108. fundur sveitarstjórnar
Fundur í sveitarstjórn
108. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn í félagsheimilinu Þórsveri á Þórshöfn, fimmtudaginn 16. janúar 2020. Fundur var settur kl. 17:00.
Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst varaoddviti, Halldór R. Stefánsson, Jósteinn Hermundsson, Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Sólveig Sveinbjörnsdóttir og Jónas Egilsson starfandi sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
Almar Marinósson tók sæti undir lið 14.
Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.
Því næst var gengið til dagskrár.
Dagskrá
1) Fundargerð 877. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 13. desember 2019
2) Fundargerð 418. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 6. desember 2019
3) Fundargerð 328. fundar stjórnar Eyþings, dags. 18. desember 2019
4) Fundargerð aðalfundar Eyþings, dags. 15. og 16. nóvember 2019
5) Fundargerð 17. fundar byggðaráðs, 9. janúar 2020
6) Yfirlit kostnaðar vegna leikskólaframkvæmda
7) Fundagerðir Finnafjarðarhafnar slhf. (FFPA) og Finnafjarðar slhf. (FA) dags. 20. desember 2019
8) Starfsreglur stjórna FFPA og FA
9) Tilkynning um stofnun nýrra landshlutasamtaka
10) Jafnréttisþing 20. febrúar 2020
11) Æfum alla ævi, samantekt HSÞ um íþróttastarfsemi í héraðinu
12) Deiliskipulag – kirkjugarður Þórshafnarkirkju
13) Viðaukar við fjárhagsáætlun 2020
14) Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2019/2020
15) Raforkuöryggi
16) Skýrsla starfandi sveitarstjóra
Fundargerð
1. Fundargerð 877. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 13. desember 2019
Fundargerðin lögð fram.
2. Fundargerð 418. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 6. desember 2019
Fundargerðin lögð fram.
3. Fundargerð 328. fundar stjórnar Eyþings, dags. 18. desember 2019
Fundargerðin lögð fram.
4. Fundargerð aðalfundar Eyþings, dags. 15. og 16. nóvember 2019
Fundargerðin lögð fram.
5. Fundargerð 17. fundar byggðaráðs, 9. janúar 2020
Fundargerðin staðfest samhljóða.
6. Yfirlit kostnaðar vegna leikskólaframkvæmda
Samantekt á kostnaði vegna framkvæmda við nýjan leikskóla lögð fram.
Til máls tóku: Jónas Egilsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Jónas Egilsson veitti andsvar.
Sigríður Friðný Halldórsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun U-listans: U-listinn gerir alvarlegar athugasemdir við hvernig var staðið að undirbúningi og framkvæmd á byggingu leikskólans. Mikill kostnaður er vegna aukaverka sem hefðu ekki þurft að koma til ef verkið hefði verið betur undirbúið. Þarfagreining og hönnun var ekki nægjanlega góð. Utanumhaldi á verktíma var einnig ábótavant. Upplýsingar til sveitastjórnar hafa verið mjög óljósar varðandi kostnað við framkvæmdina. Kostnaðaráætlun sem var samþykkt á 75. fundi sveitarstjórnar 2017 hljóðaði uppá 200 milljónir. Í minnisblöðum og öðrum óformlegum gögnum eru mismunandi tölur að koma fram. Upplýsingar til sveitarstjórnar hafa verið á þá leið að allt sé á áætlun og gangi vel. Svo er uppgjör lagt fyrir sveitarstjórn hálfu ári eftir að leikskólinn opnar og þá hljóðar það uppá 313 milljónir. U listinn á eftir að rýna gögn betur og gefur sér rétt til að koma með athugasemdir síðar.
Oddviti gerði hlé á fundi kl. 17:19.
Oddviti setti fund aftur kl. 17:30.
Mirjam Blekkenhorst og tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun L-listans: Ekki er raunhæft að bera saman áætlaðan kostnað um byggingu hússins við þær tölur um heildarkostnað verksins sem hér eru lagðar fram. Enn fremur er hafnað þeim fullyrðum um óvönduð vinnubrögð.
