124. fundur sveitarstjórnar
Fundur í sveitarstjórn
124. fundur sveitarstjórnar, Langanesbyggðar haldinn í Þórsveri. Þórshöfn, miðvikudaginn 21. apríl 2021 og fundur settur kl. 17:00.
Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst varaoddviti, Árni Bragi Njálsson, Jósteinn Hermundsson, Siggeir Stefánsson, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Almar Marinósson, Jónas Egilsson sveitarstjóri og Björn S. Lárusson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Þorsteinn Vilberg Þórisson tók sæti undir 6. lið.
Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Hann spurði hvort athugasemdir væru gerðar við að bæði drög að ársreikningi og viðauki nr. 1 hefðu verið sett inn á Teams svæði sveitarstjórnar kl. 20:38 en ekki fyrir kl. 17 eins og samþykktir sveitarfélagsins gera ráð fyrir.
Því næst var gengið til dagskrár.
Dagskrá
1) Ársreikningur 2020 – fyrri umræða.
2) Fundargerð 896. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 26. mars 2021.
3) Fundargerð 36. fundar byggðaráðs, dags. 25. mars 2021
4) Fundargerð 19. fundur atvinnu- og nýsköpunarnefndar, dags. 24. mars 2021
Liður 2, Samningur um framhald samstarfs við Norðurhjara
5) Fundargerð 31. fundar skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 23. mars 2021
a) Liður 1, Umsókn um lóð fyrir veiðihús við Litlu Kverká og Miðfjarðará
6) Fundargerð 20. fundar velferðar- og fræðslunefndar, dags. 24. mars 2021
b) Liður 7, Hugmyndir að samstarfi við UMFL
Liður 11, Úthlutunarreglur menningarsjóðs og skipun úthlutundarnefndar
7) Fundargerð 7. fundar dreifbýlisráðs, dags. 26. mars 2021
8) Starf Flugklasans Air 66N, 16. sept. 2020- 8. apríl 2021
9) Viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2021
10) Skýrsla sveitarstjóra
Fundargerð
1. Ársreikningur 2020 – fyrri umræða
Ársreikningur Langanesbyggðar 2020 lagður fram, ásamt sundurliðunum og drögum að endurskoðunarskýrslu. Magnús Jónsson löggiltur endurskoðandi sveitarfélagsins fór yfir helstu niðurstöður ársins.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 956,5 m.kr. samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 760 m.kr. Álagningarhlutfall útsvars var 14,52% sem er lögbundið hámark. Álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-flokki var 0,625% sem er lögbundið hámark með álagi. Í B-flokki var álagningarhlutfallið 1,32% sem er lögbundið hlutfall og í C-flokki var álagningarhlutfallið 1,65% sem er lögbundið hámark með álagi. Rekstrarniðurstaða A og B hluta sveitarfélagsins, samkvæmt ársreikningi A og B hluta, var jákvæð sem nam 8,4 m.kr., en jákvæð fyrir A hluta um 19,6 m.kr. samkvæmt rekstrarreikningi. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2020 nam 827,0 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta, en eigið fé A hluta nam 577,7 m.kr.
Til máls tóku; Siggeir, Magnús, sveitarstjóri, Siggeir.
Bókun um afgreiðslu: Ársreikningi 2020 er vísað til síðari umræðu í sveitarstjórn.
Samþykkt samhljóða.
2. Fundargerð 896. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 26. mars 2021.
Fundargerðin lögð fram.
3. Fundargerð 36. fundar byggðaráðs, dags. 25. mars 2021
Fundargerðin lögð fram.
4. Fundargerð 19. fundur atvinnu- og nýsköpunarnefndar, dags. 24. mars 2021
Fundargerðin lögð fram.
a) Liður 2, Samningur um framhald samstarfs við Norðurhjara
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir samþykkt atvinnu- og nýsköpunarnefndar um áframhaldandi samstarf við Norðurhjara og felur sveitarstjóra að ganga frá samningi við samtökin.
