Fara í efni

22. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar

30.11.2023 17:00

Fundur í sveitarstjórn

22. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 30. nóvember 2023. Fundur settur kl. 17:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Þorsteinn Ægir Egilsson, Gunnlaugur Steinarsson, Margrét Guðmundsdóttir, Mirjam Blekkenhorst, Grétar Jósteinn Hermundsson, Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri ritaði fundargerð. Mirjam vék af fundi 18:30.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð, svo var ekki svo gengið til dagskrár.

Oddviti leggur fram þá tillögu að tekið verði fyrir afbrigði sem felur í sér að taka lið 12 um fjárhagsáætlun fyrst á dagskrá með verkefnastjóra KPMG Ingimar Guðmundssyni til að fara yfir þau gögn sem fylgja.

Samþykkt samhljóða.

D a g s k r á

1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 936 frá 227.10.2023.
2. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 937 frá 12.11.2023.
3. Fundargerð 18 fundar byggðaráðs 16.11.2023
     03.1 Drög að samningi við Innviðaráðuneyti um uppbyggingu innviða í Langanesbyggð
4. Fundargerð 20. fundar skipulags- og umhverfisnefndar 21.11.2023.
     04.1 Aðalskipulag – frá skipulags- og umhverfisnefnd
5. Fundargerð 10. fundar atvinnu og nýsköpunarnefndar 21.11.2023
6. Fundargerð 12. fundar velferðar og fræðslunefndar frá 23.11.2023
     06.1 Áskorun frá nefndinni um að hefja hönnunarvinnu við lóðir skólana á næsta ári.
7. Fundargerð 6. fundar hafnarnefndar frá 15.11.2023
     07.1 Áskorun frá hafnarnefnd vegna hafnargarðs á Bakkafirði
8. Boð á aðalfund Fjallalambs
9. Fréttatilkynning um orkumál
10. Beiðni til Akureyrarbæjar um barnaverndarþjónustu
      10.1 Samningur Dalvíkurbyggðar og Akureyrar um barnaverndarþjónustu.
11. Viðauki við fjárhagsáætlun 2023
12. Fjárhagsáætlun 2024, útkomuspá fyrir árið 2023 og þriggja ára áætlun – fyrri umræða.
13. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

 

1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 936 frá 227.10.2023
Fundargerðin lögð fram.

2. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 937 frá 12.11.2023
Fundargerðin lögð fram.

3. Fundargerð 18 fundar byggðaráðs 16.11.2023  
     03.1 Drög að samningi við Innviðaráðuneyti um uppbyggingu innviða í Langanesbyggð

Innviðaráðuneytið hefur fallist á að veita styrk til 2 ára vegna ráðningar starfsmanns til að styrkja innviði í Langanesbyggð, styðja við efnahagslega uppbyggingu með því að skilgreina tækifæri og framtíðarsýn hvað varðar uppbyggingu innviða og atvinnusköpun.

Til máls tók: Þorsteinn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn fagnar því að slíkur styrkur skuli veittur til brýnna verkefna. Ráðuneytið verður upplýst um nánari útfærslu á samningnum eins og kemur fram í 1. gr. hans. Sveitarstjóra falið að undirrita samninginn og leita eftir samstarfi við SSNE um útfærslu hans.

Fundargerðin lögð fram

Samþykkt samhljóða.

4. Fundargerð 20. fundar skipulags- og umhverfisnefndar 21.11.2023.   
     04.1 Aðalskipulag – frá skipulags- og umhverfisnefnd.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur áherslu á að á næsta ári verði hafin vinna við gerð aðalskipulags og tekið tillit til þess við gerð fjárhagsáætlunar. Kr. 1 milljón er ekki nóg til að hefja verkið.

Til máls tók Þorsteinn.

Bókun um afgreiðslu: Samþykkt að leggja kr. 5 milljónir í undirbúning aðalskipulags fyrir Langanesbyggð árið 2024. Sveitarstjóra falið að gera verðkönnun á verkinu í samvinnu við skipulags- og umhverfisnefnd. Upplýsingar um heildarkostnað verði lagðar fyrir sveitarstjórn eftir umfjöllun skipulags- og umhverfisnefndar.

