Fara í efni

29. fundur sveitarstjórnar

02.05.2024 14:00

Fundur í sveitarstjórn

29. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar, aukafundur haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 2. maí 2024. Fundur settur kl. 14:00 (eftir kynningu frá SSNE sem hófst kl. 13:00.

Áður en fundur hófst kynntu Elva og Albertína starfsemi SSNE og hófst sú kynning kl. 13:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Margrét Guðmundsdóttir, Þórarinn J. Þórisson, Júlíus Sigurbjartsson, Þorsteinn Ægir Egilsson, Gunnlaugur Steinarsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Björn S. Lárusson og Svala Sævarsdóttir sem ritaði fundargerð.

Áður en fundur hófst, fór oddviti fram á afbrigði frá dagskrá þar sem við bætast liðir 9 og 10, tilnefningar í kjörstjórnir og samningur um leigu á Þórsveri.

Samþykkt samhljóða.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki svo gengið var til dagskrár.

D a g s k r á

 

1. Ársreikningur Langanesbyggðar 2023  
     01.1 Endurskoðunarskýrsla 2023
     01.2 Staðfestingarbréf stjórnenda.
2. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 647 frá 19.04.2024
3. Fundargerð 24 fundar, aukafundar byggðaráðs frá 16.04.2024
4. Fundargerð 25 fundar, aukafundar byggðaráðs frá 22.04.2024
5. Erindi til sveitarstjórnar frá Lögreglustjóranum á NE um fjárbeiðni vegna 5 ára afmælis Bjarmahlíðar á Akureyri, miðstöðvar þolenda ofbeldis.
6. Samþykkt umsóknar sem send var HMS um stofnframlag til byggingar leiguhúsnæðis á Þórshöfn.
7. Bréf innviðaráðuneytisins með áliti vegna stjórnsýslu Langanesbyggðar, sbr. 2. tl. 2. mgr. 112. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 (IRN24020021
8. Styrktarsamningur við Björgunvarsveitina Hafliða.
9. Tilnefningar í kjörstjórnir á Þórshöfn, Bakkafirði og Svalbarði.
10. Samningur um leigu á Þórsveri.

Fundargerð

1. Ársreikningur Langanesbyggðar 2023 – síðari umræða  
     1.1 Endurskoðunarskýrsla 2023
     1.2 Staðfestingarbréf stjórnenda

Sveitarstjóri fór yfir helstu tölur.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir ársreikning fyrir árið 2023 ásamt samstæðureikningi og felur sveitarstjóra að senda til birtingar ásamt því að birta hann á heimasíðu sveitarfélagsins.
Það er gleðiefni að sjá fjárhag sveitafélagsins styrkjast. Samstæðureikningur ársins 2023 er gerður upp með 160 milljóna rekstrarafgang. Þar af fóru 78 milljónir fóru í afborganir langtímalána og 28 milljónir í að greiða skammtímaskuldir. Afskriftir voru 75 milljónir. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum var um 120 milljónir. Lausafjárstaðan batnar á árinu um 32 milljónir.
Við erum hætt að reka sveitafélagið á vaxtaberandi lausafé, sést það m.a. á því að vaxtakostnaður lækkar um 16 milljónir á milli ára. Eftirtektarvert er að launakostnaður sveitastjóra og sveitastjórnar hefur ekki verið lægri frá árinu 2020. En hann var tæpar 24 milljónir.

Samþykkt samhljóða.

2. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 947 frá 19.04.2024
Fundargerðin lögð fram

3. Fundargerð 24. fundar byggðaráðs, aukafundar 16.04.2024
Fundargerðin lögð fram

4. Fundargerð 25. fundar byggðaráðs, aukafundar 22.04.2024
Fundargerðin lögð fram

5. Erindi til sveitarstjórnar frá Lögreglustjóranum á NE um fjárbeiðni vegna 5 ára afmælis Bjarmahlíðar á Akureyri, miðstöðvar þolenda ofbeldis.
Lögreglustjórinn á NE hefur farið fram á að sveitarfélög á NE styrki Bjarmahlíð á Akureyri, miðstöð þolenda, í tilefni af 5 ára afmælis miðstöðvarinnar. Það er látið í hendur hverrar sveitarstjórnar fyrir sig að ákveða upphæð.

Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að veita kr. 250.000.- til Bjarmahlíðar.

Samþykkt samhljóða.

6. Samþykkt umsóknar sem send var HMS um stofnframlag til byggingar leiguhúsnæðis á Þórshöfn.
Sveitarstjóri hefur að undanförnu unnið að því að sækja um stofnframlag frá HMS til byggingar leiguhúsnæðis á Þórshöfn. Um er að ræða byggingu 4 húsa 80-90m2 við Miðholt.
HMS og leigufélögin Bríet og Brák hafa hert mjög reglur og verkferla. Næsta skref, eftir samþykkt sveitarstjórnar, er að gerður verður samningur við leigufélagið Brák um byggingu húsanna. Félagið mun eiga og reka leiguhúsnæði. Þeirra er að semja við verktaka um byggingu húsanna.

Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að leggja fram þá fjármuni sem stofnframlagið gerir ráð fyrir í beint fjárframlag eða 12.624.490.- og opinber gjöld kr. 8.647.552.- Samtals kr. 21.272.042.-
Sveitarstjórn gerir fyrirvara um að fyrir liggi endanlegt samkomulag á milli leigufélags og sveitarfélagsins um byggingu og rekstur viðkomandi bygginga. Þegar gengið hefur verið frá samningi við Brák verður lagður fram viðauki við fjárhagsáætlun.

Samþykkt samhljóða.

7. Bréf innviðaráðuneytisins með áliti vegna stjórnsýslu Langanesbyggðar, sbr. 2. tl. 2. mgr. 112. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 (IRN24020021.
Bréf innviðaráðuneytisins er lagt fyrir sveitarstjórn.

Bókun oddvita: Það er rétt og sjálfsagt að biðjast afsökunar á því að ekki hafi farið fram kosning innan sveitastjórnar um hvort loka bæri fundi þeim sem álitið fjallar um. Mun ég gæta þess að viðhafa það í framtíðinni. Að öðru leiti er rétt að geta þess að ráðuneytið telur ekki ástæðu til að fjalla frekar um ráðningu forstöðumanns íþróttamiðstöðvar.
Til máls tóku Þorsteinn Ægir, Sigríður Friðný, Sigurður Þór og Björn S. Þorsteinn lagði fram eftirfarandi tillögu frá L-lista:

Tillaga fulltrúa L-lista
Lagt er til að fengin verði almenn og óháð úttekt á stjórnsýslu sveitarfélagsins og um leið að fengnar verði leiðbeiningar og ráðgjöf hvernig skuli staðið að ákvarðanatöku þess. Í framhaldinu verður skipaður starfshópur sem skipaður verður tveimur fulltrúum frá meirihluta og tveimur fulltrúum frá minnihluta sem vinnur málið áfram.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Bókun fulltrúa L-lista: Vegna álitsgerðar innviðaráðuneytis, dags. 22. mars sl., harmar L-listinn að sett er enn einu sinni ofan í stjórnarhætti og ákvarðanir núverandi oddvita og meirihluta sveitarstjórnar Langanesbyggðar. Þessi ítrekuðu brot oddvita á sveitarstjórnarlögum og samþykktum sveitarfélagsins varpa rýrð á stjórnsýslu þess sem og í byggðarlaginu, bæði í heild og huga íbúa og annarra utan að komandi með ómældum skaða fyrir samfélagið. Þessi tillaga er lögð fram með hagsmuni íbúa og framtíð sveitarfélagsins í huga.

8. Styrktarsamningur við Björgunarsveitina Hafliða.
Björgunarsveitin Hafliði fer fram á styrk frá sveitarfélaginu sem nemur fasteignagjöldum sveitarinnar af eignum hennar. Fyrir árið 2024 nemur sú upphæð 619.105.-.

Bókun um afgreiðslu: Sveitastjórn samþykkir að málinu verði frestað þar til drög að nýjum styrksamning liggja fyrir, s.b.r. 10. lið á 22. fundi byggðaráðs. Ekki verði hafið innheimtuferli á fasteignagjöldunum á meðan á samningsgerð stendur. Bent er á að í gildi er styrktarsamningur upp á kr. 1 milljón á ári frá 2022 til og með 2024.

Samþykkt samhljóða.

