Fara í efni

122. fundur sveitastjórnar

18.02.2021 17:00

122. fundur sveitarstjórnar, Langanesbyggðar haldinn í Félagsheimilinu Þórsveri, Langanesvegi 16 Þórshöfn, fimmtudaginn 18. febrúar 2021. Fundur var settur kl. 17:00.

Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst varaoddviti, Halldór Rúnar Stefánsson, Jósteinn Hermundsson, Siggeir Stefánsson, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Almar Marinósson, Jónas Egilsson sveitarstjóri og Björn S. Lárusson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Því næst var gengið til dagskrár.

Dagskrá

1. Fundargerð 894. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. janúar 2021.

2. Fundargerð 20. fundar stjórnar SSNE dags. 13. janúar 2021

3. Fundargerð 21. fundar stjórnar SSNE dags. 27. janúar 2021

4. Fundargerð 34. fundar byggðaráðs, dags. 4. febrúar 2021

5. Fundargerð 17. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar dags. 27. janúar 2021

6. Fundargerð 28. fundar skipulags- og umhverfisnefndar dags. 28. janúar 2021

a. Liður 1. Deiliskipulag Miðsvæðis við Fjarðarveg á Þórshöfn

b. Liður 2. Deiliskipulag íbúðabyggðar og miðsvæði vestan Langanesvegar

7. Fundargerð 19. fundar velferðar- og fræðslunefndar dags. 3. febrúar 2021

a. Liður 1. Skýrsla um starfsemi MSHA fyrir Langanesbyggð

8. Fundargerð 9. fundar rekstrarstjórnar Nausts dags. 16. febrúar 2021

9. Drög að umsögn um frumvarp að hringrásarhagkerfi – frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga

10. Erindi vegna Líforkuvers frá SSNE

11. Innsent erindi frá Marinó Jóhannssyni, dags. 16. febr. 2021

12. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum – vísað til sveitarstjórnar af byggðaráði

13. Mögulegar sameiningarviðræður við Svalbarðshrepp um sameiningu sveitarfélaganna

14. Frá U-lista: Stofnun nefndar um finnafjarðarverkefnið

15. Frá U-lista: Skógrækt í Langanesbyggð

16. Frá U-lista: Frárennslismál, frárennsli, útrásir, hreinsun á Þórshöfn og á Bakkafirði

17. Frá U-lista: Rekstrarupplýsingar fyrir sveitarstjórn

18. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Fundargerð 894. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. janúar 2021.

Fundargerðinn lögð fram.

2. Fundargerð 20. fundar stjórnar SSNE dags. 13. janúar 2021

Fundargerðin lögð fram.

3. Fundargerð 21. fundar stjórnar SSNE dags. 27. janúar 2021

Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð 34. fundar byggðaráðs, dags. 4. febrúar 2021

Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð 17. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar dags. 27. janúar 2021

Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerð 28. fundar skipulags- og umhverfisnefndar dags. 28. janúar 2021

Liður 1. Deiliskipulag Miðsvæðis við Fjarðarveg á Þórshöfn

Skipulagsdrög voru kynnt á heimasíðu Langanesbyggðar 2. september 2020 og auglýsing birt í fréttabréfinu Skeglan. Skipulagsgögn voru aðgengileg íbúum og hagsmunaaðilum á skrifstofu sveitarfélagsins og heimasíðu og var gefið tækifæri til að senda inn ábendingar um drögin til 21. september í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsagnir frá umsagnaraðilum gáfu tilefni til minniháttar breytingar á tillögunni.

Lagður er fram uppfærður skipulagsuppdráttur með greinargerð dags. 26. janúar 2021.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir samþykkt skipulags- og umhverfisnefndar um nýtt deiliskipulag fyrir miðsvæði við Fjarðarveg á Þórshöfn og samþykkir að tillagan verði send til Skipulagsstofnunar til staðfestingar.

Til máls tóku; Siggeir, Þorsteinn, Siggeir, Þorsteinn, Jónas.

Samþykkt með 5 atkvæðum. Með voru; Þorsteinn, Mirjam, Halldór, Jósteinn og Almar. 2 sitja hjá; Siggeir og Sólveig.

Liður 2. Deiliskipulag íbúðabyggðar og miðsvæði vestan Langanesvegar

Skipulagsdrög voru kynnt á heimasíðu Langanesbyggðar 2. september 2020 og auglýsing birt í fréttabréfinu Skeglan. Skipulagsgögn voru aðgengileg íbúum og hagsmunaaðilum á skrifstofu sveitarfélagsins og heimasíðu og var gefið tækifæri til að senda inn ábendingar um drögin til 21. september í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Umsagnir frá umsagnaraðilum gáfu tilefni til minniháttar breytingar á tillögunni. Lagður er fram uppfærður skipulagsuppdráttur með greinargerð dags. 26. janúar 2021.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir samþykkt skipulags- og umhverfisnefndar um deiliskipulag íbúðarbyggðar og miðsvæðis vestan Langanesvegar á Þórshöfn að samþykkir tillagan verði send til Skipulagsstofnunar til staðfestingar.

