Fara í efni

102. fundur sveitarstjórnar

27.06.2019 17:00

 Fundur í sveitarstjórn

  

102. fundur, aukafundur, sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn í Þórsveri á Þórshöfn, fimmtudaginn 27. júní 2019. Fundur var settur kl. 17:00.                                            

Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst varaoddviti, Þórarinn Jakob Þórisson, Jósteinn Hermundsson,  Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Sigríður Ósk Indriðadóttir, Elías Pétursson sveitarstjóri og Jónas Egilsson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fundinn og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Oddviti óskaði eftir því að erindi frá sýslumanni, beiðni um umsögn sveitarstjórnar við tækfærisleyfi vegna bryggjudaga yrði bætt við dagskrána sem nýjum 15. lið.

Samþykkt samhljóða, númer annarra liða breytist til samræmis.

Því næst var gengið til dagskrár.

 

Dagskrá

 1.      Fundargerð 871. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. maí 2019

2.      Fundargerð 413. fundar Hafnarsambands sveitarfélaga, dags. 15. maí 2019

3.      Fundargerð 14. fundar Siglingaráðs dags. 7. mars 2019

4.      Fundagerðir 205., 206. 207. og 208. funda Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra

5.      Fundargerð Almannavarnarnefndar Þingeyinga dags. 24. maí  2019

6.      Aðalfundargerð Menningarmiðstöðvar Þingeyinga, 15. maí 2019

7.      Fundargerð 6. fundar byggðaráðs dags. 23. maí 2019

8.      Grænbók – umræðuskjal um málefni sveitarfélaga

9.      Ályktun stjórnar Samtaka sjávarútsvegssveitarfélaga vegna heildaráhrifa loðnubrests

10.  Ársreikningur Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra 2018

11.  Safnahúsið á Húsavík-Menningarmiðstöð, ársreikningar 2018

12.  Erindi frá Unglingaráði HSÞ, dags. 20. maí 2019

13.  Erindi frá Almannavarnarnefnd Þingeyinga, dags. 24. maí 2019

14.  Bryggjuhátíð á Þórshöfn 2019, beiðni um styrk

15.  Beiðni um umsögn um tækifærisleyfi vegna bryggjudaga, 18. – 20. júlí nk.

16.  Opnun tilboða í 2. áfanga uppbyggingu og rekstur ljósleiðarakerfis, dags. 31. maí 2019.

17.  Lækkun hámarkshraða á þjóðvegi út á Langanes

18.  Hluthafasamkomulag milli Langnesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps og Finnafjarðar GP ehf.

19.  Kosning þriggja manna í byggðaráð til eins árs og jafnmargra til vara.

20.  Kosning í nefndir:

a.       Atvinnu- og nýsköpunarnefnd í stað Björns Guðmundar Björnssonar

b.      Velferðar- og fræðslunefnd í stað Oddnýjar S. Kristjánsdóttur

c.       Héraðsnefnd Þingeyinga í stað Björns Guðmundar Björnssonar

d.      Stýrihópur um heilsueflandi samfélag (HSAM) í stað Ásdísar H. Viðarsdóttur

21.  Sumarleyfi sveitarstjórnar

22.  Skýrsla sveitarstjóra

 

 Fundargerð

1.      Fundargerð 871. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. maí 2019

Fundargerðin lögð fram.

2.      Fundargerð 413. fundar Hafnarsambands sveitarfélaga, dags. 15. maí 2019

Fundargerðin lögð fram.

3.      Fundargerð 14. fundar Siglingaráðs dags. 7. mars 2019

Fundargerðin lögð fram.

4.      Fundagerðir 205., 206., 207. og 208. funda Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra

Fundargerðirnar lagðar fram.

5.      Fundargerð Almannavarnarnefndar Þingeyinga dags. 24. maí  2019

Fundargerðin lögð fram.

6.      Aðalfundargerð Menningarmiðstöðvar Þingeyinga, 15. maí 2019

Fundargerðin lögð fram.

7.      Fundargerð 6. fundar byggðaráðs dags. 23. maí 2019

Fundargerðin staðfest.

8.      Grænbók – umræðuskjal um málefni sveitarfélaga

Grænbók – Stefna um málefni sveitarfélaga, dags. apríl 2019, lögð fram. Einnig eru lagðir fram minnispunktar sveitarstjóra dags. 20. maí sl. um sama mál.

Oddviti kvaddi sér hljóðs og las upp drög að ályktun sveitarstjórnar vegna málsins.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða ályktun og felur sveitarstjóra að koma henni á framfæri við þá sem um málið fjalla.

