Fara í efni

32. fundur sveitarstjórnar

20.06.2024 15:00

Fundur í sveitarstjórn

32. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 20. júní 2024. Fundur settur kl. 15:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Júlíus Sigurbjartsson, Mirjam Blekkenhorst, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Margrét Guðmundsdóttir, Þórarinn J. Þórisson, Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Sigríður Friðný Halldórsdóttir kom undir 16. lið vegna vanhæfis Gunnlaugs.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki svo gengið var til dagskrár.

D a g s k r á

1. Fundargerð stjórnar Sambands sveitarfélaga nr. 948 frá 31.05.2024
2. Fundargerð 64. undar stjórnar SSNE frá 05.06.2024
3. Fundargerð 27. fundar byggðaráðs frá 06.06.2024
     03.1 Liður 1 Bókun byggðaráðs vegna endurbóta á Nausti
     03.2 liður 15 Frá byggðaráði. Hugsanleg kaup á einbýlishúsi á Þórshöfn
     03.3 Liður 17 Frá byggðaráði. Ráðning forstöðumanns Þjónustumiðstöðvar
     03.4 Liður 18 Frá byggðaráði. Erindi frá UMFL með skýringum.
4. Fundargerð 27. Fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 11.06.2024
     04.1 Liður 6 Bréf MAST 08.05.2024 og US 22.03.2024vegna mengunar á Heiðarfjalli
     04.4 Liður 12b Bókun skipulags- og umhverfisnefndar vegna umferðarhraða
5. Fundargerð atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 11.06.2024
6. Fundargerð 11. fundar Jarðasjóðs frá 05.06.2024
7. Fundargerð 17. Fundar velferðar- og fræðslunefndar frá 13.06.2024
     07.1 Liður 13 Erindi frá Héraðsnefnd vegna breytinga á skipulagsskrá MMÞ
     07.2 Liður 13 Endanleg drög að nýrri skipulagsskrá MMÞ
8. Skipun starfshóps vegna stjórnsýsluúttektar
9. Rekstrarsamningur ÞÞ og Langanesbyggðar vegna Kistunnar, endurskoðun.
10. Bréf til sveitarstjórna frá Markaðsstofu Norðurlands vegna Flugklasans.
11. Fulltrúi í stjórn SSNE
12. Beiðni um framkvæmdir utan fjárhagsáætlunar 2024
     12.1 Viðauki 2
13. Bókun um sumarleyfi sveitarstjórnar.
14. Drög að stefnu sveitarstjórnar um uppbyggingu í Finnafirði
15. Skýrsla sveitarstjóra
16. Bréf Byggðastofnunar um úthlutun aflamarks á Bakkafirði TRÚNAÐARMÁL

Fundargerð

 

1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 948 frá 31.05.2024
Fundargerðin lögð fram

2. Fundargerð 64. fundar stjórnar SSNE frá 05.06.2024
Fundargerðin lögð fram

3. Fundargerð 27. fundar byggðaráðs frá 06.06.2024  
     03.1 Liður 1 Bókun byggðaráðs vegna endurbóta á Nausti
Langanesbyggð hefur fengið framlag úr framkvæmdasjóði aldraðra að upphæð 48.667.828.- vegna framkvæmda við áfanga I sem ætlunin er að ljúki um 24 júní og 57.501.702.- vegna II áfanga sem áætlaður var á næsta ári. Byggðaráð bókaði eftirfarandi á fundi sínu:

Bókun byggðaráðs: Byggðaráð leggur til við sveitarstjórn að farið verði í undirbúning áfanga II strax að loknum áfanga I.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og hönnuði að hefja undirbúning að framkvæmdum við áfanga II þegar framkvæmdum við áganga I lýkur. Lögð verði fram uppfærð kostnaðaráætlun og verkáætlun ásamt teikningum við verkið við fyrsta tækifæri.

Samþykkt samhljóða.

     03.2 Liður 15 Frá byggðaráði. Hugsanleg kaup á einbýlishúsi á Þórshöfn
Til sölu eru ný einbýlishús við Bakkaveg 7 og Langanesveg 25. Skortur er á leiguhúsnæði á Þórshöfn og kaup á einu húsi gæti verið hluti af lausn vandans.

