Um Gunnskóla Þórshafnar
Brot úr sögu skólahalds á Þórshöfn
Við lok síðustu aldar, þ.e.a.s. árið 1900, var fyrst reist sérstakt skólahús á Þórshöfn og tók sá skóli til starfa 1. nóv. sama ár. Kennarinn var Guðmundur Hjaltason (f. 1853) en hann var vel menntaður og kunnur skólamaður. Hann hafði mjög skýrar hugmyndir um menntun og skólahald og var að ýmsu leyti langt á undan sinni samtíð. Meðal þess sem einkenndi kennslu hans var samþætting námsgreina og viðleitni til að virkja nemendur og vekja áhuga þeirra og jákvæð viðhorf til náms. Námið átti að hafa merkingu og vera skemmtilegt, það átti ekki að vera innantómt stagl. Skóli Guðmundar Hjaltasonar datt upp fyrir eftir aðeins þrjá vetur, að því er virðist vegna fjárþrenginga og nemendaskorts.
Skólahald var frekar gloppótt 1903-1908 en 1908-1933 var starfræktur farskóli eins og verið hafði áður en Guðmundur stofnaði sinn skóla. Frá 1933 hefur verið fastur skóli á Þórshöfn, fyrst í Herðubreiðarhúsinu sem stóð við Bakkaveg og síðan við Langanesveg frá 1945. Húsnæðisrými hefur margfaldast síðan þá enda hefur þrívegis verið byggt við skólann, síðast timburskálinn að sunnanverðu. Auk þess er skólalóð nýlega frágengin og komin sérstök aðstaða til íþrótta- og tónlistarkennslu.
Frá því fastur skóli hófst á Þórshöfn á ný (1933) hafa verið sex skólastjórar. Mestallan tímann hefur skólinn verið undir stjórn sömu fjölskyldunnar: Helga J. Elíasdóttir var fyrst (1933-1934), eiginmaður hennar, Óli P. Möller næst (1934-1956), og þvínæst sonur þeirra, Pálmi Ólason (1956-1996 að einu ári undanskildu). Þeir feðgar, Óli og Pálmi, stjórnuðu því skólanum í rúm 60 ár. Martha H. Richter leysti Pálma af einn vetur (1983-1984) meðan hann var við nám erlendis. Rut Indriðadóttir var skólastjóri 1996-1998 og Ásgrímur Angantýsson frá 1998-2001. Þeir sem hafa kennt við skólann eru um hundrað talsins, margir að vísu aðeins einn vetur. Nemendafjöldi hefur verið býsna breytilegur, fór mest í 111 nemendur árið 1976 en hefur smám saman fækkað seinni ár.
(Tekið saman af Ásgrími Angantýssyni)