Samþykkt samhljóða.

9.      Ályktun stjórnar Samtaka sjávarútsvegssveitarfélaga vegna heildaráhrifa loðnubrests

Ályktun 52. stjórnarfundar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga frá 15. maí sl. lögð fram.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar tekur undir ályktun stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir fyrir hönd Langanesbyggðar.

Samþykkt samhljóða.

10.  Ársreikningur Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra 2018

Ársreikningarnir lagðir fram.

11.  Safnahúsið á Húsavík-Menningarmiðstöð, ársreikningar 2018

Ársreikningarnir lagðir fram.

12.  Erindi frá Unglingaráði HSÞ, dags. 20. maí 2019

Fram er lagt erindi Unglingaráðs HSÞ sem óskar eftir fjárhagslegum stuðningi við þátttöku sambandsins í Unglingalandsmóti UMFÍ 2019.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn þakkar erindið, en þar sem sveitarfélagið styrkir sambandið nú þegar, sér sveitarstjórn sér ekki fært að verða við þessari beiðni að þessu sinni.

Samþykkt samhljóða.

13.  Erindi frá Almannavarnarnefnd Þingeyinga, dags. 24. maí 2019

Fram er lagt bréf Almannavarnarnefndar Þingeyinga, dags. 24. maí 2019 til stjórnar RÚV. Einnig er lagt fram svarbréf útvarpsstjóra, dags. 6. júní sl.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn tekur undir áhyggjur almannvarnarnefndar, en fagnar um leið fyrirhuguðum aðgerðum RÚV til úrbóta. Sveitarstjórn ítrekar þá skoðun sína að allir landsmenn eigi að búa við samskonar öryggi og þjónustu hjá opinberum stofnunum.

Samþykkt samhljóða.

14.  Bryggjuhátíð á Þórshöfn 2019, beiðni um styrk

Þorsteinn Ægir lýsti sig vanhæfa við afgreiðslu þessa liðar og næsta. Samþykkt, vék hann af fundi og tók varaoddviti við stjórn fundarins.

Sigríður Friðný Halldórsdóttir lýsti sig vanhæfa við afgreiðslu þessa liðar og næsta. Samþykkt og vék hún af fundi.

Lagt er fram erindi Bryggjudaganefndar vegna bæjarhátíðinnar Bryggjudaga sem haldin verður 18. – 21. júlí nk. Í erindinu óskar nefndin eftir styrk frá sveitarfélaginu vegna undirbúnings og framkvæmdar hátíðarinnar.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn þakkar erindið og samþykkir kr. 500.000 styrk til hátíðarinnar, skv. fjárhagsáætlun 2019. Auk þess sem samþykkt er að styrkja hátíðina með þeim hætti að hjálpa til með mannskap, búnað og tæki við uppsetningu og frágang. Sveitarstjóra falið að ræða nánar við nefndina um framkvæmd styrkveitingarinnar.

Samþykkt samhljóða.

15.  Beiðni um umsögn um tækifærisleyfi vegna bryggjudaga, 18. – 20. júlí nk.

Beiðni frá sýslumanni um umsögn sveitarstjórnar vegna umsóknar um tækifærisleyfi á Bryggjudögum lagt fram.

Til máls tók Þórarinn J. Þórisson. Elías Pétursson veitti andsvar.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða umsókn fyrir sitt leyti.

Samþykkt samhljóða.

Sigríður Friðný og Þorsteinn Ægir tóku sæti að nýju á fundinum og tók oddviti við stjórn fundarins að nýju.

16.  Opnun tilboða í 2. áfanga uppbyggingar og rekstur ljósleiðarakerfis, dags. 31. maí 2019.

Lögð fram fundargerð frá opnum tilboða 31. maí sl. og minnisblað frá Eflu dags. 13. júní sl. Enn fremur eru lögð fram drög að verksamningi um uppbyggingu og rekstur ljósleiðarakerfisins við Tengir ehf. Um er að ræða ljósleiðaravæðingu Langanesstrandar og Bakkafjarðar.

Til máls tóku: Elías Pétursson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir. Elías Pétursson veitti andsvar.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að undirrita framlagðan verksamning.

Samþykkt samhljóða.

 17.  Lækkun hámarkshraða á þjóðvegi út á Langanes

Til máls tók Mirjam Blekkenhorst og bar upp eftirfarandi tillögu: Lagt er til að sveitarfélagið óski eftir því við Vegagerðina að hámarkshraði verði lækkaður úr 80 km á klst. í 60 km. á klst. á vegi 689 um Langanes frá enda slitlags við flugvallarafleggjara í Skálar. Einnig er gerð tillaga um að sveitarfélagið setji 60 km. hámarkshraða á veginn frá afleggjara að Skálum út á Font.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða tillögu og felur sveitarstjórna að koma ósk og ákvörðun á framfæri við Vegagerðina.

