Fara í efni

115. fundur sveitarstjórnar

04.06.2020 17:00

115. fundur sveitarstjórnar, Langanesbyggðar haldinn að Skólagötu 5 Bakkafirði fimmtudaginn 4. júní 2020. Fundur var settur kl. 17:00.        

Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst, Halldór Rúnar Stefánsson, Jósteinn Hermundsson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Almar Marinósson, Jónas Egilsson sveitarstjóri og Jóhann H. Jónasson starfsmaður skrifstofu sem  ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Því næst var gengið til dagskrár.

Dagskrá

1.            Fundargerð 883. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 8. maí 2020

2.            Fundargerð 884. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 20. maí 2020

3.            Fundargerð 422. fundar stjórnar Hafnarsambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 27. apríl 2020

4.            Fundargerð 9. fundar stjórnar SSNE, dags. 6. maí 2020

5.            Fundargerð 23. fundar byggðaráðs, dags. 20. maí 2020

6.            Fundargerð 20, fundar skipulags- og umhverfisnefndar, 2. júní 2020

7.            Finnafjörður – FFPA og FFPD, vísað til sveitarstjórnar af 23. fundi byggðaráðs, 3. liður

8.            Aðalfundarboð Lánasjóðs sveitarfélaga, þann 12. júní nk.

9.            Afsláttur eða niðurfelling fasteignagjalda við Covid-19 smithættu

10.          Kosning þriggja manna og þriggja til vara í byggðaráð til eins árs

11.          Ársreikningar Langanesbyggðar 2019, síðari umræða

12.          Frá U-listanum, Bréf frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu vegna kvörtunar á stjórnsýslu Langanesbyggðar

13.          Frá U-listanum, Finnafjarðarverkefnið, bréf frá landeigendum

14.          Frá U-listanum, Íþróttahúsið Ver, undirbúningur vegna viðhalds og breytinga

15.          Frá U-listanum, Miðsvæði/miðbær á Þórshöfn, skipulag og framtíðarsýn

16.          Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1.            Fundargerð 883. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 8. maí 2020

Fundargerðin lögð fram.

2.            Fundargerð 884. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 20. maí 2020

Fundargerðin lögð fram.

3.            Fundargerð 422. fundar stjórnar Hafnarsambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 27. apríl 2020

Fundargerðin lögð fram.

4.            Fundargerð 9. fundar stjórnar SSNE, dags. 6. maí 2020

Fundargerðin lögð fram.

5.            Fundargerð 23. fundar byggðaráðs, dags. 20. maí 2020

Fundargerðin lögð fram og staðfest.

6.            Fundargerð 20, fundar skipulags- og umhverfisnefndar, 2. júní 2020

Fundargerðin lögð fram og staðfest.

7.            Finnafjörður – FFPA og FFPD, vísað til sveitarstjórnar af 23. fundi byggðaráðs, 3. liður

Drög að bréfi frá FFPA og FFPD til landeigenda lagt fram. Bréfið verður sent landeigendum vegna fyrirhugaðra viðræðna um afnot lands fyrir atvinnustarfsemi á svæðinu.

Til máls tók Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Jónas Egilsson svaraði.

8.            Aðalfundarboð Lánasjóðs sveitarfélaga, þann 12. júní nk.

Fundarboðið lagt fram.

9.            Afsláttur eða niðurfelling fasteignagjalda við Covid-19 smithættu.

Til máls tók Jónas Egilsson og lagði fram minnisblað um heimild til sveitarstjóra að fresta innheimtu fasteignagjalda í C-flokki að uppfylltum skilyrðum sem tilgreind eru á minnisblaðinu. Heimildin er veitt með vísan til 14. gr. laga frá 30. mars 2020.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa og kynna þessa heimild og felur sveitarstjóra nánari úrvinnslu hennar í samræmi við leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Til máls tók Almar Marinósson, Jónas Egilsson veitti andsvar.

Samþykkt samhljóða.

