Fara í efni

3. fundur aukafundur sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps

11.08.2022 17:00

3. fundur aukafundur sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, fimmtudaginn 11. ágúst 2022 settur kl. 17:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson, Hjörtur Harðarson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Júlíus Þ. Sigurbjartsson, Mirjam Blekkenhorst og Karítas Ósk Agnarsdóttir. Að auki sat fundinn Valdimar Halldórsson verkefnastjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri ritaði fundargerð.

Oddviti vék af fundi og varaoddviti tók við hans sæti undir lið 17. Helga Guðrún Henrýsdóttir kom inn sem varamaður.

Ingimar Guðmundsson endurskoðandi hjá KPMG var sat fundinn í gegnum fjarfundarbúnað undir lið 5 kl 17:20.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð, og lagði fram svohljóðandi bókun:

Bókun frá oddvita um boðun fundar: Á þessari stundu nú stóð til að halda reglulegan sveitarstjórnarfund samkvæmt fundardagskrá. Síðastliðinn föstudag 5. ágúst barst sveitastjórnarfólki póstur um að fundur yrði haldinn núna. Dagskrá var síðan send út með aðgangi að gögnum, síðastliðinn þriðjudag kl 19:23. En frá kl 16 til 19:20 á þriðjudaginn sátu sex aðalmenn og 3 varamenn í sveitastjórn ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins á kynningarfundi hér í þessum sal.

Réttmæt ábending barst að morgni miðvikudags að fundarboð hefði borist of seint þ.e. einungis 45 stundir væru til fundar í stað þeirra 48 stunda sem lágmark er. Þá varð ljóst að ekki væri hægt að halda reglulegan fund, á þessari stundu nú. Var þá gripið til þess ráðs að boða til aukafundar í sveitarstjórn en samkvæmt samþykktum og lögum má boða til þeirra með sólahringsfyrirvara. Enda var öllum sveitarstjórnarmönnum ljóst að til stæði að halda fund á þessari stundu og kvöddust flestir þeirra í þessum sal síðastliðið þriðjudagskvöld með þeim orðum að við myndum mæta til fundar hér og nú.

Og óskaði hann þá eftir öðrum athugasemdum við fundarboðið.

Til máls tók: Mirjam.

Bókun frá minni hluta:

Fulltrúar L-lista gera athugasemdir við boðun, undirbúning og framkvæmd stjórnenda sveitarfélagsins fyrir þennan aukafund hér í dag. Skv. fundarplani sveitarstjórnar á að vera reglubundinn fundur í dag en þar sem verkefnastjóri sendi fundarboð og fundargögn of seint á sveitarstjórnarfulltrúa, nánar tiltekið kl. 19:23 þriðjudaginn 9. ágúst, þá benti fulltrúi L-lista stjórnendum sveitarfélagsins á með tölvupósti að boðun fundarins væri ólögmæt og þar af leiðandi allar ákvarðanir sem sveitarstjórn tæki. Það er alveg skýrt skv. 9. gr. samþykkta sveitarfélagsins sem og 15 gr. sveitarstjórnarlaga að boða skal sveitarstjórnarfundi með að minnsta kosti 48 tíma fyrirvara.

Í stað þess að boða annan fund sveitarstjórnar með lögmætum hætti, eins og fulltrúar L-lista óskuðu eftir, taka stjórnendur sveitarfélagsins ákvörðun um að boða til aukafundar í dag á sama tíma með sömu dagskrá og sömu gögnum. Við frábiðjum okkur slík vinnubrögð enda samþykktir sveitarfélagsins og sveitarstjórnarlög óþörf ef ekki á að fara eftir þeim, eða að snúa út úr þeim þar sem á að redda lélegum vinnubrögðum og stjórnsýslu með þessum hætti. Fulltrúar L-lista hvetja fulltrúa meirihluta og stjórnendur sveitarfélagsins að kynna sér grunnatriði í stjórnsýslu svo koma megi í veg fyrir að svona vinnulag endurtaki sig ekki.