Siggeir Stefánsson óskaði eftir fundarhlé kl. 17:32.
Oddviti setti fund að nýju kl. 17:36.
Til máls tóku Halldór Rúnar Stefánsson, Siggeir Stefánsson.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að kynna niðurstöðurnar fyrir sveitarstjórn Svalbarðshrepps og vinna að eignaskiptayfirlýsingu í samræmi við ákvörðun Svalbarðshrepps um hlutdeild þeirra í nýjum leikskóla.
Samþykkt samhljóða.
7. Fundagerðir Finnafjarðarhafnar slhf. (FFPA) og Finnafjarðar slhf. (FA) dags. 20. desember 2019
Fundagerðirnar lagðar fram.
Til máls tók Sólveig Sveinbjörnsdóttir sem lagði fram svohljóðandi bókun U-listans: U-listinn gerir athugasemd við að stjórnir þessara félaga skuli taka ákvarðanir um veigamikil atriði án þess að þau séu tekin fyrir í sveitarstjórn. Í fundargerðum FFPA og FA, sem eru félög í eigu sveitafélaganna, kemur fram að verið sé að taka ákvarðanir varðandi hluti sem er búið að samþykkja að skoða í sveitarstjórn Langanesbyggðar, en hefur svo ekki komið aftur inn á borð sveitastjórnar. Vísum í bókun á fundi sveitarstjórnar Langanesbyggðar 2. maí 2019: Sveitarstjórn samþykkir að skoðað verði hvort ráðinn verði verkefnastjóri til að sinna Finnafjarðarverkefninu í samráði við Vopnfirðinga. Samþykkt samhljóða. Við teljum nauðsynlegt að fá utanaðkomandi aðila til að leiða verkið fyrir hönd sveitarfélaganna líkt og áður hefur verið rætt um.
Þorsteinn Ægir Egilsson veitti andsvar. Til máls tók Sigríður Friðný Halldórsdóttir. Þorsteinn Ægir veitti andsvar öðru sinni. Sigríður Friðný tók til máls á ný. Siggeir Stefánsson.
8. Starfsreglur stjórna FFPA og FA
Starfsreglurnar lagðar fram.
9. Tilkynning um stofnun nýrra landshlutasamtaka
Tilkynning, dagsett 30. desember sl., um stofnun nýrra landshlutasamtaka og samruna Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga í ein samtök, lögð fram. Hin nýju samtök hófu formlega störf 1. janúar sl. og taka yfir hlutverk fyrrnefndra félaga og samtaka. Elías Pétursson sveitarstjóri er varamaður í stjórn nýrra samtaka.
10. Jafnréttisþing 20. febrúar 2020
Tilkynning um jafnréttisþing fimmtudaginn 20. febrúar 2020.
Bókun um afgreiðslu: Vísað til velferðar- og fræðslunefndar til kynningar.
Samþykkt samhljóða.
11. Æfum alla ævi, samantekt HSÞ um íþróttastarfsemi í héraðinu
Samantekt HSÞ Æfum alla ævi um stöðu og starfsemi HSÞ og aðildarfélaga, lögð fram.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn þakkar HSÞ fyrir framlagða samantekt, sem gefur góðar upplýsingar um stöðu íþróttafélaga í héraðinu.
Vísað til velferðar- og fræðslunefndar til umfjöllunar.
Samþykkt samhljóða.
12. Deiliskipulag–kirkjugarður Þórshafnarkirkju
Tillaga að deiliskipulagi kirkjugarðs Þórshafnarkirkju var auglýst frá 2. október 2019 með athugasemdarfresti til 20. nóvember í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsagnir og athugasemdir bárust frá sjö aðilum og gaf ein tilefni til minniháttar lagfæringar á tillögunni. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum þann 26. nóvember 2019 óverulega breytingu á tillögunni til samræmis við svör við innkomnum athugasemdum og vísaði tillögunni þannig breyttri til endanlegrar afgreiðslu sveitarstjórnar. Lögð eru fram uppfærð skipulagsgögn, skipulagsuppdráttur með greinargerð dags. 17. nóvember 2019 (m. br. 26/11/19).