10.          Kosning þriggja manna og þriggja til vara í byggðaráð til eins árs

Tillaga var lögð fram um eftirtalda í byggðaráð til eins árs: Þorstein Ægi Egilsson, Mirjam Blekkenhorst og Siggeir Stefánsson. Til vara: Árni Bragi Njálsson, Halldór Rúnar Stefánsson og Sigríður Friðný Halldórsdóttir. Einnig er samþykkt að Þorsteinn Ægir verði formaður ráðsins.

Til máls tóku Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir og Þorsteinn Ægir Egilsson.

Samþykkt samhljóða.

11.          Ársreikningar Langanesbyggðar 2019, síðari umræða

Endurskoðaðir ársreikningar Langanesbyggðar 2019 lagðir fram að nýju.

Til máls tók Almar Marinósson, Jónas Egilsson veitti andsvar.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða ársreikninga og þeir undirritaðir að viðstöddum sveitarstjórnarmönnum.

Samþykkir Þorsteinn Ægir Egilsson, Halldór Rúnar Stefánsson, Mirjam Blekkenhorst og Jósteinn Hermundsson. Hjá sátu Almar Marinósson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir og Sólveig Sveinbjörnsdóttir

Til máls tók Halldóra Jóhann Friðbergsdóttir og gerði grein fyrir atkvæði U-lista.

U listinn situr hjá við afgreiðslu á ársreikningi 2019. Ástæða þess er að erfitt var að átta sig á útgjöldum því sundurliðunarbók barst til okkar mjög seint og náðum við ekki að rýna þau gögn fyrir fundinn.

Sveitarstjóri óskaði eftir fundahléi.

Jónas Egilsson veitti andsvar og lagði fram svohljóðandi bókun:

Vegna bókunar U-listans vil ég taka fram að engin efnisleg fyrirspurn kom til sveitarstjóra um niðurstöður rekstrar eða framsetningu ársreiknings 2019.  Því er ekki tilefni til bókunar af því tagi sem hér um ræðir.

12.          Frá U-listanum, Bréf frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu vegna kvörtunar á stjórnsýslu Langanesbyggðar.

Lögð fram bréf frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, dags. 27. apríl 2020, þar sem óskað er eftir upplýsingum um svör við beiðnum kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa og svarbréf lögmanna sveitarfélagsins, dags. 12. maí 2020 um sama mál.

Til máls tók Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir og lagði fram svohljóðandi bókun:

U listinn hefur ítrekað þurft að leita atbeina ráðuneytis sveitastjórnamála til að fá þær upplýsingar sem við eigum rétt á og eru okkur nauðsynlegar til ákvörðunartöku í málefnum sveitarfélagsins. Í svari ráðuneytis frá 27. apríl 2020 kemur meðal annars fram eftirfarandi:

...“Vill ráðuneytið árétta mikilvægi þess að einstakir sveitarstjórnarmenn eigi þess kost að afla sér gagna og upplýsinga um starfsemi sveitarfélags sem liggja fyrir í stjórnsýslu þess, til að þeir geti á hverjum tíma sjálfir leitast við að tryggja að einstakar ákvarðanir eða afgreiðslur þeirra byggi á sem bestum og gleggstum upplýsingum. Eru slíkar upplýsingar sérstaklega mikilvægar sveitarstjórnarmönnum í ljósi þeirrar ábyrgðar á rekstri og stjórnsýslu sveitarfélagsins sem hvílir á herðum þeirra en ráðuneytið hefur áður beint því til sveitarfélagsins í bréfi, dags. 16.maí 2019, að ganga ekki á þennan rétt sveitarstjórnarmanna.”...

Sem dæmi þá tók það um 7 mánuði að fá upplýsingar sem hægt er að sækja í bókhaldskerfi sveitarfélagsins fyrirhafnarlítið. Samþykktir Langanesbyggðar hljóða upp á að veita eigi sveitarstjórnarmönnum aðgang að gögnum innan 5 daga frá ósk þar um. Vonum við að tilmæli ráðuneytisins verði til þess að bæta vinnubrögð sveitarstjóra og meirihluta.