D a g s k r á

 1. Heiti og merki Langanesbyggðar
  1. Niðurstöður skoðanakönnunar lagðar fram
  2. Tillaga lögð fram um að fylgja niðurstöðum könnunar
  3. Greidd atkvæði um heiti og merki
 2. Ráðningarsamningur sveitarstjóra. Lagður fram til samþykktar.
 3. Samþykktir sveitarfélagsins. Fyrri umræða.
 4. Erindisbréf nefnda. Erindisbréf lögð fram.
 5. 5 mánaða uppgjör Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps lögð fram til kynningar og einnig stofnefnahagsreikningur og uppfært skuldaviðmiðunarhlutfall. Rúnar og Ingimar koma inn á Teams.
 6. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Bréf frá Eftirlitsnefndinni lagt fram. Til upplýsingar.
 7. Fundargerð Byggðaráðs lögð fram. Til samþykktar.
 8. Fundargerð Umhverfis- og skipulagsnefndar lögð fram. Til samþykktar.
 9. Fundargerð Jarðasjóðs lögð fram. Til samþykktar.
 10. Fjarðarvegur 5 ehf. Breyting á stjórn.
 11. SSNE, samráðshópur um innviðamál. Tillaga að fulltrúa frá Langanesbyggð í samráðshóp. Til samþykktar.
 12. Drög að ályktun frá sveitarstjórn um fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi strandveiða lagt fram. Til samþykktar
 13. Drög að ályktun frá sveitarstjórn um frumvarp dómsmálaráðherra um sýslumenn. Til samþykktar.
 14. Míla – beiðni um framkvæmdaleyfi á Þórshöfn vegna ljósleiðaravæðingar. Til samþykktar.
 15. Ný lántaka. Lögð fram tillaða um beiðni um lántöku til millilangs tíma til að endurfjármagna lausafjárskuldir og til að geta fjármagnað framkvæmdir á nk misserum. Lánsfjárhæð gæti orðið allt að 100 m.kr. Lánskjör verði könnuð hjá fjármálastofnunum. Til samþykktar
 16. Lækjarvegur 3. Tillaga um viðhaldsfjárfestingu uppá 5 m.kr.
 17. Uppgjör við fv oddvita Svalbarðshrepps. VH leggur fram samning við fv oddvita Svalbarðshrepps. Til samþykktar.
 18. Íþróttamiðstöð. VH leggur fram tillögu um að fresta fjárfestingu í VERI á árinu 2022. Til samþykktar.
 19. Uppsögn á samningi við Faglausn. VH leggur fram tillögu um að segja upp samningi við Faglausn ehf. Til samþykktar.
 20. Fuglaskoðunarskýli við Skoruvík. Húsið verður flutt frá Trésmiðjunni Rein núna í ágúst og sett upp. Langanesbyggð þarf að leggja út tæpar 5,0 mkr en mun fá amk 90% af þeirri fjárfestingu endurgreidda frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða skv samningi þar um. Til samþykktar.
 21. Viðhaldsfjárfestingar. Minnisblað um framkvæmdir/fjárfestingar fyrir árin 2022/2023 frá Jóni Rúnari í Þjónustumiðstöð. Til upplýsingar og þrír liðir til afgreiðslu.
  1. Grunnskólinn á Þórshöfn. Tillaga um viðhaldsfjárfestingu. Ný útidyrahurð. Fjárhæð 1,0 m.kr.
  2. Vatnsveitumál. Tillaga um 2,0 m.kr fjárfestingu við viðhald vatnsbóls. Eldri skýrslur kynntar og núverandi staða kynnt. Til upplýsingar og umræðu.
  3. Hafnarskúr á Bakkafirði. Tillaga um fjárfestingu uppá 5,0 m.kr á árinu 2022.
 22. Miðholtsíbúðir. Fyrir liggur ógreiddur reikningur frá B.J. 1998 ehf uppá tæpar 4,0 m.kr. Eldri samningur við B.J. 1998 ehf um viðhald á Miðholtsíbúðum lagður fram. Til samþykktar.
 23. Bríet Byggingarfélag. Munnleg yfirferð VH um stöðu málsins. Gögn hafa verið afhent verktökum. Til upplýsingar og umræðu.