Til máls tóku; Almar, sveitarstjóri, Almar, Mirjam, Almar, Siggeir, sveitarstjóri.
Samþykkt samhljóða.
5. Fundargerð 31. fundar skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 23. mars 2021
Fundargerðin lögð fram.
a) Liður 1, Umsókn um lóð fyrir veiðihús við Litlu Kverká og Miðfjarðará
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir samþykkt skipulags- og umhverfisnefndar og heimilar fyrir sitt leyti stofnun lóðar við Litlu Kverká og Miðfjarðará í samræmi við framlagðan uppdrátt og teikningar. Enn fremur er sveitarstjóra falið að tryggja afnot almennings að veginum og að gerður verði samningur við landeigendur þar að lútandi.
Til máls tóku; sveitarstjóri
Samþykkt samhljóða.
6. Fundargerð 20. fundar velferðar- og fræðslunefndar, dags. 24. mars 2021
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tók oddviti sem lýsti vanhæfi sínu við afgreiðslu 7. liðs fundargerðarinnar þar sem hann á sæti í stjórn Ungmennafélagsins. Mirjam Blekkenhorst varaoddviti tók við stjórn fundarins og bar upp tillögu um vanhæfi.
Samþykkt samhljóða.
Þorsteinn Vilberg Þórisson tók sæti á fundinum í stað Þorsteins Ægis Egilssonar.
a) Liður 7, Hugmyndir að samstarfi við UMFL
Til máls tóku; sveitarstjóri.
Bókun um afgreiðslu: Samþykkt að heimila sveitarstjóra að gera samning við Ungmennafélagið um samstarf á þeim nótum sem lagt er til í minnisblaði því sem lagt var fyrir velferðar- og fræðslunefnd á 20. fundi nefndarinnar 24. mars 2021.
Einnig er samþykkt að gerður verði viðauki vegna hlutdeildar Langanesbyggðar í kostnaði við undirbúning og gerð aðstöðu (sbr. lið II. a og b á minnisblaði í fundargögnum nefndar) sem áætlaður að verði um 3-4 m.kr. verði lagður fram á næsta fundi sveitarstjórnar.
Einnig er lagt til að gerður verði viðauki vegna verkefna starfsmanns Ungmennafélagsins fyrir sveitarfélagið í hálft starf á móti UMFL, til að sinna íþrótta- og æskulýðsmálum á vegum sveitarfélagsins. Þessi starfsmaður kemur til með að sinna ýmsum lýðheilsuverkefnum svo sem Heilsueflandi samfélagi o.fl. Áætlaður kostnaður sveitarfélagsins í ½ starf síðari hluta ársins er um 2,5-3 m.kr. Þá er sveitarstjóra falið að leggja fram nánari starfslýsingu og viðauka fyrir næsta fund sveitarstjórnar.
Til máls tóku; Siggeir, Mirjam.
Fundarhlé gert í 5 mín.
Eftir fundarhlé tóku til máls; Almar, Mirjam.
Samþykkt samhljóða.
Þorsteinn Vilberg Þórisson vék af fundi og Þorteinn Ægir Egilsson tók sæti og við stjórn fundarins að nýju
b) Liður 11, Úthlutunarreglur menningarsjóðs og skipun úthlutundarnefndar
Til máls tóku; sveitarstjóri, Siggeir, Mirjam.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir samþykkt velferðar- og fræðslunefndar um stofnun menningarsjóðs Langanesbyggðar.
Jafnframt eru; Þórarinn J. Þórisson formaður velferðar- og fræðslunefndar, Jón Gunnþórsson og Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir tilnefnd í stjórn úthlutunarnefndar sjóðsins út kjörtímabilið.
Samþykkt smhljóða.
7. Fundargerð 7. fundar dreifbýlisráðs, dags. 26. mars 2021
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku; Siggeir, sveitarstjóri, Siggeir, Þorsteinn.