Fundargerðin lögð fram

Samþykkt samhljóða.

5. Fundargerð 10. fundar atvinnu og nýsköpunarnefndar 21.11.2023
Fundargerðin lögð fram

6. Fundargerð 12. fundar velferðar og fræðslunefndar frá 23.11.2023  
     06.1 Áskorun frá nefndinni um að hefja hönnunarvinnu við lóðir skólana á næsta ári.
Velferðar og fræðslunefnd skorar á sveitarstjórn að halda áfram með hönnun og framkvæmdir á lóðum skólana.

Til máls tóku: Þorsteinn, sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að taka inn á fjárhagsáætlun hönnun lóða við skólana og leita tilboða í verkið.

Fundargerðin lögð fram

Samþykkt samhljóða.

7. Fundargerð 6. fundar hafnarnefndar frá 15.11.2023
     07.1 Ábending frá hafnarnefnd vegna hafnargarðs á Bakkafirði
Hafnarnefnd beinir því til sveitarstjórnar að allt kapp verði lagt á að hraða framkvæmdum á hafnargarðinum á Bakkafirði í ljósi þess tjóns sem varð á flot-bryggju í höfninni fyrir skömmu.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að þrýsta á Vegagerðina um úrbætur í ljósi ástandsins við höfnina.

Samþykkt samhljóða.

8. Boð á aðalfund Fjallalambs
Boðað er til aðalfundar Fjallalambs í Svalbarði 4. desember n.k.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti,

Bókun um afgreiðslu: Oddviti býður sig fram og fer með umboð Langanesbyggðar á fundinum.

Samþykkt samhljóða.

9. Fréttatilkynning um orkumál
Drög að fréttatilkynningu sem í ráði er að senda fjölmiðlum vegna ástands í orkumálum í Langanesbyggð.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn.

Samþykkt samhljóða.

10. Beiðni til Akureyrar um barnaverndarþjónustu.
     10.1 Samningur Dalvíkurbyggðar við Akureyrarbæ um barnaverndarþjónustu.
Norðurþing getur ekki lengur sinnt þjónustu um barnavernd fyrir sveitarfélögin á NA landi þar sem undanþága vegna fólksfjölda fékkst ekki. Þau hafa því ákveðið að leita eftir þeirri þjónustu á Akureyri. Akureyrarbær hefur tekið vel í að þjónusta þetta svæði.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að leita eftir barnaverndarþjónustu hjá Akureyrarbæ og felur sveitarstjóra að leita eftir samningi þar um við Akureyrarbæ. Hugsanlegt er samstarf Norðurþings, Tjörneshrepps og fleiri sveitarfélaga í Þineyjarsýslu um samflot í samningum við Akureyrarbæ. Nýr samningur verði lagður fyrir sveitarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

11. Viðauki við fjárhagsáætlun 2023 – vegna framkvæmda sem ekki voru á áætlun eða ekki tókst að fara í.
Lagður fram viðauki vegna ýmissa framkvæmda sem ákveðið var og verður lagt í á árinu 2023 og ýmsar framkvæmdir sem ekki tókst að fara í.

Til máls tók sveitarstjóri, Þorsteinn, sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir fram kominn viðauka vegna fjárhagsáætlunar 2023.

Samþykkt samhljóða.

12. Fjárhagsáætlun Langanesbyggðar 2024 ásamt 3ja ára áætlun 2025-2027.
Lögð fram fjárhagsáætlun Langanesbyggðar fyrir árið 2024 og 3ja ára áætlun fyrir árin 2025 – 2027. Fyrri umræða.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, Mirjam, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Halldóra, Þorsteinn,

Fulltúrar L-lista leggja fram eftirfarandi 7 tillögur og bókanir.

     1. Íþróttahúsið Ver

Til máls tók: Þorsteinn, sveitarstjóri, oddviti, Þorsteinn.