Fundargerð

 1. Heiti og merki Langanesbyggðar

Niðurstöður skoðunarkönnunar um nafn og merki sveitafélagsins voru þær að 20% tóku þátt í könnunni og nafnið Langanesbyggð hlaut 80% atkvæða og eins fékk önnur tillagan að byggðamerki 80 % atkvæða.

Tillaga um nýtt heiti og byggðamerki

Sveitastjórn leggur fram tillögu um að nýtt heiti og nýtt byggðamerki taki mið af niðurstöðum skoðanakönnunar á meðal íbúa sameinaðs sveitarfélags.

Tillaga um að heiti sameinaðs sveitarfélags verði: Langanesbyggð

Tillaga um að nýtt byggðamerki:

Samþykkt samhljóða.

 2. Ráðningarsamningur sveitarstjóra. Lagður fram til samþykktar.

Sveitastjórn samþykkir framlagðan samning við Björn S. Lárusson og leggur til að hann verður birtur á heimasíðu sveitafélagsins.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tók Mirjam.

Bókun minnihluta: Fulltrúar L-lista fagna ráðningu Björns og bjóða hann og Eydísi konu hans velkomin til Þórshafnar.

 3. Samþykktir sveitarfélagsins. Fyrri umræða.

Þær eru hér lagðar fram í drögum til umræðu en þurfa tvær umræður í sveitastjórn og vísast til seinni umræðu. Sveitarstjórnarmenn eru hvattir til að koma athugasemdum sínum og tillögum til skrifstofustjóra fyrir 30. ágúst þannig hægt sé að ganga frá þeim til loka afgreiðslu á fundi 8. september.

Til máls tók Mirjam.

Tillaga minnihluta: Fulltrúar L-lista leggja til að haldinn verði vinnufundur í sveitarstjórn milli umræðna um nýjar samþykktir sveitarfélagsins og erindisbréf nefnda.

Samþykkt samhljóða.

 4. Erindisbréf nefnda. Erindisbréf lögð fram.

Erindisbréf eru hér með lögð fram til kynningar og verða staðfest á sama fundi og samþykktir sveitarfélagsins og athugasemdir berist með sama hætti.

Samþykkt samhljóða.

 5. 5 mánaða uppgjör Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps lögð fram til kynningar og einnig stofnefnahagsreikningur og uppfært skuldaviðmiðunarhlutfall. Ingimar kemur á fund í gegnum Teams.

Til máls tók Valdimar um árshlutauppgjör Svalbarðshrepps.

Til máls tók Ingimar Guðmundsson frá KPMG í gegnum fjarfundarbúnað um árshlutauppgjör Langanesbyggðar og stofnefnahagsreikning nýs sveitarfélags.

Sigurður, Halldóra, Margrét og Hjörtur lögðu fram eftirfarandi bókun: Árshlutareikningar Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps gefa tilefni til þess að varlega verði farið í nýjum fjárútlátum á meðan sameinað sveitafélag nær utan um sameiginlegan fjárhag.

 6. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Bréf frá Eftirlitsnefndinni lagt fram. Til upplýsingar.

Til máls tóku Mirjam og Valdimar.

 7. Fundargerð byggðaráðs lögð fram. Til samþykktar.

Til máls tók Mirjam.

Bókun minnihluta: Fulltrúar L-lista gera athugasemdir við það að fundargerð byggðaráðs hafi verið birt opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins áður en hún var lögð fyrir sveitarstjórn.

Fundargerð samþykkt samhljóða.

 8. Fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar lögð fram. Til samþykktar.

Til máls tók Mirjam.

