Fara í efni

Viðbót við minnisblöð sóttvarnalæknis frá 11. og 13. apríl varðandi afléttingu takmarkana á samkomum vegna COVID-19 eftir 4. maí 2020.

Fréttir

Vegna minnisblaðs um afléttingu samkomutakmarkana þann 4. maí nk. þá vill sóttvarnalæknir árétta eftirfarandi tillögur varðandi útfærslu afléttinga í skólum og íþróttastarfi.

 • Skólastarf
  • Grunn- og leikskólar:
   • Engar takmarkanir verði settar á fjölda nemenda.
   • Kennarar og annað starfsfólk mega ekki vera fleiri en 50 á sama stað.
   • Félagsmiðstöðvar geta verið opnar.
   • Skemmtanir t.d. vorhátíðir, vorferðir og útskriftir geta farið fram en án fullorðinna gesta utan skóla s.s. foreldra.
   • Frístundaheimili geta verið opin.            
   • Íþróttir inni (og úti) eru í lagi.
   • Skólasund og notkun búningsaðstöðu er í lagi.
   • Allir nemendur geta mætt samtímis í skólann, farið í útiveru og verið í mötuneyti.
   • Áfram er hvatt til sérstaks hreinlætis og handþvottar.
 • Framhalds- og háskólar:
  • Fjöldatakmarkanir nemenda miðist við 50 einstaklinga að hámarki.
  • Íþróttir miðist við takmarkanir fyrir íþróttastarf fullorðinna (sjá að neðan).
  • Áfram er hvatt til sérstaks hreinlætis, handþvottar og notkunar handspritts.
  • Tveggja metra nándarreglan verði virt.
 • Íþrótta- og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólastigi:
  • Engar fjöldatakmarkanir verða settar á iðkendur.
  • Öll íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, inni og úti, verði leyfð.
  • Skíðasvæði verði opin fyrir æfingar barna og unglinga.
  • Sundlaugar, búnings- og sundaðstaða verði opin fyrir sundæfingar barna og unglinga.
  • Keppni í íþróttum barna á leik- og grunnskólastigi verði heimil án áhorfenda.
  • Hvatt verði til sérstaks hreinlætis og handþvottar.
  • Tveggja metra nándarreglan verði virt eins og hægt er.
 • Íþróttastarf fullorðinna:
  • Mest verði sjö einstaklingar með þjálfara á útisvæði sem miðast við hálfan fótboltavöll.
  • Mest verði fjórir einstaklingar með þjálfara á innisvæði sem miðast við handboltavöll.
  • Notkun búningsaðstöðu innanhúss verði óheimil.
  • Hvatt verði til að tveggjametra nándarreglan verði virt.
  • Keppni í íþróttum fullorðinna verði óheimil nema ef hægt sé að uppfylla skilyrði um tveggja metra nándarreglu og að keppni sé án áhorfenda.
  • Sundæfingar fyrir fullorðna verði að hámarki fyrir sjö einstaklinga. Notkun búnings- og sturtuaðstöðu verði leyfð.
  • Áfram verði hvatt til sérstaks hreinlætis, handþvottar og notkunar handspritts.
 • Sundlaugar verði lokaðar almenningi.
 • Líkamsræktarstöðvar:
  • Húsnæði líkamsræktarstöðva verði lokað en starfsemi utandyra leyfð. Mest verði sjö einstaklingar í hópum utandyra. Notkun búningsaðstöðu innanhúss verði bönnuð.
 • Akstur bifreiða og flugkennsla:
  • Undanþága frá tveggja metra reglu verði ekki leyfð fyrir leigubíla.
  • Undanþága frá tveggja metra reglu verði leyfð vegna ökukennslu, flugkennslu og aksturs þjónustubifreiða ef einstaklingar bera ekki merki um COVID-19 og fyllsta hreinlætis verði gætt.
 • Spilakassar/-salir:
  • Spilasalir verði ekki opnir.
  • Spilakassa megi nota ef sótthreinsað er milli notenda og reglum um 50 einstaklinga í hópi og tveggja metra reglu milli einstaklinga verði fylgt.

 Lagt er til að frekari aflétting samkomutakmarkana verði íhuguð 3─4 vikum eftir 4. maí 2020 og verði þá stefnt að 100 manna fjöldatakmörkunum, opnun sundlauga og líkamsræktarstöðva fyrir almenning með ákveðnum takmörkunum og að stærð kappleikja og íþróttamóta miðist við 100 einstaklinga. Þetta mun þó þurfa að miðast við stöðu faraldursins hér á landi.

Með kveðju,

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir