Fara í efni

103. fundur sveitarstjórnar

22.08.2019 17:00

 Fundur í sveitarstjórn

 103. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn í Þórsveri á Þórshöfn, fimmtudaginn 22. ágúst 2019. Fundur var settur kl. 17:00.

 Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst varaoddviti, Árni Bragi Njálsson, Jósteinn Hermundsson, Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Elías Pétursson sveitarstjóri og Jónas Egilsson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fundinn og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Því næst var gengið til dagskrár.

Dagskrá

  1.  Fundargerð 872. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 21. júní 2019
  2. Fundargerðir byggðaráðs, 7., 8., 9. og 10. funda
  3. Fundargerð 8.fundar skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 14. ágúst 2019
    1. Liður 1, Norðausturvegur um Brekknaheiði – samantekt á valkostum.
    2. Liður 3, Deiliskipulag miðsvæðis á Þórshöfn með áorðnum minniháttar breytingum
  4. Álagsprósentur fasteignaskatts, erindi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, dags. 26. júní 2019
  5. Smávirkjanir í Þingeyjarsýslum, frumúttekt valkosta dags. 28.12.2018
  6. Drög að flugstefnu fyrir Ísland, grænbók ríkisstjórnarinnar, júlí 2019
  7. Tilkynning um styrkvegafjárveitingu til Langanesbyggðar, dags. 15. ágúst 2019
  8. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga, sjá
  9. Beiðni um sjálfstæða rannsókn á framkvæmd og innheimtu Umhverfisstofnunar á þjónustugjöldum, erindi lögfræðingur Langanesbyggðar, dags. 14. ágúst 2019
  10. Skýrsla sveitarstjóra


Fundargerð

 

1.Fundargerð 872. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 21. júní 2019

Fundargerðin lögð fram.

2.Fundargerðir byggðaráðs, 7., 8., 9. og 10. funda

Fundagerðir byggðaráðs í sumarleyfi sveitarstjórnar lagðar fram.

3.Fundargerð 8.fundar skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 14. ágúst 2019

a)Liður 1, Norðausturvegur um Brekknaheiði – samantekt á valkostum.

 Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu nefndarinnar og mælir með því við Vegagerðina að veglína D verði nýtt.

 Samþykkt samhljóða.

 b)Liður 3, Deiliskipulag miðsvæðis á Þórshöfn með áorðnum minniháttar breytingum

 Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu nefndarinnar og felur sveitarstjóra að senda uppfærð skipulagsgögn til Skipulagsstofnunar ásamt samantekt um málsmeðferð sbr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Geri Skipulagsstofnun ekki athugasemd við samþykkta tillögu mun sveitarstjóri auglýsa gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin lögð fram og staðfest.

4.Álagsprósentur fasteignaskatts, erindi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, dags. 26. júní 2019

Erindi með bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 7. júní 2019 lagt fram.

5.Smávirkjanir í Þingeyjarsýslum, frumúttekt valkosta dags. 28.12.2018

Frumúttekt verkfræðistofunnar Eflu, dags. 28. desember 2018, vegna 30 virkjunarvalkosta í Þingeyjarsýslum lögð fram til kynningar.

6.Drög að flugstefnu fyrir Ísland, grænbók ríkisstjórnarinnar, júlí 2019

Lögð eru fyrir fundinn drög að flugstefnu, Grænbók, fyrir Ísland, sem er liður í samgönguáætlun, dags. í júlí 2019 og bókun stjórnar Eyþings dags. 13. ágúst sl., um sama mál.

Oddviti tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun: Sveitarstjórn Langanesbyggðar mótmælir þeim skamma fresti, yfir sumarmánuði, sem gefinn er til að koma með athugasemdir í samráðsgátt vegna Grænbókar um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi.

Þá gerir sveitarstjórn athugasemd við skipan starfshóps en svo virðist sem enginn utan höfuðborgarsvæðisins sitji í starfshópnum og að stór hluti hópsins hafi í raun hagsmuni sem sjá megi stað í efnistökum og niðurstöðu.

Hvorki sitja fulltrúar sveitarfélaga í starfshópnum né verður séð að í hópinn hafi verið skipað fólk sem gæta skuli að byggðarsjónarmiðum. Sveitarstjórn telur að eðlilegt hefði verið að Samband íslenskra sveitarfélaga skipaði fulltrúa í starfshópinn ásamt og að í honum hefðu verið fulltrúar landsbyggðar þar sem innanlandsflug er ein af forsendum blómlegrar byggðar í mörgum byggðum landsins.

Sveitarstjórn telur að samfélags- og byggðasjónarmið hafi alls ekki fengið verðuga athygli við vinnuna og lýsir yfir vonbrigðum með að ekki virðist vera vilji til að opna fleiri fluggáttir inn í landið en mikil áhersla lögð á að einungis verði einn fullbúinn millilandaflugvöllur.

Að síðust telur sveitarstjórn Langanesbyggðar það athygli- og gagnrýnisvert að í þeim kafla sem fjallar um innanlandsflug er hvergi komið inn á þá vinnu sem hefur verið í gangi varðandi innanlandsflug sem hluta almenningssamgöngukerfis landsins.

Hvergi verður séð að starfshópurinn hafi t.d. rætt hina svokölluðu skosku leið og mögulegar afleiðingar hennar fyrir íbúa og erfiða stöðu innanlandsflugs. Eitthvað sem er mjög sérstakt þegar horft er til þess að í samstarfslýsingu ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram að unnið skuli að því að gera innanlandsflug að hagkvæmum kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða bókun og felur sveitarstjóra að koma henni í samráðsgátt stjórnvalda. Einnig tekur sveitarstjórn undir bókun Eyþings dags. 13. ágúst 2019.

Samþykkt samhljóða.