Bókun fulltrúa L-lista: Eins og allir fulltrúar sveitarstjórnar vita þá liggur fyrir mikið viðhald á þessu
frábæra mannvirki okkar sem var tekið í notkun árið 1999. Fulltrúar fyrrum sveitarstjórnar voru sammála því að hefjast handa við úttekt á húsinu fyrir um 3 árum síðan og í framhaldinu hefjast handa við viðhald á húsinu. Faglausn ehf. sá um úttektina og eru ítarlegar úttektarskýrslur til sem fulltrúar fyrrum og núverandi sveitarstjórnar eiga að þekkja. Fulltrúar L-lista eru á því að hefja eigi viðhalds ferlið á húsinu sem allra fyrst og að farið verði eftir síðustu samþykkt fyrrum sveitarstjórnar í málinu frá 135 fundi þar sem ákveðið var að hefja viðhalds á húsinu skv. minnisblaði 08 leið A frá Faglausn ehf.

Tillaga fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista leggja til að gert verið ráð fyrir viðhaldsframkvæmdum á
íþróttahúsinu Veri skv. minnisblaði 08 leið A frá Faglausn ehf. í fjárfestingaráætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024 og í þriggja ára áætlun.

Bókun um afgreiðslu: tillögunni vísað til næsta vinnufundar sveitarstjórnar og til afgreiðslu í seinni umræðu.

Samþykkt samhljóða.

     2. Björgunarmiðstöð á Þórshöfn

Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista hafa talað fyrir því að halda áfram þeirri formlegu undirbúningsvinnu sem kveður á um í viljayfirlýsingu frá 2022 um nýja Björgunarmiðstöð viðbragðsaðila á Þórshöfn. Mikilvægt er að leyfa vinnuhóp sem stofnaður var um verkefnið að halda vinnu sinni áfram með það að markmiði að komast að sameiginlegri og hagstæðustu lausninni.

Tillaga Fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista leggja til að vinnuhópur um nýja björgunarmiðstöð á Þórshöfn verði endurvakin skv. viljayfirlýsingu frá árinu 2022 og gert verði ráð fyrir fjármunum í fjárhagsáætlun 2024 í þessa undirbúningsvinnu. Einnig er lagt til að kanna möguleika á því að fá slökkvistjóra Norðurþings í vinnuhópinn með sína reynslu og þekkingu vegna byggingar björgunarmiðstöðvar á Húsavík.

Atkvæðagreiðsla: Með; Sigurður, Þorsteinn, Margrét, Mirjam, Gunnlaugur, Jósteinn. Á móti; Halldóra.

     3. Starf iðjuþjálfa

Bókun fulltrúa L-lista: Mikil þörf er á að ráða til sveitarfélagsins iðjuþjálfa í 80-100% starf með það að markmiði að styðja við stofnanir sveitarfélagsins. Á síðasta vinnufundi sveitarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar sem haldin var núna í nóvember fengu fulltrúar L-lista þær upplýsingar að ekki væri gert ráð fyrir starfi iðjuþjálfa í fjárhagsáætlun næsta árs. Það þykja fulltrúar L-lista óviðunandi markmið meirihluta.

Tillaga fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista leggja til að gert verði ráð fyrir 80-100% starfi iðjuþjálfa í fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun.

Atkvæðagreiðsla: Með; Þorsteinn, Mirjam, Jósteinn. Á móti; Sigurður, Halldóra, Margrét, Gunnlaugur.

     4. Starf íþrótta- og tómstundarfulltrúa í Langanesbyggð

Bókun fulltrúa L-lista: Starf íþrótta- og tómstundarfulltrúa er afar mikilvægt í öllum samfélögum og engin undantekninger á því í Langanesbyggð. Á síðasta kjörtímabili tók sveitarstjórn ákvörðun um að búa til þetta starf með það að markmiði að bæta utanumhald um þennan málaflokk og efla um leið íþrótta- og tómstundarstarf í sveitarfélaginu. Á síðasta vinnufundi sveitarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar sem haldin var núna í nóvember fengu fulltrúar L-lista þær upplýsingar að ekki væri gert ráð fyrir starfi íþrótta- og tómstundarfulltrúa í fjárhagsáætlun næsta árs. Það þykja fulltrúar L-lista óviðunandi markmið meirihluta.