Til máls tóku; Almar, Jónas, Almar. Jónas.

Samþykkt með 5 atkvæðum, Með voru; Þorsteinn, Mirjam, Halldór, Jóseteinn og Almar. 2 sitja hjá; Siggeir og Sólveig.

Fundargerðin lögð fram.

7. Fundargerð 19. fundar velferðar- og fræðslunefndar dags. 3. febrúar 2021

Liður 1. Skýrsla um starfsemi MSHA fyrir Langanesbyggð

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir tillögu velferðar- og fræðslunefndar um að hafin verði vinna við endurskoðum skólastefnu Langanesbyggðar. Jafnframt er sveitarstjóra falið að leita til Miðstöðvar skólaþróunar Háskólans á Akureyri um aðstoð við þessa vinnu. Við þessa vinnu verði sérstaklega tekið tillit til þarfa barna á Bakkafirði í samræmi við drög að samfélagssáttmála sem er í vinnslu.

Til máls tók; Siggeir.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerð 9. fundar rekstrarstjórnar Nausts dags. 16. febrúar 2021

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tóku; Siggeir, Jónas, Siggeir.

9. Drög að umsögn um frumvarp að hringrásarhagkerfi – frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Bókun um afgreiðslu: Umsögn Sambandsins er vísað til skipulags- og umhverfisnefndar til umsagnar.

Samþykkt samhljóða.

10. Erindi vegna Líforkuvers frá SSNE

Sótt er um 10 m.kr. styrk frá aðildarsveitarfélögum SSNE vegna hagkvæmnismats fyrir samþætta vinnslu á lífrænum úrgangi. Áætlaður hlutur Langanesbyggðar er um 1,6% miðað við íbúafjölda eða kr. 157.537.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn vísar málinu til skipulags- og umhverfisnefndar til umsagnar. Sveitarstjórn samþykkir kr. 157.537 framlag til verkefnisins, að gefnu samþykki nefndarinnar.

Samþykkt samhljóða.

11. Innsent erindi frá Marinó Jóhannssyni, dags. 16. febr. 2021

Bréfritari er að óska eftir fundi sem fyrst með fjárbændum um fjallskilamál, breytta stefnu í þeim málaflokki til framtíðar. Hann býðst jafnframt til að vera með framsögu á fundinum.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að boða til fundarins í samráði við bréfritara og enn fremur vegna Covid smithættu, að gefinn verði kostur á fjarfundartengingu.

Samþykkt samhljóða.

12. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum – vísað til sveitarstjórnar af byggðaráði

Lagt fram minnisblað sveitarstjóra með greinargerð, minnisblað frá samráðshópi minni sveitarfélaga, dags. 15. febrúar 2021 ásamt tillögu samráðshópsins um eflingu og stækkun sveitarfélaga.

Oddviti lagði fram svohljóðandi tillögu að umsögn um frumvarpið: Sveitarstjórn Langanesbyggðar leggst gegn því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði settur í lög og sveitarfélög þannig þvinguð til sameiningar óháð öðrum aðstæðum. Sameining sveitarfélaga eigi, að mati sveitarstjórnar, að gerast á grundvelli vilja íbúa og nauðsynjar, ekki valdboði. Slík ákvæði í lögum skerða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og íbúa þeirra. Enn fremur minnir sveitarstjórn Langanesbyggðar á mikilvægi að sátt sé meðal íbúa um sameiningar eigi þær að takast vel og mikilvægara er að sameina samfélög, en skrifstofur sveitarfélaga.

Sveitarstjórn Langanesbyggðar fagnar hins vegar nauðsynlegri umræðu um hlutverk sveitarfélaga og eflingu styrkja til þeirra sveitarfélaga sem hyggja á sameiningu.

Sveitarstjórn vísar til nánari umræðu og útfærslu í tillögur starfshóps minni sveitarfélaga.

Til máls tóku; Jónas, Almar, Þorsteinn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða umsögn og felur sveitarstjóra að koma henni inn á samráðsgátt alþingis.

Samþykkt samhljóða.

