Fara í efni

26. fundur sveitarstjórnar

22.02.2024 14:00

Fundur í sveitarstjórn

26. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 22. febrúar 2024. Fundur settur kl. 14:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Þorsteinn Ægir Egilsson, Hjörtur Harðarson, Margrét Guðmundsdóttir, Júlíus Sigurbjartsson, Valgerður Sæmundsdóttir, Helga Guðrún Henrýsdóttir, Björn S. Lárusson og Svala Sævarsdóttir sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki svo gengið var til dagskrár.

D a g s k r á

1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 942 frá 26.01.2024
2. Fundargerð 60. fundar stjórnar SSNE frá 07.02.2024
3. Fundur fulltrúarráðs Héraðsnefndar Þingeyinga nr. 19 frá 29.01.2024
4. Fundargerð 21. fundar byggðaráðs frá 08.02.2024
     4.1 Jarðvinna við Háholt verðkönnun
     4.2 Jarðvinna kostnaðaráætlun
     4.3 Drög að samningi við HSN um hjúkrun á Nausti
     4.4 Drög að samningi við HSN um læknaþjónustu á Nausti
     4.5 Útreikningur á kostnaði við þjónustu HSN
     4.6 Eldri samningur frá 2021
     4.7 Samningur við ISAVIA frá 2021
     4.8 Minnisblað sveitarstjóra vegna samnings við ISAVIA
     4.9 Erindi frá smábátafélaginu Fonti – vísað til sveitarstjórnar.
     4.10 Frumvarp til laga um veiðistjórn á grásleppu.
5. Fundargerð 22. fundar skipulags og umhverfisnefndar 13.02.2024
     5.1 Drög að samningi við On um rafbílahleðslur á Þórshöfn og Bakkafirði
6. Fundargerð 13. fundar velferðar og fræðslunefndar 24.01.2024
7. Fundargerð 14. fundar velferðar- og fræðslunefndar 19.02.2024
8. Fundargerð 7. fundar hafnarnefndar 30.01.2024
     8.1 Bókanir hafnarnefndar vegna tillögu að breytingum á höfninni á Þórshöfn og vegna bréfs Ísfélagsins vegna fráveitu.
9. Fundargerð 11. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar 23.01.2024
     9.1. Bókun atvinnu- og nýsköpunarnefndar vegna hugsanlegrar friðunar á Langanesi
10. Fundargerð 12 fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar 13.02.2024
11. Skýrsla um starfsstöð í náttúrurannsóknum við Bakkafjörð
12. Erindi til sveitarstjórnar vegna Ungmennaráðs Langanesbyggðar
13. Orkukostnaður heimila árið 2022 – skýrsla frá Byggðastofnun
14. Lánasjóður sveitarfélaga, auglýsing eftir framboðum
15. Drög að umsögn um reglugerð um sjálfgæra landnýtingu mál 3/2024
16. Samþykktir Langanesbyggðar frá 7.11.2022 – breyting 2024 önnur umræða.
17. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 942 frá 26.01.2024
Fundargerðin lögð fram

2. Fundargerð 60. fundar stjórnar SSNE frá 07.02.2024
Fundargerðin lögð fram

3. Fundur fulltrúaráðs Héraðsnefndar Þingeyinga nr. 19 frá 29.01.2024
Fundargerðin lögð fram

4. Fundargerð 21. fundar byggðaráðs frá 08.02.2024
     4.1 Jarðvinna við Háholt verðkönnun
     4.2 Jarðvinna kostnaðaráætlun
BJ vinnuvélar hafa lagt fram verð í að jarðvegsskipta á lóð sorpmóttökustöðvar við Háholt 4. Verðið er undir kostnaðaráætlun.

Til máls tók Björn S. Lárusson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að ganga til samninga við BJ vinnuvélar um verkið.

Samþykkt samhljóða.

