121. fundur sveitarstjórnar
121. fundur sveitarstjórnar, Langanesbyggðar haldinn í Félagsheimilinu Þórsveri, Langanesvegi 16 Þórshöfn, fimmtudaginn 21. janúar 2021. Fundur var settur kl. 17:00.
Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst varaoddviti, Árni Bragi Halldórsson, Halldór Rúnar Stefánsson, Siggeir Stefánsson, Almar Marinósson, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Jónas Egilsson sveitarstjóri og Björn S. Lárusson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.
Því næst var gengið til dagskrár.
Dagskrá
1. Fundargerð 892. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 11. desember 2020
2. Fundargerð 430. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 11. desember 2020
3. Fundargerð aukaþings SSNE, dags. 11. desember 2020
4. Fundargerð 19. fundar stjórnar SSNE, dags. 9. desember 2020
5. Fundargerð framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Þingeyinga bs., dags. 7. desember 2020
6. Fundargerð 33. fundar byggðaráðs, 14. janúar 2021
7. Undirnefnd umhverfismála SSNE
8. Aukaúthlutun aflamarks á Bakkafirði
9. Stytting vinnuviku – Samantekt um áhrif í Langanesbyggð
10. Tillaga um samstarf sveitarfélaga um innleiðingu á stafrænni upplýsingatækni
11. Minnisblað um ósk Svalbarðshrepps, dags. 16. desember 2020, um sameiningu við Langanesbyggð
12. Tillaga að breytingum á samþykkt um stjórn Langnesbyggðar – síðari umræða
13. Frá U-lista: Athugasemd við bókun meirihluta undir 20 á 120. sveitarstjórnarfundi 2020
14. Frá U-lista: Miðsvæði/miðbær á Þórshöfn, skipulag og framtíðarsýn, ítrekun
15. Frá U-lista: Stækkun grunnskólans á Þórshöfn
16. Skýrsla sveitarstjóra
17. Fundagerðir 1. – 4. trúnaðarfunda byggðaráðs
Fundargerð
1. Fundargerð 892. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 11. desember 2020
Fundargerðin lögð fram.
2. Fundargerð 430. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 11. desember 2020
Fundargerðin lögð fram.
3. Fundargerð aukaþings SSNE, dags. 11. desember 2020
Fundargerðin lögð fram.
4. Fundargerð 19. fundar stjórnar SSNE, dags. 9. desember 2020
Fundargerðin lögð fram.
5. Fundargerð framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Þingeyinga bs., dags. 7. desember 2020
Fundargerðin lögð fram.
6. Fundargerð 33. fundar byggðaráðs, 14. janúar 2021
Fundargerðin lögð fram.
7. Undirnefnd umhverfismála SSNE
Lagt fram erindi frá SSNE um skipan undirnefndar umhverfismála.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn fagnar skipan þessarar nefndar, enda eru umhverfismál eitt brýnasta verkefni stjórnvalda næstu árin. Því er nauðsynlegt að sveitarfélögin á Norðurlandi eystra hafi með sér samráð um mótun stefnu og aðgerða á þessu sviði eins og kostur er.
Sveitarstjórn hvetur stjórn SSNE til að leita framvegis til sveitarfélaganna með tillögur að einstaklingum í nefndir og ráð á vegum samtakanna.
Samþykkt samhljóða.
8. Aukaúthlutun aflamarks á Bakkafirði
Minnisblað frá aflamarksdeild Byggðastofnunar um aukaúthlutun 68.499 þorskígildis kílóa fyrir fiskveiðiárið 2020-2021, dags. 14. desember 2020. Einnig fylgja með umsóknir þriggja fyrirtækja á Bakkafirði. Úthlutunin er framkvæmd á grundvelli reglugerðar 643/2016.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn leggur áherslu á að úthlutað aflamark nýtist byggðinni og atvinnuuppbyggingu á Bakkafirði sem best og að aflinn sé unninn á staðnum og gerir ekki athugasemdir við tillögu aflamarksdeildar Byggðastofnunar.
Samhliða þessu óskar sveitarstjórn Langanessbyggðar eftir, að Byggðastofnun geri úttekt á árangri úthlutunar aflamarks (þ.e. sértækum og almennum) síðustu fimm ára í fjölgun starfa og auknum umsvifum á Bakkafirði.
Til máls tók Siggeir, Samþykkt samhljóða
9. Stytting vinnuviku – Samantekt um áhrif í Langanesbyggð
Lagðar voru fram niðurstöður úr atkvæðagreiðslum starfsmanna Þjónustumiðstöðvar, íþróttamiðstöðvar, skrifstofu, Nausts, Barnabóls og Grunnskólans vegna styttingu vinnuviku.
Til máls tók sveitarstjóri.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir framlögð yfirlit um styttingu vinnuviku.
Samþykkt samhljóða.
10. Tillaga um samstarf sveitarfélaga um innleiðingu á stafrænni upplýsingatækni
Lagt var fram minnisblað sveitarstjóra.
