105. fundur sveitarstjórnar
Fundur í sveitarstjórn
105. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn í félagsheimilinu Þórsveri á Þórshöfn, fimmtudaginn 17. október 2019. Fundur var settur kl. 17:00.
Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst varaoddviti, Halldór R. Stefánsson, Árni Bragi Njálsson, Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Elías Pétursson sveitarstjóri og Jónas Egilsson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Oddviti setti fundinn og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.
Því næst var gengið til dagskrár.
Dagskrá
1) Fundargerð 874. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitafélaga, dags. 27. september 2019
2) Fundargerð 415. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 26. september 2019
3) Fundargerð 17. fundar Siglingaráðs, dags. 20. júní 2019
4) Fundargerð 209. fundar Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra dags. 26. júní 2019
5) Fundargerð 210. fundar Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra dags. 17. september 2019
6) Fundargerð fulltrúarráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótarfélag Íslands, dags. 20. sept. 2019
7) Starf Flugklasans Air 66N, 1. apríl – 11. okt. 2019
8) Ágóðahlutagreiðsla EBÍ 2019, dags. 8. október 2019
9) Skólaþingveitarfélaga 2019, erindi Sambands. ísl. sveitarfélaga dags. 19. september 2019
10) Framkvæmd umbótaáætlunar Grunnskólans á Þórshöfn, frá júlí 2019
11) Drekasvæðið ehf
12) Ljósleiðaravæðing vestan Brekknaheiðar
13) Fjárhagsáætlun HNE 2020
14) Grænbók – Stefna um málefni sveitarfélaga
15) Breytingar á fundaplani sveitarstjórnar
16) Frá U-lista: Húsnæði fyrir eldri borgara
17) Frá U-lista: Bakkafjörður, staða verkefna og mála almennt á Bakkafirði
18) Frá U-lista: Finnafjarðarverkefnið – staða mála gagnvart landeigendum o.fl.
19) Frá U-lista: Íþróttahúsið Ver – staða og næstu skref
20) Skýrsla sveitarstjóra
Fundargerð
1. Fundargerð 874. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitafélaga, dags. 27. september 2019
Fundargerðin lögð fram.
2. Fundargerð 415. fundar stjórnar Hafnarsambands Íslands, dags. 26. september 2019
Fundargerðin lögð fram.
3. Fundargerð 17. fundar Siglingaráðs, dags. 20. júní 2019
Fundargerðin lögð fram.
4. Fundargerð 209. fundar Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra dags. 26. júní 2019
Fundargerðin lögð fram.
5. Fundargerð 210. fundar Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra dags. 17. september 2019
6. Fundargerð fulltrúarráðs Eignarhaldsfélagsins Brunabótarfélag Íslands, dags. 20. sept. 2019
Fundargerðin lögð fram.
7. Starf Flugklasans Air 66N, 1. apríl – 11. okt. 2019
Skýrsla um starf Flugklasans Air 66N fyrir tímabilið 1. apríl til 11. október lögð fram.
8. Ágóðahlutagreiðsla EBÍ 2019, dags. 8. október 2019
Fram er lagt til kynningar bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands, dags. 8. október 2019. Þar kemur fram m.a. að ágóðahlutdeild sveitarfélagsins, séu kr. 80.000, m.v. 0,160% hlutdeild af 50 m.kr. sem greiddar eru að þessu sinni til aðildarsveitarfélaganna.
9. Skólaþing sveitarfélaga 2019, erindi Sambands. ísl. sveitarfélaga dags. 19. september 2019
Lagt er fram erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 19. september 2019, þar sem sveitarstjórnir eru hvattar til þátttöku í Skólaþingi sveitarfélaga 2019, sem haldið verður á Grand hóteli mánudaginn 4. nóvember nk. Leitað er til stjórnmálamanna, fræðimanna og skólafólks, ekki síst ungs fólks með þátttöku. Einnig er lagður fram spurningalisti til ungmennaráða sveitarfélaga af sama tilefni.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að bjóða skólastjóra og formanni velferðar- og fræðslunefndar að sækja skólaþing sveitarfélaga.
Samþykkt samhljóða.
10. Framkvæmd umbótaáætlunar Grunnskólans á Þórshöfn, frá júlí 2019
Framkvæmd umbótaáætlunar í kjölfar eftirfylgniúttektar Grunnskólans á Þórshöfn, frá júlí sl. lögð fram.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða umbótaáætlun og felur skólastjóra, í samráði við velferðar- og fræðslunefnd og sveitarstjóra, framkvæmd áætlunarinnar.
Samþykkt samhljóða.
11. Drekasvæðið ehf
Minnisblað KPMG vegna Drekasvæðisins ehf., dags. 30. september 2019, lagt fram.
Til máls tók sveitarstjóri.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að fara leið 4 í framlögðu minnisblaði en að leið 1 verði farin náist ekki samkomulag um leið 4 á meðal eigenda.