     4.3 Drög að samningi við HSN um hjúkrun á Nausti
     4.4 Drög að samningi við HSN um læknaþjónustu á Nausti
     4.5 Útreikningur á kostnaði við þjónustu HSN
     4.6 Eldri samningur frá 2021
HSN hefur lagt fram nýja samninga vegna þjónustu hjúkrunarfræðinga og lækna um þjónustu við hjúkrunarheimilið Naust. Samningarnir eru tilkomnir þar sem ekki er starfandi hjúkrunarfræðingur á Nausti og vegna uppfærslu á launaliðum.

Til máls tók Björn S. Lárusson.

Bókun um afgreiðslu: Velferðar- og fræðslunefnd frestaði málinu á síðasta fundi sínum 19.02.2024. Málinu frestað þar til velferðar- og fræðslunefnd hefur farið yfir málið og gefið umsögn um það.

Samþykkt samhljóða.

4.7 Samningur við ISAVIA frá 2021  
     4.8 Minnisblað sveitarstjóra vegna samnings við ISAVIA
Til stendur að bjóða út flug til Þórshafnar þar sem núverandi samningur við Norland Air rennur út um áramót. Samningur Langanesbyggðar og ISAVIA gildir hinsvegar til 2026.

Til máls tók Björn S. Lárusson.

Bókun um afgreiðslu: Vegna breytinga á flugi sem urðu árið 2022 er rétt að fara í viðræður við ISAVIA um endurskoðun á samningnum, þannig að kostnaður við hann mæti tekjum af honum. Við breytingarnar sem urðu 2022 jókst næturvinna flugumsjónarmanna á kostnað dagvinnu áður.

Samþykkt samhljóða.

4.9 Erindi frá smábátafélaginu Fonti – vísað til sveitarstjórnar. 
     4.10 Frumvarp til laga um veiðistjórn á grásleppu.
Málinu er vísað til sveitarstjórnar aftur eftir fund með smábátaeigendum og umfjöllun í byggðaráði.

Til máls tók Þorsteinn Ægir og lagði fram eftirfarandi bókun og tillögu:

Bókun fulltrúa L-lista: Engin fiskvinnsla keypti grásleppu til vinnslu í sveitarfélaginu síðasta fiskveiðiár og er ekki sjáanleg breyting á því. Fjölmargir kvótalitlir/lausir grásleppubátar höfðu nýtt grásleppu sem mótframlag til byggðakvóta fram að því og vilja fulltrúar L-lista styðja við bakið á hnignandi smábátaútgerð með þessari breytingu.

Tillaga fulltrúa L-lista: Tillagan snýr að breytingu á löndunarskyldu eða vinnsluskyldu (ákvæði 6. gr.)
Þrátt fyrir ákvæði 6.gr. skal grásleppa sem landað er í sveitarfélaginu undanþegin vinnsluskyldu, ekki þarf vinnslusamning vegna þeirrar tegundar og telst vigtun til byggðakvóta á hafnarvog í Langanesbyggð nægjanleg til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar um vinnsluskyldu.

Til máls tóku Sigurður Þór og Þorsteinn Ægir.

Tillaga L-lista samþykkt með atkvæðum Þorsteins, Júlíusar og Valgerðar. Á móti, Sigurður, Margrét og Hjörtur. Helga Guðrún sat hjá. Tillagan felld á jöfnu.

Tillaga að afgreiðslu: Sveitarstjórn mun ekki leggja til frekari breytingar á reglum um byggðakvóta. En hvetur bréfritara til að beita sér í þágu þess að vinnsla á grásleppu verði til staðar í byggðarlaginu. Jafnframt felur sveitarstjórn, sveitarstjóra að boða til opins umræðufundar um byggðakvóta í október næstkomandi, með sveitarstjórn til að ræða tillögur komandi fiskveiðiárs.

Samþykkt af Sigurði, Margréti og Hirti. Á móti Þorsteinn, Valgerður og Júlíus. Helga Guðrún sat hjá. Tillagan felld á jöfnu.

Til máls tók Þorsteinn Ægir og lagði fram eftirfarandi tillögu: Þar sem ekki er samstaða í sveitarstjórn er málinu vísað til næsta reglubundna sveitarstjórnarfundar.

Samþykkt samhljóða.