Til máls tóku: Júlíus, sveitarstjóri, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að ræða við seljanda um verð, byggingastig og afhendingu. Skortur er á leiguhúsnæði og gætu kaup á slíku húsi brúað bil þar til byggt verður í Miðholti. Einnig gæti húsið verið framtíðarbústaður sveitarstjóra og Lækjarvegur 3 seldur árið 2026. Niðurstöður viðræðna verði lagðar fyrir byggðaráð.

Atkvæðagreiðsla:  Með bókun: Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét. Á móti bókun: Júlíus Mirjam, Þórarinn.

Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista telja að það sé ekki forgangsmál fyrir sveitarfélagið að fjárfesta í einbýlishúsi. Fyrirhugað er að koma upp fjórum 80 fm. íbúðum á Þórshöfn í samstarfi við Fasteignafélagið Brák en það félag mun eiga og reka þær íbúðir. Þá er ekki gert ráð fyrir slíkri fjárfestingu í fjárhagsáætlun þessa árs né þriggja ára áætlunum sveitarfélagsins. Það er skoðun fulltrúa L-lista að forgangsraða eigi fjármunum sveitarfélagsins í íbúa samfélagsins s.s. skólalóðir, Naust, viðhald í íþróttahúsi, aðstöðu fyrir félagsmiðstöð og eldri borgara o.s.frv.

     03.3 Liður 17 Frá byggðaráði. Ráðning forstöðumanns Þjónustumiðstöðvar
Samkvæmt 54. gr. samþykkta sveitarfélagsins ræður byggðaráð í þær stjórnunarstöður sem heyra beint undir sveitarstjóra, samkvæmt skipuriti sveitarfélagsins, að fenginni tillögu sveitarstjóra. Málinu var vísað til sveitarstjórnar af byggðaráði.

Til máls tóku: Sveitarstjóri, Þórarinn, Mirjam, sveitarstjóri, oddviti.

Tillaga sveitarstjóra: Sveitarstjóri leggur til að Þorri Friðriksson staðgengill forstöðumanns verði ráðinn í starfið frá og með 1. ágúst n.k.

Samþykkt samhljóða.

     03.4. Liður 18 Frá byggðaráði. Erindi frá UMFL með skýringum
UMFL hefur farið fram á að Sigurbjörn Veigar Friðgeirsson verði laus undan samningi við félagið í júní, júlí og ágúst og verði í 100% starfi fyrir sveitarfélagið þann tíma. Byggðaráð fjallaði um erindið og vísaði málinu til sveitarstjórnar en óskaði jafnframt eftir nánari skýringum sem nú liggja fyrir.

03.4.1 Skýringar UMFL

Til máls tóku: Mirjam, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að verða við ósk UMFL.

Atkvæðagreiðsla: Með bókun: Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét. Á móti bókun: Júlíus, Mirjam, Þórarinn.

Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista geta ekki sætt sig við það að sveitarfélagið greiði fyrir leyfi starfsmanna annara aðila og um leið koma á fordæmi fyrir slíku. Allir starfsmenn eiga rétt á sumarfríi og gerðum við ekki athugasemdir við það. Ef um einhverskonar styrk til UMFL er að ræða þá er það mat fulltrúa L-lista að sveitarfélagið eigi að styrkja félagið á þann hátt að styrkurinn nýtist iðkendum beint.

Eðlilegast væri í þessu máli að gerður yrði tímabundin samningur um þessi 25% í stað þess að taka yfir launakostnað ótengdra aðila.

Bókun H-lista: H-lista er ljúft og skylt að verða að þeirri ósk UMFL að styrkja félagið með þessum hætti og fagnar öflugu og kraftmiklu starfi.

