Fara í efni

127. fundur sveitarstjórnar

10.06.2021 00:00

Fundur í sveitarstjórn

127. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn í Þórsveri. Þórshöfn, fimmtudaginn 10. júní 2021 og fundur settur kl. 17:00.

Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst, Halldór R. Stefánsson, Jósteinn Hermundsson, Siggeir Stefánsson, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Aðalbjörn Arnarsson, Jónas Egilsson sveitarstjóri og Björn S. Lárusson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð.

U listinn gerir athugasemd við að ekki voru öll gögn nefnda meðfylgjandi fundarboði á réttum tíma.

Því næst var gengið til dagskrár.

D a g s k r á

1. Fundargerð 898. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 28. maí 2021

2. Fundargerð XXXVI. landsþings Sambandsins og skýrsla Framtíðarseturs Íslands

3. Fundargerð 33. fundar skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 18. maí 2021

4. Fundargerð 38. fundar byggðaráðs, dags. 21. apríl 2021

5. Fundargerð 40. fundar byggðaráðs, dags. 24. maí 2021

6. Fundargerð 18. fundar hafnarnendar, dags. 30. apríl 2021

7. Breyting á gjaldskrá tjaldsvæða

8. Bakkafjörður – Samfélagssáttmáli

9. Umburðarbréf atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis, dags. 28. maí 2021

10. Innheimta fjallskilagjalda 2020

11. Þjónustusamningur við Isavia – frá byggðaráði

12. Innkaupareglur Langanesbyggðar – frá byggðaráði

13. Samningskrafa Norðurþings vegna byggingarfulltrúa – frá byggðaráði

14. Viðauki 3 við fjárhagsáætlun 2021

15. Rekstraruppgjör A og B hluta fyrir tímabilið janúar til aprílloka

16. Kosning þriggja manna og þriggja til vara í byggðaráð til eins árs

17. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Fundargerð 898. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 28. maí 2021

Fundargerðin lögð fram.

2. Fundargerð XXXVl. landsþings Sambandsins og skýrsla Framtíðarseturs Íslands.

Fundargerðin og önnur gögn lögð fram.

3. Fundargerð 33. fundar skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 18. maí 2021

Liður 3: Umsókn um lóð og beitiland

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir bókun nefndarinnar, en í ljósi ástands hesthússins, sem getið er um á fylgiskjali 2, er sveitarstjóra falið að ganga frá niðurrifi hússins fyrir afhendingu lóðarinnar.

Til máls tóku; sveitarstjóri, Siggeir, sveitarstjóri, Siggeir.

Samþykkt samhljóða að fresta ákvörðun um lið 3 til næsta fundar.

Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð 38 fundar byggðarráðs, dags. 21. apríl 2021

Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð 40. fundar byggðarráðs, dags. 24. maí 2021

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tók; Siggeir, Þorsteinn Ægir, Siggeir.

6. Fundargerð 18. fundar hafnarnefndar, dags. 30. apríl 2021

Fundargerðin lögð fram.

7. Breyting á gjaldskrá tjaldsvæða

Minnisblað um gjaldskrá og tillögu að breytingu á gjaldskrá tjaldsvæða í Langanesbyggð lögð fram.

Bókun um afgreiðslu: Gjöld á tjaldsvæðum Langanesbyggðar, þ.e. Þórshöfn og Bakkafirði árið 2021 verði eftirfarandi:

Verð fyrir fullorðna: kr. 1.400.- á sólarhring.

Verð fyrir börn 14 ára og yngri; frítt.

Rafmagn á sólarhring kr. 900.-

Skattur fyrir tjaldsvæði er ekki innheimtur fyrir árið 2021.

Til máls tók; Mirjam, sveitarstjóri.

Samþykkt samhljóða.

8. Bakkafjörður – Samfélagssáttmáli

Tillaga hverfisráðs Bakkafjarðar að samfélagssáttmála, dags. 2. júní 2021, lögð fram. Sáttmálinn er samkomulag milli íbúa við Bakkaflóa, Langanesbyggðar og ríkisins vegna byggðar við Bakkaflóa. Sáttmálinn er unninn að tillögu nefndar fimm ráðherra um málefni Bakkafjarðar sem skilaði niðurstöðum sínum 16. nóvember 2018.

Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn fagnar framlögðum samfélagssáttmála og lítur á hann sem grundvöll aðgerða til uppbyggingar byggðar við Bakkaflóa til framtíðar. Hún lýsir einnig yfir ánægju með þann árangur sem náðst hefur nú þegar. Lögð er áhersla á að staðið verði við aðrar tillögur sem birtar eru í skýrslu nefndar ráðherra og tekur undir markmið hverfaráðsins og lýsir yfir stuðningi við þau.