5. Fundargerð 22. fundar skipulags og umhverfisnefndar 13.02.2024   
     5.1 Drög að samningi við On um rafbílahleðslur á Þórshöfn og Bakkafirði
Verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar hefur leitað eftir samningum við þau félög sem sett hafa upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla. On svaraði strax með tilboði sem er grundvöllur meðfylgjandi samnings en önnur fyrirtæki ekki fyrr en samningur lá fyrir við ON. Þar er gert ráð fyrir alls 10 hleðslustöðvum, þar af tvær hraðhleðslustöðvar (DC) á Þórshöfn og 8 svokölluðum AC hverfastöðvum á Þórshöfn og á Bakkafirði. Á 12. fundi atvinnu- og nýsköpunarnefndar komu fram þau sjónarmið að nefndinni þætti miður að ekki skuli komið upp hraðhleðslustöð á Bakkafirði en mælir að öðru leiti með samþykki samningsins.

Til máls tók Björn S. Lárusson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn og felur sveitarstjóra að undirrita hann. Sveitarstjórn fer jafnframt fram á það við sveitarstjóra að hann komi á framfæri við ON skoðun atvinnu- og nýsköpunarnefndar.

Samþykkt samhljóða.

6.Fundargerð 13. fundar velferðar og fræðslunefndar 24.01.2024
Í 4 lið fundargerðar nefndarinnar er vakin athygli á því að engin forvarnastefna sé til hjá sveitarfélaginu. Nefndin bókaði mikilvægi þess að mótuð verði forvarnar og lýðheilsustefna og sett verði í það fjármagn.

Til máls tók Þorsteinn Ægir og lagði fram eftirfarandi tillögu:

Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista fagna því skrefi sem á að taka hér í dag að móta forvarnar- og lýðheilsustefnu fyrir sveitarfélagið enda okkar staðfasta skoðun að slíkar stefnur eiga að vera til.

Fulltrúar L-lista hafa lagt fram margar tillögur er snúa að að lýðheilsumálum í sveitarfélaginu á þessu kjörtímabili. Taka má dæmi frá síðustu fjárhagsáætlanagerð fyrir árið 2024 en í þeirri vinnu lagði L-listi fram tillögur um viðhald á íþróttahúsi, að ráðið yrði í starf iðjuþjálfa, að ráðið yrði í starf íþrótta- og tómstundarfulltrúa og síðast en ekki síst að hefja vinnu við gerð lýðheilsustefnu. Öllum þessum tillögum var hafnað af meirihluta.
Það að hafna góðum tillögum eingöngu út frá því hver leggur þær fram er ekki ávísum á samvinnu í sveitarstjórn eins og fulltrúum meirihluta var tíðrætt í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga að þyrfti að vera. Þetta er heldur ekki ávísun á góða stjórnsýslu eða stjórnunarhætti.

Til máls tóku Þorsteinn Ægir, Sigurður Þór og Björn S. Lárusson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið í samvinnu við HSAM hóp og velferðar- og fræðslunefndar að vinna að forvarnar- og lýðheilsustefnu fyrir sveitarfélagið.

Samþykkt samhljóða.

7. Fundargerð 14. fundar velferðar- og fræðslunefndar 19.02.2024
Fundargerðin lögð fram

8. Fundargerð 7. fundar hafnarnefndar 30.01.2024
     7.1 Bókanir hafnarnefndar vegna tillögu að breytingum á höfninni á Þórshöfn og vegna bréfs Ísfélagsins vegna fráveitu.
Í viðræðum við Ísfélagið um hugsanlega breytingu á deiliskipulagi hafnarinnar á Þórshöfn hefur verið myndaður viðræðuhópur, samkvæmt samþykkt sveitarstjórnar, þar sem einn fulltrúi frá skipulagsnefnd og einn fulltrúi frá hafnarnefnd hafa fundað með forsvarsmönnum Ísfélagsins ásamt sveitarstjóra. Fulltrúar beggja nefnda hafa komið á framfæri athugasemdum og tillögum frá sínum nefndum í viðræðunum.

Fundargerðin lögð fram.

