48. fundur sveitarstjórnar
Fundur í sveitarstjórn
48. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar, haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, fimmtudaginn 21. ágúst 2025. Fundur settur kl. 16:00.
Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Júlíus Sigurbjartsson, Mirjam Blekkenhorst, Margrét Guðmundsdóttir, Helga Guðrún Henrýsdóttir, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Oddviti bauð fundamenn velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboð – svo var ekki og því gengið til dagskrár.
Oddviti óskaði breytingu á dagskrá og að liður 8. liður yrði tekinn af dagskrá þar sem hann verður tekinn aftur fyrir hjá stjórn Jarðasjóðs.
Samþykkt samhljóða.
D a g s k r á
1. Fundargerð 40. fundar byggðaráðs frá 26.06.2025
2. Fundargerð 41. fundar byggðaráðs frá 10.07.2025
3. Fundargerð 42. fundar byggðaráðs frá 07.08.2025
4. Fundargerð 15. fundar hafnarnefndar frá 15.07.2025
5. Fundargerð 28. fundar velferðar- og fræðslunefndar frá 11.08.2025
6. Fundargerð 43. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 12.08.2025
7. Fundargerð 21. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 12.08.2025
8. Fundargerð 18. fundar stjórnar Jarðasjóðs frá 18.08.2025
08.1 wpd Ísland – upplýsingaskjal Brekknaheiði – Sauðanesháls.
08.2 Sóleyjarvellir, drög að leigusamningi
08.3 Bókun stjórnar Jarðasjóðs.
9. Ársreikningur Héraðsnefndar Þingeyinga fyrir árið 2024
10. Viðauki við fjárhagsáætlun 2025
11. Heimild til lántöku
12. Umsagnarbeiðni um gistileyfi vegna Langanesvegar 10.
13. Ársskýrsla Byggðastofnunar 2024
14. Skýrsla sveitarstjóra.
Fundargerð
1. Fundargerð 40. fundar byggðaráðs frá 26.06.2025
Fundargerðin lögð fram.
2. Fundargerð 41. fundar byggðaráðs frá 10.07.2025
Fundargerðin lögð fram.
3. Fundargerð 42. fundar byggðaráðs frá 07.08.2025
Fundargerðin lögð fram.
4. Fundargerð 15. fundar hafnarnefndar frá 15.07.2025
Fundargerðin lögð fram.
5. Fundargerð 28. fundar velferðar- og fræðslunefndar frá 11.08.2025
Fundargerðin lögð fram.
6. Fundargerð 43. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 12.08.2025
Fundargerðin lögð fram.
7. Fundargerð 21. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 12.08.2025
Fundargerðin lögð fram.
Til mál tóku: Mirjam, sveitarstjóri, oddviti.
8. Ársreikningur Héraðsnefndar Þingeyinga fyrir árið 2024
09.1 Staðfestingarbréf stjórnenda – Héraðsnefnd, undirritað.
09.2 Endurskoðunarbréf 2024 - Héraðsnefnd
Lagður fram ársreikningur héraðsnefndar Þingeyinga ásamt endurskoðunarbréfi.
9. Viðauki 3 við fjárhagsáætlun 2025.
10.1 Áhrif viðauka á fjárhagsáætlun 2025.
Viðauki 3 er vegna tilfærslna í fjárfestingum. Fjárfestingar hækka um kr. 93.150.000, úr kr. 335.364.000 í kr. 428.514.000. Rekstrarniðurstaða lækka um kr. 1.607 vegna áhrifa afskrifta, úr kr. 105.544.000 í kr. 103.907.000. Viðauka er mætt með handbæru fé. Sjóðstaða lækkar um kr. 93.150.000, úr 94.732.000 í kr. 1.582.000.
Til máls tóku: Sveitarstjóri
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir viðauka 3 við fjárhagsáætlun 2025.
Samþykkt samhljóða.
10. Heimild til lántöku.
Farið er fram á heimild sveitarstjórnar til lántöku (lánalínu) hjá Landsbanka Íslands að upphæð kr. 130 milljónir til að styrkja lausafjárstöðu sveitarsjóðs vegna tilfærslna í fjárfestingum sem lækkar handbært fé í árslok.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn heimilar lántöku allt að upphæð kr. 130 milljónir.
Samþykkt samhljóða.
11. Umsagnarbeiðni um gistileyfi fyrir rekstur minna gistiheimili að Langanesvegi 10.
Umsækjandi er Gistiheimilið Lyngholt og forsvarsmaður Karen Konráðsdóttir.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar gerir ekki athugasemdir við veitingu leyfisins.
Samþykkt samhljóða.
12. Ársskýrsla Byggðastofnunar um brothættar byggðir 2024
Skýrslan lögð fram.
13. Skýrsla sveitarstjóra.
Hr. Oddviti og sveitarstjórnarfulltrúar
Nú stöndum við frammi fyrir einni stærstu áskorun sem við höfum fengið í mörg ár eftir að mygla kom upp í grunnskólanum. Mér var falið að skoða hvaða möguleikar voru í stöðunni. Ég lagði til 3 leiðir til til skoðunar til að mæta þessari áskorun.
A) Að gera við þær skemmdir sem þegar hafa orðið að undangengnum frekari rannsóknum.
B) Að rífa núverandi skólahúsnæði og byggja nýjan á grunni hans.
C) Að byggja nýjan skóla á nýjum stað á „skólatorfunni“.