Oddviti óskaði eftir fundarhléi.

Til máls tóku Jónas Egilsson, Mirjam Blekkenhorst, Þorsteinn Ægir Egilsson, Almar Marinósson og Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir.

13.          Frá U-listanum, Finnafjarðarverkefnið, bréf frá landeigendum.

Tölvubréf frá Stefáni Sigurbjörnssyni, dags. 30. september 2019, lagt fram.

Til máls tók Almar Marinósson og lagði fram svohljóðandi bókun.

Í þeim gögnum sem U-listinn að ósk sinni fékk afhent nýverið var m.a. bréf frá landeigendum í Finnafirði sent þann 30.september 2019. Þar kemur fram að þeir telja viljayfirlýsinguna óásættanlega og hafi ekki áhuga á að undirrita hana. Jafnframt lýsa þeir yfir vantrausti á Langanesbyggð í þessu verkefni. Sveitarstjórn hefur ekki verið upplýst um þetta bréf sem við teljum vera mjög ámælisvert. Á 105. fundi sveitarstjórnar þann 17.október 2019 kom U- listinn með fyrirspurn um framgang verkefnisins. Í svörum til okkar á þeim fundi kom fram að ekkert hefði gerst í verkefninu sem talandi væri um. Þetta sýnir enn og aftur mikilvægi þess að ráðin sé verkefnisstjóri sem sinnir þessu af þekkingu og fagmennsku.

Til máls tóku Þorsteinn Ægir Egilsson og Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir.

14.          Frá U-listanum, Íþróttahúsið Ver, undirbúningur vegna viðhalds og breytinga

Til máls tók Almar Marinósson og lagði fram svohljóðandi tillögu.

Sveitarstjórn samþykkir að hafinn verði undirbúningur að  nauðsynlegu viðhaldi og breytingum á íþróttahúsinu Veri. Sveitarstjóra er falið að finna  verkefnisstjóra til að halda utan um verkefnið á undirbúningstímanum. Einnig að leggja fyrir næsta fund sveitarstjórnar viðauka vegna áætlaðs kostnaðar vegna verkefnisins.

Til máls tóku Þorsteinn Ægir Egilsson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Jónas Egilsson, Halldór Rúnar Stefánsson og Almar Marinósson.

Þorsteinn Ægir Egilsson lagði fram svohljóðandi tillögu.

Tillögu U-lista verði frestað til næsta fundar sveitastjórnar.

Samþykkt samhljóða.

15.          Frá U-listanum, Miðsvæði/miðbær á Þórshöfn, skipulag og framtíðarsýn

Til máls tók Almar Marinósson og lagði fram svohljóðandi tillögu.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að koma  með tillögur að fagaðilum til þess að hefja hugmyndavinnu að framtíðar heildarskipulagi og hönnun miðsvæðisins á Þórshöfn. Vinna þarf málið í nánu samstarfi við skipulags og umhverfisnefnd. Með miðsvæði er átt við svæðið frá Langanesvegi 1 að Hafnarlæk í austri, og frá hafnarsvæði að Miðholti í norðri.  

Til máls tóku Mirjam Blekkenhorst, Þorsteinn Ægir Egilsson, Jónas Egilsson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Almar Marinósson, Halldór Rúnar Stefánsson.

Samþykk samhljóða.

16.          Skýrsla sveitarstjóra.

Dýpkun hafnarinnar á Þórshöfn: Niðurstöður útboðs Vegagerðarinnar liggja fyrir. Kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir um 190 m.kr. kostnaði, en lægsta tilboð hljóðar upp á 170 m.kr. sem væntanlega þýðir lækkun kostnaðar fyrir sveitarfélagið líka. Niðurstöður viðræðna og útfærsla á framkvæmdinni liggja ekki fyrir, en væntanlega hefjast framkvæmdir í næsta mánuði.