9. Tilnefningar í undirkjörstjórnir á Þórshöfn, Bakkafirði og Svalbarði.
Þrjár undirkjörstjórnir verða í Langanesbyggð í komandi forsetakosningum, á Þórshöfn, Bakkafirði og Svalbarði. Tilnefna þarf 3 fulltrúa í hverja undirkjörstjórn auk 1 varamanns. Meirihluti tilnefnir 2 fulltrúa og minnihluti 1 fulltrúa. Sveitarstjórn kemur sér saman um 1 varamann í hverja kjörstjórn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að sjá til þess í tengslum við forsetakosningar 1 júní standi íbúum til boða kaffi og meðlæti á hentugum stöðum í nágrenni kjörstaða.

Tilnefndir í undirkjörstjórnir eru eftirfarandi:

Á Þórshöfn: Ólína Ingibjörg Jóhannesdóttir
Ránar Jónsson
Arnar Freyr Halldórsson Warén
Til vara: Halldóra Sigríður Ágústsdóttir

Á Bakkafirði: Helga Guðrún Henrýsdóttir
Klara Valgerður Sigurðardóttir
Ólafur Björn Sveinsson
Til vara: Gunnlaugur Steinarsson

Á Svalbarði: Jóhannes Jónasson
Berghildur Ösp Júlíusdóttir
Stefán Pétur Sigurðsson
Til vara: Gunnar Þóroddsson

Til máls tók Þorsteinn Ægir.

Samþykkt samhljóða.

10. Samningur um leigu á Þórsveri
Fyrir liggur samningur um leigu á Þórsveri með þeim breytingum sem samþykktar voru á 28. fundi sveitarstjórnar. Til máls tóku sveitarstjóri, Þorsteinn Ægir, Sigríður Friðný, Þórarinn Jakob, Gunnlaugur og Margrét.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn fyrir sitt leiti.

Samþykkt samhljóða.

11. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. Oddviti og ágæta sveitarstjórnarfólk.

Þá sér fyrir endann á vorverkum sveitarstjórnar þar sem ársreikningur sveitarfélagsins hefur verið samþykktur fyrir árið 2023. Staða okkar er góð eins og verið hefur undanfarin ár. Í sumar og haust verður mikið um framkvæmdir, viðhald og undirbúning næstu framkvæmda ef að allt gengur upp, verktakar fást til að vinna verk sem eru á dagskrá, aðfangakeðjan slitnar ekki og ekkert óvænt kemur upp sem tefur. Brátt rís ný sorpmóttökustöð við Háholt sem er í raun einn áfanginn í því að endurskipuleggja sorpmál frá grunni og takmarkið er að ná jöfnuði í tekjum og gjöldum af sorphirðu, flutningi og förgun og stefna sett á að það náist á næsta ári. Framkvæmdir við Dvalarheimilið Naust hafa gengið samkvæmt áætlun þrátt fyrir að í einstaka tilfellum höfum við orðið fyrir töfum á afhendingu vara og við höfum þurft að bregðast við meiri kröfum sem gerðar eru til slíkra framkvæmda og kosta meira. Hvað fjárhagshliðina snertir erum við ennþá innan óvissumarka.

Vonir standa til að fjárframlag fáist fyrir seinni áfanga framkvæmda við Naustið úr framkvæmdasjóði aldraðra og þá ættum við að geta hafist handa og lokið við að endurnýja hús og aðstöðu starfsfólks og vistmanna upp úr næstu áramótum ef allt gengur upp.

Við höfum fengið vilyrði frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um stofnframlag sem nemur 80% af byggingakostnaði við byggingu 4 leiguíbúða við Miðholt. Eftir er að semja við leigufélag um eignarhald og rekstur og í framhaldi af því mun viðkomandi leigufélag semja við verktaka um byggingu húsanna. Þetta er orðið lengra og strangara ferli eftir hremmingar okkar og annarra í upphafi þessa fyrirkomulags en vonandi sér fyrir endann á því. Ástand húsnæðismála á SV horninu hefur einnig tafið fyrir.

