Fara í efni

15. fundur, aukafundur sveitarstjórnar

04.05.2023 17:00

Fundur í sveitarstjórn

15. fundur, aukafundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 4. maí 2023. Fundur settur kl. 17:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Þorsteinn Ægir Egilsson, Gunnlaugur Steinarsson, Þórarinn Jakob Þórisson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Karítas Ósk Agnarsdóttir. Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Dagskrá

1. Ársreikningur Langanesbyggðar. Fyrri umræða
2. Fundargerð 4. fundar Fjarðarvegar 5 ehf. frá 13.04.2023
3. Upplýsingar um greiddan frístundastyrk 2021-2022
4. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Ársreikningur Langanesbyggðar. Fyrri umræða
Ársreikningur Langanesbyggðar lagður fram til fyrri umræðu. Ingimar Guðmundsson frá KPMG var fyrir svörum varðandi spurningar um ársreikninginn.

Bókun um afgreiðslu: Ársreikningnum vísað til annarrar umræðu í sveitarstjórn 11. maí n.k.

Samþykkt samhljóða.

2. Fundargerð 4. fundar Fjarðarvegar 5 ehf. frá 13.04.2023
Fundargerðin lögð fram.

3. Upplýsingar um greiddan frístundastyrk 2021-2022
Skrifstofustjóri hefur tekið saman upplýsingar um greiddan frístundastyrk á árunum 2021-2022. Svipaður fjöldi fékk styrk bæði árin og upphæðirnar einnig svipaðar.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn þakkar upplýsingarnar og vísar málinu til velferðar og fræðslunefndar.

Samþykkt samhljóða.

4. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. oddviti og fulltrúar í sveitarstjórn

Ég ætla ekki að fara djúpt í ársreikning sveitarfélagsins á þessu stigi eftir 1. umræðu enda fóru KPMG menn vel yfir reikninginn á byggðaráðsfundi í dag og svöruðu spurningum einnig. Þó er vert að benda á nokkur atriði og að hagur batnandi fer. Það eru ekki mörg sveitarfélög sem eru að skila afgangi eftir rekstur síðasta árs.
Ársreikningurinn er nokkuð óvenjulegur að þessu sinni vegna sameiningar sveitarfélaganna á síðasta ári. Það kostaði mikla handavinnu og yfirlegu um hvernig átti að fara að en sem betur fer vorum við með góða ráðgjafa sem voru vanir slíkri vinnu. Starfsfólk skrifstofu vann einnig mjög vel að því að samræma bókhald sveitarfélaganna og lagði á sig óeigingjarnt starf við að samþætta. Það ber sérstaklega að þakka þeim.
Ef skoðaðar eru einstaka lykiltölur A hluta sjóðs rekstrar þá er sameinað sveitarfélag að skila jákvæðri niðurstöðu heildarrekstrar um 2,3% eða tæplega 23 milljónir króna en ef A og B hluti eru teknir saman er rekstrarniðurstaðan jákvæð um tæplega 60 milljónir króna. Hér þarf þó að hafa í huga að sértekjur vegna sameiningar voru 120 milljónir á síðasta ári. Þetta þykir nokkuð gott en staðan fyrir afskriftir á A sjóði er 15,3%. Skuldahlutfall hefur lækkað úr 131% í 113% og skuldaviðmið úr 104% í 81%. Heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta eru rúmlega milljarður en þess ber að geta sem mistúlkað hefur verið að skuldir A hluta við B hluta eru 236 milljónir króna og á mæltu máli þýðir þetta að annar vasinn skuldar hinum þessa upphæð. Í þessari skuld A sjóðs við B sjóð er hæsta upphæðin vegna Fræ ehf. Þá ber þess að geta að handbært fé frá rekstri hefur hækkað með viðaukum frá ársbyrjun til ársloka um 45 milljónir króna að teknu tilliti til þess að stór hluti handbærs fjár um áramót kom með seinni aukagreiðslu Jöfnunarsjóðs vegna sameiningar rétt fyrir áramót. Á árinu voru greiddar 60 milljónir króna af langtímalánum. Hvað varðar einstaka deildir þá munum við taka þær út og fara yfir ársreikninginn fyrir hverja deild og gera deildarstjórum grein fyrir niðurstöðu. Þó má geta þess að aðeins hefur dregið úr tapi á Nausti ef aðeins eru teknar tekjur og gjöld og nemur það núna um 25 milljónum króna. Á þessu ári eru áætlaðar töluverðar endurbætur á efri hæð sem mun að líkum lætur auka nýtingu og þar með tekjur án þess að kostnaður aukist.
Það sem veldur áhyggjum er að fjármagnskostnaður samstæðunnar var yfir 90 milljónir króna á síðasta ári en áætlun gerði ráð fyrir með viðaukum um 43 milljónum króna þannig að þessi kostnaður hefur meira en tvöfaldast frá áætlun. Ég held að allir þekki ástæður þessa en lang mestur hluti skulda er verðtryggður og í 10% verðbólgu er fjármagnskostnaður fljótur að stíga.
Í stuttu máli ætla ég að gera grein fyrir ferð okkar þar sem sveitarstjóri og oddviti fóru til Noregs til að kynnast því hvernig Norðmenn standa að málum varðandi vindmyllur. Í ferðinni fengum við að kynnast nær öllu sem viðkemur sjónarmiðum þeirra sem byggja, reka og skipuleggja vindmyllugarða og síðast en ekki síst þeirra sem eru andvígir þeim. Það sem stendur upp úr eftir þessa ferð er einkum þetta: Upplýsingaflæði hjá Norðmönnum er mjög gott og samstarf og samvinna einkennir þeirra vinnubrögð þó deilt sé á stundum hart um staðsetningu og þörf á vindmyllugörðum. Regluverk þeirra er að sumu leiti ólíkt því sem við höfum þar sem byggingareglugerð og skipulagslög hafa tekist á um hvar megi reka slíka garða. Þá er athyglisverð sú þróun sem er að eiga sér stað, að vindmyllugarðar eru að færast út í sjó með nýrri tækni og sérstök svæði hafa verið skilgreind sem hentug úti fyrir ströndum Noregs fyrir slíka garða líkt og gert hefur verið á landi. Að sögn þeirra sem byggja garðanna þá er rekstrarkostnaður og byggingakostnaður hærri og því ekki mikil hrifning í þeirra röðum. Þar að auki mun það ekki verða á valdi sveitarfélaga hvar slíkir vindorkugarðar rísa í sjó. Skipulagsvaldið fer með öðrum orðum úr höndum sveitarfélaga yfir til ríkisins. Botnfastir garðar eru reistir á dýpi að 70 metrum. En einnig er hröð þróun í gangi á fljótandi vindmyllum með djúpum sökkum og akkerisfestingum. Einnig sáum við strax mikil vandkvæði á að flytja búnaðinn hingað í Langanesbyggð þar sem rafalarnir munu ekki komast yfir einbreiðar brýr og 60 til 90 metra spöðum sem fluttir eru í heilu lagi væri erfitt að koma á land hér nema í gegn um fyrirhugaða höfn í Finnafirði.

Niðurstaðan er að við eigum langt í land að taka ákvarðanir hvað varðar vindorkugarða og það sem margoft hefur verið sagt – þeir verða ekki reistir hér nema í náinni samvinnu, íbúa, sveitastjórnar, landeigenda og þar með talið Langanesbyggðar.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:31.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?