Fara í efni

23. fundur sveitarstjórnar

14.12.2023 13:00

Fundur í sveitarstjórn

23. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 14. desember 2023. Fundur settur kl. 13:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Þorsteinn Ægir Egilsson, Gunnlaugur Steinarsson, Margrét Guðmundsdóttir, Mirjam Blekkenhorst, Júlíus Sigurbjartsson, Hjörtur Harðarson kemur undir lið 5., Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð, svo var ekki svo gengið til dagskrár.

D a g s k r á

1. Fundargerð Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 938 frá 24.11.2023
2. Fundargerð 19. fundar byggðaráðs frá 07.12.2023
     02.1 Ósk um hækkun á mótframlagi sveitarfélagsins í starfsmannasjóð 28.11.2023.
3. Hugsanleg ferð til Danmerkur til kynningar á stjórnsýslu sveitarfélaga í Danmörku.
4. Bréf til sveitarstjórnar Langanesbyggðar um starfsemi slökkviliðsins.
     03.1 Leiðbeiningar HMS um húsnæði slökkviðliða 18. Gr. 1.0
     03.2 Úttekt HMS á slökkviliði Langanesbyggðar
     03.3 Eftirlitsskýrsla Vinnueftirlitsins á slökkvistöð Langanesbyggðar
5. Bréf matvælaráðuneytisins um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2023-2024
     04.1 Leiðbeiningar um sérreglur byggðakvóta frá 01.12.2023
6. Samstarfssamingur við Wise um rafræna stjórnsýslu
     05.1 Verkefniságrip – aukin sjálfvirknivæðing sveitarfélagsins
7. Ályktun um friðlýsingu á Langanesi
8. Breyting á samningi við UMFL vegna minna vinnuframlags Langanesbyggðar
9. Drög að fundaplani fyrir árið 2024
10. Tillaga að breytingum á gjaldskrám fyrir árið 2024 á 21 fundi sveitarstjórnar
     10.1 Gatnagerðargj., stofngjald fráveitu, byggingaleyfisgj. og önnur þjónustugj. 2024
     10.2 Álagningarákvæði fasteignagjalda 2024
     10.3 Gjaldskrá slökkviliðs Langanesbyggðar 2024
     10.4 Gjaldskrá grunn- og leikskóla Langanesbyggðar 2024
     10.5 Gjaldskrá f. Geymslusvæði 2024
     10.6 Gjaldskrá sorphirðu og meðhöndlun úrgangs í Langananesbyggð 2024
     10.7 Gjaldskrá fyrir hunda- og kattahald 2024
     10.8 Gjaldskrá fyrir útleigu Þórsvers
     10.9 Gjaldskrá fyrir tjaldsvæðið á Þórshöfn 2024
     10.10 Gjaldskrá VER 2024
     10.11 Gjaldskrá fyrir Langaneshafnir 2024
     10.12 Gjaldskrá fyrir umsýslugjald utan geymslusvæða í Langanesbyggð 2024
11. Fjárhagsáætlun 2024 ásamt þriggja ára áætlun – Samantekið A og B hluti
11.0.1 Yfirlit sveitarsjóður A - hluti
11.0.2 Samantekt 2023 - útgönguspá
11.0.3 Samantekt 2024
11.0.4 Samantekt 2025
11.0.5 Samantekt 2026
11.0.6 Samantekt 2027

11.1. Bókanir og tillögur um breytingar á fjárhagsáætlun
11.1.1 Ósk um fjárframlag frá HSAM hópnum
11.1.2 Bókun skipulags- og umhverfisnefndar.
11.1.3 Bókun og tillaga um hundagerði á Þórshöfn. Kostnaður við hundagerði
11.1.4 Bókanir og tillaga um fjárfestingu í VER. Kostnaður við eftirlit með skemmdum á Íþróttahúsi
11.1.5 Bókun og tillaga um árshátíð starfsmanna

12. Tilnefning eins fulltrúa og eins varafulltrúa í stjórn Jarðasjóðs13. Tilnefning varamanns í yfirkjörstjórn
14. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Fundargerð Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 938 frá 24.11.2023
Fundargerðin lögð fram

2. Fundargerð 19. fundar byggðaráðs 07.12.2023   
     02.1 Starfsmannafélag – ósk um aukið mótframlag 28.11.2023

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að hækka mótframlagið úr kr. 2500 í kr. 3000.-

Samþykkt samhljóða.

