Fara í efni

13. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar

16.03.2023 17:00

Fundur í sveitarstjórn

13. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 16. mars 2023. Fundur settur kl. 17:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Júlíus Sigurbjartsson, Þorsteinn Ægir Egilsson, Gunnlaugur Steinarsson, Mirjam Blekkenhorst, Margrét Guðmundsdóttir. Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Á fundinn mætti Elva Gunnlaugsdóttir verkefnastjóri SSNE í gegnum fjarfundabúnað.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Dagskrá

 

1. Elva Gunnlaugsdóttir verkefnastjóri SSNE kom á fundinn í gegn um fjarfundarbúnað
2. Fundargerð 48. fundar SSNE frá 10.02.2023
3. Fundargerð 49. fundar SSNE frá 01.03.2023
4. Fundargerð 919 fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 28.02.2023
5. Fundargerð 9. fundar byggðaráðs frá 02.03.2023
     Liður 5: Tillaga um að útvista rekstri tjaldsvæðis á Þórshöfn
     Liður 6: Breyting á gjöldum; lóðaleigu, vatnsgjaldi og fráveitu
6. Fundargerð 4. fundar Jarðasjóðs frá 22.02.2022
7. Fundargerð 11. fundar skipulags- og umhverfisnefndar 07.03.2023
     Liður 5: Minnisblað um hundagerði frá 7. fundi nefndarinnar
8. Fundargerð 5. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 21.02.2023
     Liður 2: Bókun nefndarinnar um salernisaðstöðu á Langanesi og drög að atvinnustefnu.
9. Fundargerð 1. fundar landbúnaðar- og dreifbýlisnefndar fá 13.02.2023
10. Fundargerð 4. fundar hafnarnefndar frá 08.03.2023
11. Fundargerð 5. fundar velferðar- og fræðslunefndar 09.03.2023
12. Endurskipulagning sorpmóttökustöðvar á Þórshöfn, stækkun lóðar, þarfagreining og kostnaður
13. Drög að tillögu um breytingar á efri hæð Nausts
14. Tillaga um tilnefningar í stjórn SSNE
15. Samningur um mötuneyti skóla, endurnýjun samkvæmt samningi dags. 01.02.2023
16. Beitarskúrar, teikningar og tillögur
17. Húsnæðisáætlun - endurskoðun
18. Tillaga um kaup á DC3 í landi Sauðaness
19. Tillaga um að fela sveitarstjóra að kanna kaup á Skeggjastöðum
20. Viðauki við samning um sameiginlegt þjónustusvæði um almenna og sértæka félagsþjónustu.
21. Viðauki við fárhagsáætlun 2022 vegna launa við hjúkrun á Nausti og launa verkefnastjóra „Betri Bakkafjarðar“.
22. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Elva Gunnlaugsdóttir verkefnastjóri SSNE kom á fundinn í gegn um fjarfundarbúnað

Elva fjallaði um starfsemi SSNE og svaraði spurningum.

2. Fundargerð 48. fundar SSNE frá 10.02.2023
Fundargerðin lögð fram

3. Fundargerð 49. fundar SSNE frá 01.03.2023
Fundargerðin lögð fram

4. Fundargerð 919 fundar stjórnar Sambands Ísl. sveitarfélaga frá 28.02.2023
Fundargerðin lögð fram

5. Fundargerð 9. fundar byggðaráðs frá 02.03.2023  
      Liður 5: Tillaga um að útvista rekstri tjaldsvæðis á Þórshöfn.

Tillagan gerir ráð fyrir að fundið verði áhugasamt fólk til að reka tjaldsvæðið á Þórshöfn og gerður verði samningur við viðkomandi til eins árs með möguleika á framlengingu.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir tillöguna og felur sveitarstjóra að gera samning um reksturinn við áhugasaman rekstraraðila.

Samþykkt samhljóða.

