Fara í efni

111. fundur sveitarstjórnar

12.03.2020 17:00

 

Fundur í sveitarstjórn

 

111. fundur sveitarstjórnar, Langanesbyggðar haldinn í Félagsheimilinu Þórsveri, Langanesvegi 16 Þórshöfn, fimmtudaginn 12. mars 2020. Fundur var settur kl. 17:00.            

Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst, Árni Bragi Njálsson, Þórarinn J. Þórisson, Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Sólveig Sveinbjörnsdóttir og Jónas Egilsson starfandi sveitarstjóri sem einnig ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki. Hann lagði til að 11. liður í dagskrá yrði felldur niður og númer annarra liða breytist skv. því. Samþykkt.

Því næst var gengið til dagskrár.

 

Dagskrá

 

1.            Fundargerð 879. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 28. febrúar 2020

2.            Fundargerð 420. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 26. febrúar 2020

3.            Fundargerð 5. fundar stjórnar SSNE, dags. 12. febrúar 2020

4.            Fundargerð 6. fundar stjórnar SSNE, dags. 21. febrúar 2020

5.            Fundargerð 18. fundar framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Þingeyinga, dags. 24. febrúar 2020

6.            Fundargerð 20. fundar byggðaráðs, dags. 24 febrúar 2020

7.            Vindmyllugarðar – kynning á umsóknum

8.            Tillaga um miðlun upplýsinga til nýbúa og vinarbæjarverkefni

9.            Innritunareglur leikskólans Barnabóls

10.          Dýpkunarframkvæmdir við Þórshöfn

11.          Kynning á umsóknum um möguleika á vindmyllugörðum í Langanesbyggð

12.          Afskriftir á útistandandi kröfum

13.          Fossorka hf. – afskráning eða sala

14.          Tillaga að breytingu á fundarplani sveitarstjórnar og byggðaráðs

15.          Frá U-lista: Tillaga um ráðningu verkefnastjóra í Finnafjarðarverkefnið

16.          Frá U-lista: Ítrekun á óskum um aðgang að gögnum og upplýsingum í samræmi við 20. gr. í samþykktum Langanesbyggðar

17.          Frá U-lista: Nýbygging leikskóla

18.          Frá U-lista: Ráðningarsamningur sveitarstjóra

19.          Skýrsla starfandi sveitarstjóra

 

Fundargerð

1.            Fundargerð 879. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 28. febrúar 2020

Fundargerðin lögð fram.

2.            Fundargerð 420. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 26. febrúar 2020

Fundargerðin lögð fram.

3.            Fundargerð 5. fundar stjórnar SSNE, dags. 12. febrúar 2020

Fundargerðin lögð fram.

4.            Fundargerð 6. fundar stjórnar SSNE, dags. 21. febrúar 2020

Fundargerðin lögð fram.

5.            Fundargerð 18. fundar framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Þingeyinga, dags. 24. febrúar 2020

Fundargerðin lögð fram.

6.            Fundargerð 20. fundar byggðaráðs, dags. 24. febrúar 2020

Til máls tók Jónas Egilsson. Hann gerði grein fyrir stöðu 9. liðar fundargerðarinnar.

Fundargerðin staðfest.

7.            Vindmyllugarðar – kynning á umsóknum

Minnisblað um þessar umsóknir lagt fram.

Til máls tók: Sigríður Friðný Halldórsdóttur. Jónas Egilsson veitti andsvar.

8.            Tillaga um miðlun upplýsinga til nýbúa og vinarbæjarverkefni

Minnisblað með tillögu og greinargerð um verkefnin lagt fram.

Til máls tók: Jónas Egilsson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að hafinn verði undirbúningur að aukinni virkni og þátttöku nýbúa í samfélaginu í Langanesbyggð. Í fyrsta áfanga er lagt til að skipað  verði teymi tveggja einstaklinga sem sjái um birtingu upplýsinga frá Langanesbyggð og um viðburði í sveitarfélaginu á erlendum málum, ensku og pólsku auk íslensku á heimasíðu og á Facebook.