7.Tilkynning um styrkvegafjárveitingu til Langanesbyggðar, dags. 15. ágúst 2019

Lagt fram bréf frá Vegagerðinni með tilkynningu um að Langanesbyggð hafi verið úthlutað 3,5 m.kr. í styrkvegafé 2019.

Til máls tóku: Siggeir Stefánsson, Mirjam Blekkenhorst, Elías Pétursson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn vísar málinu til umfjöllunar í atvinnu- og nýsköpunarnefnd, skipulags- og umhverfisnefnd og hverfisráði dreifbýlis. Skulu nefndirnar skila tillögu um ráðstöfun styrkfjárins hið allra fyrsta.

Samþykkt samhljóða.

8.Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga

Fram er lögð lokaútgáfa Grænbókar Stjórnarráðs Íslands um stefnu í málefnum sveitarfélaga.

Bókun um afgreiðslu: Málinu vísað til næsta reglulega fundar sveitarstjórnar.

Samþykkt samhljóða.

9.Beiðni um sjálfstæða rannsókn á framkvæmd og innheimtu Umhverfisstofnunar á þjónustugjöldum

Sveitarstjóri lagði fram og fór yfir erindi sveitarfélagsins dags. 14. ágúst til Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Erindið er unnið af lögfræðingi sveitarfélagsins í framhaldi af greiningu skrifstofu á kostnaði við gerð starfsleyfis vegna urðunarstaðar sveitarfélagsins á Bakkafirði. Erindið var einnig unnið með aðkomu ýmissa aðila, þ.m.t. Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Oddviti tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun: Sveitarstjórn Langanesbyggðar telur afar mikilvægt að sú gjaldtaka sem átti sér stað af hálfu Umhverfisstofnunar vegna útgáfu urðunarleyfis á Bakkafirði, sem gefið var út á árinu 2018, verði könnuð frekar og tekur því undir þau sjónarmið sem fram koma í bréfi lögmanns sveitarfélagsins til umhverfis- og auðlindaráðherra um að sérstök rannsókn verði sett af stað af hálfu ráðherra varðandi lagaheimildir stofnunarinnar til gjaldtöku af því tagi sem átti sér stað umrætt sinn og framkvæmd hennar. Það urðunarleyfi sem um ræðir var í raun endurnýjun á eldra leyfi vegna urðunarstaðarins á Bakkafirði og því lágu allar upplýsingar fyrir um svæðið hjá stofnununni við vinnslu og útgáfu leyfisins.

Það er því vandséð að það hafi þurft á fjórða hundrað klukkustundir af hálfu starfsmanna stofnunarinnar til að vinna umsókn um leyfið og gefa út staðlað tveggja síðna leyfi og innheimta fyrir það vel á fjórðu milljón króna. Þess er vænst að rannsókn ráðherra á framkvæmd stofnunarinnar varðandi gjaldtökur verði hraðað svo enginn vafi leiki á um heimildir stofnunarinnar til gjaldtöku af þessum toga og enn fremur hvort framkvæmd gjaldtöku stofnunarinnar verði samræmd gildandi lögum.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða bókun og felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir.

Samþykkt samhljóða.

10.Skýrsla sveitarstjóra

Ljósleiðaravæðing Langanesstrandar og Bakkafjarðar er hafin og gengur samkvæmt áætlun. Einnig hefur verið sent erindi á verkefnisstjórn Betri Bakkafjarðar varðandi styrk til bætingar því kerfi sem upp er verið að setja.

Framkvæmdum við leikskóla er að mestu lokið og almenn ánægja með bygginguna sem og lóð. Unnið er að kostnaðaruppgjöri og verður það lagt fyrir þegar það er tilbúið.

Malbikun stíga er lokið ásamt malbikun aðkomu að leikskóla.

Unnið er að klæðningu hússins að Langanesvegi 2, verkið hefur gengið hægar en væntingar stóðu til. Ástæður þess má að mestu rekja til vöntunar á ýmsu efni sem smíða þurfti í húsið svo sem hurðum o.fl. Hafnar eru framkvæmdir við lóðarfrágang. Miðað er við að verklok klæðningar verði um komandi mánaðarmót og að lóðarframkvæmdum ljúki fljótlega í kjölfarið. Áætlanir ÁTVR miðast við að innivinna hefjist fljótlega upp úr mánaðarmótum.

Sameiginlegur fundur sveitarfélaganna á Eyþingssvæðinu með Ríkisstjórn Íslands var haldinn að Mývatni í ágúst. Megináhersluefni Langanesbyggðar í því samtali voru raforkumál og innanlandsflug sem partur af samþættum almenningssamgöngum.

Sveitarstjóri átti fund með fulltrúum EFLU verkfræðistofu vegna úrgangsmála og mögulegra lausna sem gætu komið að gagni við að loka urðunarstað sveitarfélagsins á Bakkafirði. Einnig er beðið frétta af sameiginlegri vinnu sveitarfélaganna á Eyþings-svæðinu enda málið stórt og vert að skoða lausnir sem sveitarfélögin gætu sammælst um með hagkvæmni og skynsemi að leiðarljósi.

Að síðustu má geta þess að sveitarstjóri átti ásamt framkvæmdastjóra Ísfélagsins fund með þingmönnum kjördæmisins vegna áforma stjórnvalda þess efnis að takmarka eða banna notkun svartolíu. Einnig var á fundinum farið yfir vinnu félagsins við að nýta endurunna olíu með umhverfisvernd að leiðarljósi. Þar sem verksmiðjan á Þórshöfn hefur ekki aðgang að rafmagni þá er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða enda getur hugsanlegt bann valdið miklu um samkeppnishæfi sveitarfélagsins og félagsins.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:28.

 

Hægt er að horfa á fundinn hér

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?