9. Fundargerð 11. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar 23.01.2024 
     9.1. Bókun atvinnu- og nýsköpunarnefndar vegna hugsanlegrar friðunar á Langanesi.
Í C lið undir „Önnur mál“ skorar nefndin á sveitarstjórn að vinna markvisst að máli er varða friðun Langaness.

Fundargerðin lögð fram

10. Fundargerð 12 fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar 13.02.2024
Fundargerðin lögð fram – sjá bókun undir 5. lið er varðar rafbílahleðslur.

11. Skýrsla um starfsstöð í náttúrurannsóknum við Bakkafjörð
Skýrslan lögð fram til kynningar

12. Erindi til sveitarstjórnar vegna Ungmennaráðs Langanesbyggðar
Ungmennaráð hefur ritað sveitarstjórn og öllum nefndum og ráðum sveitarfélagsins þar sem það minnir á hlutverk sitt.

Erindið lagt fram.

Til máls tók Þorsteinn Ægir og lagði fram eftirfarandi bókun:

Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista þakka Ungmennaráði fyrir bréfið og hvetur fulltrúa ráðsins til að halda áfram að senda sveitarstjórn erindi.

13. Orkukostnaður heimila árið 2022 – skýrsla frá Byggðastofnun
Skýrsla Byggðastofnunar frá 2022 um orkukostnað heimila.

Skýrslan lögð fram til kynningar

14. Lánasjóður sveitarfélaga, auglýsing eftir framboðum
Kjörnefnd LS óskar eftir tilnefningum um framboð til stjórnar sjóðsins.

Bréf LS lagt fram.

Til máls tók Þorsteinn Ægir og lagði fram eftirfarandi bókun:
Bókun fulltrúa L-lista: Hér er lögð fram auglýsing frá Lánasjóðnum sem er dagsett 30 janúar og óskað eftir tilnefningum í stjórn sjóðsins. Í auglýsingunni kemur fram að óskað sé eftir tilnefningum eða framboðum í síðasta lagi fyrir kl. 12 miðvikudaginn 21 febrúar.
Fulltrúar L-lista gera athugasemdir við að auglýsingin sé lögð fram hér í dag, degi eftir að hægt er að tilnefna eða skila inn framboðum. Fundur var haldin byggðaráði 8 febrúar og því hefði þetta átt að vera kynnt á þeim fundi. Einnig hefði verið hægt að senda kjörnum fulltrúum tölvupóst og upplýst um málið.

Til máls tók Björn S. Lárusson

15. Drög að umsögn um reglugerð um sjálfbæra landnýtingu mál 3/2024.
Lögð fram drög að umsögn um reglugerð um sjálfbæra landnýtingu sem er í samráðsgátt stjórnvalda, mál 3/2024

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að koma umsögninni á framfæri í samráðsgátt stjórnvalda.

Samþykkt samhljóða.

16. Samþykktir Langanesbyggðar frá 7.11.2022 – breyting 2024. Önnur umræða.
Samkvæmt stjórnsýsluendurskoðun 2023 er lögð fram tillaga að breytingum á samþykktum Langanesbyggðar er varða 50. grein samþykktanna, þ.e. 4. lið B, 1. og 3. lið C, og bætt er við liðum 8, 9 og 10 við lið C. Þessar tillögur varða allar breytingar í þá átt að endurspegla þær nefndir sem starfa á vegum sveitarfélagsins, fjölda fulltrúa og varafulltrúa.

Til máls tók Björn Lárusson

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir þær breytingar sem lagðar eru til.

Samþykkt samhljóða.

17. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. Oddviti og ágæta sveitarstjórnarfólk.

Framkvæmdum við Naustið miðar vel eftir nokkra hnökra i byrjun einkum vegna tregðu í innkaupum á aðföngum þar sem valdar byggingavörur voru ekki til afgreiðslu á þeim tíma sem þurfti og nokkrar breytingar þurfti að gera einkum vegna brunavarna og nokkurra óvæntra atvika. Nú er framkvæmdin sjálf á áætlun og af upphaflegum kostnaði upp á rúmlega 121 milljón króna með ófyrirséðu er nú búið að leggja rúmlega 30 milljónir í framkvæmdina. Áætlað er að henni ljúki 17. júní í sumar.