Einnig verði leitað til sveitarfélagsins Trzebnica í Póllandi um samstarf í menningarmálum, sjá fylgiskjöl þess efnis.

Til máls tók Siggeir Stefánsson.

Samþykkt samhljóða.

9.            Innritunareglur leikskólans Barnabóls

Tillaga að nýjum innritunarreglum leikskólans Barnabóls lagðar fram. Velferðar- og fræðslunefnd samþykkti framlögð drög á 12. fundi sínum 4. mars sl.

Til máls tók Þórarinn J. Þórisson sem lagði fram svohljóðandi breytingatillögu við 2. og 3. grein reglnanna fyrir hönd meirihluta: 2. gr. hljóðist svo:

Sótt er um leikskóladvöl hjá leikskólastjóra. Sækja má um leikskólavist allt árið en miðað er við að umsóknir um skólavist að hausti þurfi að berast fyrir 1. júní fyrir vistun sem hefst í byrjun ágúst og fyrir 1. nóvember vegna barna sem hefja vistun í byrjun janúar.

Þeir sem sækja um leikskólavist eftir tilgreinda umsóknarfresti geta ekki vænst þess að fá leikskólapláss fyrr en næst þegar börn eru tekin í leikskólann. Þetta á jafnt við um forgangshópa sem og aðra. Umsóknir raðast á biðlista eftir kennitölum barna, þau elstu fyrst. Umsóknareyðublöð er hægt að nálgast á heimasíðu Barnabóls: http://www.leikskolinn.is/thorshofn/

1. og 2. ml. 3. gr. hljóðist svo:

Miðað er við að taka inn börn við 16 mánaða aldur. Börn fá leikskólavist að jafnaði á tímabilinu júní til september og í janúar.

Til máls tóku: Sigríður Friðný Halldórsdóttir. Þorsteinn Ægi Egilsson veitti andsvar. Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Þórarinn J. Þórisson, Mirjam Blekkenhorst, Jónas Egilsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir. Þorsteinn Ægir Egilsson veitti andsvar. Sigríður Friðný Halldórsdóttir.

Breytingatillaga meirihluta samþykkt með atkvæðum Þorsteins Ægis Egilssonar, Mirjam Blekkenhorst, Þórarins J. Þórissonar og Árna Braga Njálssonar. Á móti: Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttur og Sólveig Sveinbjörnsdóttur. Tillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Innritunarreglur með áorðnum breytingum samþykktar með atkvæðum Þorsteins Ægis Egilssonar, Mirjam Blekkenhorst, Þórarins J. Þórissonar og Árna Braga Njálssonar. Á móti: Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttur og Sólveig Sveinbjörnsdóttur. Tillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Til máls tók Siggeir Stefánsson og lagði fram svohljóðandi bókun U-listans:  Við leggjum til að málinu verði vísað til Velferðar- og fræðslunefndar og leikskólastjóra til umsagnar. Við höfnum breytingatillögum án nánari umræðu við fagfólk.

10.          Dýpkunarframkvæmdir við Þórshöfn

Minnisblað um dýpkunarframkvæmdir við Þórshafnarhöfn.

Til máls tók: Jónas Egilsson.

Bókun um afgreiðslu: Samþykkt að hefja undirbúning að framkvæmdum við dýpkun hafnarinnar á Þórshöfn í samræmi við tillögu 3 í minnisblaði Vegagerðarinnar, dags. í mars 2020. Áætlaður kostnaður hafnarsjóðs um 57-58 m.kr. verði fjármagnaður með nýju láni.

Samþykkt samhljóða.

11.          Afskriftir á útistandandi kröfum

Til máls tók starfandi sveitarstjóri og lagði fram svohljóðandi tillögu: Samþykkt að óinnheimtar kröfur að upphæð kr. 4.177.282 verði afskrifaðar og færðar sem tapað fé við uppgjör ársreiknings sveitarfélagsins 2019.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða tillögu.

Samþykkt samhljóða.