Samþykkt samhljóða.

18.  Hluthafasamkomulag milli Langnesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps og Finnafjarðar GP ehf.

Fram eru lögð drög að hlutahafasamkomulagi milli Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps vegna félaganna Finnafjarðarhöfn slhf. (FFPA) annars vegar og hins vegar Finnafjarðar slhf. (FF) lögð fram.

Endanleg samningsdrög voru send kjörnum fulltrúum um miðjan mánuðinn, einnig var haldinn vinnufundur í sveitarstjórn þar sem samningurinn var samlesinn af kjörnum fulltrúum, lögfræðingi sveitarfélagsins og sveitarstjóra og öll atriði skýrð.

Til máls tók: Elías Pétursson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlögð drög fyrir sitt leyti og felur sveitarstjóra að undirrita framlögð hluthafasamkomulög fyrir hönd sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

19.  Kosning þriggja manna í byggðaráð til eins árs og jafnmargra til vara.

Til máls tók Siggeir Stefánsson.

Tillaga var lögð fram um eftirtalda í byggðaráð til eins árs:

Þorstein Ægi Egilsson, Mirjam Blekkenhorst og Siggeir Stefánsson. Til vara: Árni Bragi Njálsson, Halldór Rúnar Stefánsson og Sigríður Friðný Halldórsdóttir. Einnig er samþykkt að Þorsteinn Ægir verði formaður.

Samþykkt samhljóða.

20.  Kosning í nefndir

Til máls tók Siggeir Stefánsson.

Sigríður Friðný Halldórsdóttir vék af fundi vegna útkalls.

Lögð var fram tillaga um eftirtalda einstaklinga í nefndir og ráð sveitarfélagsins út kjörtímabilið:

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd í stað Björns Guðmundar Björnssonar kemur Guðmundur Björnsson og Þorbjörg Þorfinnsdóttir   tekur sæti sem varamaður. Sem varamaður í stað Reynis Atla Jónssonar kemur Jóhannes Ingi Árnason.

Samþykkt samhljóða.

Velferðar- og fræðslunefnd í stað Oddnýjar S. Kristjánsdóttur, kemur Aneta Potrykus og verður hún jafnframt varaformaður.

Samþykkt samhljóða.

Héraðsnefnd Þingeyinga í stað Björns Guðmundar Björnssonar kemur Siggeir Stefánsson.

Samþykkt samhljóða.

Stýrihópur um heilsueflandi samfélag (HSAM) í stað Ásdísar H. Viðarsdóttur kemur Þorsteinn Ægir Egilsson.

Samþykkt samhljóða.

21.  Sumarleyfi sveitarstjórnar

Sveitarstjórn fer að þessum fundi loknum í sumarleyfi til 22. ágúst nk., skv. starfsáætlun sem samþykkt var á á 93. fundi sveitarstjórnar 13. desember 2018. Á meðan sveitarstjórn er í sumarleyfi, fer byggðaráð, samkvæmt 5. tl. 31. gr. samþykkta um stjórn Langanesbyggðar, með sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella.

22.  Skýrsla sveitarstjóra

Sveitarstjóri tók til máls og fór yfir helstu verkefni sem í gangi eru og hafa verið.

Leikskóli – Framkvæmdir innanhúss eru á lokametrunum og hefur forúttekt farið fram. Framkvæmdir við lóð eru komnar vel á veg og er reiknað með að þeim ljúki, að frátalinni malbikun aðkomuleiða, um miðjan komandi mánuð.

Langanesvegur 2 – Unnið er að klæðningu hússins og gengur það ver nokkurn vegin í samræmi við væntingar. Framundan er að hefja vinnu við lóðarfrágang og tengd verkefni.

Sendiherra Póllands sótti Langanesbyggð heim þann 14. maí sl., átti sveitarstjóri og formaður fræðslu- og velferðarnefndar fund með honum ásamt og að hann heimsótti grunnskólann. Fram kom í máli sendiherrans að honum þætti mikið til koma um aðstöðu sem og starfsemi skólans.