Samþykkt samhljóða.
12. Ljósleiðaravæðing vestan Brekknaheiðar
Minnisblað KPMG með fjárhagslegu uppgjöri á ljósleiðaravæðingu vestan Brekknaheiðar, dags. 7. október 2019, lagt fram. Heildarkostnaður vegna ljósleiðaravæðingar vestan Brekknaheiðar er 39,6 m.kr. en kostnaður sveitarfélagsins að teknu tilliti til styrkja og heimaæðargjalda er 19,6 m.kr. Samkvæmt samkomulagi þar um þá mun sveitarfélagið eignast 33,4% í Fjarskiptafélagi Svalbarðshrepps og að fá einn stjórnarmann í stjórn. Fyrir þann eignarhlut verða greiddar 4,3 m.kr. Það sem eftir stendur, þ.e. 15,4 m.kr. mun verða breytt í langtímalán.
Til máls tók Elías Pétursson.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að í samræmi við framlagt minnisblað að hluta framlags verði breytt í hlutafé og að eftirstöðvar verði langtímalán sveitarfélagsins til Fjarskiptafélags Svalbarðshrepps.
Samþykkt samhljóða.
13. Fjárhagsáætlun HNE 2020
Fjárhagsáætlun Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra fyrir árið 2020 lögð fram.
14. Grænbók – Stefna um málefni sveitarfélaga
Grænbók, umræðuskjal um stefnumótun í málefnum sveitarstjórnarstigsins frá því í apríl 2019, lögð fram að nýju.
Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun: Sveitarstjórn Langanesbyggðar vill koma því á framfæri að mikilvægt er að skilgreina með skýrum hætti hvað sé átt við með því að sveitarfélag sé öflug og sjálfbær stjórnsýslueining og hvað í því felst. Telst það til t.d. ósjálfbærni að vinna að málefnum í samvinnu við önnur sveitarfélög í gegnum byggðarsamlög eða með samstarfssamningum? Þetta atriði og fleiri þurfa að vera skýr áður en lengra er haldið.
Einnig er mikilvægt að umræða um sameiningar sveitarfélaga byggist ekki eingöngu á órökstuddu höfðatölusjónarmiði, heldur verði horft til annarra þátta svo sem landfræðilegra, samfélagslegra og samsetningar atvinnulífs á þeim svæðum sem um ræðir.
Í Grænbókinni er þess getið að gæta skuli að sjálfsstjórn sveitarfélaga og rétti þeirra til að ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð, svo sem verkefnum og fjárhag. Sveitarstjórn Langanesbyggðar telur því að forðast skuli sem kostur er að fara í þvingaðar sameiningar sveitarfélaga án tillits til vilja samfélaganna sem sveitarfélögin mynda.
Sveitarstjórn Langanesbyggðar bendir einnig á;
• Að almennt er fjárhagsstaða minni sveitarfélaga betri en hinna stærri.
• Að vanfjármögnun ríkisins á stórum málaflokkum og verkefnum verður ekki leyst með sameiningu smárra sveitarfélaga né heldur innlimun þeirra í stærri sveitarfélög.
• Að vandamál á einum stað leysast ekki með sameiningum annarsstaðar. Vandamál ber að leysa þar sem þau eru til staðar, hvort sem eru brotalamir í þjónustu, t.d. leikskólaþjónustu eða fjárhagsvandræði af ýmsum orsökum.
• Að landsvæði minnka ekki við sameiningar sveitarfélaga og að sameiningar leysa ekki þjónustuvanda eða neikvæða byggðaþróun í dreifbýli né skerta á þjónustu á jaðarsvæðum.
• Verkefni verða ekki sjálfkrafa ódýrari eða auðleystari við sameiningu sveitarfélaga yfir stór landsvæði, nema þá að dregið sé úr þjónustu við íbúana og störfum fækkað og eða þau flutt til.
• Að hlutverk Jöfnunarsjóðs er, og á að vera, að vera farvegur fyrir fjármögnun lögbundinna verkefna og jöfnun aðstöðu sveitarfélaga til veitingar lögbundinnar þjónustu.
Sveitarstjórn Langanesbyggðar leggur á það ríka áherslu að umræða um sameiningu sveitarfélaga verði ætíð á forsendum skýrra viðmiða um þá þjónustu sem sveitarfélög sé að lögum skylt að veita og á forsendum þeirra samfélaga sem sveitarfélögin mynda. Öll umræða um sameiningu þarf einnig að taka mið af landfræðilegum sem og atvinnulegum staðháttum hvers svæðis er um ræðir.
