Fara í efni

28. fundur sveitarstjórnar

17.04.2024 13:00

Fundur í sveitarstjórn

28. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, miðvikudaginn 17. apríl 2024. Fundur settur kl. 14:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Margrét Guðmundsdóttir, Þorsteinn Ægir Egilsson, Júlíus Sigurbjartsson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Valgerður Sæmundsdóttir, Björn S. Lárusson og Bjarnheiður Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki svo gengið var til dagskrár.

D a g s k r á

1. Fyrri umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2023
2. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 945 frá 28.02.2024
3. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 946 frá 15.03.2024
4. Fundargerð 61. fundar stjórnar SSNE frá 19.03.2024
5. Fundargerð 62. Fundar stjórnar SSNE frá 03.04.2023
6. Fundargerð 23. fundar byggðaráðs frá 04.04.2024
     06.1 Bókanir byggðaráðs
7. Fundargerð 24. fundar skipulags- og umhverfisnefndar, aukafundar frá 20.03.2024
     07.1 Bókun nefndarinnar vegna vinnutillögu deiliskipulags hafnarinnar og framkvæmdaleyfis.
8. Fundargerð 8. fundar hafnarnefndar frá 26.03.2024
     08.1 Bókun nefndarinnar vegna vinnutillögu deiliskipulags hafnarinnar og framkvæmdaleyfis
9. Fundargerð 25. fundar skipulags og hverfisnefndar frá 09.04.2024
     9.1 Þórshafnarland NA vegur um Brekknaheiði – tilkynning um eignarskerðinga
     9.2 Bókum frá 25. fundi skipulags- og umhverfisnefndar
10. Fundargerð 14. fundar atv- og nýsköpunarnefndar frá 09.04.2024
     10.1 Bókun frá 14. fundi atv- og nýsköpunarnefndar
11. Fundargerð 16. fundar velferðar- og fræðslunefndar 11.04.2024
12. Fundargerð 6. fundar landbúnaðar og dreifbýlisnefndar 10.04.2024
     12.1 Bókun frá fundi landbúnaðar- og dreifbýlisnefndar 10.04.2024
13. Erindi frá Yfirkjörstjón
14. Vinnutillaga að deiliskipulagi hafnarinnar á Þórshöfn ásamt greinargerð
15. Umsókn um framkvæmdaleyfi Eyrarvegur 3 – 12 fylling og farg ásamt teikningu og svari til skipulagsnefndar vegna framkvæmdanna. Niðurstaða verðkönnunar vegna þessa verkhluta.
     15.0 Umsókn um framkvæmdaleyfi
     15.01 10551 verðkönnun, verklýsing
     15.2 Minnisblað verklýsing dýpkun hafnarsvæðið
     15.3 Svar við spurningum skipulags- og umhverfisnefndar frá 22. fundi nefndarinnar.
     15.4 Teikning XX-1-10-1-01
     15.5 Kostnaðarskipting framkvæmda og framkvæmdaþátta 20240412
     05.6 Langanesbyggð – fjárhagsáætlun 2024 viðauki.
16. Samningur um barnaverndarþjónustu sveitarfélaga í Þingeyjarsýslu viðAkureyrarbæ, 2. umræða.
17. Skýrsla um stjórnsýsluendurskoðun fyrir árið 2023 – drög
18. Leiga á Þórsveri – Lyngholt, drög að samningi um leigu
19. Minnisblað frá Umhverfisfulltrúa
20. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Fyrri umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2023

Sveitarstjóri fór yfir ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2023 og svaraði spurningum.

Bókun um afgreiðslu: Ársreikningi vísað til seinni umræðu í sveitarstjórn 2. maí næstkomandi.

Samþykkt samhljóða.

2. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 945 frá 28.02.2024
Fundargerðin lögð fram

3. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 946 frá 15.03.2024
Fundargerðin lögð fram

4. Fundargerð 61. fundar stjórnar SSNE frá 19.03.2024
Fundargerðin lögð fram

5. Fundargerð 62. Fundar stjórnar SSNE frá 03.04.2023
Fundargerðin lögð fram

6. Fundargerð 23. fundar byggðaráðs frá 04.04.2024   
     06.1 Bókanir byggðaráðs

7. Fundargerð 24. fundar skipulags- og umhverfisnefndar, aukafundar frá 20.03.2024   
     07.1 Bókun nefndarinnar vegna vinnutillögu deiliskipulags hafnarinnar og framkvæmdaleyfis.