Tillaga fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista leggja til að gert verði ráð fyrir 100 % starfi íþrótta- og tómstundarfulltrúa í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 og í þriggja ára áætlun.

Atkvæðagreiðsla: Með; Þorsteinn, Mirjam, Jósteinn. Á móti; Sigurður, Halldóra, Margrét. Gunnlaugur sat hjá.

Tillagan fellur á jöfnu.

     5. Verkefnið Heilsueflandi samfélag og gerð lýðheilsustefnu fyrir sveitarfélagið

Til máls tók: Þorsteinn, oddviti, sveitarstjóri, Mirjam, Þorsteinn, Halldóra, oddviti, Þorsteinn.

Bókun fulltrúa L-lista: Það er mat fulltrúa L-lista að lítið hafi gerst í verkefninu Heilsueflandi samfélagi á þessu kjörtímabili. Dæmi um það eru að engar upplýsingar er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins um verkefnið og starfshópur verkefnisins virðist óvirkur. Verkefnið hófst á síðasta kjörtímabili og í framhaldinu var búið til starf íþrótta- og tómstundarfulltrúa til að halda meðal annars utan um verkefnið. Dæmi um verkefni sem farið var í á síðasta kjörtímabili í tengslum við verkefnið Heilsueflandi samfélag eru umsókn um að gera Langanesbyggð að heilsueflandi samfélag, stofna vinnuhóp um verkefnið, frisbý völlum og ærslabelgjum komið upp á Þórshöfn og Bakkafirði, samstarfssamningur við UMFL um sameiginlegan starfsmann , samkomulag við UMFL um uppbyggingu á íþróttasvæðinu á Þórshöfn, heilsufarsmælingar voru í boði fyrir almenning, skólar í Langanesbyggð eru heilsueflandi, verkefnið kynnt starfsmönnum sveitarfélagsins og ýmislegt fleira. Samhliða þessum öllu tókst ekki að hefja vinnu við gerð nýrrar lýðheilsustefnu fyrir sveitarfélagi á síðasta kjörtímabili en umræðan um það var hafin og fjármunir áætlaðir í það verkefni. Ekki hefur heldur sú vinna hafist á þessu kjörtímabili.

Tillaga fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista leggja til að lagður verði meiri metnaður í verkefnið á nýju ári og unnið eftir samningi sem sveitarfélagið gerði við Embætti landlæknis með það að markmiði að efla almenna lýðheilsu í sveitarfélaginu. Samhliða þessu verði hafin vinna við gerð lýðheilsustefnu fyrir sveitarfélagið. Gert verður ráð fyrir fjármagni í þessa vinnu í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 sem og í þriggja ára áætlun.

Atkvæðagreiðsla: Með; Þorsteinn, Mirjam, Jósteinn. Á móti; Sigurður, Halldóra, Margrét, Gunnlaugur.

     6. Hundagerði á Þórshöfn

Til máls tóku: Mirjam, oddviti.

Bókun L-lista: Fulltrúar L-lista telja að það eigið að vinna eftir tillögu umhverfis- og skipulagsnefndar frá 7 fundi hennar dags. 20.12.2022 um að koma upp hundagerði á Þórshöfn. Á Þórshöfn eru um 40 hundar og var skipulagsráðgjafa sveitarfélagsins falið af umhverfis- og skipulagsnefndar að koma með tillögur af svæðum fyrir hundagerði. Skv. reglum sveitarfélagsins er lausaganga hunda í þéttbýli bönnuð og því er það mat fulltrúa L-lista sem og umhverfis- og skipulegnefndar að koma á móts við hundaeigendur með þessari aðstöðu í þéttbýli. Slíkt gerði eykur þjónustu við alla íbúa, ekki bara hundaeigendur, í þéttbýlinu og um leið skapast félagsleg tengsl milli íbúa.