     Liður 6: Breyting á gjöldum, lóðaleigugjaldi, vatnsgjaldi og fráveitu.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn mun ekki gera breytingar á gjöldum frá því sem þau voru samþykkt á 9. fundi, þann 15. desember s.l. enda hafa þær óveruleg áhrif á gjöldin.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin lögð fram

6. Fundargerð 4. fundar Jarðasjóðs frá 22.02.2022
Fundargerðin lögð fram

7. Fundargerð 11. fundar skipulags- og umhverfisnefndar 07.03.2023
     Liður 5 í 7. fundargerð nefndarinnar: Minnisblað um hundagerði þar sem nefndin leggur til stað fyrir það.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn tekur undir með nefndinni varðandi hugsanlegan stað fyrir hundagerði á Þórshöfn. Ef áhugasamir hundaeigendur hafa áhuga á að koma slíku upp, mun sveitastjórn taka til athugunar að hafa um það samstarf.

Atkvæðagreiðsla: Með; Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét. Á móti; Þorsteinn, Mirjam, Júlíus.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, Mirjam, Halldóra, Þorsteinn,

Tillaga L-lista: Unnið verði eftir tillögu umhverfis- og skipulagsnefndar og sveitarfélagið komi upp hundagerði á Þórshöfn skv. þeirri staðsetningu sem nefndin leggur til.

Atkvæðagreiðsla með tillögu L-lista: Með; Þorsteinn, Mirjam, Júlíus. Á móti; Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét.

Bókun L-lista: Fulltrúar L-lista telja að það eigið að vinna eftir tillögu nefndarinnar um að koma upp hundagerði á Þórshöfn. Á Þórshöfn eru um 30-40 hundar og var skipulagsráðgjafa sveitarfélagsins falið að koma með tillögur að svæðum fyrir hundagerði. Skv. reglum sveitarfélagsins er lausaganga hunda bönnuð og því er það mat fulltrúa L-lista, og umhverfis- og skipulagsnefndar að koma á móts við hundaeigendur með þessari aðstöðu í þéttbýli.

8. Fundargerð 5. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 21.02.2023   
     Liður 2: Bókun atvinnu- og nýsköpunarnefndar: Nefndin beinir því til sveitarstjórnar að kanna alla möguleika á því að koma upp salernisaðstöðu á          Langanesi. Nefndin beinir því einnig til sveitarstjórnar að drög að atvinnustefnu sem nú er unnið að verði lögð fram fyrir vorið.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að leysa salernisaðstöðu á Langanesi. Atvinnustefna hefur verið í vinnslu hjá skrifstofu. Stefnan verður kynnt byggðaráði fljótlega sem tekur ákvörðun um framhald þeirrar vinnu.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin lögð fram

9. Fundargerð 1. fundar landbúnaðar- og dreifbýlisnefndar fá 13.02.2023
Fundargerðin lögð fram

10. Fundargerð 4. fundar hafnarnefndar frá 08.03.2023
Fundargerðin lögð fram

11. Fundargerð 5. fundar velferðar- og fræðslunefndar 09.03.2023  
     Liður 6: Samstarfssamningur HNE um skipan heilbrigðisnefndar á svæðinu um rekstur heilbrigðiseftirlits.

Breytingar verða á samningnum þannig að í 5 manna stjórn verða, 2 frá Akureyri, einn frá sveitarstjórnum í Eyjafirði, einn frá Norðurþingi og einn frá öðrum sveitarstjórnum í Þingeyjarsýslum. HNE fær heimild til að afgreiða starfsleyfisumsóknir sem síðar verða staðfestar af stjórn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn og felur sveitarstjóra að undirrita hann fh. Langanesbyggðar.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin lögð fram

12. Endurskipulagning sorpmóttökustöðvar á Þórshöfn, stækkun lóðar, þarfagreining og kostnaður
Lögð fram drög að endurskipulagningu sorpmóttökustöðvar á Þórshöfn. Sameining lóða nr. 4 og 6 við Háholt ásamt þarfagreiningu á sorpmóttökuhúsi og drögum að kostnaðaráætlun.

Öll sveitarfélög á Norðurlandi vinna nú að sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs í samræmi við 6. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 með síðari breytingum og breytingalög nr. 103/2021 sem tóku gildi 1. janúar 2023 og er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að fara í framkvæmdir við endurskipulagningu sorpmóttökustöðvar og felur sveitarstjóra að kanna nánar um áfangaskiptingu framkvæmda, nánari áætlun um kostnað við hvern áfanga og hvað í hverjum áfanga felst. Sveitarstjórn heimilar jafnframt að hefja frekari undirbúning að framkvæmdum.