3. Hugsanleg ferð til Danmerkur til kynningar á stjórnsýslu sveitarfélaga í Danmörku.
SSNE er að kanna áhuga sveitarstjórnarmanna á að fara til Danmerkur 4-7 mars 2024 til að kynnast stjórnsýslu danskra sveitarfélaga.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitastjórn samþykkir að taka þátt í fræðsluferðinni og senda áhugasama sveitarstjórnarmenn og einn starfsmann Langanesbyggðar. Sveitarstjórn óskar eftir að áhugasamir gefi sig fram til sveitarstjóra fyrir lok næstu viku.

Samþykkt samhljóða.

4. Bréf til sveitarstjórnar Langanesbyggðar um starfsemi slökkviliðsins.
Slökkviliðsstjóri hefur sent bréf til sveitarstjórnar um þær aðstæður sem slökkvilið Langanesbyggðar býr við ásamt leiðbeiningum HMS um húsnæði slökkviliða, úttekt HMS á húsnæði slökkviliðsins og eftirlitsskýrslu Vinnueftirlits.

04.1 Leiðbeiningar HMS um húsnæði slökkviðliða 18. Gr. 1.0
04.2 Úttekt HMS á slökkviliði Langanesbyggðar
04.3 Eftirlitsskýrsla Vinnueftirlitsins á slökkvistöð Langanesbyggðar

Til máls tóku: Sveitarstjóri, Þorsteinn, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn gerir ráð fyrir í 3ja ára áætlun að fjárfesta í betri aðstöðu fyrir slökkvilið og bæta þannig vinnuskilyrði slökkviliðsins og koma til móts við þær kröfur sem gerðar eru af HMS. Varðandi ábendingar um úrbætur á slökkvistöð sem Vinnueftirlitið bendir á, verður farið í það verkefni eftir þeim ábendingum fyrir þann frest sem gefin er í samvinnu forstöðumanns þjónustumiðstöðvar og slökkviliðsstjóra.

Samþykkt samhljóða.

Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista fagna því að í 3ja ára áætlun sé gert ráð fyrir fjárveitingu til að bæta aðstöðu slökkviliðsins sem og vinnuaðstöðu þeirra sem starfa hjá liðinu. Samhliða þessu ber að fagna því að tillaga fulltrúa L-lista frá síðasta fundi sveitarstjórnar, um að endurvekja vinnuhóp um nýja björgunarmiðstöð á Þórshöfn skv. viljayfirlýsingu þar um var samþykkt. Það er því einlæg von fulltrúa L-lista að vinna hópsins skili góðum niðurstöðum og að fulltrúar allra viðbragðsaðila á svæðinu finni sameiginlega lausn á framtíðaraðstöðu bráðaþjónustunnar á svæðinu.

5. Bréf matvælaráðuneytisins um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2023-2024
05.1 Leiðbeiningar um sérreglur byggðakvóta frá 01.12.2023

Gunnlaugur lýsir yfir vanhæfi og óskar eftir að víkja af fundi. Hjörtur Harðarson kemur inn sem varamaður.

Samþykkt samhljóða.

Tengill á tillögur Langanesbyggðar varðandi breytingar eru hér: Tillögur Langanesbyggðar

Matvælaráðherra hefur sent út bréf með úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2023-2024 ásamt leiðbeiningum um þær sérreglur sem gilda um úthlutunina.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn.

Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista leggja til breytingu á 7. greininni og að hún hljóði eins og sveitarstjórn samþykkti á 11 fundi sínum dags. 19.01.2023

Viðaukatillaga L-lista: Ákvæði 1. ml. 1. mgr. 7.greinar orðast þá svo: Fiskistofu er heimilt að úthluta aflmarki fiskiskips á grundvelli afla annars skips, sem skráð er í sama sveitarfélagi, og er í eigu sama lögaðila. 2. ml. 1. mgr. 7. greinar orðist svo: Jafnframt er heimilt að flytja rétt til úthlutunar aflamarks milli skipa, sem skráð er í sama sveitarfélagi, og er í eigu sama lögaðila.

Atkvæðagreiðsla með viðaukatillögu: Með: Þorsteinn, Mirjam, Júlíus. Á móti: Sigurður, Halldóra, Hjörtur, Margrét.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að senda eftirfarandi tillögu til matvælaráðuneytisins vegna sérstakra skilyrða fyrir úthlutun á byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2023/2024.

Samþykkt samhljóða.

6. Samstarfssamingur við Wise um rafræna stjórnsýslu
     05.1 Verkefniságrip – aukin sjálfvirknivæðing sveitarfélagsins

Gerð hafa verið drög að samstarfssamningi á milli Langanesbyggðar og Wise um að aðstoða við að koma skjalamálum og vinnslu mála í betra horf ásamt gerð staðlaðra rafrænna umsókna og eyðublaða fyrir sveitarfélagið og hins vegar samstarfi aðila að þróa hugbúnaðarlausnir og verklag til að ná fram marmiðum er snúa að skilvirkri stjórnsýslu og bættri þjónustu við íbúa. Nánari útfærsla samstarfsins verður skilgreind í verkefnalýsingum sem aðilar vinna saman og mun hún teljast hluti samkomulags þessa.

Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn og felur sveitarstjóra að undirrita hann.

Samþykkt samhljóða.

7. Ályktun um friðlýsingu á Langanesi

Sveitastjórn Langanesbyggðar ályktar svohljóðandi:

Það er eindregin vilji sveitastjórnar Langanesbyggðar að haldið verði áfram með vinnu við friðlýsingar á utan verðu Langanesi. Tilgangur þess er að;

1. Gæta að sérstöðu landsvæðisins sem náttúruvætti.
2. Gæta að menningarminjum og lands í lifandi nýtingu.
3. Tryggi aðgengi og öryggi þeirra sem heimsækja landsvæðið.
4. Hugi að hægrænum hvötum til eflingu mannlífs í kringum Langanes.
5. Efli vitund og þekkingu á náttúrufari og auðlindum aðliggjandi svæða.

Það er skoðun sveitastjórnar Langanesbyggðar að tryggt aðgengi að friðlandi á Langanesi sem tengist öðrum náttúrusvæðum muni efla byggð í Langanesbyggð. Og slíkt megi gera án þess að hindra eða torvelda núverandi nýtingu á landssvæðinu sem eru beitarnytjar og eggjasókn. Til að slíkt megi fram ganga óskar Langanesbyggð eftir stuðningi Alþingis og umhverfisráðherra til að hrinda þeirri vinnu fram.

Til máls tóku: Þorsteinn, Mirjam, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir fram komna ályktun og felur sveitarstjóra að koma henni á framfæri við Alþingi, ráðuneyti umhverfismála og umhverfisstofnun.

Samþykkt samhljóða.

8. Breyting á samningi við UMFL vegna minna vinnuframlags Langanesbyggðar
UMFL og Langanesbyggð hafa komist að samkomulagi um breytingu á samstarfssamningi sem upphaflega var gerður 1. júní 2021 og viðauki við hann 30. janúar 2023. Breytingin felst í því að starfshlutfall forstöðumanns Íþróttamiðstöðvar fyrir UMFL fer úr 30% í 25%. Og samningurinn afmarkar samstarf UMFL og Langanesbyggðar. Greiðslur verða fastar og tryggðar með vísitölu launa. Forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar gengir þessu starfi fyrir UMFL þar til fyrir liggur endanlegt skipurit fyrir Íþróttamiðstöðina. Forstöðumaður og formaður UMFL munu ræða hvernig þeim tíma sem ætlaður er fyrir UMFL verður varið.

Til máls tóku: Oddviti, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, sveitarstjóri, Mirjam, oddviti, Þorsteinn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn og felur sveitarstjóra að undirrita hann.

Atkvæðagreiðsla: Með: Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét. Sitja hjá: Þorsteinn, Mirjam, Júlíus.

9. Drög að fundaplani fyrir árið 2024
Lögð fram drög að fundarplani fyrir árið 2024

Til máls tóku: sveitarstjóri, oddviti, Þorsteinn, Halldóra, Gunnlaugur, Mirjam,

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir fundarplan næsta árs en leggur til að fundartími verði endurskoðaður á næsta sveitarstjórnarfundi. Næsti reglulegi fundur sveitarstjórnar verður boðaður kl 13:00.

Samþykkt samhljóða.

10. Tillaga að breytingum á gjaldskrám fyrir árið 2024 á 21 fundi sveitarstjórnar
Breytingar á gjaldskrá frá fyrri umræðu eru með rauðu í gjaldskrám

     09.1 Gatnagerðargj., stofngjald fráveitu, byggingaleyfisgj. og önnur þjónustugj. 2024
Samþykkt samhljóða.

     09.2 Álagningarákvæði fasteignagjalda 2024
Samþykkt samhljóða.

     09.3 Gjaldskrá slökkviliðs Langanesbyggðar 2024
Samþykkt samhljóða.

     09.4 Gjaldskrá grunn- og leikskóla Langanesbyggðar 2024
Samþykkt samhljóða.

     09.5 Gjaldskrá f. Geymslusvæði 2024
Samþykkt samhljóða.

     09.6 Gjaldskrá sorphirðu og meðhöndlun úrgangs í Langananesbyggð 2024
Samþykkt samhljóða.

     09.7 Gjaldskrá fyrir hunda- og kattahald 2024
Samþykkt samhljóða.

     09.8 Gjaldskrá fyrir útleigu Þórsvers
Samþykkt samhljóða.

     09.9 Gjaldskrá fyrir tjaldsvæðið á Þórshöfn 2024

Til máls tóku: Mirjam, sveitarstjóri, oddviti.

Samþykkt samhljóða.

     09.10 Gjaldskrá VER 2024

Til máls tóku: Oddviti, Þorsteinn, Halldóra, oddviti.

Breytingartillaga H - lista: Leggjum til að niðurlagi verðskrárinnar í upptalningu um afsláttarkjör verði breytt á þann veg að annar punktur standi svona;   50% afsláttur er af verðskrá í þreksal og skipulagða opna tíma fyrir börn og námsmenn 18-25 ára gegn framvísun skírteinis.

Atkvæðagreiðsla með breytingartillögu: Með: Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét. Sitja hjá: Þorsteinn, Mirjam, Júlíus.

Samþykkt samhljóða.

     09.11 Gjaldskrá fyrir Langaneshafnir 2024

Samþykkt samhljóða.

     09.12 Gjaldskrá fyrir umsýslugjald utan geymslusvæða í Langanesbyggð 2024
Samþykkt samhljóða.

11. Fjárhagsáætlun 2024 ásamt þriggja ára áætlun í samantekt fyrir hvert ár 2025-2027.

     11.0.1 Yfirlit sveitarsjóður A - hluti
     11.0.2 Samantekt 2023 - útgönguspá
     11.0.3 Samantekt 2024
     11.0.4 Samantekt 2025
     11.0.5 Samantekt 2026
     11.0.6 Samantekt 2027

Bókanir og tillögur um breytingar á fjárhagsáætlun

     11.1.1 Ósk um fjárframlag frá HSAM hópnum
HSAM hópurinn fer fram á kr. 1 milljón í framlag á næsta ári samkvæmt bréfi.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, Halldóra, Þorsteinn, Mirjam, oddviti, Þorsteinn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að veita 1,5 m.kr. til verkefna sem tengjast heilsueflandi samfélagi og öðru viðburðarhaldi sem hefur menningar- og fræðslu gildi tengdum málaflokknum.