Bókun minnihluta: Fulltrúar L-lista gera athugasemdir við það að fundargerð Umhverfis og skipulagsnefndar hafi verið birt opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins áður en hún var lögð fyrir byggðaráð eða sveitarstjórn.

Fundargerð samþykkt samhljóða.

 9. Fundargerð jarðasjóðs lögð fram. Til samþykktar.

Til máls tók Mirjam.

Bókun minnihluta: Fulltrúar L-lista gera athugasemdir við það að fundargerð jarðarsjóðs hafi verið birt opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins áður en hún var lögð fyrir byggðaráð eða sveitarstjórn.

Fundargerð samþykkt samhljóða

 10. Fjarðarvegur 5 ehf. Breyting á stjórn.

Verkefnastjóri leggur fram tillögu um að aðalfulltrúar í byggðaráði sameinaðs sveitarfélags myndi stjórn í Fjarðarvegi 5 ehf.

Samþykkt samhljóða.

 11. SSNE, samráðshópur um innviðamál. Tillaga að fulltrúa frá Langanesbyggð í samráðshóp. Til samþykktar.

Lagt er til að Sigurður Þór Guðmundsson verði fulltrúi Langanesbyggðar í samráðshópnum.
Samþykkt samhljóða.

 12. Drög að ályktun frá sveitarstjórn um fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi strandveiða lagt fram.

Valdimar lagði fram eftirfarandi ályktun um strandveiðifyrirkomulag: „Sveitarstjórn Langanesbyggðar telur jákvætt að stjórnvöld hafi nú til afgreiðslu á Alþingi breytingar á fyrirkomulagi strandveiða og svæðaskiptingu með það að markmiði að sanngirni aukist. Strandveiðar voru settar á laggirnar á sínum tíma að auðvelda áhugasömum smábátasjómönnum að róa á færabátum á grunnslóð. Þetta var gott framtak og með strandveiðum hefur færst aukið líf í hafnir landsins – ekki síst á minnstu stöðunum. Kerfið þarf að vera eins sanngjarnt og hægt er gagnvart öllum veiðisvæðunum fjórum hringinn í kringum um landið. Vonandi tekst að gera breytingar til að aflinn dreifist jafnar út um allt land“.

Samþykkt samhljóða.

 13. Drög að ályktun frá sveitarstjórn um frumvarp dómsmálaráðherra um sýslumenn.

Drög að ályktun lögð fram.

„Sveitarfélagið Langanesbyggð fagnar langþráðri viðurkenningu dómsmálaráðherra á því að tilefni sé til að staðsetja skrifstofu sýslumanns á norðausturhorni landsins á Langanesi og nærsveitum. Ljóst er að þjónustusvæði starfseminnar nær ekki aðeins til sveitarfélagsins heldur einnig aðliggjandi héraða þar sem um langan veg er að fara til að sækja grundvallarþjónustu hins opinbera. Gildir það jafnt um íbúa, sveitarfélög og fyrirtæki á svæðinu sem sum hver teljast til stærstu fyrirtækja landsins. Með þessu skrefi staðfestir dómsmálaráðuneytið árangur af tilraunaverkefni Langanesbyggðar og Sýslumannsins á Norðurlandi eystra sem staðið hefur í á þriðja ár og komið var á fót með stuðningi Byggðastofnunar.

Hins vegar virðist sérstök ástæða til að mótmæla þeirri meginhugsun sem býr að baki frumvarpinu um sameiningu níu sýslumannsembætta í eitt. Hægt er að færa gild rök fyrir því að án náins samstarfs sveitarfélagsins og sýslumannsembættisins á Norðurlandi eystra hefði aldrei orðið af þeirri þjónustubót sýslumannsembættisins sem átt hefur sér stað í sveitarfélaginu, enda hefur dómsmálaráðuneytið ekki séð ástæðu til að gera ráð fyrir þeirri starfsemi í sveitarfélaginu í reglugerð um þjónustu sýslumanna hingað til. Sýnir þessi reynsla sveitarfélagsins glögglega mikilvægi sjálfsforræðis sýslumannsembætta í héruðum landsins.