12.          Fossorka hf. – afskráning eða sala

Oddviti lagði fram svohljóðandi tillögu: Sveitarstjórn samþykkir að veita sveitarstjóra umboð til að sækja aðalfund Fossorku hf. fyrir hönd sveitarfélagsins og greiða atkvæði með því að félaginu verði slitið eða það selt. Einnig er samþykkt að fela sveitarstjóra að kanna eigu og aðkomu Langanesbyggðar að óvirkum félögum og samtökum og uppfæra skráningar og gera tillögu til sveitarstjórnar eða byggðaráðs um sölu eða slit þeirra félaga.

Til máls tók Siggeir Stefánsson.

Samþykkt með sex atkvæðum. Siggeir Stefánsson sat hjá.

13.          Tillaga að breytingu á fundarplani sveitarstjórnar

Oddviti lagði fram svohljóðandi breytingartillögu við fundaplan sveitarstjórnar 2020: Næsti reglulegi fundur sveitarstjórnar verður fimmtudaginn 23. apríl nk., en ekki miðvikudaginn 8. apríl, daginn fyrir Skírdag.

Til máls tók Siggeir Stefánsson. Jónas Egilsson veitti andsvar.

Samþykkt samhljóða.

14.          Frá U-lista: Tillaga um ráðningu verkefnastjóra í Finnafjarðarverkefnið

Siggeir Stefánsson tók til máls og lagði fram svohljóðandi tillögu fyrir hönd U-listans: Það eru margþætt og mikilvæg verkefni framundan í Finnafjarðarverkefninu og nauðsynlegt að þeim sé fylgt vel eftir. Þar á meðal eru málefni sem er nauðsynlegt að takast strax á við og vanda þarf vel til verka. Leita þarf að aðila sem er hæfur á þeim sviðum þar sem mesta þörfin er á í dag og getur leitt verkefnið á næsta stig. Reiknað er með tímabundinni ráðningu til að byrja með.

Sveitarstjórn samþykkir að ráða verkefnisstjóra til að sinna ýmsum verkefnum í Finnafjarðarverkefninu og felur sveitarstjóra og byggðaráði að leita að aðila í verkið. Jafnframt er honum falið að kynna þessa ákvörðun fyrir sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps, óska eftir fjárhagslegri aðkomu þeirra og sameiginlegum fundi beggja sveitarstjóra sem fyrst.

Áætlaður kostnaður er 2 m.kr og er sveitarstjóra falið að leggja fyrir næsta fund sveitarstjórnar viðauka við fjárhagsáætlun 2020 og kanna möguleika á styrkjum í verkefnið.

Til máls tóku oddviti, Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Jónas Egilsson veitti andsvar. Mirjam Blekkenhorst, Siggeir Stefánsson.

Framlögð tillaga borin upp til atkvæða: Með samþykkt tillögunnar greiddu atkvæði: Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir og Sólveig Sveinbjörnsdóttir. Á móti: Þorsteinn Ægir Egilsson, Mirjam Blekkenhorst, Árni Bragi Njálsson og Þórarinn J. Þórisson. Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 3.

Oddviti lagði fram svohljóðandi bókun: Meirihlutinn hafnar þessari tillögu eins og hún er fram sett. Stefna sveitarfélaganna hefur verið frá upphafi að leggja ekki fjármagn í rekstur Finnafjarðarverkefnisins. Stjórn FFPA er samstíga í því að ekki sé tímabært að ráða starfsmann á þessum tímapunkti til starfa með tilheyrandi kostnaði. Enn fremur lagði stjórn FFPD til, á fundi sínum 9. mars sl., að samningaviðræður við landeigendur færist frá sveitarfélögunum til FFPD.

Til máls tók Siggeir Stefánsson. Þorsteinn Ægir Egilsson veitti andsvar.