Samþykkt samhljóða.

13. Drög að tillögu um breytingar á efri hæð Nausts
Forstjóri Nausts hefur lagt fram ósk um breytingu á framkvæmdaröð við dvalarheimilið. Í stað viðbyggingar á 1. hæð verði farið í endurbætur á efri hæð samkvæmt teikningu sem Faglausn hefur gert í samráði við forstjóra. Drög að kostnaðaráætlun lögð fram.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn heimilar að breyta forgangsröð framkvæmda við Naust en óskar eftir nánari útfærslu og teikningum áður en leyfi til framkvæmda verði samþykkt.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Mirjam, Halldóra, oddviti, Þorsteinn, Mirjam, sveitarstjóri, Þorsteinn.

Tillaga L-lista: Fulltrúar L-lista krefjast þess að framkvæmdir við dvalarheimilið Naust (efri hæð) verði sett í forgang með það að markmiði að hefja og klára framkvæmdir í sumar 2023

Atkvæðagreiðsla: Með; Þorsteinn, Mirjam, Júlíus. Á móti; Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét.

14. Tillaga um breytingar á skipan í stjórn SSNE.
Vegna breytinga á samþykktum SSNE leggur SSNE fram tillögu um breytingar á skipan stjórnar SSNE.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn lýsir sig samþykka að öll aðildarsveitarfélög eigi sinn stjórnarmann.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti.

15. Samningur um mötuneyti skóla, endurnýjun samkvæmt samningi dags. 01.02.2023
Lagður fram samningur um mötuneytisþjónustu í skólum. Verð á máltíð hækkar samkvæmt vísitöluákvæðum samningsins.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir breytingar á samningnum og felur sveitarstjóra að undirrita hann.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku: sveitarstjóri, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn.

16. Beitarskúrar, teikningar og tillögur
Lagðar fram teikningar og tillögur til kynningar vegna umræðu um framtíð Beitarskúra í nefndum sveitarfélagsins þar sem spurt hefur verið um hvort sveitarfélagið sé tilbúið til að halda áfram á grundvelli þeirra hugmynda sem lagðar hafa verið fram.

Til máls tóku: sveitarstjóri, Þorsteinn, Mirjam,

Tillaga L-Lista: Fulltrúar L-lista telja að vinna eigi málið áfram og vinnuhópi sem skipaður var um verkefnið verði falið að koma með þarfagreiningu, áætlanir, áfangaskiptingu, tímalínu og framtíðarsýn verkefnisins í samráði við sveitarstjóra og atvinnu- og nýsköpunarnefnd.

Samþykkta samhljóða.

Bókun L-lista: Fulltrúar L-lista hafa trú á því að hægt sé að vinna málið áfram og byggja upp einhverskonar menningarstarfsemi í Beitningarhöllinni í samráði við Röstina. Slík aðstaða menningar og lista er ekki til í sveitarfélaginu. Í öðrum sveitarfélögum hafa gömul hús fengið nýtt líf með samstilltu átaki sveitarfélags og áhugamanna um slíka starfsemi. Svona verkefni kostar tíma og peninga en þá þarf að sækja í ýmsa sjóði. Margir áhugverðir möguleikar hafa komið um nýtingu hússins.

17. Húsnæðisáætlun - endurskoðun
Lögð fram til kynningar endurskoðuð húsnæðisáætlun fyrir Langanesbyggð. Sett fram lágspá, miðspá og háspá og tekið tilliti til sameiningar sveitarfélaganna. HMS er með áætlunina til yfirferðar. Húsnæðisáætlun er forsenda aðkomu lánastofnana og annarra fjárfesta að byggingu húsa í Langanesbyggð.

Til máls tók sveitarstjóri.

Áætlunin lögð fram til kynningar

18. Tillaga um kaup á DC3 í landi Sauðaness
Lagt er til að sveitarfélagið kaupi flak DC 3 vélar í landi Sauðaness og komi því fyrir á einhverjum stað í sveitarfélaginu þar sem það gæti verið aðgengilegt enda hefur það mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Lögð fram drög að kaupsamningi með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar.