4. Fundargerð 27. Fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 11.06.2024
     04.1 Liður 6: Bréf MAST 08.05.2024 og US 22.03.2024 vegna mengunar á Heiðarfjalli
MAST og Umhverfisstofnun hafa sent sveitarfélaginu bréf og tölvupósta vegna mengunar á Heiðarfjalli. Sveitarstjóri hefur óskað eftir nánari upplýsingum. Sérstaklega var beðið um upplýsingar um hugsanlegar mótvægisaðgerðir, frekari rannsóknir og leiðbeiningar til landeigenda á hverju þeir mega eiga von varðandi sölu afurða, veiði í vötnum og o.sv.fr. Ekki hafa borist svör ennþá.
Bréf og tölvupóstar lagðir fram.

Bókun skipulagsnefndar vegna mengunar á Heiðarfjalli. Skipulags- og umhverfisnefnd fjallaði um málið á fundi sínu og bókaði eftirfarandi:

Bókun skipulagsnefndar: Nefndin lítur málið mjög alvarlegum augum og felur sveitarstjóra að leita eftir nánari upplýsingum um niðurstöður skýrslu um mengun á Heiðarfjalli. Jafnframt krefst nefndin þess að gerð verði aðgerðar- og tímaáætlun byggð á niðurstöðum skýrslunnar. Þá er þess einnig krafist að sveitarfélagið sé upplýst um framgang málsins og verði haft með í ráðum við val á mótvægisaðgerðum.

Til máls tóku: Mirjam, oddviti,

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að fylgja málinu fast eftir og krefja stofnanir um svör við þeim spurningum sem þegar hafa verið lagðar fyrir stofnanirnar.

Samþykkt samhljóða.

     04.2. Liður 12b: Bókun skipulags- og umhverfisnefndar vegna umferðarhraða:
Skipulags- og umhverfisnefnd gerir að tillögu sinni að umferðarhraði í íbúagötum á Þórshöfn og Bakkafirði verði að hámarki 30 km/klst. með vísan í 37. gr umferðarlaga nr. 77/2019.

Til máls tóku: oddviti, sveitarstjóri, Halldóra.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn tekur undir með skipulags- og umhverfisnefnd og felur forstöðumanni Þjónustmiðstöðvar að hrinda verkinu í framkvæmd í samvinnu við þar til bær yfirvöld.

Samþykkt samhljóða.

5. Fundargerð atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 11.06.2024
Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerð 11. fundar Jarðasjóðs frá 05.06.2024
Fundargerðin lögð fram.

7. Fundargerð 17. fundar velferðar- og fræðslunefndar frá 13.06.2024
Bókun í lið 2 hefur verið send HSAM hópnum.
Fundargerðin lögð fram.

7.1. Liður 13. Erindi frá Héraðsnefnd vegna breytingar á skipulagskrá MMÞ
7.2. Liður 13. Endanleg drög að nýrri skipulagsskrá MMÞ

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir nýja skipulagsskrá MMÞ. Þar sem stjórnarmenn skulu nú vera úr hópi aðal- eða varamanna sveitarstjórnar þá er Sigríður Friðný Halldórsdóttir tilnefnd sem aðalmaður og Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir áfram sem varamaður.

Samþykkt samhljóða.

8. Skipun starfshóps vegna stjórnsýsluúttektar
Sveitarstjórn samþykkti samhljóða á 27. fundi þann 2. maí s.l. eftirfarandi:
„Lagt er til að fengin verði almenn og óháð úttekt á stjórnsýslu sveitarfélagsins og um leið að fengnar verði leiðbeiningar og ráðgjöf hvernig skuli staðið að ákvarðanatöku þess. Í framhaldinu verður skipaður starfshópur sem skipaður verður tveimur fulltrúum frá meirihluta og tveimur fulltrúum frá minnihluta sem vinnur málið áfram“.

Sveitarstjóri hefur frá því átt í viðræðum við fyrirtæki sem hafa gert slíkar úttektir víða um land, misjafnlega umfangsmiklar og ítarlegar. Í samþykktinni er gert ráð fyrir skipan starfshóps í framhaldinu en sveitarstjóri telur farsælast að hópurinn verði skipaður á fundi í dag þannig að hann geti komið að afmörkun verkefnisins i samráði við viðkomandi fyrirtæki.