Sérstaklega er tekið undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögnum stjórnar Byggðastofnunar og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpsdrögin. Augljóst virðist að nauðsynlegt er að undirbúa svo mikilvægar skipulagsbreytingar betur. Gildir þá einu hvort litið er til lágmarksskilyrða í starfsemi og rekstri, svæðistengdrar kjarnaþjónustu lykilverkefna (svo sem fjölskyldumála), fyrirkomulags sérverkefna, umdæmabundins forræðis og svigrúms sjálfstæðra stofnana á landsbyggðinni. Þá blasir við að lágmarksskilyrði byggðaáætlunar ber að virða í orði og á borði. Í öllum framangreindum atriðum virðist frumvarpsdrögin ófullnægjandi, svo sem aðrar umsagnir bera einnig með sér.

Fari svo að frumvarpsdrög þessi fái ekki framgang hvetur sveitarfélagið til þess að dómsmálaráðherra nýti heimildir sínar til að breyta núgildandi reglugerð um umdæmi sýslumanna og staðsetji útibú í Langanesbyggð, enda er sú aðgerð afar einföld og margsinnis áréttuð“.

Sveitarstjórn samþykkir að senda meðfylgjandi ályktun inn á samráðsgátt stjórnvalda sem umsögn um frumvarpið.

Samþykkt samhljóða.

 14. Míla – beiðni um framkvæmdaleyfi á Þórshöfn vegna ljósleiðaravæðingar. Til samþykktar.

Til máls tóku Mirjam og Valdimar.

Sveitarstjórn heimilar að gefið verði út framkvæmdarleyfi að eftirtöldum skilyrðum uppfylltum.

 1. Frágangur á yfirborði verði sambærilegur og áður
 2. Upplýsingar fáist um frágang skurðsára
 3. Ef þvera þarf götur verði leitast við að bora undir þær
 4. Verkið verði unnið í samráði við Þjónustumiðstöð

Samþykkt samhljóða.

 15. Ný lántaka. Lögð fram tillaga um beiðni um lántöku til millilangs tíma til að endurfjármagna lausafjárskuldir og til að geta fjármagnað framkvæmdir á n.k. misserum. Lánsfjárhæð gæti orðið allt að 100 m.kr. Lánskjör verði könnuð hjá fjármálastofnunum. Til samþykktar.

Valdimar lagði fram eftirfarandi tillögu:

Verkefnisstjóra verði falið að afla tilboða í fjármögnun allt að 100 milljóna og einnig er honum veitt heimild til framlengingar núgildandi yfirdráttarheimildar í Landsbankanum.

Samþykkt samhljóða.

 16. Lækjarvegur 3. Tillaga um viðhaldsfjárfestingu uppá 5 m.kr.

Oddviti sameinaðs sveitarfélags leggur fram tillögu um að heimild fáist til að fara í nauðsynlega viðhaldsfjárfestingu á húseign sveitarfélagsins að Lækjarvegi 3 á Þórshöfn. Umfang viðhaldsfjárfestingar er metið 4-6 milljónir króna. Skipt verður um gólfefni, hurðir og baðherbergi standsett.

Samþykkt samhljóða.

 17. Uppgjör við fv oddvita Svalbarðshrepps. Valdimar leggur fram samning við fv oddvita Svalbarðshrepps. Til samþykktar.

Sigurður Þór vék af fundi undir þessum lið og varaoddviti tók við fundarstjórn og Helga Guðrún Henrýsdóttir kom inn sem varamaður.

Verkefnisstjóri leggur fram tillögu um að sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps samþykki samning við fv starfandi oddvita Svalbarðshrepps um vinnuframlag hans við frágang á gögnum hreppsins í tengslum við sameiningu sveitarfélaganna tveggja.

