Fara í efni

4. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar

08.09.2022 17:00

Fundur í sveitarstjórn

4. fundur sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, fimmtudaginn 8. september 2022. Fundur settur kl. 17:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Margrét Guðmundsdóttir, Þorsteinn Ægir Egilsson, Júlíus Þ. Sigurbjartsson, Mirjam Blekkenhorst, Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

D a g s k r á

1. Fundargerð sambands sveitarfélaga nr. 912 frá 26.08.2022 ásamt fundarboði á Landsþing sambandsins.
2. Fundargerðir vinnuhóps um landbúnaðarmál frá 15.08, 17.08. og 21.08.2022
3. Fundargerð byggðaráðs frá 25.08.2022
      Liður 3. Breyting á leigusamningi vegna Fjarðarvegar 5.
4. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar
      Liður 3. Ósk frá nefndinni um greiðslu vegna þáttöku í námskeiði EFLU um skipulagsmál.
5. Bréf Umhverfisráðuneytisins til Umhverfisstofnunar vegna greiningar á möguleikum friðlýsingar á Langanesi að hluta til.
6. Bréf Samgöngustofu um heimild til Skylora um eldflaugaskot frá Langanesi.
7. Erindi frá EFLU vegna vindmælinga.
8. Breyting á aðalskipulagi vegna veglínu yfir Brekknaheiði og tillaga að svörum við athugasemdum frá Teiknistofu Norðurlands.
9. Bréf frá leigjendum Hallgilsstaða 1 um uppsögn á leigusamningi.
10. Frá 3. fundi sveitarstjórnar. Tillaga að uppsögn á samningi við Faglausn.
11. Drög að samningi við Þekkingarnet Þingeyinga um undirbúning atvinnu- og nýsköpunarseturs að Fjarðarvegi 5 á Þórshöfn.
12. Viðauki við ráðningarsamning við Valdimar Halldórsson
13. Eldvarnarstefna Langanesbyggðar
14. Samningur slökkviliðs Langanesbyggðar og Vegagerðarinnar um hreinsun á vettvangi umferðaróhappa
15. Bréf Innviðaráðuneytisins vegna athugasemda sem borist hafa vegna boðunar á 3ja fund, aukafund sveitarstjórnar 11. ágúst 2022.
16. Drög að samþykktum fyrir sameinað sveitarfélag Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps
17. Drög að erindisbréfum nefnda
18. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Fundargerð sambands sveitarfélaga nr. 912 frá 26.08.2022 ásamt fundarboði á Landsþing sambandsins.
Fundargerðin lögð fram. Vakin er athygli á samþykkt sveitarstjórnar, að öllum aðalmönnum í sveitarstjórn og tveimur starfsmönnum er boðið að taka þátt í Landsþingi sambandsins á Akureyri.

2. Fundargerðir vinnuhóps um landbúnaðarmál frá 15.08, 17.08. og 21.08.2022
Fundargerðirnar lagðar fram

3. Fundargerð byggðaráðs frá 25.08.2022  
      Liður 3. Breyting á leigusamningi vegna Fjarðarvegar 5.
Lögð fram breyting á leigusamningi vegna Fjarðarvegar 5 sem felur í sér að leigutaka er heimilt að framleigja húsnæðið á leigutíma.

Til máls tóku; ÞÆE, SÞG, MB, SÞG, ÞÆE, SÞG, ÞÆE.