Að síðustu vill sveitarstjórn Langanesbyggðar koma á framfæri áhyggjum sínum af því hvernig Samband íslenskra sveitarfélaga hefur haldið á þessu máli, það er að mati sveitarstjórnar óásættanlegt að stóru sveitarfélögin í krafti atkvæðavægis taki ákvörðun fyrir hönd smærri sveitarfélaga. Ákvörðun sem í sumum tilvikum hefur miklar fjárhagslegar afleiðingar fyrir stærri sveitarfélögin en sviptir þau smærri lögbundnum sjálfsákvörðunarrétti sínum.
Til máls tóku Siggeir Stefánsson og lagði fram svohljóðandi tillögu U-listans: Sveitarstjórn Langanesbyggðar lýsir yfir andstöðu við hvers konar aðgerðir sem takmarka sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga. Jafnframt bendum við á að sameining sveitarfélaga er í mörgum tilvikum eðlileg og nauðsynleg þróun í nútíma samfélagi. Umhverfi og kröfur í rekstri sveitarfélaga hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina og eðlilegt að rekstur þeirra sé í stöðugri endurskoðun. Sveitarstjórn leggur áherslu á að tryggður sé veglegur fjárhagslegur stuðningur til að styðja við markmið um sameiningar sveitarfélaga. Samhliða er nauðsynlegt að endurskoða skiptingu skatttekna og annara tekjustofna á milli ríkis og sveitarfélaga.
Sveitarstjórn tekur undir umsögn Byggðastofnunar þar sem fram kemur meðal annars: ,,Sveitarfélög eru og verða ævinlega hornsteinar í mótun og framkvæmd byggðastefnu á landsvísu og sveitarstjórnir minni byggðarlaga hafa sinnt ákveðnu byggðahlutverki. Það kann að vera ein af ástæðum mikillar andstöðu sveitarstjórna og íbúa í hinum minni byggðum gegn sameiningu sveitarfélaga að litið er svo á að þetta hlutverk muni hverfa eða minnka verulega við sameiningu í stærri sveitarfélög. Það væri því til mikilla bóta og leið til meiri sáttar um lágmarksíbúafjölda ef hlutverk sveitarfélaga til að verja hinar veikari byggðir væri skilgreint og sett fram jafnhliða ákvörðun um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga.
Tillaga U-listans borin undir atkvæði og var felld með 4 atkvæðum gegn 3 atkvæðum Siggeirs Stefánssonar, Sigríðar Friðnýjar Halldórsdóttur og Sólveigar Sveinbjörnsdóttur. Á móti: Þorsteinn Ægir Egilsson, Mirjam Blekkenhorst, Halldór R. Stefánsson og Árni Bragi Njálsson.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða bókun oddvita og felur sveitarstjóra að koma henni á framfæri við þá sem málið varðar, einnig felur sveitarstjórn sveitarstjóra að semja umsögn vegna málsins og leggja fyrir byggðaráð. Umrædd umsögn skal að umfjöllun byggðaráðs lokinni send á ráðuneyti og Alþingi.
Samþykkt með atkvæðum Þorsteins Ægis Egilssonar, Mirjam Blekkenhorst, Halldórs R. Stefánssonar og Árna Braga Njálssonar. Hjáseta: Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir og Sólveig Sveinbjörnsdóttir.
15. Breytingar á fundaplani sveitarstjórnar
Minnisblað um breytingu á dagssetningu næsta fundar sveitarstjórnar lagt fram.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykktir að næsta reglulega fundi sveitarstjórnar sem er skv. fundadagatali Langanesbyggðar fyrir árið 2019 ráðgerður 14. nóvember 2019, verði seinkað um viku, eða til 21. nóvember. Jafnframt er samþykkt að byggðaráðsfundur sem er skv. sömu áætlun ráðgerður 21. nóvember, verði færður fram til 14. nóvember.
Samþykkt samhljóða.
16. Frá U-lista: Húsnæði fyrir eldri borgara
Minnispunktar sveitarstjóra, dags. 27. ágúst 2019, frá fundi með hans með fulltrúum félags eldri borgara lagt fram. Umræddir punktar hafa áður fengið umfjöllun á 11. fundi byggðaráðs.
Til máls tóku: Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Elías Pétursson.
Sigríður Friðný lagði fram svohljóðandi tillögu: Sveitastjórn samþykkir að funda með Félagi eldri borgara um framtíðarsýn þeirra á húsnæðismálum fyrir októberlok. Skrifstofu falið að finna tíma og senda fundarboð.
Til máls tóku Mirjam Blekkenhorst, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Elías Pétursson, Siggeir Stefánsson, Mirjam Blekkenhorst.
Tillaga U-listans samþykkt samhljóða.
17. Frá U-lista: Bakkafjörður, staða verkefna og mála almennt á Bakkafirði
Til máls tóku Sigríður Friðný Halldórsdóttir, oddviti, Elías Pétursson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir. Elías Pétursson veitti andsvar.
