Fara í efni

31. fundur sveitarstjórnar, aukafundur

30.05.2024 17:00

Fundur í sveitarstjórn

31. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar, aukafundur haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 30. maí 2024. Fundur settur kl. 17:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Þorsteinn Ægir Egilsson, Júlíus Sigurbjartsson, Mirjam Blekkenhorst, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Margrét Guðmundsdóttir, Björn S. Lárusson og Bjarnheiður Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki svo gengið var til dagskrár.

D a g s k r á

 

1. Breyting á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 vegna stækkunar á hafnarsvæði Þórshafnar

Fundargerð

1. Breyting á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 vegna stækkunar á hafnarsvæði Þórshafnar.

Lögð er fram tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027. Viðfangsefni breytingarinnar er stækkun á hafnarsvæði Þórshafnar. Breytingin er sett fram í greinargerð og á breytingarblaði frá Eflu verkfræðistofu. En vegna yfirsjónar láðist að taka það fyrir á fundi þann 17. apríl s.l.

Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti, Þorsteinn, Mirjam, oddviti, Sigríður, Þorsteinn, Mirjam, oddviti, Þorsteinn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 vegna stækkunar á hafnarsvæði Þórshafnar skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með vísan til 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga og 31. gr. sömu laga.

Atkvæðagreiðsla: Með bókun; Sigurður, Gunnlaugur, Margrét, Sigríður. Sitja hjá: Þorsteinn, Júlíus, Mirjam.

Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista hafa frá upphafi þessa máls ítrekað komið á framfæri athugasemdum sínum við vinnubrögð og stjórnsýslu stjórnenda sveitarfélagsins í málinu. Svo virðist vera að hinn mikli þrýstingur sem Ísfélagið hefur beitt sveitarfélaginu í málinu, með tilheyrandi flýtimeðferð og afgreiðslu meirihluta sveitarstjórnar á útgáfu framkvæmdaleyfis á óauglýstu aðal- og deiliskipulagi hafnarsvæðisins, sé að koma í bakið á stjórnendum sveitarfélagsins nú þar þeir sjá sig knúna til þess að halda hér í dag aukafund til að afgreiða aðalskipulagsbreytingu vegna málsins.
Frá því meirihluti samþykkti umrætt framkvæmdaleyfi sem og framkvæmdirnar í heild sinni hefur því verið haldið fram af oddvita og sveitarstjóra að þetta rúmist innan gildandi aðalskipulags og hafa þeir vitnað í skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins máli sínu til stuðnings. Þrátt fyrir allt þetta tal stjórnenda sveitarfélagsins kemur á daginn að það þarf að fara í aðalskipulagsbreytingar samhliða nýju deiliskipulagi. Vinnubrögð af þessu taki eru með öllu óboðleg og ólíðandi og fulltrúum meirihluta ekki sæmandi.
Ítrekaðar athugasemdir og óskir fulltrúa L-lista um að best væri að klára skipulagsferlið áður en framkvæmdar- og eða byggingarleyfi eru gefin út á svæðinu hafa engu skilað og keyrir meirihluti sveitarstjórnar stjórnlaust áfram í málinu með þeim afleiðingum að skaði getur hlotist af á síðari stigum málsins, eins og fulltrúar L-lista hafa þegar bent á.
Fulltrúar L-lista mótmæla enn og aftur vinnubrögðum oddvita, meirihluta og sveitarstjóra í þessu mál. Þar af leiðir geta fulltrúar L-lista ekki samþykkt málið í dag frekar en á fyrri stigum.
Að bera fyrir sig misskilningi í málinu eins og sveitarstjóri gerir í tölvupósti dags 29. maí til fulltrúa L-lista eftir að fulltrúarnir óskuðu skýringa á því hvers vegna væri verið að halda þennan aukafund hér í dag, er orðin afar þreyttur frasi. Staðreyndir málsins tala sínu máli og sannar þessi aukafundur hér í dag að enn og aftur ætlar meirihlutinn að redda sér fyrir horn með því að leiðrétta mistök sín í ferlinu eftir á.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:42.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?