15.          Frá U-lista: Ítrekun á óskum um aðgang að gögnum og upplýsingum í samræmi við 20. gr. í samþykktum Langanesbyggðar

Til máls tók Sigríður Friðný Halldórsdóttir og lagði fram svohljóðandi bókun: Á síðasta fundi sveitarstjórnar setti U-listinn sama lið á dagskrá. Þar óskuðum við eftir því að orðið yrði við okkar lagalega rétti til þess að fá aðgang að gögnum, m.a. í aðdraganda fjárhagsáætlunar. Nú er liðinn mánuður frá þessum fundi og ekkert hefur unnist í þessu máli. Í tæpa fimm mánuði höfum við ekki fengið þau gögn sem við höfum óskað eftir. Með þessu er sveitafélagið að brjóta á réttindum sveitarstjórnarmanna og hamla því að þeir geti sinnt skyldum sínum sem sveitarstjórnarmenn. Við gerum alvarlegar athugasemdir við þessa vinnuhætti og ítrekum enn og aftur að þessi gögn verði afhent.

Til máls tók starfandi sveitarstjóri sem lagði fram skriflegt svar við spurningum U-listans.

Til máls tók: Siggeir Stefánsson.

16.          Frá U-lista: Nýbygging leikskóla

Til máls tók Siggeir Stefánsson og lagði fram bókun fyrir hönd U-listans.

Oddviti gerði hlé á fundi kl. 18:42.

Oddviti setti fund að nýju kl. 19:34.

Oddviti vísaði bókuninni til næsta fundar sveitarstjórnar með vísan til stafliðar j í 15. grein samþykkta sveitarfélagsins.

Til máls tók Siggeir Stefánsson og óskaði eftir fundarhlé.

Oddviti gerði hlé á fundi kl. 19:36.

Oddviti setti fund kl. 19:44.

Til máls tók Sigríður Friðný Halldórsdóttir sem lagði fram svohljóðandi bókun: Þegar byrjað er á verkefni, líkt og að byggja leikskóla, er mikilvægt að átta sig á markmiðum og þörfum verkefnisins, því leikskóli er svo mikið meira en bara bygging. Stefna í leikskólamálum/skólamálum þarf að vera skýr áður en farið er af stað. Því miður var þetta ekki gert að okkar mati. Sem dæmi er enn þörf fyrir að brúa bilið frá lok fæðingarorlofs þar til barnið getur hafið leikskólagöngu sína því ekki hefur verið rekstrargrundvöllur fyrir dagmömmu á þessu svæði. Þarna var vissulega tækifæri til þess að leysa málið með hönnun á leikskóla sem bíður upp á vist ungbarna en það var ekki gert. Þetta er því miður að okkar mati skólabókardæmi um framkvæmdarverkefni sem mistekst, undirbúningur var lélegur og verkefnastjórn og utanumhaldi á verktíma verulega ábótavant. Það eru margir þættir í húsinu sem eru ekki nógu vel útfærðir, en hefði mátt laga með betra samtali við notendur. Lokakostnaður leikskóla var 313 milljónir en hvar kemur fram heimild og samþykki sveitarstjórnar fyrir umframkostnaði við verkið? U-listinn gerir ekkert með þær eftir á skýringar sem nú koma fram um að inn í kostnaðaráætlun hafi ekki verið grunnþættir eins og hönnun hússins. Vissulega erum við komin með mun betri aðstöðu fyrir leikskólabörn og því ber að fagna. En um leið eru það mikil vonbrigði að tækifærið sem bauðst til að hanna og byggja leikskóla sem uppfyllti þarfir okkar, hagræðingamöguleika og sýn inn í framtíðina var ekki nýtt. Þau vinnubrögð sem áttu sér stað voru mjög ámælisverð eins og tíundað hefur verið hér að ofan.

Siggeir Stefánsson óskaði eftir bókum þess efnis að hann hefði beðið um orðið en ekki verið heimilað.

17.          Frá U-lista: Ráðningarsamningur sveitarstjóra

Til máls tók Sólveig Sveinbjörnsdóttir og lagði fram svohljóðandi bókun um afgreiðslu:

Sveitarstjórn samþykkir að ráðningarsamningur fráfarandi sveitarstjóra verði birtur á heimasíðu sveitarfélagsins fyrir lok mars 2020.