Bókun um afgreiðslu: Lagt er til að Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Júlíus Sigurbjartsson og Karítas Ósk Agnarsdóttir sitji í starfshóp.

Samþykkt samhljóða.

9. Rekstrarsamningur ÞÞ og Lnb vegna Kistunnar, endurskoðun.
Lögð fram drög að endurskoðuðum rekstrarsamningi á milli sveitarfélagsins og Þekkingarnets Þingeyinga vegna Kistunnar.

Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn fyrir sitt leiti og felur sveitarstjóra að undirrita hann.

Samþykkt samhljóða.

10. Bréf Markaðsstofu Norðurlands vegna Flugklasans
Verkefnisstjóri Flugklasans hefur átt fundi með fulltrúum sveitarfélaga vegna stöðu hans. Hann hefur lagt fram sviðsmyndir um framhaldið.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn ítrekar afstöðu sína, að ef halda á starfseminni áfram í óbreyttri mynd verði öll sveitarfélög á Norðurlandi að koma að rekstrinum. Að því frátöldu leggur sveitarstjórn til að Markaðsstofan kanni sviðmynd nr. 5. Þar á eftir eru leiðir 2 og 3 álitlegar.

Samþykkt samhljóða.

11. Fulltrúi í stjórn SSNE 2024-2026.
Skipan aðal- og varafulltrúa í stjórn SSNE

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að frá og með 1. júlí n.k. verði Þorsteinn Ægir Egilsson aðalfulltrúi Langanesbyggðar í stjórn SSNE og Sigurður Þór Guðmundsson varafulltrúi.

Samþykkt samhljóða.

12. Beiðni um framkvæmdir utan fjárhagsáætlunar 2024.
Lögð fram tillaga um um framkvæmdir við tjaldsvæðið á Bakkafirði, lagningu gangstéttar á Bakkafirði og viðgerð á íbúð við Bakkaveg 23 – íbúð 3C.
12.1 Viðauki við fjárhagsáætlun 2024.

Til máls tóku: Sveitarstjóri, Þórarinn, sveitarstjóri, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að farið verði í þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í tillögunni og samþykkir viðauka við fjárhagsáætlun 2024 vegna þessa.

Samþykkt samhljóða.

13. Bókun um sumarleyfi sveitarstjórnar.
Lögð fram bókun um að sveitarstjórn fari í sumarleyfi til 22. ágúst samkvæmt starfsáætlun. Á meðan fer byggðaráð, samkvæmt 5. tl. 31. gr. samþykkta um stjórn Langanesbyggðar með sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða bókun.

Samþykkt samhljóða.

14. Drög að stefnu sveitarstjórnar um uppbyggingu í Finnafirði. Framtíðarsýn og aðgerðir.
Tekin hafa verið saman drög að stefnu um hugsanlega uppbyggingu í Finnafirði, framtíðarsýn og aðgerðir þar sem markaðar eru vörður verkefnisins fram til ársins 2028. Svo Finnafjarðarverkefnið megi fram ganga er ljóst að raforkuframleiðsla á svæðinu er nauðsynleg. Ýmis svæði innan sveitarfélagsins gætu verið hentug til vindorkuframleiðslu, mestan part er það í einkaeigu og er því jákvæð afstaða landeigenda forsenda þess að slíkir kostir verði þróaðir áfram. Framundan er þróunar-, samráðs- og kynningarferli fyrir íbúa áður en kemur að leyfisveitingum en afstaða íbúa er mikilvæg í ákvarðanaferlinu.