Þá er sveitarstjóra falið að kynna þennan samfélagssáttmála fyrir verkefnisstjórn Betri Bakkafjarðar, Byggðastofnun, SSNE, þingmönnum kjördæmisins og ráðherrum sem hlut eiga að máli.

Samþykkt samhljóða.

9. Umburðarbréf atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins

Lagt fram umburðarbréf atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 28. maí 2021 vegna breytinga á jarðalögum.

Bókun um afgreiðslu: Bréfinu vísað til skipulags- og umhverfisnefndar til upplýsingar.

Samþykkt samhljóða.

10. Innheimta fjallskilagjalda 2020

Lagt fram minnisblað um fjallskil vegna álagningar fjallskilagjalda á allar jarðir í Langanesbyggð. Með minnisblaðinu fylgja einnig skrifleg samskipti við nokkra landeigendur vegna athugasemda þeirra við álagningu gjaldsins.

Til máls tóku sveitarstjóri, Siggeir, sveitarstjóri, Mirjam, Aðalbjörn, Siggeir.

Bókun á afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir áliti lögfræðings sveitarfélagsins á athugasemdum landeigenda.

Samþykkt samhljóða.

Bókun U lista; Hvenær var þetta tekið fyrir í sveitarstjórn og hvaða gögn fylgdu með þá?

11. Þjónustusamningur við ISAVIA – frá byggðaráði

Drög að nýjum þjónustusamningi við Isavia um rekstur Þórshafnarflugvallar lögð fram.

Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að koma athugasemdum sveitarfélagsins á framfæri og heimilar honum að undirrita hann fyrir hönd Langanesbyggðar.

Samþykkt samhljóða.

12. Innkaupareglur Langanesbyggðar – frá byggðarráði

Tillaga að nýjum reglum um innkaup Langanesbyggðar lögð fram.

Til máls tóku; Siggeir, sveitarstjóri, Siggeir.

Tillaga frá U lista: Sveitarstjórn samþykkir að afgreiðslu málsins verði frestað til næsta fundar sveitarstjórnar. Málið er viðamikið og nauðsynlegt að gefa lengri tíma til skoðunar.

Samþykkt samhljóða.

13. Samningskrafa Norðurþings vegna byggingafulltrúa – frá byggðarráði.

Lagt fram minnisblað um uppgjör vegna samstarfssamnings við Norðurþing vegna starfrækslu skipulags- og byggingarfulltrúa. Einnig er lagt fram krafa Norðurþings, dags. 11. mars 2021 og yfirlit með sundurliðun krafa.

Til máls tók sveitarstjóri

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða tillögu að afgreiðslu. Skv. henni er gert ráð fyrir að gjöld vegna 2014 til 2016, kr. 4.495.896- verði afskrifaðar vegna ákvæða í reglum um fyrningar. Gjöld vegna áranna 2017 – 2018, að upphæð kr. 6.780.900,- verði greidd á næsta á ári í þrennu lagi og verði í fjárhagsáætlun næsta árs. Kröfur vegna áranna 2019 og 2020, samtals kr. 2.425.224, verði greiddar á þessu ári og gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun ársins vegna þess.

Samþykkt samhljóða.

14. Viðauki 3 við fjárhagsáætlun 2021

Lögð fram drög að viðauka við fjárhagsáætlun vegna greiðslna til Norðurþings vegna byggingafulltrúa.

Til máls tók sveitarstjóri;

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagðan viðauka að upphæð kr. 2.400.000,-

Samþykkt samhljóða.

15. Rekstraruppgjör A og B hluta fyrir tímabilið janúar til aprílloka

Rekstraruppgjörið lagt fram. Skv. uppgjörinu eru tekjur A-hluta um 8 m.kr. hærri er áætlun gerði ráð fyrir og gjöld um 2,4 m.kr. lægri en áætlun. Afkoma A og B hluta er um 3,6 m.kr. lakari en áætlun gerði ráð fyrir. Tölur er óendurskoðaðar beint teknar úr bókhaldskerfinu.

Til máls tók sveitarstjóri, Siggeir, sveitarstjóri, Siggeir.

Bókun U lista; Tap á rekstri Langanesbyggðar er um 50 mkr. fyrstu fjóra mánuði ársins 2021. Þetta er áhyggjuefni og er nauðsynlegt að yfirfara alla kostnaðarliði í rekstrinum.

16. Kosning þriggja manna og þriggja til vara í byggðarráð til eins árs

Tillaga var lögð fram um eftirtalda í byggðaráð til eins árs: Þorstein Ægi Egilsson, Mirjam Blekkenhorst og Siggeir Stefánsson. Til vara: Árni Bragi Njálsson, Halldór Rúnar Stefánsson og Sigríður Friðný Halldórsdóttir. Einnig er samþykkt að Þorsteinn Ægir verði formaður ráðsins.

Samþykkt samhljóða.