Bókun minnihluta: Fulltrúar L-lista gera miklar athugasemdir við vinnubrögð og stjórnsýslu fyrrum verkefnastjóra og stjórnenda sveitarfélagsins þegar kemur að útleigu á íbúð á efri hæð að Fjarðarvegi 5 (Landsbankahúsið).
Á síðasta byggðaráðsfundi dags. 25. ágúst var lagður fram leigusamningur um íbúðarhúsnæði við Gistiheimilið Lyngholt ehf. sem var undirritaður 25. Júlí 2022 af verkefnastjóra. Í þeim samningi voru engin ákvæði um að leigjandi megi framleigja íbúðina til þriðja aðila. Einnig hefur þetta húsnæði ekki tilskilin leyfi til atvinnureksturs eins og fulltrúi L-lista benti stjórnendum sveitarfélagsins á á umræddum byggðaráðsfundi. Eins og almenningur hefur séð þá hefur íbúðin verið notuð sem einhverskonar verbúð í sumar.
Í dag er lagður fram sami samningur og kynntur var byggðaráði en nú með þeirri breytingu að skriflegu ákvæði hefur verið bætt við um að leigjandi megi framleigja íbúðina á samningstímanum. Samningurinn hefur ekki verið samþykktur af rekstrarstjón Fjarðarvegar 5, byggðaráði né sveitarstjórn en er lagður hér fram í dag til samþykktar 46 dögum eftir undirskrift en samningurinn hljóðar uppá 99 daga.
Fulltrúar L-lista telja einnig óeðlilegt að sveitarfélagið, sé með svona samningi, að taka þátt í samkeppni við aðra rekstraraðila hér á þessu svæði.

Atkvæðagreiðsla: Með; SÞG, HJF, GS, MG. Á móti: ÞÆE, JS, MB.

     Liður 8. Tillaga um að Árni Gunnarsson verði fjallskilastjóri.
Samkvæmt fjallskilasamþykkt ber sveitarstjórn að skipa fjallskilastjóra.

Til máls tóku; SÞG, Sveitarstjóri.

Fundargerðin lögð fram

Samþykkt samhljóða.

4. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar   
      Liður 3. Ósk frá nefndinni um greiðslu vegna þáttöku í námskeiði EFLU um skipulagsmál.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að veita kr. 100 þúsund fyrir námskeið í skipulagsmálum sem haldið er af EFLU fyrir nefndarmenn í skipulags- og umhverfisnefnd og sveitarstjórnarmenn. Dagsetning námskeiðs hefur ekki verið ákveðin.

Samþykkt samhljóða.

5. Bréf Umhverfisráðuneytisins til Umhverfisstofnunar vegna greiningar á möguleikum friðlýsingar á Langanesi að hluta til.
Lagt fram til kynningar.

Til máls tóku: ÞÆE, SÞG.

6. Bréf Samgöngustofu um heimild til Skylora um eldflaugaskot frá Langanesi.
Bréf Samgöngustofu um heimild til eldflaugaskots á Langanesi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Lagt fram til upplýsinga.

7. Erindi frá EFLU vegna vindmælinga.
EFLA fer fram hemild til að setja upp vindmælingastöð í landi Staðarsels vegna hugsanlegra vindorkustöðva á Langanesi.

Bókun um afgreiðslu; Sveitarstjórn heimilar EFLU að setja upp vindmælingastöð í landi Staðarsels samkvæmt meðfylgjandi tölvupósti.

Samþykkt samhljóða.

8. Breyting á aðalskipulagi vegna veglínu yfir Brekknaheiði og tillaga að svörum við athugasemdum frá Teiknistofu Norðurlands
Borist hafa umsagnir um breytingu á aðalskipulagi vegna veglínu yfir Brekknaheiði. Teiknistofa Norðurlands hefur unnið svör við athugasemdum.

Til máls tóku; SÞG

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir tillögu að breytingu á aðalskipulagi með minniháttar lagfæringum eftir auglýsingu og fela skipulagsráðgjafa að senda Skipulagsstofnun til staðfestingar í samræmi við 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn ítrekar þá ósk sem komið hefur fram m.a. í afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar að Vegagerðin girði meðfram nýju vegstæði og komið verði fyrir a.m.k. 2 undirgöngum vegna umferðaröryggis á svæðinu. Þá ítrekar sveitarstjórn skilmála um frágang, umgengi við minjar og mengunarvarnir í samræmi við aðalskipulagið og umsagnir frá umsagnaraðilum. Við útgáfu framkvæmdaleyfis komi þessi atriði skýrt fram.

Samþykkt samhljóða.

9. Bréf frá leigjendum Hallgilsstaða 1 um uppsögn á leigusamningi
Í bréfi frá ábúendum segja þeir upp leigusamningi um jörðina Hallgilsstaði 1 og mun uppsögnin samkvæmt samningnum taka gildi 1. júní 2023.