Frávísunartillaga L-lista: Málinu vísað frá á þeim forsendum að skattfé almennings sé forgangsraðað á eðlilegan hátt.

Atkvæðagreiðsla frávísunartillögu: Með; Þorsteinn, Júlíus, Mirjam. Á móti; Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir kaupin og felur sveitastjóra eftirfarandi

a) Auglýsa eftir aðilum sem vilja taka að sér flakið til varðveislu og/eða hagnýtingar innan sveitarfélaga marka.
b) Auglýsa eftir tillögum að staðsetningu flaksins innan sveitarfélaga marka.

Fela síðan atvinnu og nýsköpunarnefnd niðurstöður þeirra auglýsinga til úrvinnslu og tillögugerðar.

Atkvæðagreiðsla: Með; Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét. Á móti; Þorsteinn, Mirjam, Júlíus.

Til máls tóku: Þorsteinn, Mirjam, sveitarstjóri, Þorsteinn, Halldóra, Mirjam, Þorsteinn, Gunnlaugur, sveitarstjóri, oddviti, Þorsteinn, Mirjam.

Tillaga L-lista: Fulltrúar L-lista leggja til að þeir fjármunir sem áætlaðir eru í kaup, flutning, rekstur og fleira varðandi þetta gamla flugvélaflak verið nýtt í þjónustu við íbúa sveitarfélagsins s.s. nauðsynlegar framkvæmdir og viðhald.

Atkvæðagreiðsla tillögu L-lista: Með; Þorsteinn, Júlíus, Mirjam. Á móti; Sigurður, Halldóra, Gunnlaugur, Margrét.

Bókun L-lista: Á þessu kjörtímabili hefur meirihluti frestað eða hætt við nauðsynlegar framkvæmdir í sveitarfélaginu, tekið ákvarðanir um umdeildar launagreiðslur til oddvita og fyrrum framkvæmdastjóra, frestað ráðningu á starfsmanni skrifstofu með tilheyrandi tímabundnum vanda á skrifstofu og nú leggur meirihlutinn til að kaupa 60 ára gamalt flugvélaflak í því skyni að gera úr því aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Fulltrúar L-lista lýsa furðu sinni yfir þessu háttalagi meirihluta á meðan ekki eru til peningar til að auka þjónustu við íbúa, fara í framkvæmdir og viðhald.

19. Tillaga um að fela sveitarstjóra að kanna möguleika á kaupum á Skeggjastöðum.
Tillaga um að fela sveitarstjóra að leita eftir kaupum á jörðinni Skeggjastöðum af Þjóðkirkjunni.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að leita eftir viðræðum við Þjóðkirkjuna um hugsanleg kaup á jörðinni Skeggjastöðum við Bakkafjörð. Niðurstaða viðræðna eða drög að kaupsamningi verði lagður fyrir sveitarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, Gunnlaugur, Þorsteinn, Halldóra.

Bókun L-lista: Fulltrúar L-lista eru sammála því að skoða eigi möguleika á því að fjárfesta í jörðum í sveitarfélaginu en telja það ekki forgangsmál. Hvað varðar möguleg kaup á Skeggjastöðum þá er sú vinna og hugmynd ekki ný af nálinni, enda hefur fyrrum sveitarstjórn, sveitarstjóri og verkefnistjórn Betri Bakkafjarðar skoðað málið og verið í samskiptum við kirkjuna og sóknarnefnd.

20. Viðauki við fjárhagsáætlun 2022 vegna launa við hjúkrun á Nausti og launakostnaðar verkefnastjóra Betri Bakkafjarðar
Þegar forstjóri Nausts lét af störfum féll allur launakostnaður vegna hjúkrunar þar á Langanesbyggð. Varðandi laun verkefnastjóra Betri Bakkafjarðar var ekki gert ráð fyrir þeim í áætlun fyrir verkefnið.