Byggðaráð fól sveitarstjóra að leggja fram viðauka við fjárhagsáætlun við meðferð málsins í sveitarstjórn samkvæmt þeirri kostnaðaráætlun sem liggur fyrir. Sveitarstjóra og oddvita var falið að gera samkomulag við Ísfélag á grundvelli kostnaðaráætlunar um endanlega skiptingu kostnaðar við allt verkið áður en framkvæmdaleyfið verði gefið út.

Málið tekið fyrir í heild sinni undir 15. lið fundarins.

Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerð 8. fundar hafnarnefndar frá 26.03.2024
     08.1 Bókun nefndarinnar vegna vinnutillögu deiliskipulags hafnarinnar og framkvæmdaleyfis

Fundargerðin lögð fram.

Bókum um afgreiðslu: Sveitarstjórn tekur undir bókun hafnarnefndar og mun koma á framfæri tillögu nefndarinnar um að Ísfélag taki þátt í þeim kostnaði sem fellur til vegna færslu upptökubrautarinnar.

Samþykkt samhljóða.

9. Fundargerð 25. fundar skipulags og hverfisnefndar frá 09.04.2024
     9.1 Þórshafnarland NA vegur um Brekknaheiði – tilkynning um eignarskerðingar (4. liður).
     9.2 Bókanir frá 25. fundi skipulags- og umhverfisnefndar (1 liður – sjá afgreiðslu máls í nefndinni undir 14 lið í fundargerð hér á eftir).

Fundargerðin lögð fram.

Vegagerðin hefur með meðfylgjandi bréfi tilkynnt um eignaskerðingar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við NA veg um Brekknaheiði í landi Þórshafnarlands, Staðarsels og Sóleyjarvalla í landi Langanesbyggðar. Einnig um fyrirhugaða efnistöku. Bréf Vegagerðarinnar felur í sér afsal lands vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Bókun undir liðnum 9.2 er til afgreiðslu undir 14. lið fundargerðarinnar þar sem fjallað er um „Tillögu að deiliskipulagi hafnarinnar á Þórshöfn ásamt greinargerð“.

Til máls tóku: Júlíus, oddviti, Júlíus, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Vegna 4. liðar í fundargerðinni. Sveitarstjórn samþykkir óskir um eignaskerðingar sem koma fram í bréfi Vegagerðarinnar og samþykkir þar með að afsala sér því landi sem kemur fram í bréfinu.

Samþykkt samhljóða.

10. Fundargerð 14. fundar atv- og nýsköpunarnefndar frá 09.04.2024
      10.1 Bókun frá 14. fundi atv.- og nýsköpunarnefndar

Fundargerðin lögð fram.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn tekur undir óskir nefndarinnar um veitingastað á Þórshöfn en bendir á að það er ekki í verkahring sveitarfélagsins að reka veitingahús. Undir 18. lið er tekin fyrir beiðni frá gisti- og veitingahúsinu Lyngholt um leigu á Þórsveri til að reka þar veitingahús.

Samþykkt samhljóða.

11. Fundargerð 16. fundar velferðar- og fræðslunefndar 11.04.2024
Fundargerðin lögð fram

12. Fundargerð 6. fundar landbúnaðar og dreifbýlisnefndar 10.04.2024
Bókun frá fundi landbúnaðar- og dreifbýlisnefndar 10.04.2024

Fundargerðin lögð fram.

Vegagerðin hefur lagt fram drög að samningi um uppsetningu á girðingu samhliða framkvæmdum við NA veg yfir Brekknaheiði. Landbúnaðar- og dreifbýlisnefnd hefur bókað andstöðu sína við samninginn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn tekur undir með landbúnaðar- og dreifbýlisnefnd um að hafna þeim samningsdrögum sem liggja fyrir. Sveitarstjóra falið að koma afgreiðslu sveitarstjórnar á framfæri við Vegagerðina.

Samþykkt samhljóða.

13. Erindi frá yfirkjörstjórn
Yfirkjörstjórn fer fram á að í komandi forsetakosningum verði 3 kjörstaðir í Langanesbyggð. Grunnskólanum á Þórshöfn, í Svalbarðsskóla og á skólahúsinu á Bakkafirði.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir erindi yfirkjörstjórnar og mun tilnefna 3 fulltrúa í hverja undirkjörstjórn fyrir viðkomandi kjörstaði.