Til máls tók; SÞG.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að ræða frekar við ábúendur og gera sveitarstjórn grein fyrir þeim viðræðum.

Samþykkt samhljóða.

10. Frá 3. fundi sveitarstjórnar. Tillaga að uppsögn á samningi við Faglausn.
Tillaga frá verkefnastjóra sem vísað var til næsta fundar sveitarstjórnar um uppsögn á samningi við Faglausn.

Til máls tóku; ÞÆE, Sveitarstjóri, SÞG.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að ræða við Faglausn um hugsanlegar breytingar á samningnum og gera sveitarstjórn grein fyrir þeim viðræðum.

Samþykkt samhljóða.

11. Drög að samningi við Þekkingarnet Þingeyinga um undirbúning atvinnu- og nýsköpunarseturs að Fjarðarvegi 5 á Þórshöfn.
Þekkingarnet Þingeyinga tekur að sér samkvæmt samningnum að undirbúa myndun atvinnu- og nýsköpunarseturs að Fjarðarvegi 5. Um er að ræða vinnu við þarfagreiningu, þróun og mótum starfseminnar samkvæmt nánari lýsingu á minnisblaði frá 24. ágúst sem fylgir samningnum.

Til máls tók; ÞÆE

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að undirrita samninginn fyrir hönd sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps.

Samþykkt samhljóða.

12. Viðauki við ráðningarsamning við Valdimar Halldórsson
Lagður fram viðauki við ráðningasamning við Valdimar Halldórsson samkvæmt 1. lið ráðningasamningsins. Valdimar vinnur áfram að ákveðnum verkefnum í sem hann hefur þegar unnið að fyrir sveitarfélagið í samráði við sveitarstjóra.

Til máls tóku; ÞÆE,

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir viðaukann þar sem eins mánaðar vinna dreifist á 4 mánuði frá 1. september til 31. desember 2022.

Fulltrúar L-lista leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu: Hér er lagður fram viðauki við ráðningarsamning verkefnastjóra um framlengingu á samningnum. Ekki er heimild í samningi né þörf á framlengingu samningsins þar sem ráðin hefur verið sveitarstjóri.

Atkvæðagreiðsla frávísunartillögu: Á móti; SÞG, HJF, GS, MG. Með; ÞÆE, JS, MB.

Til máls tóku; ÞÆE, SÞG, MB, SÞG, ÞÆE, HJF, ÞÆE.

Atkvæðagreiðsla samnings; Með; SÞG, HJF, GS, MG. Á móti; ÞÆE, JS, MB.

Til máls tók; ÞÆE.

Bókun minnihluta: Í fyrstu grein ráðningasamnings verkefnastjóra kemur fram eftirfarandi „Verkefnastjóri er ráðinn til starfa tímabundið til að gegna störfum frá 2. Júní 2022 til 1. September 2022 eða þar til nýr sveitarstjóri hefur verið ráðinn. Framlengja má samninginn með samþykki beggja aðila um 1 mánuð í senn takist ekki að ljúka ráðningu nýs sveitarstjóra áður en áðurnefnt tímabil rennur út.“ Í ljósi þessa telja fulltrúar L-lista að meirihlutinn geti ekki komið með viðauka við þennan ráðningasamning um framlengingarákvæði við verkefnastjóra enda búið að ráð sveitarstjóra fyrir sveitarfélagið. Ráðningasamningur verkefnastjóra er algerlega skýr hvað þetta varðar. Fulltrúar L-lista leggjast algerlega gegn viðauka við ráðningasamning verkefnastjóra enda engin þörf á slíku né ákvæði sem heimila að.

13. Eldvarnarstefna Langanesbyggðar
Í Eldvarnarstefnu er slökkviliðsstjóra falin fræðsla um brunavarnir í fyrirtækjum og stofnunum innan síns vinnutíma. Slík fræðsla auk skipan eldvarnarfulltrúa í fyrirtækjum og stofnunum lækkar kostnað við tryggingar.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framkomna eldvarnarstefnu.

Samþykkt samhljóða.