13. Mögulegar sameiningarviðræður við Svalbarðshrepp um sameiningu sveitarfélaganna

Lögð fram eftirfarandi gögn: Minnisblað sveitarstjórnar með gögnum um væntanlegar sameiningarviðræður sveitarstjórna Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps, minnispunktar frá sameiginlegum fundi sveitarstjórnar Langanesbyggðar og Svalbarðshreppi með fulltrúum Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins, dags. 11. febrúar 2021, samantektin „Framlög vegna sameiningar sveitarfélaga – Svalbarðshreppur og Langanesbyggð“ frá samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytinu, dags. 11. febr. 2021. Þá var lagt fram að nýju minnisblað frá 121. fundi sveitarstjórnar um sameiningarkosti Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps.

Til máls tók; Jónas.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkir að skipa þrjá kjörna sveitarstjórnarfulltrúa í sameiginlega nefnd með fulltrúum sveitarstjórnar Svalbarðshrepps um óformlegar viðræður um mögulega sameiningu sveitarfélaganna. Auk þess starfi sveitarstjóri og skrifstofustjóri með viðræðunefndinni. Fulltrúar Langanesbyggðar verða: Þorsteinn Ægir Egilsson, Mirjam Blekkenhorst og Siggeir Stefánsson. Einnig verði minnihluta boðið að tilnefna áheyrnarfulltrúa í nefndina.

Einnig er samþykkt að efna til íbúafundar í Langanesbyggð áður en ákvörðun er tekin í sveitarstjórn um formlegar sameiningarviðræður sveitarfélaganna.

Til máls tóku; Almar, Mirjam, Almar, Þorsteinn, Siggeir.

Samþykkt samhljóða.

14. Frá U-lista: Stofnun nefndar um Finnafjarðarverkefnið

Til máls tóku; Siggeir, Þorsteinn, Siggeir, Almar.

Greinargerð með tillögu frá U listanum:

Finnafjarðarverkefnið hefur verið í skoðun hjá Langanesbyggð í mörg ár og getur ef vel tekst til skipt sköpum fyrir framtíðarbúsetu á svæðinu. Verkefnið er stórt langtíma verkefni.

Það er nauðsynlegt fyrir framgang þess að sveitarfélögin haldi vel utan um það og að öll samskipti séu góð við alla aðila sem koma að því og einnig að það sé góð upplýsingagjöf til íbúa svæðisins. Sýna þarf frumkvæði og áræðni til að viðhalda verkefninu og draga fram möguleg tækifæri og hugmyndir sem gætu nýst í framgang verkefnisins.

Til að sinna þessu viðamikla verkefni teljum við nauðsynlegt að sett verði á fót nefnd sem fundi reglulega og fjalli um verkefnið frá öllum hliðum þess.

Nefndin myndi vinna náið með verkefnisstjóra sem mögulega verður ráðinn við verkefnið. Þessir aðilar gætu stutt vel við framgang þess.

Tillaga: U listinn leggur til stofnuð verði nefnd til að gæta hagsmuna sveitarfélaganna í finnafjarðarverkefninu og vinni að framgang þess í víðasta skilningi þess orðs.. Gerð verði starfslýsing fyrir viðkomandi nefnd þar sem sem nánar er útlistað verkefnum hennar.

Atkvæði greidd um tillöguna. Tillagan er felld. Með voru; Siggeir, Almar og Sólveig. Á móti voru; Þorsteinn, Mirjam, Halldór og Jósteinn.

15. Frá U-lista: Skógrækt í Langanesbyggð

Til máls tóku; Almar, Jónas, Almar, Jónas, Halldór, Þorsteinn, Siggeir.

Oddviti lagði fram svohljóðandi tillögu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að koma með tillögu fyrir næsta fund byggðaráðs um gerð áætlunar um skógrækt í sveitarfélaginu.

Samþykkt samhljóða.

16. Frá U-lista: Frárennslismál, frárennsli, útrásir, hreinsun á Þórshöfn og á Bakkafirði

Til máls tóku; Almar, Jónas, Almar, Jónas, Þorsteinn, Jónas, Siggeir, Almar (fundarhlé) Almar.

Bókun; U-listinn leggur áherslu á mikilvægi þess að klára verkefnið sem liggur fyrir, svo hægt sé að hefja umræðu og skipulagningu um hugsanlegar lausnir sem uppi verða að athugun lokinni. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur auglýst til umsóknar styrki vegna fráveituframkvæmda sveitarfélaga, en í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir um 800 milljónum króna.

17. Frá U-lista: Rekstrarupplýsingar fyrir sveitarstjórn

Til máls tóku; Siggeir, Jónas, Þorsteinn, Jónas, Siggeir.