Viðauki vegna Nausts er kr. 3.062.000 og viðauki vegna verkefnastjóra er 2.770.000 eða samtals kr. 5.832.000.-

Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir viðaukann eins og hann er lagður fram af KPMG, endurskoðanda sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

21. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. oddviti og sveitarstjórn

Nú hillir undir að starfsemi hefjist í Landsbankahúsinu eða gamla Sparisjóðnum eins og sumir kalla húsið Kistufell. Atvinnu- og þróunarsetrið fær að líkindum nafnið „Kistan – þróun og þekking“ verði það samþykkt, sem er stutt og laggott og segir nákvæmlega til um hvers konar starfsemi verður í húsinu. Verkið hefur gengið nokkuð vel þó skortur á iðnaðarmönnum hafi um tíma tafið verkið en ætlunin var að opna það formlega með heimsókn iðnaðarráðherra í gær en það náðist því miður ekki. Teymið sem unnið hefur að undirbúningi hefur unnið vel og skipulega þrátt fyrir þessar óviðráðanlegu tafir. Það er ómetanlegt að hafa haft aðgang að þeirri þekkingu og innsýn í rekstur slíks seturs þar sem vinna við undirbúning hefur að mestu eða öllu leyti verið á herðum starfsfólks Þekkingarseturs Þingeyinga. Nú þegar er ljóst að í húsinu verða nokkur félög og fyrirtæki sem hafa falast eftir aðstöðu. Þar má nefna Ísfélagið, fyrirtækið Hýsi, Menntasetrið, háskólann á Akureyri með aðstöðu auk þess sem starfsmaður náttúrustofu á Bakkafirði sem er í undirbúningi gæti haft þar vinnuaðstöðu jafnframt því að starfa aðallega á Bakkafirði. Þá ber að geta þess að það tókst að halda pósthúsinu hér opnu með því að leigja aðstöðu í húsinu og taka yfir reksturinn sem er nokkurn veginn í jafnvægi. Bréf til hugsanlegra bakhjarla eru að fara út þessa dagana og verður spennandi að sjá svör. Innan skamms verður haldinn fundur í stjórn Fjarðarvegar 5 ehf. þar sem væntanlega kemur tillaga um breytingu á nafni fyrirtækisins, tillaga um hugsanlega bakhjarla sem meðeigendur að fyrirtækinu og/eða breytingu á rekstrarfyrirkomulagi í tengslum við það. Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjóri eða verkefnastjóri verði ráðinn í sumar og hefji störf í júlí eða ágúst.

Næsta stóra verkefni bíður okkar en það er að endurskipuleggja sorpmálin í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs og úrvinnslugjald og EES reglur um hringrásarhagkerfi nr. 103/2021 sem tóku gildi um síðustu áramót. Þar eru settar fram kröfur um sérstaka söfnun tiltekinna úrgangsflokka eða heimilisúrgangs. Lögin fela í sér breytingar á ýmsum skilgreiningum á úrgangi og flokkun hans og gera miklar kröfur til sveitarfélaga um aðferðarfræði við flokkun, móttöku og flutning. Þessar breytingar ættu hins vegar að koma okkur til góða á flestum sviðum þar sem útgjöld okkar til sorpmála voru rétt um 43 milljónir króna á síðasta ári en tekjur um 17 milljónir króna. Það þýðir um 26 milljóna króna niðurgreiðsla sem er ekki heimilt samkvæmt lögum fyrir utan það að vera algjörlega óásættanlegt. Gjöld fyrir sorphirðu og förgun á að standa undir kostnaði en við stöndum undir 40% af honum og eigum við því langt í land að ná því markmiði að tekjur og gjöld séu jöfn. Hallinn hefur aukist ár frá ári. Með aukinni flokkun, hagræðingu á móttökustöð og þar með hagkvæmari flutningi ættum við að vera í stakk búin til að draga verulega úr kostnaði. Við höfum undanfarin 2 ár hækkað sorpgjöld um 12% á ári, eða umfram aðrar gjaldskrárhækkanir en þrátt fyrir það sígur á ógæfuhliðina í auknum halla. Sum sveitarfélög hafa hækkað sín gjöld um allt að 33% til að draga úr halla á þessum málaflokki eftir langvarandi hallarekstur. Það er þó ljóst að okkur tekst ekki að mæta öllum kröfum á þessu ári og að líkindum þurfum við að framlengja samning við Íslenska gámafélagið eða aðra um næstu áramót, að minnsta kosti um eitt ár. En hægt er að hefja heimavinnuna og byrja að taka til hjá okkur sjálfum, koma á skipulagi heima í héraði til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru með áðurnefndum lögum. Að líkindum þurfum við að bæta við starfsmanni til að sinna sérstaklega þessum málum í byrjunarfasa og helst að sérstakur starfsmaður sjái alfarið um móttökustöðina og þróun hennar í framtíðinni til að fylgja eftir þeim reglum sem settar eru. Þannig er ég viss um að það sparast miklir fjármunir fyrir sveitarsjóð.

