Fara í efni

24. fundur skipulags- og umhverfisnefndar

22.09.2020 16:00

24. fundur skipulags- og umhverfisnefndar Langanesbyggðar haldinn að Fjarðarvegi 3 Þórshöfn þriðjudaginn 22. september 2020. Fundur var settur kl. 16:00. 

Mættir voru: Jósteinn Hermundsson, Hallsteinn Stefánsson, Karl Ásberg Steinsson, Almar Marinósson og Jónas Egilsson sveitarstjóri sem jafnframt ritaði fundargerð.

Formaður setti fund og stjórnaði. Hann spurði hvort athugasemd væri gerð væri við fundarboð og viðbótarlið við dagskrá. Svo var ekki og var gengið til dagskrár.

Fundargerð

1.            Framkvæmdir og fjárhagsáætlun 2021

Lagt fram minnisblað sveitarstjóra vegna fjárhagsáætlunargerðar 2021. Óskað er eftir tillögum nefndarinnar vegna verkefna á vegum nefndarinnar á næsta ári.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin samþykkir að ljúka við gerð deiliskipulags fyrir Þórshöfn á næsta ári og að hafinn verði undirbúningur við gerð deiliskipulags fyrir Bakkafjörð. Einnig er samþykkt að stefna að hnitsetningu jarða sveitarfélagsins á næsta ári. Þá er enn fremur samþykkt að leita samstarfs við landeigendur annarra jarða í Langanesbyggð um hnitsetningu þeirra jarða. Nefndin telur að ljúka verði áætlunum um endurskoðun í úrgangsmálum og að hafinn verði undirbúningur að nauðsynlegum aðgerðum í frárennslismálum.

Samþykkt samhljóða.

2.            Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra 2020-2024

Lokaskjal sóknaráætlunar fyrir Norðurlands eystra 2020-2024 lögð fram.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin tekur undir almenn markmið sem sett eru fram í umhverfismálakafla áætlunarinnar. Hún bendir hins vegar á að taka þurfi tillit til landfræðilegrar stærðar sumra sveitarfélaga og hlutfallslega mikils kostnaðar við að hrinda markmiðunum í framkvæmd. Nefndin telur að bæði verði að sýna sumum landstórum og hlutfallslega fámennum sveitarfélögum meira umburðarlyndi þegar kemur að framkvæmd áætlunarinnar og veita þeim meira fjárhagslegt svigrúm til aðgerða. Í samræmi við þá niðurstöðu óskar nefndir eftir aðkomu SSNE við gerð umsóknar vegna nauðsynlegra aðgerða í frárennslismálum sveitarfélagsins. Langanesbyggð hefur, í samvinnu við Vopnafjarðarhrepp og Svalbarðshrepp, þegar hafið undirbúning að gerð svæðisáætlunar í úrgangsmálum.

Samþykkt samhljóða.

3.            Umsókn um bílskúr við Fjarðarveg 39 á Þórshöfn

Lögð fram umsókn frá Tryggva Steini Sigfússyni um bílskúr við Fjarðarveg 39 á Þórshöfn. Umsókninni fylgja teikningar frá Verkís, dags. 28. ágúst 2020. Einnig fylgir með umsókninni skriflegt samþykki eigenda Fjarðarvegs 37 og 41. Þá er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins, dags. 20. september 2020, varðandi umsókn um bílgeymslu og sambyggða garðgeymslu við Fjarðarveg 39. Einnig er lagður fram uppdráttur með lausum lóðum á Þórshöfn.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin samþykkir framlagða teikningu og byggingarlýsingu.

Samþykkt með þremur atkvæðum. Jósteinn situr hjá. 

4.            Önnur mál

Engin.
 

Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:27.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?