Fara í efni

137. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar

27.01.2022 17:00

Fundur í sveitarstjórn

137. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, fimmtudaginn 27. janúar 2022 og hann settur kl. 17:00.

Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst, Árni Bragi Njálsson, Halldór Rúnar Stefánsson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Sólveig Sveinbjörnsdóttir. Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Jónas Egilsson sveitarstjóri og Björn S. Lárusson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Oddviti lagði til að nýjum lið yrði bætt við dagskrá fundarins, Ályktun um strandveiðar, sem yrði dagskrárliður 15 og aðrir liðir breyttust skv. því.

Samþykkt samhljóða.

D a g s k r á

1. Fundargerð 905. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 17. janúar 2022
2. Fundargerð 440. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 3. desember 2021
3. Fundargerð 32. fundar stjórnar SSNE, dags. 12. desember 2021
4. Fundargerð 33. fundar stjórnar SSNE, dags. 12. janúar 2022
5. Fundargerð 25. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar, dags. 19. janúar 2022
6. Fundargerð 40. fundar skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 18. janúar 2022
      Liður 2. Drög að skipulagslýsingu hafnarsvæðis á Þórshöfn
      Liður 3.Drög að skipulagslýsingu suðurbæjar Þórshafnar
7. Tilnefning fjögurra fulltrúa í samráðsvettvang Sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2020-2024
8. Bréf frá Páli Jónassyni, dag. 6. janúar 2021 – úrsögn úr undirkjörstjórn
9. Erindi frá Útgerðarfélaginu Atlas ehf. dags. 31. desember 2021
10. Húsnæðissjálfseignarstofnun
11. Breytt skipulag barnaverndar
12. Tillaga um breytingu á samþykktum um stjórn Langanesbyggðar nr. 10/2019 – síðari umræða
13. Hlutafjáraukning í FFPD
14. Mat á áhrifum fjárfestingar, álitsgerð frá Ráðrík, dags. 18. janúar 2022
15. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Fundargerð 905. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 17. janúar 2022
Fundargerðin lögð fram.

2. Fundargerð 440. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 3. desember 2021
Fundargerðin lögð fram.

3. Fundargerð 32. fundar stjórnar SSNE, dags. 12. desember 2021
Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð 33. fundar stjórnar SSNE, dags. 12. janúar 2022
Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð 25. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar, dags. 19. janúar 2022
Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerð 40. fundar skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 18. janúar 2022
Til máls tóku: Sigríður Friðný, sveitarstjóri, Halldóra Jóhanna, sveitarstjóri.

Liður 2. Drög að skipulagslýsingu hafnarsvæðis á Þórshöfn
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir tillögu skipulags- og umhverfisnefndar og samþykkir skipulagslýsinguna og að hún verði kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum og send umsagnaraðilum í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku: Halldóra Jóhanna, sveitarstjóri,

Liður 3. Drög að skipulagslýsingu suðurbæjar Þórshafnar
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir tillögu skipulags- og umhverfisnefndar og samþykkir skipulagslýsinguna og að hún verði kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum og send umsagnaraðilum í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða.

7. Tilnefning fjögurra fulltrúa í samráðsvettvang Sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2020-2024
Bókun um afgreiðslu: Samþykkt að Þórarinn J. Þórisson, Siggeir Stefánsson og Jónas Egilsson sveitarstjóri taki sæti í samráðsvettvangi Sóknaráætlunar Norðurlands eystra.

Samþykkt samhljóða.

8. Bréf frá Páli Jónassyni, dags. 6. janúar 2022 – úrsögn úr undirkjörstjórn
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn færir Páli Jónassyni sérstakar þakkir fyrir vel unnin störf í undirkjörstjórn. Sveitarstjórn fer þess á leit við yfirkjörstjórn að hún geri tillögur um aðal- og varamenn í yfir- og undirkjörstjórnir í stað þeirra sem óskað hafa lausnar frá störfum.

Samþykkt samhljóða.

9. Erindi frá Útgerðarfélaginu Atlas ehf. dags. 31. desember 2021
Til máls tóku: Sveitarstjóri. Sigríður Friðný, Þorsteinn Ægir.

Bókun um afgreiðslu: Málinu vísað til atvinnu- og nýsköpunarnefndar til umsagnar.

Samþykkt samhljóða.

10. Húsnæðissjálfseignarstofnun
Lögð voru fram eftirtalin skjöl: Viljayfirlýsing félagsmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 21. janúar 2020, bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 30. september 2021, minnisblað lögfræði-og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 22. september 2021, minnisblað Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar dags. 17. september 2021 og skýrsla HMS um þróun húsnæðismarkaðar á landsbyggðinni, útg. 23. mars 2021.

Til máls tók: sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn vísar málinu atvinnu- og nýsköpunarnefndar og velferðar- og fræðslunefndar til umsagnar.

Samþykkt samhljóða.

11. Breytt skipulag barnaverndar
Lagt var fram minnisblað frá Hróðnýju Lund félagsmálastjóra Norðurþings um breytt skipulag barnaverndarmála.

Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn vísar málinu til velferðar- og fræðslunefndar til umsagnar.

Samþykkt samhljóða.

12. Tillaga um breytingu á samþykktum um stjórn Langanesbyggðar nr. 10/2019 – seinni umræða
Lögð var fram svohljóðandi breyting á samþykktum um stjórn Langanesbyggðar nr. 10/2019 með síðari breytingu til seinni umræðu:

1. gr.

8. gr. samþykktarinnar og verður svohljóðandi:
Sveitarstjórn heldur reglulega fundi fjórðu hverja viku í samræmi við fundaáætlun fyrir sveitarstjórn, byggðarráð og fastanefndir sem sveitarstjórn samþykkir tímanlega fyrir komandi ár hverju sinni. Ef reglubundinn fundur lendir á lögboðnum frídegi færist fundurinn fram um einn dag nema annað sé ákveðið.

Aukafundi skal halda þegar oddviti eða sveitarstjóri telur það nauðsynlegt eða ef þriðjungur sveitarstjórnarmanna óskar þess.

Sveitarstjórn er heimilt að fella niður reglulegan fund sinn, enda sé tillaga um slíkt samþykkt mótatkvæðalaust á næsta fundi sveitarstjórnar á undan.

Sveitarstjórn er heimilt að fella niður reglulega fundi sveitarstjórnar vegna sumarleyfis í allt að tvo mánuði.

Ef meirihluti sveitarstjórnar samþykkir og sérstakar aðstæður eru uppi í samfélaginu, sem gera sveitarstjórnarmönnum ekki kleift að hittast, er heimilt að halda sveitarstjórnarfundi með rafrænum hætti þannig að allir sveitarstjórnarmenn taki þátt með rafrænum hætti. Fundi í byggðarráði og nefndum sveitarfélagsins er heimilt að halda með rafrænum hætti þannig að hluti fulltrúa eða allir taki þátt með rafrænum hætti.

Sveitarstjórnarmönnum er heimilt að taka þátt með rafrænum hætti í fundum á vegum sveitarfélagsins, sbr. 5. mgr. Þegar sveitarstjórnarmenn taka þátt í fundi með rafrænum hætti skulu þeir vera staddir í sveitarfélaginu eða í erindagjörðum innan lands á vegum sveitarfélagsins. Að öðrum kosti skal varamaður boðaður á viðkomandi fund. Tryggja skal jafna möguleika allra fundarmanna til þátttöku á fundi og í atkvæðagreiðslu, óskerta möguleika þeirra til að fylgjast með því sem þar fer fram og öryggi samskipta milli fundarmanna.

Fulltrúar í nefndum sveitarfélagsins hafa sömu heimildir og sveitarstjórnarmenn skv. 6. mgr.

Um framkvæmd fjarfunda að öðru leyti gildir auglýsing um leiðbeiningar um fjarfundi sveitarstjórna og leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna, sbr. 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga.

2. gr.

2. mgr. 15. gr. samþykktarinnar og verður svohljóðandi:

Um ritun fundargerða skal að öðru leyti farið eftir leiðbeiningum um ritun fundargerða sveitarstjórna, 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga.

3. gr.

Samþykkt þessi sem sveitarstjórn Langanesbyggðar hefur sett skv. ákvæðum 9. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Samþykkt samljóða.

13. Hlutafjáraukning í FFPD
Erindi frá FFPD um aukningu hlutafjár. Málið hefur áður verið kynnt í sveitarstjórn á 134. fundi 16.12.2021

Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitastjórn samþykkir fyrir sitt leyti aukningu hlutafjár í Þróunarfélagi Finnafjarðar (FFPD) um Euro. 150.660, (ca. kr. 880 þús.), en sveitarfélagið á 4% hlut í félaginu gegnum Finnafjarðarhafnir slhf. (FFPA).

Samþykkt samhljóða.

14. Mat á áhrifum fjárfestingar, álitsgerð frá Ráðrík, dags. 18. janúar 2022
Lögð fram álitsgerð frá fyrirtækinu Ráðrík um greiðslumat Langanesbyggðar vegna fjárfestinga í viðgerð á íþróttahúsinu Verinu. Skv. 66. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138 frá 2011 skal sveitarstjórn láta fara fram mat á getu sveitarsjóðs ef einstök framkvæmd eða fjárfesting fer yfir 20% af skatttekjum sveitarfélags á yfirstandandi ári. Ljóst er að fyrirhugaðar framkvæmdir og endurbætur á Ver, sem áætlaðar eru um 250 m.kr. á þessu ári fara yfir þessi mörk. Í forsendum er gert ráð fyrir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun. Niðurstöður Ráðríks eru þær að verkefnið á að ganga upp, en ekki sé rými fyrir aðrar stórframkvæmdir á tímabilinu.

Til máls tók sveitarstjóri.