Samþykkt samhljóða.

     11.1.2 Bókun skipulags- og umhverfisnefndar varðandi göngustíga.
Nefndin beinir því til sveitarstjórnar að setja lagningu göngustíga á fjárhagsáætlun næsta ár. Neðan Langanesvegar á Þórshöfn og Hafnargötu á Bakkafirði.

Til máls tóku: Oddviti, sveitarstjóri, Halldóra.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn óskar eftir upplýsingum um kostnað við gerð göngustíga sundurliðað eftir gerð þeirra. Skipulagsnefnd falið að koma með nánari útfærðar tillögur þegar sá kostnaður liggur fyrir.

Samþykkt samhljóða.

     11.1.3 Bókun og tillögur vegna hundagerðis á Þórshöfn.

Til mál tóku: Þorsteinn, sveitarstjóri, oddviti.

Bókun fulltrúa L – lista frá fyrri umræðu: Fulltrúar L-lista telja að það eigið að vinna eftir tillögu umhverfis- og skipulagsnefndar frá 7. fundi hennar dags. 20.12.2022 um að koma upp hundagerði á Þórshöfn. Á Þórshöfn eru um 40 hundar og var skipulagsráðgjafa sveitarfélagsins falið af umhverfis- og skipulagsnefndar að koma með tillögur af svæðum fyrir hundagerði. Skv. reglum sveitarfélagsins er lausaganga hunda í þéttbýli bönnuð og því er það mat fulltrúa L-lista sem og umhverfis- og skipulegnefndar að koma á móts við hundaeigendur með þessari aðstöðu í þéttbýli. Slíkt gerði eykur þjónustu við alla íbúa, ekki bara hundaeigendur, í þéttbýlinu og um leið skapast félagsleg tengsl milli íbúa.

Tillaga L-lista frá fyrri umræðu: Unnið verði eftir tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að sveitarfélagið komi upp hundagerði á Þórshöfn skv. þeirri staðsetningu sem nefndin leggur til . Gert verði ráð fyrir þessum framkvæmdum í fjárhagsáætlun 2024.

Tillaga vinnufundar: Sveitarstjóra verði falið að afla upplýsinga um kostnað við gerð hundagerðis fyrir síðari umræðu í sveitarstjórn um fjárhagsáætlun.

     Bókun og tillögum var vísað til síðari umræðu um fjárhagsáætlun.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóri hefur aflað upplýsinga um kostnað við láta gera hundagerði. Sveitarstjórn samþykkir að veita kr. 800.000.-, sem samsvarar tvöföldum árlegum gjöldum af hundahaldi, til að gera hundagerði á Þórshöfn og vísar málinu til skipulagsnefndar til nánari útfærslu.

Samþykkt samhljóða.

     11.1.4 Bókun og tillögur L- lista vegna Íþróttahússins VER.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, sveitarstjóri, oddviti, Mirjam, Halldóra, Júlíus, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Mirjam, oddviti.

Bókun fulltrúa L – lista frá fyrri umræðu: Eins og allir fulltrúar sveitarstjórnar vita þá liggur fyrir mikið viðhald á þessu frábæra mannvirki okkar sem var tekið í notkun árið 1999. Fulltrúar fyrrum sveitarstjórnar voru sammála því að hefjast handa við úttekt á húsinu fyrir um 3 árum síðan og í framhaldinu hefjast handa við viðhald á húsinu. Faglausn ehf. sá um úttektina og eru ítarlegar úttektarskýrslur til sem fulltrúar fyrrum og núverandi sveitarstjórnar eiga að þekkja. Fulltrúar L-lista eru á því að hefja eigi viðhalds ferlið á húsinu sem allra fyrst og að farið verði eftir síðustu samþykkt fyrrum sveitarstjórnar í málinu frá 135 fundi þar sem ákveðið var að hefja viðhalds á húsinu skv. minnisblaði 08 leið A frá Faglausn ehf.

