Fara í efni

112. fundur sveitarstjórnar

26.03.2020 17:00

112. fundur, aukafundur, sveitarstjórnar, Langanesbyggðar haldinn í Félagsheimilinu Þórsveri, Langanesvegi 16 Þórshöfn, fimmtudaginn 26. mars 2020. Fundur var settur kl. 17:00. 

Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst, Jósteinn Hermundsson, Þórarinn J. Þórisson, Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Sólveig Sveinbjörnsdóttir og Svala Sævarsdóttir sem  ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Því næst var gengið til dagskrár.

 

Dagskrá

1.         Ráðning sveitarstjóra

2.         Heimild til fjarfunda, skv. bráðabirgðaákvæðum á sveitarstjórnarlögum

3.         Viðbrögð Langanesbyggðar vegna Covid-19 smithættu

4.         Tilboð í raforku hjá Ríkiskaupum

5.         Viðauki við fjárhagsáætlun vegna Þjónustumiðstöðvar

6.         Heimild til lántöku

 

Fundargerð

1.         Ráðning sveitarstjóra

Oddviti lagði fram drög að ráðningarsamningi við Jónas Egilsson sem sveitarstjóra út kjörtímabilið.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagðan ráðningarsamning og felur oddvita að undirrita hann fyrir hönd sveitarfélagsins.

Samþykkt með atkvæðum Þorsteins, Þórarins, Jósteins og Mirjam.

Siggeir, Sólveig og Sigríður sátu hjá.

Til máls tók Sigríður Friðný og gerði grein fyrir atkvæðinu með svohljóðandi bókun fyrir hönd U -listans. :U-listinn gagnrýnir vinnubrögð í ráðningarferli nýs sveitarstjóra þar sem ekkert samráðhafi verið haft við minnihluta. Einnig eru ýmis ákvæði í ráðningarsamningnum sem að okkar mati þyrfti að endurskoða.

Til máls tók Mirjam Blekkenhorst.

Jónas Egilsson nýráðinn sveitarstjóri tók sæti á fundinum og tók til máls.

2.         Heimild til fjarfunda, skv. bráðabirgðaákvæðum á sveitarstjórnarlögum

Eftirfarandi var lagt fram: Lög nr. 18/2020 um breytingu á sveitarstjórnarlögum vegna neyðarástands í sveitarfélagi, auglýsing nr. 230 frá 19. mars 2020 um ákvörðun sveitarstjórnarráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna o.fl., og leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna fjarfunda hjá sveitarfélögum, dags. 19. mars 2020.

Bókun um afgreiðslu: Með vísan til bráðabirgðaákvæðis 1. gr. laga nr. 18/2020 um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 og auglýsingar nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvörðunartöku við stjórn sveitarfélaga, samþykkir sveitarstjórn að nýta sér það heimildarákvæði sem framangreind breytingarlög og ákvörðun ráðherra kveður á um, þ.e. til fjarfunda nefnda, ráða og sveitarstjórnar eftir því sem nauðsyn ber til, á meðan heimild þessi gildir, þ.e. til 19. júlí 2020. Horft verði til leiðbeininga Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 19. mars 2020 um aðra framkvæmd fjarfunda, eftir því sem við á hverju sinni.

Til máls tók Jónas Egilsson.

Samþykkt samhljóða.

3.         Viðbrögð Langanesbyggðar vegna Covid-19 smithættu

Lagt var fram erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 19. mars 2020, með hugmyndum og ábendingum að aðgerðum til viðspyrnu fyrir atvinnulíf í ljósi fyrirséðs samdráttar. Einnig eru lögð fram drög að viðbragðsáætlun Langanesbyggðar, dags. 25. mars 2020.

Til máls tóku Jónas Egilsson og Siggeir Stefánsson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að koma með tillögur fyrir næsta fund sveitarstjórnar um aðgerðir og viðbrögð sveitarfélagsins vegna ástands sem Covid-19 smithætta skapar.

 Enn fremur staðfestir sveitarstjórn framlagða viðbragðsáætlun sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

4.         Tilboð í raforku hjá Ríkiskaupum

Til máls tók Jónas Egilsson.

Bókun um afgreiðslu: Langanesbyggð samþykkir að fara að tillögu Ríkiskaupa og mun tilkynning um val tilboðs verða sent bjóðendum í útboðskerfinu. Tilkynnt verður um töku tilboðs þegar biðtíma er lokið, ef engin kæra berst til kærunefndar útboðsmála. Við töku tilboða er komið á samningssamband milli kaupanda og seljanda.

Samþykkt samhljóða.

5.         Viðauki við fjárhagsáætlun vegna Þjónustumiðstöðvar

Tillaga viðauka (nr. 3) við fjárhagsáætlun 2020 var lagður fram: Lagðar eru til eftirfarandi breytingar við fjárhagsáætlun 2020:  Áhöld og tæki f. þjónustumiðstöð kr. 5.000.000.

Til máls tóku Siggeir Stefánsson, Jónas Egilsson, Siggeir Stefánsson, Þorsteinn Ægir Egilsson, Siggeir Stefánsson.

Samþykkt með atkvæðum Þorsteins, Þórarins, Jósteins og Mirjam.  Siggeir, Sigríður og Sólveig sátu hjá. Siggeir gerði grein fyrir atkvæðinu með eftirfarandi bókun fyrir hönd U -listans:

U-listinn hefur óskað eftir frekari gögnum og útskýringum við þennan lið, þ.e. nánari

útlistingum á þarfagreiningu og kostnaði. Því var svarað að við myndum fá þær

upplýsingar en ekkert hefur komið. Við sitjum hjá þar sem ekki er hægt að taka

upplýsta ákvörðun vegna skorts á nánari gögnum. Einnig höfum við óskað eftir

því að fjárfestingar ársins 2020 séu teknar fyrir í heild til samþykkta en ekki sé verið að

taka eitt og eitt atriði fyrir hverju sinni.

Þorsteinn leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihlutans: Meirihlutinn hafnar bókun minnihlutans, og telur að ítarleg gögn hafi verið lögð fram í þessu máli.

6.         Heimild til lántöku

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að heimila sveitarstjóra að taka lán hjá viðskiptabanka eða viðskiptastofnun sveitarfélagsins allt að 60 m.kr.

Til máls tóku Jónas Egilsson, Siggeir Stefánsson, Jónas Egilsson.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tók Siggeir Stefánsson og lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd U-listans:                                              

Það sætir furðu að sveitarfélagið hafi verið að fjármagna sig með yfirdrætti í mjög langan tíma.

Þorsteinn Ægir Egilsson bað um fundarhlé kl.17:47.  Fundur settur á ný kl.17:53.

Þorsteinn Ægir Egilsson las upp eftirfarandi bókun: Meirihlutinn lýsir furðu sinni á þessari bókun minnihlutans sérstaklega þar sem heimild til þessarar skammtímalántöku var samþykktur samhljóða í sveitarstjórn fyrir um það bil ári síðan.

Siggeir Stefánsson bað um fundarhlé kl.17.55. Fundur settur á ný kl.17.57.

 Fundargerð upplesin og samþykkt samhljóða.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.05

 

Hægt erað horfa á fundinn hér

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?