Samþykkt samhljóða.

14. Tillaga að deiliskipulagi hafnarinnar á Þórshöfn ásamt greinargerð.
EFLA hefur sent uppfærða tillögu að deiliskipulagi hafnarinnar á Þórshöfn ásamt greinargerð.
Skipulagsnefnd hefur lagt fram bókun um efnið (sjá lið 9.2).

Til máls tóku: Þorsteinn, sveitarstjóri, oddviti,

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og umhverfisnefndar að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi með þeim athugasemdum um texta sem koma fram í bókun nefndarinnar.

Atkvæðagreiðsla: Með bókun: Sigurður, Margrét, Gunnlaugur og Halldóra. Sitja hjá: Þorsteinn, Júlíus og Valgerður.

Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista sitja hjá í málinu þar sem ekki fylgir í gögnum fundarins uppfærður deiliskipulagsuppdráttur með teknu tilliti til athugasemda skipulagsnefndar. Einnig setja fulltrúar L-lista spurningamerki við tvennt annars vegar að byggingarreitur Ísfélagsins verði tæp 22.000 m2 sem er afar vel í lagt og að tryggja þarf að hægt sé að hafa nýja aðkomu á höfnina í gegnum lóðina Fjarðarvegur 4 þar sem húsnæði Bjsv. Hafliða stendur í dag.

15. Umsókn um framkvæmdaleyfi Eyrarvegur 3 – 12 fylling og farg ásamt teikningu og svari til skipulagsnefndar vegna framkvæmdanna. Niðurstaða verðkönnunar vegna þessa verkhluta.
Fyrir liggur beiðni frá Ísfélag hf. um framkvæmdaleyfi fyrir lítilli landfyllingu með því að varpa náttúrulega óvirku efni í sjó vegna opinnar landfyllingar/nýmyndun lands og fari Eyrarvegi 3 og 12 samkvæmt meðfylgjandi gögnum og verklýsingu.
     15.0 Umsókn um framkvæmdaleyfi Eyrarvegur 3-12 fylling og farg.
     15.1 Verðkönnun og verklýsing.
     15.2 Minnisblað verklýsing dýpkun hafnarsvæðis – fylling og fargi.
     15.3 Svör við fyrirspurn skipulags- og umhverfisnefndar frá 22. fundi nefndarinnar.
     15.4 Teikning XX-1-10-1-01.
     15.5 Kostnaðarskipting framkvæmda og framkvæmdaþátta 20240412.
     15.6 Viðauki við fjárhagsáætlun vegna framkvæmdanna.

Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Júlíus, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, Júlíus, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leiti að gefa út framkvæmdaleyfi samkvæmt beiðninni og felur sveitarstjóra að gefa það út f.h. sveitarfélagsins. Einnig heimilar sveitarstjórn sveitarstjóra að undirrita verksamninga samkvæmt framlögðum gögnum og verðkönnun við Skútaberg ehf. að fjárhæð kr. 79.254.563.- m/vsk.
Sveitarfélagið leggur áherslu á samstarf Ísfélags hf., sveitarfélagsins og verktaka á framkvæmdatímanum með skipan hóps sem hefur yfirsýn yfir verkið á framkvæmdatímanum. Ennfremur er leyfið veit með eftirfarandi fyrirvörum:

a) Að lóðirnar sem verða til við fyllingu verða afhentar í því ástandi sem þær eru og ber hvort aðili um sig ábyrgð á þeim hluta lóða sem kemur í þeirra hlut.
b) Að verði breytingar á framkvæmdinni sjálfri, einingarverðum eða magni munu aðilar endurskoða áætlanir varðandi kostnað áður en lagt er í viðkomandi framkvæmdir og hugsanlegar breytingar á framkvæmdinni sjálfri og ná samkomulagi um þær.
c) Hámark þess hlutar sem tilgreindur er í lið 4 í tilboðsskrá sem „Tímagjald“ verði eins og segir í henni kr. 5.810.000.-
d) Aðilar vinni saman að því að fá þann hlut sem gert er ráð fyrir lögum samkvæmt frá Vegagerðinni til framkvæmdarinnar. Við samþykkt framkvæmdaleyfis liggur fyrir vilyrði frá Vegagerðinni um 10 m.kr. framlag vegna dýpkunar.

