Fara í efni

128. fundur sveitarstjórnar, aukafundur.

24.06.2021 17:00

Fundur í sveitarstjórn

128. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn í Þórsveri. Þórshöfn, fimmtudaginn 24. júní 2021 og fundur settur kl. 17:00.

Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst, Árni Bragi Njálsson, Jósteinn Hermundsson, Siggeir Stefánsson, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Halldóra Jóhanna Friðbjörnsdóttir, Jónas Egilsson sveitarstjóri og Björn S. Lárusson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð.

Til máls tóku; Siggeir, Þorsteinn Ægir.

Oddviti lagði fram fundarboð aðalfundar veiðifélags Hafralónsár, sem er móttekið fyrr í dag, en fundurinn er 30. júní nk. kl. 14. Hann óskaði eftir því að fundarboðið væri tekið á dagskrá fundarins sem nýr liður númer 11 og að númer annarra liða breyttist samkvæmt því.

Því næst var gengið til dagskrár.

D a g s k r á

1) Fundargerð 899. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga dags, 11. júní 2021

2) Fundargerð 21. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar dags, 16. júní 2021

3) Fundargerð 22. fundar velferðar- og fræðslunefndar dags, 16. júní 2021

4) Fundargerð 34. fundar skipulags- og umhverfisnefndar, dags, 15. júní 2021

5) Fundargerð 8. fundar hverfisráðs dreifbýlis dags. 26. janúar 2021

6) Fundargerð fulltrúaráðs Héraðsnefndar Þingeyinga dags, 8. júní 2021

7) Umsókn um lóð og beitiland, liður 3 frá 33. fundi skipulags- og umhverfisnefndar – frestað frá síðasta fundi.

8) Skipan nýs formanns yfirkjörstjórnar Langanesbyggðar

9) Langanesvegur 2 – samantekt kostnaðar, dags. 21. júní 2021

10) Heimild til lántöku

11) Aðalfundur Veiðifélags Hafralónsár

12) Heimild til lántöku

13) Sumarleyfi sveitarstjórnar

14) Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Fundargerð 899. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 11. júní 2021

Fundargerðin lögð fram.

2. Fundargerð 21. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar dags 16. júní 2021 .

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku; Siggeir. sveitarstjóri, Siggeir.

U listinn leggur fram bókun; Leggjum áherslu á að sveitarfélagið vinni ákveðið að mögulegum kaupum á húsinu fyrir nýsköpunarverkefni og fleiri verkefnum í samstarfi við aðra aðila eins og SSNE og Byggðastofnun. Óskum eftir því að fá upplýsingar um stöðu mála fyrir næsta fundi byggðaráðs.

3. Fundargerð 22. fundar velferðar- og fræðslunefndar dags. 16. júní 2021
Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð 34 fundar skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 15. júní 2021
Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð 8. fundar dreifbýlisráðs
Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku; Siggeir, sveitarstjóri.

6. Fundargerð héraðsnefndar Þingeyinga frá 18. júní 2021
Fundargerðin lögð fram.

7. Umsókn um lóð og beitiland
Lagt fram að nýju, frestun afgreiðslu frá 127. fundi sveitarstjórnar, liður 3 frá 33. fundi skipulags og umhverfisnefndar.

Liður 3: Umsókn um lóð og beitiland

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar, en í ljósi ástands hesthússins, sem getið er um á fylgiskjali 2, er sveitarstjóra falið að ganga frá niðurrifi hússins fyrir afhendingu lóðarinnar.

Til máls tóku; Siggeir, sveitarstjóri.

Samþykkt samhljóða.

8. Skipan nýs formanns kjörstjórnar Langanesbyggðar
Lagt fram afsagnarbréf Gunnlaugs Ólafssonar formanns yfirkjörstjórnar Langanesbyggðar, dags. 10. júní 2021.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn færir Gunnlaugi bestu þakkir fyrir störf hans fyrir samfélagið og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.

Skipan nýs formanns nefndarinnar er frestað til næsta fundar sveitarstjórnar.

Samþykkt smhljóða.