8. Starf Flugklasans Air 66N, 16. sept. 2020 - 8. apríl 2021
Skýrslan lögð fram.
9. Viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2021
Svohljóðandi viðauki nr. 1 við fjárhagsáætlun 2021 lagður fram vegna fjárfestinga við Langanesveg 2, skrifstofur sveitarfélagsins:
· Fjárfesting A-hluta hækkuð um 45 milljónir króna kr. 45.000.000,-
· Lántaka A-hluta upp á 45 milljónir króna kr. -45.000.000,-
Einnig lagt fram yfirlit með kostnaði sveitarfélagsins vegna undirbúning framkvæmda við íþróttamiðstöðina Ver, skrifstofu og vegna væntanlegra framkvæmda við frárennsli við Langanesveg og Eyrarveg.
Til máls tóku: Sveitarstjóri.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagðan viðauka og að heimila sveitarstjóra að taka lán að upphæð kr. 45.000.000,- vegna framkvæmda við framtíðarskrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2.
Samþykkt: Með; Þorsteinn, Árni Bragi, Mirjam og Jósteinn. Á móti; Siggeir, Almar og Sólveig.
10. Skýrsla sveitarstjóra
Lokaverkfundur vegna dýpkunar Þórshafnarhafnar var haldinn í gær og verkinu er því formlega lokið. Nú hefur innsigling og athafnasvæði uppsjávarskipa verið dýpkað í a.m.k. 9,5 metra. Önnur svæði í höfninni hafa verið hreinsuð og nýjum og endurbættum festingum við smábátabryggjuna komið fyrir. Til stendur að færa olíutankinn fyrir smábáta við endann á hafskipabryggjunni á næstunni. Beðið er eftir aðgerðum af hálfu N1 við að flytja tankinn og dæluna.
Fyrsti verkfundur vegna framkvæmda við höfnina á Bakkafirði var haldinn í gær, þriðjudaginn 20. apríl. Verkið er nokkuð á eftir áætlun en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að verkið hæfist um miðjan janúar og að verklok yrðu um miðjan maí nk. Augljóslega munu verklok tefjast, en fram kom á fundinum í gær að þau yrðu ekki seinna en í júní nk. Byrjað verður á aukaverki sem er að hreinsa grjót úr hafnarmynninu og gera innsiglinguna greiðfærari. Í kjölfarið verður hafist handa við að hreinsa hafnarsvæðið. Nauðsynlegt verður að endurnýja vigtarskúrinn og aðstöðu hafnarvarðar.
Undirbúningur framkvæmda við Ver er kominn á gott skrið. Ljóst er, að vegna umfangs verður ekki ráðist í endurnýjun á þakinu í ár. Verður það verk látið bíða til næsta árs og tíminn nýttur í önnur verkefni. Nú er verið að hanna loftræstikerfi og rými við austurhlið hússins sem einnig gæti nýst sem geymsla fyrir íþróttavöllinn. Einnig er í gangi undirbúningsvinna við viðgerðir á stoðvirki þaksins, en límtrésbitar sem bera uppi þak sundlaugarinnar eru verr á sig komnir en búist var við.
Framkvæmdir við fræsingu og lagningu gólfhitalagna í nýja aðstöðu fyrir skrifstofu geta hafist í næstu viku jafnvel, ef vel gengur. Búið er að semja við verktaka og heimamenn verið fengnir til að smíða innréttingar o.fl. Þróun og hönnun skrifstofurýmis við Langanesveg getur mögulega tekið breytingum. Fjórir aðilar hafa lýst yfir áhuga á að hafa sínar skrifstofur á Langanesveginum. Ef af þessum hugmyndum verður, mun verða til um 9-10 manna vinnustaður með góðum samlegðaráhrifum.