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir deiliskipulags gögnin og felur sveitarstjóra að senda til Skipulagsstofnunar ásamt samantekt um málsmeðferð sbr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Geri Skipulagsstofnun ekki athugasemd við samþykkta tillögu mun sveitarstjóri auglýsa gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.
13. Viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2020
Lagður fram við auki 1 við fjárhagsáætlun 2020. Skv. honum er eftirfarandi heimilað: Kr. 1.419.000, vegna verkefnisins Langanesbyggð–betri vinnustaður, kr. 5.000.000 vegna kaupa á tækjum fyrir líkamsrækt í Veri, kr. 1.200.000 til kaupa á tankbíl fyrir Slökkvilið Langanesbyggðar, en með kr. 200.000 kostnaðarhlutdeild Svalbarðshrepps. Tankbíll og íþróttatæki eru tekin af framkvæmdafé, en fjárveiting vegna betri Langanesbyggðar, er tekin af handbæru fé.
Til máls tók Jónas Egilsson.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagðan viðauka. Einnig samþykkir sveitarstjórn að fela áhugamanna/ráðgjafahópi um líkamsræktarsal í Veri, sem stofnaður var fyrir áætlanir á breytingum á líkamsræktarsalnum fyrir um 2 árum síðan, að vera til ráðgjafar um uppstillingar á nýju tækjunum.
Samþykkt samhljóða.
14. Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2019/2020
Til máls tók Siggeir Stefánsson og lýsti sig vanhæfan við afgreiðslu þessa máls.
Samþykk samhljóða og tók Almar Marinósson sæti á fundinum, kl. 18:00.
Vegna úthlutunar á kvóta fyrir Langanesbyggð, er lögð til svohljóðandi tillaga við reglugerð um byggðakvóta fiskveiðiársins 2019-2020:
Með vísan til 2. gr. reglugerðar 675/2019 frá 4. júlí 2019 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2019/2020 er þess hér með farið á leit að ráðherra heimili sérreglur vegna sérstakra skilyrða fyrir úthlutun byggðakvóta í Langanesbyggð.
Óskað er eftir þremur breytingum á reglugerð nr. 676/2019.
Óskað er eftir breytingum á 1. gr. sem felur í sér að bætt verði við annars vegar staflið (d), sem orðist svo:
Einungis skip sem eru minni en 300 brúttótonn fá úthlutun og hins vegar staflið (e), sem orðist svo: Við útreikning úthlutunar byggðakvóta skal draga frá afla sem til er kominn vegna veiða á sértæku aflamarki Byggðastofnunar.
Einnig er ósk að eftir breytingu á 1. mgr. 6. gr. reglugerðar sem verði breytt þannig að orðið sveitarfélags komi í stað byggðarlags. Umrædd setning orðist því á eftirfarandi hátt. Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi sveitarfélags á tímabilinu frá 1. september 2019 til 31. ágúst 2020. Aflinn skal nema, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari.
Reglugerðin verði óbreytt að öðru leyti frá ráðuneytinu fyrir Bakkafjörð og Þórshöfn.
Rök fyrir nýjum staflið d eru að með því tryggir sveitarstjórn úthlutun á byggðakvóta til báta sem eru með áhafnir skráðar í sveitarfélaginu og tryggir með því byggð. Hvað varðar nýjan staflið e. þá er þar leitast við að jafna stöðu útgerða með því að láta sértækar aflaheimildir ekki vera grundvöll úthlutunar á hefðbundnum byggðakvóta. Að síðustu þá er breytingu á 1. mgr. 6.gr. reglugerðar ætlað að tryggja að ætíð sé mögulegt að landa fiski til vinnslu í sveitarfélaginu.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða tillögu.
Samþykkt samhljóða.