18. Skýrsla sveitarstjóra

Kaffispjall við íbúa á Bakkafirði verður í boði hverfisráðs Bakkafjarðar og verkefnisstjóra Betri Bakkafjarðar í kvöld og hefst kl. 20. Til umræðu verða staða verkefna á Bakkafirði á vegum Brothættra byggða, áherslur við úthlutun styrkja og önnur mál sem snerta byggðarlagið á Bakkafirði. Ólafur Áki hefur lýst því yfir að hann muni ekki sækjast eftir áframhaldandi vinnu fyrir verkefnið af persónulegum ástæðum. Auglýst verður því eftir nýjum verkefnisstjóra sem vonandi tekur til starfa í maí í vor. Einnig verður bráðlega auglýst eftir nýjum styrkumsóknum vegna Betri Bakkafjarðar.

Oddvitar og sveitarstjórar Langanesbyggðar og Vopnafjarðar áttu fund með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 8. febrúar sl. vegna Finnafjarðar. Tilefni fundarins voru þrjú bréf til ráðherra vegna málsins, tvö frá sveitarfélögunum og eitt frá formanni FFPD. Í bréfunum var kallað eftir viðbrögðum ráðherra og ríkisstjórnar vegna hugmynda um aðkomu ríkisins að verkefninu, fjármögnun verkefnisstjóra og efndum ríkisins að verkefnum sem getið er í minnisblaði frá 2016. Svör ráðherra voru að honum fyndist lítið hafa gerst á undanförnum árum og að ríkið vildi fá nákvæmar upplýsingar um það sem til stæði, þ.e. hvaða fjárfestar vildu koma að verkefninu og hvaða áætlanir – ekki bara hugmyndir – væru uppi. Niðurstaða þessa fundar var að stefnt yrði að fundi stjórna FFPA og FFPD með þeim þremur ráðherrum og ráðuneytum sem að málinu koma, þ.e. auk samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, kæmu atvinnu- og nýsköpunar- og utanríkisráðuneytið að borðinu líka.

Framkvæmdir eru að hefjast við viðgerðir á hafnargarðinum á Bakkafirði, en samkomulag varð um að þær hefðust um miðjan febrúar. Áætluð verklok eru á sama tíma og gert var ráð fyrir, um miðjan maí nk.

Framkvæmdum við dýpkun Þórshafnar á að ljúka við lok útistandandi úthalds sem hófst í byrjun þessarar viku. Þá verður lokið við að dýpka innsiglingu og athafnasvæði í 9,5 m og hreinsa önnur svæði þ.m.t. smábátahafnarinnar. Heildarkostnaður vegna upphaflega verkefnisins er um 177 m.kr. og er hlutur Langanesbyggðar um 52 m.kr. Endanlegur kostnaður við dýpkun hafnarinnar í 9,5 m er um 79 m.kr. og þar af hlutur sveitarfélagsins um 24 m.kr. að teknu tilliti til endurgreiðslu á vsk. Samið hefur verið um að sveitarfélagið geti greitt sinn hlut í kostnaðinum á næsta ári.

Unnið er að finna nýja staðsetningu á olíudælum í báðum höfnunum. Á Bakkafirði verður henni komið fyrir á nýrri flotbryggju og á Þórshöfn, við endann á hafskipabryggjunni. Við þetta skapast meira svæði og betra aðgengi á báðum stöðunum, auk þess sem núverandi aðstaða á Bakkafirði er óhentug, þ.e. á innri enda löndunarbryggjunnar, en þar var henni komið fyrir eftir óveðrið í desember 2019 þar sem hún lét undan veðrinu.

Vegagerðin hefur gefið það út að Fjarðarvegur og Langanesvegur verði að hluta malbikaðir í sumar að því gefnu að sveitarfélagið fari í endurnýjun frárennslislagna í Langanesvegi. Unnið er að gerð áætlunar um það verkefni og verður vonandi kynnt fljótlega. Sú lausn yrði þá hluti af framtíðarlausn sveitarfélagsins í frárennslismálum og því styrkhæft verkefni skv. áætlun umhverfisráðuneytisins.

Útsendingar frá sveitarstjórnarfundum verða framvegis vistaðar hjá fyrirtækinu Vimeo sem keypt hefur fyrirtækið Live Stream sem útsendingar voru hjá. Við þetta verður tímabundin röskun á aðgengi fyrri funda, en það verður komið í lag í næstu viku og upptökur frá fyrri fundum verða aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins sem fyrr. Þessi fundur er í beinu streymi og verða notendur ekki mikið varir við þetta. Árlegt áskriftargjald lækkar um 50% við þessar breytingar, fer úr um kr. 335 þús. í um kr. 140 þús.

Til máls tóku; Siggeir, Jónas.

Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:03.

Hægt er að horfa á fundinn hér.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?