Flotbryggja á Bakkafirði. Undirbúningur er hafinn við að koma nýrri flotbryggju fyrir í höfninni á Bakkafirði, sem væntanlega mun verða e.k. olíubryggja líka. Hún mun stórauka legupláss við höfnina og auka öryggi við olíuafgreiðslu til báta sem þar leggja upp.

Orka náttúrunnar færði Langanesbyggð 40 birkiplöntur í gær að gjöf til kolefnisjöfnunar starfsemi fyrirtækisins, sem komið verður fyrir umhverfis tjaldsvæðið á Þórshöfn. Auk þess verður á fjórða þúsund græðlinga komið fyrir í landi sveitarfélagsins í sumar á vegum Þjónustumiðstöðvarinnar.

Sumarstarfsmenn eru komnir til starfa og hafa hafist handa við að taka til í bæjarlandinu. Það eru átta unglingar í vinnuskólanum 14 til 16 ára auk annarra átta sem eru við vinnu hjá Þjónustumiðstöðinni.

Gamli Hafnarkraninn á Bakkafirði er kominn úr viðgerð og kominn í notkun.

Grunnskólinn fékk Grænfánann afhentan þann 29. maí sl. Skólinn hefur verið á grænni grein í nokkur ár og núna í vetur hefur verið starfandi umhverfisnefnd og unnið markvisst eftir skrefunum sjö í átt að vottun Grænfánans. Allir nemendur og starfsmenn skólans hafa komið að þessari vinnu og í vor var kosið lýðræðislega um einkunnarorð skólans. "Rusl í fötu, en ekki á götu" bar sigur úr bítum og er yfirskrift umhverfissáttmála sem allir nemendur og starfsmenn skrifað undir.

Landfylling hafin við enda suðurtanga varnargarðsins við Þórshöfn. Hún hófst með hreinsun þara sem safnast hafði þar upp og var farinn að lykta illa, öllum til ama. Jarðvegsefni verður ekið í kverkina og hafnargarðurinn færður út í þeirri von um að hafstraumar muni framvegis sjá um að hreinsa þarann í burtu.

Jóhann Hafberg Jónasson hefur verið ráðinn tímabundið til eins árs sem rekstrarstjóri á skrifstofu sveitarfélagsins. Hann er menntaður bókari og hans aðalstarf verður að fylgjast með framkvæmd og undirbúningi við gerð fjárhagsáætlunar. Markmiðið er að efla og styrkja þátttöku deildarstjóra í við undirbúning fjárhagsáætlunar og upplýsingagjöf til deildarstjóra og ekki síst kjörinna fulltrúa. Auk þess verður hann til aðstoðar við almenn starfsmannamál, launaútreikninga o.fl. Með þessu tel ég að við séum að koma til móts við auknar kröfur og óskir um betri og skilvirkari upplýsingagjöf. Hann mun að sjálfsögðu sinna öðrum verkefnum sem til falla hverju sinni.

Hjúkrunarforstjóri Nausts hefur tilkynnt að hún sé að hefja nám við háskóla Íslands í ljósmæðranámi í haust og muni því láta af störfum hjá sveitarfélaginu.

Mirjam Blekkenhorst var kosin í stjórn Þekkingarnetsins á Ársfundi Héraðsnefndar Þingeyinga sem haldinn var á Húsavík 3. júní sl. 

Stefnt er að verslun Vínbúðarinnar á Þórshöfn opni í ný-endurgerðri aðstöðu á Langanesvegi 2, mánudaginn 22. júní nk. 

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna forsetakosninganna er hafin á skrifstofu sveitarfélagsins og er sinnt af starfsmanni sýslumanns sem hefur vinnuaðstöðu  á skrifstofu sveitarfélagsins.

Tók tils máls Almar Marinósson.

Fundargerð upp lesin og samþykkt samhljóða.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:14.

Hægt er að horfa á fundinn hér.

 

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?