Enn styrkjast innviðir í Langanesbyggð. Við höfum gert samning við ON um rafhleðslustöðvar á fyrirhuguðu bílastæði norðan Kjörbúðarinnar og fleiri stöðum þar sem komið verður fyrir 2 hraðhleðslustöðvum, svokölluðum DC stöðvum en auk þess verða settar upp 8 hverfahleðslustöðvar, eða AC stöðvar á Þórshöfn og Bakkafirði. Við höfum farið fram á að hraðhleðslustöð verði sett upp á Bakkafirði. Frá og með deginum í dag tekur gistiheimilið Lyngholt við rekstri Þórsvers þar sem opnað verður kaffi- og veitingahús sem margir hafa beðið eftir og það hefur vonandi ekki bara betri áhrif á mannlífið hér heldur er slíkur rekstur ein af stoðum ferðaþjónustunnar.

Þá eru ótaldar miklar framkvæmdir við höfnina á Þórshöfn þar sem athafnasvæði Ísfélagins stækkar til muna, höfnin verður dýpkuð og aðkoman að höfninni breytist frá miðsvæði. Þó enginn geti lofað meiri umsvifum við höfnina er öruggt að þessi lífæð okkar styrkist. Hér er um að ræða milljarða framkvæmdir en þó megin þungi þess hvíli á Ísfélaginu með stækkun húsakosts þá greiðum við hluta úr hafnarsjóði og ekki er fast í hendi framlag Vegagerðarinnar til framhalds framkvæmda annarra en hluta þeirra sem nú standa yfir. Að því verður unnið sleitulaust næstu mánuði. Nýtt deiliskipulag hafnarinnar á Bakkafirði mun taka gildi innan skamms og unnið er að deiliskipulagi Suðurbæjar þar sem byggingalóðir framtíðarinnar verða.

Með styrk frá innviðaráðuneytinu til að styðja við uppbyggingu innviða í Langanesbyggð hefur tekist að vekja áhuga orkufyrirtækja og orkuflutningsfyrirtækja á að tryggja orkuöryggi í Langanesbyggð. Við vorum heppin að fá Gunnar Má Gunnarsson sem áður gegndi starfi verkefnastjóra „Betri Bakkafjarðar“ til að taka verkið að sér undir hatti SSNE og hann hefur unnið mjög ötullega að þessu verkefni. Þá leit skýrsla starfshóps um styrkingu innviða, orkumál og hugsanlega friðun á nyrsta hluta Langaness dagsins ljós fyrir skömmu og þar koma fram athyglisverðar tillögur um lausnir í orkumálum. Þetta tengist auðvitað þeirri framtíðarsýn sem sett var fram fyrir margt löngu um höfn og iðnaðarsvæði við Finnafjörð. Orkumál eru lykillinn að því að eitthvað verði úr þeim hugmyndum.

Það eru mörg atriði ónefnd s.s. starfsemi Kistunnar sem hægt og örugglega byggist upp eftir að sú hugmynd varð til að kaupa hús Sparisjóðsins eða Landsbankans árið 2021. Þar hefur starfsfólk staðið afskaplega vel að verki og Kistan er aðeins eitt þeirra verkefna sem við getum verið mjög stolt að hafa komið á laggirnar. Þess má geta að við erum að verða eitt af sárafáum byggðalögum úti á landi sem fékk að halda pósthúsi með því að hýsa það í Kistunni.

Við fengum framlengingu á verkefninu „Betri Bakkafjörður“ um síðustu áramót með góðri samstöðu í sveitarstjórn með því verkefni. Romi Schmitz tók við starfi verkefnastjóra af Gunnari Má um áramót og tók strax til óspilltra málanna og sinnir verkinu af alúð og eljusemi eins og hennar er von og vísa.

Enn erum við inni á aðgerðaráætlun Samgönguáætlunar 2024 – 2028 með 200 milljónir króna á þessu ári í undirbúning vegarins yfir Brekknaheiði og gert er enn ráð fyrir 700 milljónum á næsta ári og 750 milljónum 2026. Það kostar okkur um 12 milljónir króna að færa vatnsleiðsluna við vegstæðið en við eigum eftir að ræða nánar við Vegagerðina þar sem fallið hefur verið frá áformum um girðingu meðfram veginum sem ætti að minnka kostnað auk þess sem við höfum sterk rök fyrir málinu frá Samorku.

Það er margt framundan hjá okkur og bjart, og margir boltar á lofti – að lokum óska ég ykkur
gleðilegs sumars og njótum veðurblíðunnar sem verður í sumar.

Til máls tóku Þorsteinn Ægir og Björn Sigurður.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.20

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?