Tillaga fulltrúa L lista: Fulltrúar L-lista leggja til að hönnuði verði falið að skoða stöðuna á húsinu árið 2024. Í framhaldi af því verði húsið skoðað á 2-3 ára fresti eða þangað til að farið verði í nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir á húsinu.

Atkvæðagreiðsla með tillögu: Með: Þorsteinn, Mirjam, Júlíus. Á móti: Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét.

Tillaga vinnufundar: Sveitarstjóra verði falið að leita til hönnuðar um kostnað við að fylgjast með þróun mála í íþróttahúsinu, skemmdum og hverju lofskipti breyta.

     Bókun og tillögum var vísað til síðari umræðu um fjárhagsáætlun.

Bókun um afgreiðslu: Mikilvægt er að koma framkvæmdum við húsið á áætlun um leið og færi gefst til þess.

Samþykkt samhljóða.

     11.1.5 Bókun og tillaga L – lista vegna árshátíðar starfsmanna.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn.

Bókun fulltrúa L – lista frá fyrri umræðu: Tillagan felur í sér að ráðstafa fjármunum í árshátíð starfsmanna sveitarfélagsins sem telja um 60 manns. Fulltrúar L-lista telja mikilvægt að koma slíkri hefð á, sameina starfsmannahópa sveitarfélagsins og um leið auka ánægju þeirra og vellíðan að starfa hjá Langanesbyggð.

Tillaga fulltrúa L-lista frá fyrri umræðu: Fulltrúar L-lista leggja til að veita allt að 2,5 milljónum í árshátíð starfsmanna sveitarfélagsins árið 2024 og að gert verði ráð fyrir slíkum viðburði í þriggja ára áætlunum sveitarfélagsins með sömu upphæð. Samhliða því er lagt til að samið verði við Starfsmannafélag Langanesbyggðar til að undirbúa og skipuleggja viðburðinn.

Atkvæðagreiðsla með tillögu: Með: Þorsteinn, Mirjam, Júlíus. Á móti: Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét.

Tillaga fulltrúa H – lista: Sveitastjóri fái heimild til að verja allt að 3 m.kr. (er um kr. 2 milljónir í dag) til að auka samveru starfsfólks sveitafélagsins á viðburðum s.s. tengdum jólum eða ferðalögum starfsfólks.

Samþykkt samhljóða.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 lögð fram til síðari umræðu ásamt þriggja ára áætlun.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 og þriggja ára áætlun vegna 2025 -2027 með áorðnum breytingum.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tók oddviti.

Bókun H-lista við samþykkta fjárhagsáætlun: Ný samþykkt fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir afgangi (A og B hluta) upp á rúmar 100 milljónir ársins 2024 og útgönguspá 2023 gerir ráð fyrir um 136 milljóna afgang. Þetta sýnir að það plan sem við lögðum upp með fyrir rúmu ári, er að ganga eftir í stórum dráttum. Skuldir okkar eru greiddar niður um rétt um 80 milljónir á ári. Þessi staða gerir okkur kleift að bregðast við því sem við sjáum ekki fyrir, eins og dæmin sannast núna með tímabærum endurnýjun á Nausti sem eru hafnar. Nýfjárfestingar á árinu 2024 eru áætlaðar rúmar 328 milljónir, og 550 milljónir árin 2025-2027 og eru þau mörg verkefnin sem ekki hafa náð inn í áætlun og lánsþörf verður orðin nokkur í lok þess tímabils ef öll þau verkefni ganga fram. Því verður áfram mikilvægt að ganga vel um fjárhag sveitafélagsins og helst að vinna að aukinni tekjusókn með kröftugra mannlífi byggðu á styrku atvinnulífi.