Tillagan borin undir atkvæði: Með tillögunni greiddu atkvæði Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir og Sólveig Sveinbjörnsdóttir. Á móti: Þorsteinn Ægir Egilsson, Mirjam Blekkenhorst, Þórarinn J. Þórisson og Árni Bragi Njálsson. Tillagan felld með 3 atkvæðum gegn 4.

Þorsteinn Ægir Egilsson lagði fram svohljóðandi bókun: Ráðningasamningur fyrrverandi sveitarstjóra er aðgengur á skrifstofu sveitarfélagsins.

18.          Skýrsla starfandi sveitarstjóra

Í undirbúningi er að setja út nýja flotbryggju á Bakkafirði í samræmi við framkvæmda- og fjárfestingaráætlun sveitarstjórnar. Þar verður komið fyrir nýrri olíuafgreiðslu fyrir báta. Nýr landgangur við gömlu flotbryggjuna er kominn á staðinn og bíður uppsetningar.

Snjómokstur hefur verið óvenjumikill í vetur en nú stefnir í að mars verði fjórði óveðursmánuðinn í röð í vetur. Trúlega verða útgjöld vegna snjómoksturs til samræmis, en upplýsingar um þann kostnað verð kynntar þegar þær liggja fyrir.

Settir hafa verið upp sprittskammtarar  á alla vinnustaði Langanesbyggðar og er það fyrsti liður í aðgerðum til að bregðast við dreifingu Corvid-19 veirunnar sem nú hefur verið skilgreindur sem heimsfaraldur. Sveitarstjóri hefur einnig fylgst með upplýsingafundum Almannavarnarnefndar á Norðurlandi eystra. Þegar þetta er ritað er ekki vitað til að smit hafi komið upp í sveitarfélaginu. Tilkynningar hafa verið birtar sömuleiðis á deildum sveitarfélagsins. Atli Árnason heilsugæslulæknir á Þórshöfn hefur boðað helstu viðbragðsaðila svæðisins á samráðsfundi vegna Corvid-19 smithættu með það að markmið að samhæfa aðgerðir og viðbrögð gegn útbreiðslu smits á svæðinu. Fundur deildarstjóra Langanesbyggðar verður á morgun, föstudaginn 13. mars, í hádeginu þar sem farið verður yfir viðbrögð og aðgerðir sveitarfélagsins.

Framkvæmdum á Nausti er að langmestu lokið en hafa verið stöðvaðar til að draga úr veirusmiti. Uppgjör vegna kostnaðar ætti að liggja fyrir í næsta mánuði og verður kynnt byggðaráði.

Skólinn er kominn með 25 nýjar tölvur fyrir nemendur og kennara sem keyptar voru í síðasta mánuði og er almenn ánægja í skólanum með hinn nýja búnað og í kjölfarið hafa allir tekið til óspilltra mála við nám og störf.

Tveir afleysinarstarfsmenn hafa komið til starfa á skrifstofu tímabundið. Það eru þau Sara Stefánsdóttir og Jóhann H. Jónasson sem aðstoða okkur Svölu við ýmis tilfallandi störf  í forföllum launafulltrúa og á meðan undirritaður er starfandi sem sveitarstjóri. Nýr starfsmaður sýslumanns hefur störf á skrifstofu Langanesbyggðar um miðja næstu viku gangi áætlanir eftir, en þetta er reynsluverkefni út þetta ár a.m.k. Um er að ræða starfsmann sem fær gögn frá sýslumannsembættum um allt land til að færa í rafrænt form, eins og áður hefur verið kynnt.

Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem boðað var til 26. mars nk., hefur verið frestað um óákveðinni tíma. Á vettvangi framkvæmdastjóra sveitarfélaga er rætt um aðgerðir sem sveitarfélög geta brugðist við smithættu, m.a. með því að heimila sveitarstjórnarfundi í gegnum fjarfundarbúnað.

Til máls tók Siggeir Stefánsson. Jónas Egilsson veitti andsvar.

 

Fundargerð upplesin og samþykkt samhljóða.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20:15.

 

Hægt er að horfa á fundinn hér

 

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?