9. Langanesvegur 2 - samantekt kostnaðar, dags. 21. júní 2021
Lagt fram vinnuskjal með yfirliti um áfallinn kostnað vegna framkvæmda við Langanesveg 2 miðað við 21. júní 2021. Ekki um samþykkta áætlun að ræða.

Til máls tók; sveitarstjóri.

10. Heimild til lántöku

Til máls tóku: sveitarstjóri, Siggeir

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð allt að kr. 35.000.000.-, með lokagjalddaga þann 5. október 2034, í samræmi við þá skilmála sem standa til boða á hverjum tíma. Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Er lánið tekið til fjármögnunar á framkvæmdum við fráveitu sveitarfélagsins og önnur fjárfestingaverkefni sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Jónas Egilssyni, sveitarstjóra, kt. 120258-3469 veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Langanesbyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

Samþykkt samhljóða.

Bókun U lista; Við samþykkjum fjárútlát vegna byggingu fjallaskála en leggur áherslu á að reynt verði að fá fleiri aðila að verkefninu og finna meiri verkefni fyrir hann

11. Aðalfundur Veiðifélags Hafralónsár
Fundarboð vegna aðalfundar Veiðifélags Hafralónsár, 24. júní nk. lagt fram, en fundarboðið kom í pósti til sveitarfélagsins í dag.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að sveitarstjóri fari með umboð og atkvæðisrétt sveitarfélagsins á aðalfundum veiðifélags Hafralónsár fyrir árið 2021 en oddviti í hans forföllum.

Til máls tók sveitarstjóri.

Samþykkt samhljóða.

12. Sumarleyfi sveitarstjórnar

Oddviti lagði fram svohljóðandi bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn fer að þessum fundi loknum í sumarleyfi til 19. ágúst nk., skv. starfsáætlun sem samþykkt var á 120. fundi sveitarstjórnar 17. desember 2020. Því fellur fundur sveitarstjórnar niður sem er dags. er 1. júlí nk. í fundaáætlun.

Á meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi, fer byggðaráð, samkvæmt 5. tl. 31. gr. samþykkta um stjórn Langanesbyggðar, með sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella. Aukafundur í sveitarstjórn verður haldinn í millitíðinni ef þörf krefur.

Til máls tók Siggeir.

Bókun samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 atkvæðum; með bókuninni; Þorsteinn Ægir, Jósteinn, Árni Bragi og Mirjam. Á móti, Siggeir, Halldóra og Sólveig.

13. Skýrsla sveitarstjóra

Undirbúningur jafnlaunavottunar er enn í vinnslu. Þessi vinna er mun umfangsmeiri en talið var í byrjun, þar sem grunn vantaði. Einnig hafa orðið ófyrirséðar tafir hjá okkur á vinnunni. Við erum að vinna frá grunni skýrari lýsingar á ákvörðun launa, útbúa starfslýsingar og starfsmat ólíkra starfa hjá sveitarfélaginu. Nú er í vinnslu undirbúningur úttektar sem stefnt er að framkvæmd verði í ágúst nk. og að jafnlaunavottun gæti legið fyrir í september nk.

Hefðbundin sumarstörf eru hafin og ganga vel. Vinna við íþróttavöllinn gengur líka vel, en bráðlega verður farið í að steypa undir íþróttasvæði og kastplatta. Vinna við aðkomu við brúna við Miðfjarðará hefst eftir nokkra daga, en Langanesbyggð fær úthlutaðar 3,5 m.kr. frá Vegagerðinni í styrkvegafé á þessu ári. Unnið er skv. áætlun Hverfaráðs dreifbýlis.

Framkvæmdir við endurnýjun lagna undir Langanesvegi hefjast væntanlega í byrjun júlí, en gert er ráð fyrir að malbikað verði í ágúst nk. Þar sem talsverðar lokanir munu verða, á meðan á framkvæmdum stendur, þarf að skipuleggja framkvæmdir og kynna lokanir þannig að sem minnst óþægindi verði fyrir íbúa og aðra þá sem eiga leið um Þórshöfn á meðan á framkvæmdum stendur.

Framkvæmdir við nýtt skrifstofuhúsnæði ganga eftir áætlun og verður endurskoðuð kostnaðaráætlun lögð fyrir næsta fund byggðaráðs. Vinnu við milliloft og klæðningu útveggja er að ljúka.