12. Tilnefning 1 fulltrúa í stjórn Jarðasjóðs og 1 varafulltrúa.
Sveitarstjórn tilnefnir Þóri Jónsson til setu í stjórn Jarðasjóðs til 3 ára. Jafnframt Úlfhildi Idu Helgadóttur sem varamann til 3 ára.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti.

Bókun fulltrúa L-lista: Á 19 fundi sveitarstjórnar dags. 11.09.23 minntu fulltrúar L-lista stjórnendur sveitarfélagsins, með bókun, á umboðsleysi fulltrúa í stjórn jarðarsjóðs. Síðan eru liðnir 3 mánuðir og 4 sveitarstjórnarfundir án þess að nokkuð sé gert í málinu fyrr en nú að beiðni fulltrúa L-lista. Umræddir fulltrúar hafa því starfar án umboðs frá því í júní á þessu ári. Stjórnendur sveitarfélagsins bara ábyrgð á stjórnsýslunni í sveitarfélaginu. Í þessu máli sjást brotalamir stjórnenda og ekki í fyrsta skipti á þessu kjörtímabili.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir tilnefningarnar.

Samþykkt samhljóða.

13. Tilnefning varamanns í yfirkjörstjórn.
Sveitarstjórn tilnefnir Bjarnheiði Jónsdóttur sem varamann í yfirkjörstjórn Langanesbyggðar.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti.

     L- listi bókar athugasemd við fundarstjórn oddvita.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir tilnefninguna.

Samþykkt samhljóða.

14. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. Oddviti og ágæta sveitarstjórnarfólk.

Nú þegar við höfum farið í gegn um síðari umræðu um fjárhagsáætlun sjáum við að á næstu árum erum við að spenna bogann nokkuð hátt í fjárfestingum. En – það var kominn tími til að fara í fjárfestingar og forgangsraða þeim eftir bestu getu. Á næsta ári eru fjárfestingar áætlaðar um 328 milljónir króna og árið 2025 eru þær áætlaðar um 224 milljónir króna.

Það er alltaf holt, þeim sem reka fyrirtæki eða sveitarfélag að skoða aðallykiltölur rekstrar og sjá hvað við eigum í reynd upp í þessar fjárfestingar og þar er sjóðsteymið besti mælikvarðinn. Árferðið í efnahagsmálum er ekki gott svo vægt sé til orða tekið, vextir háir og þó verðbólga þokist niður á við, er hún enn há. Á þessu ári er handbært fé frá rekstri áætlað um 278 milljónir króna og fjárfestingar 159 milljónir, afborganir langtímalána 81 milljón þannig að nettósjóðstreymi eða handbært fé áætlað um 95 milljónir í árslok. Á næsta ári þurfum við að brúa bilið vegna fjárfestinga sem ætlað er að fara í og þá er alltaf spurning hvernig það er gert. Hvaða vaxtakjör eru í boði þegar að því kemur að fjármagna mismuninn sem er á handbæru fé frá rekstri og fjárfestingum og afborgun lána? Þar að auki eru nokkrir óvissuþættir í þessum fjárfestingum, t.d. er gert ráð fyrir ófyrirséðum kostnaði auk þess sem við getum aldrei verið viss um að fá starfskrafta sem verktakar hafa gert ráð fyrir að ráða til verksins. Það er búið að semja við alla verktaka um breytingar á Nausti og við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir að þeir samningar standi. Hvað varðar sorpmóttökustöðina höfum við lagt í vinnu við að breyta lóðum, keypt hús fyrir flokkun og til stendur að gera samning um frágang lóðarinnar. Helst þyrfti einnig að malbika planið en það er dýrt að fá malbikunarvél aðeins í þetta eina verk. Þannig að óvissan er nokkur.