14. Samningur slökkviliðs Langanesbyggðar og Vegagerðarinnar um hreinsun á vettvangi umferðaróhappa
Samningurinn er uppfærsla á eldri samningi þar sem framvegis verður miðað við gjaldskrá slökkviliðs hverju sinni í stað þess að gera nýjan samning á hverju ári.

Til máls tóku; Sveitarstjóri

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn fyrir sitt leiti.

Samþykkt samhljóða.

15. Bréf Innviðaráðuneytisins vegna athugasemda sem borist hafa vegna boðunar á 3. fund og aukafund sveitarstjórnar 11. ágúst 2022
Bréf frá innviðaráðuneytinu um athugasemdir vegna fundarboðs 3ja fundar sveitarstjórnar og boðunar aukafundar. Óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins ásamt afriti af gögnum sem tengjast málinu.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra og oddvita sveitarstjórnar falið að svara athugasemdinni.

Samþykkt samhljóða.

16. Drög að samþykktum fyrir sameinað sveitarfélag Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps
Lögð fram drög að samþykktum fyrir sameinað sveitarfélag ásamt athugasemdum sem gerðar hafa verið á þeim.

Til máls tóku; ÞÆE, SÞG, ÞÆE, SÞG,

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagðar samþykktir og leggur til að þær verði sendar innviðaráðuneyti til staðfestingar.

Atkvæðagreiðsla; Með; SÞG, HJF, GS, MG. Sitja hjá; ÞÆE, JS, MB.

Bókun minnihluta: Fulltrúar L-lista sitja hjá í þessu máli vegna þess að vafi leikur á lögmæti 3 fundar sveitarstjórnar sem haldin var 11. ágúst sl. en á þeim fundi fór fyrri umræða um nýjar samþykktir fram. Fulltrúar L-lista sátu góðan vinnufund sveitarstjórnar í gær 7. september og eru sátt við drög af nýjum samþykktum fyrir nýtt sveitarfélag en sitja hjá þar sem vafi leikur á lögmæti umrædds sveitarstjórnarfundar.

17. Drög að erindisbréfum nefnda sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar og Svalbarðashrepps
Lög fram drög að erindisbréfum nefnda ásamt athugasemdum.

Til máls tóku; ÞÆE, MB, HJF, ÞÆE

Þorsteinn óskar eftir fundarhlé fyrir hönd minnihluta. Oddviti hafnaði þeirri beiðni.

Til máls tók; ÞÆE

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framkomin erindisbréf og vísar þeim til viðkomandi nefnda.

Samþykkt samhljóða.

Bókun frá minnihluta; Minnihluti gerir athugasemd við fundarstjórn.

18. Skýrsla sveitarstjóra

Til máls tók; Sveitarstjóri.

Hr oddviti og sveitarstjórn

Ég vil fyrir það fyrsta þakka traustið sem mér er sýnt að vera ráðinn sem fyrsti sveitarstjóri sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps. Við hjónin höfum komið okkur vel fyrir að Lækjarvegi 3 og erum hæst ánægð að vera komin hingað. Það var með miklum trega sem ég kvaddi sveitarfélagið s.l. vor en hingað erum við komin og nú bæði hjónin.

Við höfum enn ekki fengið staðfestingu ráðherra á nýju nafni vegna athugasemdar sem gerð var við boðun síðasta fundar en samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu mun afgreiðsla málsins taka stuttan tíma eftir að erindinu hefur verið svarað en ég hef ekki enn náð í bréfritara til að fá nánari upplýsingar um hvaða áhrif þetta hefur á ákvarðanir varðandi samþykktir og erindisbréf, en þó er ljóst að ráðherra mun ekki geta staðfest nafnið sem samþykkt var á síðasta fundi fyrr en niurstaða liggur fyrir. Ég er þessa daga að vinna að drögum að svari sem sent verður innviðaráðuneyti og eftir það tekur formleg afgreiðsla málsins við – sem ætti eins og áður sagði að taka stuttan tíma enda ekki fyrsta málið sinnar tegundar sem berst á borð ráðuneytisins að því að mér skilst.