Til máls tóku: Oddviti, Mirjam, oddviti, Mirjam, sveitarstjóri, Halldóra, oddviti, Júlíus, Mirjam, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlögð drög og gerir þau að stefnu sinni um uppbyggingu í Finnafirði. Í stefnunni lýsir sveitarstjórn yfir eftirfarandi vilja:

a. Sveitarstjórn Langanesbyggðar lýsir yfir eindregnum vilja til að vinna áfram að framgangi Finnafjarðarverkefnisins sem meðeigandi að Þróunarfélagi Finnafjarðarhafnar ehf. Þar með talið þróun iðnaðar-og þjónustusvæðis í baklandi hafnar og þróun starfsemi þar sem hafnaraðstaða þarf að vera fyrir hendi.
b. Sveitarstjórn Langanesbyggðar lýsir sig jákvæða gagnvart hugmyndum um uppbyggingu rafeldsneytisiðnaðar og landeldis í Finnafirði.
c. Sveitarstjórn Langanesbyggðar lýsir sig jákvæða gagnvart hugmyndum varðandi tilraunaverkefni sem myndi samanstanda af 1-2 vindmyllum með samanlagt uppsett afl undir 10 MW. Slík uppbygging mun styrkja orkumál svæðisins. Gangi viðræður við landeigendur eftir mun sveitarstjórn Langanesbyggðar taka jákvætt í frekara samtal varðandi verkefnið.
d. Sveitarstjórn Langanesbyggðar lýsir sig jafnframt jákvæða fyrir áframhaldandi vinnu við þróun vindorkukosta á svæðinu með það fyrir augum að framleiða hluta þeirrar raforku sem til þarf til að tryggja uppbyggingu á rafeldsneytisverksmiðju í skynsamlegum fösum. Miðað við áætlaða orkuþörf fyrstu tveggja fasa er trúlegt að gera þurfi ráð fyrir að tveir vindorkulundir rísi á svæðinu. Einn kostur sem mætti skoða nánar, varðandi staðsetningu, er Sóleyjarvellir (eyðijörð í eigu sveitarfélagsins). Aðrir kostir koma til athugunar, liggi áhugi landeigenda fyrir. Allir nefndir virkjunarkostir eru í 4. áfanga rammaáætlunar.

Atkvæðagreiðsla: Með bókun: Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét, Þórarinn, Júlíus. Á móti: Mirjam.

15. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. Oddviti og ágæta sveitarstjórnarfólk.
Sveitarstjórn hefur nú skipað starfshóp til að vinna með fyrirtæki sem verður fyrir valinu að gera úttekt á stjórnsýslu Langanesbyggðar. Úttekt á stjórnsýslu er hvorki heilbrigðisvottorð fyrir viðkomandi sveitarfélag eða verið að umbylta kerfi sem við höfum nú þegar. Miklu fremur, ef rýnt er í þær fjölmörgu úttektir sem gerðar hafa verið, er verið að rýna til gagns í fortíðina með framtíð í huga.

Í næstu viku standa vonir til að framkvæmdum innanhúss ljúki við fyrri áfanga Nausts eins og ég vil kalla hann þó ýmislegt sé ógert utanhúss. Við erum nokkurn veginn á pari við fjárhagsáætlun en rúmlega viku á eftir verkáætlun vegna veðurs og aðfanga. Það var virkilega ánægjulegt að koma í gegn framlagi úr framkvæmdasjóði aldraðra fyrir báða áfanga og ber þar fyrst og fremst að þakka ómetanlegri aðstoð Hermanns Herbertssonar hjá Faglausn sem veiti mikla aðstoð við umsóknina með útreikningum og samskiptum við ráðuneytið. Við bindum vonir við að á næsta ári verðum við komin með nánast endurnýjað hús fyrir hjúkrunarheimilið sem verður góður vinnustaður og ekki síður góður og vistlegur staður fyrir íbúa.

En það eru fleiri framkvæmdir í gangi. Við bindum vonir við að um mánaðarmótin ágúst / september verði nýtt móttökuhús reist við Háholt en það hefur tekið nokkrum breytingum frá upphaflegum hugmyndum, meðal annars höfum við tekið stærra athafnasvæði undir og snúið húsinu til að bæta aðgengi. Umhverfisfulltrúi hefur unnið að því að afla upplýsinga frá þeim sem þegar hafa endurskipulagt sín sorpmál og ætlun okkar er að feta í fótspor þeirra sem gengur vel – og taka upp hagstæðasta kerfið. Einnig er verið að kanna hvaða tækjabúnað við þurfum til að koma á mun meiri hagkvæmni í söfnun, meðhöndlun, flutningi og förgun. Enn sem komið er vinnum við eftir þeirri fjárhagsáætlun sem gerð var í upphafi en má vera að hún taki breytingum í haust þegar endanleg ákvörðun um tækjabúnað liggur fyrir.