Til skamms tíma er ætlunin að fara fram á lánalínu vegna þessa mismunar og hinkra eftir því að ástandið batni eftir einhverja mánuði en það er alveg ljóst að það er dýrara en langtímalán sem ber lægri vexti en gæti hinsvegar bundið okkur til einhvers tíma. Það þarf ekkert að kafa djúpt ofan í vaxtaumhverfið til að sjá hver er besti kosturinn á hverjum tíma með þeim skekkjumörkum og hugsanlegum áhrifum sem lítið efnahagskerfi býr við. En við munum taka stöðuna á hverjum tíma og skoða okkar möguleika.

Stærri fjárfestingar sem áætlaðar eru á þessu ári eru við Naustið þar sem heildaráætlunin er upp á 116 milljónir króna og af því falla 72 milljónir á næsta ár. Ég held að allir séu sammála um að þetta er verk sem nauðsynlega þarf að fara í. Annað verk er sorpmóttökustöðin við Háholt samfara heildarendurskoðun á sorpmálum í sveitarfélaginu. Það er framkvæmd sem okkur er gert skylt samkvæmt lögum að fara í og grundvallast á því að draga úr magni sorps, flokka og endurvinna. Sú þriðja er endurnýjun á fráveitu upp á 60 milljónir en fyrir liggja drög að áætlun um fráveitumál þar sem gert var ráð fyrir að á árinu 2022 yrði farið í að laga frárennsli við suðurgarð og á árinu 2023 yrði farið í frárennsli við norðurgarðinn, svokallað Suez. Ætlunin er að taka þessi tvö verkefni á næstu tveimur árum. Að minnsta kosti tvö stór verkefni bíða svo til 2025 og 2026 en það er annar áfangi eða neðri hæð á Nausti og slökkvistöð sem mjög brýnt er að fara í. Vinnueftirlitið hefur gefið okkur frest til 1 maí til að bregðast við skýrslu þess þar sem farið er fram á úrbætur vegna loftmengunar í slökkvistöðinni og fara þarf í það sem fyrst. Við þurfum að reikna með að kosta þær framkvæmdir þegar við finnum lausn á því í samstarfi Þjónustumiðstöðvar og slökkvistjóra. Að lokum er svo stóra verkefnið sem er Íþróttamiðstöðin sem er komin á rauða ljósið í endurbótum. Öllum þessum verkefnum verður að forgangsraða og ekki er hægt að gera allt í einu.

Ég ætla ekki að tína til fleiri atriði úr rekstri sveitarfélagsins því áætlanirnar og útgönguspá skýra sig sjálf í fyrirliggjandi gögnum, en vil þó segja að staða okkar er góð sé tekið mið af öllum lykiltölum. Útkomuspá fyrir þetta ár gerir ráð fyrir að A og B hluti skili 136 milljónum í rekstrarniðurstöðu og á næsta ári gerir áætlunin ráð fyrir að afkoman verði um 108,5 milljónir króna.

Það er mitt mat að við höfum verið hófleg í hækkunum á gjaldskrám þar sem tekið var tillit til þess að verðbólga á næsta ári fari lækkandi. Sveitarfélögin hafa verið sökuð um að hækka gjaldkrár sínar úr hófi fram en staðreyndin er sú að okkur eru markaðir tekjustofnar og verðum að ákveða útgjöld eftir því. Við getum ekki lagt á ný gjöld eða skatta eftir því hvernig vindurinn blæs í efnahagsmálum. Í ríkisrekstrinum er þessu ekki þannig varið þar sem ríkissjóður hefur ákveðnar lögbundnar skyldur um ráðstöfun fjár en samþykkir svo sérlög, svokallaðan „bandorm“ við afgreiðslu fjárlaga þar sem skorin eru niður ýmis lögbundin framlög. Þetta getum við ekki gert. Ríkissjóði ber heldur engin skylda til þess að reka ríkissjóð án halla í einhver ár eins og okkur er gert. En – nóg um það.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og færsæls árs og vona að nýja árið verði okkur farsælt og fengsælt.

Fundargerðin lesin upp, samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:21

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?