Tillaga L-lista: Unnið verði eftir tillögu umhverfis- og skipulagsnefndar um að sveitarfélagið koma upp hundagerði á Þórshöfn skv. þeirri staðsetningu sem nefndin leggur til. Gert verði ráð fyrir þessum framkvæmdum í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024.

Bókun um afgreiðslu: Málinu vísað til vinnufundar og í framhaldi vísað til seinni umræðu sveitarstjórnar.

Samþykkt samhljóða.

7. Árshátíð starfsmanna Langanesbyggðar

Til máls tóku: Þorsteinn, sveitarstjóri.

Bókun fulltrúa L-lista: Tillagan felur í sér að ráðstafa fjármunum í árshátíð starfsmanna sveitarfélagsins sem telja um 60 manns. Fulltrúar L-lista telja mikilvægt að koma slíkri hefð á, sameina starfsmannahópa sveitarfélagsins og um leið auka ánægju þeirra og vellíðan að starfa hjá Langanesbyggð.

Tillaga fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista leggja til að veita allt að 2,5 milljónum í árshátíð starfsmanna sveitarfélagsins árið 2024 og að gert verði ráð fyrir slíkum viðburði í þriggja ára áætlunum sveitarfélagsins með sömu upphæð. Samhliða því er lagt til að samið verði við Starfsmannafélag Langanesbyggðar til að undirbúa og skipuleggja viðburðinn.

Bókun um afgreiðslu: Tillögunni er vísað til vinnufundar og í framhaldi til síðari umræðu.

Samþykkt samhljóða.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn vísar fjárhagsáætlun til síðari umræðu sem fara mun fram 14. desember. Vinnufundur verður haldinn í sveitarstjórn 6. desember um fjárhagsáætlun.

Samþykkt samhljóða.

13. Skýrsla sveitarstjóra

Nú höfum við farið í gegn um fyrstu umræðu um fjárhagsáætlun, séð útgönguspá fyrir árið sem er að líða og þriggja ára áætlun. Þessi vinna felst einfaldlega í því að deila takmörkuðum fjármunum til lögbundinna verkefna sem okkur ber að sinna auk þess að hlúa að því samfélagi sem við búum í með því að beina ákveðnum fjármunum til brýnna verkefna. Þar vinna allir sem sæti eiga í sveitarstjórn af heilindum – samfélaginu til hagsbóta – um það er ég ekki í vafa. Ég ætla ekki að tíunda frekar núna lykiltölur rekstrar því endurskoðandi fór vel yfir það í sinni yfirferð. Betra tilefni gefst til þess að lokinni annarri umræðu.

Sem betur fer, höfum við nú í nokkur ár getað fjárfest í nauðsynlegum endurbótum og nýframkvæmdum því vel hefur árað í samfélagi okkar hér og á landsvísu. Við tökumst á um forgangsröðun verkefna og í því felst skoðanaágreiningurinn fyrst og fremst. Þetta ár sem er að líða höfum við hins vegar haldið að okkur höndunum þar sem illa hefur gengið í efnahagsmálum þjóðarinnar sem bitnar einnig á sveitarfélögunum. Verðbólga og vextir eru háir, þannig að sem stendur er ekki fýsilegt ástand til að leggja í fjárfestingar en vonir standa til að úr rætist. Við höfum einnig búið við það, að ekki hefur tekist að fara í ýmis verkefni vegna skorts á vinnuafli. En – nú sjáum við fram á að geta tekið til hendinni og lagt í nauðsynlegar framkvæmdir, sumar hafa beðið lengi úrlausnar en önnur eru lögbundin í skyldum sveitarfélaga eins og til dæmis endurskipulagning sorpmála. Endurbætur á Nausti hafa lengi beðið svo nýta mætti betur húsnæðið og búa betur að starfsfólki og vistmönnum. Hallinn á rekstri Nausts er mun minni í ár en síðustu ár vegna aukins framlags frá ríkinu, betri nýtingar og frábærs starfsfólks en það kostar fórnir því þessi árangur hefur haft þær afleiðingar að óheyrilegt álag hefur verið á starfsfólki. Sveitstjóri mun á næstunni ræða hugsanlegar lausnir við forstjóra Nausts. Stærsta verkefnið er að við höfum ekki fengið fólk til afleysinga og það er brýnt verkefni að leysa þann vanda. Við verðum einfaldlega að hlúa betur að þeim starfsmönnum sem við höfum.