Framkvæmdum við dýpkun hafnarinnar og fyllingu er að ljúka og hafa þær gengið vonum framar. Skipulagsbreytingarnar hafa verið auglýstar í skipulagsgátt og á heimasíðu og hægt að veita umsögn til 2. ágúst.

Í gær hélt ég góðan fund með deildarstjórum – sem því miður hafa verið allt of fáir en stefnt er að því að hittast hér eftir að minnsta kosti í hverjum mánuði. Á síðasta kjörtímabili fór af stað mjög gott verkefni sem við kölluðum „Langanesbyggð – betri vinnustaður“. Margt gott kom út úr þessu verkefni en því miður þá fjaraði það út af ýmsum ástæðum og ekki við neinn að sakast í því. Bind ég vonir við að það hjálpi okkur að auka ánægju og hamingju þess fólks sem vinnur fyrir okkur í hinum ýmsum deildum. Annað mál er – að þegar við höfum lokið úttekt á stjórnsýslunni fylgir henni aðgerðaráætlun sem hrinda þarf í framkvæmd. Meðal þeirra verkefna sem gætu orðið góð afurð úr úttektinni er heildar mannauðsstefna fyrir sveitarfélagið sem nú þegar er í mótun, endurskoðun ýmissa reglna og samþykkta, skipurits og úttektin leiðir vafalaust til betri samskipta. Jafnframt þarf að ljúka þjónustuáætlun fyrir sveitarfélagið sem sagt er fyrir um í lögum og liggur fyrir í drögum.

Þannig að upphafspunkturinn er úttekt á stjórnsýslunni sem leiðir til aðgerðaráætlunar og umbóta og þá er gott að hafa góða ráðgjafa og starfshóp sem fylgir eftir því sem kemur út úr úttektinni. Ef það er ekki gert þá er betur heima setið en af stað farið.

Vert er að geta þess hér í lokin að viðræður er hafnar við Björgunarsveitina Hafliða sem fyrst áttu að snúa að kaupum á Hauksbúð en ýmsar góðar og athyglisverðar hugmyndir hafa skotið upp kollinum í viðræðum sem báðir aðilar eru að íhuga. Vonandi er hægt að greina frá niðurstöðum fyrr en síðar.

Sveitarstjórn fer að loknum þessum fundi í sumarleyfi og óska ég öllum ánægjulegs sumars. Boðað verður til aukafundar ef þurfa þykir en á meðan fer byggðaráð með vald sveitarstjórnar.

16. Bréf til sveitarstjórnar frá Byggðastofnun um umsóknir um aflamark. TRÚNAÐARMÁL.
Byggðastofnun hefur sent bréf til sveitarstjórnar um úthlutun aflamarks á Bakkafirði á grundvelli reglugerðar 643/2016 sbr. 10. gr. laga nr. 116/2006. Svar óskast í síðasta lagi 21. júní.

Gunnlaugur lýsti yfir vanhæfi og var það samþykkt og vék hann af fundi. Sigríður Friðný tók hans sæti.

Bókun: Oddviti bar upp þá tillögu að fundi væri lokað.

Atkvæðagreiðsla: Með tillögu: Sigurður, Halldóra, Margrét, Sigríður, Júlís, Þórarinn. Sátu hjá: Mirjam.

Afgreiðsla færð í trúnaðarbók - Trúnaði aflétt á 33 fundi. 

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn harmar skerðingu á aflamarki Byggðastofnuar um 100 tonn til Bakkafjarðar sem er "brothætt byggð". Umsóknirnar eru að mati sveitarstjórnar trúverðugar og gerir ekki athugasemdir við þær. Til að sveitarstjórn geti veitt umsögn um tillögu aflamarksnefndar þá þarf að fá ítarlegan rökstuðning fyrir tillögum nefndarinnar. 

Samþykkt samhljóða. 

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:00.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?