Með samþykkt samnings við BJ vinnuvélar um jarðvegsskipti á lóðinni Háholt 4 má segja að framkvæmdir þar séu formlega hafnar við að reisa sorpmóttökustöð hér á Þórshöfn. Verkönnun var nokkurn veginn sama upphæð og útreikningar hönnuðar sýndu. Húsið sem við höfum fest kaup á er væntanlegt um mánaðarmótin apríl og maí og næsta verk er að fara í verðkönnun á gerð sökkla og plötu undir húsið sem á að vera tilbúið þegar húsið kemur.

Önnur framkvæmd sem við þurfum fljótlega að fara í er gerð bílastæðis fyrir 20 bíla fyrir ofan Kjörbúðina og neðan við Naust. Þó ótrúlegt megi virðast í augum sumra, er töluverður skortur á bílastæðum í miðbæ Þórshafnar. Hér eru þó nokkur fyrirtæki og stofnanir s.s. Kjörbúðin, skrifstofa Langanesbyggðar, 3 íbúðir og ÁTVR og ekki síst er skortur á stæðum við Naustið en þetta stæði er einmitt ætlað starfsfólki og gestum þar einnig. Gerður verður göngustígur frá stæðinu að Nausti. Af þessum 20 bílastæðum verða 4 frátekin fyrir tvær hraðhleðslustöðvar sem ON mun koma fyrir þegar þau verða tilbúin. Skipta þarf um jarðveg á stæðinu og setja þar burðarlag áður en það verður malbikað eða sett á það olíumöl.

Þessar framkvæmdir við sorpmóttökustöðina og bílastæðið kalla á malbikun innan tíðar eða í það minnsta lagningu bundins slitlags með olíumöl á bílastæðið og helst að leggja bundið slitlag um leið á Bakkaveg sem er orðinn mjög illa farinn og nýju götuna við Markholt. Reynar eru fleiri götur farnar að láta mjög á sjá en ég nefni engin götunöfn til að skapa ekki væntingar um hvernig við röðum slíkum framkvæmdum niður. Það fer allt eftir ástandi þeirra gatna sem um ræðir.

Stjórnsýsluendurskoðun fór fram þann 31 janúar s.l. en engar alvarlegar athugasemdir komu fram en skýrsla verður send innan tíðar. Ég hef að undanförnu verið að fara yfir fundargerðir nefnda, hópa og verkfundargerðir og notaði tækifærið og ræddi þetta við þann lögmann sem gerði stjórnsýsluúttektina. Að hennar sögn er almenna reglan sú að allar fundargerðir fastanefnda og starfs- og vinnuhópa (nema þeirra sem starfa tímabundið) skal birta jafn óðum á heimasíðu sveitarfélagsins eða eins fljótt og verða má eftir að fundi lýkur. Sú skoðun hefur verið viðruð, að fundargerðir eigi ekki að birta fyrr en fjallað hefur verið um þær í sveitarstjórn en það er ekki almenna reglan að sögn endurskoðanda. Athugasemdir hafa komið fram um að sumar fundargerðir, einkum verkfunda og hópa sem funda óreglulega hafi ekki verið lagðar fram eða seint og um síðir. Við yfirferð á fundargerðum þá kom í ljós að þær athugasemdir eiga fullan rétt á sér og eftir gott samtal í tengslum við stjórnsýsluendurskoðun er það niðurstaðan, í samræmi við samþykktir sveitarfélagsins að allar fundargerðir fastanefnda eru lagðar fyrir sveitarstjórn og liðir sem þurfa sérstakt samþykki eða umfjöllunar sveitarstjórnar eru teknir út sem sérstakur liður. Verkfundargerðir, fundargerðir HSAM hóps og aðalfundargerðir þeirra félaga sem eru í eigu sveitarfélagsins verða lagðar fyrir byggðaráð og ef ástæða þykir til teknar út sem sérstakur liður ef sveitarstjórnarmenn vilja fjalla um þær á fundum sveitarstjórnar. Það hefur verið misbrestur á þessu í gegn um tíðina og ekki verið að leita að sökudólgum í því sambandi heldur að móta eða hnykkja á reglum um birtingu og umfjöllun fundargerða. Svo er einnig spurning hvort við ættum að birta þau skjöl sem tilheyra hverjum fundi í lok fundargerða með tengli á þau en það er ekki skylda en mörg sveitarfélög hafa þá reglu.