Siggeir Stefánsson tók sæti á fundinum að nýju kl. 18:05.
15. Raforkuöryggi
Unnið er að á vegum ríkisstjórnarinnar að safna saman upplýsingum um tjón sem hlaust af vegna langvarandi bilana á flutningskerfi raforku eftir óveðrið í desember sl. Enn fremur er fyrirhugað að leggja fram tillögur til úrbóta. Ný landshlutasamtök á Norðurlandi eystra efna til samráðsfundar sveitarfélaganna um erindið í næstu viku og safna saman upplýsingum af svæðinu.
Til máls tók Jónas Egilsson.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að koma á framfæri upplýsingum um ástandið sem skapaðist í Langanesbyggð og tillögum um úrbætur til að tryggja raforkuflutning til byggðarlagsins með hagsmuni íbúa og atvinnufyrirtækja í huga.
Samþykkt samhljóða.
16. Skýrsla sveitarstjóra
Höfnin á Bakkafirði. Umtalsvert tjón varð á mannvirkjum og innsiglingu í óveðrinu 10. desember sl. Viðlagatrygging eða Náttúruhamfaratrygging Íslands hefur látið meta tjón á mannvirkjum og er málið komið til vinnslu á hjá þeim. N1 er að vinna að því að koma upp bráðabirgðaolíuafgreiðslu fyrir báta við höfnina. Rafmagn er tengt til bráðabirgða en endanlegur frágangur bíður endanlegra ákvörðunar Vegagerðarinnar um úrbætur. Landgang og rafmagn vantar á flotbryggju og eru þau mál í úrvinnslu og verkilboð eru í skoðun. Fyrir liggja óskir um nýjan hafnarskúr við höfnina þar sem núverandi skúr bíður ekki upp á salernisaðstöðu o.fl. sem þarf að vera fyrir hendi á svona vinnustað.
Hafnarskúrinn á Þórshöfn, er langt kominn og eru verklok áætluð í lok þessa mánaðar.
Vel lítur með bókanir á Gistiheimilinu á Bakkafirði. Framundan er vinna við að klára málun á kjallara, glugga að innan og gera tvö herbergi í norðurhluta fyrir fjarvinnslu, en sótt var um styrk til verkefnissjóðs Betri Bakkafjarðar vegna þess.
Kaffihúsið á Bakkafirði er opið á fimmtudögum og reynt er að bjóða upp á spilakvöld þar samhliða. Gerð verður tilraun með pöntunarþjónustu í samvinnu við Kjörbúðina á Þórshöfn. Opnunardögum verður fjölgað með vorinu og í sumar er stefnt að hafa opið alla daga vikunnar.
Skoða þarf með endurbætur á tjaldstæðinu á Bakkafirði, en snyrtiaðstaðan þar er ekki eins góð og hér á Þórshöfn.
Framkvæmdir við skólaeldhús í Veri. Öllum aðalframkvæmdum er lokið og því sem næst allur búnaður er kominn á staðinn. Verkinu lýkur í næstu viku og verður hægt að taka eldhúsið í notkun í kjölfarið.
Framkvæmdir á Nausti. Stefnt er að framkvæmdum við endurbætur ljúki í lok næsta mánaðar, en verkið sjálft er á áætlun.
Hitakerfi í leiguíbúðum í Miðholti eru til reglulegra vandræða og hafa valdið íbúum þar talsverðum óþægindum. Nú standa yfir bréfaskriftir við Heimavelli um að skipta út núverandi kerfi og fá ný kerfi í stað þeirra eldri.
Þórsver. Nýr myndvarpi hefur verið settur upp í aðalsal sem og einnig nýtt sýningartjald sem er dregið upp og niður með rafmagni. Áður var enginn myndvarpi í salnum og þá þurfti að stilla upp hverju sinni og síðan var tjaldið þannig að tvo þurfti til að hífa það upp og setja niður.
Fundargerð upplesin og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:21.
Hægt er að horfa á fundinn hér