Fara í efni

7. fundur skipulags- og umhverfisnefndar

30.07.2019 15:00

7. fundur skipulags- og umhverfisnefndar Langanesbyggðar haldinn að Fjarðarvegi 3 Þórshöfn þriðjudaginn 30. júlí 2019. Fundur var settur kl. 15:00.

Mætt voru: Jósteinn Hermundsson, Þorsteinn Vilberg Þórisson, Karl Ásberg Steinsson, Aðalbjörn Arnarsson og Elías Pétursson sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

Formaður setti fund og stjórnaði.

 

Fundargerð

1.         Stofnun lögbýlis að Hólum

Fram eru lögð ósk landeigenda um endurskoðun fyrri umsagnar nefndarinnar varðandi stofnun lögbýlis á jörðinni Hólum. Einnig er lögð fram yfirlýsing Þróunarfélags Finnafjarðar (FFPD) dags. 23. júlí sl. og erindi Skógræktarinnar dags. 9. apríl sl.

Bókun um afgreiðslu: Á grunni framlagðra gagna gerir skipulags- og umhverfisnefnd fyrir sitt leiti ekki athugasemdir við stofnun lögbýlis á jörðinni Hólum, landnúmer 220289.

Samþykkt samhljóða.

2.         Erindi Björgunarsveitarinnar Hafliða, ósk um umsögn vegna mögulegrar stækkunar Hafliðabúðar

Fram er lagt erindi Björgunarsveitarinnar Hafliða er varðar ósk um umsögn nefndarinnar vegna mögulegrar stækkunar Hafliðabúðar. Erindið var áður lagt fram á 3. fundi nefndarinnar þar sem ákveðið var að leita álits skipulagsráðgjafa sveitarfélagsins. Einnig er fram lagt minnisblað skipulagsráðgjafa dags. 2. júlí sl.

Í minnisblaði sínu leggst skipulagsráðgjafi eindregið gegn þeirri hugmynd að stækka Hafliðabúð í átt að strandsvæði hafnarinnar enda skerði stækkunin möguleika sveitarfélagsins sem m.a. eru settir fram í gildandi aðalskipulagi þar sem gert er ráð fyrir útivistarstíg meðfram strandsvæðinu. Æskilegt væri, að mati skipulagsráðgjafa, að öll uppbygging á þessu svæði verði til að upphefja ásýnd og bæjarmynd Þórshafnar. Samanber t.d. áður fram settar hugmyndir sveitarfélagsins um uppbyggingu svæðisins með byggingu húsa sem í útliti vísa til bygginga frá fyrri tímum í sögu byggðakjarnans.

Einnig kemur fram í minnisblaði skipulagsráðgjafa að ef  ákveðið verði að leyfa þessa byggingu þá sé framkvæmdin á svæði utan deiliskipulags sem er flokkað á uppdrætti Aðalskipulags Langanesbyggðar 2007 – 2027 sem miðsvæði. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. Skipulagslaga skal skipulagsnefnd framkvæma grenndarkynningu fyrir nágrönnum sem geta átt hagsmuna að gæta.

Bókun um afgreiðslu: Skipulags- og umhverfisnefnd leggst gegn því að byggt verði við Hafliðabúð í átt að strandsvæði hafnarinnar. Nefndin leggur einnig til við sveitarstjórn að stefna verði mörkuð varðandi það svæði sem um ræðir ásamt og að viðræður verði teknar upp við björgunarsveitina um aðstöðu hennar til framtíðar.

Samþykkt samhljóða.

3.         Deiliskipulag við Bakkaveg og Vesturveg

Tillaga að deiliskipulagi miðsvæðis við Bakkaveg og Vesturveg, Þórshöfn, var auglýst frá 6. febrúar 2019 með athugasemdarfresti til 27. mars sl. í samræmi við 41.gr.skipulagslaga nr. 123/2010. Umsagnir og athugasemdir bárust frá fjórum aðilum. Fram er lagt skjal með úrdrætti úr innsendum athugasemdum við deiliskipulagið ásamt svörum nefndarinnar.

Bókun um afgreiðslu: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir óverulegar breytingu á tillögunni til samræmis við svör nefndarinnar við innkomnum athugasemdum og vísar tillögunni þannig breyttri til endanlegrar afgreiðslu sveitarstjórnar.

4.         Önnur mál

Engin.

Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:21.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?