18. Frá U-lista: Finnafjarðarverkefnið – staða mála gagnvart landeigendum o.fl.
Til máls tóku: Siggeir Stefánsson. Elías Pétursson veitti andsvar.
19. Frá U-lista: Íþróttahúsið Ver – staða og næstu skref
U-listinn lagði fram eftirtalin gögn: Ástandsskýrsla, Íþróttamiðstöð Langanesvegur 18, dags. í apríl-maí 2014, Vinnulisti U-listans vegna mögulegra framkvæmda, viðhalds og breytinga á Íþróttahúsinu Ver, Minnisblað verkfræðistofunnar Eflu, dags. 25. janúar 2015 um loftun og hitun í sundlaugarsal og viðhald burðarvirkis Íþróttamiðstöðvar Langanesbyggðar, Samantektir á frumkostnaðaráætlun, valkostir 1–5, frá verkfræðistofunni Eflu ásamt greinargerð, dags. 12. apríl 2015, Minnisblað verkfræðistofunnar Eflu, dags. 25. janúar 2015 um loftun og hitun í sundlaugarsal, Minnisblað verkfræðistofunnar Eflu, dags. 25. nóvember 2015 um rakaþéttingu í þaki ásamt teikningu, Minnisblað verkfræðistofunnar Eflu, dags. 6. júní 2016 um loftræstikerfi Sundlaugar Þórshafnar, Minnisblað verkfræðistofunnar Eflu, dags. 17. ágúst 2017um orkumál og varmadælur, Minnisblað verkfræðistofunnar Eflu, dags. 28. september 2018, um sundlaugarbúnað Sundlaugar Þórshafnar.
Til máls tók: Siggeir Stefánsson sem lagði fram svohljóðandi bókun U-listans: U-listinn ítrekar ósk sína um að settar verði í forgang lagfæringar á íþróttahúsinu Veri.
Til máls tóku: Elías Pétursson og Siggeir Stefánsson.
20. Skýrsla sveitarstjóra
Sveitarstjóri tók til máls og fór yfir það helsta sem í gangi hefur verið undanfarið og ekki hefur verið getið á fundinum.
Betri Bakkafjörður – sveitarstjóri hefur fundað tvisvar með verkefnisstjórn ásamt og að funda með einstökum aðilum sem að verkefninu koma.
Samfélagsmiðstöð Bakkafirði – Þann 8. október sl., í tengslum við fund verkefnisstjórnar, var samfélagsmiðstöðin að Hafnartanga á Bakkafirði opnuð. Nú er unnið í samráði sveitarstjóra, verkefnisstjórnar og rekstraraðila að frekari skipulagningu starfsemi hússins.
Ljósleiðarvæðing Langanesstrandar og Bakkafjarðar – Verkefninu að langmestu leiti lokið utan að einhver tengivinna er eftir.
Fjármálaráðstefna sveitarfélaga – Fulltrúar sveitarfélagsins sóttu fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem haldin var í Reykjavík dagana 3 og 4 október. Ráðstefnan var ákaflega fjölsótt og margt um áhugavert efni.
Sameining Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna – Sveitarstjóri hefur setið fjölmarga fundi stýrihóps vegna mögulegrar sameiningar Eyþings og atvinnuþróunarfélaganna í fjórðungnum. Vinnan hefur gengið nokkuð vel og eru allar horfur á að málið verði tekið fyrir á aðalfundi Eyþings um miðjan nóvember.
Vigtarhús á Þórshöfn – Unnið er að því að reisa nýtt vigtarhúss, verið er að steypa undirstöður og verður hafist handa við byggingu innan fárra daga. Starfsmenn þjónustumiðstöðvar munu vinna það verk með aðstoð verktaka hér í byggðarlaginu.
Arctic Circle – Sveitarstjóri sótti fyrir hönd sveitarfélagsins ráðstefnuna Arctic Circle sem haldin var í Reykjavík dagana 10. til 13. október. Óhætt er að segja að ráðstefnan hafi verið áhugaverð og gagnlegt innlegg í umræðuna um tækifæri jafnt sem ógnanir á norðurslóðum. Sveitarstjóri tók þátt í málstofu um Finnafjarðarverkefnið hvar hann flutti erindi er varðaði nauðsyn þess að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulíf og samfélag á svæðinu.
Varmadæluvæðing – Unnið hefur verið að nánari útfærslum varmadæluvæðingar og hönnun kerfa, einnig er verið að vinna að umsóknum um styrki til verkefnisins.
Vígsla leikskóla – Þann 7. október var nýr leikskóli vígður, fjöldi gesta mætti og var það samdóma álit allra að byggingin væri vönduð og væri í samræmi við markmið sveitarfélagsins er varða vandaða innviði og góða aðstöðu fyrir börnin okkar.
Fundargerðin upplesin og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:05.
Hægt er að horfa á fundinn hér