Atkvæðagreiðsla: Með bókun; Sigurður, Margrét, Gunnlaugur, Halldóra. Sitja hjá: Þorsteinn, Júlíus og Valgerður.

Bókun fulltrúa L-lista: Skv. bókun byggðaráðs dags. 4 apríl sl. ætti að liggja fyrir samkomulag við Ísfélagið um verkið áður en framkvæmdarleyfi verður gefið út. Það liggur ekki fyrir í gögnum fundarins og þar að leiðandi geta fulltrúar L-lista ekki samþykkt umbeðið leyfi fyrir sitt leyti. Einnig er það mat fulltrúa L-lista að auglýsingarferli á nýju samþykktu deiliskipulagi þurfi að klárast áður en framkvæmdar- og eða byggingarleyfi er gefið út. Í því ferli geta komið athugasemdir sem erfitt er að leysa ef framkvæmdir eru hafnar á svæðinu.

16. Samningur um barnaverndarþjónustu sveitarfélaga í Þingeyjarsýslu viðAkureyrarbæ, 2. umræða.
Samningur um barnaverndarþjónustu við Akureyrarbæ – seinni umræða.

Vegna fámennis hafa sveitarfélögin í Þingeyjarsýslu þurft að leita eftir samningi við Akureyrarbæ um barnaverndarþjónustu. Fyrirliggjandi er meðfylgjandi samningur sem þarfnast 2ja umræðna í sveitarstjórn. Ekki er gert ráð fyrir umtalsverðum kostnaðarauka þó það liggi ekki

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.

Samþykkt samhljóða.

17. Skýrsla um stjórnsýsluendurskoðun fyrir árið 2023
Drög að stjórnsýsluendurskoðun fyrir árið 2023 liggja fyrir frá Endurskoðunarsviði KPMG. Niðurstöður eru þessar:
a) Gerð er athugasemd við að hækkun fráveitugjalds hafi ekki verið birt í B-deild stjórnartíðinda. Bætt hefur verið úr þessu og gjaldskráin send til birtingar.
b) Sveitarstjóri á að sjá til þess að álagningarprósentur verði bókaðar framvegis með skýrum hætti. Bætt verður úr því við gerð fjárhagáætlunar fyrir árið 2025.
c) Endurskoðandi ítrekar að tímasetningar viðauka við fjárhagsáætlun eigi að vera í samræmi við fjárhagsáætlun. Bætt hefur verið úr þessu frá 2022 en endurskoðandi ítrekar að viðaukar eigi að fylgja samþykkt á breytingum á fjárhagsáætlun.
d) Í fyrri endurskoðun fyrir árið 2022 var gerð athugasemd vegna 50 gr. samþykkta sveitarfélagsins. Við núverandi endurskoðun hafði verið brugðist við þessu en auglýsingin var ekki birt fyrr en eftir að endurskoðunin fór fram. Því hefur verið brugðist við þessari athugasemd að fullu.

Stjórnsýsluendurskoðunin lögð fram

18. Leiga á Þórsveri – Lyngholt, drög að samningi um leigu.
Fyrir liggur beiðni frá eigendum Lyngholts um leigu á Þórsveri til reksturs kaffihúss og veitingastaðar. Sveitarstjórn fól sveitarstjóra á fundi sínum 27.03.2024 að gera drög að samkomulagi sem nú liggja fyrir.

Til máls tóku: Þorsteinn, sveitarstjóri, Halldóra, Þorsteinn, oddviti, sveitarstjóri, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samningsdrögin og felur sveitarstjóra að ljúka samningum með eftirfarandi breytingum: a) í 5. grein komi orði „skriflegt“ fyrir framan samkomulag í 3ju línu. b) í lok 5 greinar komi eftirfarandi viðbót: og liggi uppgjör fyrir ekki sjaldnar en árlega fyrir októberlok. c) Upphæð í annarri grein verði: 2.400.000 á ári. d) við fyrstu grein bætist; verði samningi sagt upp einhliða er uppsagnarfrestur 6 mánuðir. Sveitarstjóra er falið að taka tillit til annarra breytinga sem fram komu á fundinum.

Samþykkt samhljóða.

19. Minnisblað frá Umhverfisfulltrúa Langanesbyggðar.
Umhverfisfulltrúi hefur lagt fram minnisblað til sveitarstjóra með ósk um að fá að sækja ráðstefnu í Munchen í Þýskalandi sem fjallar um „tækniþróun og loftslagsmál“ í víðu samhengi. Sveitarstjóri hefur lagt mat á hugsanlegan árangur af slíkri ferð miðað við kostnað og er fylgjandi því að veita leyfi til farar. Engu að síður er óskað eftir áliti sveitarstjórnar.