Á stuttum fundi sveitarstjórnar þann 23. júlí s.l. var sveitarstjóra og skólastjóra falið í samvinnu við hönnuði að útfæra frekar leið C og leggja fram hugmyndir um hvar á „skólatorfunni“ nýjum skóla verði hugsanlega valinn staður. Með því að fara þessa leið vinnst einkum þrennt:
Í fyrsta lagi er veruleg óvissa fólgin í því að fara í viðgerðir en til þess þarf að gera mun umfangsmeiri og kostnaðarsamari rannsóknir sem gætu falið í sér enn meiri endurbætur og umfangsmeira verk Það er með öðrum orðum engin trygging fyrir því að við lendum ekki á upphafsreit að rannsóknum loknum. Þær skemmdir sem nú þegar hafa komið í ljós réttlæta varla að gera við skólann. Það er svo margt við núverandi byggingu sem bókstaflega býður heim hættunni á myglu, svo sem að platan er í sömu hæð og jarðvegur utan skólans, lítið er vitað um ástand frárennslis og neysluvatnslagna í grunni en þó sterkur grunur um leka sem rakamælingar sýna.
Í öðru lagi þá er skólinn barn síns tíma og ýmislegt vantar í skólann sem við gætum bætt við þegar byggður er nýr skóli, jafnvel án þess að stækka bygginguna að ráði. Þar má nefna bókasafn, náttúrustofu, mötuneyti og fleira sem ekki er í núverandi byggingu. Þá er ekki upptalin bætt vinnuaðstaða kennara og nemenda. Þetta þýðir í raun að uppfæra skólabygginguna til nútíma horfs.
Í þriðja lagt þá er hægt að vinna mun hraðar en ella þar sem, ef farið væri í viðgerðir, þá er afar óljóst hvenær þeim viðgerðum muni ljúka. Ef byggt yrði á grunni núverandi skóla þyrfti að byrja á að rífa bygginguna niður áður en farið væri í byggingu á sama stað.
Allt frá því að skemmdirnar komu í ljós og sveitarstjórn ákvað að kanna leið C nánar hef ég heyrt mjög mismunandi skoðanir á því hvort sveitarstjórn hafi valið rétta leið. Annar hver Íslendingur er sérfræðingur í myglu og ófáir hafa hringt eða sent tölupósta með ábendingum um hvernig megi gera við og koma í veg fyrir frekari myglu. En – eftir að hafa ráðfært mig við margreynda byggingameistara sem ég þekki og lýst aðstæðum þá er það eindregin skoðun þeirra að rétt leið var valin til að skoða frekar. Einn orðaði það svo að það væri engin spurning að við mundum eiga við eilífðarvandamál að stríða, einkum vegna óvissu um ástand plötu og sökkla og hversu útbreidd gró eru í lofti og veggjum. Rétt er að minna á að fyrir nokkrum árum var farið í umfangsmiklar endurbætur vegna raka og myglu sem kostuðu um 200 milljónir króna – en dugðu ekki til.
Hvað framtíð núverandi skóla varðar hafa komið fram ýmsar áhugaverðar hugmyndir. Ein hugmynd er að rífa miðhluta skólans þar sem mestu skemmdirnar eru, selja syðsta hlutann til flutnings og nýta nyrsta hlutann til annarrar starfsemi, en þar eru minnstu skemmdirnar. En – allar hugmyndir eru vel þegnar þegar endanleg ákvörðun liggur fyrir um hvaða leið verður farin.
Skólastjóri leiðir hóp sem er að gera þarfagreiningu á því hvað þarf að vera í nýjum skóla. Sveitarstjóri leiðir svo hóp sem skoðar hugsanlegan nýjan stað, byggt á áðurnefndri þarfagreiningu.
Sveitarstjórn stendur einhuga að baki því að kanna þessa leið til hlítar og það er ómetanlegt þegar við fáum svo stórt verkefni í fangið. Í október, þegar skoðun á þessu lýkur verður boðað til íbúafundar til að fara yfir málin og kynna frekar stöðuna, leita eftir hugmyndum og tillögum íbúa. Það skal ítrekað að ekkert hefur verið ákveðið í þessum efnum og enn er rúm fyrir hugmyndir og athugasemdir. Við erum afar þakklát fyrir þolinmæði kennara og nemenda sem nú fá kennslu og vinnuaðstöðu á þremur stöðum á Þórshöfn á meðan lausn er fundin.
Hvað varðar fjármögnun þá leitum við nú að hagstæðustu kjörunum en miðað við hugsanlegan kostnað upp á 8 – 9 hundruð milljónir króna gerum við okkur vonir um að geta fjármagnað hátt í helming þeirrar upphæðar úr sveitasjóði á næstu tveimur árum þökk sé góðri stöðu. Það þýðir hinsvegar að lítið annað verður gert á næstu árum en nauðsynlegu viðhaldi verðum við að sinna.
Svona stórt verkefni krefst samstöðu og samheldni sem ég efast ekki um eftir fyrsta fund sveitarstjórnar um málið. Lykillinn að því að það gangi vel fyrir sig og við fáum hagstæðustu og bestu lausnina er að gæta þess að allir séu vel upplýstir, allar áætlanir nákvæmar og eftirlit með framkvæmdinni verði mjög virkt og byggt á bestu og hagkvæmustu leið.
Til máls tók oddviti.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:35.