Það bíða okkur mörg og stór verkefni á næstu 4 árum. Ég ætla ekki hér að telja þau öll upp nema einstök mál sem að allir eða flestir séu sammála um. Þar er fyrst til að taka húsnæðismál en með gerð húsnæðisáætlunar og samþykkt hennar opuðust okkur ýmsar dyr til fjármögnunar á nýju húsnæði til leigu eða sölu. Þegar og eftir að áætlunin var samþykkt var farið í að korleggja þær lóðir sem hægt var að byggja á fljótlega og eru í raun tilbúnar en þær eru víðsvegar um þéttbýlið hér á Þórshöfn. Þessar upplýsingar þarf að uppfæra og auglýsa lausar lóðir til úthlutunar. Það er lýðræðisleg aðferð til að úthluta. Hægt er að úthluta lóðum á þegar deiliskipulögðum reitum ef umsóknir berast. Ég þykist vita að margir eru í startholunum að byrja eða vilja hefjast handa við byggingu íbúðarhúsa og þeir verða allir að sitja við sama borð. Komi inn fleiri en ein umsókn um lóðir sem þarf að auglýsa verður dregið úr gildum umsóknum en ýmis skilyrði eru og verða sett við úthlutanir. Þar má nefna að viðkomandi hafi tryggt fjármögnun, annaðhvort í gegn um þá sjóði sem lána til slíkra framkvæmda, hjá öðrum lánastofnunum eða með eigin fé. Í öllu falli þarf viðkomandi verktaki að sýna fram á getu til að ráðast í verkefnið. Fyrsta skrefið er að leggja fyrir skipulags- og unhverfisnefnd upplýsingar um lausar lóðir, ákvarða í samvinnu við skipulagsfræðinga sveitarfélagsins hvaða lóðir eða hverfi verði fyrst úthlutað í og reikna út kostnað sveitarfélagsins á móti hugsanlegum tekjum af byggingaleyfisgjöldum. Í tilfelli sumra sjóða er áskilið í lánveitingu til leiguíbúða að sveitarfélagið leggi til ákveðin hundraðshluta af byggingakostnaði og þar gæti verið um að ræða hluta eða öll byggingaleyfisgjöld. Við eigum eftir að fara nánar í þessi mál og gera okkar eigin áætlun út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir en það þarf að vinna hratt og vel. Við höfum góða ráðgjafa í þessum málum hjá Teiknistofu Norðurlands og við munum nýta okkur það.

En það eru fleiri mál sem brenna á okkur s.s. hafnarmál, frárennslismál, ýmis viðhaldsverkefni, ljúka sameiningarmálum og ekki síst að ýta úr vör stóru verkefni sem er gerð aðalskipulags fyrir nýtt sveitarfélag. Það er vinna sem tekur langan tíma. Þá er ótalið það stóra verkefni sem fyrr eða síðar þarf að leggja í en það eru endurbætur á íþróttamiðstöðinni.

Í dag áttum við góðan fund með lögreglustjóranum á NE ásamt yfirlögregluþjóni, varðstjóra og lögreglumönnum hér á Þórshöfn. Þar bar á góma ýmis mál og þá má sérstaklega nefna umferðarmál í ljósi þess að eftir að Langanesvegur og Fjarðarvegur voru mabikaðir hafa borist athugasemdir um hraðaaktur á þessum götum og rædd voru ýmis úrræði til að draga úr umferðarhraða og auka öryggi. Slíkir fundir eru mjög gagnlegir til að skiptast á skoðunum og koma sínu á framfæri.

Ég er þessa daga enn að koma mér inn í mál og koma á skipulagi innan skrifstofu sveitarfélagsins í samvinnu við starfsfólk þannig að skilvirkni okkar aukist, ennfremur mun ég leggja mig fram um að heimsækja stofnanir sveitarfélagsins sem fyrst og eiga fundi með deildarstjórum. Ég nota eyrun meira en munninn í mínu starfi og vil hlusta á viðhorf og skoðanir fólks. Fljótlega verður svo boðað til deildarstjórafundar þar sem vonandi verður skipst á skoðunum um hagsmunamál hverrar deildar og sveitarfélagsins í heild.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 18:35.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?