Til máls tók sveitarstjóri.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkir að taka þátt í samráði sveitarfélaga í landinu um innleiðingu stafrænnar upplýsingatækni og framlag að upphæð kr. 264.748 á þessu ári til verkefnisins. Fjárveiting verði tekin af sameiginlegum kostnaði sveitarfélagsins.
Til máls tók Almar. Samþykkt samhljóða.
11. Minnisblað um ósk Svalbarðshrepps, dags. 16. desember 2020, um sameiningu við Langanesbyggð
Minnisblað sveitarstjóra lagt fram.
Til máls tóku: sveitarstjóri, Almar, Mirjam, Almar. Oddviti svaraði spurningu Almars, Siggeir, Halldór, sveitarstjóri.
Bókun um afgreiðslu: Samþykkt er að efnt verði til sameiginlegs kynningarfundar með sveitarstjórnum Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps og fulltrúum Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um mögulegar sameiningarviðræður sveitarfélaganna. Þessi fundur verði síðdegis fimmtudaginn 11. febrúar nk.
Á fundi sveitarstjórnar þann 18. febrúar nk. er stefnt að því að taka afstöðu til þess hvort Langanesbyggð hefji formlegar viðræður við sveitarstjórn Svalbarðshrepps um sameiningu sveitarfélaganna, í samræmi við 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Ákvörðun um formlegar viðræður verður því aðeins tekin að fullnægjandi upplýsingar, að mati sveitarstjórnar Langanesbyggðar liggi frammi um tilgang og markmið með stofnun sjálfseignarfélags um eignir Svalbarðshrepps.
Samþykkt samhljóða.
Til máls tók Almar Marinósson og lagði fram svohljóðandi bókun f.h. U-listans: U listinn fagnar samræðum sveitarfélaganna um sameiningu þeirra og hvetur til þess að þær hefjist sem fyrst.
12. Tillaga að breytingum á samþykkt um stjórn Langnesbyggðar – síðari umræða
Lögð var fram svohljóðandi breyting á samþykktum um stjórn Langanesbyggðar nr. 10/2019 til síðari umræðu:
1. gr.
3. töluliður B-liðar 49. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:
Skipulags- og umhverfisnefnd. Fimm aðalmenn og fimm til vara. Nefndin fer með hlutverk skipulagsnefndar skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt fer nefndin með verkefni sem varða verksvið sveitarfélagsins á sviði náttúruverndar, umhverfismála og framkvæmda á vegum sveitarfélagsins samkvæmt erindisbréfi. Skipulags- og umhverfisnefnd fer með fullnaðarákvörðun um matsskyldu framkvæmda þegar sveitarfélagið er sjálft framkvæmdaaðili.
2. gr.
Samþykkt þessi sem sveitarstjórn Langanesbyggðar hefur sett skv. ákvæðum 9. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.
Samþykkt samhljóða.
13. Frá U-lista: Athugasemd við bókun meirihluta undir 20. lið á 120. sveitarstjórnarfundi 2020
Til máls tók Siggeir og lagði fram eftirfarandi bókun: Það er ekki rétt að fulltrúi U listans hafi kosið með sölu á skrifstofu sveitarfélagsins á fundi byggðaráðs árið 2020. Það rétta er að fulltrúar U listans bókuðu eftirfarandi á fundi sveitarstjórnar nr. 116 þann 2 júlí 2020: U-listinn telur eðlilegt að húsnæðið sé auglýst formlega til sölu þegar það er tímabært.
14. Frá U-lista: Miðsvæði/miðbær á Þórshöfn, skipulag og framtíðarsýn, ítrekun
Almar lagði fram eftirfarandi bókun: Á sveitarstjórnarfundi nr. 115, 4 júní 2020 var eftirfarandi tillaga U listans samþykkt samhljóða: „Til máls tók Almar Marinósson og lagði fram svohljóðandi tillögu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að koma með tillögur að fagaðilum til þess að hefja hugmyndavinnu að framtíðar heildarskipulagi og hönnun miðsvæðisins á Þórshöfn. Vinna þarf málið í nánu samstarfi við skipulags og umhverfisnefnd. Með miðsvæði er átt við svæðið frá Langanesvegi 1 að Hafnarlæk í austri, og frá hafnarsvæði að Miðholti í norðri. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að fara eftir fyrri samþykkt og koma á framfæri við sveitarstjórn á næsta fundi sveitarstjórnar.“
Til máls tóku sveitarstjóri, Siggeir, oddviti, sveitarstjóri, Siggeir, Mirjam, Almar.