Til máls tóku: Mirjam, varaoddviti, Mirjam, varaoddviti, Valdimar.

Atkvæðagreiðsla: Með; Halldóra, Helga Hjörtur, Margrét. Á móti; Mirjam, Júlíus, Karítas.

Bókun minnihluta: Á öðrum fundi sveitarstjórnar 16. júní sl. hafnaði sveitarstjórn tillögu sitjandi fundarstjóra og meirihluta því að fyrrum oddviti Svalbarðshrepps fengi greiddar launagreiðslur í þrjá mánuði alls 750.000 kr. enda ekki ráðningarsamningur milli fyrrum oddvita og sveitarfélagsins og því ekki forsendur fyrir starfslokagreiðslum. Á byggðaráðsfundi 30. júní sl. kemur þetta sama mál á dagskrá en þá sem tillaga frá verkefnastjóra um að greiða fyrrum oddvita Svalbarðshrepps einskiptisgreiðslu upp á 750.000 kr. Á þeim fundi var verkefnastjóra falið að gera drög að verksamningi við fyrrum oddvita og hann síðan lagður fyrir sveitarstjórn. Fulltrúar-L lista geta ekki samþykkt þennan samning og þá upphæð sem um ræðir enda engin gögn eða rök á bak við upphæðina sem á að greiða fyrrum oddvita. Einnig var verkefnastjóri ráðinn í byrjun júní til að sinna þeim verkefnum sem eftir standa í sameiningarvinnunni.

Oddviti kemur aftur inn á fund og Helga Guðrún víkur.

 18. Íþróttamiðstöð. Valdimar leggur fram tillögu um að fresta fjárfestingu í VERI á árinu 2022. Til samþykktar.

Verkefnisstjóri leggur fram tillögu um að hætt verði við umfangsmikla viðhaldsfjárfestingu við íþróttamiðstöð á Þórshöfn á árinu 2022. Til stóð samkvæmt fjárhagsáætlun Langanesbyggðar að fara í þetta viðhaldsverkefni á yfirstandandi sumri.

Sameinað sveitarfélag hefur ekki aflað fjármagns við umrætt viðhaldsverkefni og lausafjárstaða sveitarfélagsins er ekki góð. Þá eru lánskjör fremur óhagstæð um þessar mundir og loks er áliðið á sumar. Það er því óraunhæft og óskynsamlegt að fara af stað á þessu ári í miklar framkvæmdir úr því sem komið er.

Til máls tóku: Mirjam, Valdimar, Halldóra, oddviti, Mirjam.

Bókun minnihluta: Á öðrum fundi sveitarstjórnar 16. júní sl. var kynnt endurskoðuð verkáætlun við endurbætur á íþróttamiðstöðinni. Málinu var síðan vísað til byggðaráðs til eftirfylgni en þangað hefur málið aldrei komist. Þess í stað kemur hér tillaga frá verkefnastjóra um að hætta öllum framkvæmdum við íþróttamiðstöðina árið 2022. Hér er um að ræða stóra breytingu á ákvörðun fyrri sveitarstjórnar um endurnýjun og lagfæringu á íþróttamiðstöðina og ekki síður algera stefnubreytingu núverandi meirihluta frá síðasta sveitarstjórnarfundi og þeirri verkáætlun sem kynnt var þar. Fulltrúar L-lista furða sig á þessum vinnubrögðum og um leið harma þessa ákvörðun meirihluta.

Til máls tóku: Oddviti, Valdimar, oddviti, Mirjam, oddviti.

Atkvæðagreiðsla: Með: Sigurður, Halldóra, Hjörtur, Margrét. Á móti: Mirjam, Júlíus, Karítas.

 19. Uppsögn á samningi við Faglausn. Valdimar leggur fram tillögu um að segja upp samningi við Faglausn ehf. Til samþykktar.

