Fara í efni

22. fundur skipulags- og umhverfisnefndar

06.08.2020 12:00

22. fundur skipulags- og umhverfisnefndar Langanesbyggðar haldinn að Fjarðarvegi 3 Þórshöfn fimmtudaginn 6. ágúst 2020. Fundur var settur kl. 12:00.

Mættir voru: Jósteinn Hermundsson,  Hallsteinn Stefánsson, Karl Ásberg Steinsson, Almar Marinósson og Jónas Egilsson sveitarstjóri sem jafnframt ritaði fundargerð. Auk þess var Anna Kristín Guðmundsdóttir skipulagsfræðingur hjá Teiknistofu Norðurlands í fjarfundarsambandi undir 1. lið fundarins.

Formaður setti fund og stjórnaði. Hann spurði hvort athugasemd væri gerð væri við fundarboð og viðbótarlið við dagskrá. Svo var ekki og var gengið til dagskrár.

Fundargerð

1.            Hafnartangi á Bakkafirði – áningarstaður við ysta haf, tillaga að deiliskipulagi

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir Hafnartangan á Bakkafirði, ásamt umsögnum Vegagerðarinnar, dags. 16. júlí 2020 og Minjastofnunar dags. 22. júlí 2020 og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, dags. 6. júlí 2020.

Bókun um afgreiðslu: Skipulags- og umhverfisnefnd hefur yfirfarið skipulagsgögnin og felur skipulagsráðgjafa að lagfæra gögnin í samræmi við ábendingar nefndarinnar. Í framhaldi leggur nefndin til að drögin verði gerð aðgengileg á heimasíðu og skrifstofum sveitarfélagsins þar sem íbúum og hagsmunaaðilum skal gefið tækifæri til að senda inn ábendingar um drögin í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt umsögn Minjastofnunar Íslands sem barst um skipulagslýsingu f. skipulagið þarf að gera fornleifaskráningu á svæðinu í samræmi við 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012. Skipulags- og umhverfisnefnd felur sveitarstjóra að gera samning við fornleifafræðing um vettvangskönnun. Drögin eru með fyrirvara um niðurstöður fornleifaskráningarinnar.

Samþykkt samhljóða.

2.            Staðsetning ærslabelgs á Þórshöfn og frísbígolfvalla á Bakkafirði og Þórshöfn

Ungmennafélagi Langanesbyggðar hefur borist gjöf ærslabelgur og óskar eftir samstarfi við sveitarfélagið um staðsetningu og rekstur á ærslabelgnum. Einnig eru lagðar fram tillögur að staðsetningu frisbígolfvalla á Bakkafirði og Þórshöfn.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin leggur til 3-4 mögulegar staðsetningar fyrir ærslabelg á Þórshöfn og felur sveitarstjóra að kynna þær fyrir íbúum og leita umsagnar og athugasemdar þeirra fyrir 21. ágúst nk.

Nefndin telur að staðsetning frisbígoflvallar á Bakkafirði skv. teikningum vera góða, en vill skoða nánar staðsetningu vallar á Þórshöfn.

Samþykkt samhljóða.

3.            Ingimarsstaðir – Fyrirspurn um fráveitumál dags. 20.júlí 2020

Lögð fram fyrirspurn frá Helga Mar Árnasyni vegna fráveitumála Ingimarsstaða eða Langanesvegar 39 á Þórshöfn. Skv. aðalskipulagi er húsið í þéttbýli og því ber sveitarfélaginu að leysa úr fráveitumálum þess.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að finna lausn á fráveitumálum Langanesvegar 39 (Ingimarsstaða) með sem hagkvæmustum hætti fyrir sveitarfélagið.

Samþykkt samhljóða.

4.            Sunnuvegur 6 – breytingar á útliti bílskúrs dags. 28. júlí 2020

Fram er lögð beiðni frá Aðalbjörgu Jóhannesdóttur og Halldóri Jónssyni um leyfi til að setja nýja glugga í miðjan vesturstafn bílskúrs. Hæð glugga 104 cm og breidd 130 cm.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin gerir ekki aths. við fyrirhugaðan glugga að því gefnu að húseigendur að Sunnuvegi 8 geri það ekki.

Samþykkt.

5.            Erindi frá Sigurði Sigurðssyni dýralækni dags. 1. júlí 2020. 

Erindi frá Sigurði Sigurðssyni dýralækni, Nokkur orð um miltisbruna á Íslandi og miltisbrand á Jaðri skammt fyrir sunnan Þórshöfn,  dagsett í júlí 2020 lagt fram til kynningar.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin leggur til að svæðið verði girt af að nýju.

Samþykkt samhljóða.

6.            Önnur mál

Engin.

Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13:17.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?