Erindið lagt fram.

Til máls tóku: Sveitarstjóri, Þorsteinn, oddviti, Halldóra.

20. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. Oddviti og ágæta sveitarstjórnarfólk.

Við höfum staðið í ströngu í dag þannig að ég ætla ekki að teygja mikið lopann. Langþráð skýrsla frá orkuráðuneytinu leit dagsins ljós og verður forvitnilegt að skoða hana ofan í kjölinn.

Við fengum kynningu á stöðu mála varðandi Finnafjarðarverkefnið sem, að því er virðist þokast hægt áfram í dag, sérstaklega eftir að við fengum starfsmann í innviðaverkefni sem hefur unnið ötullega í ýmsum málum.

Stór mál voru til umfjöllunar í sveitarstjórn og ber þar auðvitað hæst fyrri umræðu um árs- og samstæðureikning. Það er ánægjulegt að sjá að jákvæð þróun fjármála heldur áfram og niðurstaða í lang flestum tilfellum umfram áætlanir, sama hvaða lykiltölur eru bornar saman. Við héldum að okkur höndum í fyrra í fjárfestingum og viðhaldi á meðan mesta holskeflan reið yfir í efnahagsmálum, tókum engin lán en greiddum niður skammtíma bankalán og langtímalán samkvæmt áætlun. Við vitum hinsvegar að þessi verkefni fara ekki neitt og við þurfum að takast á við þau þó síðar verði. Að öðru leiti fórum við vel yfir tölur við þessa fyrstu umræðu og ekki ástæða að svo stöddu að fjalla mikið um það fyrr en við síðari umræðu.

Breytingar á aðal- og deiliskipulagi hafnarinnar hafa verið fyrirferðarmiklar í nefndum og ráðum sveitarfélagsins eða allt frá því að ósk kom fram frá Ísfélaginu síðari hluta árs 2022, um stækkun sem gerir ráð fyrir um 4200 m2 fyllingu með 13500 m3 af efni bæði úr höfninni og aðfluttu efni. Allar miða þessar breytingar að því að koma til móts við þarfir Ísfélags fyrir meira rými vegna stækkunar bygginga og athafnasvæðis. Það er óhjákvæmilegt að slík framkvæmd hafi í för með sér röskun á ýmissi starfsemi við höfnina og má þar nefna færslu smábátahafnar, krana og olíudælu og hugmyndir um nýja aðkomu. Höfnin dýpkar með því að sækja efni í höfnina sjálfa og það hefur í för með sér enn meira rask að ná í það efni.

Dráttur á afgreiðslu fjármálaáætlunar og þar með samgönguáætlunar á Alþingi veldur því að við höfum fátt fast í hendi hvað varðar þessa framkvæmd frá Vegagerðinni né í veginn yfir Brekknaheiði en útboð hennar bíður á meðan.

Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að vera langorður að þessu sinni þó fullt tilefni sé til. En ég má til með að minnast á harðvítugar deilur sem fara eins og eldur í sinu um okkar litla samfélag og teygja angan sína víða. Ýmsar óstaðfestar sögur ganga um samfélagið sem til að mynda ég, sem hef einungis búið hér í þrjú og hálft ár fæ ekki nema takmarkaða mynd af og veit ekki af hverju stafa. Ég brást þó við þegar mér bárust til eyrna alvarlegar ásakanir á hendur starfsfólki sveitarfélagsins og gamli rannsóknar blaðamaðurinn vaknaði upp og fór að rekja málin. Í stuttu máli var niðurstaðan sú, að ekki var flugufótur fyrir þessum ásökunum. En þetta eitraða andrúmsloft skaðar okkur öll því þessu fylgir slæmt orðspor. Orðstýr er eitt það dýrmætasta sem hver manneskja, fyrirtæki og stofnanir eiga og deilur, ásakanir og rógur smitast inn í alla kima samfélagsins, jafnvel frjáls félagasamtök. Það er einlæg ósk mín að við vinnum saman, tölum saman og ræktum heilbrigt, rólegt og fallegt samfélag – það var það samfélag sem ég féll fyrir þegar ég kom hingað á sínum tíma.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:12

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?