Fara í efni

5. fundur byggðaráðs Langanesbyggðar

17.11.2022 12:00

Fundur í byggðaráði

5. fundur byggðaráðs Langanesbyggðar, haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, fimmtudaginn 17. nóvember 2022. Fundur var settur kl. 12:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson formaður, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Þorsteinn Ægir Egilsson, Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Undir lið 12. Verður lögmaður sveitarfélagsins Lúðvík Bergvinsson í fjarfundarsambandi.

Formaður setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki og því næst gengið til dagskrár.

Fundargerð

1. Fundargerð 2. fundar hafnarnefndar frá 07.10.2022
Fundargerðin lögð fram

       Liður 7a: Varðandi lið 7a þá er ljóst orðið að endurskoða þarf skipulag hafnarinnar og Eyrarvegur 1 er innan þess.

Bókun um afgreiðslu: Byggðaráð óskar eftir áliti atvinnu- og nýsköpunarnefndar á framtíð Eyrarvegar 1.

      Liður 2: Vegur út á Langanes

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að leita ráðlegginga staðkunnugra og Vegagerðarinnar varðandi úrbætur á vegi út á Langanes.

2. Fundargerð 2. fundar Jarðasjóðs frá 21.10.2022
Fundargerðin lögð fram

3. Fundargerð 3. fundar Jarðasjóðs frá 02.11.2022
      Liður 2: Hugmynd um vindorkugarða á jörðum í umsjá Jarðasjóðs og kynningu EFLU.

Eftirfarandi bókun var gerð á fundi stjórnar Jarðasjóðs: Nefndin leggur áherslu á að ekki verði teknar neinar ákvarðanir í sveitarstjórn um vindorkuver á jörðum í umsjá sjóðsins án samþykkis stjórnar Jarðasjóðs samkvæmt samþykktum sjóðsins.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn hefur ekki tekið neinar ákvarðanir um byggingu vindorkugarða á jörðum sveitarfélagsins. Alveg ljóst er og rétt að ítreka að samkvæmt samþykktum sveitafélagsins eru allar leigu- og nýtingar ákvarðanir jarða sem heyra undir jarðarsjóð teknar af stjórn Jarðarsjóðs.

Samþykkt samhljóða

     Liður 3: Samþykktir Jarðasjóðs og starfsreglur

Eftirfarandi bókun var gerð á stjórnarfundi Jarðasjóðs: Stjórn Jarðasjóðs samþykkir að endurskoða og samræma samþykktir sjóðsins á árinu 2023 og setja sjóðnum starfsreglur.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn fagnar því að stjórnin geri tillögur til sveitastjórnar að breytingum til hins betra

Samþykkt samhljóða

4. Fundarboð á aðalfund fjárfestingafélags Þingeyinga 18.11.2022
Boðun á aðalfund 18. nóvember 2022

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið umboð til að sækja fundinn.

5. Fundargerð 15. Fundar hverfisráðs Bakkafjarðar 30.06.2022
Fundargerðin lögð fram

6. Fundargerð 16. Fundar hverfisráðs Bakkafjarðar 21.09.2022
Fundargerðin lögð fram

7. Stígamót, beiðni um fjárframlag fyrir árið 2023
Óskað er eftir fjárstuðningi frá sveitarfélaginu við Stígamót á árinu 2023. Ekki er farið fram á ákveðna upphæð í beiðninni.

Bókun um afgreiðslu: Samþykktur er styrkur til Stígamóta að upphæð kr. 50.000,-

Samþykkt samhljóða.

8. Beiðni um styrk fyrir Bakkafest 2023
North East Travel óskar eftir fjárstuðningi að upphæð kr. 400 þúsund vegna bæjarhátíðarinnar „Bakkafest“ á Bakkafirði 2023.

Bókun um afgreiðslu: Byggðaráð samþykkir umbeðna fjárhæð til bæjarhátíðarinnar og vísar því til fjárhagsáætlunar 2023.

9. Drög að samningi með beiðni um fjárstuðning frá bjsv. Hafliða
Björgunarsveitin Hafliði leggur fram drög að samningi vegna fjárstuðnings við sveitina vegna 2022, 2023 og 2024 að upphæð 1 milljón króna fyrir hvert ár.

Bókun um afgreiðslu: Byggðaráð fellst á samninginn og felur sveitarstjóra að undirrita hann fyrir hönd sveitarfélagsins með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar. Fjárframlagi vegna 2022 vísað til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 og staðfestingar sveitarstjórnar.

Samþykkt samhljóða

10. Bréf frá KPMG með verkefnalýsingu og hlutverk við endurskoðun
Í bréfi KPMG er lýst hlutverki sveitarstjórnar, sveitarstjóra og endurskoðanda við endurskoðun hjá sveitarfélaginu ásamt annarri þjónustu sem KPMG getur látið í té. Ennfremur er skilgreind ábyrgð og hlutverk viðkomandi. Þá er fjallað um meðferð upplýsinga, persónuvernd og þóknun fyrir vinnu. Bréfið er ritað til að framfylgja ákvæðum laga um endurskoðun.