Annað mál sem til umræðu var hér í dag eru endurbætur á Nausti. Forstjóri fór fram á að gerðar yrðu breytingar á framkvæmdaáætlun fyrir endurbætur og lögð áhersla á viðhald og breytingar á efri hæð hússins. Með þeirri breytingu sem kemur fram í óskum forstjóra er möguleiki á hagræðingu og betri nýtingu hússins. Framkvæmdir við stækkun neðri hæðar verða því að bíða til næsta eða þarnæsta árs en þar er ætlunin að gera sérstaka setustofu, bæta starfsmannaaðstöðu og þvottahús. Þrátt fyrir þetta, verður samhliða breytingum og viðhaldi á efri hæð að finna bráðabirgðalausn fyrir skrifstofu forstjóra og bætta aðstöðu fyrir hjúkrunarfólk. Frá því að fyrrum forstjóri hætti hefur hjúkrunarþjónustan alfarið verið í höndum HSN en gera þarf sérstakan samning við HSN um hjúkrunarþjónustuna sem dregist hefur úr hömlu að gera af ýmsum ástæðum.

Hvað húsnæðismál varðar höfum við aftur náð sambandi við leigufélagið Bríeti eftir framkvæmdastjóraskipti þar og nú eru væntanlega tvær umsóknir á borðinu í samvinnu við félagið um byggingu 4 íbúða ráðhúss, um 100m2 hver íbúð við Miðholt en framkvæmdir hefjast væntanlega í vor. Gera þarf minniháttar breytingu á deiliskipulagi og fara í grenndarkynningu áður en framkvæmdir hefjast. Skipulags – og umhverfisnefnd hefur verið mjög virk og samstíga í því að leysa húsnæðisvanda sem hefur verið viðvarandi í nokkur misseri. Þeirra stærsta verkefni er þó nú að fara yfir óskir Ísfélagsins um umtalsverðar breytingar á höfninni sem brátt verða kynntar en EFLA vinnur að því verkefni í samvinnu við skipulagsfulltrúa og í nánum tengslum við nefndina.

Það eru mörg mál í deiglunni og of langt að telja allt upp í svona skýrslu en þó má ég til með að nefna tvö mál. Það er mikið verk framundan að koma skipulagi á lóðamál, hnitsetja lóðir og lönd og mæla á Þórshöfn og Bakkafirði og ekki síst þær jarðir og lóðir sem fara í umsjá Jarðasjóðs en þinglýsa þarf öllum þeim jörðum og löndum á Langanesbyggð þar sem Jarðasjóður verður með umsjón með þeim eignum. Þetta er mikil handavinna og samvinna á milli skrifstofu, skipulagsfulltrúa, byggingafulltrúa og viðkomandi nefnda þar sem það á við. En allt þetta þarf helst að vera tilbúið eða langt komið þegar lagt er í það stóra verkefni að gera nýtt aðalskipulag fyrir nýtt sveitarfélag.

Hitt málið varðar framlengingu á verkefninu Betri Bakkafjörður en lokadrög að umsókn hafa verið send til sveitarstjórnarmanna til yfirlesturs áður en við tökum það til formlegrar afgreiðslu og sendum Byggðastofnun og hefjum þá vegferð að vinna málinu brautargengi innan stjórnkerfisins og innan stjórnar Byggðastofnunar að halda verkefninu áfram.

Til máls tóku: Mirjam, oddviti, Þorsteinn, oddviti.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:27.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?