Það bíða okkar stór og mikil verkefni á komandi árum sem koma fram í 3ja ára áætlun og líklega þurfum við að grípa til lántöku til að brúa bil sem óhákvæmilega verður á milli tekna og gjalda á næstu árum. Þar er borð fyrir báru því skuldahlutfallið er lágt í samanburði við flest sveitarfélög. Ég bind miklar vonir við að við getum farið í þær framkvæmdir sem ákveðnar eru því nú eru verktakar farnir að hafa samband af fyrra bragði og spyrjast fyrir. Það er ekki hægt að gera allt í einu en við tökum fyrir hvert verkefni fyrir sig.

Þó vel ári á ýmsum sviðum hjá okkur þá höfum við orðið fyrir sárum áföllum að missa fólk á besta aldri hér í Langanesbyggð á árinu. Þar hafa stór skörð verið höggvin í lítið samfélag og við syrgjum öll og stöndum saman. Ég votta aðstandendum hinna látnu innilegrar samúðar.

Ég vil endilega minnast á að Ungmennaþing SSNE fór fram á Raufarhöfn dagana 21.-22. nóvember. Þetta var í þriðja sinn sem SSNE stendur fyrir slíku þingi en tilgangur þess er að efla tengslamyndun ungs fólks innan landshlutans þvert á sveitarfélög og styrkja tengsl ungmenna við SSNE, ásamt því að skapa vettvang fyrir ungmenni til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Þingið var vel sótt en þangað mættu 40 ungmenni á aldrinum 13-18 ára frá flestum sveitarfélögum á Norðausturlandi. Fulltrúar Langanesbyggðar voru þær Hólmfríður Katrín Jónsdóttir, Herdís Rún Hlynsdóttir, Kristín Svala Eggertsdóttir og Ása Margrét Sigurðardóttir. Að þessu sinni var áhersla lögð á menningu og skapandi greinar með það fyrir augum að niðurstöður mætti nýta í vinnu við Sóknaráætlun landshlutans.

Við þurfum stöðugt að sanna tilverurétt okkar í smærri samfélögum þar sem meiri og meiri skyldur eru lagðar okkur á herðar án þess að nægir fjármunir komi til frá ríkinu eða við gagnrýnd harðlega fyrir hækkanir á þeim gjaldskrám sem við þó höfum heimild til í takt við almennar verðhækkanir í landinu. Nú er 10 sveitarfélögum gert skylt að sameinast öðrum og yfir 30 fengu bréf frá eftirlitsnefnd sveitarfélaga vegna fjárhagsstöðu. Á hinn bóginn eru verkefni tekin af okkur sem við gætum með sóma sinnt svæðisbundið. Nú síðast kom neitun á undanþágu fyrir sveitarfélög í Þingeyjarsýslu um að sinna barnaverndarmálum sökum fámennis og við verðum að leita til Akureyrarbæjar um þá þjónustu, ekki það að ég hafi neitt á móti Akureyrarbæ og ef til vill er svo viðkvæmum málaflokki best sinnt þar, en hvaða verkefni verður okkur gert að taka næst að okkur eða láta frá okkur með stjórnvaldsaðgerð – um það fáum við víst litlu ráðið enda er það ríkið sem býr til stærsta hluta fjárhagsrammans. Útlit er fyrir að starf fulltrúa sýslumanns á Þórshöfn sé tryggt á fjárlögum á næsta ári en ráðherra hefur samt ekki enn breytt reglugerð sem gerir ráð fyrir fastri starfsstöð – við spyrjum að leikslokum því það er ekki fyrr en við samþykkt fjárlaga sem þetta verður tryggt.

Til máls tók Þorsteinn.

Fundargerðin lesin upp, samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:40

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?