17. Skýrsla sveitarstjóra

Vinnu við viðgerðir á varnargarði hafnarinnar á Bakkafirði er lokið og verktaki hefur hafist handa við tiltektir á svæðinu. Hann mun, að ósk okkar, jafna til á suðurhluta hafnarsvæðisins og með því skapa betra og rýmra geymslurými fyrir smábáta á veturna við höfnina.

Framkvæmdir við nýja skrifstofu að Langanesvegi eru á áætlun, en þessa vikuna er unnið að frágangi á klæðningu, uppsetningu innveggja og lofts. Í næstu viku verður rafmagn lagt í öll rými og í kjölfarið verða gólf flotuð.

Sýni úr þaksperrum í sundlaug í Veri eru í nánari greiningu, en þau sem tekin voru sýna ástand þeirra heldur betra en óttast var. Þá þarf að meta burðaþol þeirra eftir búið er að taka neðan af þeim og hækka undirstöðurnar, en taka þarf neðan af þeim. Vegna rakaskemmda er áætlað að burðarþol þeirra hafi skerst allt að 2/3 hluta. Áætlanir um endurbætur eru unnar í samráði við sérfræðingar Límtré/Vírnet.

Framkvæmdir við útsýnispall á Bakkafirði eru á lokastigi þó að dagsetning vígslu sé ekki ákveðin. Búið er að steypa undirstöður og pall, en eftir er koma fyrir gólfinu fyrir og handrið.

Framkvæmdir eru hafnar við íþróttavöllinn á Þórshöfn í samvinnu við UMFL. Fljótlega verður steyptar plötur fyrir um 150m2 æfingasvæði, kringlukasts og kúluvarpskasthringi. Gerviefni verður lagt á æfingasvæðið í sumar.

Við færumst nær ákvörðun um gatna- og lagnaframkvæmdir á Þórshöfn, en kostnaðar- og framkvæmdaáætlun liggur á borði Vegagerðarinnar. Skv. því plani er áætlað að Vegagerðin hefji viðgerðir á Fjarðarvegi og Langanesvegi í ágúst nk. Þá þurfa lagnaviðgerðir að vera afstaðnar. Gert er ráð fyrir að hlutdeild Langanesbyggðar í kostnaði við endurnýjun lagna undir Langanesvegi frá Bakkavegi á móts við Bjarg að Löghæð með lagfæringum á svonefndri „hótelbeygju“ og malbikslögn inn á Bakkaveg að Hafnarvegi sé á bilinu 22-25 m.kr. Nánari sundurliðun verður kynnt á næsta fundi byggðaráðs eða sveitarstjórnar, en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir rúmum 30 m.kr.

Aðfaranótt miðvikudags kom upp eldur í varaflsstöð RARIK á Þórshöfn og kalla þurfti út slökkvilið sem forðaði húsinu frá stórtjóni með vaskri framgöngu slökkviliðsmanna. Þetta atvik undirstrikar mikilvægi þess að hafa hér gott slökkvilið. Eldupptök eru talin vera frá hita á afgasröri frá dísel varaaflsstöðvum sem settar voru í gang vegna rafmagnsleysis. Slökkvilið hafði verið kallað út fyrr um kvöldið að Gunnólfsvík þar sem líklega hefur kerfið á fjallinu farið í gang vegna rafmagnsleysis.

Ekki hefur frést af mögulegum fundi með ráðherra sveitarstjórnarmála með fulltrúum stjórna FFPA og FFPD sem væntingar eru um að gæti orðið fljótlega. Á þeim fundi er fyrirhugað að fara yfir stöðuna og meta möguleika um næstu skref. Eins og er hálfgerð biðstaða í framgangi mála, en nauðsynlegt verður að taka ákvörðun um framhaldið fljótlega.

Líklega verður frestað fundi um óákveðinn tíma í viðræðunefnd Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps, um mögulega sameiningu sveitarfélaganna. Fundurinn var áætlaður nk. mánudag. Ástæða frestunnar er að ráðgjafar nefndarinnar hafa ekki fengið í hendurnar ársreikninga Svalbarðshrepps og önnur nauðsynleg gögn frá þeim til að gera samanburð á rekstri, afkomu og eignastöðu sveitarfélaganna. Fyrri umræða ársreikninga Svalbarðshrepps verður í lok júní nk. og sú síðari ekki fyrr um miðjan júlí. Þar að leiðandi er hætt því við að ákvörðun um formlegar viðræður og þar að leiðandi bindandi viðræðum, verði skotið á frest fram yfir sumarleyfi. Til stóð að nefndin gerði tillögu til sveitarstjórna beggja sveitarfélaganna um framhald viðræðna á fundinum nk. mánudag.

Til máls tóku; Siggeir, sveitarstjóri, Siggeir, sveitarstjóri.

Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:00

 

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?