Unnið er að hönnun og útfærslu á loftræstibúnaði fyrir Ver, ásamt annarri hönnun. Eins er verið að hanna breytingar á burðavirki sundlaugar eftir að í ljós kom að ástand þeirra er verulega ábótavant. Á næstu dögum hefst vinna við niðurrif á næturhitunartanki m.a. til að komast að límtrésburðarbitum sem eru á bakvið tankinn. Það er að koma betur og betur í ljós að hönnun og framkvæmd við húsið upphaflega og viðhald undangenginna ára hefur verið verulega óbótavant.

Helstu fjallskiladagsetningar hafa verið birtar á heimasíðunni er frestur til að gera athugasemdir er til mánaðarmóta. Í kjölfarið verður fjallskilaseðill gefinn út.

Stjórn FFPD kom saman til fundar 16. júní sl. í fjarfundi. Umræðuefni var aðallega yfirferð þeirra mála sem eru í vinnslu og umræður um næstu verkefni. Að sögn stjórnarmanna eru í gangi viðræður við lögfræðing landeigenda um fyrirkomulag mögulegrar greiðslu fyrir leigu landi eða kostnað landeigenda vegna viðræðna. Að öðru leyti er lítið að gerast og engin viðbrögð hafa komið frá ríkinu við bréfum FFPA og FFPD frá sl. hausti.

Gunnlaugur A. Júlíusson hagfræðingur er að vinna að úttekt á rekstri Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Nausts, en hann kom hingað og átti samtal við starfsfólk Langanesbyggðar og Nausts fyrir tveimur vikum. Hann bíður nú ákveðinna grunnupplýsinga frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem eru í vinnslu þar. Niðurstöður Gunnlaugs verða lagðar fram þegar þær liggja fyrir. Forsætisráðherra hefur svarað erindi sveitarfélagsins, dags. 19. maí 2021, þar sem vakin er athygli á rekstrarafkomu Nausts. Í svarbréfi ráðuneytisins, sem dags. er 23. júní sl., skorast ráðherra undan því að taka á málinu og vísar til skýrslu sem heilbrigðisráðuneytið skipaði nefnd til að vinna undir formennsku Gylfa Magnússonar hagfræðings.

Fulltrúar Langanesbyggðar áttu góðan fund með stjórn og framkvæmdastjóra Samkaupa sem var á ferð um svæðið sl. miðvikudag til að kynnast staðháttum hér. Einnig sat Sigurrós Jónasdóttir verslunarstjóri Kjörbúðarinnar á Þórshöfn fundinn.

Vel heppnaður íbúafundur var haldinn um mögulega friðlýsingarkosti á Langanesinu mánudaginn 21. júní sl. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hélt ávarp, Davíð Örvar Hansson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun gerði grein fyrir efni samantektar sem gerð var og Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ fór yfir reynslu þeirra á sl. 20 árum vegna Snæfellsjökulsþjóðgarðs.

Gunnar M. Gunnarsson hefur verið ráðinn nýr verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar, en Ólafur Áki Ragnarsson óskaði ekki eftir framlengingu samnings síns og lét hann af störfum í lok maí sl. Gunnar hefur störf í byrjun ágúst nk. Hann kom í skoðunarferð til Bakkafjarðar sl. mánudag ásamt Eyþóri Björnssyni framkvæmdastjóra SSNE, Rebekku Garðarsdóttur verkefnisstjóra, formanni verkefnisstjórnar Kristjáni Halldórssyni hjá Byggðastofnun ásamt undirrituðum. Þar var til staðar fráfarandi verkefnisstjóri sem fór yfir stöðu einstakra verkefna. Um leið og Gunnar er boðinn velkominn til starfa er Ólafi Áka þökkuð góð störf í þágu Bakkfirðinga.

Jón Rúnar Jónsson forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar kemur aftur til starfa í byrjun júlí eftir um fjögurra mánaða veikindaleyfi, en Þorri Friðriksson hefur leyst hann af með stakri prýði. Sveitarstjóri verður í stuttu sumarleyfi frá 25. júní til 6. júlí nk. og sinnir skrifstofustjóri verkefnum sveitarstjóra á þessum tíma.

Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:00.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?