Brothættar byggðir – Áfram hefur verið unnið að framgangi þess verkefnis, ráðinn hefur verið verkefnisstjóri að verkefninu, hann er Ólafur Áki Ragnarsson fyrrum sveitarstjóri á Vopnafirði. Undanfarnar vikur hefur verkefnisstjóri unnið í fjarvinnu að undirbúningi og skilgreiningu verkefna og mun í næstu viku hefja störf á skrifstofu sveitarfélagsins á Bakkafirði. Mun hann þar með flytja á Bakkafjörð. Sveitarstjóri hefur einnig fundað með ýmsum aðilum úr stjórnkerfi og Byggðastofnun með það að markmiði að þrýsta á um efndir þeirra loforða sem gefin voru með samþykkt ríkisstjórnarinnar á haustmánuðum 2018.

Brotajárn í Langanesbyggð – Unnið er að skipulagningu brotajárnssöfnunar í sveitarfélaginu og standa væntingar til þess að hún fari fram fljótlega.

Skógrækt – Hafinn er undirbúningur að skógrækt bæði á Þórshöfn og Bakkafirði, um er m.a. að ræða skjólbelti umhverfis urðunarstaðinn á Bakkafirði og ræktun í brekkunni neðan við fyrrum urðunarstað á Þórshöfn. Einnig hafa starfsmenn þjónustumiðstöðvar unnið að söfnun græðlinga.

Eyþing -  Sveitarstjóri hefur sótt nokkra stjórnarfundi og fulltrúaráðsfundi, ber þar hæst fundur sem haldinn var á Grenivík þann 20. maí þar sem mættu fulltrúar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og fóru yfir sjónarmið sín varðandi svokallaða Grænbók um sveitarstjórnarstigið. Þar er um að ræða málefni sem ég hvet kjörna fulltrúa og okkur öll til að setja okkur inn í og hugsa.

Nýsköpun í stjórnsýslu – 3. og 4. júní sótti sveitarstjóri nýsköpunardaga hins opinbera, um var að ræða fjölbreytta dagskrá þar sem megináherslan var lögð á rafræna stjórnsýslu. Einnig sótti sveitarstjóri fund Sambands Íslenskra sveitarfélaga hvar farið var yfir þau tækifæri sem í fjölmörgum tækninýjungum liggja. Ljóst er í huga sveitarstjóra að mikil þörf er á að sveitarfélögin hugi betur að þróun rafrænna lausna og að þar verði sem mest um samræmdar aðgerðir að ræða. Sveitarfélögin eru jú öll að vinna í sama lagaumhverfi og því skynsamlegt að vinna með sem samræmdustum hætti að tæknilausnum.

Fundur með Vegagerðinni – Þann 14. júní sl. fundaði sveitarstjóri með forsvarsfólki Vegagerðarinnar á Akureyri, efni fundar voru framkvæmdir sem nú eru að hefjast á Langanesströnd, undirbúningur framkvæmda á Brekknaheiði og fyrirhugaðar framkvæmdir á Fjarðar- og Langanesvegi á Þórshöfn. Óhætt er að segja að fundurinn hafi verið góður og gagnlegur. Ákveðið var að Vegagerðin gerði tillögu til sveitarfélagsins um legu vegarins yfir Brekknaheiði ásamt og að ákveðið var að sveitarfélagið og Vegagerðin færu nú í sumar sameiginlega í að meta ástand lagna hér á Þórshöfn. Vegagerðin mun í sumar einnig gera rannsókn á gæðum burðalags (fyllingarefnis) í veginum í gegn um þorpið.

Finnafjarðarverkefnið – Lokið er stofnun þeirra fyrirtækja sem sveitarfélögin eiga og er stofnun þróunarfélags á lokametrunum. Allt er þetta mjög ánægjulegt þar sem nú er komin, ef svo má segja, kennitala á verkefnið og framundan vinna við að raungera þá hugmynd sem upp kom fyrir löngu. Mikinn tíma hefur tekið að ljúka öllum þeim samningum og skjalagerð sem tengjast þessum áfanga, ljóst er þó að sá tími hefur leitt til mjög góðrar niðurstöðu fyrir sveitarfélögin.

Hafnargarður á Bakkafirði – Rétt er að geta þess hér að sá áfangi náðist við samþykkt samgönguáætlunar að endurbygging hafnargarðs á Bakkafirði er komin inn á samgönguáætlun.

 Að lokum langar, mig með leyfi oddvita, að þakka persónulega sveitarstjórn og sveitungum mínum auðsýnda samúð við fráfall móður minnar Ásdísar H. Lúðvíksdóttur frá Skálum. Sá samhugur sem við fjölskyldan fundum fyrir héðan af svæðinu var okkur mikils virði á erfiðum tímum. Fyrir það þökkum við öll.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:50

 

Hægt er að horfa á fundinn hér

 

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?