Verkefnisstjóri leggur fram tillögu um að segja upp samningi við Faglausn ehf. Samningurinn er frá 18. desember 2020 og hafa viðskipti sveitarfélagsins við fyrirtækið verið umfangsmikil. Undirritaður telur óþarfi fyrir sameinað sveitarfélag að vera með í gildi sérstakan samning við eitt tiltekið fyrirtæki á hönnunar-, verkfræði- og skipulagssviði.

Undirritaður leggur fram samninginn í meðfylgjandi skjali til upplýsingar.

Til máls tók Mirjam.

Tillaga minnihluta: Málinu vísað til næsta fundar sveitarstjórnar þar sem gögn vantar undir þessum lið. Eins og kemur skýrt fram í minnisblaði verkefnastjóra undir þessum lið á samningur við Faglausn að fylgja með í gögnum en svo er ekki. Því geta fulltrúar ekki tekið upplýsta ákvörðun í málinu.

Tillaga samþykkt samhljóða.

 20. Fuglaskoðunarskýli við Skoruvík. Húsið verður flutt frá Trésmiðjunni Rein núna í ágúst og sett upp. Langanesbyggð þarf að leggja út tæpar 5,0 mkr en mun fá amk 90% af þeirri fjárfestingu endurgreidda frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða skv samningi þar um. Til samþykktar.

Verkefnisstjóri leggur fram tillögu um að fá heimild sveitarstjórnar til að greiða Trésmiðjunni Rein reikning fyrir fuglaskoðunarskýli við Skoruvík sem til stendur að setja upp á n.k. dögum/vikum. Reikningur er væntanlegur og verður að fjárhæð u.þ.b. 5,0 milljónir kr. Fyrirliggjandi eru samningar Fuglastígs við Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og samningur Fuglastígs við Langanesbyggð frá árinu 2019. Samkvæmt þessum samningum getur Langanesbyggð vænst þess að fá a.m.k. 80% af heildar framkvæmdakostnaði til baka úr styrkgreiðslu frá Framkvæmdasjóðnum. Sú styrkgreiðsla mun berast innan nokkurra vikna frá því reikningurinn verður greiddur af hálfu Langanesbyggðar.

Til máls tók Mirjam.

Tillagan samþykkt samhljóða.

 21. Viðhaldsfjárfestingar. Minnisblað um framkvæmdir/fjárfestingar fyrir árin 2022/2023 frá Jóni Rúnari í þjónustumiðstöð. Til upplýsingar og þrír liðir til afgreiðslu.

Minnisblað lagt fram.

Valdimar leggur fram tillögur af lista til samþykktar.

 a) Grunnskólinn á Þórshöfn. Tillaga um viðhaldsfjárfestingu. Ný útidyrahurð. Fjárhæð 1,0 m.kr.

b) Vatnsveitumál. Tillaga um 2,0 m.kr fjárfestingu við viðhald vatnsbóls. Eldri skýrslur kynntar og núverandi staða kynnt. Til upplýsingar og umræðu.

c) Hafnarskúr á Bakkafirði. Tillaga um fjárfestingu uppá 5,0 m.kr á árinu 2022.

Liður a. samþykktur samhljóða, liður b. samþykktur samhljóða, liður c. samþykktur samhljóða.

 22. Miðholtsíbúðir. Fyrir liggur ógreiddur reikningur frá B.J. 1998 ehf uppá tæpar 4,0 m.kr. Eldri samningur við B.J. 1998 ehf um viðhald á Miðholtsíbúðum lagður fram. Til samþykktar.
Samningur lagður fram.

Samningurinn er staðfestur og samþykktur samhljóða.

 23. Bríet Byggingarfélag. Munnleg yfirferð Valdimars um stöðu málsins. Gögn hafa verið afhent verktökum. Til upplýsingar og umræðu.

Til máls tók Valdimar.

Sveitarstjórn fagnar sýndum áhuga, og hvetur áhugasama verktaka til að bjóða Bríeti og íbúum sveitarfélagsins fram nýbyggðar íbúðir.

Samþykkt samhljóða.

 

Fundargerð lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 19:35.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?