11. Uppsögn hjúkrunarforstjóra Nausts ásamt uppsögn á leigusamningi
Hjúkrunarforstjóri á Nausti, Rósa Jóhannesdóttir hefur sagt upp störfum sínum frá og með 1. nóvember 2022 og húsnæði sínu að Hálsvegi 11 frá sama tíma. Hjúkrunarforstjóri lætur af störfum samkvæmt samningi þann 1. febrúar 2023.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að ræða við rekstrarstjóra um framtíðarstjórnun og mönnun á Nausti og gera tillögur til byggðaráðs.

Samþykkt samhljóða.

12. Drög að viðauka við samning við bremenports GmbH
Lögð fram drög að viðauka við samning bremenports GmbH, Vopnafjarðarhrepps og Langanesbyggðar sem byggður er á viljayfirlýsingu (MOU) um framlengingu á rétti bremenports til 2060 í stað 2040 ásamt fleiri atriðum.

     12.1 Fundargerð FFPD frá 27.10.2022
     12.2 Álit lögfræðings sveitarfélagsins á viðaukanum.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að afla frekari upplýsinga um málið. Sveitarstjóri vinnur svar í samráði við lögfræðing sveitarfélagsins samkvæmt umræðum á fundinum. Sveitarstjóra einnig falið að leita eftir fundi með iðnaðarráðherra vegna málsins.

Samþykkt samhljóða

13. Greiðslur fyrir fundi sveitarstjórnarmanna og nefndarmanna
Sveitarstjóri óskar eftir nánari úrfærslu á reglum sveitarstjórnar um greiðslur til sveitarstjórnarmanna og nefndarmanna vegna fundarsetu, ferða og annars kostnaðar sem fylgir erindum á vegum sveitarfélagsins.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra og skrifstofustjóra falið að útfæra nánar reglur um greiðslur og koma með tillögur fyrir byggðaráð.

Samþykkt samhljóða.

14. Samningur um „Sameiginlegt þjónustusvæði um almenna og sértæka félagsþjónustu“   
       14.1 Reikningur og fylgiskjal vegna aukins kostnaðar við málefni fatlaðra
       14.2 Greining á rekstri málaflokks fatlaðra
       14.3 Samantekt á félagsþjónustu sveitarfélaganna.
       14.4 Áætlun um almenn framlög vegna málefna fatlaðra 2022

Vegna hallareksturs á félagsþjónustu Norðurþings á árinu 2021 hefur Langanesbyggð (og Svalbarðshreppi) borist reikningur alls að upphæð 17.166.322.- Samkvæmt samningi um „Sameiginlegt þjónustusvæði um almenna og sértæka félagsþjónustu“ gr. 7.1.1 bera aðilar þjónustusvæðisins sameiginlega ábyrgð á fjármögnun þjónustu innan svæðisins eins og nánar er kveðið á um í samningnum.

Bókun um afgreiðslu: Málinu vísað til sveitarstjórnar til afgreiðslu og sveitarstjóra falið að vinna viðauka vegna málsins fyrir næsta sveitarstjórnarfund.

Samþykkt samhljóða.

Bókun: Byggðaráð gerir alvarlegar athugasemdir við upplýsingarleysið um stöðu málaflokksins og hallareksturs hans, en upplýsingarskylda liggur hjá Norðurþingi skv. gr. 7.1.10 í samningnum um málaflokkinn. Sveitarfélagið Langanesbyggð hefur ekki fengið neinar skýringar á ástæðum fyrir þeim aukakostnaði sem „almenna og sértæka félagsþjónustan“ hafði á árinu 2021. Byggðaráð minnir á síðustu setningu í gr. 7.1.10 að, sveitarfélögin greiði sinn hlut á áætluðum halla mánaðarlega ef um slíkt er að ræða. Engar upplýsingar hafa borist fyrr en nú um „áætlaðan halla“. Gera hefði átt grein fyrir hallanum mánaðarlega á árinu 2021. Í dag liggja engar upplýsingar fyrr um hallarekstur fyrir árið 2022 á málaflokknum en gera má ráð fyrir að hann sé verulegur.

15. Tillaga að framkvæmda og viðhaldsáætlun fyrir árið 2023.
Lögð fram tillaga vegna fjárhagsáætlunar 2023 um fjárfestingar og viðhald á árinu 2023.

Bókun um afgreiðslu: Tillögunni vísað til síðari umræðu um fjárhagsáætlun.

Samþykkt samhljóða.

Bókun: Fulltrúar L-listi áskilja sér rétt til að koma með breytingartillögur við fyrirliggjandi drög um framkvæmda- og viðhaldsáætlun á vinnufund sveitarstjórnar dags. 24. nóvember nk. eða á sveitarstjórnarfundi 1. desember nk. þar sem síðari umræða fer fram um fjárhagsáætlun fyrir árið 2023.

Bókun oddvita: Það er réttur allra sveitarstjórnarmanna að koma með breytingartillögur á öllum fundum sveitarstjórnar.

16. Tillaga vegna samræmingar og álagningu fasteignagjalda 2023
Lögð fram tillaga að samræmingu fasteignagjalda og álagninga 2023

Bókun um afgreiðslu: Byggðaráð leggur til við sveitarstjórn eftirfarandi álagningu fasteignagjalda samkvæmt meðfylgjandi töflu fyrir árið 2023.

A gjald í þéttbýli verði 0,6%
A gjald í dreifbýli verði 0,5%
B gjald verði 1,32%
C gjald í þéttbýli verði 1,65%
C gjald í dreifbýli verði 1,32%

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:00.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?