Þórir Jónsson hefur tekið við rekstri gistiheimilisins á Bakkafirði, verslun og veitingarstað. Auk þess verður hann með rekstur tjaldsvæðisins á sínum vegum. Hann hefur kynnt starfsemina nokkuð rækilega með glæsilegu myndbandi sem sjá má á „Facebook“ síðu sveitarfélagsins undir nafninu North East Travel, Guesthouse and Restaurant. Óhætt er að segja að þau Þórir og Sædís kona hans hafi metnaðarfullar hugmyndir um starfsemi á svæðinu strax á þessu ári sem vonandi skilar sér til samfélagsins.
Oddviti og sveitarstjóri áttu fund með lögreglustjóra Norðurlandi eystra í gær, þriðjudag, til að fara yfir helstu sameiginleg mál sveitarfélags og lögreglu. Á fundinum var lögð áhersla á að bæta að öðru leyti gott samstarf og fræðslu um forvarnir og kynna starfsemi lögreglunnar á svæðinu. Fundinn sátu einnig oddviti Svalbarðshrepps og þrír lykilstarfsmenn embættisins ásamt varðstjóra lögreglunnar hér á Þórshöfn.
Landsbankinn hefur ákveðið að flytja starfsemi sína hér á Þórshöfn í Kjörbúðina, þar sem ÁTVR var með sína afgreiðslu áður. Stefnt er að opnun á nýjum stað í byrjun sumars. Opnunartími bankans og þjónusta á ekki breytast við þessar breytingar og starfsmenn verða tveir eftir sem áður. Eign bankans að Fjarðarvegi 5 verður sett á sölu í kjölfarið. Ekki er vitað hvernig verður með afgreiðslu Póstsins á svæðinu.
Sótt hefur verið um styrk til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vegna væntanlegra holræsaframkvæmda við Langanesveg og Eyrarver í sumar. Þessar framkvæmdir eru hluti af heildarlausn sveitarfélagsins í frárennslismálum. Umsóknar frestur var framlengdur til 15. apríl sl.
Áætlað er að launakostur á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Nausti vegna „styttingu“ vinnuviku aukist um 10% frá og með 1. maí nk. Gert er ráð fyrir að vinnutími hjá flestum starfsmönnum verði á pappírunum lengdur sem nemur styttingunni hjá þeim sem eru ekki í fullu starfi nú þegar. Mönnun verður því að mestu leyti óbreytt, en launakostnaður hækkar sem nemur styttingunni. Áætlaður kostnaðarauki vegna styttingu vinnuviku á Nausti er því áætlaður um 14 m.kr. á ársgrundvelli eða um 8 m.kr. á þessu ári. Þessi upphæð bætist því við þær 46 m.kr. sem teknar hafa verið úr A-sjóði sveitarfélagsins til reksturs Nausts á undangengnum þremur árum – verkefni sem formlega séð er á ábyrgð ríkisins.
Hafinn er undirbúningur að gerð baðaðstöðu við tjaldsvæðið á Bakkafirði. Hreinsun gatna í þéttbýli verður væntanlega síðar í þessari viku eða byrjun þeirrar næstu. Vortiltektir verða kynntar á næstunni líka á vegum sveitarfélagsins og aðrar aðgerðir vegna komu vors og sumars.
Fyrsti fundur óformlegra viðræða um mögulega sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps var haldinn í gær, miðvikudag. Mirjam Blekkenhorst var kosin formaður viðræðunefndarinnar og Sigurður Þór Guðmundsson varaformaður. Góður andi hjá fundarmönnum og ákveðið hefur verið að ráða verkefnisstjóra til að skoða kosti og galla, fjárhagsleg áhrif sameiningar, ef af verður, o.fl. Einnig verður fljótlega kynnt tímaáætlun viðræðna og stefnt að því að taka ákvörðun um hvort farið verði í formlegar viðræður fyrir 1. júlí nk.
Til máls tóku; Siggeir, sveitarstjóri.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:10