15. Frá U-lista: Stækkun grunnskólans á Þórshöfn
Til máls tók Almar og lagði fram eftirfarandi bókun:
Ein af grunnstoðum hvers samfélags er öflugt skólasamfélag og mikilvægt að horft sé til framtíðar. Til þess að svo geti orðið þarf meðal annars að vera til staðar gott skólahúsnæði sem uppfyllir kröfur nútímans . Til að svo geti orðið er nauðsynlegt að stækka skólann svo mögulegt sé að fá heildstæða aðstöðu sem hentar bæði nemendum og starfsfólki. Vöntun er m.a. á kennslustofum sem uppfylla kröfur um kennslu í raungreinum, verklegum greinum og heimilisfræði. Einnig er mikilvægt að bókasafnið rúmist þarna inni. Starfsmannaaðstaða er óviðunandi í dag og mikilvægt að úr því verði bætt. Allt þetta stuðlar einnig að því að styrkja verkefnið “Langanesbyggð – Betri vinnustaður” . Gert verði ráð fyrir að þarfagreiningu þessari verði lokið í byrjun október 2021. Mikilvægt er að lögð verði áhersla á gott samstarf við stjórnendur og starfsmenn skólans í þessari vinnu.
Í framhaldi af greinargerðinni lagði Almar fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjóra er falið að finna fagaðila í samráði við sveitarstjórn til að gera þarfagreiningu á stækkun Grunnskólans á Þórshöfn í samræmi við ofangreinda greinagerð, sem verði lokið fyrir október 2021.
Til máls tóku oddviti, Mirjam, Almar, Siggeir.
Greidd atkvæði um tillöguna og hún felld. Á móti; Þorsteinn, Mirjam, Árni og Halldór. Með tillögunni; Siggeir, Almar og Sólveig.
16. Skýrsla sveitarstjóra
Nauðsynlegt verður að telja að efla þurfi sjóvarnir við Bakkaveginn á Þórshöfn en í óveðrinu 9. janúar sl. flæddi bæði sjór, aur og grjót inn á veginn og var hann ófær um tíma. Sama á við um veginn meðfram sjónum á milli Sauðaness og Ytra-Lóns. Vegurinn varð ófær í kjölfar óveðursins, þar sem yfir hann flæddi á köflum og þurfti að ryðja þara og rekavið af veginum svo hægt væri að aka um hann.
Framkvæmdir eru að hefjast við sprengingar á grjóti í Vopnafirði fyrir varnargarðinn við Bakkafjarðarhöfn. Dýpkunarframkvæmdir halda áfram í Þórshöfn. Unnið hefur verið að lagfæringum við flotbryggju á Þórshöfn. Við máttum ekki vera mikið seinna að fara í það verkefni þar sem bæði festingar í bryggju og botnfestur eru komnar á tíma. Unnið er að hagstæðum endingargóðum lausnum í því sambandi.
Kafarar frá Neðansjávar ehf. koma í næstu viku og ætla að styrkja festingar undir bryggju en þeir geta rafsoðið neðansjávar. Þegar nýjar botnfestur eru klárar mun dýpkunarprammi Björgunar ehf. koma þeim fyrir ásamt starfsmönnum Þjónustumiðstöðvar og kafara.
Búið er að tengja varmadælur í Þórsveri og einnig skipta um viftu í skólamötuneyti. Í ljós kom að rafmagnstöflur í húsinu þurftu töluverða endurnýjun og lagfæringar og fór því meiri tími í þá vinnu svo hægt væri að tengja nýjan búnað.
Á fundi stjórnar Þróunarfélags Finnafjarðar (FFPD) sl. föstudag kom fram að búið er að ná samkomulagi við landeigendur Saurbæjar I, II og III um hefja viðræður um mögulega leigu á landi undir hafnarsvæðið. Búist er við að niðurstaða fáist í viðræður við landeigendur Hafna á næstu vikum. Formaður FFPD bíður svars erindis sem sent var ráðherra í lok nóvember sl. um nokkur atriði, svo sem um nauðsynlegar breytingar á hafnarlögum, aðkomu ríkisins að byggingu innviða á svæðinu og að því hvort svæðið gæti verið skilgreint utan innlendra skattalaga (e. Tax Free Zone). Enn fremur liggur fyrir hjá samgönguráðherra að taka afstöðu til fyrirspurnar sveitarfélaganna um mögulega aðkomu að verkefninu og þá helst hafnarsamlaginu (FFPA). Eins er beðið afstöðu sama ráðherra til hugmyndar sveitarfélaganna um fjármögnum sérstaks verkefnisstjóra til að sinna verkefninu.
Fundur var haldinn með deildarstjórum hjá Langanesbyggð þann 15. janúar sl. og er þessi fundur liður í auknum samskiptum og samráði deildarstjóra hjá sveitarfélaginu í samræmi við starfsmannastefnu sveitarfélagsins, Langanesbyggð – betri vinnustaður.
Unnið er af hálfu rekstrarstjóra og deildarstjóra að útfæra vinnuskipulag og á útreikningum á kostnaði sveitarfélagsins vegna styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki þess. Liður í því er afgreiðsla vinnufyrirkomulags á þessum fundi. Einnig erum við í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur sveitarfélög um nánari útfærslu. Nýr skrifstofustjóri, Björn S. Lárusson, kom til vinnu mánudaginn 11. janúar sl. og er hann boðinn velkominn til starfa.
17. Fundagerðir 1. – 4. trúnaðarfunda byggðaráðs
Fundi lokað og afgreiðsla skráð í trúnaðarbók sveitarstjórnar.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:09.