Og þá er það stóra málið – nýtt deiliskipulag hafnarinnar. Í lok árs 2022 fór Ísfélag hf. fram á heimild til að láta vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðis Þórshafnar. Í stuttu máli þá ganga hugmyndir Ísfélagsins út á að búa til fyllingu fyrir m.a. byggingu frystiklefa, mjölgeymslu og fiskvinnsluhúss og stækkun athafnasvæðis. Þá eru hugmyndir um færslu smábátahafnar utar í höfnina vegna fyllingarinnar, dýpkun hafnarinnar, lengingu austur-vestur hafnargarðs og hugsanlega breytta aðkomu að höfninni. Hafnarnefnd, skipulagsnefnd og sveitarstjórn tók vel í erindið og fljótlega var farið í rannsóknir á vegum Vegagerðarinnar á öldumælingum í höfninni miðað við mismunandi aðstæður. Jafnframt var gerð skipulagslýsing að hugsanlegum breytingum. Rannsóknir voru gerðar á botni hafnarinnar til að skoða hvort efni úr henni nýttist við gerð fyllingar og voru niðurstöður jákvæðar. Ennfremur var gefið út leyfi til að rífa Salthúsið svokallaða fyrir sunnan Báruna þar sem stækkun frystiklefans náði yfir þá lóð. EFLA lagði fram grófar tillögur að breytingu á skipulaginu í upphafi þessa árs og sveitarstjórn fól skipulagsnefnd og hafnarnefnd að ræða frekar við Ísfélag um skipulagið. Þær viðræður hafa gengið vel en þar sem þessi breyting er ekki á samgönguáætlun þarf að leggja í töluverða vinnu til að fá þetta sett inn á áætlun þar sem hluti kostnaðar við þessar tillögur skiptist á milli ríkisins eða Vegagerðarinnar, Ísfélags og Langanesbyggðar. En það eru fleiri atriði sem hafa komið upp á síðustu dögum þar sem ætlunin var að nýta það sem hægt væri vegna niðurrifs Salthússins í fyllingu og farg á hana og ennfremur að nota efni sem kæmi upp úr höfninni við dýpkun í fyllingu.

Í byrjun vikunnar komu þau sjónarmið frá Umhverfisstofnun að hreinsa þyrfti steypu sem félli til við að rífa Salthúsið og að hreinsa yrði það efni sem kæmi upp úr höfninni ef nota ætti það í fyllingu. Hvernig ætti að gera það fylgdi ekki sögunni. Að öðrum kosti yrði að flytja 120 tonn af steypu til förgunar einhvers staðar því ekki er hægt að farga því á Bakkafirði og hvar á og má setja það efni sem kemur upp úr höfninni í sjó eða á landi. Í stuttu máli komu þessi sjónarmið okkur í opna skjöldu, og ekki bara okkur heldur heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og ráðgjafa okkar hjá SSNE sem hefur verið okkur til ráðgjafar í förgun og meðhöndlun sorps. Eftir samtal við Heilbrigðiseftirlitið þá segja þeir ekki stoð í lögum fyrir ítrustu kröfum og hafa beðið Umhverfisstofnun um rökstuðning. Ef til kemur, hvernig eigum við að fara að því að hreinsa steypuna og efnið sem kemur upp úr höfninni að undangenginni ítarlegri rannsókn á efninu sem US segir að þurfi að fara fram. Held að við eigum ekki til svo stórar þvottavélar, en að öllu gríni slepptu þá höldum ótrauð áfram þar til mál skýrast í þessu efni. Þetta hlýtur að skýrast sem fyrst.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:20

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?