15. Ályktun um strandveiðar

Oddviti lagði fram svohljóðandi ályktun um strandveiðar:

Sveitastjórn Langanesbyggðar lýsir miklum áhyggjum yfir því dökka skýi sem nú hvílir yfir standveiðum

Strandveiðar hafa gefið einstaklingum tækifæri til að hefja útgerð og róa til fiskjar yfir sumarið. Þær eru öflug viðbót við grásleppuveiðar sem hér hafa verið stundaðar í áratugi. Saman mynda veiðarnar samfellu yfir hálfsárs tímabil á þeim tíma sem atvinna kringum uppsjávarveiðar liggur niðri.

Sveitarstjórn Langanesbyggðar vekur sérstaka athygli á að Bakkafjörður fellur undir brothætta byggð. Yfir sumarið snýst allt um strandveiðar og því áframhaldandi uppbygging byggðarlaginu nauðsynleg.

Sveitarstjórn Langanesbyggðar hvetur hæstvirtan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að leita allra leiða til að tryggja 48 veiðidaga til strandveiða.

Bókum um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða ályktun og felur sveitarstjóra að koma henni á framfæri, ráðherra, þingmenn og fjölmiðla.

Til máls tók Þorsteinn Ægir. 

Samþykkt samhljóða

Skýrsla sveitarstjóra

Drög að heildaráætlun um framkvæmdir í frárennslismálum Langanesbyggðar liggja nú fyrir. Þau hafa þau verið send inn til umhverfisráðuneytisins vegna umsóknar um styrk frá ráðuneytinu, þar sem endanlegur frestur til að skila inn umsóknum rennur út á morgun. Endanleg útfærsla áætlunarinnar verður síðan send inn eftir umfjöllun í skipulags- og umhverfisnefnd, byggðaráði og í sveitarstjórn, en við höfum svigrúm til að gera breytingar á henni, eftir að hún hefur verið send inn. Heildarkostnaður vegna framkvæmda er áætlaður um 370 m.kr. fram til ársins 2030.

Viðræður við landeigendur vegna raforkuframleiðslu með vindorku í Langanesbyggð og vegna Finnafjarðarhafnar færast í rétta átt. Þessar viðræður hafa í báðum tilfellum tafist vegna Covid-fundatakmarkana undangengnar vikur. Vonast er til í báðum tilfellum að línur liggi fyrir í apríl nk. Annars vegar eru viðræður við landeigendur í Langanesbyggð vegna mögulegrar uppsetningu á vindmyllum á jörðum í sveitafélaginu og hins vegar viðræður við landeigendur við Finnafjörð vegna mögulegrar leigu á jörðum eða jarðarhlutum vegna stórskipahafnar og uppbyggingar á atvinnustarfsemi þar. Þann 5. maí nk. er áætlað að Dr. Claudia Schilling öldungadeildarþingmaður í sambandsríkinu Bremen sem er einn aðal rekstraraðili bremenports GmbH, komi til landsins og hingað í vettvangsheimsókn. Hún er einnig ráðherra dóms-, vísinda- og hafnarmála í Bremen. Með Dr. Schilling kemur föruneyti 5-7 manna.

Undirbúningsfundur var haldinn hér á Þórshöfn með SSNE og Þekkingarneti Þingeyinga um framtíðarnýtingu Fjarðarvegar 5. Þekkingarsetrið vill flytja starfsemi Menntasetursins á þangað. Miklir möguleikar eru á því að byggja hér upp klasa eða fjarvinnslustöðvar. Nú er unnið að gerð áætlana um mögulegar breytingar og endurbætur á húsinu og stefnt er því að sækja um styrk í sjóð (C1) sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða vegna endurbóta á húsæðinu.

Drög að samningi við Íslandspóst, sem tryggir áframhaldandi þjónustu við íbúa hér á svæðinu, er á lokametrunum og verður kynntur fyrir byggðaráði og stjórn Fjarðarvegar 5 ehf. á næsta fundi byggðaráðs.

Sýslumaður hefur fengið fjárveitingu fyrir starfsmanni hér á Þórshöfn skv. fjárlögum út þetta ár. Því verður samstarfssamningur sveitarfélagsins við embættið framlengdur út þetta ár, en stefna sýslumanns er að tryggja hér starfsstöð til frambúðar með breytingu á reglugerð um embættið og helst styrkja hana hér með öðru stöðugildi. Vel hefur tekist til með tilkomu starfsstöðvarinnar hér. Bæði sýnileg þörf fyrir íbúa á svæðinu að hafa aðgang að stjórnsýslu ríkisins hér og þá hefur góður árangur náðst með starfseminni hér.

Loðnuvertíð hefur gengið vel fram til þessa. Alls hefur verið landað um 26 þús. tonnum verið landað á vertíðinni, þar af um 18 þús. tonnum frá 3. janúar í samtals 16 löndunum. Við höfum sloppið tiltölulega vel út úr Covid hingað til a.m.k., en í þessari viku hefur enginn verið í sóttkví eða eingrun, þrátt fyrir hið bráðsmitandi Ómíkrón afbrigði.

Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:55.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?