúsnæði til mín. Við eigum enn lausar lóðir undir að minnsta kosti eitt raðhús og 4 einbýli við götur sem eru tilbúnar. Næsta skref er væntanlega að ljúka við skipulag í Pálmholti, en það er eina hverfið sem ekki hefur verið deiliskipulagt og þar er auðvelt að gera götur og svo er skipulag Suðurbæjar tilbúið fyrr næstu lotu.
Svo eru það auðvitað gleðitíðindi að íbúum fjölgar töluvert aftur eftir niðurskurð Þjóðskrár 2023 og tiltekt þar sem íbúar voru teknir af skrá sem ekki höfðu búið lengi hér. Við það fór íbúðafjöldi niður undir 540 en var 1 janúar s.l. 560 og fjölgar enn þannig að gera má ráð fyrir að þeir nálgist 600 í árslok.
Hér höfum við haft til umfjöllunar ársreikninga fyrirtækja en bara fyrir ári voru þau mun fleiri. Tiltekt, sem er vinsælt orð þessa daga, hefur leitt til þess að fyrirtækjum á efnahagsreikningi hefur fækkað þannig að ekki þarf að eyða peningum í gerð ársreikninga fyrirtækja sem eru lítt eða ekki starfandi. Sum hafa verið seld, önnur sett inn í félög sem við eigum með öðrum og enn önnur lögð niður. Þá erum við að flytja þá fjármuni sem voru inni í Fræ yfir í sveitarsjóð sem lækkar umtalsvert skuldir samstæðunnar og skuldir pr. íbúa.
Fjármálastjórn hefur verið tekin föstum tökum, ekki síst vegna verðbólgu fyrstu ár kjörtímabilsin og til að skapa skilyrði fyrir áskorunum sem alltaf koma upp í ófyrirséðum fjárfestingum. Við erum nú nr. 5 af öllum sveitarfélögum sé tekið tillit til handbærs fé frá rekstri og skuldaviðmiðs – það er árangur út af fyrir sig. Við erum með yfirdrátt upp á 60 milljónir sem aðeins hefur verið gripið til í hálfan mánuð í desember í fyrra. Lykillinn að þessu var að halda að sér höndum þegar mesta verðbólgan geysaði og svo hægt og bítandi að taka á þeim verkefnum sem fyrir liggja þegar betur árar. Sömuleiðis að gæta að innheimtu gjalda sem við eigum kost á auk þeirra lögbundnu framlaga sem við fáum.
Nú ætlum við að fara í framkvæmdir við lóð leikskólans og reyna að komast eins langt og hægt er í haust. Því miður hefur sú framkvæmd dregist úr hófi en fjármagn hefur verið tryggt til að fara í verkið nú eins langt og mögulegt er.
Sama á við um sorpmóttökustöð, við vonumst enn til að hún verði starfhæf um áramót. Annað mikilvægt verkefni hvað varðar rafbílavæðingu, ferðamennsku og auðvitað fyrir íbúa er að við höfum nú fengið hraðhleðslustöð á bílastæði sem gert var ofan Kjörbúðarinnar. Eftir er að leggja möl á stæðið en malbikað verður við fyrsta tækifæri. Stæðið er ætlað viðskiptavinum Kjörbúðarinnar, starfsfólki Nausts og viðskiptavinum Langanesvegar 2.
Til máls tóku: Mirjam, oddviti.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:32.